Þroskaþjálfafræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Þroskaþjálfafræði

Þroskaþjálfafræði

Menntavísindasvið

Þroskaþjálfafræði

BA gráða – 180 ECTS einingar

Vilt þú taka þátt í að skapa samfélag fyrir alla?
Þroskaþjálfar eru lykilaðilar í að í að þróa samfélag fyrir alla, þar sem hver manneskja er álitin einstök og metin að verðleikum. Samfélag, sem vinnur saman að því að stuðla að fullri þátttöku allra með því að útrýma hindranir, koma í veg fyrir mismunun og skapa tækifæri. 

Skipulag náms

X

Inngangur að þroskaþjálfafræði (ÞRS118G)

Námskeiðið er inngangsnámskeið að þroskaþjálfafræðum. Þroskaþjálfar starfa á öllum sviðum samfélagsins með það að leiðarljósi að styðja og efla samfélagslega þátttöku og gæta hagsmuna fatlaðs fólks og annarra sem nýta sér þjónustu og fagþekkingu þeirra. Mannréttindi eru kjölfesta í störfum þroskaþjálfa.

Í námskeiðinu verður farið yfir grunnþætti þroskaþjálfastarfsins:

 • Mannréttindi og mannréttindasáttmála
 • Lykilhugtök þroskaþjálfafræða
 • Sögu og þróun þroskaþjálfastéttarinnar á Íslandi
 • Siðareglur, hugmyndafræði og gildi þroskaþjálfa
 • Lög og reglugerðir sem tengjast störfum og starfsvettvangi þroskaþjálfa
 • Hlutverk þroskaþjálfa í samfélagi margbreytileikans
 • Grunnþætti í teymis- og hópavinnu.

Nemendur fá kynningu á starfsviði og starfsháttum þroskaþjálfa á vettvangi og helstu þjónustukerfum í málaflokkum fatlaðs fólks. Starfandi þroskaþjálfar munu koma sem gestafyrirlesarar inn í kennslustundir og nemendur fara í skipulagðar vettvangsheimsóknir. Leitast er við að kynna nýjar íslenskar rannsóknir innan þroskaþjálfafræðinnar.

Vinnulag:
Fyrirlestrar, umræður og verkefnavinna. Áhersla er lögð á samvinnu nemenda og virka þátttöku í námskeiðinu. 
Allir nemendur námskeiðsins mæta í fyrstu staðlotu (nýnemavika). 
Fjarnemar mæta í aðra staðlotu og taka virkan þátt á Moodle á milli staðlotna.
Staðnemar mæta í vikulegar kennslustundir. 

X

Saga og fötlun: Þróun hugmynda og kenninga (ÞRS119G)

Í þessu námskeiði er tilgangurinn að gefa nemendum sögulega yfirsýn yfir þróun ólíkra hugmynda og kenninga um fötlun og með hvaða hætti þær  hafa mótað líf og aðstæður fatlaðs fólks, viðhorf til þess og stöðu í samfélaginu fyrr og nú. Séstök áhersla verður á tímabilið frá því í upphafi 20. aldar og fram til dagsins í dag. Í því skyni verður sjónum meðal annars beint að  mannkynbótastefnu, sjúkdómsvæðingu fötlunar, stofnanavæðingu og hugmyndafræði um eðlilegt lif og samfélagsþátttöku (normaliseringu). Auk þess verður fjallað um mannréttindabaráttu fatlaðs fólks, samtvinnun mismunabreyta og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í námskeiðinu er byggt á félagslegum skilningi fötlunarfræðinnar og fjallað verður um ýmsa félagslega og menningarlega þætti tengda fötlun. Í námskeiðinu er lögð sérstök áhersla á að tengja sögulegar hugmyndir og kenningar við daglegt líf og reynslu fatlaðs fólks.

X

Vinnulag í háskólanámi (MMB101G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að veita nemendum grundvallarfærni í fræðilegum vinnubrögðum og undirbúa þá sem best fyrir námið. Fjallað er um fagleg vinnubrögð í háskólanámi og um fræðileg skrif. Kynnt verða meginatriði í skipulagi og frágangi verkefna og ritgerða. Áhersla verður lögð á að þjálfa nemendur í að skrifa fræðilegan texta á góðri íslensku. Nemendur vinna m.a. verkefni þar sem þeir æfa sig í að finna heimildir í gegnum leitarvélar, nota og skrá heimildir á réttan hátt.

X

Fötlun og lífshlaup (ÞRS212G)

Í þessu námskeiði verður líf og aðstæður fatlaðs fólks á ólíkum æviskeiðum skoðað með það að markmiði að greina hvernig best megi styðja við fulla samfélagsþátttöku fatlaðs fólks og fjarlægja manngerðar hindranir í lífi fatlaðs fólks á öllum aldri. Einnig verður horft til þess hvernig margþætt mismunun á ólíkum tímabilum í lífi fatlaðs fólks hefur áhrif á hvað fötluðu fólki er boðið upp á og hvaða væntingar það hefur í hversdeginum og til framtíðar, t.d. á sviði menntunar, atvinnu, fjölskyldulífs, ástarsambanda, heimilislífs, félagsstarfa og tómstunda, og stjórnmálaþátttöku. Lögð verður áherslu á að skoða gagnrýnar kenningar um æviskeiðið og hvernig hugmyndir okkar um ólík æviskeið, t.d. bernsku, unglingsár og fullorðinsár, geta verið bæði hamlandi og frelsandi fyrir hóp fatlaðs fólks og sjálfsmyndarsköpun þess. Í þessu samhengi verður íslensk stefnumótun og löggjöf í málefnum fatlaðs fólks skoðuð og alþjólegir mannréttindasamningar?

Vinnulag: Fyrirlestrar, hópavinna og greining opinberrar umræðu. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda í umræðum og að þeir fylgist vel með umfjöllun um fötlun í fjölmiðlum með tilliti til birtingarmynda fötlunar og ólíkra æviskeiða. Jafnframt að nemendur tileinki sér fræðileg vinnubrögð í skrifum og við heimildaleit.

X

Þroskasálfræði: Allt æviskeiðið (ÞRS215G)

Viðfangsefni
Fjallað er um þroska mannsins yfir allt æviskeið hans. Veigamestu kenningum um þroska verða gerð skil, m.a. kenningum um vitrænan þroska, tilfinningaþroska og þróun tilfinningatengsla, kenningum um félagsþroska, þróun sjálfsmyndar og siðferðisvitundar.
Þar sem bæði þroskaþjálfar og uppeldis- og menntunarfræðingar starfa við fjölbreyttar aðstæður verður lögð áhersla á umfjöllun um áhrif uppeldis, aðallega innan fjölskyldunnar en einnig innan skólans, og áhrif félagslegra aðstæðna og menningar á þroska einstaklingsins. Þá verður einkennum hvers æviskeiðs gerð skil og fjallað um helstu breytingar sem eiga sér stað á hverju æviskeiði. 

Vinnulag
Kennsla fer fram í fyrirlestrum í staðlotum, hljóðglærum sem birtast á kennsluforritinu Moodle og umræðu- og verkefnatímum.
Nemendur geta valið í upphafi námskeiðsins hvort þeir sæki verkefnatíma í kennslustofu eða taki þátt í umræðum í Moodle.  Verkefnatímar miða að því að nemendur fá þjálfun í að ræða námsefnið á gagnrýninn hátt, hjálpa þeim að mynda tengsl milli kenninga og vettvangs og er ætlað að virkja nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum og miðlun. 

X

Vald og jaðarsetning: hagnýting félagsfræðikenninga (ÞRS214G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur læri að þekkja og nota mismunandi félagsfræðilegar kenningar sem tengjast líkamlegu og andlegu atgervi. Farið verður yfir hugtök sem tengjast valdi, til dæmis stigma, valds, öráreitni og innbyrðingu, sem nemendur geta nýtt sér til að greina hvernig normi er viðhaldið og hvernig samfélagslegar skilgreiningar á normi eru til komnar. Þær kenningar sem farið verður í ættu að geta nýst nemendum til þess að átta sig á því hvernig jaðarsetningu hópa er viðhaldið í samfélaginu og hvernig ögun líkama fer fram.

X

Fötlun, heilsa og færni (ÞRS308G)

Efni námskeiðs skiptist í megindráttum í þrennt. Í fyrsta lagi er fjallað um einkenni og orsakir mismunandi skerðinga ásamt aðferðum í starfi með fötluðu fólki. Í öðru lagi er fjallað um heilsu og heilstengda þætti í lífi fatlaðs fólks. Í þriðja lagi er fjallað um tengsl umhverfis og heilu. Þar verður kynnt hugmyndin um algilda hönnun og heilsu og hvaða þátt hindranir í daglegu lífi geti haft áhrif heilsu. Í umræðum verða skoðuð og borin saman mismunandi sjónarhorn á fötlun (læknisfræðilegt og félagaslegt). Einnig verður efnið tengt  við starfsvettvang þroskaþjálfa og Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

X

Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir í starfi með fötluðu fólki (ÞRS310G)

Í námskeiðinu er fjallað um Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir (tjáskiptatækni) fyrir fólk með tal- og tjáskiptaörðugleika af ýmsum toga. Áhersla er lögð á mikilvægi tjáskipta frá unga aldri og þátt þeirra varðandi mannréttindi og sjálfstætt líf. Nemendur fá kennslu í að nota tákn með tali, ýmis myndakerfi s.s. PCS myndir og Blisstáknmálið. Einnig verður veitt innsýn í TEACCH hugmyndafræðina, og PECS tjáskiptaaðferðina ásamt fleiri aðferðum. Jafnframt eru viðeigandi tölvuforrit kynnt ásamt einföldum tæknibúnaði. Í námskeiðinu er lögð rík áhersla á hagnýta notkun óhefðbundinna tjáskiptaleiða og miða verkefni námskeiðsins að þjálfun nemenda á  því sviði.

 

Vinnulag:
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, umræðum og verkefnatímum. Kennt er í stað og fjarnámi með tveimur staðlotum. Leitast er við að gefa nemendum tækifæri til að sjá þær aðferðir sem eru til umfjöllunar notaðar annað hvort á myndbandsupptökum eða með heimsóknum notenda.

X

Siðfræði og fagmennska (MMB302G)

Í þessu námskeiði er farið í siðfræði með áherslu á nytjastefnu, réttarstefnu (skyldukenningar), mannréttindi og siðfræðileg hugtök eins og sjálfræði, velferð, friðhelgi einkalífs og virðingu. Jafnframt er fjallað um tengsl fagmennsku og siðferðis.

Áhersla er lögð á að tengja hina fræðilegu umfjöllun við siðferðileg álitamál í starfi fagstétta sem vinna með margvíslegum hópum í samfélaginu

X

Vettvangsnám (ÞRS401G)

Viðfangsefni vettvangnámsins er að tengja saman fræði og framkvæmd og er áherslan á einstaklings-og fjölskyldumiðaða þjónustu. Nemendur sækja vettvangsnám sitt á valda vettvangsstaði og nema undir leiðsögn starfandi þroskaþjálfa. Þeir taka virkan þátt í störfum leiðbeinenda sinna í samræmi við leiðsagnaráætlun og greina vinnulag við framkvæmd einstaklingsmiðaðrar þjónustu. Ívettvangsnáminu er miðað að því að nemendur kynnist innra starfi viðkomandi stofnunar, þjónustunni sem hún veitir ásamt þeirri hugmyndafræði og lagalega ramma sem hún starfar eftir. Nemendur sækja vikulega leiðsagnarfundi til leiðbeinenda sinna. Auk þess skapa leiðbeinendur nemendum tækifæri til heimsókna á aðra þjónustustaði. Vettvangsnámið fer fram á seinni hluta vormisseris í um sex vikur og viðveruskylda er sex klukkustundir á dag.

X

Persónumiðuð þjónusta (ÞRS402G)

Námskeiðið er undanfari námskeiðsins Vettvangsnám: Einstaklingsmiðuð þjónusta (10e). Um er að ræða heildstætt nám fræða og vettvangs.

Viðfangsefni:

Meginviðfangsefni námskeiðsins er þá fræðilegur grunnur sem einstaklings- og fjölskyldumiðuð þjónusta hvílir á sem og aðferðir, leiðir og verkfæri einstaklingsmiðaðra starfshátta.

 • Sérstök áhersla er á lykilþætti sem varða einstaklingsmiðaða þjónustu og eru kjarni siðareglna og starfskenningu þroskaþjálfa: mannréttindi, sjálfsákvörðun, þátttaka, valdefling og lífsgæði.
 • Kenndar verða grunnþættir í áætlanagerð, markmiðssetningu, árangursmati og samvinnu við einstaklinga, fjölskyldur og stuðningsteymi.
 • Skoðaðar eru ólíkar leiðir við að skilja, greina og meta þjónustuþarfir fólks á öllum aldri í fullu samstarfi við það sjálft og/eða fjölskyldum og stuðningsteymum þess.
 • Kynntar eru ólíkar aðferðir við að efla færni og lífsgæði í samræmi við vilja og þarfir einstaklinga og fjölskyldna.
 • Fjallað verður um hlutverk og starfshætti þroskaþjálfa í þjónustuteymum og aðferðir við mat á eigin vinnubrögðum og árangri þjónustuáætlana.

Vinnulag: 

Fyrirlestrar, verkefni og umræður. Gert er ráð fyrir virka þátttöku nemenda. Námskeiðið er kennt bæði í staðnámi með vikulegum kennslustundum og í fjarnámi þar sem nemendur mæta tvisvar í staðlotu yfir misserið en vinna á netinu þess á milli. Rík áhersla er lögð á að stað- og fjarnemar mæti í staðlotur.

X

Fjölskyldan og samvinna (ÞRS412G)

Tilgangur þessa námskeiðs er að nemendur öðlist þekkingu á fræðilegum hugmyndum og kenningum um fjölskylduna og mikilvæga færni í samstarfi við fjölskyldur og samstarfsaðila.


Fjallað verður um fjölskylduna í sögulegu samhengi, hvernig hún ýmist hefur verið upphafin eða gagnrýnd. Jafnframt verður fjallað um breytileg hlutverk fjölskyldunnar og meðlima hennar í gegnum tíðina ásamt skörun hlutverka fjölskyldna og ýmissa stofnana samfélagsins. Þroskaþjálfar eru oft í framvarðasveit þessara stofnana og er sérstaklega fjallað um hvernig styðja megi fjölskyldur til að takast á við verkefni sín. Skoðuð verða hlutverk stuðningsaðila í samstarfi við fjölskyldur og hvað einkennir góðan stuðning. Rýnt verður í samskipti, unnið með samskipta-og viðtalstækni og viðtöl sem vinnutæki.


Kennslan fer fram í fyrirlestrum í staðlotum, hljóðglærum sem birtast á kennsluforritinu Moodle og umræðu- og verkefnatímum þar sem nemendur fá tækifæri til að ræða námsefnið á gagnrýninn hátt. Þar fá þeir möguleika á að dýpka skilning sinn á þeim ferlum sem eiga sér stað í samskiptum manna, hvort sem er innan eigin fjölskyldu eða í öðrum samskiptum. Nemendur vinna verkefni sem þeir kynna fyrir samnemendum og ræða. Verkefnin miðast að því að mynda tengsl milli kenninga og vettvangs og er ætlað að virkja nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum og miðlun.  

X

Aðferðafræði rannsókna í félagsvísindum I (MMB301G)

Markmið námskeiðins er að nemendur fái innsýn í aðferðafræði rannsókna í félagsvísindum. Í námskeiðinu verður fjallað um grundvallarhugtök í þekkingarfræði og vísindaheimspeki. Þá verður lögð áhersla á síðfræði rannsókna og ýmis siðfræðileg atriði sem sérstaklega tengjast rannsóknum og aðferðafræðilegum álitamálum með viðkvæmum hópum. Fjallað verður um helstu rannsóknaraðferðir og rannsóknarferlið kynnt. Nemendur rýna í rannsóknir á sínu fræðsviði í því skyni að auka hæfni þeirra til að nýta sér niðurstöður rannsókna og tileinka sér gagnrýnið hugarfar.

 

Í megindlega hluta námskeiðsins er fjallað um meginatriði lýsandi tölfræði og nokkur hugtök úr ályktunartölfræði. Nemendur fá meðal annars heimadæmi í tölfræði. Þá verður sjónum beint að rannsóknum á sviði tómstunda- og félagsmálafræði, uppeldis- og menntunarfræði og þroskaþjálfafræði og þeim aðferðafræðilegu álitamálum í rannsóknum sem upp kunna að koma.

 

Í eigindlega hluta námskeiðsins verður fjallað um upphaf og þróun þessarar rannsóknarhefðar og helstu aðferðir innan hennar. Sérstök áhersla verður á tengingu við rannsóknir á sviði fötlunar-, tómstunda- og uppeldisfræða. Þar á meðal verða kynntar aðferðir þátttöku- og samvinnurannsókna en þær hafa á undaförnum árum verið að þróast í rannsóknum með viðkvæmum hópum.

 

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður og verklegir tímar. Jafnframt fá nemendur heimaverkefni og dæmi í tölfræði. Þá gera nemendur viðtalskönnun á vettvangi.

 

X

Forysta, fagmennska og heildræn þjónusta (ÞRS501G)

Viðfangsefni: Fjallað um helstu kenningar um fagmennsku, forystu og leiðtogahugsun. Ennfremur verða starfskenningar í brennidepli. Í þessu ljósi verður fjallað um mikilvægi sjálfsþekkingar fyrir fagmenn og leiðtoga. Einnig um mikilvægi þess að nemendur efli persónulega hæfni sína sem leiðtoga sem og að efla leiðtogahugsun meðal fatlaðs fólks. Hlutverk og fagleg sjónarmið þroskaþjálfa verða skoðuð í sögulegu ljósi með áherslu á stöðuna í dag og helstu áskoranir til framtíðar.  Í þessu samhengi verður lögð áhersla á að gefa nemendum heildstæða sýn á velferðarkerfið og meginþætti þess, síbreytileika og þróun samfélagsgerða, heildræna sýn á lagaumhverfi og núverandi þjónustukerfi.  Sérstök áhersla verður lögð á baráttuhreyfingar fatlaðs fólks, þróun mannréttinda og kröfur fatlaðs fólks í ljósi starfshlutverks þroskaþjálfa. Í því samhengi verður lögð áhersla á að nemendur öðlist dýpri þekkingu á birtingarmyndum margþættrar mismununar og sálrænna afleiðinga þess  að búa við misrétti og hvernig Samningur  Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hugmyndafræðin um sjálfstætt líf eru lykilþættir í að stuðla að umbótum. Jafnfram innsýn og þekkingu á nálgunum við að útfæra þjónustu í þeim anda sem þar er kveðið á um. Í þessu ljósi er lögð áhersla á að nemendur öðlist dýpri þekkingu og skilning á þeim starfsviðmiðum og gildum sem mannréttindanálgun þjónustu grundvallast á. Einnig á vinnubrögð, áherslur í samstarfi og samráði og leiðir við að meta þjónustu í ljósi mannréttinda. Sveitastjórnarstigið verður sérstaklega skoðað í ljósi reynslu af yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Fjallað  verður um nýja löggjöf á sviði félagsþjónustu, málefna fatlaðs fólks og barnaverndar í ljósi starfsskyldna þroskaþjálfa. Þverfaglegt samstarf verður þar í brennidepli.  Fjallað verður um stjórnsýslu þessara þátta velferðarkerfisins, m.a. með hliðsjón af stjórnsýslulögum og  hugmyndafræðilegum áherslum annars vegar og meginreglna í faglegum vinnubrögðum hins vegar.

X

Þroskaþjálfafræði í alþjóðlegu ljósi (ÞRS604G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist innsýn í störf og hlutverk þroskaþjálfa í öðrum löndum. Í námskeiðinu er fjallað um sameiginlegar fræðilegar stoðir faggreinarinnar, uppruna hennar, þróun og framtíðarsýn, og lögð áhersla á að undirbúa nemendur undir að taka þátt í alþjóðlegu starfsumhverfi fagstéttar sinnar.

X

Í brennidepli: Málstofa í þroskaþjálfafræði (ÞRS605G)

Nemendur sækja námskeiðið samhliða vinnu lokaverkefna til BA-gráðu. Nemendur fá tækifæri til að kynna, ræða og ígrunda viðfangsefni verkefna í jafningjahópi í gegnum allt námskeiðið. Í kennslunni verður farið yfir hagnýt atriði í tímastjórnun, rannsóknaráætlanagerð, ritun og málflutningi.

Markmið námskeiðsins er að stuðla að færni í ritun fræðilegs texta og til að flytja erindi um fræðilegt efni á málstofu eða ráðstefnu. 

Í lok námskeiðs skipuleggja nemendur ráðstefnu og flytja erindi um BA ritgerð sína og gera einnig veggspjald og útdrátt til birtingar í ráðstefnuriti.

X

Lokaverkefni (ÞRS261L)

Lokaverkefni er sjálfstætt verk nemandans og miðar að því að nemendur dýpki skilning sinn á afmörkuðu efni og tengi það sínu fræðasviði. Verkefnið er unnið undir leiðsögn leiðsögukennara og geta verið af þrenns konar toga:

 • Rannsóknarritgerð eða fræðileg ritgerð þar sem nemandi aflar gagna úr fræðilegum heimildum til að leita svara rannsóknarspurningar sinnar. Kafað er í rannsóknir og kenningar á viðkomandi fagsviði og lagt mat á þær.
 • Rannsóknarskýrsla sem byggir á rannsókn nemanda og gögnum. Byggir skýrslan á gagnasöfnun með viðtölum eða spurningarlistum ásamt úrvinnslu þeirra og tengingu við fræðilegt efni.
 • Annars konar verkefni eru þau verkefni þar sem einhver hagnýt afurð/efni er sköpuð og henni fylgt út hlaði með ítarlegri greinargerð. Í henni þarf markmið verkefnisins að koma fram, það sett í fræðilegt samhengi og greint frá niðurstöðum verkefnisins. Dæmi um annars konar verkefni eru bæklingar, vefsíður, gjörningar, bækur, myndbönd eða önnur afurð.

Ekki er æskilegt að nemendur geri rannsóknir á börnum, ungmennum eða öðrum einstaklingum sem þurfa á sérstakri vernd að halda eða aðstandendum þeirra (svo sem sjúklingum, föngum eða einstaklingum með þroskahömlun). Forðast skal að nemendur, sem eru að skrifa lokaverkefni, leiti inn í skólana til rannsókna nema sem þátttakendur í rannsóknum kennara eða nemenda sem eru komnir lengra í námi (meistara- og doktorsnema). Sé það þó gert í undantekningartilvikum verður ávallt að gæta þess að fá upplýst samþykki forráðamanna þeirra sem ekki eru lögráða auk þátttakenda sjálfra.

Lokaverkefni á þroskaþjálfabraut er skylda og gert er ráð fyrir að nemendur hafi lokið um 120 einingum áður en þeir hefja vinnu við lokaverkefni. Eins er skilyrði að nemendur hafi lokið námskeiði í aðferðafræði hyggist þeir gera rannsókn.

X

Inngangur að foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf (FFU101M)

Viðfangsefni

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum og rannsóknum um uppeldi barna og undirbúi sig undir að geta frætt foreldra um þær aðferðir sem best hafa reynst. Fjallað verður um efnið á breiðum grunni, þannig að nemar fái sem víðasta sýn á uppeldishlutverkið og aðferðir til að sinna því sem best.

 

Vinnulag

Námskeiðið er skipulagt sem staðbundið. Kennsla fer fram í samræðum og gagnvirkum fyrirlestrum. Námið er auk þess byggt upp á lestri, hópvinnu, kynningum og skriflegum verkefnum.

X

Jákvæð sálfræði og velferð (UME102M)

Fræðilegur rammi námskeiðsins byggir á jákvæðri sálfræði. Fjallað verður um ólíkar kenningar um velfarnað og hamingju;  þætti eins og hugarfar, tilfinningar, sjálfstjórn, sjálfsþekkingu, styrkleika, áhugahvöt, merkingu og markmiðasetningu.  Kynntar eru ýmsar aðferðir til að stunda sjálfsskoðun, aðferðir sem  jafnframt efla farsæld og sjálfsþekkingu; svo sem núvitund og markþjálfun og ýmsar fleiri raunprófaðar aðferðir úr smiðju jákvæðrar sálfræði.  

 Nemendur vinna meðal annars fræðileg verkefni þar sem þeir tengja jákvæða sálfræði við áhugasvið eða eigin starfsvettvang. Einnig vinna þeir verkefni sem fela í sér sjálfsskoðun og persónulega stefnumótun. Þá munu nemendur fara í gegnum heildstætt grunnnámskeið í núvitund, fara í gegnum æfingar heima og halda dagbók í tengslum við núvitundarþjálfunina.

 Námskeiðið byggir á erindum, æfingum og umræðum með áherslu á virka þátttöku nemenda.

 Námskeiðið er opið nemendum úr öllum deildum háskólans, en hentar einkum þeim sem hafa áhuga á heilsueflingu og lífsleikni, aukinni  samskiptahæfni sem og þeim sem hafa hug á að starfa með fólki á vettvangi; sem ráðgjafar, kennarar, leiðbeinendur eða leiðtogar.

X

Íþróttakennsla í margbreytilegum hópi og sérhæfð þjálfun (ÍÞH516G)

Í námskeiðinu er fjallað um ólíkar þarfir nemenda í skólaíþróttum og hvernig hægt er að mæta þeim. Byggt verður á þeirri þekkingu sem nemendur hafa þegar öðlast um hreyfingu og íþróttakennslu. Nemendur kynnast fjölbreyttum leiðum og aðferðum til að aðlaga æfingar og leiki að þörfum ólíkra einstaklinga í margbreytilegum hópi. Áhersla er lögð á að mæta hverjum nemanda á hans forsendum og hvetja til hreyfingar og íþróttaiðkunnar.

 

Einnig verður farið í vettvangsheimsóknir og fylgst með þjálfun fatlaðra íþróttaiðkenda sem stefna langt í sínum greinum. Þar verða kynntar ýmsar leiðir og aðferðir í sérhæfðri þjálfun.

X

Leiklist, sögur og frásagnir (LVG308G)

Markmið:

Að nemendur

 • þekki til fræðilegra kenninga um uppeldislegt gildi frásagna og ævintýra fyrir börn
 • geti tengt aðferðir leiklistar við sögur og frásagnir og þannig gert hlustendur að virkum þátttakendum í frásögn
 • hafi innsýn í sérstöðu leiklistar sem virkrar reynslu
 • hafi sjálfstæði og nokkra færni til að segja börnum sögur og ævintýri ásamt því að þjálfa börnin í að segja frá eigin upplifunum
 • hafi kynnst á vettvangi skóla hvernig frásagnir eru tengdar námsgreinum, til dæmis lífsleikni og trúarbragðafræðslu

Viðfangsefni: Fræði um uppeldislegt gildi frásagna og ævintýra fyrir börn og mikilvægi leiklistar í tengslum við virka upplifun þátttakenda. Þjálfun í að segja áheyrilega frá og tvinna leiklist inn í frásögn til þess að dýpka skilning á efni. Mótun leiklistarferlis í tengslum við frásagnir og ævintýri. Athugun á því hvernig kennarar nýta sögur og ævintýri með ungum nemendum.

Vinnulag: Fyrirlestrar, lestur og umræður/málstofur. Vettvangsathuganir og kynningar. Leiklistar- og frásagnarsmiðjur. Nemendur vinna sjálfstætt að því að skapa og móta leiklistarferli í tengslum við frásagnir og ævintýri. Þjálfun í frásagnarlist.

_________

Æskilegt er að nemi hafi áhuga á að nýta leiklist og frásagnir með börnum. Námskeiðið hentar vel fyrir kennara í leikskóla og á yngstu stigum grunnskólans.

X

Fata- og nytjahlutahönnun (LVG501M)

Lögð er áhersla á sniðútfærslur og saumtækni í tengslum við hönnun á fatnaði og nytja- og híbýlahlutum. Nemendur vinna rannsóknarmiðaða hugmynda-, upplýsinga- og heimildaöflun út frá eigin vali sem þeir nýta sem uppsprettur nýrra hugmynda með áherslu á nýsköpun. Unnið er með fjölbreyttar textílaðferðir sem skreytimöguleika í þrívíðri túlkun og lögð áhersla á að nemendur sýni sjálfstæði og frumleika í nálgun sinni á viðfangsefnum. Nemendur efla hæfni sína í að vinna samkvæmt lögmálum hönnunar þar sem vinnuferlið er fólgið í því að afla upplýsinga, rannsaka og gera tilraunir. Á þann hátt tileinka nemendur sér frumleika og listræna nálgun í viðfangsefnum sínum. Þjálfaður er faglegur frágangur verkefna í hönnunarmöppur og fyrir sýningu. Einnig eru unnar verkefnaskýrslur og greinargerð yfir afrakstur námskeiðsins og tengingu þess við kennslufræðilega þætti og gildi greinarinnar fyrir nám og atvinnulíf.

X

Nemi styður nema - fjölbreytt háskólasamfélag (haust) (TÓS106G)

Viðfangsefni

Viðfangsefni námskeiðsins eru félagsleg samskipti, samvera og námsaðstoð við nemendur sem geta þurft aðstoð og/eða stuðning í námi sínu á Menntavísindasviði HÍ.

Í námskeiðinu verður fjallað um nýjar áherslur og nýbreytni í menntamálum, sérstök áhersla lögð á nám án aðgreiningar, algilda hönnun og tækifærin sem hugmyndafræðin býður upp á. Einnig verður fjallað um markþjálfun, jafnrétti, samfélag án aðgreiningar og mannréttindi í víðu samhengi. Kynntar verða leiðir til að efla náms- og félagslega þátttöku nemenda í háskólanum með fjölbreyttum hætti.

Að námskeiði loknu hljóta nemendur viðurkenningu/staðfestingu á að hafa lokið námskeiðinu sem þeir geta til dæmis nýtt í ferilskrá en námskeiðið er dýrmæt reynsla sem mun nýtast í leik og starfi.

Vinnulag
Samstarf og samvera með samnemum er að jafnaði þrjár kennslustundir á viku. Samstarfið getur falið í sér námsaðstoð, til dæmis við verkefnavinnu, verkefnaskil, yfirferð á námsefni eða samveru á bókasafni eða matsal og þátttaka í félagslífi á vegum nemendafélaga.

Fimm fræðslufundir með kennurum fyrrihluta misseris auk eins vinnudags þar sem nemendur fá stuðning og fræðslu. Að auki geta nemendur pantað fundi eftir þörfum með kennurum námskeiðsins.

Nemendur vinna dagbókarverkefni jafnt og þétt yfir misserið og skila lokaskýrslu um reynslu sína af námskeiðinu.

X

Rannsóknar og þróunarvinna í list- og verkmenntun (LVG101M)

Markmið;

Að loknu námi skal nemandi

-    hafa dýpkað þekkingu sýna og skilning á völdu viðfangsefni innan list- og verkgreina í gegnum skapandi vinnu
-    geta sett sér markmið, gert starfsáætlun og fylgt henni.
-    geta unnið sjálfstætt og skipulega í skapandi vinnu með áherslu á frjóa og skapandi hugsun og ígrunduð vinnubrögð.
-    hafa fengið þjálfun í almennri hugmyndavinnu og nýsköpun hugmynda í gegnum verklega iðkun og þróunarvinnu
-    hafa öðlast skilning og tileinkað sér helstu vinnuaðferðir innan listrannsókna
-    hafa þjálfast í gagrýnni umræðu um eigin verk og annarra, tileinkað sér víðsýni og frumleika sem nýtist í námi og / eða starfi og öðlast færni í framsetningu eigin verka og geti rökstutt eigin niðurstöður.

Inntak/viðfangsefni:

Sameiginlegur kjarni.

Kynntar verða aðferðir og kenningar innan hugmyndavinnu og nýsköpun hugmynda, þróun þeirra og vistun.

Einstaklingsvinna.

Nemendur takast á við sjálfstæð rannsóknarverkefni samkvæmt samningi.
Rannsóknarvinnan fer fram í gegnum verklega iðkun útfrá völdu viðfangsefni. Hún skal vera unnin eftir viðurkenndri rannsóknarleið innan list- og verkgreina, með áherslu á frjóa og skapandi hugsun og ígrunduð vinnubrögð.

Meginþættir rannsóknarvinnunnar eru gagnaöflun ásamt tilrauna- og þróunarvinnu. Áhersla er lögð á framsetningu verkefnis og að nemendur geti rökstutt niðurstöður sínar og lokaafurð.

Vinnulag:
Fyrirlestrar, gagnaöflun, skrifleg og myndræn skráning, skrifleg greinagerð, verkleg vinna og umræður.

X

Leikir í frístunda- og skólastarfi (TÓS305G)

Á námskeiðinu er fjallað um gildi góðra leikja í frístunda- og skólastarfi. Nefna má kynningar – og hópstyrkingarleiki, hlutverkaleiki, einfalda og flókna námsleiki, hópleiki, rökleiki, gátur, þrautir, spurningaleiki, umhverfisleiki, námsspil, söng- og hreyfileiki, orðaleiki og tölvuleiki, leikræna tjáningu o.s.frv. Áhersla verður lögð á að kynna þátttakendum heimildir um leiki og verður sérstök áhersla á að kynna Internetið sem upplýsingabrunn um leiki. Þátttakendur spreyta sig á að prófa margvíslega leiki og leggja mat á þá. Þá verður unnið í hópum við að safna góðum leikjum (námsmappa- portfolio) sem hægt er að nota í frístunda- og skólastarfi. Athugið að þetta námskeið er kennt á laugardögum.

X

Tómstundir og aldraðir (TÓS308G)

Markmið: Að nemendur 

 • Kynnist því tómstundastarfi sem sérstaklega er boðið upp á fyrir aldraða á Íslandi
 • Efli eigin færni og styrk í að vinna með öldruðum á vettvangi frítímans
 • Geti skipulagt og stjórnað tómstundastarfi fyrir aldraða
 • Kynnist aðstæðum aldraðra á Íslandi í dag
 • Kryfji rannsóknir á gildi tómstunda fyrir aldraða
 • Þekki til helstu kenninga um öldrun
 • Þekki lög og reglugerðir og uppbyggingu þjónustu fyrir þennan aldurshóp.
 • Þrói hugmyndir sínar um tómstundastarf fyrir aldraða með því að gera verkefni á vettvangi

Inntak / viðfangsefni: Fjallað verður um kenningar, stefnumörkun, hugmyndafræði, lífsskeiðaþróun og breytingarferli fullorðinsára frá mismunandi sjónarhornum. Farið verður í löggjöf og uppbyggingu þjónustu við aldraða. Gerð verður grein fyrir öldrunarfræðilegum rannsóknum og fjallað um þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa og áhrif þeirra á þjónustu við aldraða. Áhersla er á tómstundir, virkni, forvarnarstarf og þátttöku aldraðra í stjórnun og skipulagningu þjónustunnar.

Vinnulag: Fyrirlestrar, verkefni, umræður, vettvangsheimsóknir og þátttaka í skipulagningu og stýringu félagsstarfs.

X

Samskipti og samvinna í háskólanámi (TÓS107G)

Markmið námskeiðsins er að efla samstarfsfærni og sjálfstraust nemenda í ólíkum aðstæðum í námi, leik og starfi.  Í margbreytilegu nútímasamfélagi og í háskólanámi er gerð krafa um mikla hópavinnu og krefjandi samskipti. Námskeiðinu er ætlað að undirbúa nemendur undir slíka samvinnu og færa þeim verkfæri til að takast að við þær kröfur.

Unnið verður með þætti eins og

 • samvinnu,
 • samskipti,
 • sjálfstyrkingu,
 • hópefli og liðsheildarvinnu,
 • framkomu og tjáningu. Þar er áhersla lögð á hæfni til að kynna ákveðin viðfangsefni og markmið og að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í umræðum. Þar er áhersla lögð á hæfni til að kynna hugmyndir, viðfangefni og markmið og til að geta komið sínum sjónarmiðum og skoðunum á framfæri í umræðum og hópavinnu.  

Kynntar verða kenningar og hugsmið sem auka skilning á samvinnuferlum í margbreytilegum hópum og varpa ljósi á birtingarmyndir margbreytileikans í samfélagi fyrir alla (inngildandi samfélagi).

Nemendur kynnast verkfærum og leiðum og læra aðferðir til að

 • Styrkja eigið sjálfstraust og samstarfsfærni í námi, leik og starfi
 • Efla eigin þátttöku, virkni og árangur í ýmiskonar samstarfi
 • Efla liðsheild og farsæla hópavinnu
 • Efla þátttöku allra í margbreytilegu samfélagi

Áhersla er á samvinnu og verkefnavinnu með markvissum hætti og nemendur ættu því að búa að aukinni færni fyrir önnur námskeið í háskólanámi, vinnumarkað og félagsstörf hvers konar.

Námskeiðið er opið öllum nemendum í grunnnámi á Menntavísindasviði.  Námskeiðinu er ætlað að mæta síaukinni kröfu um færni í að vinna í fjölbreytilegu og fjölmenningarlegu starfsumhverfi.

Námskeiðið er skipulagt út frá hugmyndum um algilda hönnun í námi: sveigjanlegar og fjölbreytilegar námsleiðir, fjölbreytt námsefni, sveigjanlegar og fjölbreytilegar námsmatsaðferðir. Í námskeiðinu er lögð áhersla á jafningjafræðslu og að nemendur í þessu námskeiði og öðrum námskeiðum sjá um  hluta kennslunnar með virkum hætti.

X

Sjálfboðaliðastarf: Verkefni tengd menntun og velferð barna og ungmenna (UME005M)

Í námskeiðinu er fjallað um sjálfboðaliðastarf og þær félagslegu, menntunarlegu og sáfræðilegu kenningar sem tengdar hafa verið við þessa tegund borgaralegrar þátttöku. Einnig er rætt um hvata að slíkri þátttöku og kynjamun í því sambandi. Loks er fjallað um mikilvæga þætti í skipulagi og uppbyggingu sjálfboðaliðastarfs sem eru til þess fallnir að þátttakendur upplifi tilgang með því að taka þátt og séu líklegri til frekari sjálfboðaliðaþátttöku í framtíðinni. Nemendur munu jafnframt fá tækifæri til að kynnast sjálfboðaliðastarfi af eigin raun og taka þátt í starfi hjá stofnunum og félagasamtökum sem veita fólki aðstoð með félagslegt jafnrétti og velferð að leiðarljósi.

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður og tímaverkefni í fjögur skipti, tvisvar í staðlotu I og tvisvar í staðlotu II. Skyldumæting er í staðlotum. Sjálfboðaliðastarf á vettvangi fer fram í sex skipti í vissan klukkustundafjölda og þarf þátttaka að vera 100%.

X

Átakasvæði í heiminum – áskoranir fjölmenningar (SFG001G)

Meginviðfangsefni námskeiðsins eru átök og átakasvæði í heiminum einkum með hliðsjón af tækifærum og áskorunum sem slík viðfangsefni gefa í kennslu. Þátttakendur kynnast hugmyndum og sjónarmiðum tengdum átökum og tengja við landfræðilegar aðstæður, sögu, menningu og trúarbrögð. Unnið verður með valin tvö til þrjú átakasvæði. Til greina koma Írland og írska lýðveldið, Ísrael og Palestína, Mexíkó, Myanmar, Nígería og Tyrkland, auk átaka sem erfitt er að afmarka landfræðilega. Val á viðfangsefnum verður í samráði við þátttakendur og eftir atvikum verða þau tengd við íslenska sögu og aðstæður.
Verkefni námskeiðisins snúa að  æfingum í upplýsingaleit, framsetningu sögulegra og landfræðilegra upplýsinga og í að útskýra flókna eða viðkvæma þætti efnisins.
Lokapróf gildir 40%, en verkefni og hlutapróf 60%. Form verkefna og hlutaprófa verður ákveðið í samráði við þátttakendur.
Námskeiðið er kennt í vikulegum kennslustundum. Fjarnemum er skylt að mæta í staðlotur samkvæmt kennsluáætlun.

X

Kennsla og margbreytilegir nemendahópar (KEN103G)

MARKMIÐ
Markmið námskeiðsins er að nemendur
-    geti greint frá og útskýrt opinbera stefnu og hugmyndafræði um málefni nemenda með ólíkar kennsluþarfir (grunnskóla/framhaldsskóla)
-    geta talið upp og greint mismunandi áherslur og skipulag á vettvangi þegar skóli mætir ólíkum náms- og kennsluþörfum nemenda,
-    geta nefnt og bent á einkenni algengustu námsörðugleika og gefið dæmi um það hvernig kennari getur brugðist við með viðeigandi kennsluúrræðum,
-    geti greint frá nokkrum ólíkum fötlunum, en átti sig jafnframt á gagnsemi þess að skoða og skilgreina þá þætti sem skipta meginmáli fyrir nám og kennslu
-    mæta þörfum bráðgerra nemenda í kennslu sinni á viðeigandi hátt
-    greina frá þeim áhrifum sem menningarlegur bakgrunnur nemenda getur haft á nám þeirra og hvernig kennari getur brugðist við honum,
-    beiti í kennslu sinni kennsluaðferðum og kennsluskipulagi sem auðveldar kennurum að koma til móts við ólíkar kennsluþarfir í margbreytilegum nemendahópum.

VIÐFANGSEFNI:
Nemendur kynni sér hugmyndafræði og stefnu um skóla án aðgreiningar (inclusion) og lög og reglugerðir um nám og kennslu nemenda með ólíkar kennsluþarfir.
Lögð verður áhersla á að skýra og skilgreina margbreytileika í nemendahópi og hvernig koma má til móts við ólíkar náms- og kennsluþarfir með sveigjanlegu kennsluskipulagi og fjölbreyttri kennslutækni, sem gefur möguleika á þátttöku í námi og skólastarfi, óháð fötlun, námshæfni eða menningarlegum bakgrunni.
Fjallað verður um algengustu námsörðugleika, t.d. lestrar- og málörðugleika, tvítyngi, stærðfræðiörðugleika, athyglisbrest og ofvirkni. Jafnframt verður skoðað hvernig menningarlegur fjölbreytileiki hefur áhrif á kennslu og skólastarf. Þá verður fjallað um helstu tegundir fatlana, þar sem þó er lögð megináhersla á að greina og taka tillit til þátta sem skipta máli fyrir nám og kennslu, svo sem líkamlegra, skynrænna, sálfræðilegra, námslegra og athyglis- og einbeitingar þátta. Lögð verður áhersla á að nemendur kynni sér kennsluaðferðir/kennsluskipulag og stuðningskerfi sem gagnast hefur í margbreytilegum nemendahópum og skoðað verður hvers konar færni gagnast kennurum í skóla án aðgreiningar, sem meðal annars byggir á hugmyndum um einstaklingsmiðað nám.

VINNULAG:
Fyrirlestrar í staðlotu, umræður, hóp- og einstaklingsvinna.

X

Samstarf í skóla- og frístundastarfi (TÓS304G)

Í þessu námskeiði er sjónum beint að samstarfi milli skóla og frístundastofnana. Frístundaheimili og félagsmiðstöðvar eru í mörgum sveitarfélögum rekin innan og í nánu samstarfi við grunn- og framhaldsskóla. Einnig starfar fagfólk á vettvangi frítímans, t.d. íþróttafélögum í nánu samstarfi við menntastofnanir. Námskeiðið miðar að því að efla þekkingu nemenda á þverfaglegu samstarfi ólíkra faghópa. Fjallað verður um áskoranir og tækifæri í slíku samstarfi og gildi þess fyrir börn og ungmenni, ekki síður en starfsfólk. Kenningum um ólíkar gerðir samstarfs verður gerð skil sem og rannsóknum á teymum, trausti, umbótum og þróun þar sem ólíkar stofnanir snúa bökum saman. Raundæmum af samstarfi og/eða samþættingu skóla- og frístundastarfs verður fléttað inn í námskeiðið og nemendur þjálfast í gagnrýnu hugarfari og borgaralegri virkni með því að vega og meta þróun samstarfs á vettvangi frítímans og skóla.

Námskeiðið hentar þeim sem stefna að því að starfa með börnum og ungmennum, hvort heldur er í formlegu, hálfformlegu eða óformlegu uppeldis-, íþrótta, frístunda- eða skólastarfi. Námskeiðið hentar einnig starfsfólki og stjórnendum sem nú þegar starfa í skóla- og frístundastarfi.

 Skipulag og vinnulag námskeiðs:

- Nemendum í grunnnámi sem og meistaranámi, staðnemum og fjarnemum, verður kennt saman á þessu námskeiði.

- Stuðst verður við vendikennslu að jafnaði.  

X

Sértækt hópastarf í félags- og æskulýðsmálum (TÓS307G)

Í námskeiðinu er fjallað um helstu hópakenningar, greiningarmódel og hvernig hægt er nýta hópastarf í félags- og æskulýðsstarfi sem lið í markvissu uppeldisstarfi og við lausn tiltekinna vandamála er upp kunna að koma í nærsamfélagi barna og ungmenna.

X

Ólíkir nemendur: Stuðningur og hagnýt úrræði í skóla- og frístundastarfi (ÞRS515M)

Markmið námskeiðsins er að vekja nemendur til umhugsunar um þær áskoranir sem grunn-og framhaldsskólanemendur með fjölþættan vanda mæta á vettvangi skólans. Þá kynnast nemendur starfsháttum og hagnýtum úrræðum sem geta komið að gagni í samskiptum og stuðningi við ólíka nemendur og kynna sér nýjar rannsóknir á sviði margbreytileika í  skólastarfi. Einnig greina þeir viðhorf sín, skráðar og óskráðar siðareglur og hlutverk í starfi með ólíkum nemendahópum og fjölskyldum þeirra.

Viðfangsefni:

Megin viðfangsefni námskeiðsins er að öðlast skiling á stöðu einstakra nemendahópa og þeim fjölbreytilegu áskorunum sem þeir mæta á vettvangi skólans. Þá eru nemendur jafnframt að fást við eigin hugmyndir, viðhorf og starfshætti og nýta eigin reynslu af kennslu og stuðningi við úrvinnslu í verkefnum ásamt því að styrkja þekkingu sína á lögbundnum skyldum, starfsháttum og stoðþjónustu skólanna. Þá er siðferðilegum skyldum kennara og annara stuðningsaðila gagnvart nemendum með fjölþættan vanda gefin sérstakur gaumur í öllum námsþáttum.

X

Fjölskyldumiðaður snemmtækur stuðningur (ÞRS005M)

Í námskeiðinu er fjallað um þau fræðilegu sjónarhorn og kenningar sem fjölskyldumiðuð snemmtæk íhlutun byggist á. Áhersla námskeiðsins er á fötluð börn og fjölskyldur þeirra en hugmyndafræðin og aðferðafræðin sem kynnt er á þó við um við fleiri hópa. Nýjustu rannsóknir um snemmtæka fjölskyldumiðaða íhlutun verða kynntar og með áherslu á þverfaglega samvinnu. Horft er á börn og fjölskyldur á heildrænan hátt og áhersla lögð á hvernig unnið er út frá einstaklingsbundnum þörfum barnsins og fjölskyldu þess. Gerð einstaklings- og þjónustuáætlana, þverfagleg teymisvinna, tengilshlutverkið og eflandi samstarf við foreldra er í brennidepli.   

X

Nemi styður nema - fjölbreytt háskólasamfélag (vor) (TÓS210G)

Viðfangsefni

Viðfangsefni námskeiðsins eru félagsleg samskipti, samvera og námsaðstoð við nemendur sem geta þurft aðstoð og/eða stuðning í námi sínu á Menntavísindasviði HÍ. 
Í námskeiðinu verður fjallað um nýjar áherslur og nýbreytni í menntamálum, sérstök áhersla lögð á nám án aðgreiningar, algilda hönnun og tækifærin sem hugmyndafræðin býður upp á. Einnig verður fjallað um markþjálfun, jafnrétti, samfélag án aðgreiningar og mannréttindi í víðu samhengi. Kynntar verða leiðir til að efla náms- og félagslega þátttöku nemenda í háskólanum með fjölbreyttum hætti.

 Að námskeiði loknu hljóta nemendur viðurkenningu/staðfestingu á að hafa lokið námskeiðinu sem þeir geta til dæmis nýtt í ferilskrá en námskeiðið er dýrmæt reynsla sem mun nýtast í leik og starfi.

Vinnulag
Samstarf og samvera með samnemum er að jafnaði þrjár kennslustundir á viku. Samstarfið getur falið í sér námsaðstoð, til dæmis við verkefnavinnu, verkefnaskil, yfirferð á námsefni eða samveru á bókasafni eða matsal og þátttaka í félagslífi á vegum nemendafélaga.

Fimm fræðslufundir með kennurum fyrrihluta misseris auk eins vinnudags þar sem nemendur fá stuðning og fræðslu. Að auki geta nemendur pantað fundi eftir þörfum með kennurum námskeiðsins.

Nemendur vinna dagbókarverkefni jafnt og þétt yfir misserið og skila lokaskýrslu um reynslu sína af námskeiðinu.

 


X

Unglingsárin: Áskoranir og tækifæri. (UME404G)

Í námskeiðinu er fjallað um áhættuhegðun ungmenna og velferð þeirra. Fjallað er um ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti sem tengjast styrkleikum ungmenna og áskorunum sem þeim mæta. Rætt er um kenningar og rannsóknir á eftirfarandi sviðum í tengslum við unglingsárin: Líffræðilegar og félagslegar breytingar; margvíslegan sálfélagslegan þroska; sjálfsmynd; heilsu og líðan; forvarnir, vímuefni og afbrot; skólagöngu, tómstundir og framtíðarmarkmið. Þá er fjallað um samskipti ungs fólks bæði augliti til auglitis og rafræn við nærumhverfi sitt.

Verkefni í námskeiðinu hafa að markmiði að auka þekkingu og skilning nemenda á forvörnum ýmiss konar bæði á Íslandi og erlendis og því hvernig megi best styðja ungmenni til sjálfseflingar, heilbrigðs lífstíls og lífsviðhorfa.

Lögð er áhersla á umræður í fyrirlestrum og að nemendur geti skoðað viðfangsefni frá mörgum hliðum og rökrætt um álitamál.

X

Samskipti í uppeldis- og fræðslustarfi (UME201G)

Nemar kynnast helstu kenningum og rannsóknum um árangursríka samskiptahætti í uppeldis- og fræðslustörfum á vettvangi fjölskyldna, skóla og annarra stofnana. Fjallað er um vináttu, leik, samskiptahæfni barna og unglinga og áskoranir í samskiptum jafnt innan skóla sem utan. Nemendur kynna sér og vinna verkefni um innlend og erlend samskiptaverkefni sem miða að því að efla félags-, og samskiptahæfni barna og unglinga í fjölmenningarlegu nútímasamfélagi.


Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem blanda af stað- og fjarnámi með tveimur staðbundnum lotum, í upphafi misseris og um miðbik misseris. Kennsla fer fram með fjölbreyttum hætti m.a. í fyrirlestrum kennara, umræðum og hópavinnu í tímum sem og á netinu.

X

Félags- og tilfinningahæfni í uppeldi og menntun (UME103M)

Fjallað verður um hvernig efla megi farsæld (vellíðan, velferð) í uppeldis og menntastörfum, þ.e.a.s. hvernig efla megi farsæld með öðrum (börnum eða fullorðnum) í menntastörfum í víðum skilningi. Nánar tiltekið hvernig unnt er að efla félags og tilfinningahæfni - meðal annars með aukinni núvitund, samkennd, gróskuhugarfari og nýtingu styrkleika. Áhersla er lögð á hvernig núvitund getur nýst í uppeldi og kennslu. Fræðilegur grunnur námskeiðsins er meðal annars sóttur í jákvæða sálfræði. Hér er byggt á þeirri sýn að til efla farsæld með öðrum þurfum við fyrst að a) öðlast þekkingu á farsæld og b) leitast við að efla eigin sjálfsvitund og farsæld.

Nemendur vinna bæði fræðileg og hagnýt verkefni um hvernig nýta megi fræðin við uppeldi og/eða menntun og fræðslu á ýmsum vettvangi.

Námskeiðið byggir á erindum, umræðum og æfingum með áherslu á virka þátttöku.

Námskeiðið er hugsað fyrir allar deildir ekki síst þá sem koma að uppeldis- og menntastörfum með það að leiðarljósi að þeir öðlist færni til að efla eigin farsæld og geti miðlað þeim leiðum til annarra. Þessar áherslur eru í samræmi við tilmæli Alþjóðaheil­brigðis­stofnunarinnar og ákvæðum úr námskrám íslenskra leik-, grunn- og framhaldsskóla um að hlúa að andlegu heilbrigði og farsæld.

X

Tómstundir og börn (TÓS202G)

Markmið: Að nemendur

 • Kynnist kenningum um þroska, nám og félagsfærni allra barna á aldrinum 6-12 ára.
 • Fái innsýn í tómstundir barna á aldrinum 6-12 ára.
 • Efli eigin færni og styrk í að vinna með börnum á vettvangi frítímans og efli þekkingu sína á mikilvægi leiks í starfi með börnum.
 • Öðlist skilning á hlutverki grunnskóla og frístundaheimila.
 • Átti sig á mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í öllu starfi með börnum. 


Viðfangsefni:

 • Megin viðfangsefni námskeiðsins eru tómstundir barna á aldrinum 6-12 ára.
 • Fjallað verður um helstu uppeldisfræðislegu sjónarhorn með þennan aldurshóp í huga.
 • Fjallað verður um margvíslegar áskoranir sem börn á þessum aldri standa frammi fyrir. 
 • Kynnt verði gagnasöfn sem varða þennan aldur og tómstundir þeirra.  
 • Viðfangsefni munu snúa að lýðræðislegum starfsháttum í starfi með börnum, listum, menningu og skapandi starfi, grunnþáttum menntunar, viðmiðum um gæði í frístundastarfi, leiknum, fjölmenningu, staðalmyndum, samskiptum, samræðum og gagnrýnni hugsun, hreyfingu og tómstundastarfi með margbreytilegum barnahópum.
 • Rýnt verður í hlutverk fagfólks sem fyrirmynda og mikilvægi menningar á starfsstöðum.
 • Skoðað verða tengsl óformlegs og formlegs náms, m.a. með því að rýna í grunnþætti menntunar og ólík hlutverk frístundastofnana og grunnskóla .
 • Hlutverk barnaverndar verður kynnt.

Vinnulag

 • Fyrirlestrar, verkefni og umræður í tímum.
 • Lögð er áhersla á fjölbreyttan hóp gestafyrirlesara af vettvangi
 • Nemendur fara í vettvangsheimsóknir og kynna sér starf og viðburði með börnum.
 • Nemendur skila jafnt og þétt verkefnum í fjölbreyttu formi inn í ferilmöppu, bæði einstaklingslega og í hóp.
 • Gert er ráð fyrir samvinnu nemenda og virkri þátttöku. 
X

Heilsuhegðun og fæðuval – áhrifaþættir og mótun (ÍÞH036M)

Viðfangsefni námskeiðsins er heilsuhegðun í víðum skilningi. Fjallað verður um heilsuhegðun mismunandi aldurshópa og samband líffræðilegra þátta, heilsuhegðunar og félagslegra aðstæðna. Farið verður yfir hvernig hegðun einstaklinga, bjargráð og streita hafa áhrif á heilsufar. Hegðun í tengslum við fæðuval og neysluvenjur er sérstaklega skoðuð. Þá verður horft til þess hvernig má móta heilsusamlegar lífsvenjur frá æsku, svo sem hafa áhrif á fæðuval og vinna á matvendni. Samfélagsáhrif og þáttur fjölmiðla eru einnig könnuð. Námsefnið byggir á fræðbókum og vísindagreinum frá mismunandi áttum og ólíkum sviðum sem spanna viðfangsefnið og nálgast það á ólíkan hátt.
Námskeiðið er ætlað nemendum á efri stigum grunnnáms og á meistarastigi og er opið öllum.

X

Menntun og kyngervi: Orðræðan um drengi og stúlkur (UME004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum um uppeldi og menntun í ljósi kynjafræðilegra sjónarmiða og hugtaksins kyngervi (gender).

Viðfangsefni. Unnið verður með hugtökin, kyngervi, kynjun, kynímyndir, staðalmyndir, kvenfrelsi, félagsleg mismunun, kynhlutverk, kynjablinda, tvíhyggja og valdatengsl. Fjallað verður um hvernig hugmyndir um menntun kynjanna hafa þróast sögulega, rýnt í orðræðuna um drengi og stúlkur og staðreyndir og gagnrýni á menntun og kynferði á öllum skólastigum. Sjónarmið félagslegar mótunarhyggju og eðlishyggju verða notuð til að útskýra mismunandi hugmyndir um kynjamismunun. Athyglinni verður beint sérstaklega að nýjum rannsóknum á sviðinu og fræðilegri nálgun mismunandi fræðimanna. Að síðustu verður athyglinni beint að íslenska skólakerfinu, stöðu drengja og stúlkna, leiðtogum og stjórnendum, námskrám og stöðu lögbundinnar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendara rannsóknir á kyngervi og skólastarfi, t.d. rannsóknir á námsframmistöðu kynjanna, mismunandi hugmyndum stelpna og stráka um námsgreinar, námshæfni og námsval og hvernig skólar bregðast við kynjun skóla og samfélags.<


Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðnám, með möguleikum til fjarnáms ef þörf krefur. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, hópvinnu og verkefnavinnu.

X

Hugur, heilsa og heilsulæsi (HÍT504M)

Í þessu námskeiði verður farið yfir grunnskilgreiningar á hugtökunum: heilsa og heilbrigði, sjúkdómar og fötlun. Farið verður yfir helstu áhrifaþætti heilbrigðis og hugtakið heilsulæsi kynnt. Ræddir verða sérstakir áhrifavaldar á heilsufar. Bæði verða kynntir þættir sem geta ógnað heilsu og heilbrigði en einnig skoðað hvaða þættir geta haft jákvæð heilsueflandi áhrif. Sérstök áhersla verður á áhrif umverfis á heilsu. Fjallað verður um hugtakið heilsulæsi og hvernig megi nota þá nálgun til að bæta heilsu og vinnu að forvörnum.

X

Matur menning heilsa (HHE202G)

Inntak og meginviðfangsefni:

Námskeiðið er tvíþætt. Annars vegar er lesinn fræðilegur texti um matvælafræði og matreiðslu. Í tengslum við fræðilega hlutann læra nemendur helstu grundvallaraðferðir matreiðslu og baksturs og hvernig þær tengjast hollustu matarins. Matreiddir verða ýmsir réttir bæði í verklegum tímum og heima fyrir. Meðal annars ýmsir réttir sem teljast lýsandi fyrir íslenska matargerð á 20. öld og voru mest á borðum forfeðranna. Til samanburðar verða matreiddir þjóðréttir frá ýmsum löndum. Undirstöðuþáttum almennra hreinlætis- og örverufræða verður fléttað inn í allt námið. Vettvangsnámið í þessu námskeiði á aðallega að fara fram á unglingastigi þar sem heimilisfræði er valgrein. Gerðar verða kennsluáætlanir til að nýta í vettvangsnáminu.

Vinnulag:
Námskeiðið er skipulagt í staðbundnum lotum og fjarnámi. Á námskeiðinu fá nemendur  námsefni miðlað á vef og taka heimapróf á Moodle (60%) úr lesefni. Í innlotum eru fyrirlestrar og verklegir tímar. Allir nemendur elda  heima valdar uppskriftir (verkmappa 20%). Námskeiðinu lýkur með verklegu prófi (20%). Fjarnemar gera heima valin verkefni úr verklegum tímum í stað þess að mæta í tíma. Námskeiðið er kennt bæði sem staðnám og fjarnám.

Til að standast námskeið þarf lágmarkseinkunnina 5,0 í sérhverju verkefni og prófi.

X

Lífsleikni (TÓS404G)

Megin viðfangsefni þessa áfanga er lífsleikni, hvernig lífi við lifum og því hvernig okkur líður innan í okkur sjálfum og hvað við getum lagt af mörkum til annarra.

 Fjallað verður á fræðilegan, en þó ekki síður á hagnýtan hátt um að „lifa lífinu“. Farið verður í þætti sem tengjast sjálfsþekkingu einstaklingsins og hæfni hans til að lifa farsælu lífi. Glímt verður við hugtök eins og „velferð“, „hamingja“ og „farsæld“, og sérstök áhersla verður lögð á þá þætti sem stuðla að því að manneskjan geti verið „heil“ í lífinu.

Unnið verður með kennslubækur námskeiðsins, verklegar æfingar verða í fyrirrúmi þar sem nemendum gefst færi á að nýta lífsleikni hagnýtt í kennslu. Þátttökuleikhús Augusto Boal verður kynnt sem dæmi um aðferðir eða kennslutæki sem hægt er að beita í starfi með börnum og unglingum til að takast á við lífið og verða leiknari í að lifa því.

Vinnulag:

Lögð er áhersla á að þjálfa þátttakendur sjálfa í þeirri færni sem þeim er ætlað að efla hjá öðrum, færni sem stuðlar að hamingju og velferð þátttakenda og annarra. Um að ræða reynslunám, þar sem rík áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér lesefni og öðlist greinagóða þekkingu. Staðlotur eru nýttar til að vinna með ákveðin viðfangsefni:

X

Tómstundir og unglingar (TÓS211G)

Markmið: Að nemendur

 • Kynnist því tómstundastarfi sem sérstaklega er boðið upp á fyrir unglinga á Íslandi.
 • Efli eigin færni og styrk í að vinna með unglingum á vettvangi frítímans.
 • Öðlist innsýn í þann heim sem unglingar búa við í dag, má þar nefna hnattvæðingu, fjölmiðla, unglingamenningu og samvistir fjölskyldunnar.
 • Kryfji rannsóknir á gildi tómstunda fyrir unglinga.
 • Öðlist færni í að greina og bregðast við ofbeldi gegn unglingum, ásamt því að þekkja skyldur og ábyrgð leiðbeinenda.
 • Öðlist innsýn í hverskonar frávikshegðun unglinga og hvernig helst megi koma í veg fyrir hana.
 • Þrói hugmyndir sínar um tómstundastarf fyrir unglinga með því að gera verkefni á vettvangi.
 • Átti sig á mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í öllu starfi með unglingum.
 • Geti skipulagt og stjórnað tómstundastarfi fyrir unglinga.

Inntak / viðfangsefni: Fjallað verður um starf félagsmiðstöðva, íþróttafélaga, skáta og um trúarlegt starf fyrir unglinga, ásamt félagsstarfi í grunnskólum. Áhersla verður lögð á starfshlutverk tómstundafræðinga við fræðslu, ráðgjöf og forvarnarstarf. Farið verður í skoðun á samfélaginu út frá unglingunum sjálfum og nemendur kryfja gildi tómstunda fyrir unglinga til mergjar. Fjallað verður um helstu einkenni og vandamál sem börn og unglingar eiga við að etja, meðal annars verður fjallað um kenningar, áhættuþætti, eðli og umfang ofbeldis og vanrækslu og mismunandi birtingarform þess. Jafnframt verður fjallað um ofbeldi í fjölskyldum og áhrif þess á unglinga. Ennfremur verður fjallað um löggjöf, úrræði og forvarnarstarf, vinnuaðferðir, viðhorf og viðbrögð fagfólks í slíkum málum. Að lokum verður fjallað um hlutverk og ábyrgð leiðbeinenda og mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í starfi með unglingum.

 

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður, einstaklingsvinna, hópavinna og vettvangsheimsóknir. Nemendur fara í vettvangsheimsóknir og kynna sér starf með unglingum. Nemendur hanna starf í frítíma fyrir unglinga.

X

Ferðalög og útilíf (TÓS001G)

Áhersla er lögð á þverfaglega nálgun, samvinnu nemenda og kennara af ólíkum fræðasviðum. Vettvangur námsins er náttúra Íslands. Unnið með þrjú viðfangsefni þ.e. ígrundun, útilíf og sjálfbærni með áherslu á persónulegan- og faglega þroska þátttakenda.
Á námskeiðinu verður fjallað um tengsl manns og náttúru og ígrundun eigin upplifana. Kenndir verða og þjálfaðir þættir sem nauðsynlegt er að kunna skil á þegar ferðast er gangandi um óbyggðir. Fjallað verður um hugmyndafræði útilífs (friluftsliv) og hún sett í samhengi við samtímann.

Skipulag verður eftirfarandi:
Undirbúningsdagur 17. maí 2021 kl 15-18. Ferðalag námskeiðsins er 10. – 13. júní 2021 (fimmtudagur kl. 15 til sunnudags kl. 16). Farið verður út úr bænum, gist í tjöldum og ferðast gangandi um náttúru Íslands. Stefnt er að endurliti eftir ferðina í ágúst. Nánari dagskrá kynnt 17. maí.
Efnisgjald er 12.000 kr. Auk þess greiða nemendur kostnað vegna tjaldstæðis, matar og ferða.
Skyldumæting er í alla þætti námskeiðsins.

X

Einelti, forvarnir og inngrip (TÓS509M)

Þetta námskeið er um einelti og markmiðið er að þeir sem ljúka námskeiðinu öðlist þekkingu, leikni og hæfni til að geta tekist á við einelti meðal barna og unglinga. Námskeiðið byggir á kenningum og rannsóknum á einelti, ásamt víðfeðmri reynslu umsjónarkennara. Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Nemendur þurfa að vinna verkefni á vettvangi. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa hug á að vinna með börnum og unglingum og hentar því vel fyrir nemendur á menntavísindasviði HÍ. Nemendur á öðrum sviðum eru einnig velkomnir. Á námskeiðinu verður fjallað um fjölmarga þætti sem snúa að einelti, þar á meðal samstarf við foreldra, hópefli, vináttuþjálfun, uppbygginu liðsanda, árangursríka vinnu með þolendum, gerendum og áhorfendum og leiðir til lausna. Námskeiðið fer fram á íslensku en lesefni er á íslensku og ensku.

Vinnulag: Fyrirkomulag námskeiðsins byggir á fyrirlestrum, umræðum, tímaverkefnum, kynningum og vinnu á vettvangi. Námskeiðið er kennt tvisvar í viku fyrir staðnema. Fjarnemar verða að mæta í allar þrjár staðlotur námskeiðsins. Missi fjarnemar staðlotu verða þeir að vinna það upp með því að mæta í aðra tíma í staðinn. Námskeiðið fylgir dagsetningum í grunnnámi í tómstunda- og félagsmálafræði. Á námskeiðinu er tekið viðtal við fyrrum þolenda eða gerenda eineltis. Þá er eitt verkefni námskeiðsins unnið á vettvangi, þar sem nemendur prófa hópeflandi eineltisforvarnir með hópi barna eða ungmenna. 

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum Námsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Tinna Kristjánsdóttir
Helena Gunnarsdóttir
Hlöðver Sigurðsson
Tinna Kristjánsdóttir
BA í þroskaþjálfafræði

Besta ákvörðun lífs míns var að fara í þroskaþjálfafræði. Námið er virkilega skemmtilegt og krefjandi og veitir góða innsýn í stöðu fatlaðs fólks. Ég hef öðlast mikla þekkingu á málefnum fatlaðs fólks og réttindabaráttu þess og mun ávallt hafa það að leiðarljósi að styðja og gæta hagsmuna þess í einu og öllu. Mér finnst ég hafa breyst til hins betra eftir þetta nám.

Helena Gunnarsdóttir
BA í þroskaþjálfafræði

Námið hefur gefið mér tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir og bæta við mig fræðilegri þekkingu. Í tengslum við námið hafa mér boðist tækifæri til að taka þátt í rannsóknum og fara út á vettvang sem hefur verið ómetanleg reynsla. 

Hlöðver Sigurðsson
Þroskaþjálfafræði nám

Námið í þroskaþjálfafræði hefur opnað nýjar víddir í mínu starfi  sem aðstoðarmaður fólks með fötlun. Það hefur einnig fengið mig til að sjá hversu gríðarlega breiður og mikilvægur vettvangur það er sem þroskaþjálfar starfa á.

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs[hja]hi.is

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.