Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 8. september 2016

09/2016

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2016, fimmtudaginn 8. september var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Guðrún Geirsdóttir, María Rut Kristinsdóttir (varamaður fyrir Ernu Hauksdóttur), Orri Hauksson, Ragna Árnadóttir, Ragna Sigurðardóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Tómas Þorvaldsson og Þengill Björnsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og bauð fullskipað háskólaráð velkomið til síns fyrsta fundar. Greindi rektor frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver vildi gera athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Rektor bar upp tillögu um að röð dagskrárliða 5 og 6 yrði víxlað og var það samþykkt. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Kjör varaforseta háskólaráðs, sbr. 4. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Rektor bar upp tillögu um að Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs og fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði, verði varaforseti ráðsins tímabilið 2016-2018.
– Samþykkt einróma.

3.    Starfsreglur háskólaráðs. Tillögur að breytingum á starfsreglunum í ljósi ábendinga nefndar um störf ráðsins á liðnu háskólaári, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Rektor gerði grein fyrir starfsreglum háskólaráðs. Fyrir fundinum lágu tillögur að breytingum á starfsreglunum, sbr. fund ráðsins 2. júní sl. og voru þær ræddar.
– Framlagðar tillögur að breytingum á starfsreglum háskólaráðs samþykktar einróma.

4.    Kynning á starfsemi og stefnu Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri háskólans, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Rektor gerði grein fyrir starfsemi og stefnu Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði.

5.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a)    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands fyrstu sex mánuði ársins 2016.
Fyrir fundinum lá yfirlit um rekstur Háskóla Íslands fyrstu sex mánuði ársins 2016. Jenný Bára gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

b)    Fjárlagaerindi Háskóla Íslands 2017.
Fyrir fundinum lá fjárlagaerindi Háskóla Íslands fyrir árið 2017, dags. 31. mars 2016. Guðmundur gerði grein fyrir áherslum Háskóla Íslands í erindinu og var málið rætt.

c)    Uppfærð fjárfestingarstefna Styrktarsjóða Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Gylfi Magnússon, dósent og formaður stjórnar Styrktarsjóða Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir uppfærðri fjárfestingarstefnu Styrktarsjóðanna. Málið var rætt og svaraði Gylfi spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Samþykkt einróma.

6.    Starfsáætlun háskólaráðs 2016-2017. Drög.
Rektor gerði grein fyrir drögum að starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2016-2017 og áherslum í nýrri Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021. Málið var rætt og beindi rektor því til ráðsmanna að koma á framfæri tillögum og ábendingum varðandi starfsáætlunina. Málið kemur til afgreiðslu á næsta fundi ráðsins.

7.    Frá innri endurskoðanda: Erlendir rannsóknastyrkir.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir drögum að skýrslu sinni um meðferð erlendra styrkja. Einnig fór Ingunn yfir endurskoðunaráætlun fyrir tímabilið 2016-2018 og óskaði eftir heimild háskólaráðs til að breyta henni lítillega í ljósi umfangs verkefna. Málið var rætt og svaraði Ingunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Samþykkt einróma að taka málið til afgreiðslu á næsta fundi háskólaráðs.

8.    Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um breytt fyrirkomulag sjúkra- og endurtökuprófa í deildum fræðasviðsins.
Fyrir fundinum lá tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um breytt fyrirkomulag sjúkra- og endurtökuprófa í deildum sviðsins og umsögn kennslumálanefndar háskólaráðs um tillöguna. Steinunn Gestsdóttir og Þórður Kristinsson gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.
– Erindið samþykkt og rektor falið að ganga frá endanlegu orðalagi bráðabirgðaákvæðisins í kjölfar fundarins.

9.    Bókfærð mál.
a)    Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa.
– Samþykkt.

b)    Fulltrúi í fagráði um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi innan Háskóla Íslands til 6. febrúar 2017.
– Á fundi háskólaráðs 6. febrúar 2014 var samþykkt skipun fagráðs um viðbrögð viðkynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi, sbr. 3. gr. verklagsreglna þar um. Í fagráðinu eru: Þóra S. Einarsdóttir, sálfræðingur hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni, formaður, Brynhildur Flóvenz, dósent við Lagadeild (tilnefnd af starfsmannasviði Háskóla Íslands) og Ragnar Pétur Ólafsson, dósent í Sálfræðideild (tilnefndur af náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands), sem tekur sæti Gunnars Hrafns Birgissonar, sálfræðings og forstöðumaður Sálfræðiráðgjafar háskólanema sem hefur óskað eftir því að hætta í fagráðinu. Með fagráðinu starfa Jónína Helga Ólafsdóttir, verkefnisstjóri á starfsmannasviði og Svandís Anna Sigurðardóttir, starfandi jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands (til 1. nóvember, er Arnar Gíslason jafnréttisfulltrúi kemur úr leyfi). Skipunin er til þriggja ára.

c)    Skipun stjórnar Miðstöðvar framhaldsnáms.
– Samþykkt. Stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms er skipuð Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, prófessor við Félags- og mannvísindadeild og aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands, formaður, Bryndísi Evu Birgisdóttur, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild (tilnefnd af Heilbrigðisvísindasviði), Gunnari Stefánssyni, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild (tilnefndur af Verkfræði- og náttúruvísindasviði), Orra Vésteinssyni, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild (tilnefndur af Hugvísindasviði), Ólöfu Garðarsdóttur, prófessor við Kennaradeild (tilnefnd af Menntavísindasviði), Inga Rúnari Eðvarðssyni, prófessor við Viðskiptafræðideild (tilnefndur af Félagsvísindasviði), Áslaugu Helgadóttur, prófessor (fulltrúi Landbúnaðarháskóla Íslands skv. samningi Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands) og Skúlínu Hlíf Kjartansdóttur (áheyrnarfulltrúi tilnefndur af doktorsnemum).

d)    Breyting á 75. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Varðar fyrirkomulag og stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

e)    Gjaldskrá fyrir tölfræðiráðgjöf Heilbrigðisvísindasviðs.
– Samþykkt.
 
10.    Mál til fróðleiks.
a) 
Ársreikningur Háskóla Íslands 2015, með skýringum.

b)    Glærur rektors, framkvæmdastjóra og fjármálastjóra frá ársfundi Háskóla Íslands 25. september 2016.
c)    Lykiltölur. Háskóli Íslands 2016.
d)    Dagatal Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2016-2017.
e)    Ályktun háskólaráðs 2. júní sl. um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021.
f)    Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um námslán og námsstyrki (heildarlög), 794. mál, ásamt fylgiskjölum.
g)    Ráð um málefni fatlaðra 2016-2019.
h)    Yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á misserinu.
i)    Viðauki 2 við samning Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs Færeyja.
j)    Tilboð Háskóla Íslands um nám í lögreglufræðum, dags. 22.7.2016.
k)    Dagskrá stofnfundar Network X í Amsterdam 21.10.2016.

l)    Fréttatilkynning um óháða ytri nefnd sem rannsakar Macchiarini-málið.
m)    Skýrsla um rannsókn Karolinska sjúkrahússins á Macchiarini-málinu.
n)    Skýrsla um rannsókn Karolinska háskólans á Macchiarini-málinu
.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.