Skip to main content

Leikskólakennarafræði - aukagrein

Leikskólakennarafræði - aukagrein

Menntavísindasvið

Leikskólakennarafræði

Aukagrein – 60 einingar

Námið er ætlað þeim sem hyggjast starfa sem leikskólakennarar eða við önnur tengd störf. Lögð er áhersla á þroska, samskipti og leik. 

Skipulag náms

X

Leikskólafræði I - Leikskólinn sem menntastofnun (LSS101G)

Námskeiðið miðar að því að nemendur öðlist þekkingu og innsýn í hlutverk og stöðu leikskólans í íslensku menntakerfi, hvernig ólík hugmyndafræði, sýn og viðhorf endurspeglast í markmiðum og starfsháttum leikskóla og hlutverk leikskólakennara í námi barna.

Námskeiðið er inngangsnámskeið í leikskólafræði þar sem m.a. er lögð áhersla á að kynna menntunarhlutverk leikskóla og starfsvettvang leikskólakennara. Lögð er til grundvallar sú sýn að börn eigi rétt á krefjandi viðfangsefnum og tækifærum til að taka þátt í samfélagi sem byggir á jafnrétti og lýðræðislegri þátttöku.

Meðal þeirra þátt sem fjallað er um eru:

 • Lagarammi skólastigsins, grunnþættir menntunar og aðalnámskrá leikskóla
 • Stefna og hugmyndafræði leikskólastarfs  
 • Hlutverk og starfskenning leikskólakennara
 • Leik- og námsumhverfi barna
 • Skipulag og starfshættir í leikskólum
 • Samstarf heimilis og leikskóla
 • Matarmenning – tengsl umhverfisþátta á næringu og heilbrigði

Fyrirlestrar, málstofur og verkefnavinna, einstaklingslega eða í samstarfi við aðra. Námskeiðið hefur skýr tengsl við vettvang þar sem nemendur vinna verkefni sem tengjast viðfangsefnum námskeiðs og fara í kynnisferð í leikskóla.

Fyrirkomulag kennslu
Kennslustundir fara að jafnaði fram í rauntíma fyrir hádegi. Gert er ráð fyrir að nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu mæti í kennslustundir í Stakkahlíð en nemendur sem búa utan höfðuðborgarsvæðisins taki þátt í kennslustundum í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma.  Sjá nánar um kennslufyrirkomulag í leikskólakennaranámi.

X

Umhverfi sem uppspretta náms (LSS105G)

Í námskeiðinu verður skoðað hvernig umhverfi barna getur gefið fjölbreytt tækifæri til náms í náttúrufræði og stærðfræði með áherslu á athuganir og tilraunir barna.  Nemendur kynnast meginhugmyndum um útikennslu og verða tekin nokkur dæmi um heppileg viðfangsefni. Fjallað verður um náttúrufræðileg og stærðfræðileg fyrirbæri í umhverfi barna svo sem spendýr, smádýr, plöntur, form, fjölda, mynstur, vatn og loft. Nemendur skoða gögn og leiðir sem nýta má við undirbúning og skipulagningu kennslu þar sem umhverfið er nýtt sem uppspretta náms í náttúrufræði og stærðfræði. Nemendur prófa valin viðfangsefni með börnum á vettvangi.

Vinnulag
Fyrirlestrar, kynningar, umræður, verklegar æfingar, vettvangsferðir, verkefnavinna, skólaheimsóknir og nemendur vinna verkefni með börnum í skólum.

Fyrirkomulag kennslu
Kennslustundir fara að jafnaði fram í rauntíma fyrir hádegi. Gert er ráð fyrir að nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu mæti í kennslustundir í Stakkahlíð en nemendur sem búa utan höfðuðborgarsvæðisins taki þátt í kennslustundum í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma. Sjá nánar um kennslufyrirkomulag í leikskólakennaranámi.

X

Þroska- og námssálarfræði (KME301G)

Tilgangur þessa námskeiðs er að nemendur öðlist heildarsýn á þroska barna frá fæðingu og fram á unglingsár.

Inntak/viðfangsefni:
Fjallað verður um þær breytingar sem verða á þroska barna á mismunandi sviðum og aldursskeiðum og helstu kenningar sem notaðar hafa verið til að varpa ljósi á þessar breytingar. Fjallað verður um vitsmunaþroska, tilfinningaþroska og þróun tilfinningalegra tengsla, félagsþroska, þróun sjálfsmyndar og siðferðisvitundar. Námskenningum og vistfræðilegum kenningum (ecological approach) verður einnig gerð skil. Rætt verður um orsakir og eðli einstaklingsmunar, samfellu í þroska og sveigjanleika þroskaferlisins. Tengsl náms og þroska, áhugahvöt og áhrif uppeldis, menningar og félagslegra aðstæðna á þroska barna verða einnig til umfjöllunar. Áhersla verður lögð á gildi þroskasálfræðinnar í uppeldis- og skólastarfi.

Vinnulag:
Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðu/verkefnatímum. Í umræðu/verkefnatímum fá nemendur þjálfun í að ræða námsefnið á gagnrýninn hátt.

X

Leikskólafræði II - Leikur, samskipti og skráning (LSS206G)

Í námskeiðinu er fjallað um ólíkar kenningar um leik og áhrif þeirra á sýn á börn og leikskólastarf. Rýnt verður í ólíkar birtingamyndir leiks og náms, annars vegar út frá sjónarhorni barna og hins vegar sjónarhorni fullorðinna. Áhersla er lögð á rannsóknir um samskipti barna og leik. Fjallað verður um  hlutverk leikskólakennara og námskrár í tengslum við leik. Kynntar verða athugunar- og skráningaleiðir sem nýttar eru í þeim tilgangi að meta og gera nám barna í leik sýnilegt. Auk þess verður skoðað hvernig námsumhverfi leikskólans hefur áhrif á þátttöku barna í leik. 

Hluti námskeiðsins er tveggja vikna vettvangsnám (4Ve) sem fer fram í samstarfsskólum Menntavísindasviðs. Nemendur taka vettvangsnámið samhliða vettvangsnámi í námskeiðinu Hreyfing og leikræn tjáning, úti og inni (2Ve), samtals 3 vikur. Í vettvangsnámi  taka nemendur þátt í daglegum viðfangsefnum leikskóla, samhliða verkefnum námskeiða.

X

Barnabókmenntir fyrir yngri börn (LSS207G)

 • Barnabókmenntir sem bókmenntagrein.
 • Menningarlegt og listrænt mat á fjölbreyttum barnabókum fyrir yngri börn.
 • Barnabækur sem grundvöllur upplifunar, orðlistar, sköpunar, tjáningar og miðlunar.
 • Gildi barnabókmennta í uppeldi og menntun barna með áherslu á menningu og samfélag, jafnrétti, fjölmenningu, lestur, læsi og lífsleikni.
 • Tengsl barnabókmennta við þjóðlegan og alþjóðlegan sagnasjóð sem og aðrar tegundir bókmennta og listgreina.

Þeir sem hófu nám í Grunnskólakennslu með áherslu á íslensku, B.Ed., haustið 2021 eiga að taka námskeiðið LSS207G með tveimur vettvangseiningum og fara í vettvangsnám í grunnskóla.

X

Málörvun í leikskóla (LSS108G)

Inntak / helstu viðfangsefni

Í námskeiðinu er fjallað um málörvun leikskólabarna með ólíkar þarfir. Rætt er um málþroska og málkerfi íslenskunnar:  Framburð, beygingar og orðmyndun, setningamyndun, merkingu, orðaforða og máltjáningu. Þá eru til umfjöllunar íslenska sem annað mál og málörvun fjöltyngdra barna á leikskólaaldri. Nemendur öðlast þekkingu á markvissri málörvun  í leikskólastarfi með fjölbreyttum barnahópi; hlustun, máltjáning, samtöl, orðaforði, málskilningur, hljóðkerfisvitund, lestur barnabóka, frásagnir og frásagnarhæfni. Bernskulæsi, undanfari lestrarnáms, er eitt af viðfangsefnum námskeiðsins ásamt því sem rætt er um samstarf leikskóla og heimilis með tilliti til málörvunar og bernskulæsis.

Sjá nánar um kennslufyrirkomulag í leikskólakennaranámi

X

Yngstu börnin í leikskólanum (LSS306G)

Í námskeiðinu er fjallað um nám ungra barna (1-3ja ára) í leikskóla. Í brennidepli er virkni ungra barna í sköpun eign þekkingar gegnum fjölbreytta tjáningu s.s. hreyfingu, leik, tónlist og myndsköpun. Fjallað er um aðlögun, samskipti og samstarf leikskólakennara við fjölbreyttan foreldra- og barnahóp. Rýnt er í hvernig umgjörð leikskólastarfsins; umhyggja, tengsl, daglegar athafnir, leikumhverfi og skráningar styðja við nám og þátttöku barna

X

Myndlist ungra barna (LSS212G)

Á þessu námskeiði kynnast nemendur fræðilegum skrifum um teikniþroska barna ásamt grunnaðferðum og efnivið sem nota má í starfi með ungum börnum.

Fjölbreyttar aðferðir myndmenntar verða kynntar og unnið með tvívíðan og þrívíðan efnivið. Áhersla verður lögð á sjálfstæð vinnubrögð nemenda.

Námskeiðið verður að mestu kennt í þremur til fjórum staðbundnum lotum fyrir alla nemendur. 

X

Læsi og lestrarkennsla (KME204G)

Á námskeiðinu verður stefnt að því að nemar öðlist góða þekkingu á grundvallaratriðum læsis, og þróun þess frá upphafi til loka grunnskóla. Fjallað verður um nám og kennslu í lestri og ritun, um áhrif tvítyngis á læsi, lestrarörðugleika og úrræði við þeim. Veitt verður innsýn í fræðilegar undirstöður lesskilnings og fjallað á hagnýtan hátt um kennsluaðferðir, lestrarhvatningu, val á lesefni, gagnrýninn lestur og lestur á rafrænum miðlum og neti.

Sýnd verða dæmi um kennslu og kennsluaðferðir í lestri, lesskilningi og ritun, og nemendur hvattir til að leita leiða til að auka færni nemenda sinna og lestrargleði. Skoðað verður hvaða lesefni er gefið út handa nemendum grunnskóla, og hvernig unnt er að nota það nemendum til gagns og gleði.

Í lok námskeiðs er þess vænst að nemendur hafi öðlast fræðilega og hagnýta þekkingu til að geta gefið framtíðarnemendum sínum þann stuðning sem þarf til að þeir taki stöðugum framförum í læsi, frá æsku til fullorðinsára.

X

Sjálfbærni, náttúra og listir (LSS308G)

Þau viðfangsefni sem unnið verður með á námskeiðinu eru sjálfbærni og sjálfbærnimenntun, sem felur í sér þátttöku barna í samfélaginu og nám þeirra um náttúruna í tengslum við sjálfbærnimenntun. Unnið verður með með hugmyndir barna um líkama sinn og tengsl við heilsu þeirra og velferð, líffræðilegan fjölbreytileika og samspil lífvera í náttúrunni. Unnið verður með gildi og tilgang sjálfbærnimenntunar, samskipti manns og náttúru með tilliti til umhverfisvandamála og hvað megi gera til að bæta þessi samskipti m.a. í ljósi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Kannaðar verða árangursríkar leiðir í sjálfbærnimenntun.

Áhersla verður á náttúruskynjun og fagurfræði og hvernig vinna má með náttúru og sjálfbærni í myndmennt með börnum. Fjallað verður um hvernig megi vinna með viðfangsefni námskeiðsins í leiklist svo sem í; hlutverkaleik, hefðbundnum leikjum og spuna þ.e.a.s. úrvinnslu skynjunar, upplifunar, tilfinninga og hugmynda í sköpun og leik.

X

Tónlist í lífi ungra barna (LSS210G)

Á þessu námskeiði kynnast nemendur fræðilegum skrifum um tónlistarþroska barna og helstu aðferðum í notkun tónlistar í faglegu starfi með börnum. Lesefnið fjallar um nýjustu þekking á áhrifum tónlistar frá fæðingu og á fyrstu árum í lífi barns.

X

Vísinda- og listasmiðja (LSS211G)

Í námskeiðinu er fléttað saman vísindalegum hugmyndum, náttúruvísindalegum tilraunum og rannsóknarvinnu, stafrænni efnisgerð og miðlun, skapandi hugsun og listrænni tjáningu til að efla skilning þátttakenda á þessum þáttum og jafnframt á möguleikum fólgnum í slíkri vinnu í skólastarfi með ungum börnum. Fengist verður við náttúruvísindaleg viðfangsefni á borð við segla, rafmagn, ljós og liti, samspil jarðar, sólar og tungls, tímatal, dag og nótt, og árstíðir með því fjalla um og tvinna saman fræðilegar hugmyndir, verklegar athuganir, upplýsingatækni og listræna tjáningu. Kannaðar verða leiðir til að efla í leik og skapandi starfi skilning ungra barna á þessum náttúruvísindalegu viðfangsefnum, læsi á tækni og stafræna miðlun, frjóa hugsun og listræn efnistök. Sérstök áhersla verður lögð á einfaldar tilraunir við hæfi barna, leik að stafrænni tækni, vinnu með ýmsan efnivið og listræna tjáningu af myndrænum toga.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Sigurbaldur P. Frímannsson
Hallbera Rún Þórðardóttir
Sigurbaldur P. Frímannsson
B.Ed. í leikskólakennarafræði

Leikskólakennaranámið hefur gefið mér dýpri sýn á það sem leikskólakennari tekst á við í starfi. Námið hefur víkkað sjóndeildarhringinn og gefið mér betri sýn á þá eiginleika sem góður leikskólakennari þarf að hafa. Í náminu gefst tækifæri til að tengja fræðilega hluta námsins við fyrri reynslu og nýta verkefnavinnu undir styrkri leiðsögn kennara.

Hallbera Rún Þórðardóttir
BA í leikskólakennarafræði

Ég vinn í leikskóla samhliða náminu sem er afar hentugt. Enginn dagur í leikskólanum er eins og vinnan er mjög gefandi. Námið hefur boðið upp á miklu meira en ég þorði að vona og það er virkilega gagnlegt að geta nýtt námsefnið strax á vettvangi.

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa

1. hæð, Stakkahlíð – Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.