Skip to main content

4. háskólaþing 7. maí 2010

4. háskólaþing Háskóla Íslands haldið 7. maí 2010 í Hátíðasal Háskóla Íslands í AðalbygginguFundartími: Kl. 13.00-16.00Dagskrá

Kl. 13.00 – 13.05    Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.

Kl. 13.05 – 13.25    Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.

Kl. 13.25 – 14.10    Dagskrárliður 2. Árangur Stefnu Háskóla Íslands 2006-2010 og undirbúningur nýrrar stefnumörkunar fyrir 2011-2016.

Kl. 14.10 – 14.40    Dagskrárliður 3. Tilnefning þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1.7.2010-30.6.2012.

Kl. 14.40 – 15.00    Fundarhlé.

Kl. 15.00 – 16.00    Dagskrárliður 4. Umfjöllun um háskólasamfélagið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði.

Kl. 16.00    Rektor slítur háskólaþingi.


Kl. 13.00-13.05 - Fundarsetning


Rektor setti 4. háskólaþing Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008. Sérstaklega bauð rektor velkomna þá fulltrúa starfsfólks, stúdenta og háskólaráðs sem mættir voru í fyrsta sinn á háskólaþing sem og gesti frá öðrum stofnunum, þau Ólaf Baldursson, fulltrúa Landspítala, Guðrúnu Kvaran, fulltrúa Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur landsbókavörð og Sigurð Ingvarsson, forstöðumann Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.


Þá gerði rektor grein fyrir tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra háskólans að vera fundarritari.


Áður en gengið var til dagskrár bar rektor upp dagskrártillögu. Í ljósi þess að ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt frumvarp til breytinga á lögum um háskóla, sem felur m.a. í sér að fulltrúum háskólasamfélagsins í háskólaráði fjölgar úr tveimur í þrjá, samþykkti háskólaráð á fundi sínum 8. apríl sl. bókun um að við kjör fulltrúa í háskólaráð á þessu háskólaþingi verði tekið mið af þeim möguleika að frumvarpið verði að lögum og að sá sem verður í þriðja sæti í kjörinu taki sæti í háskólaráði. Samkvæmt 6. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 ber háskólaþingi að veita umsögn um slíkar breytingar og því lagði rektor til að á þinginu verði bætt við nýjum dagskrárlið sem komi á undan kjöri fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð, þar sem háskólaþing tekur afstöðu til framangreindrar bókunar ráðsins. Dagskrártillagan gerir ráð fyrir að þessi dagskrárliður verði nr. 3 og taki 10 mínútur, sem verði teknar af þeim tíma sem ætlaður var fyrir kosninguna. Dagskráin riðlast því ekki að öðru leyti, nema hvað síðasti liður hennar (umfjöllun um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis) verður nr. 5 (í stað nr. 4 í útsendri dagskrá). Gert er ráð fyrir að Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur Háskólans, stýri fundi þegar nýi dagskrárliðurinn verður tekinn fyrir.


Rektor gaf orðið laust, en engin athugasemd var gerð við tillöguna. Var þá dreift breyttri dagskrá.


Breytt dagskrá

Kl. 13.00 – 13.05    Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.

Kl. 13.05 – 13.25    Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.

Kl. 13.25 – 14.10    Dagskrárliður 2. Árangur Stefnu Háskóla Íslands 2006-2010 og undirbúningur nýrrar stefnumörkunar fyrir 2011-2016.

Kl. 14.10 – 14.20    Dagskrárliður 3. Umsögn háskólaþings um bókun háskólaráðs, dags. 8. apríl 2010, um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð, sbr. 6. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008.

Kl. 14.20 – 14.40    Dagskrárliður 4. Tilnefning þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1.7.2010-30.6.2012.

Kl. 14.40 – 15.00    Fundarhlé.

Kl. 15.00 – 16.00    Dagskrárliður 5. Umfjöllun um háskólasamfélagið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði.

Kl. 16.00    Rektor slítur háskólaþingi.


Kl. 13.05-13.25 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands


Rektor fór yfir helstu verkefni umliðins vetrar og stærstu mál framundan í starfi Háskóla Íslands.

Forsendur, hlutverk, skipulag og stefna Háskóla Íslands

Byrjaði rektor á að fara stuttlega yfir helstu forsendur starfsemi Háskóla Íslands, hlutverk hans, skipulag og stefnu. Ytri rammi háskólastarfsins er markaður með lögum, reglugerðum, viðurkenningum og heimildum. Um er að ræða lög um háskóla nr. 63/2006, lög um opinbera háskóla nr. 85/2008, reglur fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra fyrir öll fræðasvið og undirflokka þeirra skv. skilgreiningu OECD og heimild til að bjóða doktorsnám á öllum fræðasviðum skólans. Innri rammi starfseminnar er aftur á móti markaður með Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 sem samþykkt var á háskólafundi og í háskólaráði maí 2006. Stefnan lýsir framtíðarsýn skólans og tilgreinir markmið og aðgerðir. Um mitt árið 2008 tók gildi nýtt skipulag Háskóla Íslands sem þjónar því markmiði að styðja við stefnu hans. Á sama tíma tók formlega gildi sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Tilgangur nýja skipulagsins er að styrkja þverfræðilega samvinnu í kennslu og rannsóknum, bæta þjónustu við nemendur og kennara, auka sveigjanleika og skilvirkni og efla fjármálastjórn í fræðasviðum og deildum.

Nemendur og námsleiðir

Nemendum hefur fjölgað mikið á síðustu árum, einkum við sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og ekki síður í kjölfar efnahagskreppunnar. Nú eru skráðir um 14.000 nemendur við Háskóla Íslands og skiptast þeir í ríflega 10.000 grunnnema og tæplega 4.000 framhaldsnema, þar af eru 440 í doktorsnámi. Námsleiðir við Háskóla Íslands eru 380 að tölu, 160 námsleiðir í grunnnámi og 220 námsleiðir í framhaldsnámi. Fjöldi erlendra nemenda við Háskóla Íslands er 1.095.

Starfsfólk

Heildarfjöldi fastráðinna starfsmanna er 1.259 og skiptast þeir í 643 akademíska starfsmenn og 616 aðra starfsmenn. Akademísku starfsmennirnir skiptast í 238 prófessora, 172 dósenta, 158 lektora og 75 aðjunkta. Af akademískum starfsmönnum eru erlendir kennarar um 40 talsins. Fjöldi stundakennara er 2.284 og koma þeir víðsvegar að úr atvinnulífi, erlendum og innlendum háskólum og stofnunum. Fjöldi akademískra gestakennara er 37 og fjöldi akademískra nafnbótarhafa frá Landspítala er 131. Við Háskóla Íslands starfa ennfremur 44 nýdoktorar. Rektor greindi frá því að hún hefði á vormisseri haldið fundi með starfsfólki allra 25 deilda Háskóla Íslands.

Stór verkefni framundan


Fjármál


Í kjölfar efnahagskreppunnar blasir við að fjárveitingar til opinberra stofnana verða skornar niður á næstu árum. Innan Háskóla Íslands er nú unnið að gerð tillagna um viðbrögð við niðurskurðinum og gerð fjárhagsáætlunar fyrir tímabilið 2011-2013. Í þessu sambandi hefur m.a. verið leitað eftir tillögum frá háskólasamfélaginu og hafa fjölmargar gagnlegar ábendingar borist. Á þessari stundu liggur ekki endanlega fyrir hve mikill niðurskurðurinn verður, en það ætti að skýrast á næstu vikum og í kjölfarið mun rektor halda opinn fund með starfsfólki til að fara yfir málið. Við útfærslu niðurskurðarins innan Háskóla Íslands verður lagt kapp á að halda útgjöldum innan ramma fjárlaga, standa vörð um gæði náms og rannsókna og tryggja áfram háskólamenntun á Íslandi sem stenst alþjóðlegar gæðakröfur og samanburð. Mikilsverðasta framlag Háskóla Íslands til íslensks samfélags er að halda áfram að auka árangur í vísindum og verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag. Með þessu aukast jafnframt möguleikar á erlendu samstarfi sem í reynd stækkar íslenskt menntakerfi án frekari útgjalda.

Aldarafmæli Háskóla Íslands 2011

Undirbúningur fyrir aldarafmæli Háskóla Íslands er hafinn fyrir nokkru, en 17. júní 2011 verða liðin 100 ár frá því að háskólinn var stofnaður á Alþingi á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Skipuð var afmælisnefnd sem hefur skilað tillögum að veglegri dagskrá afmælisársins og sérstök verkefnisstjórn mun hafa það hlutverk að útfæra tillögurnar og hrinda þeim í framkvæmd. Þá hefur um nokkurt skeið verið unnið að ritun aldarsögu Háskóla Íslands sem mun koma út á afmælisárinu, settur verður upp sérstakur afmælisvefur í upphafi ársins, fræðasvið skólans munu vera með sérstaka dagskrá einn mánuð hvert á afmælisárinu og afmælishátíð verður haldin 8. október 2011. Síðast en ekki síst er áformað að ný stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016 verði kynnt í upphafi afmælisársins. Nánari dagskrá verður kynnt um næstu áramót.

Stefna Háskóla Íslands

Áfram er unnið markvisst að framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011. Stefnan er fyrsti áfangi að því langtímamarkmiði Háskóla Íslands að komast í hóp fremstu háskóla heims. Nú í haust hefst undirbúningur að öðrum áfanga að þessu langtímamarkmiði með mótun nýrrar stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016. Á þessu háskólaþingi verður gerð nánari grein fyrir árangri núverandi stefnu og undirbúningi þeirrar næstu.

Samstarf Háskóla Íslands og Landspítala

Mjög náið og gott samstarf er á milli Háskóla Íslands og Landspítalans. Markmið samstarfsins er að menntun heilbrigðisstétta á Íslandi sé sambærileg því sem best gerist á hliðstæðum stofnunum erlendis, að skapa sem bestar aðstæður fyrir klínískt nám í heilbrigðisvísindagreinum, að stuðla sameiginlega að framgangi vísindarannsókna og fræðilegri framþróun og að stuðla að sem bestri nýliðum heilbrigðisstétta á Íslandi. Árangur samstarfs Háskóla Íslands og Landspítalans hefur verið mikill eins og glöggt mátti sjá á ráðstefnunni Vísindi á vordögum, en um 90% þeirra vísindaverkefna sem þar voru kynnt eru unnin í samvinnu vísindamanna beggja stofnana. Á ráðstefnunni var Þórarinn Gíslason, yfirlæknir við Landspítalann og prófessor við Háskóla Íslands gerður að heiðursvísindamanni Landspítalans og Berglind Guðmundsdóttir var kjörin ungur vísindamaður ársins á Landspítala.

Samstarf Háskóla Íslands við kínverska háskóla

Samstarf Háskóla Íslands við kínverska háskóla hefur aukist og styrkst mikið á síðustu árum. Í tengslum við nám í kínversku og kínverskum fræðum hefur Háskóli Íslands gert samninga við kínverska háskóla og geta íslenskir nemendur nú tekið 3. námsár sitt við Beijing University, Beijing Normal University, Communication University of China (Beijing), Fudan University (Shanghai), Jilin University (Changchun), Nanjing University og Ningbo University. Þá var Konfúsíusarstofnun (Confusius Institute) sett á laggirnar við Háskóla Íslands árið 2008 og er stofnunin styrkt fjárhagslega af kínverska menntamálaráðuneytinu. Ennfremur eru í gildi samningar vegna kennara- og nemendaskipta í fjölmörgum greinum, s.s. við Peking háskóla, Fudan háskóla og Jilin háskóla. Íslenskir og kínverskir vísindamenn eiga í öflugu samstarfi, einkum á sviði heilbrigðisvísinda, hugvísinda, jarðvísinda, loftslagsfræða og verkfræði, svo nokkuð sé nefnt. Þá er Háskóli Íslands aðili að norrænu setri við Fudan háskóla (Nordic Centre Fudan) ásamt öðrum háskólum á Norðurlöndunum. Norræna setrið gengst m.a. fyrir sumarnámskeiðum og hefur verið góð þátttaka nemenda úr ýmsum greinum Háskóla Íslands. Loks er töluvert samstarf á milli Háskóla Íslands og kínverskra háskóla á sviði kennslu og hefur hópur kennara við Háskóla Íslands kennt við kínverska háskóla, m.a. á sviðum rafmagnsverkfræði, heimspeki o.fl.

Byggingarverkefni og nýframkvæmdir

Ýmis byggingarverkefni eru í undirbúningi við Háskóla Íslands eða í tengslum við skólann.

Nýbygging Landspítala og Heilbrigðisvísindasviðs

Unnið er að undirbúningi nýbyggingar Landspítala þar sem jafnframt verður framtíðarstaðsetning Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir um 10.000 ferm. undir starfsemi Háskóla Íslands í fyrsta áfanga byggingarinnar. Nú stendur yfir arkitektasamkeppni og mun niðurstaða hennar væntanlega liggja fyrir í sumar. Áætlaður kostnaður Háskóla Íslands verður um 4.000-5.000 m.kr. og verður hlutur skólans aðallega fjármagnaður með framlagi Happdrættis Háskóla Íslands og með sölu eigna.

Nýbygging Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum

Þá er í gangi fjáröflun og undirbúningur að nýbyggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Gert er ráð fyrir um 3.000 ferm. byggingu vestan Suðurgötu gegnt Háskólatorgi. Þar verður framtíðarstaðsetning Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Áætlað er að byggingin verði fjármögnuð að einum þriðja hluta af háskólanum og að tveimur þriðju hlutum af frjálsum framlögum.

Hús íslenskra fræða og Íslensku- og menningardeildar

Einnig er áfram haldið undirbúningi Húss íslenskra fræða. Þar verður m.a. framtíðarstaðsetning Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Áformað er að byggingin verði 6.000-7.000 ferm. og verður hlutur Háskóla Íslands líklega um 800 m.kr. og hann fjármagnaður af Happdrætti Háskóla Íslands.

Nýbygging Menntavísindasviðs

Ennfremur er í undirbúningi nýbygging fyrir Menntavísindasvið vestan Suðurgötu. Nýlega hefur verið samþykkt breytt deiliskipulag og endurskoðun þarfagreiningar er í vinnslu. Líklegt er að byggingin verði um 14.000-15.000 ferm að stærð og áætlað er að fjármagna hana með sölu eigna í Stakkahlíð.

Vísindagarðar Háskóla Íslands

Áfram er unnið að undirbúningi Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýri. Nýtt deiliskipulag liggur fyrir og gerir það auðveldara um vik að byggja Vísindagarða upp í áföngum.

Stúdentagarðar Félagsstofnunar stúdenta

Fyrirhuguð er bygging nýrra stúdentagarða á lóð Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. Í stúdentagörðunum verða íbúðir og herbergi fyrir stúdenta og er gert ráð fyrir að tvö hús verði reist í fyrsta áfanga, samtals um 150-170 einingar.

Stærstu viðhaldsverkefni 2010

VR-I

Stærsta viðhaldsverkefni ársins 2010 er gagnger endurnýjun tilraunakennsluaðstöðu fyrir efna- og eðlisfræði í VR-I. Húsið hefur verið tekið í gegn að innan og skipt um innréttingar, loftræsikerfi og lagnir. Kostnaður vegna þessa verkefnis nemur um 350 m.kr.

Læknagarður

Á árinu hafa farið fram utanhússviðgerðir á Læknagarði, ytra byrði hússins tekið í gegn og lóðin snyrt. Kostnaður nemur um 70 m.kr.

Aðalbygging

Ný lyfta verður sett upp á milli kjallara og 3. hæðar. Einnig hafa verið brotnir veggir í kjallara svo framvegis verður innangengt á milli suður- og norðurálmu í kjallara. Þá verður lóðin kringum Aðalbyggingu endurnýjuð, nýjar hellur lagðar við aðalinngang og settur upp rampur fyrir hjólastóla. Eftir þessar breytingar verður aðgengi fyrir fatlaða stórlega bætt jafnt utan sem innan. Áætlaður kostnaður vegna þessa verkefnis er um 30 m.kr.

Nýi-Garður

Í sumar verður haldið áfram viðgerðum á Nýja-Garði sem hófust í fyrra og vesturhlið hússins tekin í gegn. Kostnaður nemur um 15 m.kr.

Ýmsir viðburðir

Fjölmargir viðburðir hafa verið á döfinni í Háskóla Íslands frá síðasta háskólaþingi og aðrir eru framundan. Hér verður drepið stuttlega á það helsta:

·    Háskóladagurinn var haldinn 20. febrúar sl. og tókst einstaklega vel. Þúsundir gesta heimsóttu Háskóla Íslands og kynntu sér fjölbreytt námsframboð og starfsemi skólans.

·    Sérstök framhaldsnámskynning var haldin 25. mars sl.

·    Árshátíð Háskóla Íslands var haldin 26. mars sl.

·    Úthlutað var úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar 7. apríl sl.

·    Í apríl var tilkynnt hvaða nemendur Háskóla Íslands hefðu hreppt sæti í sumarnámi við California Institute of Technology (Caltech), en hann er meðal fremstu háskóla í heimi. Sumarnámið veitir nemendum ómetanlegt tækifæri og er mögulegt vegna samstarfssamnings sem Háskóli Íslands og Caltech hafa gert.

·    Tilraunaland Norræna hússins og Háskóla Íslands var opnað 9. apríl sl.

·    Nýr sjónvarpsþáttur um Háskóla unga fólksins var sýndur á RÚV 13. apríl sl.

·    Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda 15. apríl sl. og síðdegis sama dag var haldið mikil hátíð í Háskólabíói í tilefni af 80 ára afmæli Vigdísar.

·    Háskólahlaupið var haldið 16. apríl 2010.

·    Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra var opnað formlega 23. apríl sl. á Skagaströnd. Rannsóknasetrið mun leggja áherslu á hugvísindi, einkum sagnfræði.

·    Dagana 26.-30. apríl sl. voru haldnir opnir umræðufundur í Háskóla Íslands um skýrslu Rannsóknanefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna og tengda atburði. Að fundunum stóðu Félags- og mannvísindadeild, Hagfræðideild, Lagadeild, Sagnfræði- og heimspekideild, Stjórnmálafræðideild og Viðskiptafræðideild.

·    Starfsmönnum Landspítala voru veittar akademískar nafnbætur við hátíðlega athöfn 28. apríl sl.

·    Vísindadagar Landspítalans, Vísindi á vordögum, voru haldnir 4. maí sl. Við þetta tækifæri var Þórarinn Gíslason, yfirlæknir og prófessor, útnefndur heiðursvísindamaður Landspítalans og Berglind Guðmundsdóttir hlaut viðurkenninguna ungur vísindamaður ársins á Landspítalanum.

·    Þá er unnið að undirbúningi veitingar styrkja til afburðanemenda úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands, en næsta úthlutun úr sjóðnum fer fram í júní nk.

Jafnréttismál

Mikið starf er unnið innan Háskóla Íslands á sviði jafnréttismála og hefur verulegur árangur náðst á því sviði innan skólans. Þetta má ljóslega sjá á nokkrum kennitölum: Árið 1911 þegar Háskóli Íslands var stofnaður var aðeins ein kona í hópi þeirra 45 stúdenta sem hófu nám þá um haustið. Árið 2010 stunda um 14.000 nemendur nám við skólann og er hlutfall kvenkyns nemenda nú um 66%. Hlutfall kvenna meðal prófessora er 23%, meðal dósenta 38% og fjöldi kvenna í hópi lektora er 56%. Þegar horft er til æðstu stjórnenda, rektors og forseta fræðasviða, eru 33% þeirra konur og hlutfall kvenna meðal fulltrúa í háskólaráði er 64%. Þá eru 40% formanna starfsnefnda háskólaráðs konur og hlutfall kvendeildarforseta er 48%.


Kl. 13.25-14.10 - Dagskrárliður 2: Árangur Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og undirbúningur nýrrar stefnumörkunar fyrir 2011-2016


Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, og Kristín Ingólfsdóttir rektor gerðu grein fyrir málinu. Fyrst fór Jón Atli yfir árangur Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og síðan fór rektor yfir undirbúning nýrrar stefnumörkunar fyrir tímabilið 2011-2016.


Stefna Háskóla Íslands 2006-2011

Uppbygging stefnu Háskóla Íslands 2006-2011

·    Skilgreind voru 3 aðalmarkmið:

- Framúrskarandi rannsóknir

- Framúrskarandi kennsla

- Framúrskarandi stjórnun og stoðþjónusta

·    Hvert aðalmarkmið skiptist í 4-7 undirmarkmið, samtals 18

·    Fyrir hvert undirmarkmið voru skilgreindar mælanlegar og tímasettar aðgerðir, samtals 102

·    Í kjölfarið var gerður árangurstengdur samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið um fjármögnun stefnunnar

·    Fylgst var með árangri aðgerðaráætlunar árlega, sem og árangri lykilþátta á grundvelli 30 skilgreinda mælikvarða.


Dæmi um undirmarkmið

·    Fimmfalda fjölda brautskráðra doktora

·    Auka rannsóknavirkni og gæði rannsókna – fjölga birtingum í virtum alþjóðlegum ritrýndum tímaritum og tvöfalda fjölda ISI birtinga

·    Tvöfalda fjölda nýdoktora

·    Auka skipulagt samstarf við erlenda háskóla og háskóladeildir í fremstu röð í heiminum

·    Auka sókn í samkeppnissjóði vegna rannsókna

·    Efla nýsköpun og tengsl við rannsóknastofnanir, atvinnulíf og landsbyggð

·    Laða að hæfustu nemendurna og skapa fyrirmyndar námsumhverfi

·    Ráða hæfustu kennarana

·    Efla stuðnings- og gæðakerfi kennslu

·    Auka ábyrgð nemenda og draga úr brottfalli

·    Styrkja skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands

·    Efla gæðakerfi og gæðamenningu innan háskólans

·    Styrkja tengsl Háskóla Íslands við íslenskt atvinnulíf, mennta- og menningarstofnanir, stjórnvöld og hollvini skólans og taka virkan þátt í opinberri umræðu


Árangur Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011

·    Þegar tæpt ár er eftir af gildistíma stefnunnar:

·    78/102 aðgerðum hefur verið hrint í framkvæmd að fullu eða eru á áætlun

·    20/102 aðgerðum hefur verið hrint í framkvæmd að hluta eða eru á eftir áætlun

·    4/102 aðgerðum hafa ekki komist til framkvæmdar


Fjöldi styrkja til doktorsnema 2005-2009

·    2006: 25

·    2007: 78

·    2008: 158

·    2009: 179

Fjöldi brautskráðra doktora 2005-2009

Brautskráðir doktorar 2005-2011 – áætlun

Birtingar vísindamanna Háskóla Íslands í ISI-tímaritum 2005-2009


European Reference Index for the Humanities (ERIH)

·    Nýtt matskerfi European Science Foundation fyrir vísindagreinar innan hug- og félagsvísinda

·    Birtingar vísindamanna Háskóla Íslands í ERIH-tímaritum 2009: Mat stendur yfir

Birtingar vísindamanna Háskóla Íslands – annað ritrýnt efni 2005-2008

Fjöldi nýdoktora við Háskóla Íslands 2005-2009


Stefna Háskóla Íslands 2006-2011 – dæmi um árangur í vísindum, aukning milli 2005-2009

Aukning
ISI greinar 84%
Tilvitnanir 96%
Styrkir úr erlendum samkeppnissjóðum 300%
Umsóknir um einkaleyfi 100%

  

Árangur Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 – önnur einstök framfaramál


·    Endurskoðað matskerfi rannsókna – meiri kröfur og hvatning til hágæða vísindabirtinga á öllum fræðasviðum

·    Miðstöð framhaldsnáms – samræmdar gæðakröfur í doktorsnámi

·    Samstarf við bestu háskóla í heimi – samstarf við 18 af 20 bestu háskólum; aukin áhersla á samstarf við skóla í Asíu

·    Nýsköpunarstefna – í vinnslu

·    Tengsl við atvinnulíf – vaxandi fjöldi samstarfsverkefna

·    Laða að hæfustu nemendur – doktorsstyrkjakerfi stóreflt, Afreks- og hvatningarsjóður stofnaður

·    Endurskoðað ráðningar- og framgangskerfi – einfaldara og skilvirkara kerfi, meiri faglegar kröfur

·    Gæðanefnd – trygging og efling gæða á öllum sviðum starfseminnar

·    Aðgerðir samþykktar til að vinna gegn brottfalli, auka námsástundun og efla gæði náms og kennslu

·    Hertar reglur um úrsagnir og endurtökupróf

·    Virk samræða Háskóla Íslands og framhaldsskóla – upplýsingagjöf í báðar áttir

·    Nýtt skipulag og stjórnkerfi – öflugra stoðkerfi við rannsóknir og kennslu

·    Tilgangur skipulagsbreytinga – fylgja eftir stefnuáherslum:  

- Styrkja þverfræðilega samvinnu í kennslu og rannsóknum

- Bæta þjónustu við nemendur og kennara

- Auka sveigjanleika og skilvirkni

- Efla fjármálastjórn í deildum og sviðum

- Efla gæðakerfi og stuðningskerfi kennslu – kennslustjórar, kennslunefndir


Að lokinni kynningu Jóns Atla tók rektor við orðinu. Byrjaði rektor á því að geta þess, að stundum væri spurt hvort metnaðarfull markmiðasetning Háskóla Íslands hafi e.t.v. verið óraunhæf. Svaraði rektor því til að áður en þetta markmið hafi verið sett hafi Háskóli Íslands farið vandlega yfir starfsemi erlendra háskóla sem hann vildi miða sig við, m.a. þá 8 norrænu háskóla sem eru á lista yfir 100 bestu háskóla í heimi, farið yfir ábendingar ytri úttekta sem gerðar voru á Háskóla Íslands á árunum 2004-2005 og metið uppbyggingu starfseminnar á árunum þar á undan. Var það niðurstaðan að með hæfilegum fjárstuðningi, sem síðar var lagður grunnur að með árangurstengdum samningi við stjórnvöld, væri raunhæft að miða að þessu langtímamarkmiði. Skýrar vísbendingar, um að þetta mat hafi verið raunhæft, kæmu fram í einstökum áfangamarkmiðum í stefnu skólans. Með stefnumörkuninni árið 2006 var m.a. ákveðið að stefna að tvöföldun birtinga í ISI-tímaritum, fimmföldun doktorsútskrifta, verulegri aukningu tekna úr samkeppnissjóðum o.s.frv. Eins og fram kom í kynningu Jóns Atla hefur flestum þessara áfangamarkmiða verið náð og í sumum tilvikum gott betur. Þetta sýnir ótvírætt að ef samningurinn við stjórnvöld hefði haldið hefði háskólinn átt möguleika á að komast vel áleiðis í átt að langtímamarkmiði sínu í fyrirsjáanlegri framtíð.


Nú væri hins vegar komið að tímamótum því fyrsti áfangi stefnu Háskóla Íslands myndi renna út að ári liðnu. Sagði rektor að þótt erfiðleikar sæktu að íslensku samfélagi skipti öllu máli að leggja ekki árar í bát. Háskólar sem tækju hlutverk sitt alvarlega settu sér metnaðarfull markmið um árangur. Þegar Háskóli Íslands hefði skilgreint langtímamarkmið sitt hefði verið ákveðið að skipta sókninni upp í áfanga með mælanlegum markmiðum. Fyrir lægi að skólinn hefði náð flestum helstu markmiðum fyrsta áfanga og ekkert væri því til fyrirstöðu að halda áfram á sömu braut og undirbúa þann næsta. Íslenskt samfélag þyrfti á því að halda að háskólinn sýndi festu og stefndi hátt, enda hefði sýnt sig að það skilaði raunverulegri verðmætaaukningu.


Þá nefndi rektor nokkur viðfangsefni sem að hennar mati væri mikilvægt að hugleiða og ræða í háskólasamfélaginu í sambandi við undirbúning nýrrar stefnumörkunar:


·    Háskóli Íslands : íslenskur og alþjóðlegur háskóli

- Málstefna

- Matskerfi a) byggt á alþjóðlegum mælikvörðum, b) meti framlag til íslensks samfélags og þjóðlífs

- Móttaka erlendra starfsmanna og stúdenta

- Samstarf við erlenda háskóla – Evrópa, Norður-Ameríka, Asía


·    Kennsla

- Tækninýjungar – tækifæri nýtt

- Hluti nemenda sem tekur hluta af námi við erlenda háskóla

- Aukin vitund um upplýsingalæsi, siðfræði, ábyrgðarkennd

- Skipulag og stjórnkerfi


·    Kynning á starfsemi Háskóla Íslands

- Vefur

- Kynning á starfseminni

- Opinn aðgangur (Open access)


·    Nýliðun starfsfólks


·    Framlag Háskóla Íslands til menntunar á fyrri skólastigum

- Aukin tengsl skólastiga

- Aukin færni í lestri, íslensku, stærðfræði og raungreinum en jafnframt upplýsingalæsi, gagnrýnin hugsun, samfélagslegri ábyrgð, siðfræði og í skapandi greinum. Samþáttun greina. Verknám og verkfærni.

- Stuðningur við afburðanemendur

- Viðbrögð við brottfalli í framhaldsskólum

- Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands – var markmiðum sameiningar náð?


·    Jafnrétti til náms (fötlun, fátækt, erlendur uppruni)


·    Rannsóknaskýrsla Alþingis – lærdómar og eftirfylgni


·    Aukin lífsgæði starfsfólks og stúdenta

- Fjölskylduvæn stefna í málefnum starfsfólks og stúdenta


·    Viðfangsefni framtíðar, t.d.

- Öldrun samfélagsins

- Umhverfismál

- Orka

- Matvælaöryggi

- Ábyrgð gagnvart þróunarlöndum


·    Framlag til aukinnar samkeppnishæfni Íslands

- Þekking

- Nýsköpun og verðmætasköpun


Að lokum bar rektor upp tillögu að verklagi við mótun nýrrar stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011-2016.


Stefnumótun 2011-2016 – tillaga að verklagi

·    Heildarstefnuhópur – fulltrúar fræðasviða, stúdenta, háskólaráðs, stjórnsýslu og utanaðkomandi fulltrúar

·    Stefnuhópar fræðasviða – fulltrúar deilda, stúdenta, stjórnsýslu, stofnana, fræðasetra og utanaðkomandi fulltrúar

·    Ráðgjafahópar, s.s. fulltrúa atvinnu- og þjóðlífs, innlendra og erlendra sérfræðinga, doktorsnema, ungra vísindamanna og erlendra starfsmanna


Tímaáætlun fyrir mótun Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016

·    Maí-október 2010: Stefnumótunarvinna

·    Október/nóvember 2010: Fræðasvið veita umsagnir um drög að nýrri stefnu

·    Desember 2010: Drög á dagskrá háskólaþings og háskólaráðs

·    Janúar 2011: Stefna Háskóla Íslands 2011-2016 kynnt opinberlega í upphafi 100. afmælisárs Háskóla Íslands


Rektor gaf orðið laust.


Forseti Félagsvísindasviðs þakkaði fyrir greinargott yfirlit um árangur stefnu Háskóla Íslands og undirbúning nýrrar stefnumótunar. Sagði hann miklar framfarir hafa orðið í starfi háskólans á síðustu árum og það væri ekki síst að þakka skýrri og metnaðarfullri stefnumörkun. Sagði forsetinn að stefna Háskóla Íslands þyrfti að samþætta tvö meginsjónarmið, annars vegar þyrfti að byggja á ströngum alþjóðlegum viðmiðum og kröfum og hins vegar að leggja rækt við íslenskt samfélag. Þegar öllu væri á botninn hvolft væru það íslenskir skattgreiðendur sem fjármögnuðu háskólastarfið og því væri háskólinn skuldbundinn til að leggja rækt við rannsóknir á íslensku samfélagi. Varðandi mótun annars áfanga stefnu háskólans væri mikilvægt að stefna hátt og láta ekki deigan síga þótt samningi við stjórnvöld um fjármögnun stefnunnar hafi verið frestað. Háskóli Íslands ætti hiklaust að bera sig saman við góða háskóla á Norðurlöndunum og að keppast við að standa jafnfætis þeim. Hins vegar taldi forsetinn ekki jafn víst hvort taka ætti mið af mælikvörðum á borð við röðun háskóla skv. svonefndum Shanghai-kvarða, enda miðaði hann einkum við heilbrigðis- og raunvísindi. Sagði forsetinn að þótt stefna Háskóla Íslands taki aðeins að nokkru leyti mið af Shanghai-kvarðanum þyrftu félagsvísindin engu að síður að berjast fyrir hagsmunum sínum, eins og fram hefði komið við endurskoðun matskerfis háskólans. Þá rifjaði forsetinn upp að eitt af markmiðum Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 hefði verið að bæta hlutfallið á milli fjölda nemenda og kennara. Frestun samnings við stjórnvöld hefði haft í för með sér að þessu markmiði hefði ekki verið náð, en það væri afar brýnt að það yrði aftur tekið upp í nýrri stefnu því þetta hlutfall væri svo óhagstætt á sviði félagsvísinda að það ógnaði gæðum námsins. Þetta mál tengdist beinlínis reikniflokkakerfinu sem nauðsynlega þyrfti að endurskoða. Að endingu dró forseti Félagsvísindasviðs mál sitt saman með þeim orðum að mestu skipti að stefna hátt, vanrækja ekki íslenskt samfélag og vona að innan háskólans myndu aðilar leitast við að skilja sjónarmið hvers annars og sýna sanngirni.


Fulltrúi í háskólaráði sagði ánægjulegt að verða vitni að því hversu vel hefði gengið við framkvæmd stefnu háskólans. Varaði hann við því að láta kreppuna verða til þess að víkja frá þeirri metnaðarfullu stefnu sem skólinn hefur fylgt á síðustu árum því metnaðarfullur háskóli laðaði að sér góða nemendur og gott starfsfólk. Vegna niðurskurðar fjárveitinga þyrfti vissulega að endurskoða margt í starfseminni og það yrði eflaust sársaukafullt. En ef hámarksárangur ætti að nást á þessum tímamótum þyrfti að skerpa á stefnu skólans og velja jafnvel enn skýrari áherslur en gert hefði verið á síðustu árum.


Forseti Raunvísindadeildar tók undir þá skoðun forseta Félagsvísindasviðs að eitt brýnasta stefnumál háskólans væri að fá fram leiðréttingu á reikniflokkakerfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Sagði hann kerfið fela í sér margvíslegar skekkjur sem hindruðu samstarf innan háskólans. Í stað þess að greiða fyrir kennslu eftir námsgreinum og reikniflokkum ætti að flokka kennslu eftir tegundum þannig að allir fyrirlestrar yrðu metnir eins á öllum fræðasviðum, greidd yrði sama fjárhæð fyrir alla æfinga- og dæmatíma hvar sem er í skólanum og sama ætti að gilda um verklega þjálfun. Þetta væri ekki aðeins réttlætismál heldur myndi það einnig stuðla að auknu þverfræðilegu samstarfi og síðast en ekki síst myndi það leiða til umtalsverðs sparnaðar fyrir skólann.


Deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar tók upp umræðuna um alþjóðlegar og íslenskar rannsóknir. Sagði hún hvorki sjálfgefið að séríslensk rannsóknarefni takmörkuðust við hug- og félagsvísindi né heldur að niðurstöður slíkra rannsókna ættu ekki erindi á alþjóðlegum vettvangi. Þannig mætti með fullum rétti líta á rannsóknir t.d. í heilbrigðisvísindum og jarðvísindum sem íslenskar rannsóknir, en niðurstöður þeirra eigi fullt erindi til birtingar í alþjóðlegum tímaritum. Einnig tók deildarforsetinn undir það sjónarmið að ný stefna Háskóla Íslands ætti að vera metnaðarfull, enda þjónaði það landinu og komandi kynslóð best. Loks lýsti forsetinn stuðningi við þá skoðun að við mat á kostnaði vegna náms ætti ekki að ganga út frá reikniflokkum heldur tegund þeirra kennslu sem um er að ræða hverju sinni.


Forseti Menntavísindasviðs þakkaði fyrir kynninguna og tók undir þann tón sem rektor sló í inngangsorðum sínum. Sagði hann mikilvægt að Háskóli Íslands héldi áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið og setti sér metnaðarfulla stefnu til framtíðar. Mikilvægt væri að allir sem að stefnumótuninni kæmu virtu sjónarmið hvers annars og mikilvægur líður í því væri að sanngirnissjónarmið lægju til grundvallar verkefnum á borð við útdeilingu fjár.


Deildarforseti Hagfræðideildar lagði áherslu á að fjármál skiptu miklu þegar lagðar verði línur í nýrri stefnu varðandi stjórnun, ekki síst nú þegar kreppti að og takmarkað fé væri til ráðstöfunar. Í því sambandi skipti e.t.v. mestu að gerðar verði gagngerar breytingar á reiknilíkani ráðuneytisins og deililíkani háskólans. Núverandi líkön leiddu til þess að fjárhagslegur grundvöllur hagfræðinnar hyrfi, þrátt fyrir að hagfræði væri kennd víða í skólanum, t.d. í formi stundakennslu.


Deildarforseti Lagadeildar sagði gleðilegt að sjá hversu vel hefði tekist til við framkvæmd stefnu háskólans. Sagðist hún taka undir margt af því sem forseti Félagsvísindasviðs hefði sagt, hlutfallið á milli fjölda fastra kennara og nemenda væri afar óhagstætt á Félagsvísindasviði og það setti starfseminni mjög þröngar skorður. Einnig tók forsetinn undir það sjónarmið að brýnt væri að laga skekkjuna sem væri innbyggð í núverandi reikniflokkakerfi. Við mótun nýrrar stefnu þyrfti að gæta þess að sníða sér stakk eftir vexti og taka mið af því að í þjóðfélaginu væru gerbreyttar aðstæður. Þá þyrfti að skoða fjölmörg einstök mál, s.s. varðandi kostuð störf og fyrirtækjastyrki sem áður hefðu tíðkast í nokkrum mæli en blöstu nú við í öðru ljósi. Loks þyrfti Háskóli Íslands eins og aðrar stofnanir að gaumgæfa vandlega hlutverk sitt í íslensku samfélagi og spyrja sjálfan sig að því, hvort hann hefði e.t.v. brugðist að einhverju leyti. Slík áhersla á samfélagslegt hlutverk skólans og siðferðilega ábyrgð þyrfti að vera þáttur í nýrri stefnu.


Rektor greindi frá því að hlutfall fjölda fastra kennara og nemenda, sem nokkrir fulltrúar á háskólaþingi hefðu gert að umtalsefni, væri eitt fárra markmiða fyrri stefnu sem ekki hefði komist til framkvæmdar. Meginástæðan fyrir því væri frestun samnings við stjórnvöld og þess yrði gætt við nýja stefnumótun að hvika ekki frá því markmiði að bæta þetta hlutfall, einkum á þeim sviðum þar sem þörfin væri brýnust, um leið og ytri aðstæður bötnuðu og fjárhagur skólans leyfði.


Deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar sagði að vandasamara væri að móta stefnu í kreppu og niðurskurði en ella og að gæta þyrfti að því að nota hófstillt orðfæri. Einnig tók hann undir með þeim sem áður höfðu tekið til máls um að brýnt væri að endurskoða reiknilíkan mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að ákvarða fjárveitingar vegna kennslu. Núverandi kerfi væri magnhvetjandi og ýtti undir það að hver eining hugsaði aðeins um sjálfa sig og hirti síður um það sem væri að gerast annarstaðar. Vinna ætti með öllum ráðum gegn þessari tilhneigingu með því að brjóta niður múra á milli fræðasviða og deilda og horfa á markmiðin heildstætt. Þá nefndi deildarforsetinn að góður árangur hefði náðst við uppbyggingu framhaldsnáms við háskólann og mikilvægt væri að nýta doktorsritgerðir í þágu skólans, enda geymdu doktorsritgerðir iðulega efnivið í allnokkrar vísindagreinar.


Rektor þakkaði fyrir góðar og málefnalegar umræður. Sagði rektor það vera gleðiefni að fulltrúar á háskólaþingi væru almennt þeirrar skoðunar að þrátt fyrir erfitt árferði ætti Háskóli Íslands ekki að hvika frá stefnu sinni heldur að halda áfram að setja markið hátt við mótun næsta áfanga stefnunnar. Vitaskuld þyrfti að taka mið af breyttum aðstæðum en engu að síður væri mest um vert að standa vörð um kjarna stefnunnar og missa ekki sjónar af meginmarkmiðum metnaðarfulls rannsóknaháskóla. Þá sagði rektor að í kjölfar nýrrar stefnumótunar yrði leitað til stjórnvalda um að þau virkjuðu á nýjan leik samning um fjármögnun stefnunnar. Háskólinn þyrfti að koma þeim skilaboðum á framfæri á skýran hátt að hann væri reiðubúinn að leggja hart að sér í þágu íslenskrar þjóðar og að hann þyrfti stuðning stjórnvalda við það.


Að umræðum loknum bar rektor upp til samþykktar tillögu sína um megináherslur, verklag og tímaáætlun við mótun nýrrar stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2011 til 2016.


- Samþykkt einróma.


Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Jóns Atla Benediktssonar, þau Ólafur Þ. Harðarson, Hilmar B. Janusson, Guðmundur G. Haraldsson, Inga Þórsdóttir, Jón Torfi Jónasson, Þórólfur Matthíasson, Björg Thorarensen og Sigurður S. Snorrason.


Kl. 14.10-14.20 - Dagskrárliður 3: Umsögn háskólaþings um bókun háskólaráðs, dags. 8. apríl 2010, um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð, sbr. 6. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008


Rektor gaf Ingibjörgu Halldórsdóttur lögfræðingi háskólans orðið.


Samkvæmt frumvarpi sem samþykkt hefur verið í ríkisstjórn og er nú komið til umsagnar Háskóla Íslands er lagt til að ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 verði breytt varðandi skipun háskólaráðs. Er lagt til að fulltrúum háskólasamfélagsins, sem kjörnir eru á háskólaþingi, verði fjölgað úr tveimur í þrjá, fulltrúum mennta- og menningarmálaráðherra fækkað úr fjórum í tvo og fulltrúum sem háskólaráð velur sjálft verði fjölgað úr tveimur í þrjá.  Gerir frumvarpið ráð fyrir að skipan háskólaráðs verði að öðru leyti óbreytt, þ.e. að í ráðinu eigi jafnframt sæti rektor og tveir fulltrúar tilnefndir af heildarsamtökum nemenda við háskólann.


Ekki liggur á þessari stundu fyrir hvort frumvarpið verður að lögum áður en nýtt háskólaráð verður skipað en nauðsynlegt er að gera ráð fyrir að svo geti farið. Tilnefningartími núverandi fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráði rennur út 30. júní nk.


Í ljósi þessa samþykkti háskólaráð á fundi sínum 8. apríl 2010 svohljóðandi bókun:


„Verði breytingartillögur frumvarpsins að lögum og breytingar á skipan háskólaráðs samþykktar, skal þriðji fulltrúi háskólasamfélagsins tilnefndur í háskólaráð frá 1. júlí 2010 vera sá, sem flest atkvæði hlýtur á háskólaþingi þann 7. maí nk., að hinum tveimur aðalmönnum frátöldum skv. núgildandi reglum Háskóla Íslands og skal hann jafnframt koma af öðru fræðasviði en þeir tveir. Varamenn fulltrúanna þriggja skulu vera þeir þrír sem hlotið hafa flest atkvæði að tilnefndum fulltrúum frátöldum. Að öðru leyti gildi ákvæði 4. mgr. 3. gr. reglna Háskóla Íslands um kjörið og hæfi fulltrúanna.“


Þessi bókun merkir að kjör fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð fer fram í samræmi við gildandi reglur, þ.e. hver atkvæðisbær þingfulltrúi greiðir atkvæði með tveimur frambjóðendum. Þeir tveir sem flest atkvæði hljóta verða fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráð. Einnig er áskilið að þeir séu ekki af sama fræðasviði. Hvort sem frumvarpið verður að lögum eða ekki setjast þessir tveir fulltrúar í háskólaráð.


Ef hins vegar frumvarpið verður að lögum þá er með bókun háskólaráðs og fyrirhugaðri kosningu háskólaþings hér í dag einnig búið að ákveða hver eigi að taka sæti í háskólaráði sem þriðji fulltrúi háskólasamfélagsins. Samkvæmt bókuninni telst þá sá tilnefndur sem flest atkvæði hefur hlotið að hinum tveimur aðalmönnunum frátöldum og jafnframt er af öðru fræðasviði en hinir tveir.


Áður en gengið verður til atkvæðagreiðslu um fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð er nú leitað umsagnar háskólaþings um framangreinda bókum háskólaráðs, sbr. 6. gr. laga um opinbera háskóla nr. 569/2009 sem fjallar um fulltrúa í háskólaráði.


Rektor bar upp tillögu að umsögn:


„Háskólaþing Háskóla Íslands mælir með því að staðið verði að tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð í samræmi við bókun háskólaráðs, dags. 8. apríl 2010, og að gerðar verði samsvarandi breytingar á reglum Háskóla Íslands verði frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla að lögum.“


- Samþykkt einróma.


Kl. 13.25-14.00 - Dagskrárliður 4: Tilnefning þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1.7.2010-30.6.2012


Rektor hóf umfjöllun um þennan dagskrárlið með því að bera upp til samþykktar tillögu sína um að Ingibjörgu Halldórsdóttur, lögfræðingi Háskólans, yrði falið að hafa umsjón með kosningu þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands og talningu atkvæða og að þeir Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs og Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskólans yrðu henni til aðstoðar.


- Samþykkt einróma.


Að því búnu gerði Ingibjörg grein fyrir málinu. Sagði hún að bókun háskólaráðs um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð fæli í sér ákvörðun um það hvernig staðið skuli að vali á þriðja fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð og þriðja varamanni ef frumvarp til breytinga á lögum um opinbera háskóla verði að lögum. Verði frumvarpið ekki að lögum giltu óbreyttar reglur og þeir tveir sem flest atkvæði hlytu yrðu fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði, enda væru þeir ekki af sama fræðasviði. Þeir tveir sem flest atkvæði hlytu að þessum tveimur frátöldum yrðu varamenn þeirra. Af þessum sökum yrði einungis gert ráð fyrir að fulltrúar á háskólaþingi greiddu atkvæði með tveimur frambjóðendum.


Ef hins vegar frumvarpið yrði að lögum teldist sá tilnefndur sem flest atkvæði hefði hlotið að hinum tveimur aðalmönnunum frátöldum og jafnframt væri af öðru fræðasviði en hinir tveir. Þar sem enginn þeirra frambjóðenda sem gefið hefðu kost á sér til setu í háskólaráði væru af sama fræðasviði lægi fyrir að fyrsti varamaður samkvæmt gildandi reglum yrði þriðji aðalmaður, yrði frumvarpið að lögum.


Auglýst hefði verið eftir ábendingum og framboðum og/eða ábendingum um fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð til tveggja ára frá 1. júlí 2010 að telja. Alls hefðu borist sex framboð. Uppfylltu allir frambjóðendur skilyrði 3. gr. reglnanna um að þeir skuli vera akademískir starfsmenn Háskóla Íslands í fullu starfi (a.m.k. 75% starfshlutfalli), en þó hvorki forsetar fræðasviðs, deildarforsetar né varadeildarforsetar. Gögn um starfsvettvang og stutt lýsing starfsferils hefðu verið send út með fundarboði og væri gert ráð fyrir að fulltrúar hafi kynnt sér þau.


Þá greindi Ingibjörg frá því hverjir væru í framboði:


1.    Anna Agnarsdóttir, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs

2.    Börkur Hansen, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs

3.    Gunnlaugur Björnsson, vísindamaður við Raunvísindastofnun Verkfræði- og náttúruvísindasviðs

4.    Hákon Hrafn Sigurðsson, dósent við Lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs

5.    Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Fræðasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði (telst ekki til neins fræðasviðs)

6.    Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor við Hagfræðideild Félagsvísindasviðs


Næst lýsti Ingibjörg því hvernig kosning færi fram: Dreift yrði kjörseðlum til þeirra sem hefðu atkvæðisrétt. Á kjörseðlinum væru nöfn þeirra sem kosið væri um í stafrófsröð. Hver atkvæðisbær fulltrúi myndi greiða skriflega atkvæði sitt með tveimur (og aðeins tveimur) frambjóðendum (að öðrum kosti væri atkvæðaseðillinn ógildur).


Atkvæðisbærir væru:


·    Rektor

·    Forsetar fræðasviða og staðgenglar þeirra

·    Deildarforsetar

·    Fulltrúar kjörnir af fræðasviðum

·    Tveir fulltrúar samtaka háskólakennara

·    Tveir fulltrúar starfsmanna við stjórnsýslu

·    Fulltrúar eftirtalinna stofnana, einn fyrir hverja stofnun: Landspítala, Landsbókasafns-háskólabókasafns, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Raunvísindastofnunar Háskólans og Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands.


Stúdentar hafa ekki atkvæðisrétt í þessari kosningu, því þeir hafa þegar kosið sérstaklega sína tvo fulltrúa í háskólaráð. Með atkvæðisrétt fara samtals 56 fulltrúar. Í kosningu þessari er kosið um sæti tveggja aðalmanna í háskólaráð og tveggja varamanna þeirra. Einnig er, eins og áður hefur verið greint frá, kosið um sæti þriðja aðalmanns og varamanns hans, með fyrirvara um samþykkt frumvarps til laga breytingu á lögum um opinbera háskóla sem liggur fyrir Alþingi. Í framboði eru sex manns. Fari svo að einhver frambjóðenda fái ekkert atkvæði raðast sá eða þeir aftast í röð frambjóðenda og teljast tilnefndir í sæti varamanna í háskólaráð. Að kosningu lokinni verður lesin upp röð frambjóðenda eftir atkvæðafjölda og fjöldi atkvæða sem tveir efstu hafa hlotið.


Að lokum spurði Ingibjörg hvort einhver vildi gera athugasemd við það verklag við framkvæmd kosningarinnar sem hér hefði verið lýst. Enginn gaf sig fram og var því gengið til kosningar. Á borði við dyr Hátíðasalar var kjörkassi og skyldi útfylltum kjörseðlum stungið í hann. Í framhaldinu var gert stutt kaffihlé á meðan atkvæði voru talin.

Kl. 14.40-15.00:  Kaffihlé


Að loknu kaffihléi, þegar atkvæði höfðu verið talin, las Ingibjörg Halldórsdóttir upp niðurstöðu kosningarinnar. Atkvæðisrétt höfðu 56 fulltrúar á háskólaþingi. Atkvæði greiddu 54 fulltrúar. Auðir og ógildir kjörseðlar voru 0. Gildir kjörseðlar voru 54. Flest atkvæði hlutu Börkur Hansen (24) og Anna Agnarsdóttir (23) og verða þau því aðalmenn í háskólaráði. Þriðju flestu atkvæði hlaut Tinna Laufey (22) og verður hún því þriðji aðalmaður að því tilskyldu að frumvarpið um háskólalögin verði að lögum. Verði frumvarpið ekki að lögum verður Tinna Laufey varamaður fyrir þann sem flest atkvæði hlaut (fyrsta aðalmann). Fjórði í atkvæðagreiðslunni varð Hákon Hrafn Sigurðsson og verður hann varamaður fyrir þann sem flest atkvæði hlaut að því tilskyldu frumvarpið um háskólalögin verði að lögum. Verði frumvarpið ekki að lögum verður hann varamaður fyrir þann sem næstflest atkvæði hlaut (annan aðalmann). Fimmti í atkvæðagreiðslunni varð Gunnlaugur Björnsson og verður hann varamaður fyrir þann sem næstflest atkvæði hlaut að því tilskyldu frumvarpið um háskólalögin verði að lögum. Verði frumvarpið ekki að lögum verður hann hvorki varamaður né aðalmaður. Sjötti í atkvæðagreiðslunni varð Soffía Auður Birgisdóttir og verður hún varamaður fyrir þann sem þriðju flest atkvæði hlaut að því tilskyldu frumvarpið um háskólalögin verði að lögum. Verði frumvarpið ekki að lögum verður hún hvorki varamaður né aðalmaður.


Að kjöri loknu þakkaði rektor Ingibjörgu, Halldóri og Magnúsi Diðrik fyrir framlag þeirra.


Kl. 16.00-17.00 - Dagskrárliður 5: Umfjöllun um háskólasamfélagið í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði


Rektor bauð Magnús Lyngdal Magnússon, sviðsstjóra rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannís, velkominn til að gera grein fyrir málinu og gaf honum orðið. Fór Magnús yfir helstu atriði þess kafla 8. bindis skýrslu rannsóknanefndarinnar sem fjallar um háskólasamfélagið.


Vinnuhópur um siðferði og starfshætti

·    Umfjöllunina um háskólasamfélagið er að finna í 8. bindi skýrslunnar sem geymir viðauka um siðferði og starfshætti í tengslum við fall íslensku bankanna

·    Höfundar viðaukans:

-    Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands

-    Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands

-    Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.


Fjölmiðlar og háskólar

·    Lítil sérhæfing meðal starfsfólks íslenskra fjölmiðla

·    Fjölmiðlarnir því háðir sérfræðiþekkingu háskólasamfélagsins við greiningu og túlkun upplýsinga

- í aðdraganda hrunsins átti þetta einkum við um fræðimenn á sviði lögfræði, hagfræði og viðskiptafræði

-    Háskólafólk var tregt til að tjá sig um áhættuþætti íslenska fjármálakerfisins fyrir hrun

-    vegna tengsla við viðskiptalífið

-    vegna ótta við neikvæð viðbrögð og gagnrýni (sjálfsritskoðun)

Á hinn bóginn fengu gagnrýnisorð og aðvaranir háskólafólks lítinn hljómgrunn í fjölmiðlum og meðal stjórnmálamanna

·    „Margir [háskólamenn] sem undanfarna mánuði hafa verið duglegir að tjá sig um orsakir hrunsins voru ekki reiðubúnir að tjá sig um áhættuþættina í fjármálakerfinu þegar eftir því var leitað á árunum fyrir hrun.“ (Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, 29. ágúst 2009)


Fjárhagsleg tengsl íslenskra háskóla og fjármálastofnana

·    Könnun á fjárhagslegum tengslum háskóla og fjármálastofnana 2003-2008 leiddi m.a. í ljós:

-    styrkir til HR námu 142 m.kr. eða 1,7% af heildartekjum + 55,6 m.kr. í nemendastyrki

-    styrkir til HÍ námu 121 m.kr. [eða 0,23% af heildartekjum]

-    styrkir til HA námum 31 m.kr. + 5 m.kr. í nemendastyrki

-    samningur við Háskólann á Bifröst upp á 90 m.kr. en þar af var einungis búið að greiða 10 m.kr. þegar bankarnir féllu

·    Könnun á verktakagreiðslum:

-    viðskiptafræðingar og hagfræðingar í íslenskum háskólum virðast ekki hafa þegið verktakagreiðslur frá bönkunum en leitaraðferðin kann að vera ófullkomin

·    „... fjárhagsleg tengsl háskóla, háskólamanna og fjármálafyrirtækja þarf að kanna betur.“


Almennt um fjárhagsleg tengsl háskóla og fyrirtækja

·    Sívaxandi krafa um allan heim um að háskólar virki fleiri tekjustofna en opinber framlög og skólagjöld

-    hagsmunir háskólanna: fjárhagslegur styrkur fyrirtækjanna

-    hagsmunir fyrirtækjanna: þekking og trúverðugleiki háskólanna

·    Aukin tengsl fyrirtækja og háskóla fela í sér hættu á margvíslegum hagsmunaárekstrum

-    ógna sjálfstæði háskólanna

-    ógna sjálfstæði einstakra fræðimanna

-    „Rónarnir koma óorði á brennivínið ...“


Tvær skýrslur

·    Skýrsla Frederic Mishkin, prófessors í hagfræði við Columbia-háskóla, og Tryggva Þórs Herbertssonar, þáverandi prófessors og forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands

·    Skýrsla Richards Portes, prófessors í alþjóðlegri þjóðhagfræði og alþjóðafjármálum við London Business School, og Friðriks Más Baldurssonar, prófessors í hagfræði við Háskólann í Reykjavík

-    gerðar fyrir Viðskiptaráð Íslands 2006

-    fjalla um fjárhagslegan stöðugleika á Íslandi

-    verkkaupi greiddi höfundum háar fjárhæðir

-    höfundar virtir fræðimenn

-    höfðu áhrif á markaði

·    „[V]ið skoðuðum bara matsskýrslurnar frá Moody’s og Fjármálaeftirlitinu og eitthvað slíkt.“


Þekking og siðfræði

·    Vísindastarf lýtur bæði þekkingarfræðilegum og siðfræðilegum viðmiðum:

-    Vísindin afla þekkingar, siðfræðin veltir því fyrir sér í hvaða skyni hún er notuð

-    Vísindi án siðfræði fela í sér hættu á ábyrgðarleysi

·    Lítil umræða um siðfræði í kennslu í viðskiptagreinum við íslenska háskóla

·    Mikilvægt að samþætta siðfræðikennslu í viðskiptanámi við kennslu í fjármálum og viðskiptum

·    Siðferðileg dómgreind nauðsynlegur hluti af fagmennsku og forsenda samfélagslegrar ábyrgðar


Reglur Háskóla Íslands

·    Siðareglur og siðanefnd (2003)

·    Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms (2004)

·    Ályktun háskólafundar (2006):

„Félag háskólakennara og Félag prófessora hafi að því frumkvæði, t.d. í samstarfi við önnur samtök háskólafólks á Íslandi og Rannís, að settar verði ítarlegri siðareglur um góð vísindaleg vinnubrögð og heiðarleika, hagsmunaárekstra og önnur siðferðileg álitamál sem tengjast sérstaklega akademískri kennslu og rannsóknum.  Fyrirmyndir að slíku er m.a. að finna hjá finnsku vísindaakademíunni og hjá samtökum amerískra háskóla.“

·    Reglur um aukastörf og helgun í starfi (2009)


Þátttaka í samfélagsumræðu

·    Vinnuskyldur vísindamanna eru við kennslu og rannsóknir

·    Borgaraleg skylda og félagsleg ábyrgð háskólamanna að vera jafnframt virkir þátttakendur í samfélagsumræðunni í krafti sérþekkingar sinnar

·    Þátttaka háskólamanna í gagnrýnni opinberri umræðu styrkir lýðræðisríkið sem aftur er forsenda þróttmikils háskólastarfs

·    Háskólar eru uppeldisstöðvar kynslóða framtíðarinnar og ungt fólk lærir það sem fyrir þeim er haft (bæði það sem vel er gert og svo það sem er miður gott)

·    Í mínum huga er það fyrst og fremst hugarfarsbreyting sem þarf að eiga sér stað – við getum refsað þeim seku – en þurfum líka að hugsa til framtíðar

·    Íslenskt háskólasamfélag getur leitt þessa vinnu og lagt grunninn að nýjum samfélagssáttmála, ekki bara með orðum heldur líka breytni

·    Mikilvægt að háskólaborgarar stuðli að aukinni rökræðu- og lýðræðismenningu. Í því sambandi þarf að huga að því að

-    gera greinarmun á því hvenær þeir tala í nafni stofnunarinnar og hvenær í eigin nafni

-    gera greinarmun á því hvenær þeir setja fram hugmyndir sínar sem fræðimenn og hvenær þeir tala sem einstaklingar

-    fræðimenn upplýsi um fjárhagsleg tengsl eða önnur hagsmunatengsl varðandi umfjöllunarefni sín

·    Vinnumatskerfi Háskóla Íslands hvetur sérstaklega til rannsókna og getur þannig dregið úr því að háskólamenn sinni fræðslu fyrir almenning eða taki þátt í samfélagsumræðu og getur þannig fjarlægt þá frá samfélaginu og dregið úr borgaralegri vitund þeirra


Lærdómar

·    Háskólamenn þurfa að vera á varðbergi fyrir hagsmunaárekstrum sem geta fjarlægt þá frá hugsjónum fræðastarfsins og hafa áhrif á akademískt frelsi og fræðilega hlutlægni

·    Í því skyni þarf að setja reglur um kostun starfa og rannsóknaverkefna. Tryggja þarf að ákvæði reglna HÍ um aukastörf sem lúta að hagsmunaárekstrum taki ekki aðeins til einstaklinga heldur einnig til stofnunarinnar allrar (styrkir, kostun, samningar o.fl.)

·    Fræðasamfélagið þarf að setja sér samræmdar siðareglur um rannsóknir og fræðimennsku og fylgja þeim eftir (sbr. ályktun háskólafundar frá 2006)

·    Efla þarf siðfræðilega menntun fagstétta á sviði viðskipta, hagfræði og lögfræði

·    Hvetja þarf háskólamenn til að sýna samfélagslega ábyrgð, svo sem með þátttöku í opinberri umræðu um málefni á fræðasviði þeirra

·    Hlutverk okkar er því að koma böndum á villimennsku mannsins og skapa þannig viðunandi lífsskilyrði fyrir okkur sem byggjum þetta samfélag (Æskýlós)


Rektor þakkaði Magnúsi fyrir kynninguna og gaf orðið laust.


Líflegar umræður spunnust um skýrslu rannsóknanefndarinnar. Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sagði að skynsamlegt gæti verið að Háskóli Íslands tæki aftur upp kennslu í heimspekilegum forspjallsvísindum sem hefði verið aflögð fyrir nokkrum árum. Í Noregi tíðkaðist slík kennsla fram á þennan dag og enginn efaðist um að Norðmenn væru með einhverja traustustu fjármálastjórn í heiminum.


Fulltrúi Menntavísindasviðs sagði að skilaboðin í skýrslunni féllu í tvo flokka. Annars vegar beindust þau að starfi okkar almennt, hins vegar að námsskrárþætti starfseminnar. Innan Háskóla Íslands væru fjölmargar starfsmenntunarbrautir og það væri einkum á þeim vettvangi sem þyrfti að innleiða siðfræðilega þætti í námsskrána.


Deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar sagði mikilvægt að Háskóli Íslands skoðaði ekki aðeins sjálfan sig sem stofnun heldur einnig sem samfélag, gagnrýnið, hugsandi háskólasamfélag sem ætti að vera samviska þjóðarinnar og hún gæti reitt sig á. Einnig nefndi forsetinn að það væri jákvætt að Háskóli Íslands væri ein af örfáum stofnunum sem hefur haldið trausti þjóðarinnar eftir hrunið skv. mælingum. Mikilvægt væri að kennarar og stjórnendur háskólans væru meðvitaðir um að þeir væru fyrirmyndir og bæru ríka ábyrgð. Þannig væri það grundvallaratriði að þegar háskólafólk kæmi fram opinberlega héldi það ekki fram persónulegum skoðuðum sínum heldur aðeins fræðilegum ályktunum. Þegar háskólaborgarar tækju til máls ætti persóna þeirra ekki að skipta máli. Einnig skipti miklu máli að háskólinn kenndi nemendum sínum siðferðileg vinnubrögð.


Deildarforseti Viðskiptafræðideildar sagði að deild hans væri víða nefnd í þeim hluta skýrslu rannsóknanefndar Alþingis sem fjallaði um háskólasamfélagið. Sagðist hann efast um þá fullyrðingu höfunda að kennarar deildarinnar hefðu almennt neitað að tala við fjölmiðla á árunum fyrir hrun. Fjölmörg dæmi væru um hið gagnstæða, t.d. hefðu þeir Gylfi Magnússon og Vilhjálmur Bjarnason verið óþreytandi að tala við fjölmiðla á þessum tíma. Fullyrðing skýrslunnar væri því röng að þessu leyti. Þá rakti forsetinn þá styrki sem Viðskiptafræðideild hefði fengið frá fjármálastofnunum og fyrirtækjum á árunum fyrir hrun og þá staðhæfingu skýrslunnar að Kaupþing hefði haft afskipti af deildinni vegna ummæla einstakra kennara. Sagði deildarforsetinn að sér væri ekki kunnugt um að slík afskipti hefðu átt sér stað. Ýmislegt mætti þó gera betur til að tryggja að annað hrun myndi ekki eiga sér stað í framtíðinni. Til að tryggja að kostunaraðilar gætu ekki haft áhrif á viðtakendur styrkja mætti t.d. stofna sjóð innan deildar sem styrkir rynnu í. Úthlutað yrði úr sjóðnum til þeirra verkefna sem deildin teldi mikilvæg og brýn, en kostunaraðilinn hefði ekki áhrif þar á. Slíkt fyrirkomulag væri þó ekki vandalaust því það gæti dregið úr áhuga kostunaraðila. Þá sagði forsetinn að í skýrslunni væri talað um skort á siðfræðilegri menntun í viðskiptagreinum háskóla hérlendis og taldi hann þessa gagnrýni ekki eiga við rök að styðjast því Viðskiptafræðideild hefði boðið upp á siðfræðinámskeið um nokkurra ára skeið. Engu að síður hygðist deildin ræða skýrslu rannsóknanefndarinnar á starfsdegi á næstunni og í framhaldinu yrðu teknar ákvarðanir um hugsanlegar breytingar í þá veru sem lagt er til í skýrslunni. Að lokum lýsti forsetinn þeirri skoðun sinni að fall íslensku bankanna hefði ekki verið vegna skorts á kennslu í siðfræði heldur vegna græðgi og óheiðarleika nokkurra tuga Íslendinga.


Forseti Menntavísindasviðs sagði skýrslu rannsóknanefndarinnar vera merkilegt gagn sem ætti að taka alvarlega. Þegar hlutverk háskólanna í samfélaginu væri skoðað þyrfti að hafa hugfast að háskólar hefðu um aldir verið sérstakar stofnanir og að hagsmunaárekstrar og hlutverkaágreiningur hefði ætíð verið eðlilegur hluti af starfsemi og menningu þeirra. Í tengslum við umræðuna í kjölfar hrunskýrslunnar þyrfti að spyrja, hvert væri hlutverk háskólakennara. Þegar þeirri spurningu væri svarað þyrfti að hafa í huga að háskólakennarar hefðu ekki aðeins skyldur við kennslu og rannsóknir heldur einnig við þjóðfélagið. Varðandi fjárhagsleg tengsl háskóla og fyrirtækja sagði forsetinn að þau væru flókin og háskólar ættu að að koma sér upp regluverki sem væri íhaldssamt en gæti þó tekið við stuðningi úr ýmsum áttum.


Deildarforseti Lagadeildar sagðist hafa lesið skýrsluna gaumgæfilega og undraðist það, hversu lítið þar væri fjallað um hlut lögfræðinnar í sambandi við fall bankanna. Lagadeild hefði þó ákveðið að fara ofan í saumana á skýrslunni til að draga af henni sem mestan og bestan lærdóm. Á árunum fyrir fall bankanna hefði Lagadeild eins og aðrar deildir leitað eftir styrkjum úr atvinnulífinu, en ekki náð jafn miklum árangri og Viðskiptafræðideildin. Einnig gerði deildarforseti Lagadeildar að umtalsefni umfjöllun skýrslunnar um eftirlitsleysi og ofvöxt sem hefði ekki aðeins einkennt bankana heldur einnig háskólasamfélagið. Að vissu leyti hefði þróun háskólakerfisins á Íslandi verið hliðstæð þróun bankakerfisins. Hér hefðu sprottið upp fjölmargir háskólar á skömmum tíma og stjórnvöld hefðu haft lítið eftirlit með þeim. Að lokum sagði forsetinn að þótt skýrslan myndi vafalítið gleymast smátt og smátt væri mikilvægt að Háskóli Íslands héldi vöku sinni og fjallaði áfram um efni hennar.


Gæðastjóri háskólans beindi sjónum að þeim hlutum skýrslu rannsóknanefndarinnar sem fjalla um tengsl vísinda og siðferðis. Lagði hann áherslu á að þetta væru ekki tveir aðskildir þættir heldur væru vísindin, hvort sem þeim væri það ljóst eða ekki, ætíð órjúfanlega tengd siðferðilegum þáttum. Þessu sambandi mætti lýsa svo að vísindin öfluðu þekkingar en siðfræðin spyrði til hvers og hvernig ætti að nota þekkinguna. Vísindi sem ekki gerðu sér grein fyrir þessu væru blind. Af þessu mætti draga þá ályktun að efling siðferðilegrar dómgreindar þyrfti að vera þáttur í öllu námi, ekki aðeins í viðskiptagreinum, enda stæðu t.d. verkfræðingar, kennarar og heilbrigðisstarfsfólk ekki síður frammi fyrir álitamálum í daglegum störfum sínum sem ekki yrði aðeins svarað með faglegri þekkingu heldur krefðust einnig siðferðilegrar dómgreindar. Siðferðilega dómgreind mætti efla með ýmsum hætti, ekki aðeins í formi sérstakra námskeiða heldur einnig og ekki síður með því að flétta siðferðilega hugsun inn í allt fagnám.


Forseti Félagsvísindasviðs sagði skýrslu rannsóknanefndar Alþingis vera afrek og háskólanum til sóma, enda væru höfundar hennar bæði núverandi og fyrrverandi prófessorar við skólann. Mikilvægt væri að háskólafólk gaumgæfði skýrsluna vandlega og liti í eigin barm. En það væri einnig ástæðulaust að gera lítið úr því sem vel væri gert. Í skýrslunni væri t.d. talað um hve litlar varnir væru í íslenska stjórnkerfinu, en í stjórnmálafræðinni hefði einmitt mikið verið rætt og ritað um þetta atriði.


Fulltrúi Menntavísindasviðs sagði skýrslu rannsóknanefndarinnar vera merkilegt verk og að hafa þyrfti hana til hliðsjónar við mótun nýrrar stefnu Háskóla Íslands. Þá sagði hann skýrsluna ekki aðeins eiga erindi við háskólana heldur ekki síður við framhaldsskólana, grunnskólana og leikskólana. Uppeldishlutverk allra skólastiga væri ríkt og sérstaklega á þeim lægri væri unnið mikið með gildi. Í því sambandi þyrftum við öll að spyrja okkur að því, hvað væru góð gildi og hvernig best væri að miðla þeim. Mikilvægt væri að einblína ekki á form og skipulag stofnana heldur ætti að skoða íslenska menntakerfið í heild í ljósi nýliðinna atburða og þeirra gilda sem við viljum að séu ráðandi.


Fulltrúi í háskólaráði varaði við því að háskólinn axlaði of ríkar samfélagslegar skyldur og beindi sjónum frá meginhlutverkum sínum. Vissulega væri þátttaka háskólamanna í opinberri umræðu mikilvæg, en það þyrfti þó ætíð að vera á faglegum forsendum, í krafti þeirrar þekkingar sem aflað væri með rannsóknum.


Rektor þakkaði fundarmönnum fyrir góðar umræður. Sagði rektor mikilvægt að halda áfram að hugleiða efni skýrslu rannsóknanefndarinnar og láta hana ekki gleymast í dagsins önn. Hvað varðaði lærdóma sem draga mætti af skýrslunni skipti máli að gæta þess að varðveita faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði háskólans. Í skýrslunni kæmi fram að aðeins 0,23% af heildartekjum háskólans á árunum 2003-2008 hefðu komið frá bönkum og fjármálastofnunum. Þótt þetta væri ekki hátt hlutfall þyrfti að setja skýrari reglur um kostun og styrki. Þá sagðist rektor vera efins um það sem segði í skýrslunni um að vinnumatskerfi háskólans gæti hugsanlega latt fræðimenn til þátttöku í þjóðfélagsumræðunni. Háskólafólk hefðu alltaf verið virkir og ábyrgir borgarar og tekið þátt í lýðræðislegri umræðu þótt það væri ekki beinlínis skilgreindur þáttur í stafi þeirra sem greitt væri sérstaklega fyrir. Raunar væri það iðulega svo að svo hart væri sótt að fræðimönnum að koma fram í fjölmiðlum og á öðrum opinberum vettvangi að þeir þyrftu að gæta sín á því að það tæki ekki óhóflega mikinn tíma frá öðrum störfum. Einnig væri það áhyggjuefni að stundum afbökuðu fjölmiðlar málflutning fræðimanna sem hefði áhrif á það hversu fúsir þeir væru til að tjá sig. Loks greindi rektor frá því að víða á fræðasviðum háskólans væri nú þegar hafin vinna við endurskoðun námsefnis m.t.t. siðfræðilegra sjónarmiða og yrði þeirri vinnu haldið áfram á næstu misserum.


Að lokinni umræðu bar rektor upp svohljóðandi tillögu til ályktunar:


„Gæðanefnd háskólaráðs er falið að fara yfir þær ábendingar í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna er snúa að háskólasamfélaginu, í samráði við aðrar starfsnefndir háskólaráðs og höfunda viðaukans. Leitað verði álits félaga akademískra starfsmanna og Stúdentaráðs Háskóla Íslands og tekið mið af framkomnum sjónarmiðum á háskólaþingi 7. maí 2010.“


- Samþykkt einróma.


Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Magnúsar Lyngdals, þau Kristín Vala Ragnarsdóttir, Börkur Hansen, Guðrún Kristjánsdóttir, Ingjaldur Hannibalsson, Jón Torfi Jónasson, Björg Thorarensen, Magnús Diðrik Baldursson, Ólafur Þ. Harðarson, Gunnar Finnbogason og Sigríður Ólafsdóttir.


Að lokum þakkaði rektor framsögumönnum og þingfulltrúum fyrir góðar og málefnalegar umræður og bauð þeim að þiggja hressingu í anddyri Hátíðasalar.

Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 4. háskólaþingi 7. maí 2010:


1.    Dagskrá og tímaáætlun 4. háskólaþings 7. maí 2010.

2.    Breytt dagskrá og tímaáætlun 4. háskólaþings 7. maí 2010.

3.    Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.

4.    Fundargerð 3. háskólaþings 27. nóvember 2009.

5.    Ferilskrár þeirra sem bjóða sig fram til að vera fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði 1.7.2010-30.6.2012.

6.    Skýrsla rannsóknanefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 8. bindi, viðauki I, bls. 211-227.