Skip to main content
28. nóvember 2018

Prófessorar við Háskóla Íslands í hópi áhrifamestu vísindamanna heims

Prófessorar við Háskóla Íslands í hópi áhrifamestu vísindamanna heims - á vefsíðu Háskóla Íslands

Átta vísindamenn sem ýmist eru prófessorar við Háskóla Íslands eða starfa í nánum tengslum við skólann eru í hópi 4.000 áhrifamestu vísindamanna heims. Þetta er niðurstaða nýs lista á vegum hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics sem birtur var í gær. Íslensku vísindamönnunum í þessum hópi fjölgar um tvo á milli ára en alls hefur vísindamönnum með tengsl við íslenskar rannsóknastofnanir og -fyrirtæki á listanum fjölgað um fjóra frá árinu 2017.

Þetta er í fimmta sinn sem Clarivate Analytics birtir lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims. Hann nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum. Listinn byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science. Horft er til tilvitnana á tilteknu árabili við matið. Listinn í ár nær til rúmlega 4.000 vísindamanna á 21 fræðasviði en þess má geta að í hópnum eru 17 Nóbelsverðlaunahafar.

Það er til marks um vaxandi styrk íslensks vísindasamfélags að hópur íslenskra vísindamanna og erlendra starfsbræðra þeirra sem hafa tengsl við íslenskar rannsóknarstofnanir og -fyrirtæki og eru á listanum fer stækkandi. Vísindamennirnir eru 13 í ár en voru 9 í fyrra. 

Þessir vísindamenn eru:

Vísindamaður Stofnun/fYRIRTÆKI STAÐA VIÐ HÁSKÓLA ÍSLANDS
Albert Vernon Smith University of Michigan/HÍ rannsóknaprófessor
Augustine Kong DeCode Genetics
Bernharð Örn Pálsson UCSD/HÍ     gestaprófessor
Daníel F. Guðbjartsson DeCode Genetics 
Guðmar Þorleifsson DeCode Genetics    
Hreinn Stefánsson Decode Genetics  
Jón Atli Benediktsson Háskóli Íslands prófessor
Kári Stefánsson DeCode Genetics/HÍ  prófessor
Thor Aspelund Háskóli Íslands     prófessor
Unnur Þorsteinsdóttir DeCode Genetics/HÍ rannsóknaprófessor
Valgerður Steinþórsdóttir DeCode Genetics    
Vilmundur Guðnason Hjartavernd/HÍ prófessor
Þorsteinn Loftsson Háskóli Íslands prófessor

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, kemur nýr inn á listann í ár fyrir hönd Háskólans og það gerir líka Thor Aspelund, prófessor í tölfræði við Miðstöð lýðheilsuvísinda. Þá er Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, í hópi áhrifamestu vísindamannanna sem mest er vitnað til á tveimur fræðasviðum, þ.e. í klínískri læknisfræði annars vegar og sameindalíffræði og erfðafræði hins vegar, en slíkt er afar fátítt. 

Aðalbygging Háskóla Íslands