Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 8. desember 2016

12/2016

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2016, fimmtudaginn 8. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Orri Hauksson, Ragna Árnadóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Tryggvi Másson (varamaður fyrir Rögnu Sigurðardóttur) og Þengill Björnsson. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal, Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson. Tómas Þorvaldsson boðaði forföll.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver hefði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Tryggvi Másson óskaði eftir að ræða dagskrárlið 7a, en ekki voru gerðar aðrar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann að því leyti samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a)    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 og fjárhagsáætlun skólans. Staða mála.
Fram var lagt minnisblað um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 og gerðu Guðmundur og Jenný grein fyrir því. Málið var rætt ítarlega. Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma eftirfarandi ályktun:

„Brýnt að endurskoða fjárveitingu til Háskóla Íslands

Stjórnendur Háskóla Íslands áttu í aðdraganda alþingiskosninga fundi með öllum stjórnmálaflokkum og upplýstu þá um alvarlega fjárhagsstöðu háskólans. Í þeim viðræðum kom fram ríkur skilningur fulltrúa stjórnmálaflokkanna á vanda háskólans og skýr vilji til að bregðast við með auknum fjárveitingum. Í kjölfar fundanna gætti töluverðrar bjartsýni um að nýkjörið Alþingi myndi koma til móts við brýnar þarfir háskólans.

Það eru Háskóla Íslands mikil vonbrigði að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 sjáist lítil merki um að staðinn verði vörður um háskólamenntun í landinu og eflingu hennar.

Háskóli Íslands hefur náð miklum árangri og verið rekinn af ráðdeild á síðustu árum þótt fjárveitingar til skólans á hvern nemanda hafi verið mun lægri en að meðaltali í öðrum ríkjum OECD og langt undir meðaltali háskóla á öðrum Norðurlöndum. Háskólinn er rekinn með a.m.k. 300 m.kr. halla á árinu 2016 og að óbreyttu stefnir í áframhaldandi verulegan taprekstur á næsta ári. Þetta er fordæmalaus staða í rekstri Háskóla Íslands.

Augljóst er að verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt er stöðu Háskóla Íslands í alþjóðlegu vísindasamfélagi ógnað og mun hann þá ekki geta staðið undir hlutverki sínu í íslensku þjóðfélagi. Skert starfsemi háskólans mun hafa bein áhrif á grunnstoðir og innviði samfélagsins og draga úr möguleikum ungs fólks á að mennta sig og starfa á Íslandi.

Háskólaráð Háskóla Íslands hefur ítrekað bent stjórnvöldum á að fjármögnun háskólans stendur ekki undir núverandi starfsemi. Því blasir við að skerða verður þjónustu við nemendur sem teflir gæðum og þróun náms og kennslu við háskólann í tvísýnu.

Háskólaráð Háskóla Íslands skorar á nýkjörið Alþingi að bregðast við þeim bráða fjárhagsvanda sem steðjar að starfi skólans.“
 
b)    Lög um opinber fjármál nr. 123/2015.
Elín og Jenný Bára gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.

3.    Niðurstöður 18. háskólaþings 11. nóvember 2016.
a)    Tillaga millifundanefndar háskólaráðs að breytingu á 6. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 um kosningu, tilnefningu og embættisgengi rektors.
Fyrir fundinum lá minnisblað um niðurstöður 18. háskólaþings 11. nóvember sl., útdráttur úr fundargerð þingsins og tillaga millifundanefndar háskólaráðs að breytingu á 6. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009, sem tekur mið af framkomnum ábendingum á háskólaþingi. Eiríkur Rögnvaldsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma.

b)    Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi innleiðingu Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021. Málið var rætt og svaraði Steinunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.

4.    Innri endurskoðun.
a)    Tillaga eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda um meðferð erlendra styrkja innan Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 8. september sl.
Guðmundur R. Jónsson, formaður eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda, gerði grein fyrir málinu.
– Samþykkt einróma, þ.m.t. breyting á 2. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og verklagsreglur um meðferð erlendra styrkja.

b)    Tillaga eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda um skjalastjórnun, sbr. fund ráðsins 10. nóvember sl.
Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu.
– Samþykkt einróma.

5.    Drög skýrslu um úttekt á miðlægri stjórnsýslu.
Inn á fundinn kom Ómar H. Kristmundsson, prófessor og gerði grein fyrir drögum að skýrslu sinni um úttekt á miðlægri stjórnsýslu. Málið var rætt og svaraði Ómar spurningum ráðsmanna. Fram kom að ráðgert er að ljúka skýrslunni á næstu vikum. Að því búnu verður farið yfir þær hugmyndir og ábendingar sem þar koma fram.
– Rektor falið að skipa starfshóp, með aðkomu fulltrúa stúdenta og akademískra starfsmanna, til að greina og útfæra nánar hugmyndir í fyrirliggjandi skýrsludrögum um mögulegt upplýsingatæknisvið.

6.    Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. Kynning á starfsemi og áherslumálum Menntavísindasviðs.
Inn á fundinn kom Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs og gerði grein fyrir starfsemi og áherslumálum sviðsins. Málið var rætt og svaraði Jóhanna spurningum ráðsmanna.

7.    Bókfærð mál.
a)    Tillögur fræðasviða um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir 2017-2018 ásamt viðeigandi breytingum á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir tillögu Heilbrigðisvísindasviðs varðandi fjöldatakmörkun í meistaranám í sjúkraþjálfun, sbr. fyrirspurn í upphafi fundar.
– Eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2017-2018 samþykktar (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2016-2017) sem og samsvarandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010:

I. Heilbrigðisvísindasvið

a.    Læknadeild
      − Læknisfræði                            48      (48)
      − Sjúkraþjálfunarfræði BS            35      (35)
      − Sjúkraþjálfun MS                     30        (-)
      – Geislafræði                             12         (-)

b.    Hjúkrunarfræðideild
       − Hjúkrunarfræði                      120    (120)
       − Ljósmóðurfræði                      10      (10)

c.    Tannlæknadeild
       − Tannlæknisfræði                      8        (8)
       − Tannsmiðanám                        5        (5)

d.    Sálfræðideild
       − Cand. psych.                         20      (20)
       − Hagnýt sálfræði MS               15        (-)

e.    Lyfjafræðideild
       − MS nám í klínískri lyfjafræði     2          (2)

II. Félagsvísindasvið

a.    Stjórnmálafræðideild
       − MA nám í blaða- og fréttamennsku        21      (21)

b.    Félags- og mannvísindadeild
       − MA nám í náms- og starfsráðgjöf           40      (40)

c.    Félagsráðgjafardeild
       − MA nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda  30      (30)

d.    Lagadeild
       − Lögfræði                                              90       (90)

e.    Viðskiptafræðideild
       − MS nám í nýsköpun og viðskiptaþróun   12       (13)

b)    Tillaga að breytingum á reglum Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands.
– Samþykkt.

c)    Endurskoðað erindisbréf fyrir innri endurskoðun.
– Samþykkt.

d)    Tillaga að breytingu á 4. mgr. 40. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 er varðar varamenn í föstum dómnefndum.
– Samþykkt.

e)    Tilnefning tveggja fulltrúa háskólaráðs í fimm fastar dómnefndir Háskóla Íslands, sbr. 40. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt. Fulltrúar háskólaráðs í föstum dómnefndum Háskóla Íslands verða: Félagsvísindasvið, Jón Gunnar Bernburg, prófessor, formaður, og Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emeritus. Heilbrigðisvísindasvið: Vilhjálmur Rafnsson, prófessor emeritus, formaður, og Árún K. Sigurðardóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri. Menntavísindasvið: Börkur Hansen, prófessor, formaður, og Gerður G. Óskarsdóttir, fyrrv. forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Verkfræði- og náttúruvísindasvið: Fjóla Jónsdóttir, prófessor, formaður, og Jóhann Örlygsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Hugvísindasvið: Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor, formaður, og Sigurður Kristinsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Baldvin Zarioh og Sverrir Guðmundsson, verkefnisstjórar á vísinda- og nýsköpunarsviði, starfa með nefndunum. Skipunartími nefndanna er þrjú ár.

f)    Tillaga stjórnar Hugvísindasviðs að breytingu á reglum nr. 569/2009 sem lýtur að því að felld verði niður úrelt ákvæði um M.Paed. gráðu og veitt verði heimild til Sagnfræði- og heimspekideildar að gefa nemendum kost á að ljúka BA-prófi án lokaritgerðar.
– Samþykkt.

g)    Tillaga stjórnar Hugvísindasviðs að breytingu á heiti Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda í „Mála- og menningardeild“.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a)    Fjöldi nemenda við Háskóla Íslands 2016-2017 m.v. 21. október 2016. Yfirlit (og slóð á frekari sundurgreiningu)
b)    Skýrsla Háskóla Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna Aldarafmælissjóðs haustið 2016.
c)    Reykjavíkuryfirlýsingin, endurskoðuð, 2. nóvember 2016.
d)    Viðtal við rektor Háskóla Íslands um byggingarframkvæmdir við Háskóla Íslands í blaðinu Sóknarfæri 11. nóvember 2016.
e)    Bæklingur frá hátíð brautskráðra doktora við Háskóla Íslands 1. desember 2016.
f)    Handhafar árlegrar viðurkenningar fyrir starfsmenn Háskóla Íslands fyrir lofsverðan árangur í starfi.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.