Kínversk fræði - Aukagrein


Kínversk fræði
Aukagrein – 60 einingar
Kína er fjölmennasta ríki og annað stærsta hagkerfi veraldar sem leika mun leiðandi hlutverk á flestum sviðum mannlífs í heiminum á 21. öldinni. Ástundun kínverskra fræða gerir nemendum kleift að tjá sig á og skilja hversdagslegt mál og öðlast haldbæra þekkingu á kínversku ritmáli sem verið hefur í samfelldri mótun í yfir 3000 ár. Loks hefur námið að geyma menningar-, samfélags- og viðskiptatengd námskeið.
Skipulag náms
- Haust
- Kína nútímans: Samfélag, stjórnmál og efnahagur
- Kínversk málnotkun I
- Kínverska I
- Kínversk stjórnmálV
- Vor
- Kínverska II
- Kínversk málnotkun II
- Saga Kína II: frá Qing-veldinu til nútímansB
Kína nútímans: Samfélag, stjórnmál og efnahagur (KÍN101G)
Um er að ræða yfirlitsnámskeið um helstu áhrifaþætti innan kínversks samfélags og efnahags með áherslu á afleiðingar opnunarstefnunnar eftir 1978. Farið verður yfir landfræðilegar aðstæður, þ. á m. helstu borgir, fylkjaskipan, nágrannalönd, landræktarsvæði, ár og fjallgarða. Veitt verður yfirlit yfir efnahagsþróun undanfarinna áratuga, helstu vandamál Kína nútímans, þ. á m. orkuskort, umhverfisvandamál, lýðfræði, alþjóðatengsl og stjórnmál. Einnig verður vikið að stöðu fjölskyldunnar og kvenna, mannréttindi og umhverfismál. Hong Kong og Tævan eru einnig sértstaklega til umfjöllunar. Til að skerpa á skilningi nemenda á Kína samtímans verður horft á klippur úr nýlegum kínverskum heimildamyndum sem taka á ýmsum þáttum hinna miklu umbreytinga sem orðið hafa á kínversku samfélaginu undanfarna áratugi.
Kínversk málnotkun I (KÍN105G)
Í námskeiðinu er einkum lögð áhersla á hljóðfræði með þjálfun framburðar og tóna. Uppistaða námskeiðsins eru æfingatímar til að þjálfa hlustun, skilning og tjáningu sem byggja á og útfæra námsefni námskeiðsins kínverska I. Námsstigið miðast við HSK 1.
Kínverska I (KÍN107G)
Um er að ræða alhliða námskeið í staðlaðri kínversku (mandarín, putonghua) fyrir byrjendur. Nemendur kynnast undirstöðuatriðum tungumálsins og málfræðilegri og tónalegri uppbyggingu þess. Áhersla er lögð á orðaforða daglegs lífs.
Í upphafi er pinyin umritunarformið kennt en síðan koma einfölduð kínversk tákn (jiantizi) til sögunnar.
Heimaæfingar og tímapróf eru tíð. Gert er ráð fyrir miklu heima- og sjálfsnámi og í námskeiðinu gildir mætingarskylda.
Kínversk stjórnmál (KÍN208G)
Á námskeiðinu verður farið yfir stjórnmálakerfið í Kína, hlutverk mismunandi stofnana í stjórnkerfinu og Kommúnistaflokksins. Til að byrja með verður hefðbundið stjórnmálakerfi keisaratímans skoðað með hliðsjón við nútímann; eins verður stjórnmálaþróun í 60 ára sögu Alþýðulýðveldisins rakin. Viðfangsefni dagsins í dag verða líka skoðuð, t.d. áhrif veraldarvefsins, breytt valdahlutföll á milli miðstjórnar og héraða ásamt breyttri hugmyndafræði og togstreita ólíkra afla innan Kommúnistaflokksins.
Efnahagssaga Kína síðustu 60 ára verður reifuð þar sem efnahagsþróun síðustu þrjá áratugi opnunar og umbóta verður rakin ítarlega. Efnahagskerfi Kína skoðað með sérstaka áherslu á vinnumarkað, skiptingu á milli dreifbýlis og þéttbýlis og samanburð við önnur Asíuríki. Í lokin verða viðskipti Kína við umheimin skoðuð, m.a. aukin umsvif kínverskra fyrirtækja erlendis.
Kínverska II (KÍN202G)
Um er að ræða alhliða námskeið í staðlaðri kínversku (mandarín, putonghua) fyrir byrjendur og framhald námskeiðsins kínverska I. Námsstigið miðast við HSK 2-3.
Nemendur dýpka skilning sinn á málfræði, bæta orðaforða og ná föstum tökum á grundvallaratriðum kínverskrar tungu. Kennsla mun fara aukið fram á kínversku og áhersla verður á virka notkun málsins. Heimaæfingar og tímapróf verða tíð. Gert er ráð fyrir miklu heima- og sjálfsnámi.
Kínversk málnotkun II (KÍN204G)
Námskeiðið er framhald námskeiðsins kínversk málnotkun I og heldur áfram hljóðfræðilegri þjálfun nemenda með áherslu á framburð og tóna. Uppistaða námskeiðsins eru æfingatímar til að þjálfa hlustun, skilning og tjáningu sem byggja á og útfæra námsefni námskeiðsins kínverska II. Námsstigið miðast við HSK 2.
Saga Kína II: frá Qing-veldinu til nútímans (KÍN108G, KÍN102G)
Kennari: Amy Matthewson, SOAS Univeristy of London
Námskeiðið fjallar um sögu kínversku þjóðarinnar frá og með seinni hluta Qing-veldisins (1644-1912) og grennslast fyrir um þau innri og ytri öfl sem hafa haft veigamikil áhrif á stöðu Kína í alþjóðasamfélaginu. Tekin verða til rannsóknar þau sögulegu ferli í Kína sem leiddu til þróunar nútímaríkisins og hugað að gagnvirkum áhrifum þeirra á framvindu alþjóðamála. Í námskeiðinu er hafist handa við að veita stutt yfirlit yfir stofnun síðasta keisaraveldis Kína, Qing-veldisins. Síðan er vikið að veigamiklum breytum í sögu þjóðarinnar, t.d. heimsvaldastefnu, uppreisnum og byltingu í Kína, sem öll höfðu mikil áhrif á samskipti Kínverja við önnur ríki. Að því loknu verður fjallað um stofnun Alþýðulýðveldisins Kína, flótta stjórnar Þjóðernissinna til Taívan, stefnumál Mao Zedong, menningarbyltinguna og opnunarstefnuna. Námskeiðið er kennt á ensku og í fjarfundarbúnaði.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustutorg í Gimli og Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.