Skip to main content

14. háskólafundur 17. september 2004

14. háskólafundur haldinn 17. september 2004 í Eldborg hjá Hitaveitu Suðurnesja

Fundartími: Kl. 14.00-17.30

Dagskrá

Kl. 14.00 - 14.05    Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fyrirliggjandi gögnum.
Kl. 14.05 - 15.35    Dagskrárliður 1. Hugmyndir um hvernig háskólafundur getur betur gegnt hlutverki sínu.
Kl. 15.35 - 15.55    Kaffihlé.
Kl. 15.55 - 17.10    Dagskrárliður 1 (framhald). Hugmyndir um hvernig háskólafundur getur betur gegnt hlutverki sínu.
Kl. 17.10 - 17.30    Dagskrárliður 2. Breyting á heiti heimspekideildar í hugvísindadeild.
Kl. 17.30    Rektor slítur fundi.

Kl. 14.00: Fundarsetning

Rektor setti 14. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Þá fór rektor yfir dagskrá og tímaáætlun og gerði grein fyrir fyrirliggjandi gögnum. Fundarritarar voru, eins og áður, Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs.

Kl. 14.05 - 15.35 - Dagskrárliður 1: Hugmyndir um hvernig háskólafundur getur getur gegnt hlutverki sínu

Í upphafi fyrsta dagskrárliðar greindi rektor frá því að ástæðan fyrir því að efnt væri til sérstaks fundar um háskólafundinn sjálfan væri einkum sú að nú, fimm árum eftir að háskólafundur var settur á laggirnar með nýjum lögum um Háskóla Íslands, væri komin nægileg reynsla á fundinn, sem gerði það bæði mögulegt og nauðsynlegt að yfirvega gildi hans og draga lærdóm af því fyrir framtíðina. Bætti rektor því við að þótt verkefni þessa fundar væri einkum að leita svara við spurningunni, hvernig háskólafundur geti betur gegnt hlutverki sínu, væri í reynd óhjákvæmilegt að fjalla að nokkru leyti jafnframt um stjórnkerfi Háskólans í heild sökum þeirrar skörunar og hlutverkaskiptingar sem væri á milli háskólafundar, háskólaráðs, embættis rektors og annarra helstu þátta stjórnkerfisins.

Í framhaldi af þessu rifjaði rektor upp hlutverk háskólafundar í stjórnskipulagi Háskólans eins og það er skilgreint í 2. og 7. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999 og endurspeglast í skipuriti Háskólans. Háskólaráð hafi með höndum þau þrjú meginhlutverk (1.) að sjá um öflun og skiptingu fjár, (2.) að setja sameiginlegar reglur fyrir Háskólann og sérreglur fyrir einstakar deildir og stofnanir hans, og loks (3.) að fara með úrskurðarvald í einstökum málum. Helstu hlutverk háskólafundar væru aftur á móti (1.) að vera samráðsvettvangur deilda og stofnana Háskólans, (2.) að móta sameiginlega vísinda- og menntastefnu hans, og (3.) að veita umsögn um lög og reglur. Verkefni rektors væru (1.) að vera forseti háskólaráðs, (2.) að stýra stefnumótunarstarfi Háskólans á vettvangi háskólafundar, og (3.) að vera yfirmaður sameiginlegrar stjórnsýslu.

Að þessari upprifjun lokinni lýsti rektor þeirri skoðun að þegar á heildina væri litið hefði háskólafundur öðru fremur það hlutverk að treysta einingu, samheldni og samhæfingu í störfum og stefnumótun í háskólasamfélaginu. Í þessu augnamiði væri mikilvægt að allt háskólafólk hefði yfirsýn yfir stefnumið Háskólans og sameiginlegan metnað fyrir hönd hans. En þótt hlutverk háskólafundar væri þannig ljóst væri sjálfsagt og eðlilegt að spyrja hvort háskólafundi hefði tekist að rækja þetta hlutverk sitt að öllu leyti og hvort fundurinn væri rétti vettvangurinn til þess. Sagði rektor það vera sannfæringu sína að hvernig sem þessum spurningum væri svarað þyrfti Háskólinn alltént að hafa eitthvert stjórntæki sem þjónaði þessu markmiði. Háskólafundur væri, hugmyndinni samkvæmt, sameiginlegur vettvangur alls háskólafólks sem lyti lögmálum jafningjastjórnunar og valddreifingar er alla tíð hefðu verið órjúfanlega tengd sjálfri háskólahugmyndinni. Vitnaði rektor í þessu sambandi í framlagða grein sína um „markmið og skipulag háskóla“ þar sem þetta væri útlistað frekar.

En hvers vegna þurfa háskólar jafningjastjórnun? Hví er þörf á lýðræðislegum vettvangi á borð við háskólafund? Og hvernig samræmist hugsjónin um háskólalýðræði kröfum líðandi stundar um sterkt boðvald og skýrt stigveldi í háskólum jafnt sem atvinnufyrirtækjum? Dugir ekki traust stjórn rektors og háskólaráðs? Svaraði rektor því til að háskólalýðræðið væri fjarri því að vera sjálfgefið. Þvert á móti væri það skilyrði fyrir því að það næði fram að ganga að frumeiningar háskólans, akademískir starfsmenn, greinar, skorir og deildir, væru mjög sjálfstæðar í starfi og stjórnun. Starfsfólkið þyrfti sjálft að taka virkan þátt í að móta leikreglurnar innan Háskólans og hafa þannig bein áhrif á stjórn hans. Reynslan sýndi að flest nýmæli í Háskólanum hefðu orðið til fyrir frumkvæði einstaklinga. Jafnframt öðluðust einstaklingarnir sjálfstæði sitt fyrir tilstyrk samstöðu með öðrum einstaklingum. Þessi samkennd háskólafólks kæmi fram með ýmsum hætti - með beinu samstarfi, gagnkvæmri hvatningu eða einfaldlega með vitundinni um að aðrir væru að sinna hliðstæðum störfum í öðrum greinum, skorum og deildum.

Næst vék rektor að hugmyndum um hvernig háskólafundur geti betur gegnt hlutverki sínu. Minnti rektor á að síðar á fundinum yrði fundarmönnum skipt í vinnuhópa sem m.a. væri ætlað að leita svara við þremur spurningum:
1. Hver eiga að vera einstök viðfangsefni háskólafundar? Vísaði rektor á framlögð yfirlitsblöð um framvindu stefnumótunarstarfs við Háskóla Íslands 1997-2004, um verkefni háskólafundar samkvæmt lögum og reglum og um nokkur mál í vinnslu sem eðlilegt er að rædd séu á vettvangi fundarins.
2. Hvernig á fundurinn að starfa? Hér væri um nokkrar spurningar að ræða. Ein þeirra beindist að því, hvernig tryggja mætti meiri samfellu í starfi háskólafundar milli einstakra funda. Til greina kæmi að lengja skipunartíma fulltrúa á fundinum því reyndin hefði verið sú að sífellt væru að koma inn nýjir fulltrúar sem þyrftu tíma til að kynnast starfsháttum fundarins. Önnur spurning væri sú, hvernig betur mætti skipuleggja starfið milli funda, t.d. með því að stofna millifundanefndir til að halda utanum tiltekna málaflokka á borð við þróunarmál, stefnumál, fimm ára starfsáætlun Háskólans o.fl., eða með því að deildarforsetar tækju að sér að stýra tilteknum verkefnum sem lúta að sameiginlegum málum. Loks þyrfti að huga að því hvort fundarsköp væru nægilega skilvirk eða hvort t.d. ætti að skipta fundarmönnum upp í vinnuhópa á hverjum fundi.
3. Hver eiga völd fundarins að vera? Þessi spurning snérist í reynd um verkaskiptinguna milli háskólaráðs og háskólafundar og hvort ástæða væri til að færa hluta af verkefnum og valdi, s.s. ákvörðunarvaldi um akademísk málefni eða jafnvel vísindanefnd og kennslumálanefnd, frá háskólaráði til háskólafundar. Minnti rektor í þessu sambandi á að í lögum um Háskóla Íslands væri kveðið á um að helstu nýmæli í háskólastarfinu skuli rædd á háskólafundi.

Að lokinni framsögu hófst hópastarf.

Kl. 15.55 - 17.10 - Dagskrárliður 1 (frh.): Hugmyndir um hvernig háskólafundur getur betur gegnt hlutverki sínu

Að kaffihlé loknu komu fundarmenn aftur saman og gerðu hópstjórar grein fyrir niðurstöðum hópastarfsins.

Hópur 1, deildarforsetar. Greindi hópstjóri frá því að meðlimir hópsins hefðu verið samdóma um að ekki væri hægt að taka afstöðu til háskólafundar án þess að ræða jafnframt um stjórnskipulag Háskólans í heild og að heppilegt væri að ræða þessi mál núna í aðdraganda rektorskjörs sem fram fer í mars 2005. Fram kom það sjónarmið í hópnum að háskólafundur væri, að breyttu breytanda, of veik stofnun, háskólaráð væri að vissu leyti of einangrað frá deildum Háskólans og hlutverk deildarforseta í stjórnun skólans ekki nægilega vel skilgreint. Því þyrfti að endurskoða á heildstæðan hátt verklag og verkaskiptingu milli þessara þriggja aðila, háskólafundar, háskólaráðs og deilda Háskólans. Á hinn bóginn taldi hópurinn reglubundna fundi rektors með deildarforsetum, svonefnda forsetafundi, afar gagnlega og hefði sú spurning vaknað, hvort það kynni að stafa að nokkru leyti af því að um væri að ræða samráðsfundi án formlegs valds. Þá varpaði hópurinn fram þeirri hugmynd að greint yrði skilmerkilegar milli akademískrar stjórnar og framkvæmdastjórnar. Hugmyndin fæli í sér að rektor yrði áfram yfirmaður sameiginlegrar stjórnsýslu en í stað núverandi fyrirkomulags með nokkrum framkvæmdastjórum yrði ráðinn einn framkvæmdastjóri sem starfaði við hlið rektors og létti af honum störfum. Varðandi akademísku hliðina lagði hópurinn til að háskólafundur yrði efldur með því að koma saman oftar og hafa fastar millifundanefndir, sem fulltrúar á fundinum sætu í, og sérstaka starfsmenn á sínum snærum. Einnig var nokkuð rætt um það innan hópsins hvort brjóta ætti Háskólann upp í einingar í anda hinnar svonefndu fjórskólahugmyndar en meðlimi hópsins greindi mjög á um ágæti hennar. Loks gerði hópurinn það að tillögu sinni að heiti háskólafundar verði breytt í "háskólaþing" og að það gegndi í reynd slíku hlutverki. Að lokum dró hópstjóri hugmyndir hópsins saman á þá leið að þær fælu í sér í fyrsta lagi að háskólaráð verði lagt niður í núverandi mynd og því skipt upp í hreina framkvæmdastjórn annars vegar og háskólaþing hins vegar og að í öðru lagi verði sett á laggirnar einskonar akademískt framkvæmdaráð skipað deildarforsetum. Með þessu móti mætti búa til skilvirkara stjórnkerfi þar sem hinum akademíska þætti yrði gert hærra undir höfði.

Hópur 2, fulltrúar kosnir af deildum. Hópurinn tók undir þá hugmynd að nafni háskólafundar verði breytt í "háskólaþing", enda lýsti það betur því hlutverki sem hópurinn taldi að fundurinn ætti að gegna. Jafnframt taldi hópurinn að þarft væri að skilgreina betur hlutverk háskólafundar sem vettvangs stefnumótunar og umræðu. Var það álit meðlima hópsins að sjálf umræðuefnin ættu í ríkara mæli að snúast um akademísk málefni en verið hefur. Á sama hátt var það skoðun hópsins að ekki ætti að fá háskólafundi meira formlegt ákvörðunarvald heldur efnislegt áhrifavald á það sem fram fer í Háskólanum, m.a. með aukinni eftirfylgni og meiri tengslum við deildir. Varðandi stefnumótunarhlutverk fundarins taldi hópurinn að hann ætti að vera sterkara þrýstiafl gagnvart stjórnvöldum, t.d. varðandi samninga. Loks ítrekaði hópurinn að háskólafundur væri afar mikilvægur vettvangur til þess að skapa samkennd og einingu meðal háskólafólks, þótt ef til vill væri hann heldur fjölmennur.

Hópur 3, fulltrúar kosnir af deildum. Hópurinn taldi að skýra mætti betur vald fundarins og skerpa eftirfylgni með ákvörðunum hans. Einnig mætti ræða í ríkara mæli mál sem brenna á deildum og eru í deiglunni hverju sinni. Þá taldi hópurinn að umræður á háskólafundi skiluðu sér ekki nógu vel út í deildir. Einnig nefndu meðlimir hans nokkur mál til sögunnar sem fundurinn mætti fjalla um, s.s. fjárhagsvanda deilda og hvernig þær geti brugðist við honum á samstilltan hátt, samræmingu grunn- og framhaldsnáms, gæði, fjárhagsvanda og styttingu framhaldsnámsins, samskipti deilda og sameiginlegrar stjórnsýslu, skipulag kennslu, t.d. svonefnt stokkakerfi, og bókasafnsmál. Loks lagði hópurinn til að áfram yrði haldinn að jafnaði einn háskólafundur á hverju misseri og að hann stæði ekki lengur yfir en í hálfan dag.

Hópur 4, fulltrúar Félags háskólakennara, Félags prófessora, Félags starfsfólks í stjórnsýslu og fulltrúar kosnir af stúdentaráði. Byrjaði hópurinn á því að leita svara við þeirri spurningu, hvort yfirleitt væri þörf á háskólafundi. Svöruðu meðlimir hópsins þessu afdráttarlaust játandi og töldu að háskólafundur hefði stórlega bætt skipulega umræðu um málefni Háskólans sem áður fyrr hefði verið bæði lítil og dreifð. Til þess var tekið að fundargerðir háskólafundar væru vel ritaðar og upplýsandi. Mikilvægt væri að ræða á fundinum grundvallarmálefni Háskólans, s.s. jafnréttismál, akademískt frelsi og hlutverk rannsóknaháskóla, frekar en stjórnsýsluleg mál. Taka mætti upp mál sem brenna á deildum, s.s. samræmingu námskeiða og námskrafa, sem viðkvæmt væri að ræða innan deildanna en heppilegt á háskólafundi. Þá taldi hópurinn að það góða málefnastarf sem unnið væri í fastanefndum háskólaráðs mætti skila sér betur til háskólafólks, t.d. með því að nefndirnar gerðu grein fyrir störfum sínum og hugmyndum á háskólafundi. Hópurinn var þeirrar skoðunar að háskólafundur þyrfti ekki að fá meira og eindregnara vald, s.s. neitunarvald. Betra færi á því að hann yrði áfram umræðuvettvangur með ráðgefandi hlutverk. Varðandi starfshætti háskólafundar töldu meðlimir hópsins að framkvæmd hans væri full þung í vöfum og of fáir fundarmenn tækju til máls. Auka mætti skilvirkni fundarins með því að fá innlegg frá sérfróðum einstaklingum og mætti þá halda fleiri og styttri fundi um afmarkaðri efni þar sem margir ólíkir aðilar væru virkjaðir.

Hópur 5, fulltrúar stofnana Háskólans. Fulltrúar stofnana Háskólans voru á einu máli um að háskólafundur væri afar mikilvægur vettvangur til þess að treysta tengsl þeirra við skólann. Á fundinum kæmi iðulega fram fróðleikur og upplýsingar sem forstöðumenn kynntu innan stofnana sinna í kjölfarið. Þá mætti ekki vanmeta félagslegt gildi fundarins fyrir háskólasamfélagið. Skiptar skoðanir voru innan hópsins um það, hvert vald háskólafundar ætti að vera. Loks kom fram það sjónarmið að ef til vill hefðu fulltrúar stofnana ekki nýtt sér þennan vettvang nógu vel og þar væri því um að ræða sóknarfæri.

Hópur 6, fulltrúar úr háskólaráði, fulltrúar skipaðir af menntamálaráðherra og formenn starfsnefnda háskólaráðs. Meðlimir hópsins voru þeirrar skoðunar að ekki væri fullt gagn af því að ræða um stöðu og framtíð háskólafundar nema hafa jafnframt til hliðsjónar stjórnkerfi Háskólans í heild, einkum verkaskiptinguna milli háskólafundar, háskólaráðs og deildarforseta. Til dæmis væri ónógt samband milli háskólaráðs og deildarforseta þótt að hluta til væri ráðin bót á því með reglulegum fundum rektors með deildarforsetum. Af þessum sökum væri nauðsynlegt að velta einnig fyrir sér skipan háskólaráðs. Þá þyrfti að velta því fyrir sér með opnum huga hvort ástæða væri til að endurskoða skiptingu í deildir og hvort þær væru hugsanlega of margar og smáar. Einnig velti hópurinn því fyrir sér hvort deildarforsetar ættu að vera skipaðir af rektor í stað þess að vera kjörnir. Fram kom það sjónarmið að styrkja þyrfti stjórnsýsluþátt deildanna. Loks töldu meðlimir hópsins að háskólafundur ætti að vera vettvangur sameiginlegrar stefnumótunar fyrir allt háskólasamfélagið. Því ættu fulltrúar á fundinum ekki að líta á sig sem fulltrúa deilda heldur sem fulltrúa Háskóla Íslands. Jafnframt ættu ýmis málefni einstakra deilda heima á háskólafundi og ef til vill væri hann rétti vettvangurinn til að leysa vandamál þeirra. Varðandi framkvæmd háskólafundar kom fram það sjónarmið að á vegum hans ættu að starfa nefndir á milli funda í því skyni að fá aukinn kraft í starfið. Þá ættu fulltrúar deilda á fundinum að vera þeir sömu og fara með stefnumótunarvinnu innan deildanna.

Hópur 7, framkvæmdastjórar og starfsfólk stjórnsýslu. Hópurinn var sammála um að auka mætti áhrif fundarins á faglega stefnumótun innan Háskólans án þess að breyta formlegri stöðu hans í lögum og reglum. Einnig töldu meðlimir hópsins gagnlegt að kennslumálanefnd og vísindanefnd háskólaráðs yrðu formlega settar undir háskólafund og að til viðbótar yrði stofnuð þróunarnefnd á vegum hans sem m.a. hefði það hlutverk með höndum að undirbúa næstu 5 ára áætlun Háskólans. Þá kæmi til greina að færa deildarforsetafund undir háskólafund, enda væri síðarnefndi fundurinn samráðsvettvangur deilda og annarra hópa innan háskólasamfélagsins. Ýmsar útfærslur á þessu fyrirkomulagi voru ræddar innan hópsins, s.s. að formenn nefndanna tækju sæti á deildarforsetafundum. Taldi hópurinn að hlutverkaskiptingin milli háskólaráðs og háskólafundar væri í grundvallaratriðum rökrétt, þótt vissulega mætti styrkja faglegt stefnumótunarhlutverk háskólafundar enn frekar. Í þessu skyni mætti t.d. virkja betur fulltrúa á fundinum við að gera grein fyrir málefnum deilda. Loks var þeirri hugmynd varpað fram að föstum fulltrúum á háskólafundi yrði fækkað en fundurinn yrði að öðru leyti opinn fyrir áheyrendum. Jafnframt mætti velta því fyrir sér hvort rektor þyrfti nauðsynlega að vera forseti fundarins.

Að loknum greinargerðum hópstjóra gaf rektor orðið laust.

Í umræðunni var tekinn upp þráðurinn þar sem frá var horfið í hópunum og vikið að ýmsum hliðum málsins.

Almennt um fundinn
Fundarmenn voru almennt á þeirri skoðun að háskólafundur hefði reynst mjög vel og að allar breytingar á núverandi fyrirkomulagi þyrftu að vera vel ígrundaðar.

Um hlutverkaskiptinguna milli háskólafundar, háskólaráðs, deilda og stjórnsýslu
Velti einn fundarmanna upp þeirri hugmynd að gerður yrði skýrari greinarmunur á eiginlegu háskólaþingi og stjórnsýslu en hingaðtil hefur verið. Yfir háskólaþingið yrði settur akademískur forseti sem væri virtur fræðimaður og talsmaður Háskólans út á við. Forseti háskólaþingsins myndi stýra fundum þess og móta allar akademískar reglur fyrir skólann en kæmi sjálfur ekki nálægt stjórnsýslu. Á hinn bóginn yrði það meginhlutverk háskólaráðs að stjórna fjármálum Háskólans og lyti það forystu eins framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjórinn væri jafnframt ábyrgur fyrir stjórnsýslunni allri og gerði þannig rektor kleift að helga sig hinni akademísku starfsemi. Með öðrum orðum yrðu skilin á milli akademískrar starfsemi og hreinnar stjórnsýslu skerpt.

Andstætt hugmyndinni um stjórnun háskóla í anda fyrirtækjastjórnunar tóku aðrir fundarmenn undir þá sýn sem rektor lýsti í framsögu sinni um skipan deildarforseta og framtíð Háskólans. Þessar hugmyndir væru í anda þeirrar lýðræðishefðar sem ríkt hefði í háskólum um heim allan öldum saman og samstaða væri um innan Háskóla Íslands. Ekki væri rétt að fylgja Dönum sem væru nú að innleiða kerfi sem m.a. gerði ráð fyrir að rektor væri ráðinn og hann réði deildarforseta o.s.frv. Reynslan utanlands sem innan sýndi að hætt væri við að rektorar sem væru ráðnir utanfrá hefðu ónógan skilning á eðli og starfsemi háskóla.

Loks var bent á að ekki þyrfti að stilla framangreindum möguleikum upp sem afarkostum heldur ættu skilvirkni og lýðræði samleið í stjórnun og starfi háskóla. Hvorugt mætti án hins vera, þótt í reynd væri ekki alltaf auðvelt að láta þessa tvo grundvallarþætti verka saman. Skilvirkni án lýðræðis væri ófrjó og einhæf um leið og lýðræði án skilvirkni væri ómarkvisst og svífandi. Hin óendanlega fjölbreytni í háskólum gerði rekstur þeirra flókinn, viðkvæman og erfiðan. Því væri stjórnun háskóla endalaust og óendanlega flókið ferli. Verkefni háskólafólks væri að sætta þessi sjónarmið. Eining lýðræðis og skilvirkni gerði einnig að verkum að ekki væri unnt að greina skýrt á milli akademískra mála og framkvæmdamála. Þessir tveir þættir í háskólastarfinu hlytu ætíð að renna saman og því væru akademískir starfsmenn sífellt að skipta sér af rekstri og stjórnsýslustarfsmenn að skipta sér af akademískum málefnum. Af þessum sökum væri ákjósanlegt að í stjórnsýslunni störfuðu akademískir starfsmenn við hlið hinna fastráðnu, eins og verið hefði í Háskólanum undanfarin ár. Á heildina litið væri fyrir öllu að starfsmenn Háskólans hugsuðu ekki aðeins um skyldur sínar við störf sín, fræði og stjórnun, heldur einnig um skyldur sínar gagnvart stofnuninni sem slíkri. Í dagsins önn vildi þetta stundum gleymast og hefðu starfsmenn þá tilhneigingu til að líta svo á að stofnunin væri fyrir þá en gleymdu því að þeir bæru ríkar skyldur gagnvart stofnuninni.

Um vald
Nokkuð var rætt um vald háskólafundar. Á það var bent að ef endurskoða eða auka ætti vald fundarins þyrfti hann öðru fremur að fá reglugerðarvald. Aðrir fundarmenn lögðu á það áherslu að aukið vald háskólafundar mætti ekki verða til þess að skerða vald deildanna. Ekki mætti þó takmarka umræðuna um háskólafund við valdshugtakið heldur þyrfti einnig að beina sjónum að starfsháttum deildanna því of lítið færi fyrir þeirri umræðu á deildarfundum.

Um starfshætti háskólafundar
Nokkrir fundarmenn lögðu orð í belg um starfshætti fundarins. Ítrekuð var sú skoðun, sem fram hafði komið í einum vinnuhópanna, að gagnlegt gæti verið að skipuleggja háskólafund sem málþing með framsögum. Í þessu sambandi var einnig nefndur sá möguleiki að fundurinn myndi hefjast með framsögum málefnahópa sem væru sérfróðir um tiltekin mál. Einnig var bent á það misræmi að deildaforsetar væru mjög vel upplýstir um þau mál sem væru á dagskrá háskólafundar meðan aðrir fundarmenn væru það iðulega ekki. Til að bregðast við þessu kæmi til greina að fleiri stjórnendur deilda tækju þátt í fundinum.

Einn fundarmanna gerði hlutverk stjórnsýslunnar við undirbúning og framkvæmd háskólafundar að umtalsefni. Lagði hann áherslu á að stjórnsýsluþátturinn ætti eftir sem áður að vera víkjandi á háskólafundi enda einkenndi góða stjórnsýslu að hún væri skilvirk og lítt áberandi. Hlutverk hennar væri öðru fremur að þjónusta deildir Háskólans svo að umræðan innan þeirra og á háskólafundi gæti beinst að mikilvægum akademískum málefnum.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Ólafur Þ. Harðarson, Ásdís Egilsdóttir, Þórarinn Sveinsson, Dagný Kristjánsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Inga Jóna Þórðardóttir, Halldór Jónsson, Björn Þ. Guðmundsson, Hörður Filippusson, Vilhjálmur Árnason, Jón Torfi Jónasson og Eiríkur Tómasson.

Kl. 17.10 - 17.30 - Dagskrárliður 2: Breyting á heiti heimspekideildar í hugvísindadeild

Rektor greindi frá því að ástæðuna fyrir því að þetta mál væri á dagskrá háskólafundar væri að finna í 2. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999, þar sem segði m.a.:

„Áður en lögum og reglum, er snerta háskólann eða háskólastofnanir, verður breytt eða við þau aukið skal háskólaráð leita umsagnar háskólafundar um breytingar eða viðauka, svo og um nýmæli. Nú varðar málefni sérstaklega eina deild, og skal háskólaráð þá leita álits hennar áður en það lætur uppi umsögn sína. Varði mál sérstaklega háskólastofnun sem ekki heyrir undir deild skal háskólaráð leita álits hennar áður en það lætur uppi umsögn sína.“

Oddný G. Sverrisdóttir, forseti heimspekideildar, gerði nánari gein fyrir málinu. Skýrði Oddný frá því að tillaga um að breyta heiti heimspekideildar í hugvísindadeild hefði fyrst verið borin upp af Álfrúnu Gunnlaugsdóttur prófessor árið 2002. Tillagan hefði verið rædd ítarlega innan heimspekideildar og á árinu 2003 hefði hún loks verið borin upp og samþykkt á deildarfundi með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Í kjölfarið hefði tillagan verið lögð fram í háskólaráði og samþykkt á fundi þess 15. júní 2004.

Næst rakti Oddný í stuttu máli helstu rök fyrir breytingunni. Í fyrsta lagi væri það viðtekin venja í flestum erlendum háskólum að kenna þau fræði sem lögð er stund á í heimspekideild við hugvísindi; slíkar deildir nefndust t.d. iðulega á ensku faculty of humanities. Í öðru lagi teldi meirihluti deildarmanna að heitið hugvísindadeild væri gagnsætt og endurspeglaði betur en heitið heimspekideild þá starfsemi sem þar færi fram. Í þriðja lagi væri heitið heimspekideild villandi því það virtist vísa til fræðigreinarinnar heimspeki og ennfremur væri heitunum heimspekideild og heimspekiskor iðulega ruglað saman. Í fjórða lagi ætti orðhlutinn "speki" sér enga hliðstæðu í heitum annarra deilda heldur væru þær ýmist kenndar við „vísindi“ eða „fræði“.

Loks greindi Oddný frá því að nafnbreytingin fæli ekki í sér breytingu á eðli og starfsemi deildarinnar. Meirihluti deildarmanna hefði samþykkt breytinguna og hefði aðeins um þriðjungur þeirra verið henni mótfallnir eða ekki tekið afstöðu. Því væri málið nú lagt fram á háskólafundi.

Rektor þakkaði Oddnýju fyrir kynninguna og gaf orðið laust. Aðeins tveir fundarmanna tóku til máls.

Lýsti annar þeirra þeirri skoðun sinni að þótt lög um Háskóla Íslands krefðust þess að málið yrði lagt fyrir háskólafund væri engin ástæða fyrir fulltrúa fundarins að gera efnislegar athugasemdir við breytinguna nema þeir teldu hana skaðlega fyrir Háskólann í heild. Heimspekideild ætti alfarið að ráða þessu sjálf.

Hinn fundarmaðurinn tók fram að breytingin á heiti heimspekideildar í hugvísindadeild væri ekki afturvirk og að hið nýja heiti yrði tekið upp á prófskírteinum er háskólaráð hefði gengið frá breytingu á reglum Háskólans og þær birtar í Stjórnartíðindum. Væntanlega yrði síðasta brautskráning undir heiti heimspekideildar 23. október nk. og hin fyrsta undir heiti hugvísindadeildar í febrúar 2005.

Fleiri tóku ekki til máls.

Að umræðu lokinni bar rektor tillöguna undir atkvæði.

- Samþykkt samhljóða með lófataki.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Oddnýjar G. Sverrisdóttur, Ólafur Þ. Harðarson og Brynhildur Brynjólfsdóttir.

Að lokum þakkaði rektor fundarmönnum fyrir góðan fund og málefnalegar umræður.

Fleira var ekki gert.

Rektor sleit fundi kl. 17.30.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 14. háskólafundi 17. september 2004:

1. Dagskrá 14. háskólafundar 17. september 2004.
2. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3. Reglur fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000 með áorðnum breytingum. Úrdráttur fyrir háskólafund.
4. Minnisblað Magnúsar Diðriks Baldurssonar um framvindu stefnumótunarstarfs við Háskóla Íslands 1997-2004.
5. Hlutverk háskólafundar. Glærur við framsöguerindi Ingjalds Hannibalssonar á 13. háskólafundi 21. maí 2004.
6. Minnisblað Þórðar Kristinssonar um þau málefni sem háskólaráð skal leita umsagnar háskólafundar um skv. lögum um Háskóla Íslands nr. 41/1999.
7. Minnisblað Þórðar Kristinssonar um nokkur mál í vinnslu sem eðlilegt er að rædd séu á háskólafundi.
8. "Markmið og skipulag háskóla". Grein eftir Pál Skúlason háskólarektor.
9. Minnisblað rektors: Hugmyndir um hvernig háskólafundur getur betur gegnt hlutverki sínu.
10. Listi yfir umræðuhópa á 14. háskólafundi 17. september 2004.
11. Bréf og greinargerð frá heimspekideild um breytingu á heiti deildarinnar úr heimspekideild í hugvísindadeild.