Nemendur Háskóla Íslands sem telja sig eiga rétt á sértækum úrræðum í námi og/eða prófum t.d. vegna fötlunar, sértækra námsörðugleika, athyglisbrests, greiningar á einhverfurófi, stoðkerfisvanda eða annarra veikinda geta haft samband við ráðgjafa Nemendaráðgjafar HÍ, sjá reglur um sértæk úrræði í námi. Þú getur bókað viðtal við ráðgjafa með því að smella hér eða í síma 525-4315. Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið urraedi@hi.is. Athugið að nemendur sem telja sig þurfa úrræði í námi og/eða prófum vegna erlends móðurmáls þurfa að hafa samband við þá deild sem þeir stunda nám við. Hvað geri ég? Til að hægt sé að veita þér sértæk úrræði í námi þarft þú að verða þér út um gögn frá viðeigandi sérfræðingi, sem staðfestir þörf fyrir úrræði og hafa samband við ráðgjafa. Alltaf er gengið frá skriflegu samkomulagi (samningi) um úrræði. Sérstök athygli er vakin á að það getur tekið langan tíma að fá tíma hjá sérfræðingi þannig að þú getur þurft að gera viðeigandi ráðstafanir strax í byrjun misseris. Athugaðu að ef úrræðin sem þú þarft á að halda eru þess eðlis að þau krefjast undirbúnings áður en kennsla hefst, svo sem tryggt aðgengi að kennslustofum, táknmálstúlkun, rittúlkun eða aðlögun námsefnis vegna blindu eða sjónskerðingar er mikilvægt að þú hafir samband við Nemendaráðgjöf HÍ með góðum fyrirvara. Í kennslualmanaki Háskóla Íslands kemur fram hver er lokadagsetning til þess að sækja um sértæk úrræði í prófum. Lokafrestur til að sækja um úrræði í námi og prófum er 1. október á haustmisseri og 1. mars á vormisseri. Um greiningar og vottorð Greiningar um sértæka námsörðugleika: Til að háskólanemendur geti fengið úrræði í námi og/eða prófum vegna sértækra námsörðugleika (dyslexía, dyscalculia, dysgraphia) þarf viðkomandi að framvísa greiningu frá sérfræðingi þar sem til að mynda er notast við einhverja af eftirfarandi aðferðum: GRP 14 Greiningarpróf (GRP 14H hópgreining dugar ekki ein og sér). Aston Index lestrargreining. Logos dyslexíugreining. ICD 10 greiningarviðmið (notuð af sálfræðingum). Davis greining nægir ekki til að fá úrræði við Háskóla Íslands þar sem hún er ekki greining á sértækum námsörðugleikum heldur gefur vísbendingu um hvort Davis leiðrétting nýtist einstaklingi, sjá hér. Vakin er athygli á að greiningar vegna sértækra námsörðugleika (dyslexía, dyscalculia, dysgraphia) mega ekki vera eldri en frá því að einstaklingur var 15 ára. Stúdentaráð HÍ starfrækir sjóð fyrir nemendur með sértæka námsörðugleika, ADD/ADHD og einhverfu. Þar geta þeir sótt um styrk upp í kostnað við greiningu. Læknisvottorð : Til að nemandi geti fengið viðeigandi úrræði í námi og/eða prófum vegna veikinda eða fötlunar þarf viðkomandi að framvísa vottorði eða greiningu frá lækni/viðeigandi sérfræðingi þar sem eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram: Hvaða sjúkdóm eða hvers konar fötlun er um að ræða. Á hvaða hátt sjúkdómur eða fötlun hefur áhrif á andlega og/eða líkamlega getu viðkomandi til að stunda háskólanám. Meðferð upplýsinga: Nemendaráðgjöf HÍ varðveitir trúnaðargögn um nemendur sem þurfa á sértækum úrræðum að halda í námi og við skólann. Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga er í samræmi við lög um persónuvernd og reglur háskólans. Hvaða úrræði eru í boði? Sértæk úrræði í námi byggja á sérfræðiáliti sem fram kemur í greiningu eða læknisvottorði ásamt faglegu viðtali við ráðgjafa þar sem meðal annars er farið yfir fyrri reynslu nemanda af úrræðum í námi. Úrræði eru einstaklingsmiðuð og reynt er að koma til móts við þarfir hvers einstaklings eins og greining eða læknisvottorð gefa tilefni til. Úrræði fela ekki í sér undanþágur frá hæfniviðmiðum námskeiða. Yfirlit yfir þau úrræði sem veitt hafa verið við Háskóla Íslands: Námsefni á rafrænu formi (skönnun námsefnis). Úrræðið er veitt nemendum með dyslexíu, nemendum með ADD/ADHD, nemendum með hreyfihömlun og í undantekningartilvikum nemendum sem glíma við alvarleg veikindi. Nemendur leggja til námsefni til skönnunar ef með þarf. Nemendur þurfa sjálfir að útvega sér talgervil til að geta hlustað á rafrænt efni eða nýta talgervil í Aðgengissetri HT-302. Aðlögun námsefnis að þörfum blindra/sjónskertra nemenda. Þetta úrræði er veitt í samvinnu við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Táknmálstúlkun. Úrræðið er veitt heyrnarskertum/heyrnarlausum nemendum. Glósuvinur. Ef nemandi er, vegna fötlunar eða veikinda, ófær um að taka sjálf/t/ur niður glósur í kennslustundum getur viðkomandi fengið glósur frá samnemanda. Veiting úrræðisins er háð því að samnemandi fáist til verksins. Aðstoð við verkefnavinnu. Úrræðið er veitt í undantekningartilvikum ef nemandi er t.d. ófær um að leita í heimildum eða rita verkefni vegna fötlunar eða veikinda. Aldrei er um að ræða aukakennslu heldur mjög skýra og afmarkaða aðstoð. Aðgangur að Aðgengissetri NSHÍ HT-301. Þar er að finna sérhæfðan hugbúnað sem gagnast getur t.d. nemendum með sértæka námsörðugleika eða sjónskerðingu. Einnig getur Aðgengissetur hentað sem námsaðstaða fyrir nemendur sem þurfa rólegt námsumhverfi. Tryggt aðgengi að byggingum. Úrræðið er veitt nemendum með skerta hreyfigetu. Aðstoð við að komast á milli kennslustofa/bygginga. Úrræðið er veitt nemendum með skerta hreyfigetu eða sjónskerðingu/blindu sem eiga erfitt með að komast á milli bygginga án aðstoðar. Lenging á próftíma. Almennt er miðað við 25% lengingu á próftíma. Í undantekningartilvikum er um að ræða meiri lengingu. Talgervill við próftöku. Þá er talgervill nýttur til að nemandi geti hlustað á prófspurningar í stað þess að lesa þær. Nemandi þarf að vera vön/vant/vanur slíku úrræði þar sem ekki er kennt á hugbúnaðinn í prófaðstæðum. Nemandinn þarf að vera með talgervil í eigin tölvu og koma með eigin heyrnartól. Aðstoð við yfirfærslu krossa. Ef nemandi er ófær um að færa svör við krossaspurningum yfir á til þess gert svarblað getur viðkomandi fengið aðstoð prófvarðar við yfirfærsluna. Aðstaða í prófstofu/kennslustofu. Ef nemandi á við stoðkerfisvandamál að stríða getur viðkomandi óskað eftir betri aðstöðu í prófstofu/kennslustofu, svo sem betri stól. Ritari í prófi. Ef nemandi er, vegna fötlunar eða veikinda, ófær um að skrifa sjálf/t/ur svör við prófspurningum og önnur möguleg úrræði gagnast ekki. Prófstjórn HÍ útvegar ritara. Próftaka í fárými. Þá tekur nemandi próf í prófstofu með fáum nemendum. Próftaka í einrými. Úrræðið er fátítt og er aðeins veitt þegar því verður ekki við komið að nemandi taki próf með öðrum nemendum, t.d. ef nemandi er með aðstoðarfólk eða ritara í prófum. Eftirtalin úrræði eru undantekningarlaust háð samþykki og samráði við kennara/deildir: Hljóðritun fyrirlestra. Þá fær nemandi að taka upp fyrirlestra/kennslustundir með leyfi viðkomandi kennara. Nemandi útvegar sjálf/t/ur upptökutæki. Úrræðið getur t.d. átt við nemendur með dyslexíu, athyglisbrest, sjónskerðingu, veikindi eða skerta hreyfigetu. Myndataka af töflu/skjá. Þá fær nemandi leyfi viðkomandi kennara fyrir því að taka mynd af töflu eða skjá í kennslustundum. Úrræðið getur t.d. átt við nemendur með dyslexíu, athyglisbrest eða skerta hreyfigetu. Sveigjanleiki í verkefnaskilum. Ef nemandi nær ekki, vegna fötlunar eða veikinda, að skila verkefnum á tilsettum tíma má óska eftir því að kennari veiti viðbótarfrest á verkefnaskilum. Undanþága frá mætingarskyldu. Ef fötlun eða veikindi gera það að verkum að nemandi á erfitt eða ómögulegt með að standast kröfur kennara um mætingarskyldu getur viðkomandi óskað eftir undanþágu frá slíku. Undanþága frá munnlegum verkefnaskilum. Ef fötlun eða veikindi gera það að verkum að nemandi er ófær um að flytja verkefni munnlega getur viðkomandi óskað eftir því við kennara að fá að skila verkefni með öðrum hætti. Hópverkefni breytt í einstaklingsverkefni. Ef fötlun eða veikindi gera það að verkum að nemandi á erfitt eða ómögulegt með að vinna í hópi, má óska eftir því við kennara að nemandi fái að skila einstaklingsverkefnum. Breytt prófform. Ef ljóst er að fötlun eða veikindi gera það að verkum að nemanda er ókleift að þreyta próf með hefðbundnum hætti má, með góðum fyrirvara, óska eftir breyttu prófformi hjá kennara og deild. Úrræðið er afar fátítt og fyrir því þurfa að vera skýrar og vel rökstuddar ástæður. Samningur um úrræði Þegar þú hefur orðið þér úti um tilskilin gögn (greiningu/vottorð) getur þú haft samband við Nemendaráðgjöf HÍ og gengið frá samningi um sértæk úrræði í námi/prófum. Í kennslualmanaki Háskóla Íslands eru lokadagsetningar til að sækja um sértæk úrræði í prófum tilgreindar. Lokafrestur til að sækja um úrræði í námi/prófum er 1. október á haustmisseri og 1. mars á vormisseri. Samningur um sértæk úrræði í námi getur annars vegar verið ótímabundinn og hins vegar tímabundinn. Athugaðu að alltaf þarf að gera sérstakan tímabundinn samning vegna inntökuprófa, jafnvel þó þú hafir áður gert ótímabundinn samning í námi við Háskóla Íslands. Ef aðstæður á prófstað eru ekki í samræmi við samninginn þinn hvetjum við þig til að tilkynna það strax til prófvarðar meðan á próftöku stendur. Eftir að próftöku lýkur getur verið erfitt að bregðast við ábendingum. Ef þau úrræði sem þú átt rétt á krefjast sérstaks undirbúnings af hálfu starfsfólks biðjum við þig vinsamlegast um að hafa samband með góðum fyrirvara. Geymdu afrit af samningnum þínum. Góð leið er að skanna samninginn inn eða taka mynd af honum á símann þinn til að eiga hann á rafrænu formi. Þú átt alltaf rétt á að hitta ráðgjafa til að fara yfir þín mál og endurskoða úrræði ef ástæða er til. Staðsetning í prófum? Nemendur Háskóla Íslands finna staðsetningu sína í prófum á Uglu, á notendanafni sínu, undir Uglan mín - Námskeiðin mín - Próf. Barnshafandi nemendur Barnshafandi nemendur við Háskóla Íslands öðlast ekki sjálfkrafa rétt til sérúrræða í námi/prófum. Til þess að unnt sé að veita úrræði þarf nemandi að hafa skilað inn læknisvottorði og gert samning um sértæk úrræði hjá Nemendaráðgjöf HÍ. Táknmálstúlkun og rittúlkun Nemendur sem þurfa túlkaþjónustu geta leitað til náms-og starfsráðgjafa háskólans. Kennarar og aðrir starfsmenn setji sig í samband við Magnús M Stephensen umsjónarmann túlkaþjónustu í síma 525-4315 / 847-6402 eða á netfangið: msteph@hi.is. Panta þarf túlkaþjónustu með góðum fyrirvara og gefa góðar upplýsingar um verkefnið. Allt ritað efni sem nota á í aðstæðunum þarf að berast umsjónarmanni túlkaþjónustu þannig að túlkar geti undirbúið sig. Ef farið er eftir fyrirfram ákveðinni dagskrá er gott að senda hana með. Söngtextar eru yfirleitt líka túlkaðir yfir á táknmál. Látið umsjónarmann túlkaþjónustu vita ef breyting verður á skipulagi. Gott er að hafa eftirfarandi atriði í huga þegar túlkur er að störfum: Reynið að láta sem túlkurinn sé ekki á staðnum, forðist að ávarpa hann í túlkaaðstæðum. Horfið á nemandann, ekki á túlkinn. Talið beint við nemandann og forðist setningar eins og „viltu segja honum“ og „viltu spyrja hann“. Á umræðufundum er gott að hafa fundarstjóra sem stjórnar því að einn tali í einu. Túlkur getur ekki túlkað þegar margir tala á sama tíma. Hafa góða lýsingu. Túlkurinn er nokkrum sekúndum á eftir þeim sem talar. Ef um formlegar aðstæður er að ræða, til dæmis sviðstúlkun, þarf að gera ráð fyrir túlkinum sem næst ræðumanni. Aðrar gagnlegar upplýsingar: Athyglisbrestur með eða án ofvirkni Á vefsíðu ADHD samtakanna er að finna gagnlegar upplýsingar um athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir. Hjá Embætti landlæknis er að finna upplýsingar um vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrest með ofvirkni, upplýsingar um greiningu og meðferð fullorðinna hefst á bls. 8. Íbúðir fyrir nemendur með fötlun Stúdentagarðar bjóða uppá fjölbreytt úrval íbúða sem sniðnar eru að þörfum háskólanema með fötlun. Frekari upplýsingar um þær reglur sem gilda um vist á stúdentagörðum er að finna á heimasíðu skrifstofu stúdentagarða. Erasmus+ viðbótarstyrkur vegna fötlunar Nemendur Háskóla Íslands sem fara í skiptinám eða starfsþjálfun á vegum Erasmus+ eiga kost á að sækja um viðbótarstyrk vegna fötlunar til að mæta viðbótarkostnaði. Dæmi um kostnað sem er styrktur: Laun aðstoðarmanna. Ferðakostnaður aðstoðarmanna. Sérstakt húsnæði til að mæta þörfum nemandans. Kostnaður vegna ferðaþjónustu. Flutningskostnaður tækjabúnaðar. Nánari upplýsingar er að finna hér! facebooklinkedintwitter