Mið-Austurlandafræði og arabíska - Grunndiplóma


Mið-Austurlandafræði og arabíska
Grunndiplóma – 60 einingar
Markmið Mið-Austurlandafræða við Háskóla Íslands er að stuðla að aukinni fræðslu, þekkingu og áhuga á Mið-Austurlöndum og menningu þeirra í víðum skilningi og jafnframt að veita nemendum grunnfærni í arabísku sem er helsta tungumál svæðisins.
Skipulag náms
- Haust
- Saga Mið-Austurlanda I
- Arabíska I
- Íran: Saga og Menning á 20. og 21. öld
- Vor
- Bókmenntir Mið-Austurlanda
- Arabíska II
- Nútímamenningarsaga Tyrklands
- Ljóðrænt raunsæi: Kvikmyndir og bókmenntir frá ÍranE
Saga Mið-Austurlanda I (MAF101G)
Í námskeiðinu verður farið yfir sögu þess svæðis sem telst til Mið-Austurlanda frá fornöld og fram á miðaldir. Fjallað verður um uppgang Egypta, Súmera og annarra þjóða í hinni svokölluðu 'vöggu siðmenningarinnar'. Sérstök áhersla verður lögð á uppgang íslam á 7. öld og það heimsveldi sem múslimar byggðu upp næstu aldir þar á eftir. Fjallað verður um Múhameð spámann og eftirmenn hans, tilurð Kóransins, kalífat Umayya, kalífat Abbasída og 'gullöld' íslam. Námskeiðið er kennt á íslensku en mest af lesefninu verður á ensku.
Arabíska I (MAF102G)
Nemendur byrja á því að læra arabíska stafrófið og málhljóðin ásamt undirstöðuatriðum. Eftir að nemendur hafa náð góðum tökum á stafrófinu verður farið í helstu málfræðiatriði, einfalda setningargerð og orðaforða. Samhliða því er einblínt á bæði hlustun og munnlega tjáningu. Mikil áhersla er lögð á mætingu og heimavinnu nemenda. Námskeiðið er kennt á ensku.
Námskeiðið er undanfari MAF204G: Arabíska II.
Íran: Saga og Menning á 20. og 21. öld (MAF303G)
Á námskeiðinu verður farið yfir nútímasögu Írans. Fjallað verður um tilurð nútímaríkisins Írans og þjóðarvitundar sem fór að verða til við byrjun 20.aldar. Farið verður yfir valdatíð Pahlavi keisaraættarinnar, og atburði sem taldir eru hafa valdið falli hennar rannsakaðir. Einnig verður fjallað um byltinguna 1979 og hvernig Íslamska Lýðveldinu hefur tekist að festa sig í sessi. Á námskeiðinu verða krufðar íranskar menningarafurðir svo sem kvikmyndir og tónlist. Samband menningar og stjórnmála í Íran verður rannsakað og þróun menningar í Íran fyrir og eftir byltingu, auk þess sem litið verður á stöðu íranskrar menningar í alþjóðlegu samhengi.
Bókmenntir Mið-Austurlanda (MAF108G)
Yfirgripsmikið námskeið um bókmenntir Mið-Austurlanda. Farið verður yfir bókmenntasögu Mið-Austurlanda, allt frá árdögum ritlistarinnar í Súmer fram til 21. aldar.
Nýttar verða ýmist enskar eða íslenskar þýðingar.
Arabíska II (MAF204G)
Í þessu framhaldsnámskeiði í arabísku verður haldið áfram að þjálfa þau atriði sem byrjað var á í grunnnámskeiðinu. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi náð góðum tökum á stafrófinu og geti lesið einfaldan texta og skrifað setningar. Áhersla er lögð á lestur og skrift og farið verður dýpra í arabíska málfræði og notkun orðabókar. Þá verður áfram einblínt á bæði hlustun og munnlega tjáningu samhliða því. Mikil áhersla er lögð á mætingu í tíma og heimavinnu nemenda. Námskeiðið er kennt á ensku.
Undanfari námskeiðsins er MAF102G: Arabíska I.
Nútímamenningarsaga Tyrklands (MAF302G)
Þetta námskeið fer yfir nútímasögu Tyrklands í félagslegu og menningarlegu samhengi. Skoðaðar verða hinar ýmsu menningarafurðir, svo sem kvikmyndir, bókmenntir og tónlist, með það fyrir augum að lesa í félagslegt vistkerfi Tyrklands frá sjötta áratug 20. aldar til dagsins í dag. Ýmis brennandi málefni nútímans, álitamál, deilur og viðhorf verða krufin með tilliti til sögulegs samhengis og bakgrunns, og sérstök áhersla verður lögð á félagslegar og menningarlegar hreyfingar, þjóðarbrot og trúarhópa. Námskeiðið er kennt á ensku.
Ljóðrænt raunsæi: Kvikmyndir og bókmenntir frá Íran (MAF209G)
Á námskeiðinu verður íranskt nútímasamfélag rannsakað í gegnum kvikmyndir og bókmenntir.
Þemu í írönskum kvikmyndum verður til umfjöllunar en frjáls útgáfa menningarefnis í Íran hefur aldrei náð að þróast þar sem að stjórnvöld hafa í gegnum tíðina rekið harða ritskoðunuarstefnu. Áhrif þess á íranska kvikmyndagerð hefur verið framleiðsla á kvikmyndum sem eru oftar en ekki félagslega gagnrýnar í gegnum myndmál sem hefur þróast samhliða ritskoðunarstefnu stjórnvalda í áranna rás. Uppi stendur því mikill fjöldi áhugaverðra kvikmynda sem vert er að skoða og verður það gert á námskeiðinu.
Einnig verða þýddar íranskar bókmenntir rannsakaðar og rætt hvað hugtakið íranskar bókmenntir þýðir þar sem ekki allar bækur sem lesnar eru á námskeiðinu hafa nokkurn tímann verið gefnar út í Íran. Þemu og myndmál íranskra bókmennta verða krufin og sett í samhengi við strauma, stefnur og sögu landsins.
Námskeiðið tekur því til umfjöllunar þemu íranskra kvikmynda og bókmennta ásamt því að gefa sögulegt samhengi. Útgangspunktur er ljóðrænt raunsæi og hvernig þessir miðlar taka á samfélagslegum meinum á ljóðrænan og myndrænan hátt.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.