Skip to main content

Tómstunda- og félagsmálafræði, M.Ed.

Tómstunda- og félagsmálafræði, M.Ed.

Menntavísindasvið

Tómstunda- og félagsmálafræði

M.Ed. gráða – 120 einingar

Tómstundir, frítími og félagsmál verða sífellt mikilvægari þættir í lífi fólks. Námið er ætlað þeim sem vilja virkja og valdefla fólk á vettvangi félagsmiðstöðva, frístundaheimila, félagsstarfi aldraðra, í æskulýðsstarfi og/eða innan skólastofnana. Í náminu fá nemendur þekkingu á fræðasviði tómstunda- og félagsmála.  

Námið er sniðið að nemendum sem hafa lokið BA-prófi eða sambærilegu námi á sviði tómstunda- og félagsmálafræði eða skyldra greina.

Skipulag náms

X

Tómstundafræði og forysta (TÓS102F)

Markmið
Viðfangsefni: Forysta, fagmennska og markmið stofnana á vettvangi frítímans. Þátttakendur fá tækifæri til að kafa ofan í menningu stofnana, starfsanda, traust, gildi, krísur, hvatningu og tilfinningagreind. Fagmennska á vettvangi frítímans verður í brennidepli, samspil vettvangsins við aðra þætti menntakerfisins og hugmyndir um lærdómsumhverfi.

Fjallað verður um hlutverk leiðtogans í samfélagi án aðgreiningar og framþróun á sviðinu í íslensku sem og alþjóðlegu samhengi. Nemendum gefst kostur á að tengja hugmyndir sínar, þekkingu og reynslu af vettvangi við viðfangsefni námskeiðsins.

Þátttakendur námskeiðs fá töluvert frelsi til athafna í verkefnavinnu og verða hvattir til sjálfstæðra vinnubragða og að leggja sitt af mörkum til viðfangsefna námskeiðs, eftir áhugasviði og þörfum nemendahópsins.

Vinnulag:
Kennt verður að jafnaði vikulega en tilhögun náms er þó sveigjanleg, óháð búsetu nemenda. Gert er ráð fyrir að þeir sem ekki eiga kost á því að sækja kennslustundir í rauntíma vinni verkefni á vef vikulega. Þátttökuskylda er í staðlotum og málstofum.

Vendinám, fyrirlestrar, umræður, samvinnuverkefni og einstaklingsvinna við ritgerð og lestrardagbók. 

Í lok námskeiðs sjá nemendur um málstofur tengdar viðfangsefni námskeiðsins. 

X

Þróunarstarf í menntastofnunum (STM110F)

Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur öðlist hagnýta og fræðilega þekkingu á einkennum þróunarstarfs og þáttum í menningu menntastofnana sem stuðla að umbótum eða hindra þær. Jafnframt öðlist þeir leikni í að skipuleggja og leiða þróunarstarf, starfsþróunartækifæri og móta þróunaráætlanir. Byggt er á kenningum um faglegt lærdómssamfélag sem gerir ráð fyrir að faglegt nám og þróun stofununar séu nátengd.

Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:

  • hafa skilning á helstu hugtökum og kenningum um þróun menntastofnana og skóla sem og frístundastofnana sem lærdómssamfélags,
  • geta tekið faglegar ákvarðanir um leiðir í starfs og skólaþróun sem og þróun frístundastofnana og rökstutt þær,
  • geta aflað fjölbreyttra gagna um þróunarstarf og metið gildi þeirra,
  • geta beitt hugtökum, kenningum, líkönum og aðferðum á raunveruleg viðfangsefni,
  • geta átt frumkvæði og haft forystu um rannsóknar- og þróunarverkefni í mennta- og frístundastofnunum til að efla fagmennsku,
  • geta greint leiðir til að efla kennara og starfsfólk frístundastarfi í með þátttöku alls samfélagasins.

Námskeiðið er skipulagt í lotum með fjarnámssniði, staðlotur (skyldumæting er í fyrri staðlotu) eru tvær auk kynninga á lokaverkefnum. Þess á milli fer fram lestur fræðilegs efnis, verkefnavinna og samræður þátttakenda. Auk þess býðst nemendum að taka þátt í umræðutímum um viðfangsefnin. Verkefni námskeiðsins eru hagnýt og tengjast þróunarstarfi og leiðsögn við raunverulegar aðstæður. Lögð er áhersla á samræðu og samstarf nemenda samhliða sjálfstæði í vinnubrögðum og frumkvæði auk virkni í umræðum og lestri fræðilegs efnis.

Námsmat byggir á fjölbreyttum verkefnum sem ýmist eru unnin í samvinnu við aðra eða eru einstaklingsverkefni. 

X

Heilsuefling, íþróttir og tómstundir – fræði og vettvangur (HÍT101F)

Námskeiðið er ætlað nemendum sem eru að hefja framhaldsnám í Deild heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda. Í því verður ljósi varpað á mikilvæg hugtök og kenningar sem notuð eru í þeim fræðigreinum sem kenndar eru í deildinni. Í námskeiðinu verður lögð áhersla á að rýna í hvernig ólíkir þættir, svo sem heilsuhegðun og félagslegt umhverfi, og sampil þeirra hafa áhrif á heilsu og lífsgæði fólks. Fjallað verður um viðfangsefni sem eru efst á baugi í samfélaginu og varða hreyfingu, næringu, heilsueflingu, lífsleikni, nám og þroska og tengsl þeirra við andlega, líkamlega og félagslega velferð einstaklinga. Lögð er áhersla á að nemendur tileinki sér gagnrýna og skapandi nálgun á viðfangsefni sem tengjast náið þeim vettvangi sem þeir munu starfa á að námi loknu. Nemendur æfa í því skyni teymisvinnu og efla samskipti út frá hugmyndafræði þverfræðilegrar samvinnu. Nemendur fá tækifæri til að dýpka þekkingu sína í tilteknu viðfangsefni sem valið er í samráði við kennara og munu í lok námskeiðs setja fram áætlun um nám sitt.

X

Stjórnun og menntun - reynsla af vettvangi (STM029F)

Markmið námskeiðs er að nemendur öðlist innsýn í dagleg störf og umhverfi skólastjórnenda og stjórnenda á vettvangi frítímans. Það gætu verið skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar i leik- grunn- og framhaldsskólum, stjórnendur frístundamiðstöðva, frístundaheimila og félagsmiðstöðva eða stjórnendur á sviði æskulýðsmála. Markmiðið er að nemendur geti fjallað um dagleg störf og umhverfi í fræðilegu samhengi, að þeir kynni sér áhrif námskráa, laga og reglugerða á störf stjórnenda og skipulag og innihald skóla- og frístundastarfs.

Námskeiðið tekur til þátta er tengjast daglegum störfum skólastjórnenda og stjórnenda á vettvangi frítímans, s.s. rekstri, starfsmannasjórnun og faglegri forystu, starfsþróun og mati á skólastarfi. Nemendur fylgja einum stjórnanda í 4-5 daga sem dreifast á 4-6 vikur. Á vettvangi safna nemendur gögnum sem nýtast við vinnslu verkefna námskeiðsins. Nánari leiðbeiningar verða veittar við upphaf námskeiðsins.

Áður en nemendur fara á vettvang hafa þeir samband við umsjónarkennar sem í samráði við nemanda finnur stjórnanda til að fylgja. Í lok námskeiðs kynna nemendu verkefni sín á málstofu.

X

Samstarf um farsæld barna í frístunda- og skólastarfi (TÓS201M)

Í þessu námskeiði er sjónum beint að samstarfi ólíkra fagstétta sem tengjast frístunda- og skólastarfi, s.s. á sviði tómstunda- og félagsmálafræði,  kennslu, þroskaþjálfafræði og íþróttastarfi. Námskeiðið miðar að því að efla þekkingu nemenda á þverfaglegu samstarfi ólíkra fagstétta og hvaða þekking verður til á landamærum þeirra.

Fjallað verður um ávinning og áskoranir í þverfaglegu samstarfi og gildi þess fyrir börn og ungmenni í frístunda- og skólastarfi, ekki síður en starfsfólk, stofnanir og menntakerfi í stærra samhengi. Kenningum um ólíkar víddir samstarfs og fjölbreytt starfssamfélög verður gerð skil sem og rannsóknum á trausti og þekkingu sem byggist upp í þverfaglegu samstarfi.

Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna verða skoðuð og hvaða tækifæri felast í þeim fyrir þverfaglegt samstarf. Nemendur þjálfast í gagnrýnu hugarfari og borgaralegri virkni með því að vega og meta kosti og galla samstarfsverkefna, sem og hvar samstarf milli stofnana og fagstétta skortir. 

Námskeiðið hentar þeim sem stefna að því að starfa með börnum og ungmennum, hvort heldur er í formlegu, hálfformlegu eða óformlegu uppeldis-, íþrótta, frístunda- eða skólastarfi. Námskeiðið hentar einnig starfsfólki og stjórnendum sem nú þegar starfa í frístunda-, íþrótta- eða skólastarfi.

Vinnulag og væntingar
Stuðst verður við vendikennslu og kennslustundir nýttar til umræðna og úrvinnslu. Þess er vænst að nemendur taki virkan þátt í umræðu eða skili inn ígrundun ef þeir ekki komast í umræðutíma. 

Alla námsþætti verður að standast með lágmarkseinkunn. 

X

Siðfræði og samfélag (MVS210F)

Viðfangsefni
Í námskeiðinu verða greind tiltekin siðferðileg álitamál í íslensku samfélagi. Sjónum verður beint að siðferðilegum spurningum sem til dæmis tengjast heilbrigðis, umhverfis- og menntamálum. Dregið verður fram hvað einkennir sérstaklega siðferðilegan vanda og rætt hvernig hægt er að takast á við hann. Til að nálgast það verkefni verða skoðuð dæmi um siðferðileg málefni í opinberri umræðu í íslensku samfélagi, þau greind þar sem átakalínur og undirliggjandi gildi verða skoðuð. 

X

Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum (MVS212F)

Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Einnig um siðfræði vísinda með áherslu á hagnýt atriði og um gæðahugtök, s.s. réttmæti, trúverðugleika og ólíka sýn á þessi hugtök. Í námskeiðinu beinist athyglin að eigindlegum aðferðum. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemar fá nokkra þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a. vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum. Þá vinna nemar með öflun, skráningu, flokkun, greiningu og túlkun gagna, og með framsetningu þeirra og gera heildstæða rannsóknaræfingu.

Fyrirlestrar, umræður og verkefni. Skyldumæting er í staðlotum.

X

Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðum (MVS213F)

Markmiðið er að nemendur

  • hafi innsýn í megindlega aðferðafræði á sviði rannsókna í uppeldis- og menntunarfræði
  • þekki helstu rannsóknaraðferðir og hugtök sem þeim tengjast
  • geti beitt algengum rannsóknaraðferðum og þannig aflað gagna, unnið úr þeim og túlkað á agaðan og viðurkenndan hátt
  • séu færir um að rýna í rannsóknir og nýta sér niðurstöður þeirra
  • hafi tileinkað sér rannsakandi hugarfar og gagnrýna hugsun

Kynnt verða algeng rannsóknarsnið megindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna.  Nemendur nota tölvuforrit til að reikna algenga tölfræðistuðla og halda utan um og vinna úr gögnum. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í túlkun matsniðurstaðna sem líklegt er að verði á vegi þeirra hópa sem taka námskeiðið.

Fyrirlestrar á vef, umræður og verkefni. Námskeiðið er kennt vikulega en fyrirlestrar verða eingöngu á vef. Verkefnatíma verða ekki teknir upp. Ekki er mætingarskylda í námskeiðið en nemendur eru hvattir til að mæta í kennslustundir.

Nemendur verða að hafa Jamovi (sjá nýjustu útgáfu á https://www.jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir. 

Lesefni: Kaflar 1-11 í Navarro DJ and Foxcroft DR (2019). Learning statistics with jamovi: a tutorial for psychology students and other beginners. (Version 0.70). DOI: 10.24384/hgc3-7p15. Rafræn ókeypis kennslubók sem hala má niður á síðunni https://www.learnstatswithjamovi.com.

X

Starfendarannsóknir (MVS011F)

Inntak / viðfangsefni
Á námskeiðinu verður farið yfir tilurð og þróun starfendarannsókna í ýmsum löndum, m.a. Japan, Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Rýnt verður í hugmyndafræði slíkra rannsókna og hinar margvíslegu myndir sem þær hafa tekið á sig og birtast í ólíkum orðum sem notuð eru um slíkar rannsóknir, t.d. starfendarannsóknir (action research), kennararannsóknir (teacher research), kennslurýni (lesson study), starfstengd sjálfsrýni (self-study) og practitioner research. Sérstök áhersla verður lögð á starfendarannsóknir í skólum og öðrum vettvangi menntunnar, þar á meðal á Íslandi og ákveðin dæmi skoðuð í því sambandi. Megináherslan í námskeiðinu er á að þátttakendur geri rannsókn á eigin starfi/starfsháttum og kynni hana í námskeiðinu. Ekki er skilyrði að nemendur séu í starfi þegar þeir taka námskeiðið.

Vinnulag
Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað. Grunnhugmyndin er sú að þátttakendur geri rannsókn í tengslum við eigið starf í samráði við kennara og aðra þátttakendur í námskeiðinu og vinni úr henni í nánu samstarfi við kennara og aðra þátttakendur, t.d. í gegnum ígrundanir, kynningar og samræður. Nemendur halda leiðarbók eða rannsóknardagbók um rannsókn sínar og gera lestrardagbók í tengslum við lestur fræðigreina. Að auki taka þeir þátt í ýmis konar verkefnum og umræðum á netinu.

X

Lokaverkefni (TÓS441L)

Lokaverkefni til M.Ed.-prófs er einstaklingsverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda/leiðbeinenda.

Nemendur skulu hafa samráð við formann námsbrautar um val á leiðbeinanda. Leiðbeinandi er að jafnaði valinn úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs.

Val viðfangsefnis er fyrst og fremst á ábyrgð nemandans en í samráði við leiðbeinanda. Þess skal gætt að verkefnið tengist vettvangi og sérsviði því sem nemandi hefur valið, það er að segja, að verkefnið tengist viðfangsefnum viðkomandi námsleiðar og einnig kjörsviði/sérsviði/námssviði þar sem það á við. Verkefnið getur verið af ólíku tagi, til dæmis fræðileg ritgerð, sjálfstæð rannsókn, starfstengt þróunar- eða matsverkefni, námskrár- eða námsefnisgerð og fleira.

Að öllu jöfnu tekur undirbúningur og vinna lokaverkefnis a.m.k. tvö misseri. Nemendur skulu fylgja nánari leiðbeiningum og reglum um verklag við M.Ed.-verkefni sem birtar eru á innri vef Menntavísindasviðs, Uglu: Fræðasvið >> Menntavísindasvið >> Lokaverkefni til meistaraprófs.

X

Reynslunám og lífsleikni (TÓS101F)

Markmið
Meginmarkmið námskeiðsins er að efla skilning og þekkingu nemenda á reynslumiðuðu námi, hópefli, lífsleikni og ígrundun.

Leitað verður leiða til að þátttakendur:

  • eflist í frumlegum og skapandi vinnubrögðum.
  • velti fyrir sér í hverju fagurfræðileg eða hrifnæm upplifun felst og hvaða áhrif hefur hún á okkar innra líf.
  • ígrundi tengsl fagurfræði við náttúru, sköpun og daglegt líf; hvernig fagurfræði getur stuðlað að aukinni umhverfisvitund og upplifun í leik og í námi.

Lögð er áhersla á að nemendur ígrundi hvernig nám á sér stað og að þeir öðlist hæfni til að skipuleggja námsumhverfi sem styður við reynslunám og virkni.

Lífsleikni er vítt hugtak sem felur í sér sjálfsþekkingu, samskipti, sköpun og lífsstíl. Á námskeiðinu er skoðað hvernig styðja megi við lífsleikni og skapandi vinnu innan tómstunda- og skólastarfs.

Inntak
Út frá reynslumiðuðu sjónarhorni er unnið með viðfangsefnið að leika, læra og þroskast með sérstakri áherslu á tengsl formlegs, hálfformlegs og óformlegs náms og gildi tómstundafræðinnar.

Í námskeiðinu eru skoðaðar fræðilegar undirstöður reynslunáms, ekki síst kenning Deweys og Kolbs og hópefliskenningar t.d. um hvað er hópur og hvernig hópur verður til. Enn fremur er rýnt í fræðilegar rætur lífsleikni, með áherslu á siðferðis- og skapgerðamenntun í skóla- og frístundastarfi.

Til skoðunar er að nemendur taka þátt í reynslumiðaðri upplifun (t.d. með Wunderland hópnum), framkvæma sjálf lífsleikniverkefni og ígrunda eigin þroska- og námsstíl. Þá kanna og ræða nemendur fjölbreyttar leiðir til að stuðla að reynslunámi einstaklinga og hópa innan formlegs, hálf-formlegs og óformlegs námsumhverfis.

Vinnulag

Í september, október og nóvember byggir kennslan á umræðu- og vinnutímum eini sinni í viku (miðvikudaga 8.30-10.30) með innleggjum frá nemendum, kennurum og fagfólki á vettvangi.  Stefnt er á að vera með langa námslotu frá föstudegi 14. okt kl. 15 til sunnudags 16. okt kl. 16 þar sem dvalið verður utan Reykjavíkur. Unnið verður reynslumiðað úti og inni. 
Nemendur halda ígrundandi leiðarbók (reflective journal) á námskeiðinu og undirbúa og framkvæma reynslunám í verki. Námsmat og áherslur í námskeiðinu eru mótaðar í samvinnu við nemendur og þannig reynt að vera trú því að vinna með reynslumiðuðum hætti. 

Mætingarskylda er í námskeiðið þar með talið ferðin og umræðu- og vinnutíma einu sinni í viku. Leitast verður við að finna leiðir þannig nemendur sem búa fjarri Reykjavík geta tekið þátt í tímum á miðvikudögum í fjarfundi í rauntíma.

Reikna má með nokkrum kostnaði vegna ferða á námskeiðinu, allt að 12.000 kr.

X

Megindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS302F)

Markmið
Að nemendur þekki og geti beitt algengustu tölfræðiaðferðum við úrvinnslu gagna og geti metið tölfræðilegar niðurstöður. Að nemandi hafi kunnáttu og þekkingu til þess að greina og miðla tölulegum upplýsingum skv. APA útgáfustaðlinum (t.d. í lokaritgerð) og geti sýnt frumkvæði við tölfræðilega úrvinnslu gagna. Einnig að nemendur kynnist helstu rannsóknarsniðum í megindlegri aðferðafræði.

Inntak og viðfangsefni
Fjallað verður um megindlegar rannsóknaraðferðir og rannsóknarsnið. Í tölfræði verður mest áhersla lögð á fylgni og aðhvarfsgreiningu. Einnig verður farið í aðferðir dreifigreiningar og þáttagreiningar. Að lokum verða nemendur kynntir fyrir grunnhugsun Bayesískrar tölfræði og mati á heildarvillu (e. Total survey error). Nemendur læra að vinna greiningar með tölfræðiforriti. Mikil áhersla verður á túlkun og miðlun megindlegra niðurstaðna skv. APA útgáfustaðlinum.

Vinnulag
Námskeiðið verður kennt vikulega á fjarfundum. Tvær staðlotur eru á önninni. Skyldumætingu er í staðlotunum. Þeir sem eiga um langan veg að fara geta tekið þátt í staðlotunum í fjarfundi.  Nemendur verða að hafa nýjustu stöðugu (e. solid) útgáfu af Jamovi (sjá jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir. 

X

Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS301F)

Í námskeiðinu verða teknar fyrir eigindlegar rannsóknaraðferðir, einkenni þeirra og saga.  Rauður þráður í gegnum námskeiðið verður gildi og hlutverk rannsókna við þróun skólastarfs og tengsl við fagmennsku í uppeldis-, menntunar- og þjálfunarstörfum.  Kynntar verða helstu rannsóknarleiðir eða nálganir innan eigindlegar aðferða, s.s. etnógrafía, fyrirbærafræði. Fjallað verður um aðferðir við gagnasöfnun og mismunandi tegundir gagna, s.s. vettvangsathuganir, áhorfsathuganir, viðtöl af ýmsum gerðum, vettvangsnótur og fyrirliggjandi gögn bæði sjónræn og textar. Kynntar verða mismunandi leiðir til að túlka og greina gögnin t.d. þema-, frásagnar- og orðræðugreining og nemendur þjálfaðir í að koma niðurstöðum frá sér á skipulegan og vandaðan hátt.

Vinnulag:
Fastir kennslutímar verða vikulega. Tímarnir (fyrir utan staðlotur) verða teknir upp og verða aðgengilegir fjarnemum.  Kennslan samastendur af fyrirlestrum, umræðum og/eða verkefnum. Nemendur vinna virkniverkefni saman sem þeir skila vikulega. Staðnemar  vinna þau í tímum en fjarnemar vinna þau saman í hópum. Einnig er gert ráð fyrir umræðum um efni fyrirlestranna á facebook.

X

Lokaverkefni (TÓS441L)

Lokaverkefni til M.Ed.-prófs er einstaklingsverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda/leiðbeinenda.

Nemendur skulu hafa samráð við formann námsbrautar um val á leiðbeinanda. Leiðbeinandi er að jafnaði valinn úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs.

Val viðfangsefnis er fyrst og fremst á ábyrgð nemandans en í samráði við leiðbeinanda. Þess skal gætt að verkefnið tengist vettvangi og sérsviði því sem nemandi hefur valið, það er að segja, að verkefnið tengist viðfangsefnum viðkomandi námsleiðar og einnig kjörsviði/sérsviði/námssviði þar sem það á við. Verkefnið getur verið af ólíku tagi, til dæmis fræðileg ritgerð, sjálfstæð rannsókn, starfstengt þróunar- eða matsverkefni, námskrár- eða námsefnisgerð og fleira.

Að öllu jöfnu tekur undirbúningur og vinna lokaverkefnis a.m.k. tvö misseri. Nemendur skulu fylgja nánari leiðbeiningum og reglum um verklag við M.Ed.-verkefni sem birtar eru á innri vef Menntavísindasviðs, Uglu. 

X

Samstarf um farsæld barna í frístunda- og skólastarfi (TÓS201M)

Í þessu námskeiði er sjónum beint að samstarfi ólíkra fagstétta sem tengjast frístunda- og skólastarfi, s.s. á sviði tómstunda- og félagsmálafræði,  kennslu, þroskaþjálfafræði og íþróttastarfi. Námskeiðið miðar að því að efla þekkingu nemenda á þverfaglegu samstarfi ólíkra fagstétta og hvaða þekking verður til á landamærum þeirra.

Fjallað verður um ávinning og áskoranir í þverfaglegu samstarfi og gildi þess fyrir börn og ungmenni í frístunda- og skólastarfi, ekki síður en starfsfólk, stofnanir og menntakerfi í stærra samhengi. Kenningum um ólíkar víddir samstarfs og fjölbreytt starfssamfélög verður gerð skil sem og rannsóknum á trausti og þekkingu sem byggist upp í þverfaglegu samstarfi.

Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna verða skoðuð og hvaða tækifæri felast í þeim fyrir þverfaglegt samstarf. Nemendur þjálfast í gagnrýnu hugarfari og borgaralegri virkni með því að vega og meta kosti og galla samstarfsverkefna, sem og hvar samstarf milli stofnana og fagstétta skortir. 

Námskeiðið hentar þeim sem stefna að því að starfa með börnum og ungmennum, hvort heldur er í formlegu, hálfformlegu eða óformlegu uppeldis-, íþrótta, frístunda- eða skólastarfi. Námskeiðið hentar einnig starfsfólki og stjórnendum sem nú þegar starfa í frístunda-, íþrótta- eða skólastarfi.

Vinnulag og væntingar
Stuðst verður við vendikennslu og kennslustundir nýttar til umræðna og úrvinnslu. Þess er vænst að nemendur taki virkan þátt í umræðu eða skili inn ígrundun ef þeir ekki komast í umræðutíma. 

Alla námsþætti verður að standast með lágmarkseinkunn. 

X

Stjórnun og forysta (STM109F)

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur fái innsýn í stjórnsýslufræði og stjórnun menntastofnana sem fræðigrein, kynni sér fjölþætt hlutverk stjórnenda, helstu hugtök og nýlegar rannsóknir og verksvið þeirra og ábyrgð. 

Kenningar og hugtök um stjórnun og forystu í menntastofnunum ásamt umfjöllun um nýlegar rannsóknir eru helstu viðfangsefnin á námskeiðinu. Fjallað er um fjölþætt hlutverk stjórnenda í menntastofnunum, um forystu og kyngervi/ferði, gildi stjórnenda og siðferði í menntastjórnun. Áhersla er lögð á forystuhlutverk stjórnenda. Jafnframt verður ráðgjafarþætti stjórnenda við kennara og aðra starfsmenn skóla sérstakur gaumur gefinn ásamt forystuhlutverki þeirra við breytinga- og þróunarstörf. Þá verða rannsóknir á hlutverkum stjórnenda í menntastofnunum kannaðar með sérstakri áherslu á nýlegar íslenskar rannsóknir.

X

Skipulag og stefnumótun í ferðamennsku (FER111F)

Viðfangsefni þessa námskeiðs er skipulagning og stefnumótun í ferðamennsku út frá umhverfis-, félags- og efnahaglegum þáttum. Í víðum skilningi snerta skipulagsmál alla þætti ferðamennsku. Nemendur læra um hugmyndafræðilegar forsendur skipulagsvinnu, sögulega þróun stefnumótunar á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi með sérstakri áherslu á sjálfbæra þróun og Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna. Í námskeiðinu fá nemendur í hendur verkfæri til að lýsa, greina og meta forsendur, mótun og innleiðingu skipulags- og stefnumótunarvinnu í ferðaþjónustu þar sem lagt er upp úr að brúa milli fræðilegrar umræðu og hagnýtingar. Kennsla byggir á virkri þátttöku nemenda og námsmat reynir bæði á sjálfsstæði nemenda og hæfni þeirra til að vinna saman.

X

Sjálfræði og kynverund (ÞRS102F)

Í námskeiðinu er fjallað um kenningar um aðstæðubundið sjálfræði og með hvaða hætti megi nota þær til að stuðla að auknu sjálfræði þeirra sem þurfa mikinn stuðning í daglegu lífi. Einnig er fjallað um hugtökin kyngervi og kynverund í samhengi við líf og reynslu fatlaðs fólks. Leitast verður við að fjalla um hugtakið sjálfræði út frá siðfræðilegum skilningi og í því skyni verður fjallað um kenningar femínista um hugtakið aðstæðubundið sjálfræði. Skoðaðar verða ýmsar hliðar sjálfræðis eins og til dæmis hvernig megi auka virðingu fyrir persónueinkennum, sjálfstæði, kynhlutverkum og kynverund. Sjónum er beint að því hvernig litið hefur verið á fatlað fólk sem eilíf börn, kynlaus eða með hömlulausa kynhvöt. Þessar mótsagnakenndu staðalmyndir hafa orðið til þess að fatlað fólk hefur takmarkað aðgengi að fullorðinshlutverkum. Í námskeiðinu er sjálfræðishugtakið tengt við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

X

Menningartengd ferðaþjónusta (FER110F)

Í námskeiðinu verður hugað að þýðingu og skilgreiningu hugtaksins menningar í menningartengdri ferðaþjónustu með sérstöku tilliti til framsetningar og miðlunar ímynda og menningar á mismunandi vettvangi. Velt verður upp pólitískum og siðferðilegum spurningum hvað varðar söfnun, framsetningu og miðlun menningar í mismunandi samhengi og á mismunandi vettvangi, erlendis og hérlendis. Einnig verða skoðuð tengsl ferðaþjónustu við skapandi greinar. Spurningum varðandi eignarhald á menningararfleifð verða íhugaðar svo og í höndum hvers það að skapa menningararfleifð er.

X

Hagnýt matsfræði í skólum, uppeldisstarfi og heilbrigðisþjónustu (STM106F)

Markmið námskeiðsins er að nemi fái grunnþekkingu í matsfræðum og öðlist hagnýta færni í að undirbúa sjálfsmat og tengja það við umbótastarf.
Viðfangsefnin fel í sér umfjöllun um innra mat ólíkra starfseininga og rýnt verður í dæmi af sjálfsmatsverkefnum og umbótastarfi. Rætt verður um megintilgang mats, kynntar mismunandi matsaðferðir og matsstaðlar, rýnt í gagnaöflun, greiningu gagna og mismunandi framsetningu á niðurstöðum. Rætt verður um siðferðileg álitaefni sem tengjast mati. Þá verða rannsóknir á mati, t.d. í skólastarfi kannaðar.
Vinnulag felst í hagnýtum verkefnum í tengslum við starfsvettvang og áhuga þátttakenda þar sem rædd eru afmörkuð viðfangsefni og tiltekið lesefni, unnin smærri verkefni sem ætluð eru til að undirbúa stærra sjálfsmatsverkefni í tengslum við eigin starfsvettvang.

Þetta misseri (haust 2022) er námskeiðið netnámskeið og 80% skyldumæting er í kennslustundir sem verða annan hvern mánudag kl. 14.10–16.30. Þá er skyldumæting í vinnupartý laugardaginn 15. október kl. 9–13. Fyrsta kennslustund er mánudaginn 29. ágúst. Sjá nánar upplýsingar á námskeiðsvefnum Canvas.

X

Samskipti, félagsfærni og vinátta (TÓS301F)

Á námskeiðinu er fjallað um árangursríkar forvarnir gegn einelti og annarri særandi hegðun. Byggt er á kenningum um jákvæð samskipti og heilbrigð sambönd. Einnig er áhersla á aðferðir í vinnu með einstaklinga í félagslegum vanda. Þátttakendur í námskeiðinu fá tækifæri á að þjálfa sig í beitingu aðferðanna. Námskeiðið er því í senn fræðilegt og hagnýtt.

Byggt er á sjónarmiðum um einelti sem félagslegt vandamál sem þarfnast félagslegra lausna; aðgerða sem beinast hvoru tveggja að öllum hópnum og einstaklingum.

Á námskeiðinu er stuðst við reynslunám og þjálfast nemendur í fræðilegum vinnubrögðum jafnt sem verklegum. Hugtökin forvarnir, samskipti, sambönd (e. relationships), félagsfærni og vinátta verða krufin.

Vinnulag: Námskeiðið er kennt í tvo hálfa daga í tveimur staðlotum meistaranáms og þar fyrir utan í sex skipti. Samtals tíu hálfir dagar. Auk þess þurfa nemendur að vinna verkefni á vettvangi. 

X

Foreldrafræðsla: Stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu (FFU301F)

Fjallað verður um tilgang þess að styðja við hæfni foreldra og um hugtök, rannsóknir og kenningar um nám og þroska fullorðinna/foreldra. Þýðing þessara kenninga fyrir foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf verður skoðuð í gagnrýnu ljósi og greindir þættir sem hafa áhrif á samskipti foreldra og barna. Stuðlað verður að fagmennsku hvers og eins með áherslu á að kanna þá þekkingu og hæfni sem mikilvægt er að þeir sem sinna foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf búi yfir.

X

Félagsfærni og sjálfsefling með áherslu á hegðun og bekkjarstjórnun (ATF001F)

Námslýsing á íslensku:* 

Tilgangur námskeiðsins er að þátttakendur – starfandi grunnskólakennarar og aðrir stjórnendur hópa í skólakerfinu – efli þekkingu sína á aðferðum sem stuðla að æskilegri hegðun nemenda. Þeir læri að beita árangursríkum aðferðum sem byggja á trausti og virðingu, styðja við félagsfærni og sjálfseflingu nemenda sinna og stuðla að bættri líðan þeirra.

Þættir sem unnið er með: a) Framkvæmd mats á stöðu bekkjarstjórnunar/hópstjórnunar og styrkleikar bekkjar/hópa metnir. Reglur um hegðun nemenda mótaðar og þjálfun í kennslu þeirra. Æfingar í að nota skýr fyrirmæli til að efla samstarf. b) Þjálfun í notkun hvatningar með margbreytilegum hætti, bæði með bekknum í heild sinni og fyrir einstaklinga. c) Farið yfir jafnvægi í notkun hvatningar og leiðum til að stöðva erfiða hegðun. Praktískir þættir í bekkjarstjórnun skoðaðir nánar og æfðir. d) Markviss notkun lausnaleitar kennd og mikilvægir þættir í samstarfi við foreldra. Endurmat á stöðu bekkjarstjórnunar/hópstjórnunar í lok námskeiðs.

Vinnulag

Námskeiðið skiptist í vinnu í tímum og verkefni („heimavinnu“) á milli tíma sem þátttakendur geta prófað í eigin kennslu og nýtt þannig beint til þróunar á eigin starfsháttum. Kennsla fer fram með umræðum, æfingum og fjölbreyttum sameiginlegum viðfangsefnum. Námsmat byggist á lestri kafla og greina, skilaverkefnum sem unnin eru með nemendahópum þátttakenda (bekknum/hópnum) og virkri þátttöku í umræðum um viðfangsefni námskeiðsins á vef námskeiðsins.

Miðað er við staðbundna tíma, fjóra hálfa daga í lok hvers mánaðar á tímabilinu ágúst til nóvember, þar sem unnið er með þætti námskeiðsins og gerðar æfingar. Þátttakendur reyna aðferðirnar sjálfir með sínum barnahópum í verkefnum á milli tíma.

Nauðsynlegt er að kennarar séu komnir með nemendahópinn sinn áður en námskeið hefst til að geta gert mat á aðstæðum áður en inngrip hefst.

Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað og er gert ráð fyrir að þátttakendur innan sama skóla, eða milli skóla ef það hentar, vinni sameiginlega að ákveðnum markmiðum sem þeir setja sér og viðhalda eftir að námskeiði lýkur. Þátttakendur fá tækifæri til að læra saman og styðja hvern annan í að þróa árangursríka starfshætti með börnum. Grunnhugmyndin er að þátttakendur líti á það sem sameiginlegt verkefni allra í skólasamfélaginu að nota uppbyggilegar aðferðir til að stuðla að góðri aðlögun barna og starfsánægju kennara.

Fyrir hverja er þetta námskeið?

Námskeiðið hentar öllum kennurum sem stjórna hópum í skólaumhverfinu, æskilegt er að a.m.k. 3 frá hverjum skóla sæki námskeiðið saman.

X

Inngildandi rannsóknaraðferðir (ÞRS104F)

Í námskeiðinu er sjónum beint að þróun rannsókna og  rannsóknaraðferða innan gagnrýnna fræða svo sem fötlunar -, hinsegin- og kynjafræði. Athyglin beinist að gagnrýni jaðarsettra hópa á hefðbundnar rannsóknir, en sú gagnrýni á meðal annars rætur sínar að rekja til femínískra fræða. Farið verður yfir með hvaða hætti nýlegar áherslur endurskilgreina valdatengsl milli rannsakanda og þátttakenda. Slíkar rannsóknir byggjast á nánu samstarfi á milli þátttakenda og fræðifólks þar sem byggt er á gagnkvæmri virðingu og þátttöku. Markmið þeirra er að vera umbreytandi og stuðla að valdeflingu þátttakenda í öllu rannsóknarferlinu. Rýnt verður í helstu einkenni, möguleika og takmarkanir slíkra rannsóknarhefða og aðferð, t.d. starfendarannsókna, þátttökurannsókna, samvinnurannsókna, dagbókaskrifa, sögulokaaðferð og spurningalista út frá algildri hönnun, auk þess sem fjölbreyttar samstarfsleiðir verða kynntar. Þá verður sjónum beint að þeim fjölmörgu siðferðilegu áskornunum sem mæta samstarfsaðilum í slíkum rannsóknum. Áhersla verður á að kynna og ræða nýjar rannsóknir og þróunarverkefni á sviðinu.

X

Sjálfboðaliðastarf: Verkefni tengd menntun og velferð (UME005M)

Í námskeiðinu er fjallað um sjálfboðaliðastarf og þær félagslegu, menntunarlegu og sálfræðilegu kenningar sem tengdar hafa verið við þessa tegund borgaralegrar þátttöku. Einnig er rætt um hvata að slíkri þátttöku og kynjamun í því sambandi. Loks er fjallað um mikilvæga þætti í skipulagi og uppbyggingu sjálfboðaliðastarfs sem eru til þess fallnir að þátttakendur upplifi tilgang með því að taka þátt og séu líklegri til frekari sjálfboðaliðaþátttöku í framtíðinni. Nemendur munu jafnframt fá tækifæri til að kynnast sjálfboðaliðastarfi af eigin raun og taka þátt í starfi hjá stofnunum og félagasamtökum sem veita fólki aðstoð með félagslegt jafnrétti og velferð að leiðarljósi.

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður og tímaverkefni í fjögur skipti, tvisvar í staðlotu I og tvisvar í staðlotu II. Skyldumæting er í staðlotum. Sjálfboðaliðastarf á vettvangi fer fram í sex skipti í vissan klukkustundafjölda og þarf þátttaka að vera 100%.

X

Sjálfbærnimenntun og forysta (SFG003F)

Megintilgangur þessa námskeiðs er að veita þátttakendum tækifæri til að skilja sjálfbærni og sjálfbærnimenntun út frá sjónarhorni stofnana eða heilla kerfa. Kennslutímar og umræður á milli þeirra byggjast á upplýstri rökræðu. Unnin verða fá stærri verkefni og krafist virkrar þátttöku í umræðum, skipulagningu kennslustunda og því að leiða umræður. Námskeiðið er kennt á neti aðra hverja viku (til skiptis á íslensku/ensku). Krafist er að lágmarki 80% mætingar í kennslustundir. Til að standast námskeiðið þarf að fá að lágmarki einkunnina 5,0 fyrir hvert verkefni námskeiðsins og uppfylla lágmarkskröfur um mætingu og þátttöku í tímum. Nánari útfærsla og upplýsingar um kennslufyrirkomulag verður á Canvas.

Dæmi um viðfangefni:

  • Formleg og óformleg sjálfbærnimenntun (t.d. á vinnustöðum)
  • Forysta í vinnu með sjálfbærni (t.d. í heildstæðum breytingum og þróun í skóla eða í frístundastarfi)
  • Tengsl náttúrufræði og sjálfbærni (t.d. út frá kerfisbundinni nálgun eða út frá grunndvallarsýn)
  • Þróun dreifbýlis og sjálfbærni
  • Mótun sameiginlegra gilda (t.d. í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja)
  • Námskrárbreytingar
X

Barnavernd - hvað er börnum fyrir bestu? (KME118F)

Markmið námskeiðsins er að auka fræðilega þekkingu og hæfni sérkennara, starfsfólks leik- og grunnskóla og nema í tómstunda- eða uppeldis- og menntunarfræði til að efla hagsmunagæslu, vernd og stuðning við börn.

Námskeiðið tengist Heimsmarkmiðum Sameinuðuþjóðanna nr. 3 (heilsa og vellíðan) nr. 4 (menntun fyrir alla).

Í námskeiðinu er fjallað um réttindi og skyldur starfsmanna, barna og forsjáraðila. Rætt um lög og reglugerðir þessu viðkomandi. Fjallað er um einkenni og vísbendingar þess að velferð barns sé ábótavant, ofbeldi gagnvart börnum sem og mati á slíkum aðstæðum. Sjónum verður beint að farsæld barna og þætti sem geta komið í veg fyrir farsæld.  Fjallað er um gildi þverfaglegs samstarfs þegar unnið er að velferð barna, það tengt forvarnarstarfi og gerð viðbragðsáætlanna. Kennsla er í formi fyrirlestra á upptöku og í staðlotum, umræðna og verkefna. 


Kennsla er í formi fyrirlestra og umræðu í tveimur staðlotum, umræðu innan námshópa yfir önnina og verkefnavinnu. Viðvera í staðlotum er skylda og því forsenda þess að taka þátt í námskeiðinu. Áhersla er á sjálfstæða vinnu nemenda. Nemendur þurfa að skipuleggja lestur sinn og þannig kynna sér efnið sem kennari leggur fram. Krafa er gerð til nemenda að þeir deili þekkingu sinni með samnemendum og eigi í reglulegum samskiptum við aðra nemendur.

X

Jákvæð sálfræði og velferð (UME102M)

Fræðilegur rammi námskeiðsins byggir á rannsóknum á velfarnaði og jákvæðri sálfræði.  Fjallað verður um ólíkar kenningar um velfarnað og hamingju;  þætti eins og hugarfar, tilfinningar og félagstengsl, sjálfstjórn, sjálfsþekkingu og drifkraft/áhugahvöt.  Kynntar eru aðferðir til að stunda sjálfsskoðun, aðferðir sem  jafnframt efla farsæld og sjálfsþekkingu; svo sem núvitund , markmiðasetningu, hvernig vinna megi með styrkleika og gildi  og aðrar raunprófaðar aðferðir. 

Nemendur vinna meðal annars fræðileg verkefni þar sem þeir tengja fræðin við áhugasvið eða eigin starfsvettvang. Einnig vinna þeir verkefni sem fela í sér sjálfsskoðun og persónulega stefnumótun. Þá munu nemendur fara í gegnum heildstætt grunnnámskeið í núvitund, fara í gegnum æfingar heima og halda dagbók í tengslum við núvitundarþjálfunina.

Námskeiðið byggir á erindum, æfingum og umræðum með áherslu á virka þátttöku nemenda.

Námskeiðið er opið nemendum úr öllum deildum háskólans, en hentar einkum þeim sem hafa áhuga á heilsueflingu og lífsleikni, aukinni  samskiptahæfni sem og þeim sem hafa hug á að starfa með fólki á vettvangi; sem ráðgjafar, kennarar, leiðbeinendur eða leiðtogar.

X

Margbreytileiki og félagslegt réttlæti (UME103F)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á margbreytileika samfélagsins, mikilvægi hans í menntunarlegu félagslegu tilliti, átti sig betur á stöðu einstaklinga og hópa sem þrýst er að jaðri samfélagsins. Einnig munu nemendur öðlast þekkingu á margvíslegum myndum, tilurð og afleiðingum útilokunar og stimplunar og kunna skil á afmörkuðum þáttum í sögu og siðfræði sem varða margbreytileika, félagslegan auð, útilokun og félagslegt réttlæti. Einnig verður lögð áhersla á að nemendur öðlist færni í að beita fræðilegum hugtökum á vettvangi og geti sett hugmyndir um fagmennsku og fagstétt í sögulegt og siðfræðilegt samhengi. Rík áhersla er á að nemendur geti ígrundað eigin viðhorf og vinnu í ljósi siðfræðilegra, félagsfræðilegra og menntunarfræðilegra hugtaka eins og sjálfræðis, virðingar, mannlegrar reisnar, trausts og umhyggju, félagslegt réttlæti og félagsleg mismunun, félagsauður og valdefling.

Viðfangsefni: Meginviðfangsefni námskeiðsins er margbreytileiki samfélagsins og staða jaðarhópa í skóla og samfélagi. Námskeiðið skiptist í þrjá hluta þar sem fyrstu tveir hlutarnir byggjast á fræðilegri umfjöllun um álitamál, sögu og siðfræði, en í þriðja hlutanum er gert ráð fyrir að nemendur beiti þeim fræðilegu undirstöðum sem lagðar hafa verið í fyrstu tveim hlutunum til að skoða vettvang, eigið starf og eigin viðhorf.

X

Menning og vegferð ungmenna (UME009M)

Námskeiðið tekur til félagsfræðilegra og þverfaglegra kenninga og rannsókna um ungmenni, menningu þeirra, vegferð og menntun. Ungmennahugtakið á við breytilegan aldurshóp eftir samfélögum og söguskeiðum en í okkar síðnútíma einkum aldurshópinn 16-25 ára. Líf og aðstæður ungmenna verða skoðuð sitt á hvað frá ólíkum sjónarhornum félagsfræði og ýmissa skyldra greina og áhersla lögð á þverfaglega, menntavísindalega samþættingu. Hugtakið vegferð ungmenna (e. transition to adulthood) var fram undir 1990 notað um leið ungmenna frá skólanámi til fastrar atvinnu, en hefur síðan verið víkkað út til fjölskyldumyndunar, samfélagsþátttöku og fleiri atriða.

Í námskeiðinu verður sjónum beint að nýlegum rannsóknum á vegferð í mismunandi löndum og eftir félagslegum bakgrunni. Rýnt verður sérstaklega í rannsóknir sem gerðar hafa verið á menningu ungmenna á Íslandi og öðrum Norðurlöndum. Vegferðin er sérstaklega könnuð í gegnum þrenns konar kerfi, þ.e. a) reynslu og val þeirra innan framhalds- og háskólakerfisins, b) vegferð innan vinnumarkaðar og c) í kynverundarkerfinu.

X

Ferðamennska á norðurslóðum: Iðkun og upplifun (LAN214F)

Námskeiðið verður kennt 14. mars – 12. maí 

Námskeiðið fjallar um ferðamennsku á norðurslóðum með áherslu á upplifun ferðamanna og tengsl ferðamennsku við samfélög og landslag á norðurslóðum. Markmið þess er að kynna nemendum rannsóknir og kenningar sem tengjast iðkun, upplifun og framkvæmd ferðamennsku á norðurslóðum. Spurningar um tengsl gesta og gestgjafa, þróun ferðaþjónustu og upplifunar ásamt samfélagsleg og umhverfisleg áhrif ferðamennsku verða teknar til skoðunar. Kennsla er byggð á rannsóknum þar sem beitt er ólíkum fræðilegum sjónarhornum og mismunandi tilvik/dæmi eru kynnt.

Auglýsing um aðgang að námskeiðinu er send til framhaldsnema í byrjun hvers árs. Athugið að takmarkaður fjöldi námsplássa er í boði og ganga nemendur Land- og ferðamálafræði fyrir.

X

Áhættuhegðun og seigla ungmenna (UME206F)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á umfjöllun um áhættuhegðun ungmenna (t.d. vímuefnaneyslu, frávikshegðun, brokkgenga skólagöngu) og seiglu þeirra í tengslum við ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti. Viðfangsefni eru m.a. samskiptahæfni, geðraskanir, kynheilbrigði og áföll. Fjallað er ítarlega um ýmis konar verndandi þætti og áhættuþætti og þátt heimila, skóla og tómstundastarfs í að stuðla að velferð ungmenna. Kynntar eru bæði innlendar og erlendar rannsóknir á fræðasviðinu. Sérstök áhersla er á rannsóknir sem skoða tengsl ýmissa þroskaþátta og áhættuhegðunar. Verkefni í námskeiðinu miða að því að leita eftir sýn ungs fólks á áhættuþætti í lífi sínu.

Athugið: Hægt er að taka námskeiðið í fjarnámi. Kennsluinnlegg eru almennt tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram en ef kennsla fer fram í rauntíma þá er hún tekin upp. Vikulega eru umræðutímar (60 mín.) þar sem nemendur geta valið milli þess að koma á staðinn eða vera með á netinu. Hið sama á við þegar ritgerðir eru kynntar einu sinni á önninni þá geta nemendur verið á staðnum eða með á netinu.

X

Stofnanakenningar (STM212F)

Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur öðlist þekkingu og skilning á helstu hugtökum og kenningum um stofnanir og atferli einstaklinga innan þeirra.

Til umfjöllunar eru kenningar um stofnanir, helstu hugtök og nýlegar rannsóknir. Fjallað verður um mennta- og þjónustustofnanir sem opið kerfi, regluveldi og vinnustað fagfólks, menningu, vald, áhugahvöt, mannauð, jafnrétti, ákvarðanir, árekstra og ágreining á vinnustöðum.

Námskeiðið er skipulagt í staðbundnum lotum og fjarnámi. Námið er byggt upp á fyrirlestrum, umræðum, hópvinnu, lestri og verkefnavinnu. Þátttakendur vinna fjarkennslu-verkefni, málstofuverkefni og skrifa fræðilega lokaritgerð. Auk þess ræða nemendur fræðilegt efni í afmörkuðum hópum á Netinu og skila um það skýrslu.

X

Menntun og kyngervi: Orðræðan um drengi og stúlkur (UME004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum um uppeldi og menntun í ljósi kynjafræðilegra sjónarmiða og hugtaksins kyngervi (gender).

Viðfangsefni. Unnið verður með hugtökin, kyngervi, kynjun, kynímyndir, staðalmyndir, kvenfrelsi, félagsleg mismunun, kynhlutverk, kynjablinda, tvíhyggja og valdatengsl. Fjallað verður um hvernig hugmyndir um menntun kynjanna hafa þróast sögulega, rýnt í orðræðuna um drengi og stúlkur og staðreyndir og gagnrýni á menntun og kynferði á öllum skólastigum. Sjónarmið félagslegar mótunarhyggju og eðlishyggju verða notuð til að útskýra mismunandi hugmyndir um kynjamismunun. Athyglinni verður beint sérstaklega að nýjum rannsóknum á sviðinu og fræðilegri nálgun mismunandi fræðimanna. Að síðustu verður athyglinni beint að íslenska skólakerfinu, stöðu drengja og stúlkna, leiðtogum og stjórnendum, námskrám og stöðu lögbundinnar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendara rannsóknir á kyngervi og skólastarfi, t.d. rannsóknir á námsframmistöðu kynjanna, mismunandi hugmyndum stelpna og stráka um námsgreinar, námshæfni og námsval og hvernig skólar bregðast við kynjun skóla og samfélags.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðnám, með möguleikum til fjarnáms ef þörf krefur. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, hópvinnu og verkefnavinnu.

X

Heilsuefling (ÍÞH209F)

Fjallað verður um fyrirkomulag og mikilvægi heilsueflingar í skólum, á vinnustað, í hvers kyns þjálfun, endurhæfingu, íþróttum og tómstundastarfi. Mismunandi kenningar um heilsueflingu verða kynntar, sem og framkvæmd, mat og heildstætt ferli heilsueflingar. Allt frá því hvernig heilsueflandi verkefni eru skipulögð og hvernig þau eru innleidd, framkvæmd og metin. Sérstök áhersla verður lögð á fræðilegan þátt heilsueflingarferlisins til að undirbúa nemendur fyrir faglegt starf tengt heilsueflingu á vettvangi.

X

Hinsegin menntunarfræði (SFG004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum í hinsegin menntunar- og kennslufræðum. Enn fremur að þeir fái góða innsýn inn í fræðaheim hinsegin fræða. Áhersla verður lögð að að nemar tileinki sér gagnrýna sýn á uppeldi og menntun og að þeir verði meðvitaður um veruleika hinsegin ungmenna.

Viðfangsefni: Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynhneigð, kynvitund, samtvinnun, karlmennska, kvenleiki, kynhlutverk, kynjatvíhyggja, gagnkynhneigðarhyggja og síshyggja. Fjallað verður um megininntak hinsegin menntunarfræða og hvernig nálgun þeirra getur varpað ljósi á menntun, uppeldi, tómstunda- og félagsstarf og samfélag. Nálgunin verður í anda hinseginfræða og félagslegrar mótunarhyggju sem verða notuð til að útskýra ólíkar hugmyndir um kynhneigð, kynvitund og hinsegin kynverund. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi, hérlendis og erlendis, og hvernig það viðheldur margs konar mismunun og ýtir jafnvel undir stofnanabundna gagnkynhneigðarhyggju og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við kynhneigð, kynvitund, skólakerfi, kennslu og námsbækur. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi kennara, tómstunda- og félagsmálafræðinga, þroskaþjálfa og annað fagfólk í að búa til hinseginvænt andrúmsloft í nemendahópi og að flétta hinsegin veruleika inn í starf sitt.

X

Sjálfbærnimenntun og nám (SFG207F)

Meginmarkmið þessa námskeiðs er að veita þátttakendum tækifæri til að beina sjónum að námi, kennslu og frístundastarfi sem stuðlar að sjálfbærni. Kennslutímar og umræður á milli þeirra byggjast á upplýstri rökræðu. Unnin verða fá stærri verkefni og krafist virkrar þátttöku í umræðum, skipulagningu kennslustunda og því að leiða umræður. Námskeiðið er netnámskeið og krafist er 80% skyldumætingar samkvæmt kennsluáætlun.

Dæmi um viðfangsefni eru:

  • Aðgerðastefna (e. activism) í námi og kennslu
  • Staðtengt nám og reynslunám
  • Breyting á hegðun
  • Náttúrfræðinám, tækni og sjálfbærni
  • Sköpun, þekkingarsköpun og félagsleg sjálfbærni
  • Háskólanám og nám fullorðinna
  • Formlegt og óformlegt nám
  • Sjálfbærni sem námssvið í mótun

X

Félags- og tilfinningahæfni í uppeldi og menntun (UME103M)

Fjallað verður um hvernig efla megi félags- og tilfinningahæfni í uppeldis og menntastörfum í víðum skilningi. Fjallað er um ýmsar leiðir svo sem eflingu núvitundar, samkenndar, seiglu, vaxtarhugarfars, tilfinningalæsis og sjálfsvitundar svo eitthvað sé nefnt. Hér er byggt á þeirri sýn að til efla félags- og tilfinningahæfni (eða farsæld) með öðrum þurfum við fyrst að a) öðlast þekkingu og b) leitast við að efla eigin félags- og tilfinningahæfni.

Fræðilegur grunnur námskeiðsins er sóttur í alþjóðleg samstarfsverkefni. Annars vegar þar sem markmiðið var að efla seiglu ungmenna (UPRIGHT- verkefnið). Hinsvegar verkefni alþjóðlegra sérfræðinga um eflingu félags- tilfinninga og siðferðilegra þátta (social-, emotional and ethical learning = SEE-learning). Þá er einnig sótt  smiðju jákvæðrar sálfræði.

Námskeiðið byggir á erindum, umræðum og æfingum með áherslu á virka þátttöku. Nemendur vinna bæði fræðileg og hagnýt verkefni um hvernig nýta megi fræðin við uppeldi og/eða menntun og fræðslu á ýmsum vettvangi.

Námskeiðið er hugsað fyrir allar deildir ekki síst þá sem koma að uppeldis- og menntastörfum. Þessar áherslur eru í samræmi við tilmæli Alþjóðaheil­brigðis­stofnunarinnar og ákvæðum úr námskrám íslenskra leik-, grunn- og framhaldsskóla um að hlúa að andlegu heilbrigði og farsæld.

X

Sértækt hópastarf í félags- og æskulýðsmálum (TÓS005M)

Námskeiðið hefst í upphafi febrúar. Í námskeiðinu er fjallað um helstu hópakenningar, greiningarmódel og hvernig hægt er nýta hópastarf í æskulýðs- og félagstarfi  sem lið í markvissu uppeldisstarfi og við lausn tiltekinna vandamála er upp kunna að koma í nærsamfélagi barna og ungmenna.

X

Leiðsögn og samvinna (STM215F)

Tilgangur námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á leiðsögn og samvinnu í skólastarfi þar sem stefnt er að starfsmenntun kennara, skólaþróun og öflugu foreldrasamstarfi, og að þeir geti beitt þekkingunni í starfi. Nemendur kynnast helstu rannsóknum og kenningum um starfstengda leiðsögn, og er stefnt að því að þeir geti nýtt sér þær á gagnrýninn og markvissan hátt sem leiðsagnarkennarar nýrra kennara og leiðtogar í teymisvinnu, jafningjaleiðsögn og þverfaglegu samstarfi í hópum. Einnig er lögð áhersla á hlutverk kennara í foreldrasamstarfi og í því að efla tengsl heimila og skóla. Kynnast þeir helstu kenningum og rannsóknum á því sviði, og tengja þær við eigin reynslu í starfi. Nemendur vinna með æfingar og verkefni sem miða að því að efla samskiptahæfni þeirra, einkum hæfni í leiðtoga- og leiðsagnarhlutverki, og í faglegum samskiptum við samstarfsfólk og foreldra. 

Námskeið er kennt í fjarnámi með þremur staðbundnum lotum. Gert er ráð fyrir mætingu í staðbundnar lotur. Fyrirlestrar, umræður, einstaklings- og hópverkefni.

X

Rannsóknir með börnum og ungmennum (KME201F)

Í námskeiðinu verður fjallað um eigindlegar rannsóknaraðferðir með sérstakri áherslu á að fá fram sjónarmið barna og ungmenna. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemendur fá þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a., vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum og gera heildstæða rannsóknaræfingu. Fjallað er um rannsóknir með börnum og ungmennum, þ.e. rannsóknir þar sem þátttakendur eru börn, ungmenni og aðrir sem eiga hættu á að vera jaðarsettir í samfélaginu. Gengið verður út frá Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna til að hafa áhrif á eigið líf og félagsvísindalegum rannsóknum á bernskunni þar sem litið er á barnæsku sem afmarkað rannsóknarefni. Einnig verður byggt á félags- menningarkenningum og síðtímahugmyndum um börn sem sterk og hæf með eigið sjónarhorn á veröldina og réttindi þeirra sem borgara virt. 

Í umfjöllun námskeiðs verður velt upp álitamálum sem upp koma þegar börn og/eða ungmenni eru þátttakendur í rannsóknum. Fjallað verður m.a. um hugmyndafræði, siðferðislega þætti og áhersla lögð á ýmsar aðferðir sem nota má í rannsóknum með börnum. Nemendur vinna eigin rannsókn og fá tækifæri til að glíma við fjölbreyttar aðferðir.

X

Lýðræði, mannréttindi og borgaravitund barna og ungmenna (UME002F)

Í námskeiðinu er fjallað um lýðræði og mannréttindi og hvað það merkir að vera borgari í lýðræðissamfélagi á tímum hnattvæðingar. Rætt er um mikilvægi þess að borgarar skynji að þeir hafi tiltekinn rétt í samfélaginu en jafnframt ábyrgð og skyldur. Áhersla er lögð á fræðilega og stefnumótandi umræðu um borgaravitund (e. citizenship, civic engagement) bæði hér á landi og á alþjóðavísu. Þá er fjallað um lífsgildi og hvernig þau vísa ungu fólki veginn í hugsun og hegðun bæði sem einstaklingar og sem samborgarar í fjölmenningarlegu og síbreytilegu samfélagi nútímans. Einnig verður gerð grein fyrir rannsóknum um hlutverk heimila, skóla og félagasamtaka við að efla borgaravitund ungs fóks ásamt því að fjalla um tengsl borgaravitundar við mismunandi þroskaþætti og hæfni hjá börnum og ungmennum, svo sem samskipta- og fjölmenningarhæfni og siðferðiskennd.

ATH: Námskeiðið fer fram á Zoom. Kennsluinnlegg eru tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram. Vikulega eru umræðutímar (90 mín.) á netinu en í nokkur skipta í stofu og þá er einnig hægt að vera á neti. Nemendur kynna fræðilegt efni sem einstaklingar og ritgerð í hópastarfi einu sinni á misserinu.

X

Staðartengd útimenntun (TÓS001M)

Kynningarvefur um námskeiðið

Á námskeiðinu ræður samfélag staðarins tilhögun námsins og við beitum reynslunámi þar sem nemendur upplifa „siglingar, strönd og arfleifð sjóferða“. Í staðartengdri útimenntun er unnið með námsferli sem grundvallað er á upplifun af sögum sem eiga rætur að rekja til ákveðins staðar; einstökum sögulegum staðreyndum, umhverfi, menningu, efnahag, bókmenntum og listum staðarins.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur upplifi staðinn með öllum sínum skynfærunum og öðlist þannig tengsl við staðinn sem verða grunnur að þekkingarleit.  Með því að tengjast staðnum og bregðast við honum þroska nemendur með sér dýpri skilning á einkennum staðarins, virðingu og vitund um hann. Gengið verður og siglt um undraheim staðarins, inn í fornar og nýjar sögur hans og nemendur velta fyrir sér framtíð staðarins.

Með þennan nýja skilning og viðmið að leiðarljósi munu nemendur kanna með fjölbreyttum hætti ýmis alþjóðleg vandamál, rétt umhverfisins, sjálfbærni og félagslegt réttlæti staðarins?

Nemendur eru hvattir til að beina sjónum sínum að samfélagi, sögum, menningu og hagsmunahópum og munu ýmsir sérfróðir aðilar taka þátt í kennslu á námskeiðinu ásamt kennurum. Nemendur upplifa staðartengda uppeldisfræði (e. pedagogy of place) bæði úti og inni að eigin raun og geta með því beitt henni í lífi og starfi.

Námskeiðið hefur verið þróað í samstarfi milli Háskóla Íslands og Outdoor Learning teymisins í Plymouth Marjon University í Bretlandi og er stutt af Siglingaklúbbnum Ými, Vatnasportmiðstöðinni Siglunesi, Sjóminjasafni Reykjavíkur og Sjávarklasanun.

Vinnulag:

Námskeiðið byggir á virkri þátttök allra. Undirbúningsdagur er 30. júní kl. 16-18. Námskeiðið er dagana 12.-18. ágúst 2024 og miðað er við kennslu allan daginn og við erum mjög mikið úti. 

Námskeiðið fer fram mikið úti. Stefnt er að því að fara á sjó, upplifa fjöru og strandlengju, kynnast nýjum hliðum á Reykjavík og fara í Viðey og Gróttu.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá
X

Reynslunám og lífsleikni (TÓS101F)

Markmið
Meginmarkmið námskeiðsins er að efla skilning og þekkingu nemenda á reynslumiðuðu námi, hópefli, lífsleikni og ígrundun.

Leitað verður leiða til að þátttakendur:

  • eflist í frumlegum og skapandi vinnubrögðum.
  • velti fyrir sér í hverju fagurfræðileg eða hrifnæm upplifun felst og hvaða áhrif hefur hún á okkar innra líf.
  • ígrundi tengsl fagurfræði við náttúru, sköpun og daglegt líf; hvernig fagurfræði getur stuðlað að aukinni umhverfisvitund og upplifun í leik og í námi.

Lögð er áhersla á að nemendur ígrundi hvernig nám á sér stað og að þeir öðlist hæfni til að skipuleggja námsumhverfi sem styður við reynslunám og virkni.

Lífsleikni er vítt hugtak sem felur í sér sjálfsþekkingu, samskipti, sköpun og lífsstíl. Á námskeiðinu er skoðað hvernig styðja megi við lífsleikni og skapandi vinnu innan tómstunda- og skólastarfs.

Inntak
Út frá reynslumiðuðu sjónarhorni er unnið með viðfangsefnið að leika, læra og þroskast með sérstakri áherslu á tengsl formlegs, hálfformlegs og óformlegs náms og gildi tómstundafræðinnar.

Í námskeiðinu eru skoðaðar fræðilegar undirstöður reynslunáms, ekki síst kenning Deweys og Kolbs og hópefliskenningar t.d. um hvað er hópur og hvernig hópur verður til. Enn fremur er rýnt í fræðilegar rætur lífsleikni, með áherslu á siðferðis- og skapgerðamenntun í skóla- og frístundastarfi.

Til skoðunar er að nemendur taka þátt í reynslumiðaðri upplifun (t.d. með Wunderland hópnum), framkvæma sjálf lífsleikniverkefni og ígrunda eigin þroska- og námsstíl. Þá kanna og ræða nemendur fjölbreyttar leiðir til að stuðla að reynslunámi einstaklinga og hópa innan formlegs, hálf-formlegs og óformlegs námsumhverfis.

Vinnulag

Í september, október og nóvember byggir kennslan á umræðu- og vinnutímum eini sinni í viku (miðvikudaga 8.30-10.30) með innleggjum frá nemendum, kennurum og fagfólki á vettvangi.  Stefnt er á að vera með langa námslotu frá föstudegi 14. okt kl. 15 til sunnudags 16. okt kl. 16 þar sem dvalið verður utan Reykjavíkur. Unnið verður reynslumiðað úti og inni. 
Nemendur halda ígrundandi leiðarbók (reflective journal) á námskeiðinu og undirbúa og framkvæma reynslunám í verki. Námsmat og áherslur í námskeiðinu eru mótaðar í samvinnu við nemendur og þannig reynt að vera trú því að vinna með reynslumiðuðum hætti. 

Mætingarskylda er í námskeiðið þar með talið ferðin og umræðu- og vinnutíma einu sinni í viku. Leitast verður við að finna leiðir þannig nemendur sem búa fjarri Reykjavík geta tekið þátt í tímum á miðvikudögum í fjarfundi í rauntíma.

Reikna má með nokkrum kostnaði vegna ferða á námskeiðinu, allt að 12.000 kr.

X

Einelti, forvarnir og inngrip (TÓS509M)

Þetta námskeið er um einelti og markmiðið er að þeir sem ljúka námskeiðinu öðlist þekkingu, leikni og hæfni til að geta tekist á við og komið í veg fyrir einelti meðal barna og unglinga.

Námskeiðið byggir á kenningum og rannsóknum á einelti. Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa hug á að vinna með börnum og unglingum og hentar því vel fyrir nemendur á menntavísindasviði HÍ. Nemendur á öðrum sviðum eru einnig velkomnir. Á námskeiðinu verður fjallað um fjölmarga þætti sem snúa að einelti, þar á meðal mismunandi birtingarmyndir, árangursríkar aðferðir við forvarnir og inngrip, samstarf við foreldra og forsjáraðila og árangursríka vinnu með þolendum, gerendum og áhorfendum. Námskeiðið fer fram á íslensku en lesefni er á íslensku og ensku.

Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, umræðu- og verkefnatímum, reynslusögum af vettvangi og kynningum nemenda.

Skyldumæting er í námskeiðið (lágmark 80%). Skyldumæting er fyrir fjarnema í staðlotur námskeiðsins. Missi þeir af staðlotu verða þeir að vinna það upp með því að mæta í aðra tíma í staðinn. Fjarnemum er frjálst að mæta í aðrar kennslustundir. Fjarnemar vinna virkniverkefni um kennslustundir sem þeir mæta ekki í. 

X

Heilsuefling, íþróttir og tómstundir – fræði og vettvangur (HÍT101F)

Námskeiðið er ætlað nemendum sem eru að hefja framhaldsnám í Deild heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda. Í því verður ljósi varpað á mikilvæg hugtök og kenningar sem notuð eru í þeim fræðigreinum sem kenndar eru í deildinni. Í námskeiðinu verður lögð áhersla á að rýna í hvernig ólíkir þættir, svo sem heilsuhegðun og félagslegt umhverfi, og sampil þeirra hafa áhrif á heilsu og lífsgæði fólks. Fjallað verður um viðfangsefni sem eru efst á baugi í samfélaginu og varða hreyfingu, næringu, heilsueflingu, lífsleikni, nám og þroska og tengsl þeirra við andlega, líkamlega og félagslega velferð einstaklinga. Lögð er áhersla á að nemendur tileinki sér gagnrýna og skapandi nálgun á viðfangsefni sem tengjast náið þeim vettvangi sem þeir munu starfa á að námi loknu. Nemendur æfa í því skyni teymisvinnu og efla samskipti út frá hugmyndafræði þverfræðilegrar samvinnu. Nemendur fá tækifæri til að dýpka þekkingu sína í tilteknu viðfangsefni sem valið er í samráði við kennara og munu í lok námskeiðs setja fram áætlun um nám sitt.

X

Lokaverkefni (TÓS441L)

Lokaverkefni til M.Ed.-prófs er einstaklingsverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda/leiðbeinenda.

Nemendur skulu hafa samráð við formann námsbrautar um val á leiðbeinanda. Leiðbeinandi er að jafnaði valinn úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs.

Val viðfangsefnis er fyrst og fremst á ábyrgð nemandans en í samráði við leiðbeinanda. Þess skal gætt að verkefnið tengist vettvangi og sérsviði því sem nemandi hefur valið, það er að segja, að verkefnið tengist viðfangsefnum viðkomandi námsleiðar og einnig kjörsviði/sérsviði/námssviði þar sem það á við. Verkefnið getur verið af ólíku tagi, til dæmis fræðileg ritgerð, sjálfstæð rannsókn, starfstengt þróunar- eða matsverkefni, námskrár- eða námsefnisgerð og fleira.

Að öllu jöfnu tekur undirbúningur og vinna lokaverkefnis a.m.k. tvö misseri. Nemendur skulu fylgja nánari leiðbeiningum og reglum um verklag við M.Ed.-verkefni sem birtar eru á innri vef Menntavísindasviðs, Uglu. 

X

Samstarf um farsæld barna í frístunda- og skólastarfi (TÓS201M)

Í þessu námskeiði er sjónum beint að samstarfi ólíkra fagstétta sem tengjast frístunda- og skólastarfi, s.s. á sviði tómstunda- og félagsmálafræði,  kennslu, þroskaþjálfafræði og íþróttastarfi. Námskeiðið miðar að því að efla þekkingu nemenda á þverfaglegu samstarfi ólíkra fagstétta og hvaða þekking verður til á landamærum þeirra.

Fjallað verður um ávinning og áskoranir í þverfaglegu samstarfi og gildi þess fyrir börn og ungmenni í frístunda- og skólastarfi, ekki síður en starfsfólk, stofnanir og menntakerfi í stærra samhengi. Kenningum um ólíkar víddir samstarfs og fjölbreytt starfssamfélög verður gerð skil sem og rannsóknum á trausti og þekkingu sem byggist upp í þverfaglegu samstarfi.

Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna verða skoðuð og hvaða tækifæri felast í þeim fyrir þverfaglegt samstarf. Nemendur þjálfast í gagnrýnu hugarfari og borgaralegri virkni með því að vega og meta kosti og galla samstarfsverkefna, sem og hvar samstarf milli stofnana og fagstétta skortir. 

Námskeiðið hentar þeim sem stefna að því að starfa með börnum og ungmennum, hvort heldur er í formlegu, hálfformlegu eða óformlegu uppeldis-, íþrótta, frístunda- eða skólastarfi. Námskeiðið hentar einnig starfsfólki og stjórnendum sem nú þegar starfa í frístunda-, íþrótta- eða skólastarfi.

Vinnulag og væntingar
Stuðst verður við vendikennslu og kennslustundir nýttar til umræðna og úrvinnslu. Þess er vænst að nemendur taki virkan þátt í umræðu eða skili inn ígrundun ef þeir ekki komast í umræðutíma. 

Alla námsþætti verður að standast með lágmarkseinkunn. 

X

Siðfræði og samfélag (MVS210F)

Viðfangsefni
Í námskeiðinu verða greind tiltekin siðferðileg álitamál í íslensku samfélagi. Sjónum verður beint að siðferðilegum spurningum sem til dæmis tengjast heilbrigðis, umhverfis- og menntamálum. Dregið verður fram hvað einkennir sérstaklega siðferðilegan vanda og rætt hvernig hægt er að takast á við hann. Til að nálgast það verkefni verða skoðuð dæmi um siðferðileg málefni í opinberri umræðu í íslensku samfélagi, þau greind þar sem átakalínur og undirliggjandi gildi verða skoðuð. 

X

Áhættuhegðun og seigla ungmenna (UME206F, UME009M)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á umfjöllun um áhættuhegðun ungmenna (t.d. vímuefnaneyslu, frávikshegðun, brokkgenga skólagöngu) og seiglu þeirra í tengslum við ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti. Viðfangsefni eru m.a. samskiptahæfni, geðraskanir, kynheilbrigði og áföll. Fjallað er ítarlega um ýmis konar verndandi þætti og áhættuþætti og þátt heimila, skóla og tómstundastarfs í að stuðla að velferð ungmenna. Kynntar eru bæði innlendar og erlendar rannsóknir á fræðasviðinu. Sérstök áhersla er á rannsóknir sem skoða tengsl ýmissa þroskaþátta og áhættuhegðunar. Verkefni í námskeiðinu miða að því að leita eftir sýn ungs fólks á áhættuþætti í lífi sínu.

Athugið: Hægt er að taka námskeiðið í fjarnámi. Kennsluinnlegg eru almennt tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram en ef kennsla fer fram í rauntíma þá er hún tekin upp. Vikulega eru umræðutímar (60 mín.) þar sem nemendur geta valið milli þess að koma á staðinn eða vera með á netinu. Hið sama á við þegar ritgerðir eru kynntar einu sinni á önninni þá geta nemendur verið á staðnum eða með á netinu.

X

Menning og vegferð ungmenna (UME206F, UME009M)

Námskeiðið tekur til félagsfræðilegra og þverfaglegra kenninga og rannsókna um ungmenni, menningu þeirra, vegferð og menntun. Ungmennahugtakið á við breytilegan aldurshóp eftir samfélögum og söguskeiðum en í okkar síðnútíma einkum aldurshópinn 16-25 ára. Líf og aðstæður ungmenna verða skoðuð sitt á hvað frá ólíkum sjónarhornum félagsfræði og ýmissa skyldra greina og áhersla lögð á þverfaglega, menntavísindalega samþættingu. Hugtakið vegferð ungmenna (e. transition to adulthood) var fram undir 1990 notað um leið ungmenna frá skólanámi til fastrar atvinnu, en hefur síðan verið víkkað út til fjölskyldumyndunar, samfélagsþátttöku og fleiri atriða.

Í námskeiðinu verður sjónum beint að nýlegum rannsóknum á vegferð í mismunandi löndum og eftir félagslegum bakgrunni. Rýnt verður sérstaklega í rannsóknir sem gerðar hafa verið á menningu ungmenna á Íslandi og öðrum Norðurlöndum. Vegferðin er sérstaklega könnuð í gegnum þrenns konar kerfi, þ.e. a) reynslu og val þeirra innan framhalds- og háskólakerfisins, b) vegferð innan vinnumarkaðar og c) í kynverundarkerfinu.

X

Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum (MVS212F)

Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Einnig um siðfræði vísinda með áherslu á hagnýt atriði og um gæðahugtök, s.s. réttmæti, trúverðugleika og ólíka sýn á þessi hugtök. Í námskeiðinu beinist athyglin að eigindlegum aðferðum. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemar fá nokkra þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a. vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum. Þá vinna nemar með öflun, skráningu, flokkun, greiningu og túlkun gagna, og með framsetningu þeirra og gera heildstæða rannsóknaræfingu.

Fyrirlestrar, umræður og verkefni. Skyldumæting er í staðlotum.

X

Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðum (MVS213F)

Markmiðið er að nemendur

  • hafi innsýn í megindlega aðferðafræði á sviði rannsókna í uppeldis- og menntunarfræði
  • þekki helstu rannsóknaraðferðir og hugtök sem þeim tengjast
  • geti beitt algengum rannsóknaraðferðum og þannig aflað gagna, unnið úr þeim og túlkað á agaðan og viðurkenndan hátt
  • séu færir um að rýna í rannsóknir og nýta sér niðurstöður þeirra
  • hafi tileinkað sér rannsakandi hugarfar og gagnrýna hugsun

Kynnt verða algeng rannsóknarsnið megindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna.  Nemendur nota tölvuforrit til að reikna algenga tölfræðistuðla og halda utan um og vinna úr gögnum. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í túlkun matsniðurstaðna sem líklegt er að verði á vegi þeirra hópa sem taka námskeiðið.

Fyrirlestrar á vef, umræður og verkefni. Námskeiðið er kennt vikulega en fyrirlestrar verða eingöngu á vef. Verkefnatíma verða ekki teknir upp. Ekki er mætingarskylda í námskeiðið en nemendur eru hvattir til að mæta í kennslustundir.

Nemendur verða að hafa Jamovi (sjá nýjustu útgáfu á https://www.jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir. 

Lesefni: Kaflar 1-11 í Navarro DJ and Foxcroft DR (2019). Learning statistics with jamovi: a tutorial for psychology students and other beginners. (Version 0.70). DOI: 10.24384/hgc3-7p15. Rafræn ókeypis kennslubók sem hala má niður á síðunni https://www.learnstatswithjamovi.com.

X

Starfendarannsóknir (MVS011F)

Inntak / viðfangsefni
Á námskeiðinu verður farið yfir tilurð og þróun starfendarannsókna í ýmsum löndum, m.a. Japan, Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Rýnt verður í hugmyndafræði slíkra rannsókna og hinar margvíslegu myndir sem þær hafa tekið á sig og birtast í ólíkum orðum sem notuð eru um slíkar rannsóknir, t.d. starfendarannsóknir (action research), kennararannsóknir (teacher research), kennslurýni (lesson study), starfstengd sjálfsrýni (self-study) og practitioner research. Sérstök áhersla verður lögð á starfendarannsóknir í skólum og öðrum vettvangi menntunnar, þar á meðal á Íslandi og ákveðin dæmi skoðuð í því sambandi. Megináherslan í námskeiðinu er á að þátttakendur geri rannsókn á eigin starfi/starfsháttum og kynni hana í námskeiðinu. Ekki er skilyrði að nemendur séu í starfi þegar þeir taka námskeiðið.

Vinnulag
Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað. Grunnhugmyndin er sú að þátttakendur geri rannsókn í tengslum við eigið starf í samráði við kennara og aðra þátttakendur í námskeiðinu og vinni úr henni í nánu samstarfi við kennara og aðra þátttakendur, t.d. í gegnum ígrundanir, kynningar og samræður. Nemendur halda leiðarbók eða rannsóknardagbók um rannsókn sínar og gera lestrardagbók í tengslum við lestur fræðigreina. Að auki taka þeir þátt í ýmis konar verkefnum og umræðum á netinu.

X

Lokaverkefni (TÓS441L)

Lokaverkefni til M.Ed.-prófs er einstaklingsverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda/leiðbeinenda.

Nemendur skulu hafa samráð við formann námsbrautar um val á leiðbeinanda. Leiðbeinandi er að jafnaði valinn úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs.

Val viðfangsefnis er fyrst og fremst á ábyrgð nemandans en í samráði við leiðbeinanda. Þess skal gætt að verkefnið tengist vettvangi og sérsviði því sem nemandi hefur valið, það er að segja, að verkefnið tengist viðfangsefnum viðkomandi námsleiðar og einnig kjörsviði/sérsviði/námssviði þar sem það á við. Verkefnið getur verið af ólíku tagi, til dæmis fræðileg ritgerð, sjálfstæð rannsókn, starfstengt þróunar- eða matsverkefni, námskrár- eða námsefnisgerð og fleira.

Að öllu jöfnu tekur undirbúningur og vinna lokaverkefnis a.m.k. tvö misseri. Nemendur skulu fylgja nánari leiðbeiningum og reglum um verklag við M.Ed.-verkefni sem birtar eru á innri vef Menntavísindasviðs, Uglu: Fræðasvið >> Menntavísindasvið >> Lokaverkefni til meistaraprófs.

X

Samskipti, félagsfærni og vinátta (TÓS301F)

Á námskeiðinu er fjallað um árangursríkar forvarnir gegn einelti og annarri særandi hegðun. Byggt er á kenningum um jákvæð samskipti og heilbrigð sambönd. Einnig er áhersla á aðferðir í vinnu með einstaklinga í félagslegum vanda. Þátttakendur í námskeiðinu fá tækifæri á að þjálfa sig í beitingu aðferðanna. Námskeiðið er því í senn fræðilegt og hagnýtt.

Byggt er á sjónarmiðum um einelti sem félagslegt vandamál sem þarfnast félagslegra lausna; aðgerða sem beinast hvoru tveggja að öllum hópnum og einstaklingum.

Á námskeiðinu er stuðst við reynslunám og þjálfast nemendur í fræðilegum vinnubrögðum jafnt sem verklegum. Hugtökin forvarnir, samskipti, sambönd (e. relationships), félagsfærni og vinátta verða krufin.

Vinnulag: Námskeiðið er kennt í tvo hálfa daga í tveimur staðlotum meistaranáms og þar fyrir utan í sex skipti. Samtals tíu hálfir dagar. Auk þess þurfa nemendur að vinna verkefni á vettvangi. 

X

Áhrifaþættir heilsu (HÍT504M)

Í þessu námskeiði verður farið yfir grunnskilgreiningar á hugtökunum: heilsa og heilbrigði, sjúkdómar og fötlun. Farið verður yfir helstu áhrifaþætti heilbrigðis og hugtakið heilsulæsi kynnt. Ræddir verða sérstakir áhrifavaldar á heilsufar. Bæði verða kynntir þættir sem geta ógnað heilsu og heilbrigði en einnig skoðað hvaða þættir geta haft jákvæð heilsueflandi áhrif. Sérstök áhersla verður á áhrif umverfis á heilsu. Fjallað verður um hugtakið heilsulæsi og hvernig megi nota þá nálgun til að bæta heilsu og vinnu að forvörnum.

Athugið: Námskeiðið hét áður Hugur, heilsa og heilsulæsi.

X

Megindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS302F)

Markmið
Að nemendur þekki og geti beitt algengustu tölfræðiaðferðum við úrvinnslu gagna og geti metið tölfræðilegar niðurstöður. Að nemandi hafi kunnáttu og þekkingu til þess að greina og miðla tölulegum upplýsingum skv. APA útgáfustaðlinum (t.d. í lokaritgerð) og geti sýnt frumkvæði við tölfræðilega úrvinnslu gagna. Einnig að nemendur kynnist helstu rannsóknarsniðum í megindlegri aðferðafræði.

Inntak og viðfangsefni
Fjallað verður um megindlegar rannsóknaraðferðir og rannsóknarsnið. Í tölfræði verður mest áhersla lögð á fylgni og aðhvarfsgreiningu. Einnig verður farið í aðferðir dreifigreiningar og þáttagreiningar. Að lokum verða nemendur kynntir fyrir grunnhugsun Bayesískrar tölfræði og mati á heildarvillu (e. Total survey error). Nemendur læra að vinna greiningar með tölfræðiforriti. Mikil áhersla verður á túlkun og miðlun megindlegra niðurstaðna skv. APA útgáfustaðlinum.

Vinnulag
Námskeiðið verður kennt vikulega á fjarfundum. Tvær staðlotur eru á önninni. Skyldumætingu er í staðlotunum. Þeir sem eiga um langan veg að fara geta tekið þátt í staðlotunum í fjarfundi.  Nemendur verða að hafa nýjustu stöðugu (e. solid) útgáfu af Jamovi (sjá jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir. 

X

Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS301F)

Í námskeiðinu verða teknar fyrir eigindlegar rannsóknaraðferðir, einkenni þeirra og saga.  Rauður þráður í gegnum námskeiðið verður gildi og hlutverk rannsókna við þróun skólastarfs og tengsl við fagmennsku í uppeldis-, menntunar- og þjálfunarstörfum.  Kynntar verða helstu rannsóknarleiðir eða nálganir innan eigindlegar aðferða, s.s. etnógrafía, fyrirbærafræði. Fjallað verður um aðferðir við gagnasöfnun og mismunandi tegundir gagna, s.s. vettvangsathuganir, áhorfsathuganir, viðtöl af ýmsum gerðum, vettvangsnótur og fyrirliggjandi gögn bæði sjónræn og textar. Kynntar verða mismunandi leiðir til að túlka og greina gögnin t.d. þema-, frásagnar- og orðræðugreining og nemendur þjálfaðir í að koma niðurstöðum frá sér á skipulegan og vandaðan hátt.

Vinnulag:
Fastir kennslutímar verða vikulega. Tímarnir (fyrir utan staðlotur) verða teknir upp og verða aðgengilegir fjarnemum.  Kennslan samastendur af fyrirlestrum, umræðum og/eða verkefnum. Nemendur vinna virkniverkefni saman sem þeir skila vikulega. Staðnemar  vinna þau í tímum en fjarnemar vinna þau saman í hópum. Einnig er gert ráð fyrir umræðum um efni fyrirlestranna á facebook.

X

Lokaverkefni (TÓS441L)

Lokaverkefni til M.Ed.-prófs er einstaklingsverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda/leiðbeinenda.

Nemendur skulu hafa samráð við formann námsbrautar um val á leiðbeinanda. Leiðbeinandi er að jafnaði valinn úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs.

Val viðfangsefnis er fyrst og fremst á ábyrgð nemandans en í samráði við leiðbeinanda. Þess skal gætt að verkefnið tengist vettvangi og sérsviði því sem nemandi hefur valið, það er að segja, að verkefnið tengist viðfangsefnum viðkomandi námsleiðar og einnig kjörsviði/sérsviði/námssviði þar sem það á við. Verkefnið getur verið af ólíku tagi, til dæmis fræðileg ritgerð, sjálfstæð rannsókn, starfstengt þróunar- eða matsverkefni, námskrár- eða námsefnisgerð og fleira.

Að öllu jöfnu tekur undirbúningur og vinna lokaverkefnis a.m.k. tvö misseri. Nemendur skulu fylgja nánari leiðbeiningum og reglum um verklag við M.Ed.-verkefni sem birtar eru á innri vef Menntavísindasviðs, Uglu. 

X

Samstarf um farsæld barna í frístunda- og skólastarfi (TÓS201M)

Í þessu námskeiði er sjónum beint að samstarfi ólíkra fagstétta sem tengjast frístunda- og skólastarfi, s.s. á sviði tómstunda- og félagsmálafræði,  kennslu, þroskaþjálfafræði og íþróttastarfi. Námskeiðið miðar að því að efla þekkingu nemenda á þverfaglegu samstarfi ólíkra fagstétta og hvaða þekking verður til á landamærum þeirra.

Fjallað verður um ávinning og áskoranir í þverfaglegu samstarfi og gildi þess fyrir börn og ungmenni í frístunda- og skólastarfi, ekki síður en starfsfólk, stofnanir og menntakerfi í stærra samhengi. Kenningum um ólíkar víddir samstarfs og fjölbreytt starfssamfélög verður gerð skil sem og rannsóknum á trausti og þekkingu sem byggist upp í þverfaglegu samstarfi.

Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna verða skoðuð og hvaða tækifæri felast í þeim fyrir þverfaglegt samstarf. Nemendur þjálfast í gagnrýnu hugarfari og borgaralegri virkni með því að vega og meta kosti og galla samstarfsverkefna, sem og hvar samstarf milli stofnana og fagstétta skortir. 

Námskeiðið hentar þeim sem stefna að því að starfa með börnum og ungmennum, hvort heldur er í formlegu, hálfformlegu eða óformlegu uppeldis-, íþrótta, frístunda- eða skólastarfi. Námskeiðið hentar einnig starfsfólki og stjórnendum sem nú þegar starfa í frístunda-, íþrótta- eða skólastarfi.

Vinnulag og væntingar
Stuðst verður við vendikennslu og kennslustundir nýttar til umræðna og úrvinnslu. Þess er vænst að nemendur taki virkan þátt í umræðu eða skili inn ígrundun ef þeir ekki komast í umræðutíma. 

Alla námsþætti verður að standast með lágmarkseinkunn. 

X

Áhættuhegðun og seigla ungmenna (UME206F, UME009M)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á umfjöllun um áhættuhegðun ungmenna (t.d. vímuefnaneyslu, frávikshegðun, brokkgenga skólagöngu) og seiglu þeirra í tengslum við ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti. Viðfangsefni eru m.a. samskiptahæfni, geðraskanir, kynheilbrigði og áföll. Fjallað er ítarlega um ýmis konar verndandi þætti og áhættuþætti og þátt heimila, skóla og tómstundastarfs í að stuðla að velferð ungmenna. Kynntar eru bæði innlendar og erlendar rannsóknir á fræðasviðinu. Sérstök áhersla er á rannsóknir sem skoða tengsl ýmissa þroskaþátta og áhættuhegðunar. Verkefni í námskeiðinu miða að því að leita eftir sýn ungs fólks á áhættuþætti í lífi sínu.

Athugið: Hægt er að taka námskeiðið í fjarnámi. Kennsluinnlegg eru almennt tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram en ef kennsla fer fram í rauntíma þá er hún tekin upp. Vikulega eru umræðutímar (60 mín.) þar sem nemendur geta valið milli þess að koma á staðinn eða vera með á netinu. Hið sama á við þegar ritgerðir eru kynntar einu sinni á önninni þá geta nemendur verið á staðnum eða með á netinu.

X

Menning og vegferð ungmenna (UME206F, UME009M)

Námskeiðið tekur til félagsfræðilegra og þverfaglegra kenninga og rannsókna um ungmenni, menningu þeirra, vegferð og menntun. Ungmennahugtakið á við breytilegan aldurshóp eftir samfélögum og söguskeiðum en í okkar síðnútíma einkum aldurshópinn 16-25 ára. Líf og aðstæður ungmenna verða skoðuð sitt á hvað frá ólíkum sjónarhornum félagsfræði og ýmissa skyldra greina og áhersla lögð á þverfaglega, menntavísindalega samþættingu. Hugtakið vegferð ungmenna (e. transition to adulthood) var fram undir 1990 notað um leið ungmenna frá skólanámi til fastrar atvinnu, en hefur síðan verið víkkað út til fjölskyldumyndunar, samfélagsþátttöku og fleiri atriða.

Í námskeiðinu verður sjónum beint að nýlegum rannsóknum á vegferð í mismunandi löndum og eftir félagslegum bakgrunni. Rýnt verður sérstaklega í rannsóknir sem gerðar hafa verið á menningu ungmenna á Íslandi og öðrum Norðurlöndum. Vegferðin er sérstaklega könnuð í gegnum þrenns konar kerfi, þ.e. a) reynslu og val þeirra innan framhalds- og háskólakerfisins, b) vegferð innan vinnumarkaðar og c) í kynverundarkerfinu.

X

Lífsleikni - sjálfið (SFG104F)

Viðfangsefni: Á námskeiðinu er unnið með þá þætti lífsleikni sem miða að sjálfinu og persónulegri hæfni með fræðilegum og hagnýtum hætti. Efni námskeiðsins er í samræmi við ákvæði úr námskrám íslenskra leik-, grunn- og framhaldsskóla um að efla andlega heilsu, heilbrigða sjálfsmynd og siðferðilegan styrk nemenda. Meðal annars er fjallað um mannkostamenntun, lífstilraunir og nútvitund.

Vinnulag: Fyrirlestrar og umræður verða í flestum vikum. Fyrirlestrar verða að jafnaði teknir upp fyrirfram og settir á Canvas-vef námskeiðsins. Gert er ráð fyrir að nemendur kynni sér þá og taki svo þátt í umræðum. Umræðutímarnir verða ekki teknir upp en þeir sem ekki komast í umræðutíma geta uppfyllt þátttökuskyldu með því að skila þátttökubloggi. Einnig eru unnin þrjú verkefni auk lokaverkefnis.

X

Kynjajafnrétti í skólastarfi (KME101F)

Í námskeiðinu verður fjallað um kynjafræði og hvernig helstu hugtök þeirra, svo sem kyn, jafnrétti, kyngervi, kynhlutverk, samtvinnun, hinsegin fræði, kynímynd, staðalmyndir, kynbundið ofbeldi, kynfræðsla, karlmennska og kvenleiki, nýtast til að skilja og skipuleggja skólastarf. Þá verður kynnt löggjöf um kynjajafnrétti og kynjajafnréttisfræðslu og fjallað um tengsl kynjajafnréttis og annars jafnréttis, sbr. aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla. Sérstök áhersla er lögð á að nemendur í námskeiðinu geti greint námsumhverfi, aðferðir og námsefni frá kynjasjónarhorni. Einnig að þeir geti greint val leikja í leikskóla og í frímínútum og skólaíþróttum.

Nemendur þurfa að mæta í lok nóvember til að kynna lokaverkefni sitt í námskeiðinu.

Í námskeiðinu verður gengið verður út frá því grundvallarsjónarmiði sem kemur fram í aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla að menntun um jafnrétti kynjanna feli í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu í því augnamiði að kennarar geti kennt börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra á forsendum kyns.

Námsmat mun felast í lestrardagbókum, hugtakakönnun og hagnýtum verkefnum tengdum skólastarfi á viðkomandi skólastigi. Skyldumæting er í kynningu lokaverkefnis. 

X

Inngangur að foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf (FFU101M)

Viðfangsefni
Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum og rannsóknum um uppeldi barna og undirbúi sig undir að geta frætt foreldra um þær aðferðir sem best hafa reynst. Fjallað verður um efnið á breiðum grunni, þannig að nemar fái sem víðasta sýn á uppeldishlutverkið og aðferðir til að sinna því sem best.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðbundið. Kennsla fer fram í samræðum og gagnvirkum fyrirlestrum. Námið er auk þess byggt upp á lestri, hópvinnu, kynningum og skriflegum verkefnum.

Fyrirkomulag kennslu miðar við að nemendur geti stundað námið óháð búsetu. Þá er fjarfundabúnaður notaður í rauntíma fyrir nemendur sem búsettir eru fjarri höfuðborgarsvæðinu.

X

Foreldrafræðsla: Stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu (FFU301F)

Fjallað verður um tilgang þess að styðja við hæfni foreldra og um hugtök, rannsóknir og kenningar um nám og þroska fullorðinna/foreldra. Þýðing þessara kenninga fyrir foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf verður skoðuð í gagnrýnu ljósi og greindir þættir sem hafa áhrif á samskipti foreldra og barna. Stuðlað verður að fagmennsku hvers og eins með áherslu á að kanna þá þekkingu og hæfni sem mikilvægt er að þeir sem sinna foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf búi yfir.

X

Félagsfærni og sjálfsefling með áherslu á hegðun og bekkjarstjórnun (ATF001F)

Námslýsing á íslensku:* 

Tilgangur námskeiðsins er að þátttakendur – starfandi grunnskólakennarar og aðrir stjórnendur hópa í skólakerfinu – efli þekkingu sína á aðferðum sem stuðla að æskilegri hegðun nemenda. Þeir læri að beita árangursríkum aðferðum sem byggja á trausti og virðingu, styðja við félagsfærni og sjálfseflingu nemenda sinna og stuðla að bættri líðan þeirra.

Þættir sem unnið er með: a) Framkvæmd mats á stöðu bekkjarstjórnunar/hópstjórnunar og styrkleikar bekkjar/hópa metnir. Reglur um hegðun nemenda mótaðar og þjálfun í kennslu þeirra. Æfingar í að nota skýr fyrirmæli til að efla samstarf. b) Þjálfun í notkun hvatningar með margbreytilegum hætti, bæði með bekknum í heild sinni og fyrir einstaklinga. c) Farið yfir jafnvægi í notkun hvatningar og leiðum til að stöðva erfiða hegðun. Praktískir þættir í bekkjarstjórnun skoðaðir nánar og æfðir. d) Markviss notkun lausnaleitar kennd og mikilvægir þættir í samstarfi við foreldra. Endurmat á stöðu bekkjarstjórnunar/hópstjórnunar í lok námskeiðs.

Vinnulag

Námskeiðið skiptist í vinnu í tímum og verkefni („heimavinnu“) á milli tíma sem þátttakendur geta prófað í eigin kennslu og nýtt þannig beint til þróunar á eigin starfsháttum. Kennsla fer fram með umræðum, æfingum og fjölbreyttum sameiginlegum viðfangsefnum. Námsmat byggist á lestri kafla og greina, skilaverkefnum sem unnin eru með nemendahópum þátttakenda (bekknum/hópnum) og virkri þátttöku í umræðum um viðfangsefni námskeiðsins á vef námskeiðsins.

Miðað er við staðbundna tíma, fjóra hálfa daga í lok hvers mánaðar á tímabilinu ágúst til nóvember, þar sem unnið er með þætti námskeiðsins og gerðar æfingar. Þátttakendur reyna aðferðirnar sjálfir með sínum barnahópum í verkefnum á milli tíma.

Nauðsynlegt er að kennarar séu komnir með nemendahópinn sinn áður en námskeið hefst til að geta gert mat á aðstæðum áður en inngrip hefst.

Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað og er gert ráð fyrir að þátttakendur innan sama skóla, eða milli skóla ef það hentar, vinni sameiginlega að ákveðnum markmiðum sem þeir setja sér og viðhalda eftir að námskeiði lýkur. Þátttakendur fá tækifæri til að læra saman og styðja hvern annan í að þróa árangursríka starfshætti með börnum. Grunnhugmyndin er að þátttakendur líti á það sem sameiginlegt verkefni allra í skólasamfélaginu að nota uppbyggilegar aðferðir til að stuðla að góðri aðlögun barna og starfsánægju kennara.

Fyrir hverja er þetta námskeið?

Námskeiðið hentar öllum kennurum sem stjórna hópum í skólaumhverfinu, æskilegt er að a.m.k. 3 frá hverjum skóla sæki námskeiðið saman.

X

Inngildandi rannsóknaraðferðir (ÞRS104F)

Í námskeiðinu er sjónum beint að þróun rannsókna og  rannsóknaraðferða innan gagnrýnna fræða svo sem fötlunar -, hinsegin- og kynjafræði. Athyglin beinist að gagnrýni jaðarsettra hópa á hefðbundnar rannsóknir, en sú gagnrýni á meðal annars rætur sínar að rekja til femínískra fræða. Farið verður yfir með hvaða hætti nýlegar áherslur endurskilgreina valdatengsl milli rannsakanda og þátttakenda. Slíkar rannsóknir byggjast á nánu samstarfi á milli þátttakenda og fræðifólks þar sem byggt er á gagnkvæmri virðingu og þátttöku. Markmið þeirra er að vera umbreytandi og stuðla að valdeflingu þátttakenda í öllu rannsóknarferlinu. Rýnt verður í helstu einkenni, möguleika og takmarkanir slíkra rannsóknarhefða og aðferð, t.d. starfendarannsókna, þátttökurannsókna, samvinnurannsókna, dagbókaskrifa, sögulokaaðferð og spurningalista út frá algildri hönnun, auk þess sem fjölbreyttar samstarfsleiðir verða kynntar. Þá verður sjónum beint að þeim fjölmörgu siðferðilegu áskornunum sem mæta samstarfsaðilum í slíkum rannsóknum. Áhersla verður á að kynna og ræða nýjar rannsóknir og þróunarverkefni á sviðinu.

X

Sjálfboðaliðastarf: Verkefni tengd menntun og velferð (UME005M)

Í námskeiðinu er fjallað um sjálfboðaliðastarf og þær félagslegu, menntunarlegu og sálfræðilegu kenningar sem tengdar hafa verið við þessa tegund borgaralegrar þátttöku. Einnig er rætt um hvata að slíkri þátttöku og kynjamun í því sambandi. Loks er fjallað um mikilvæga þætti í skipulagi og uppbyggingu sjálfboðaliðastarfs sem eru til þess fallnir að þátttakendur upplifi tilgang með því að taka þátt og séu líklegri til frekari sjálfboðaliðaþátttöku í framtíðinni. Nemendur munu jafnframt fá tækifæri til að kynnast sjálfboðaliðastarfi af eigin raun og taka þátt í starfi hjá stofnunum og félagasamtökum sem veita fólki aðstoð með félagslegt jafnrétti og velferð að leiðarljósi.

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður og tímaverkefni í fjögur skipti, tvisvar í staðlotu I og tvisvar í staðlotu II. Skyldumæting er í staðlotum. Sjálfboðaliðastarf á vettvangi fer fram í sex skipti í vissan klukkustundafjölda og þarf þátttaka að vera 100%.

X

Sjálfbærnimenntun og forysta (SFG003F)

Megintilgangur þessa námskeiðs er að veita þátttakendum tækifæri til að skilja sjálfbærni og sjálfbærnimenntun út frá sjónarhorni stofnana eða heilla kerfa. Kennslutímar og umræður á milli þeirra byggjast á upplýstri rökræðu. Unnin verða fá stærri verkefni og krafist virkrar þátttöku í umræðum, skipulagningu kennslustunda og því að leiða umræður. Námskeiðið er kennt á neti aðra hverja viku (til skiptis á íslensku/ensku). Krafist er að lágmarki 80% mætingar í kennslustundir. Til að standast námskeiðið þarf að fá að lágmarki einkunnina 5,0 fyrir hvert verkefni námskeiðsins og uppfylla lágmarkskröfur um mætingu og þátttöku í tímum. Nánari útfærsla og upplýsingar um kennslufyrirkomulag verður á Canvas.

Dæmi um viðfangefni:

  • Formleg og óformleg sjálfbærnimenntun (t.d. á vinnustöðum)
  • Forysta í vinnu með sjálfbærni (t.d. í heildstæðum breytingum og þróun í skóla eða í frístundastarfi)
  • Tengsl náttúrufræði og sjálfbærni (t.d. út frá kerfisbundinni nálgun eða út frá grunndvallarsýn)
  • Þróun dreifbýlis og sjálfbærni
  • Mótun sameiginlegra gilda (t.d. í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja)
  • Námskrárbreytingar
X

Barnavernd - hvað er börnum fyrir bestu? (KME118F)

Markmið námskeiðsins er að auka fræðilega þekkingu og hæfni sérkennara, starfsfólks leik- og grunnskóla og nema í tómstunda- eða uppeldis- og menntunarfræði til að efla hagsmunagæslu, vernd og stuðning við börn.

Námskeiðið tengist Heimsmarkmiðum Sameinuðuþjóðanna nr. 3 (heilsa og vellíðan) nr. 4 (menntun fyrir alla).

Í námskeiðinu er fjallað um réttindi og skyldur starfsmanna, barna og forsjáraðila. Rætt um lög og reglugerðir þessu viðkomandi. Fjallað er um einkenni og vísbendingar þess að velferð barns sé ábótavant, ofbeldi gagnvart börnum sem og mati á slíkum aðstæðum. Sjónum verður beint að farsæld barna og þætti sem geta komið í veg fyrir farsæld.  Fjallað er um gildi þverfaglegs samstarfs þegar unnið er að velferð barna, það tengt forvarnarstarfi og gerð viðbragðsáætlanna. Kennsla er í formi fyrirlestra á upptöku og í staðlotum, umræðna og verkefna. 


Kennsla er í formi fyrirlestra og umræðu í tveimur staðlotum, umræðu innan námshópa yfir önnina og verkefnavinnu. Viðvera í staðlotum er skylda og því forsenda þess að taka þátt í námskeiðinu. Áhersla er á sjálfstæða vinnu nemenda. Nemendur þurfa að skipuleggja lestur sinn og þannig kynna sér efnið sem kennari leggur fram. Krafa er gerð til nemenda að þeir deili þekkingu sinni með samnemendum og eigi í reglulegum samskiptum við aðra nemendur.

X

Jákvæð sálfræði og velferð (UME102M)

Fræðilegur rammi námskeiðsins byggir á rannsóknum á velfarnaði og jákvæðri sálfræði.  Fjallað verður um ólíkar kenningar um velfarnað og hamingju;  þætti eins og hugarfar, tilfinningar og félagstengsl, sjálfstjórn, sjálfsþekkingu og drifkraft/áhugahvöt.  Kynntar eru aðferðir til að stunda sjálfsskoðun, aðferðir sem  jafnframt efla farsæld og sjálfsþekkingu; svo sem núvitund , markmiðasetningu, hvernig vinna megi með styrkleika og gildi  og aðrar raunprófaðar aðferðir. 

Nemendur vinna meðal annars fræðileg verkefni þar sem þeir tengja fræðin við áhugasvið eða eigin starfsvettvang. Einnig vinna þeir verkefni sem fela í sér sjálfsskoðun og persónulega stefnumótun. Þá munu nemendur fara í gegnum heildstætt grunnnámskeið í núvitund, fara í gegnum æfingar heima og halda dagbók í tengslum við núvitundarþjálfunina.

Námskeiðið byggir á erindum, æfingum og umræðum með áherslu á virka þátttöku nemenda.

Námskeiðið er opið nemendum úr öllum deildum háskólans, en hentar einkum þeim sem hafa áhuga á heilsueflingu og lífsleikni, aukinni  samskiptahæfni sem og þeim sem hafa hug á að starfa með fólki á vettvangi; sem ráðgjafar, kennarar, leiðbeinendur eða leiðtogar.

X

Margbreytileiki og félagslegt réttlæti (UME103F)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á margbreytileika samfélagsins, mikilvægi hans í menntunarlegu félagslegu tilliti, átti sig betur á stöðu einstaklinga og hópa sem þrýst er að jaðri samfélagsins. Einnig munu nemendur öðlast þekkingu á margvíslegum myndum, tilurð og afleiðingum útilokunar og stimplunar og kunna skil á afmörkuðum þáttum í sögu og siðfræði sem varða margbreytileika, félagslegan auð, útilokun og félagslegt réttlæti. Einnig verður lögð áhersla á að nemendur öðlist færni í að beita fræðilegum hugtökum á vettvangi og geti sett hugmyndir um fagmennsku og fagstétt í sögulegt og siðfræðilegt samhengi. Rík áhersla er á að nemendur geti ígrundað eigin viðhorf og vinnu í ljósi siðfræðilegra, félagsfræðilegra og menntunarfræðilegra hugtaka eins og sjálfræðis, virðingar, mannlegrar reisnar, trausts og umhyggju, félagslegt réttlæti og félagsleg mismunun, félagsauður og valdefling.

Viðfangsefni: Meginviðfangsefni námskeiðsins er margbreytileiki samfélagsins og staða jaðarhópa í skóla og samfélagi. Námskeiðið skiptist í þrjá hluta þar sem fyrstu tveir hlutarnir byggjast á fræðilegri umfjöllun um álitamál, sögu og siðfræði, en í þriðja hlutanum er gert ráð fyrir að nemendur beiti þeim fræðilegu undirstöðum sem lagðar hafa verið í fyrstu tveim hlutunum til að skoða vettvang, eigið starf og eigin viðhorf.

X

Hinsegin menntunarfræði (SFG004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum í hinsegin menntunar- og kennslufræðum. Enn fremur að þeir fái góða innsýn inn í fræðaheim hinsegin fræða. Áhersla verður lögð að að nemar tileinki sér gagnrýna sýn á uppeldi og menntun og að þeir verði meðvitaður um veruleika hinsegin ungmenna.

Viðfangsefni: Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynhneigð, kynvitund, samtvinnun, karlmennska, kvenleiki, kynhlutverk, kynjatvíhyggja, gagnkynhneigðarhyggja og síshyggja. Fjallað verður um megininntak hinsegin menntunarfræða og hvernig nálgun þeirra getur varpað ljósi á menntun, uppeldi, tómstunda- og félagsstarf og samfélag. Nálgunin verður í anda hinseginfræða og félagslegrar mótunarhyggju sem verða notuð til að útskýra ólíkar hugmyndir um kynhneigð, kynvitund og hinsegin kynverund. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi, hérlendis og erlendis, og hvernig það viðheldur margs konar mismunun og ýtir jafnvel undir stofnanabundna gagnkynhneigðarhyggju og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við kynhneigð, kynvitund, skólakerfi, kennslu og námsbækur. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi kennara, tómstunda- og félagsmálafræðinga, þroskaþjálfa og annað fagfólk í að búa til hinseginvænt andrúmsloft í nemendahópi og að flétta hinsegin veruleika inn í starf sitt.

X

Hegðun og tilfinningar barna: Áskoranir og úrræði (MAL003F)

Markmiðið með námskeiðinu er að gefa þátttakendum kost á að kynnast völdum þáttum, bæði fræðilegum og hagnýtum, sem auðvelda almennum kennurum og sérkennurum að skilja, meta og bregðast við þörfum nemenda sem eiga við hegðunar- og/eða tilfinningavanda að etja. Fjallað verður um aðferðir við skimun og mat, áhrifaþætti og algengi mismunandi hegðunar- og/eða tilfinningalegra erfiðleika, s.s. mótþróa, þunglyndis og kvíða. Einnig verður fjallað um hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) eða röskun á einhverfurófinu. Sérstök áhersla er á að auka færni þátttakenda í að sníða skólastarf og skólasamfélag betur að þörfum nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika og veita kennurum og skólastjórnendum ráð um hvernig unnt er að gera slíkt og fjarlægja hindranir sem útiloka og einangra nemendur með slíkan vanda.

Nemendur hafi aflað sér grunnþekkingar á helstu hugtökum og sjónarhornum þroskasálfræði eða félagsvísinda á námsferli sínum áður en þeir sækja námskeiðið.  Reynsla af vinnu með börnum eða ungmennum æskileg.

Helstu efnisþættir

  • Mismunandi skilgreiningar á hegðunar- og tilfinningaörðugleikum - alþjóðleg viðmið og flokkunarkerfi.
  • Hegðunar- og tilfinningaörðugleikar í samfélagslegu samhengi.
  • Helstu kenningar um hegðunar- og tilfinningaörðugleika barna og unglinga (conceptual models).
  • Viðbrögð skólasamfélagsins; nemendasýn og skólastefna - skóli án aðgreiningar, sérdeildir eða sérskólar? Ólík sjónarhorn við að skilgreina vandann.
  • Sértæk úrræði innan skólasamfélagsins og fræðilegur bakgrunnur þeirra.
  • Mismunandi aðferðir við virknimat (functional behavioral assessment) til að ákvarða hvaða þættir ýta undir hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda.
  • Gerð stuðningsáætlunar með margvíslegum aðferðum til að fyrirbyggja erfiða hegðun eða vanlíðan, kenna og styrkja viðeigandi hegðun og bregðast þannig við erfiðri hegðun þannig að dragi úr henni með tímanum og nemendum líði betur.
  • Aðferðir til að auka félagsfærni og sjálfstæð vinnubrögð nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika.

Vinnulag
Í staðlotum verða fyrirlestrar auk verkefnatíma. Á kennsluvefnum Canvas verða birtar hljóðglærur og kennslubréf, og þar fara fram umræður úr völdum efnisþáttum. Námskeiðið er kennt með fjarnámssniði en mætingarskylda er í staðlotur. Námsmat er að mestu leyti fólgið í hópverkefnum. 

X

Félags- og tilfinningahæfni í uppeldi og menntun (UME103M)

Fjallað verður um hvernig efla megi félags- og tilfinningahæfni í uppeldis og menntastörfum í víðum skilningi. Fjallað er um ýmsar leiðir svo sem eflingu núvitundar, samkenndar, seiglu, vaxtarhugarfars, tilfinningalæsis og sjálfsvitundar svo eitthvað sé nefnt. Hér er byggt á þeirri sýn að til efla félags- og tilfinningahæfni (eða farsæld) með öðrum þurfum við fyrst að a) öðlast þekkingu og b) leitast við að efla eigin félags- og tilfinningahæfni.

Fræðilegur grunnur námskeiðsins er sóttur í alþjóðleg samstarfsverkefni. Annars vegar þar sem markmiðið var að efla seiglu ungmenna (UPRIGHT- verkefnið). Hinsvegar verkefni alþjóðlegra sérfræðinga um eflingu félags- tilfinninga og siðferðilegra þátta (social-, emotional and ethical learning = SEE-learning). Þá er einnig sótt  smiðju jákvæðrar sálfræði.

Námskeiðið byggir á erindum, umræðum og æfingum með áherslu á virka þátttöku. Nemendur vinna bæði fræðileg og hagnýt verkefni um hvernig nýta megi fræðin við uppeldi og/eða menntun og fræðslu á ýmsum vettvangi.

Námskeiðið er hugsað fyrir allar deildir ekki síst þá sem koma að uppeldis- og menntastörfum. Þessar áherslur eru í samræmi við tilmæli Alþjóðaheil­brigðis­stofnunarinnar og ákvæðum úr námskrám íslenskra leik-, grunn- og framhaldsskóla um að hlúa að andlegu heilbrigði og farsæld.

X

Gagnrýnar kenningar í menntunarfræðum í alþjóðlegu ljósi (INT004F)

Í þessu námskeiði verða kenningar gagnrýnna fræða skoðaðar til að öðlast dýpri skilning á menntakerfum, kennslufræðum og lögum og stefnumótun. Fræðilegur rammi námskeiðsins tekur tillit til gagnrýnna kenninga (sem og gagnrýnna rasískra fræða, femíniskra kenninga, hinseginfræða og gagnrýnna fötlunarfræða). Sérstök áhersla er á samtvinnun mismunabreyta  (e. intersectionality) og félagslegt réttlæti. Menntastefnur og námskrár verða skoðaðar, greindar með tilliti til mannréttinda og jafnræðishugmyndafræði. Sérstök áhersla er lögð á hvernig beita má þessari þekkingu er hægt að beita í margbreytilegum menntastofnunum á alþjóðlegum vettvangi. Þetta námskeið er hluti af alþjóðlegu námi í menntunarfræðum í Deild menntunar og margbreytileika.

X

Sértækt hópastarf í félags- og æskulýðsmálum (TÓS005M)

Námskeiðið hefst í upphafi febrúar. Í námskeiðinu er fjallað um helstu hópakenningar, greiningarmódel og hvernig hægt er nýta hópastarf í æskulýðs- og félagstarfi  sem lið í markvissu uppeldisstarfi og við lausn tiltekinna vandamála er upp kunna að koma í nærsamfélagi barna og ungmenna.

X

Leiðsögn og samvinna (STM215F)

Tilgangur námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á leiðsögn og samvinnu í skólastarfi þar sem stefnt er að starfsmenntun kennara, skólaþróun og öflugu foreldrasamstarfi, og að þeir geti beitt þekkingunni í starfi. Nemendur kynnast helstu rannsóknum og kenningum um starfstengda leiðsögn, og er stefnt að því að þeir geti nýtt sér þær á gagnrýninn og markvissan hátt sem leiðsagnarkennarar nýrra kennara og leiðtogar í teymisvinnu, jafningjaleiðsögn og þverfaglegu samstarfi í hópum. Einnig er lögð áhersla á hlutverk kennara í foreldrasamstarfi og í því að efla tengsl heimila og skóla. Kynnast þeir helstu kenningum og rannsóknum á því sviði, og tengja þær við eigin reynslu í starfi. Nemendur vinna með æfingar og verkefni sem miða að því að efla samskiptahæfni þeirra, einkum hæfni í leiðtoga- og leiðsagnarhlutverki, og í faglegum samskiptum við samstarfsfólk og foreldra. 

Námskeið er kennt í fjarnámi með þremur staðbundnum lotum. Gert er ráð fyrir mætingu í staðbundnar lotur. Fyrirlestrar, umræður, einstaklings- og hópverkefni.

X

Rannsóknir með börnum og ungmennum (KME201F)

Í námskeiðinu verður fjallað um eigindlegar rannsóknaraðferðir með sérstakri áherslu á að fá fram sjónarmið barna og ungmenna. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemendur fá þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a., vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum og gera heildstæða rannsóknaræfingu. Fjallað er um rannsóknir með börnum og ungmennum, þ.e. rannsóknir þar sem þátttakendur eru börn, ungmenni og aðrir sem eiga hættu á að vera jaðarsettir í samfélaginu. Gengið verður út frá Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna til að hafa áhrif á eigið líf og félagsvísindalegum rannsóknum á bernskunni þar sem litið er á barnæsku sem afmarkað rannsóknarefni. Einnig verður byggt á félags- menningarkenningum og síðtímahugmyndum um börn sem sterk og hæf með eigið sjónarhorn á veröldina og réttindi þeirra sem borgara virt. 

Í umfjöllun námskeiðs verður velt upp álitamálum sem upp koma þegar börn og/eða ungmenni eru þátttakendur í rannsóknum. Fjallað verður m.a. um hugmyndafræði, siðferðislega þætti og áhersla lögð á ýmsar aðferðir sem nota má í rannsóknum með börnum. Nemendur vinna eigin rannsókn og fá tækifæri til að glíma við fjölbreyttar aðferðir.

X

Lýðræði, mannréttindi og borgaravitund barna og ungmenna (UME002F)

Í námskeiðinu er fjallað um lýðræði og mannréttindi og hvað það merkir að vera borgari í lýðræðissamfélagi á tímum hnattvæðingar. Rætt er um mikilvægi þess að borgarar skynji að þeir hafi tiltekinn rétt í samfélaginu en jafnframt ábyrgð og skyldur. Áhersla er lögð á fræðilega og stefnumótandi umræðu um borgaravitund (e. citizenship, civic engagement) bæði hér á landi og á alþjóðavísu. Þá er fjallað um lífsgildi og hvernig þau vísa ungu fólki veginn í hugsun og hegðun bæði sem einstaklingar og sem samborgarar í fjölmenningarlegu og síbreytilegu samfélagi nútímans. Einnig verður gerð grein fyrir rannsóknum um hlutverk heimila, skóla og félagasamtaka við að efla borgaravitund ungs fóks ásamt því að fjalla um tengsl borgaravitundar við mismunandi þroskaþætti og hæfni hjá börnum og ungmennum, svo sem samskipta- og fjölmenningarhæfni og siðferðiskennd.

ATH: Námskeiðið fer fram á Zoom. Kennsluinnlegg eru tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram. Vikulega eru umræðutímar (90 mín.) á netinu en í nokkur skipta í stofu og þá er einnig hægt að vera á neti. Nemendur kynna fræðilegt efni sem einstaklingar og ritgerð í hópastarfi einu sinni á misserinu.

X

Staðartengd útimenntun (TÓS001M)

Kynningarvefur um námskeiðið

Á námskeiðinu ræður samfélag staðarins tilhögun námsins og við beitum reynslunámi þar sem nemendur upplifa „siglingar, strönd og arfleifð sjóferða“. Í staðartengdri útimenntun er unnið með námsferli sem grundvallað er á upplifun af sögum sem eiga rætur að rekja til ákveðins staðar; einstökum sögulegum staðreyndum, umhverfi, menningu, efnahag, bókmenntum og listum staðarins.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur upplifi staðinn með öllum sínum skynfærunum og öðlist þannig tengsl við staðinn sem verða grunnur að þekkingarleit.  Með því að tengjast staðnum og bregðast við honum þroska nemendur með sér dýpri skilning á einkennum staðarins, virðingu og vitund um hann. Gengið verður og siglt um undraheim staðarins, inn í fornar og nýjar sögur hans og nemendur velta fyrir sér framtíð staðarins.

Með þennan nýja skilning og viðmið að leiðarljósi munu nemendur kanna með fjölbreyttum hætti ýmis alþjóðleg vandamál, rétt umhverfisins, sjálfbærni og félagslegt réttlæti staðarins?

Nemendur eru hvattir til að beina sjónum sínum að samfélagi, sögum, menningu og hagsmunahópum og munu ýmsir sérfróðir aðilar taka þátt í kennslu á námskeiðinu ásamt kennurum. Nemendur upplifa staðartengda uppeldisfræði (e. pedagogy of place) bæði úti og inni að eigin raun og geta með því beitt henni í lífi og starfi.

Námskeiðið hefur verið þróað í samstarfi milli Háskóla Íslands og Outdoor Learning teymisins í Plymouth Marjon University í Bretlandi og er stutt af Siglingaklúbbnum Ými, Vatnasportmiðstöðinni Siglunesi, Sjóminjasafni Reykjavíkur og Sjávarklasanun.

Vinnulag:

Námskeiðið byggir á virkri þátttök allra. Undirbúningsdagur er 30. júní kl. 16-18. Námskeiðið er dagana 12.-18. ágúst 2024 og miðað er við kennslu allan daginn og við erum mjög mikið úti. 

Námskeiðið fer fram mikið úti. Stefnt er að því að fara á sjó, upplifa fjöru og strandlengju, kynnast nýjum hliðum á Reykjavík og fara í Viðey og Gróttu.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs[hja]hi.is

Samfélagsmiðlar

Fylgdu okkur á FacebookInstagram og YouTube!

Stakkahlíð

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.