Gæðamál | Háskóli Íslands Skip to main content

Gæðamál

Steinunn Gestsdóttir

Gæðakerfi Háskóla Íslands byggist á Kröfum og leiðbeiningum fyrir gæðatryggingu á sviði æðri menntunar í Evrópu (e. Standards and Guidelines for Quality Assurance in the European Higher Education Area – ESG 2015) og rammaáætlun Gæðaráðs háskóla um eflingu gæða á sviði æðri menntunar á Íslandi (e. Icelandic Quality Enhancement Framework – QEF).

Í stefnu Háskóla Íslands 2016–2021, HÍ 21, er gæðamenning ein af fimm megináherslum Háskólans og skal hann tryggja að rannsóknir og prófgráður standist alþjóðleg viðmið og gæðakröfur sem er forsenda þess trausts sem skólinn nýtur innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Árangur skólans byggist á sameiginlegum gildum, skýrri stefnu, markvissri áætlanagerð, árangursmati á grundvelli traustra upplýsinga og stöðugum umbótum.

Hugtakið gæðamenning felur þannig í sér að verkfæri og ferlar, sem skilgreina, mæla, meta, tryggja og bæta gæði, séu til staðar. En gæðamenning er ekki síður hugarfar þar sem starfsfólk Háskólans vinnur sameiginlega að stöðugum umbótum í starfsemi Háskólans til þess að ná fram markmiðum hans til hagsbóta fyrir allt skólastarfið.

Gæðaráð háskóla

Í IV. kafla laga um háskóla nr. 63/2006 er gerð grein fyrir því hvernig eftirliti með gæðum kennslu og rannsókna skuli háttað og er það nánar útfært í reglum nr. 321/2009. Ráðherra hefur falið Gæðaráði háskóla að fylgja eftir þessu eftirliti. Gæðaráðið hefur sett fram rammaáætlun um eflingu gæða á sviði æðri menntunar á Íslandi (QEF). Kveður hún á um að reglulega skuli fara fram kerfisbundið mat á gæðum háskólastarfs á Íslandi. Felst matið annars vegar í innra mati (sjálfsmati) háskólanna á faglegri starfsemi sinni og hins vegar í ytra mati Gæðaráðs á háskólunum.

Fyrsta lota rammaáætlunarinnar stóð yfir 2010-2016 og unnu allar 25 deildir Háskólans, auk tveggja þverfræðilegra eininga, sjálfsmat á starfsemi sinni. Háskólinn í heild sinni skilaði sjálfsmatsskýrslu haustið 2014 og í kjölfarið fór fram úttekt erlendra sérfræðinga sem lauk með sérstakri skýrslu. Háskólinn hefur nú skilað svo kallaðri eftirfylgniskýrslu þar sem skýrt er hvernig brugðist hefur verið við ábendingum ytri matsmanna.

Önnur lota teygir sig yfir tímabilið 2017-2023. Í sjálfsmati faglegra eininga beinast sjónir að þessu sinni að gæðum námsleiða sérstaklega auk þess sem fjallað er um umsýslu rannsókna. Gæðamatið byggist á handbók Gæðaráðs háskóla auk þess sem útbúnar hafa verið sérstakar leiðbeiningar fyrir starfsmenn Háskólans.

Háskólum er gert að birta opinberlega á vef sínum útdrátt úr sjálfsmatsskýrslum faglegra eininga: 

Skipulag gæðamála

Rektor ber ábyrgð á gæðakerfi Háskólans og sviðsforsetar, deildarforsetar, forstöðumenn og framkvæmdastjórar bera ábyrgð á gæðum starfsemi þeirra rekstrareininga sem þeir stýra.

Gæðanefnd háskólaráðs hefur það hlutverk að tryggja og efla gæði náms og kennslu, rannsókna og stjórnunar við Háskóla Íslands. Í því felst m.a. að styrkja formlegt gæðakerfi Háskóla Íslands og efla gæðamenningu innan hans. Vinnur hún í samræmi við sérstakt erindisbréf og starfar náið með öðrum aðilum er koma að sameiginlegum gæðamálum Háskólans, s.s. kennslumálanefnd, vísindanefnd, miðlægri stjórnsýslu og stjórnsýslu fræðasviða og þeim þjónustueiningum sem undir hana heyra.

Gæðastjóri Háskólans fylgir eftir ákvörðunum gæðanefndar. Hann vinnur að framgangi gæðamenningar innan Háskóla Íslands í anda Stefnu Háskólans á hverjum tíma og útfærir rammaáætlun Gæðaráðs háskóla innan Háskólans.

Tengt efni

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.