Eiríkur hlýtur verðlaun Jónasar Hallgrímssonar | Háskóli Íslands Skip to main content

Eiríkur hlýtur verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

17. nóvember 2018
""

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar sem afhent voru við hátíðlega athöfn í menningarmiðstöðinni Nýheimum á Höfn í Hornafirði á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember. 

Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Þau hafa verið afhent í rúm 20 ár, eða allt frá árinu 1996.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Eiríki verðlaunin og fram kemur á heimasíðu mennnta- og menningarmálaráðuneytisins að ráðherra hafi í ræðu sinni sagt Eirík hafa með störfum sínum og ástríðu lagt mikilvæg lóð á vogarskálarnar til þess að tryggja þróun og framtíð tungumálsins. 

Í greinargerð ráðgjafanefndar um verðlaunin er enn fremur bent á að Eiríkur hafi „með frumkvæði, elju og ást á íslenskri tungu, verið í framlínu þeirra sem vekja athygli þjóðar og stjórnvalda á þeirri hættu sem steðjar að íslenskri tungu og hinu smáa málsamfélagi okkar. Af atorku hefur hann útskýrt og gert grein fyrir hvílík lífsnauðsyn það er að efla máltækni á íslensku, hvað í því felst og hvaða áhrif það getur haft sé það ekki gert með hraði.

Í umræðu um þetta málefni hefur Eiríkur sýnt víðsýni og verið opinn fyrir eðlilegri þróun tungumálsins en jafnframt sýnt fram á það af rökfestu að viðbúið sé, ef svo heldur fram sem horfir, að íslensk tunga sé farin að þróast óeðlilega og eigi á hættu að hverfa í gin enskunnar, og að nú séu síðustu forvöð að spyrna við fótum ef ekki á illa að fara.“

Eiríkur hóf störf við Háskóla Íslands á níunda á áratug síðust aldar og varð prófessor árið 1993. Hann gegndi því starfi allt fram á mitt ár 2018. „Hann hefur verið höfundur og meðhöfundur fjölda bóka, rita og fræðilegra greina um mál og máltækni. Þá hefur hann varið stórum hluta rannsóknartíma síns í ýmis verkefni á sviði máltækni og tungutækni; hefur hann verið í verkefnastjórn viðamikilla verkefna á því sviði og skrifað yfirlitsgreinar um íslenska máltækni, bæði á íslensku og á ensku,“ segir einnig í umsögn ráðgjafarnefndar um verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.

Eiríkur er enn virkur í rannsóknum innan Háskólans og stýrir ásamt Sigríði Sigurjónsdóttur, prófessor í íslenskri málfræði, viðamiklu rannsóknarverkefni sem hefur það að markamiði að varpa ljósi á stöðu og framtíð íslenskunnar á tímum stafrænna samskipta og snjalltækja.

Auk Eiríks hlaut verkefnið Skáld í skólum sérstaka viðurkenningu í tilefni af degi íslenskrar og tók Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson rithöfundur og útgefandi við þeim fyrir hönd verkefnisins. 
 

Eiríkur Rögnvaldsson handhafi Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar 2018, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson sem tók við viðurkenningu vegna verkefnisins Skáld í skólum