Skip to main content
23. nóvember 2016

Hljóta viðurkenningu fyrir lofsverðan árangur í starfi

Þrír starfsmenn Háskóla Íslands, þau Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild, Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindadeild, og Erna Sigurðardóttir, deildarstjóri Læknadeildar, hlutu í dag viðurkenningu fyrir lofsverðan árangur í starfi. Viðurkenningarnar voru veittar á upplýsingafundi Jóns Atla Benediktssonar, rektors háskólans, með starfsfólki skólans í Hátíðasal Aðalbyggingar.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu við skólann. Eiríkur lauk B.A.-prófi í íslensku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1979 og cand. mag.-prófi í íslensku og málvísindum frá sama skóla árið 1982. 

Eiríkur hefur kennt við Háskóla Íslands í 35 ár, fyrst sem stundakennari frá 1981, síðan sem lektor í íslenskri málfræði frá 1986, sem dósent frá 1988 og sem prófess¬or frá 1993. Á þessum tíma hefur hann kennt hátt í 90 námskeið og námskeiðshluta í íslensku og almennum málvísindum á öllum námsstigum. 

Í umsögn valnefndar segir: „Eiríkur hefur alla tíð verið meðal framsæknustu kennara Háskóla Íslands og haft forystu í sinni deild og á Hugvísindasviði um þróun nýjunga í kennsluháttum. Hann var til að mynda frumkvöðull í þróun fjarkennslu í íslensku á árunum í kringum síðustu aldamót og hefur frá þeim tíma innleitt ýmsar nýjungar á Hugvísindasviði, svo sem vendikennslu, notkun veffyrirlestra í tímum og símat í námskeiðum. Hann hefur verið ötull í að miðla af reynslu sinni til annarra og lagt þannig sitt af mörkum til breytinga á kennsluháttum. Í gegnum tíðina hefur Eiríkur einnig samið og þróað kennsluefni í íslenskri málfræði. 

Eiríkur er afar vinsæll og vel látinn kennari. Hann hefur nær undantekningarlaust fengið mjög góða einkunn í kennslukönnunum og er þar langt yfir meðaltali bæði fræðasviðs og háskóla. Umsagnir nemenda eru líka afar lofsamlegar og hæla þeir Eiríki meðal annars fyrir brennandi áhuga, hlýlegt viðmót, fagmennsku og nýjungar í kennsluháttum.

Eiríkur hefur verið í fararbroddi í þróun máltækni á Íslandi og tekið þátt í fjölda rannsóknar- og þróunarverkefna á því sviði. Hann hefur nýtt sér þessar rannsóknir í kennslu og byggt upp nám í máltækni við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands í samvinnu við Háskólann í Reykjavík og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræð¬um. Brautryðjendastarf Eiríks í máltækni hefur mikið gildi fyrir framtíð íslensks máls og möguleika þess til að dafna í tæknivæddum heimi.“ 

Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna við skólann. Páll lauk Vordiplom-prófi í eðlisfræði frá Háskólanum í Göttingen í Þýskalandi árið 1970 og doktorsprófi í jarðskjálftafræði frá Columbia University í Bandaríkjunum árið 1975. 

Páll varð sérfræðingur við Raunvísindastofnun árið 1975, fræðimaður 1987 og vísindamaður frá 1997. Hann var stundakennari við Háskóla Íslands á árunum 1975-1994. Frá árinu 1994 hefur Páll verið prófessor við Háskóla Íslands.

Í rökstuðningi valnefndar segir: „Rannsóknir Páls eru á sviði jarðskjálftafræði, landmælinga og jarðskorpuhreyfinga. Hann er frumkvöðull í mælingum á jarðskorpunni og átti þátt í að setja upp umfangsmikið mælanet strax að loknu doktorsprófi. Páll skipulagði rannsóknir á Kröflueldum 1975-1989 og á jarðskjálftum á Suðurlandi og á Reykjanesi. Hann hefur skipulagt rannsóknir á fjölmörgum eldfjöllum og jarðskorpuhreyfingum, nú síðast í Bárðarbungu og Holuhrauni. 

Páll er brautryðjandi í beitingu jarðskjálftafræði og landmælingafræði í rannsóknum á kviku- og jarðskorpuhreyfingum á Íslandi og í Norður-Atlantshafi. Rannsóknir hans hafa markað tímamót í könnunum á sjávar- og eldfjallahryggjakerfum. Páll er afar virtur vísindamaður meðal starfsfélaga sinna hérlendis og erlendis. Hann hefur gefið út mikinn fjölda vísindagreina í samstarfi við breiðan hóp fræðimanna og er mjög óeigingjarn á tíma sinn og sérþekkingu. Hann er vinsæll og virtur kennari grunnnema, framhaldsnema og nýdoktora og er annt um hag og þróun starfsferils þeirra.

Sem helsti sérfræðingur landsins í eldfjöllum og jarðskjálftum hefur Páll verið ötull að útskýra eðli þeirra og framvindu atburða fyrir almenningi. Einnig hefur hann verið ráðgjafi Almannavarna ríkisins. 

Áhrifamiklar birtingar Páls, handleiðsla tveggja kynslóða afburða vísindamanna, óeigingjarnt samstarf og þjónusta í þágu almennings eru ótvíræður vitnisburður um að Páll er vísindamaður í fremstu röð.“

Erna Sigurðardóttir, deildarstjóri Læknadeildar á skrifstofu Heilbrigðisvísindasviðs, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu við Háskóla Íslands. Erna er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og með MS-próf á sviði stjórnunar og stefnumótunar frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað sem deildarstjóri Læknadeildar frá árinu 2009 en áður starfaði hún við Verkfræði- og náttúruvísindasvið skólans.

Rökstuðningur valnefndar rektors hljóðar svo: „Eitt af helstu verkefnum Ernu er að stýra fjármálum Læknadeildar og rannsóknastofa sem undir hana heyra. Einnig gegnir hún mikilvægu hlutverki á sviði mannauðsmála hjá deildinni. 

Erna er mjög skipulögð og hefur lag á að koma málum í réttan farveg. Hún er úrræðagóð, lausnarmiðuð og fljót að greiða úr málum. Auðvelt er að leita til hennar með álitamál og flókin úrlausnarefni. Erna er greiðvikin, glaðvær og ætíð reiðubúin að aðstoða. Hún hefur lagt sig fram um að skapa þægilegt vinnuumhverfi fyrir nemendur og starfsmenn. 

Erna er traustur starfsmaður, afkastamikil og ósérhlífin. Hún sýnir mikið frumkvæði og nálgast öll verkefni á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Hún er þjónustulunduð, ákveðin og drífandi og jafnframt nákvæm og samviskusöm. Erna er ævinlega áhugasöm um að bæta við sig nýrri þekkingu sem hún nýtir síðan í starfi sínu fyrir Háskólann. 

Erna hefur endurtekið sýnt í verki að það er ómetanlegt fyrir akademíska starfsmenn að hafa öflugt starfsfólk í stjórnsýslu sem vinnur af þekkingu og fagmennsku.“

Þetta er í 14. sinn sem starfsmenn við Háskóla Íslands eru heiðraðir fyrir vel unnin störf en viðurkenningar voru fyrst veittar árið 1999. Forsendur viðurkenningar eru ágæti í kennslu, rannsóknum, stjórnun eða í öðrum störfum í þágu Háskólans. 

Staðið er að kennsluviðurkenningunni með þeim hætti að öllum stúdentum Háskóla Íslands gefst kostur á að tilnefna framúrskarandi kennara auk þess sem kennslumálanefnd háskólaráðs tilnefnir a.m.k. þrjá kennara. Staðið er þannig að viðurkenningunni fyrir rannsóknir að allir akademískir starfsmenn geta sent inn tilnefningar auk þess sem vísindanefnd háskólaráðs tilnefnir a.m.k. þrjá vísindamenn. Loks geta allir starfsmenn Háskóla Íslands sent inn tilnefningar fyrir viðurkenninguna fyrir önnur störf í þágu skólans. 

Þriggja manna valnefnd fer síðan yfir tilnefningarnar og velur einn úr hverjum hópi. Að þessu sinni var valnefndin skipuð þeim Ebbu Þóru Hvannberg, prófessor og fv. varaforseta háskólaráðs, sem var formaður, Höskuldi Þráinssyni, prófessor emeritus, sem var fulltrúi fyrrverandi starfsmanna, og Ásthildi Margréti Otharsdóttur, ráðgjafa og formanni stjórnar Marel hf., fulltrúa í háskólaráði, sem var jafnframt fulltrúi fyrrverandi nemenda. 

Upplýsingar um þá starfsmenn sem áður hafa fengið viðurkenningu fyrir lofsverðan árangur í starfi er að finna á vef Háskóla Íslands

Verðlaunahafarnir Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Sigurðardóttir og Páll Einarsson ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.
Erna Sigurðardóttir, deildarstjóri Læknadeildar
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild
Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindadeild