Skip to main content
7. nóvember 2018

Nýir listar Times Higher Education staðfesta alhliða styrk HÍ

""

Háskóli Íslands er í 126.-150. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði lífvísinda og í sæti 176-200 á sviði raunvísinda samkvæmt nýjum listum sem tímaritið Times Higher Education birti í kvöld. Þeir sýna enn fremur að skólinn er í 301.-400. sæti á sviði sálfræði og heilbrigðisvísinda. Háskóli Íslands hefur í haust komist á alls sex lista tímaritsins yfir bestu skóla heims á afmörkuðum fræðasviðum sem undirstrikar alhliða styrk skólans á alþjóðavettvangi.

Times Higher Education birti alls fjóra lista yfir fremstu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum í kvöld. Mat tímaritsins á frammistöðu skólanna á þessum sviðum tekur til þrettán þátta í starfi þeirra, m.a. rannsóknastarfs, áhrifa rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.

Við mat á fremstu háskólum heims á sviði lífvísinda er horft til frammistöðu skólanna á jafn fjölbreyttum fræðasviðum og líffræði, íþrótta- og heilsufræði, landbúnaðarvísinda og dýralæknisfræði. Rúmlega 750 háskólar komast á lista Times Higher Education á sviði lífvísinda í ár og sem fyrr segir er háskólinn í sæti 126-150.

Frammistaða háskólans á sviði raunvísinda er metin út frá árangri í stærðfræði, tölfræði, eðlisfræði, stjarneðlisfræði og efnafræði en einnig jarðvísindum, umhverfisfræði og haffræði. Út frá mælikvörðum Times Higher Education raðast Háskóli Íslands í sæti 176 til 200 á sviði raunvísinda en rúmlega 960 háskólar komast á listann að þessu sinni.

Innan fræðasviða sem taka til heilbrigðisvísinda (e. clinical, pre-clinical and health) er horft til læknisfræði, tannlæknisfræði og heilbrigðisvísinda og nær listi Times Higher Education til rúmlega 720 háskóla sem starfa á þessum sviðum. Þar raðast Háskóli Íslands í sæti 301-400. Háskólinn er einnig í sæti 301-400 á sviði sálfræði en þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem skólinn kemst á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á því sviði.

Auk þess að vera á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á ofangreindum sviðum þá er Háskóli Íslands í hópi 250 fremstu á sviði hugvísinda og í sæti 251-300 yfir þá skóla sem bestir þykja innan félagsvísinda. Times Higher birti enn fremur fyrr í haust lista yfir bestu háskóla heims, þar sem tekið er tilliti til heildarárangurs skólanna, og þar reyndist Háskóli Íslands vera í 251.-300. sæti.

Listi Times Higher Education er annar af áhrifamestu og virtustu matslistum heims á þessu sviði. Hinn er er Shanghai-listinn svokallaði en þess má geta að Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á hann á síðasta ári. 

Times Higher Education á enn eftir að birta einn lista í vetur, en hann snýr að bestu háskólum heims innan verkfræði, tækni og tölvunarfræði. 

Nánari upplýsingar um lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði lífvísinda, raunvísinda, sálfræði og heilbrigðisvísinda má finna á heimasíðu tímaritsins: 
Lífvísindi 
Raunvísindi 
Sálfræði
Heilbrigðisvísindi

Háskólatorg