Kínversk fræði


Kínversk fræði
BA gráða – 120 einingar
Kína er fjölmennasta ríki og annað stærsta hagkerfi veraldar. Umsvif þessa stórveldis eru svo mikil á flestum sviðum mannlífs í heiminum að á 21. öldinni getur engin þjóð heimsins leyft sér að vera án sérfræðinga sem eru læsir á gildismat, stefnu og markmið Kína. Í kínverskum fræðum öðlast nemendur vald á kínverskri tungu og ritmáli sem og skilning á fjölmörgum hliðum kínverskrar menningar, margbrotnum pólitískum og samfélagslegum birtingarmyndum í kínverskum samfélögum nútímans og hinu blómlega og spennandi viðskiptalífi í Kínverska alþýðulýðveldinu.
Skipulag náms
- Haust
- Mál og menning I: Vinnulag og aðferðir í hugvísindum
- Mál og menning I: Vinnulag og aðferðir í hugvísindum
- Kínversk málnotkun I
- Kínverska I
- Kína nútímans: Samfélag, stjórnmál og efnahagur
- Vor
- Mál og menning II: Hugmynda- og málvísindasaga
- Mál og menning II: Hugmynda- og málvísindasaga
- Saga Kína II: frá Qing-veldinu til nútímans
- Kínverska II
- Kínversk málnotkun II
Mál og menning I: Vinnulag og aðferðir í hugvísindum (MOM101G, MOM102G)
Meginmarkmið námskeiðsins er að veita nemendum grunnþjálfun í meðferð ritaðs máls og fræðilegum skrifum. Nemendur hljóta þjálfun í ritun með vikulegum heimaverkefnum, fyrirlestrum, umræðum og ritstundum. Auk þess heimsækja nemendur Ritver Háskóla Íslands og fá þar ráðgjöf. Í námskeiðinu er fjallað um vinnulag við ritun fræðilegra texta, val og afmörkun viðfangsefnis, byggingu ritsmíðarinnar, heimildanotkun og frágang. Nemendur fá einnig þjálfun í málnotkun í fræðilegum textum og fjallað verður meðal annars um málsnið, stíl, stafsetningu, greinarmerkjasetningu og hjálpargögn málnotenda. Nemendur skrifa fræðilega ritgerð í leiðsagnarmati og fá reglulega endurgjöf kennara og aðstoðarkennara. Námsmat byggist á vikulegum heimaverkefnum, miðmisserisverkefni, lokaverkefni og virkri þátttöku nemenda í tímum, ritstundum og heimsóknum í Ritverið.
ATHUGIÐ! NÁMSKEIÐIÐ ER KENNT Á ÍSLENSKU OG Í STAÐNÁMI. ÞEIR SEM TAKA NÁMSKEIÐIÐ Á ENSKU OG Í FJARNÁMI EIGA AÐ VERA SKRÁÐIR Í MOM102G.
MOM101G er ætlað nemendum í erlendum tungumálum ÖÐRUM en ensku. Nemendur í ensku og þeir sem ekki eiga íslensku að móðurmáli eiga að vera skráðir í MOM102G.
Mál og menning I: Vinnulag og aðferðir í hugvísindum (MOM101G, MOM102G)
Meginmarkmið námskeiðsins er að svara spurningum eins og: hvað eru hugvísindi og vísindaleg vinnubrögð, hvernig er þeim beitt á sviði hugvísinda, hvað er átt við með hugtökunum gagnrýnin hugsun, ritstuldur, heimildaleit og heimildavinna? Ennfremur er námskeiðinu ætlað að veita nemendum innsýn í vinnuaðferðir hugvísinda og þjálfa þá í faglegum vinnubrögðum s.s. akademísku læsi og ritun (framsetningu texta, ritgerðasmíð), heimildaleit, framsögum og fleiru.
ATHUGIÐ! Námskeiðið er kennt á ensku og er ætlað:
a) BA-nemendum í ensku
b) Nemendum í erlendum tungumálum (öðrum en ensku) er ekki hafa íslensku sem móðurmál.
*Nemendur í erlendum tungumálum (öðrum en ensku) sem hafa íslensku sem fyrsta mál eiga að skrá sig í MOM101G.
Kínversk málnotkun I (KÍN105G)
Í námskeiðinu er einkum lögð áhersla á hljóðfræði með þjálfun framburðar og tóna. Uppistaða námskeiðsins eru æfingatímar til að þjálfa hlustun, skilning og tjáningu sem byggja á og útfæra námsefni námskeiðsins kínverska I. Námsstigið miðast við HSK 1.
Kínverska I (KÍN107G)
Um er að ræða alhliða námskeið í staðlaðri kínversku (mandarín, putonghua) fyrir byrjendur. Nemendur kynnast undirstöðuatriðum tungumálsins og málfræðilegri og tónalegri uppbyggingu þess. Áhersla er lögð á orðaforða daglegs lífs.
Í upphafi er pinyin umritunarformið kennt en síðan koma einfölduð kínversk tákn (jiantizi) til sögunnar.
Heimaæfingar og tímapróf eru tíð. Gert er ráð fyrir miklu heima- og sjálfsnámi og í námskeiðinu gildir mætingarskylda.
Kína nútímans: Samfélag, stjórnmál og efnahagur (KÍN101G)
KENNT Í FJARKENNSLU HAUST 2023 (sérstök nemendaviðtöl með kennara til að efla betri kynni)
Um er að ræða yfirlitsnámskeið um helstu áhrifaþætti innan kínversks samfélags og efnahags með áherslu á afleiðingar opnunarstefnunnar eftir 1978. Farið verður yfir landfræðilegar aðstæður, þ. á m. helstu borgir, fylkjaskipan, nágrannalönd, landræktarsvæði, ár og fjallgarða. Veitt verður yfirlit yfir efnahagsþróun undanfarinna áratuga, helstu vandamál Kína nútímans, þ. á m. orkuskort, umhverfisvandamál, lýðfræði, alþjóðatengsl og stjórnmál. Einnig verður vikið að stöðu fjölskyldunnar og kvenna, mannréttindi og umhverfismál. Hong Kong og Tævan eru einnig sértstaklega til umfjöllunar. Til að skerpa á skilningi nemenda á Kína samtímans verður horft á klippur úr nýlegum kínverskum heimildamyndum sem taka á ýmsum þáttum hinna miklu umbreytinga sem orðið hafa á kínversku samfélaginu undanfarna áratugi.
Mál og menning II: Hugmynda- og málvísindasaga (MOM201G, MOM202G)
Námskeiðið er ágrip af vestrænni hugmynda- og málvísindasögu frá fornöld og fram til nútímans. Í því felst heimspekileg umfjöllun um þróun vísinda og fræðilegrar þekkingarleitar í Evrópu þar sem rýnt er í ólíkan skilning á eðli þekkingar og hlutverki hennar í mannlegu lífi allt frá Grikkjum til forna og fram á skeið upplýsingarinnar á átjándu öld. Inn í þessa þekkingarfræðilegu umræðu fléttast einnig mismunandi sjónarhorn frá fyrri öldum á eðli tungumálsins. Ennfremur er vikið að helstu straumum og stefnum í þjóðfélagsmálum, tæpt á nokkrum mikilvægum bókmenntaverkum fyrri alda og hugað að tilurð ýmissa menningarlegra einkenna sem áberandi eru í vestrænum samfélögum nútímans. Í seinni hluta námskeiðsins er áhersla lögð á sögu og þróun málvísinda sem sérstakrar fræðigreinar fram á okkar daga. Námskeiðið færir nemendum fræðileg grundvallarhugtök og -tól sem ómissandi eru fyrir frekara nám í bókmenntum, málvísindum og öðrum menningarfræðum. Námskeiðið fer að mestu leyti fram sem vendikennsla og er gert ráð fyrir að nemendur mæti vel undirbúnir í tíma.
Mál og menning II: Hugmynda- og málvísindasaga (MOM201G, MOM202G)
Námskeiðið er ágrip af vestrænni hugmynda- og málvísindasögu frá fornöld og fram til nútímans. Í því felst heimspekileg umfjöllun um þróun vísinda og fræðilegrar þekkingarleitar í Evrópu þar sem rýnt er í ólíkan skilning á eðli þekkingar og hlutverki hennar í mannlegu lífi allt frá Grikkjum til forna og fram á skeið upplýsingarinnar á átjándu öld. Inn í þessa þekkingarfræðilegu umræðu fléttast einnig mismunandi sjónarhorn frá fyrri öldum á eðli tungumálsins. Ennfremur er vikið að helstu straumum og stefnum í þjóðfélagsmálum, tæpt á nokkrum mikilvægum bókmenntaverkum fyrri alda og hugað að tilurð ýmissa menningarlegra einkenna sem áberandi eru í vestrænum samfélögum nútímans. Í seinni hluta námskeiðsins er áhersla lögð á sögu og þróun málvísinda sem sérstakrar fræðigreinar fram á okkar daga. Námskeiðið færir nemendum fræðileg grundvallarhugtök og -tól sem ómissandi eru fyrir frekara nám í bókmenntum, málvísindum og öðrum menningarfræðum. Námskeiðið fer að mestu leyti fram sem vendikennsla og er gert ráð fyrir að nemendur mæti vel undirbúnir í tíma.
Saga Kína II: frá Qing-veldinu til nútímans (KÍN108G, KÍN102G)
Kennari: Amy Matthewson, SOAS Univeristy of London
Námskeiðið fjallar um sögu kínversku þjóðarinnar frá og með seinni hluta Qing-veldisins (1644-1912) og grennslast fyrir um þau innri og ytri öfl sem hafa haft veigamikil áhrif á stöðu Kína í alþjóðasamfélaginu. Tekin verða til rannsóknar þau sögulegu ferli í Kína sem leiddu til þróunar nútímaríkisins og hugað að gagnvirkum áhrifum þeirra á framvindu alþjóðamála. Í námskeiðinu er hafist handa við að veita stutt yfirlit yfir stofnun síðasta keisaraveldis Kína, Qing-veldisins. Síðan er vikið að veigamiklum breytum í sögu þjóðarinnar, t.d. heimsvaldastefnu, uppreisnum og byltingu í Kína, sem öll höfðu mikil áhrif á samskipti Kínverja við önnur ríki. Að því loknu verður fjallað um stofnun Alþýðulýðveldisins Kína, flótta stjórnar Þjóðernissinna til Taívan, stefnumál Mao Zedong, menningarbyltinguna og opnunarstefnuna. Námskeiðið er kennt á ensku og í fjarfundarbúnaði.
Kínverska II (KÍN202G)
Um er að ræða alhliða námskeið í staðlaðri kínversku (mandarín, putonghua) fyrir byrjendur og framhald námskeiðsins kínverska I. Námsstigið miðast við HSK 2-3.
Nemendur dýpka skilning sinn á málfræði, bæta orðaforða og ná föstum tökum á grundvallaratriðum kínverskrar tungu. Kennsla mun fara aukið fram á kínversku og áhersla verður á virka notkun málsins. Heimaæfingar og tímapróf verða tíð. Gert er ráð fyrir miklu heima- og sjálfsnámi.
Kínversk málnotkun II (KÍN204G)
Námskeiðið er framhald námskeiðsins kínversk málnotkun I og heldur áfram hljóðfræðilegri þjálfun nemenda með áherslu á framburð og tóna. Uppistaða námskeiðsins eru æfingatímar til að þjálfa hlustun, skilning og tjáningu sem byggja á og útfæra námsefni námskeiðsins kínverska II. Námsstigið miðast við HSK 2.
- Haust
- BA-ritgerð í kínverskum fræðum
- Kínverska III
- Kínverskir textar I
- Kínversk málnotkun III
- ÞýðingarV
- Kínversk stjórnmálV
- Alþjóðaviðskipti í Asíu (Japan og Kína)V
- Vor
- BA-ritgerð í kínverskum fræðum
- Kínverska IV
- Kínverskir textar II
- Kínversk málnotkun IV
- Þýðingatækni og textagreiningV
- Nútímasaga Austur-AsíuV
- Tungumál og leiklistV
BA-ritgerð í kínverskum fræðum (KÍN241L)
BA-ritgerð í kínverskum fræðum. BA ritgerð ber að öllu jöfnu að skrifa á íslensku en í undantekningartilvikum er hægt að veita leyfi fyrir því að hún verði skrifuð á ensku, t.d. ef nemandi hefur ekki íslensku að móðurmáli. Ekki er unnt að skrifa lokaritgerð á öðrum málum.
Kínverska III (KÍN302G)
Um er að ræða alhliða námskeið í staðlaðri kínversku (mandarín, putonghua) fyrir byrjendur og framhald námskeiðsins kínverska II. Námsstigið miðast við HSK 3-4.
Nemendur dýpka þekkingu sína á kínverskri málfræði, bæta við orðaforða sinn og treysta þá kunnáttu sem þeir hafa þegar aflað sér.
Á þessu stigi er gert ráð fyrir að kennslan fari eingöngu fram á kínversku. Einnig er gert ráð fyrir miklu heima- og sjálfsnámi.
Kínverskir textar I (KÍN207G)
Námskeið þetta einblínir á þjálfun lesskilnings og ritfærni með áherslu á hagnýta kínversku sem gagnast í daglegu lífi.
Kínversk málnotkun III (KÍN304G)
Námskeiðið er framhald námskeiðsins Kínversk málnotkun II og einblínir á frekari þjálfun á skilningi og tjáningu mælts máls. Uppistaða námskeiðsins eru æfingatímar til að þjálfa hlustun, skilning og tjáningu sem byggja á og útfæra námsefni námskeiðsins Kínverska III. Námsstigið miðast við HSK 3.
Þýðingar (ÍSE502G)
Námskeiðið er inngangur að þýðingum, þýðingasögu og þýðingafræði. Nemendur kynnast helstu hugtökum og kenningum á sviði þýðinga, en einnig verður farið yfir grundvallaratriði í túlkafræði. Námskeiðið skiptist í tvo þætti: Hinn fræðilegi og sögulegi þáttur námskeiðsins fer fram í formi fyrirlestra og umræðna. Jafnframt leggur kennari fram lesefni sem nemendur kynna sér. Námsmat felst í prófi/ritgerð þar sem skyldulesefni er undirstaðan. Verklegi þátturinn fer fram í hópvinnustofum þar sem nemendur æfa sig í þýðingarýni og þýðingum (bókmenntaþýðingum eða nytjaþýðingum) undir handleiðslu kennara. Námsmat felst í skriflegu verkefni eða verkefnum. Nemendur í íslensku sem öðru máli þurfa að hafa lokið öllum námskeiðum á 1. og 2. ári.
Kínversk stjórnmál (KÍN208G)
Til að byrja með verður hefðbundið stjórnmálakerfi keisaratímans skoðað með hliðsjón við nútímann, jafnframt verður stjórnmálaþróun í 75 ára sögu Alþýðulýðveldisins rakin. Fjallað verður ítarlega um Kommúnistaflokkinn og hlutverk hans í stjórnkerfinu. Uppbygging stjórnkerfisins verður rakin og samspil stjórnsýslu og flokks. Einnig verður fjallað um stjórnsýsluna á lægri stjórnsýslustigum og á jaðarsvæðum ríkisins í Tíbet, Xinjiang og Hong Kong. Farið verður yfir Alþjóðamál Kína og tengsl við innanlandspólitík. Efnahagsstefnan verður tekin fyrir og tengsl stjórnmála og efnahagskerfisins. Viðfangsefni dagsins í dag verða líka skoðuð, t.d. áhrif veraldarvefsins, umhverfismál, covid-stefnan sem tekin var upp í Kína og staða núverandi forseta landsins.
Alþjóðaviðskipti í Asíu (Japan og Kína) (VIÐ506M)
Námskeiðið er sérstaklega ætlað þeim sem hafa áhuga á viðskiptum í Asíu (Japan og Kína). Þjóðhagslegum grunn atriðum verður gert skil. Rekstrarumhverfi fyrirtækja sem eiga viðskipti í þessum löndum verður skoðað út frá rannsókn.
Námskeiðið fer fram á ensku og hentar vel bæði erlendum skiptinemum og öðrum nemendum.
Nemendur skoða alþjóðaviðskipti Vesturlanda og Asíu (Kína og Japan) út frá þjóðhagsfræðilegu sjónarmiði. Einnig nota örgreiningu (micro persective) á fyrirtæki sem stunda viðskipti í Asíu (Kína og Japan).
- Nemendur skoða hvernig viðskipti og fjárfestingarmynstur á Asíusvæðinu mótast af alþjóðlegu stjórnmálahagkerfi.
- Nemendur munu greina einstök fyrirtæki og viðskipti þeirra á Asíumarkaði, hvernig fjárfestingum (FDI) er háttað hjá þessum fyrirtækjum og greina virðiskeðju þeirra.
- Nemendur gera rannsókn (einstaklingsverkefni) á fyrirtæki sem stundar viðskipti í Asíu (eigindlega eða megindlega).
BA-ritgerð í kínverskum fræðum (KÍN241L)
BA-ritgerð í kínverskum fræðum. BA ritgerð ber að öllu jöfnu að skrifa á íslensku en í undantekningartilvikum er hægt að veita leyfi fyrir því að hún verði skrifuð á ensku, t.d. ef nemandi hefur ekki íslensku að móðurmáli. Ekki er unnt að skrifa lokaritgerð á öðrum málum.
Kínverska IV (KÍN403G)
Um er að ræða alhliða námskeið í staðlaðri kínversku (mandarín, putonghua) og framhald námskeiðsins kínverska III. Námsstigið miðast við HSK 4.
Nemendur dýpka enn skilning sinn á málfræði, auka orðaforða sinn og ná betri tökum á kínverskri tungu. Kennslan fer einungis fram á kínversku. Heimaæfingar og tímapróf verða tíð. Gert er ráð fyrir miklu heima- og sjálfsnámi.
Kínverskir textar II (KÍN309G)
Um er að ræða framhald námskeiðsins kínverskir textar I. Sem fyrr er einblínt á þjálfun lesskilnings og ritfærni með áherslu á hagnýta kínversku sem gagnast í daglegu lífi. Einnig fer fram undirbúningur fyrir HSK próf. Námsstigið miðast við HSK 3-4 og fer kennsla að langmestu fram á kínversku.
Kínversk málnotkun IV (KÍN407G)
Námskeiðið er framhald námskeiðsins Kínversk málnotkun III (KÍN304G) og einblínir á frekari þjálfun á skilningi og tjáningu mælts máls. Samræður munu eiga sér stað í tímum undir handleiðslu kennara. Heimaæfingar og tímapróf verða tíð og í námskeiðinu gildir mætingarskylda. Uppistaða námskeiðsins eru æfingatímar til að þjálfa hlustun, skilning og tjáningu sem byggja á og útfæra námsefni námskeiðsins Kínverska IV (KÍN403G) en tveir tímar í viku eru hlustunartímar sem fara fram í málveri Tungumálamiðstöðvar í Veröld - Húsi Vigdísar. Meginmarkmið námskeiðsins er að þjálfa hagnýta beitingu kínverskunnar.
Þýðingatækni og textagreining (ÞÝÐ201G)
Markmið námskeiðsins er að nemendur læra að greina texta til þýðinga og átta sig á þeim hjálpargögnum og hjálpartækjum sem til eru. Einnig fá þeir innsýn í starf atvinnuþýðenda á ýmsum sviðum.
Kennsla fer að mestu leyti fram í formi hagnýtra æfinga og verkefna undir handleiðslu kennara. Fáir fyrirlestrar undirbúa nemendur undir hópvinnu og æfingar í tímum. Fram að verkefnaviku vinna nemendur vikulega stutt heimaverkefni og fá leiðsagnarmat kennara. Eftir verkefnaviku fara nemendur með kynningar á „tækjum og tólum“ sem nýtast í þýðingarferli.
Einnig koma gestakennarar í tíma sem segja frá vinnu og starfsumhverfi atvinnuþýðenda. Hópurinn fer líka í vettvangsheimsóknir, t.d. í Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis. Í verksmiðjutímum undir lok námskeiðsins vinna nemendur saman og leggja lokahönd á þýðingar sínar og greinargerðir.
Þýðingatækni og textagreining er skyldunámskeið í Þýðingafræði sem aukagrein á BA stigi. Það er einnig opið öðrum nemendum en góð færni í erlendu tungumáli (samsvarandi 3. ári í grunnnámi) er nauðsynleg undirstaða.
Kennsla fer fram á íslensku. Nemendur þýða úr erlendu máli yfir á móðurmálið. Önnur verkefni eru unnin á íslensku.
Nútímasaga Austur-Asíu (JAP412G, JAP413G)
Asía er stærst heimsálfanna og þar búa u.þ.b. tveir af hverjum þremur jarðarbúum. Asía hefur einnig í auknum mæli fest sig í sessi sem þungamiðja í efnahagslegum skilningi þar sem Kína, Japan og Indland eiga öll sæti á listanum yfir fimm stærstu efnahagveldi heims. Á sama tíma ríkir vaxandi spenna í álfunni sem m.a. skýrist af vígbúnaðarkapphlaupi kjarnorkuríkjanna, fjölda landamæradeilna, undiröldu þjóðernishyggju, eigna- og tekjuójöfnuði, sem og yfirvofandi umhverfis- og loftslagsvanda á stórum svæðum. Markmið námskeiðsins er að gefa nemendum breiða sýn á sameiginlega sögu og samskipti ríkjanna í Austur-Asíu frá miðri 19. öld til dagsins í dag. Megináhersla verður lögð á Japan, Kína og Suður-Kóreu.
Á námskeiðinu verður farið yfir: kynningu á löndum, menningarsvæðum og öðrum svæðaskiptingum innan Asíu, nýlenduvæðingu og sjálfstæðisbaráttu, heimsstyrjaldirnar og kalda stríðið í Austur-Asíu, hlutverk Bandaríkjanna í álfunni, alþjóða- og svæðasamstarf (ASEAN, APEC, ADB), aukið vægi Kína og Indlands. Á námskeiðinu verður einnig farið yfir ýmis brýn mál í samtímanum allt frá „soft power“ stefnu til norðurslóðaáherslu Austur-Asíuríkjanna.
Tungumál og leiklist (MOM401G)
Valnámskeið í leiklist fyrir nemendur í Mála- og menningardeild, á 2. og 3. ári BA-náms, er samstarfsverkefni deildarinnar.
Nemendur vinna með þekkt leikverk á því tungumáli sem þeir eru að læra, en kennslan fer fram á íslensku og nemendur geta nýtt sér íslensku þýðinguna ef vill.
Nemendur velja senur úr verkinu með sviðsetningu í huga.
Þessi hluti skiptist í upphitunaræfingar, slökunaræfingar og ýmis konar framburðaræfingar. Vinna nemenda felst í samvinnu að leita leiða við uppsetningu þeirra sena sem valdar voru í fyrri hlutanum.
Kennarar í þeim tungumálum sem taka þátt aðstoða við framburð og tjáningu í viðkomandi tungumáli.
Kennslan fer fram í fyrirlestrasal Veraldar á miðvikudögum frá kl. 15:00 til 18:00 og er mæting forsenda þess að þetta verkefni nái markmiðum sínum.
Hámarksfjöldi nemenda er 15.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.