Safnafræði


Safnafræði
Aukagrein – 60 einingar
Safnafræði er fræðigrein sem tekur til nánast allra þátta safnastarfs og er bæði fjölbreytt og yfirgripsmikil. Víða um heim hefur mikil gróska átt sér stað innan safnafræðanna á síðastliðnum árum. Nýjar hugmyndir og kenningar hafa verið mótaðar og óhætt er að segja að fræðigreininni hafi almennt vaxið fiskur um hrygg.
Skipulag náms
- Haust
- Söfn sem námsvettvangur
- GripafræðiV
- Gagnrýnin hugsunV
- Vor
- Rokkar og stokkar og reður í krús: Söfn og fræði
- Safn og samfélag: Sirkus dauðans?
- Efnismenning: Hlutirnir, heimilið, líkaminn
- Rannsóknir og heimildaleit í skjalasöfnumV
- Innra starf safnaV
Söfn sem námsvettvangur (SAF501G)
Einn megintilgangur safna á Íslandi er að skila menningar- og náttúruarfi landsins til komandi kynslóða og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Ætlast er til þess (samkvæmt safnalögum) að söfn reyni að „auka lífsgæði manna“ með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista náttúru eða vísinda. Söfn og safnfræðsla geta því haft áhrif á samfélag, hópa og einstaklinga. Safnafræði getur komið hér að liði og er megin viðfangsefni námskeiðsins.
Kynntar verða fræðilegar kenningar sem hafa að markmiði að stuðla að fjölbreyttri og áhrifamikilli fræðslu tengdri fornleifum, list, náttúruvísindum, menningarlegri arfleifð og öðrum viðfangsefnum safna. Hugað verður að fjölbreyttum markhópum safnfræðslu, hlutverki safngesta innan safna, rými, textagerð, margmiðlun, gagnvirkni og fleira.
Þetta er fjarkennslunámskeið sem skiptist í þrjár lotur. Í hverri lotu eru ör-fyrirlestrar frá kennara með hugleiðingum um námsefnið, gesta-fyrirlestrar (stafrænir) og aukaefni. Þrjár stað og/eða ZOOMlotur eru yfir önnina, þar sem nemendur fá fyrirlestra frá starfsmönnum safna og vinna að fræðsluverkefni í samstarfi við safn í Reykjavík. Verkefnið verður þróað út frá fræðilegum áhuga nemenda undir handleiðslu kennara og með aðstoð starfsmanna safnsins.
Gripafræði (FOR303G)
Námskeiðið fjallar annars vegar um almennan grundvöll gripafræðinnar, gerðfræði og efnisfræði, og hins vegar um helstu flokka gripa sem finnast á Íslandi, leirker, steináhöld og steinílát, skartgripi og vopn, tréílát, vefnað, gler, krítarpípur o.fl.
Gagnrýnin hugsun (HSP105G)
Námskeiðinu er ætlað að gera nemendum grein fyrir mikilvægi gagnrýninnar hugsunar með því að kynna helstu hugtök og aðferðir og mismunandi skilning á eðli og hlutverki hennar. Nemendur verða þjálfaðir í gagnrýninni hugsun eins og hún kemur fyrir í heimspeki og í daglegu lífi og starfi. Lögð er áhersla á að greina röksemdafærslur. Helstu rökvillur og rökbrellur verða ræddar og nemendum kennt hvernig má greina þær og forðast. Ítarlega verður farið í samband gagnrýninnar hugsunar og siðfræði.
Kennslan fer fram í fyrirlestrum og umræðutímum. Sérstök áhersla er lögð á umræður um raunhæf úrlausnarefni. Reynt verður að hafa verkefni eins hagnýt og kostur er og tengja þau sem flestum sviðum daglegrar reynslu.
Rokkar og stokkar og reður í krús: Söfn og fræði (SAF201G)
Námskeiðið er almennur inngangur að safnafræði. Fjallað verður um helstu þætti safnastarfs og fræðilegar og sögulegar forsendur þess. Skoðað verður hlutverk safna í fortíð og nútíð, uppbygging safnkosts, flokkun, skráning og varðveisla. Hugað verður að aðgengi, fræðslu, sýningagerð og gildi rannsókna fyrir safnastarf. Einnig verða skoðaðar mismunandi aðferðir við túlkun og framsetningu á sýningum. Íslensk söfn verða sett í samhengi við þjóðfræði, sem og erlent safnastarf og fræði. Námskeiðið skiptist í þrjár lotur, sem hver fyrir sig spannar um 4 vikna tímabil. Í hverjum hluta eru fyrirlestrar frá kennara auk skipulagðrar heimsóknar á tiltekið safn og umræður í kjölfarið. Áhersla verður lögð á umræður og verkefnavinnu innan safna.
Safn og samfélag: Sirkus dauðans? (SAF603M)
Fjallað verður um samfélagslegt hlutverk safna út frá margvíslegum sjónarhornum: efnahagslegum, pólitískum, menningarlegum, félagslegum og síðast en ekki síst alþjóðlegum. Fjallað verður meðal annars um hlutverk safna í hugmyndinni um þjóð, lagalegt umhverfi safna, rekstrarform, staða og hlutverk þjóðarsafna, safna í eigu sveitarfélaga, félagasamtaka og einkafyrirtækja, fjármögnun safnastarfs, stefna yfirvalda í málefnum safna, söfn og mannréttindi, söfn og áföll (trauma), kynjahugmyndir og fleira. Í námskeiðinu er einnig hugað að möguleikum safna á að virkja fólk og samfélög til þátttöku í starfsemi þeirra eins og söfnun, heimildaöflun, sýningarstjórnun, sýningargerð og annarri miðlun. Skoðuð verða innlend og erlend dæmi. Eftir því sem því verður komið við, eru farnar ein til tvær vettvangsferðir. Námskeiðið er eingöngu kennt í fjarnámi.
Efnismenning: Hlutirnir, heimilið, líkaminn (ÞJÓ205G)
Í námskeiðinu verður efnisleg hversdagsmenning tekin til gagngerrar umfjöllunar. Gefið verður yfirlit yfir þetta þverfaglega rannsóknarsvið og rýnt jöfnum höndum í dæmi úr samtímanum og frá fyrri tíð, íslensk og erlend. Meðal annars verður fjallað um föt og tísku, matarhætti, hlutina sem umkringja okkur í daglega lífinu, rusl og hreinlæti, handverk og neyslumenningu, hús og garða, heimilið, borgarlandslag, söfn og sýningar. Um leið kynnast nemendur ýmsum kenningum og sjónarhornum sem leggja t.a.m. áherslu á mannslíkamann, kyngervi, neyslu, rými og stað.
Rannsóknir og heimildaleit í skjalasöfnum (SAG206M)
Nemendur læra og þjálfast í aðferðum skjalfræðilegra rannsókna, heimildaleit í skjalasöfnum og að meta heimildagildi skjala. Nemendur taka þátt í verklegum æfingum sem tengjast námsefni.
Innra starf safna (FOR425G)
Markmið námskeiðsins er að nemendur fái innsýn í dagleg verkefni og faglegt safnastarf hjá Þjóðminjasafni Íslands. Aðaláherslan verður á verklegan þátt söfnunar, skráningar og varðveislu. Kennslan verður tvískipt, fyrri hlutinn verður í formi fyrirlestra frá sérfræðingum Þjóðminjasafnsins en seinni hlutinn verður sérverkefni með safnkostinn sem nemendur vinna sjálfstætt undir leiðsögn kennara. Í fyrri hluta námskeiðsins verður lögð áhersla á alþjóðlegar siðareglur ICOM, fyrirbyggjandi forvörslu, gripaskráningu í Sarp, ljósmyndun gripa, ástandsmat á aðföngum (gripum, sýnum, frumheimildum o.s.frv.), pökkun, varðveislu og uppsetning sýninga. Mætingarskylda er í verklega tíma.
Fjögur minni verkefni verða á fyrri hluta námskeiðsins. Í síðari hlutanum mun nemandi vinna verkefni tengt safnkostinum í tengslum við námsefnið. Nemandi velur verkefnið eftir sínu áhugasviði undir leiðsögn kennara og skilar skýrslu og framsögu í lok námskeiðs.
Hafðu samband
Nemendaþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
Netfang: nemFVS@hi.is
Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Opið virka daga frá 9 - 15
Sími: 525 4500

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.