Áður en sótt er um Athugaðu hvort þú uppfyllir skilyrði til að fara í skiptinám, þá aðallega að þú munir ljúka 60 ECTS í faginu þínu áður en skiptinámsdvöl hefst. Byrjaðu undirbúning snemma, sérstaklega ef þörf er á tungumálaprófi. Hægt er að sjá hvaða skólar fara fram á tungumálapróf í skólasamningagrunninum í flestum tilfellum. Langflestir skólar í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálandi gera kröfu um tungumálapróf. Eina viðurkennda prófið sem þreytt er á Íslandi er TOEFL. Nokkrir skólar hafa opnað á Duolingo enskuprófið en mikilvægt er að skoða inntökukröfur á vefsíðu gestaskólans vel til að kanna það. Komdu á einn af kynningarfundunum um skiptinám sem haldnir eru reglulega. Einnig er hægt að fá upplýsingar um skiptinám með því að koma á Alþjóðasvið 3. hæð, Háskólatorgi, á opnunartíma. Taktu þátt í að aðstoða erlenda nemendur í mentorverkefni Alþjóðasviðs og Stúdentaráðs. Skoðaðu listann yfir samstarfsskóla Háskóla Íslands. Mikilvægt er að velja skóla þar sem samstarf er í þínu fagi og á þínu námsstigi. Veldu einn eða fleiri skóla til vara. Skoðaðu vel vefsíður skólanna sem þú hefur áhuga á. Mikilvægt er að nemendur kynni sér vel umsóknarskilyrði gestaskóla. Umsóknin Undirbúðu þig vel áður en þú fyllir út umsókn um skiptinám og skoðaðu þá sérstaklega námskeiðin í boði. Athugaðu að í fæstum tilfellum er kennsluskrá viðkomandi skóla fyrir næsta skólaár tilbúin svo miðaðu við núverandi kennsluskrá. Talaðu við deildina þína ef þú ert með spurningar um námskeiðaval. Sæktu svo um rafrænt á heimasíðu HÍ fyrir umsóknarfrest og hengdu eftirfarandi við umsóknina: Skannað námsferilsyfirlit við umsóknina (eða skilaðu því fyrir umsóknarfrest á Þjónstuborð á Háskólatorgi) Eftir að sótt er um Alþjóðasvið fer yfir allar umsóknir um skiptinám og raðar nemendum niður í gestaskóla. Umsækjendur fá tölvupóst um afgreiðslu umsóknar og næstu skref innan 6-8 vikna frá umsóknarfresti. Hafðu hugfast að ekki er víst að þú verðir tilnefnd/ur í þann skóla sem þú settir sem fyrsta val heldur skóla sem þú tilgreindir sem annað eða þriðja val. Athugaðu að umsóknarferlið er tvíþætt. Fyrst sækja nemendur um að fara í skiptinám til HÍ sem tilnefnir svo nemendur í gestaskóla. Að lokum sækja nemendur sjálfir um í gestaskóla eftir leiðbeiningum sem skólinn eða HÍ sendir. Mikilvægt er að fylgjast vel með umsóknarfresti hjá gestaskóla og passa að senda inn umsókn og fylgigögn fyrir frest. Eftir að þú hefur fengið tilkynningu frá Alþjóðasviði um að þú verðir tilnefnd/ur í skiptinám skaltu vera viðbúin/n að útvega fljótt þau gögn sem kann að vera kallað eftir hér eða hjá gestaskóla, þar með talið námssamning. Hafðu samband við deildina þína tímanlega til að fara yfir fyrirhugaðan námssamning og fáðu undirritun. Allir nemendur þurfa að skila námssamningi fyrir brottför. Í námssamningi eru skráð þau námskeið sem nemandinn tekur við gestaskólann, hvernig þau verða metin og í staðinn fyrir hvaða námskeið þau koma. Nemendur sem fara í skiptinám til skóla innan Evrópu þurfa að athuga hvenær frestur gestaskólans til að skila inn námssamningi rennur út og skila honum fyrir þann tíma. Nemendur sem fara til landa utan Evrópu þurfa að skila inn námssamningi til Alþjóðasviðs í síðasta lagi fyrir 15. maí fyrir haustmisseri og 15. nóvember fyrir vormisseri. Frekari upplýsingar um námssamninginn Mikilvægt er að nemendur sem hyggja á skiptinám sinni árlegri skráningu og greiði skráningargjald við HÍ. Ekki er hægt að vera skiptinemi á vegum HÍ án þess að vera skráður nemandi við skólann. Nemendur skulu fara í árlegu skráninguna í Uglu og velja a.m.k. eitt námskeið í HÍ á því misseri sem nemendur stefna á skiptinámið. Nemendur geta skráð sig úr því síðar. Í skráningunni geta nemendur svo farið inn á greiðslugátt til þess að greiða skráningargjaldið en greiðslugáttin er líka opin til 4. júlí í Uglu. Áður en haldið er út Það getur verið örlítið mismunandi ferli áður en farið er í skiptinámið eftir því hvort nemendur eru að fara í gegnum Erasmus+, Nordplus eða til landa utan Evrópu. Erasmus+ nemendur Nemendur verða að senda samþykktarbréf frá gestaskóla á Alþjóðasvið. Í kjölfarið ganga nemendur frá nokkrum atriðum: Nemendur fá sendann styrksamning/skiptinámssamning sem þeir verða að skila í frumriti til Alþjóðasviðs. Nemendur undirrita yfirlýsingu skiptinema sem þeir fá senda í tölvupósti. Nemendur taka OLS (Online linguistic support) tungumálamat fyrir Erasmus+ í því máli sem meiri hluti námskeiða er á. Þetta mat hefur ekki áhrif á umsókn nemenda. Nemendur sem hafa tungumálið að móðurmáli þurfa ekki að taka matið. Nemendur verða einnig að fá undirskrift gestaskóla á námssamning. Nordplus nemendur Nemendur verða að senda samþykktarbréf frá gestaskóla á Alþjóðasvið. Misjafnt er eftir Nordplus netum hvað nemendur þurfa að gera í framhaldinu en allir skila inn undirritaðri yfirlýsingu skiptinema. Nemendur sem eru styrktir af neti sem er stjórnað af HÍ verða að skila styrksamning og námssamningi undirrituðum af gestaskóla til Alþjóðasviðs. Nemendur sem eru styrktir af neti sem er stjórnað af öðrum háskólum verða að fylgja leiðbeiningum þaðan og sinna umsókninni á réttum tíma. Nemendur sem fara til landa utan Evrópu Nemendur verða að senda samþykktarbréf frá gestaskóla á Alþjóðasvið og skila inn undirritaðri yfirlýsingu skiptinema. Hagnýt atriði sem gott er að hafa í huga Ýmis atriði sem gott er að hafa í huga áður en farið er út Athugaðu að vegabréfið þitt sé í gildi að minnsta kosti út áætlaðan dvalartíma erlendis og helst lengur. Sum lönd geta krafist þess að það gildi í a.m.k. 3–6 mánuði umfram fyrirhugaða dvöl í landinu. Athugaðu reglur um dvalarleyfi í því landi sem þú ætlar til. Gagnlegt gæti verið að leita ráða hjá gestaskóla og/eða umdæmissendiráði þess lands hér. Ef farið er í skiptinám til lands innan Evrópu skal hafa meðferðis Evrópska tryggingakortið sem sótt er um á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands www.sjukra.is. Ef farið er í skiptinám utan Evrópu er hægt að sækja um sérstaka yfirlýsingu til Sjúkratrygginga Íslands um tryggingavernd íslenskra námsmanna. Einnig veita gestaskólar upplýsingar um tryggingar. Í mörgum tilfellum krefjast gestaskólar að keypt sé sérstök trygging sem skólinn/landið samþykkir. Ef þú þarft dvalarleyfi til að vera á Íslandi þá skaltu athuga hjá Útlendingastofnun (www.utl.is) hvort þú þurfir að sækja um aftur eða hvort þú getir framlengt leyfið. Á meðan á dvöl stendur Þurfi nemendur að gera breytingar á námskeiðum á meðan á dvöl stendur er mikilvægt að fylla út nýjan námssamning eða fylla út breytingaskjal fyrir námssamninginn og fá undirskrift frá viðeigandi aðilum úti í deildum og sviðum. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að deild heimili allar breytingar svo námskeiðin verði metin inn í feril nemenda í HÍ. Ákveði nemandi á einhverjum tímapunkti að hætta við skiptinámið þá er mikilvægt að láta Alþjóðasvið vita um það strax. Ef nemendur hafa fengið styrk þá gætu þeir þurft að greiða hann til baka að fullu. Við lok skiptinámsErasmus+ Nemendur sjá til þess að einkunnayfirlit berist Alþjóðasviði. Þetta verður að vera staðfest frumrit einkunna. Fyrir styrkinn duga óformlegar einkunnir en fyrir námsmatið þurfum við formlegt einkunnayfirlit. Formlegt einkunnayfirlit verður að vera á pappír eða rafrænt skjal sem sannreyna (verify) má á netinu. Nemendur fylla út lokaskýrslu Erasmus+ sem er send á nemendur á síðasta degi skiptinámsins Skólar utan Evrópu og Nordplus Nemendur sjá til þess að einkunnayfirlit berist Alþjóðasviði. Þetta verður að vera staðfest frumrit einkunna. Nemendur fylla út lokaskýrslu sem finna má á vefsíðu Alþjóðasviðs. Lokaskýrslur Nemendur verða að fylla út lokaskýrslu að loknu skiptinámi. Nemendur sem fóru í skiptinám í gegnum Erasmus+ fá sendar upplýsingar um hvernig nálgast skal skýrsluna þegar nær dregur heimför. Þeir sem fara í skiptinám í gegnum Nordplus eða utan Evrópu fylla út lokaskýrslu hér að neðan. Nemendur þurfa að passa upp á að námsferlar þeirra skili sér til Alþjóðasviðs við HÍ til mats. Það sama á við um skiptinám og annað nám að standist nemandi ekki lágmarkskröfur í tilteknu námskeiði fást einingarnar ekki metnar inn á feril hans. Lokaskýrslur Lokaskýrsla fyrir Nordplus skiptinema og nemendur sem fara utan Evrópu Lokaskýrsla fyrir Erasmus+ - Skýrsluform verður sent í tölvupósti til nemenda. Leiðir til að nýta alþjóðlegu reynsluna Að loknu skiptinámi bjóðast nemendum margskonar tækifæri til að nýta reynslu sína og halda áfram að vera alþjóðlegir. Mentorar Það er upplagt að taka þátt í Mentorverkefni Alþjóðasviðs og SHÍ sem tengiliður (mentor) fyrir erlenda nemendur. Þetta er frábært tækifæri til að viðhalda erlendum tengslum og bæta tungumálakunnáttu. Mentorar fá viðurkenningu fyrir störf sín skráða í svokallaðan skírteinisviðauka (Diploma Supplement) sem inniheldur viðbótarupplýsingar við prófskírteini. Slík viðurkenning getur komið að góðum notum þegar sótt er um störf eða skólavist erlendis. Ambassadorar Nemendur geta einnig aðstoðað Alþjóðasvið við að kynna skiptinám og námsdvöl erlendis með því að taka þátt í s.k. ambassadoraprógrammi sviðsins. Hlutverk ambassadora er m.a. að: miðla af reynslu sinni af skiptinámi aðstoða við kynningar á skiptinámi - m.a. í Alþjóðavikunni og á Háskóladeginum taka þátt í undirbúningsfundum fyrir þá sem eru að fara í skiptinám Áhugasamir geta skráð sig til leiks á sérstöku skráningarformi. Skráningin auðveldar okkur að hafa samband við fyrrum skiptinema sem hafa áhuga á að taka þátt í að kynna skiptinámið með okkur. ESN Iceland Nemendur geta tekið þátt í starfi evrópsku stúdentasamtakanna Erasmus Student Network, sem eru með útibú á Íslandi. Markmið samtakanna er að aðstoða erlenda nemendur á Íslandi við að aðlagast samfélaginu og kynnast öðrum nemendum. ESN Iceland stendur fyrir öflugu félagslífi fyrir erlenda nemendur sem öllum nemendum er frjálst að taka þátt í. Aftur út í nám eða þjálfun Nemendur geta skoðað möguleika á að fara aftur út í skiptinám, sumarnám eða starfsþjálfun. Erasmus+ styrkir eru veittir í 12 mánuði samtals að hámarki á hverju námsstigi en það þýðir að nemendur geta t.d. farið í Erasmus+ skiptinám í níu mánuði og síðan í starfsþjálfun í þrjá mánuði. Einnig er hægt að fara í frekara nám erlendis á eigin vegum, sjá http://farabara.is/ Skiptinám og atvinnutækifæri Rannsóknir sýna að atvinnurekendur leita í auknum mæli eftir starfskröftum með alþjóðlega reynslu. Því getur skipt máli að setja upplýsingar um skiptinámsdvölina í ferilskrána. Náms- og starfsráðgjöf HÍ getur aðstoðað við atvinnuleit að loknu námi og gerð ferilskráa. facebooklinkedintwitter