Skip to main content

13. háskólafundur 21. maí 2004

13. háskólafundur haldinn 21. maí 2004 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 10.00 - 15.30

Dagskrá

Kl. 10.00 - 10.10  Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum tillögum.
Kl. 10.10 - 11.00  Dagskrárliður 1 (liður 5 skv. auglýstu fundarboði). Framhald umræðu á 12. háskólafundi um beiðni háskólaráðs um umsögn háskólafundar um það hvort leggja skuli til við menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum sem veiti Háskólanum heimild til að innheimta gjöld af nemendum í hefðbundnu háskólanámi. Fyrir liggur einnig tillaga Ágústs Einarssonar, forseta viðskipta- og hagfræðideildar, um að einstakar deildir Háskólans geti fengið heimild til að innheimta skólagjöld í meistaranámi.
Kl. 11.00 - 11.20  Dagskrárliður 2. Breyting á lögum og reglum um Háskóla Íslands um fyrirkomulag dómnefnda varðandi ráðningu akademískra starfsmanna.
Kl. 11.20 - 12.10  Dagskrárliður 3. Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.
Kl. 12.10 - 13.10  Hádegishlé.
Kl. 13.10 - 14.00  Dagskrárliður 3 (framhald). Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.
Kl. 14.00 - 14.50  Dagskrárliður 4. Málstefna Háskóla Íslands. Framhald umræðu á 11. háskólafundi.
Kl. 14.50 - 16.10  Dagskrárliður 5 (liður 1 skv. auglýstu fundarboði). Rektor reifar hugmyndir um framtíð Háskóla Íslands.
Kl. 16.10  Rektor slítur fundi.

 

Kl. 10.00: Fundarsetning

Rektor setti 13. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Þá fór rektor yfir dagskrá, tímaáætlun, framkomna tillögu og fundargögn. Fundarritari var Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors.

Áður en gengið var til dagskrár bar rektor upp dagskrártillögu um að auglýstur dagskrárliður 5 yrði fyrstur á dagskrá og aðrir dagskrárliðir færðust að sama skapi aftur. Ástæðan fyrir tillögunni væri sú að háskólaráð hefði á fundi sínum 19. maí 2004 gert svohljóðandi samþykkt sem kynni að hafa áhrif á meðferð auglýsts dagskrárliðar 5:

„Á fundi sínum 11. mars sl. samþykkti háskólaráð að leita umsagnar háskólafundar um það hvort leggja skuli til við menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum sem veiti Háskólanum heimild til að innheimta gjöld af nemendum í hefðbundnu háskólanámi.

Í ljósi umræðna á síðasta háskólafundi um erindi þetta samþykkti háskólaráð á fundi sínum 25. mars eftirfarandi ályktun:
„Háskólaráð óskar eftir því að hafnar verði sem fyrst formlegar viðræður milli Háskóla Íslands og menntamálaráðherra um eftirtalin atriði:
a) Þátt Háskóla Íslands í uppbyggingu háskólastigsins á Íslandi næstu tíu árin.
b) Þátt stjórnvalda í sérstakri uppbyggingu meistara- og doktorsnáms við Háskóla Íslands.
c) Framtíðarfjármögnun kennslu og rannsókna við Háskóla Íslands - þar á meðal kosti og galla skólagjalda.
Háskólaráð felur rektor að gera menntamálaráðherra grein fyrir þessari ályktun og efnisatriðum hennar og jafnframt að kynna sérstaklega fyrir ráðherra umræðuna um skólagjöld innan Háskólans.

Viðræður þessar standa nú yfir og því óskar háskólaráð eftir því að háskólafundur taki ekki afstöðu til fyrrnefnds erindis ráðsins og framkominnar tillögu Ágústs Einarssonar fyrr en niðurstöður þeirra viðræðna liggi fyrir.“

Greindi rektor frá því að þessar viðræður væru þegar hafnar. Þá hefði háskólaráð farið þess formlega á leit við menntamálaráðherra að skráningargjald verði hækkað og framvegis ekki dregið frá fjárframlagi ríkisins til Háskólans. Jafnframt hefði háskólaráð óskað eftir því við ráðuneytið að fá rýmri heimildir til að innheimta þjónustugjöld þar sem það ætti við.

Rektor gaf orðið laust. Enginn tók til máls og bar rektor dagskrártillögu sína undir atkvæði.

- Samþykkt einróma.

 

Kl. 10:10 - Dagskrárliður 1 (liður 5 skv. auglýstu fundarboði): Framhald umræðu á 12. háskólafundi um beiðni háskólaráðs um umsögn háskólafundar um það hvort leggja skuli til við menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum sem veiti Háskólanum heimild til að innheimta gjöld af nemendum í hefðbundnu háskólanámi. Fyrir liggur einnig tillaga Ágústar Einarssonar, forseta viðskipta- og hagfræðideildar, um að einstakar deildir Háskólans geti fengið heimild til að innheimta skólagjöld í meistaranámi.

Fyrir fundinum lá tillaga Ágústs Einarssonar, forseta viðskipta- og hagfræðideildar, til ályktunar um að einstakar deildir Háskólans geti fengið heimild til að innheimta skólagjöld í meistaranámi. Tillagan hljóðar svo:

„Háskólafundur haldinn 21. maí 2004 ályktar að í lögum um Háskóla Íslands verði heimilað að deildir skólans geti að fengnu samþykki háskólaráðs innheimt skólagjöld í meistaranámi eða í námi að loknum 90 einingum. Skólagjald fyrir hvern nemanda skal ekki nema hærri fjárhæð en 150.000 kr. á ári. Þessi heimild verði takmörkuð við þær deildir þar sem innheimt eru skólagjöld í meistaranámi í öðrum háskólum hérlendis. Þær deildir eru núna viðskipta- og hagfræðideild, lagadeild og tölvunarfræði í verkfræðideild.“

Rektor gaf Ágústi Einarssyni, flutningsmanni tillögunnar, orðið.

Hóf Ágúst mál sitt á því að halda fram þeirri skoðun að Háskóli Íslands ætti að móta sér skýra stefnu í skólagjaldamálinu gagnvart stjórnvöldum. Viðskipta- og hagfræðideild hefði fyrir sitt leyti tekið afstöðu til málsins en beðið með að leggja fram tillögu þar til málið hefði verið leitt til lykta á vettvangi háskólafundar. Um tillögu sína sagði Ágúst m.a. að hún feli í sér að heimilt verði að taka skólagjöld í meistaranámi að loknu 90 eininga námi. Það væri skoðun sín að grunnnám til fyrstu háskólagráðu ætti áfram að vera undanþegið skólagjöldum. Tillagan gerði ráð fyrir að skólagjald fyrir hvern nemanda skyldi ekki vera hærra en 150.000 kr. á ári og hún takmarkaðist við deildir sem eiga í innlendri samkeppni. Benti Ágúst á að þessi upphæð væri hófleg miðað við skólagjöld í innlendum samkeppnisskólum. Tillagan væri m.ö.o. hugsuð til að leysa fjárhagsvanda þeirra deilda sem standa í beinni samkeppni, þ.e. viðskipta- og hagfræðideild, lagadeild og tölvunarfræðiskor verkfræðideildar.

Í ljósi þess að nú stæðu yfir viðræður milli rektors f.h. háskólaráðs og menntamálaráðherra um framtíðarfjármögnun kennslu og rannsókna við Háskóla Íslands væri hins vegar erfitt fyrir háskólafund að taka afstöðu til framkominnar tillögu. Tilkynnti Ágúst að hann drægi tillögu sína til baka.

Að framsögu Ágústs lokinni gaf rektor orðið laust.

Fyrstur kvað forseti raunvísindadeildar sér hljóðs og greindi frá því að fyrir fundinn hefði hann undirbúið tillögu um frávísun á tillögu Ágústar Einarssonar, en hennar gerðist nú ekki þörf. Efnislega hefði frávísunartillagan byggt á þeim rökum að fjármögnun reglulegrar starfsemi Háskóla Íslands væri alfarið á ábyrgð ríkisins sem bæri að tryggja Háskólanum nægt fé til að standa undir metnaðarfullu háskólastarfi svo að hann standi jafnfætis rannsóknaháskólum í nágrannalöndum. Það væri því stjórnvalda að ákveða hvort og að hvaða marki nemendum verði gert að greiða fyrir þá menntun sem þeir hljóta við Háskóla Íslands.

Fundurinn ræddi þessu ólíku sjónarmið og var það framhald umræðu frá fyrri háskólafundum. Skoðanir reyndust áfram skiptar um það hvort Háskóli Íslands ætti að taka afstöðu til skólagjaldamálsins og hver sú afstaða ætti að vera, hver bæri ábyrgð á málinu og hverjum bæri að hafa frumkvæði í því. Héldu sumir fundarmenn því fram að háskólafundur ætti að óska eftir heimild, almennri eða takmarkaðri, til að innheimta skólagjöld. Aðrir héldu því fram að ábyrgðin á fjármögnun Háskólans væri alfarið á höndum stjórnvalda og Háskólinn ætti ekki að taka þá ábyrgð af þeim.

Einnig komu fram ólík sjónarmið um tilgang og markmið slíkrar heimildar. Héldu sumir því fram að heimild til innheimtu skólagjalda ætti að nýta, annað hvort í framhaldsnámi eingöngu, í grunnnámi eingöngu eða hvort tveggja í framhalds- og grunnnámi. Aðrir töldu að æskja ætti heimildarinnar burtséð frá því hvort hún yrði nýtt eða ekki. Loks kom fram það sjónarmið að almenn heimild til innheimtu skólagjalda gæti einkum nýst sem tæki til þess að styrkja stöðu Háskólans í samningaviðræðum við stjórnvöld, þótt ábyrgðin yrði áfram á hendi stjórnvalda.

Á það var bent að ef háskólafundur kæmist að þeirri niðurstöðu að láta hjá líða að óska eftir heimild til að fá að innheimta skólagjöld væri það í sjálfu sér skýr afstaða og með því væri haldið í heiðri mikilvægum réttlætis- og jafnréttissjónarmiðum. Á Norðurlöndum væri samkeppni milli skóla, en nemendur fengju samt greidd laun í námi. Þessu væri ekki að heilsa á Íslandi. Þá væri það siðferðilega óverjandi að horfa framhjá því að stór hluti framhaldsnema eru konur sem jafnframt reka skuldsett heimili. Háskólinn þyrfti að hafa siðferðisþrek til þess að standast skammtímasjónarmið líðandi stundar, þótt þau ættu sér talsmenn innan hans. Þessi afstaða ætti að koma fram í viðræðum við stjórnvöld.

Eins og á fyrri fundum þar sem skólagjaldamálið hefur verið til umræðu kom greinilega fram að ástæðan fyrir því að þær deildir sem eiga í samkeppni við aðra háskóla innanlands óska eftir heimild til að innheimta skólagjöld, væri bág fjárhagsstaða og ójöfn samkeppnisskilyrði gagnvart öðrum háskólum. Þetta ástand væri til komið vegna þess að stjórnvöld hefðu beinlínis skapað óréttlátan aðstöðumun milli háskóla á Íslandi með því að veita þeim öllum sömu nemendaframlög og heimila svonefndum einkaháskólum jafnframt að innheimta umtalsverð skólagjöld af nemendum sínum.

Hvöttu fulltrúar þeirra deilda sem eiga í innlendri samkeppni háskólasamfélagið til að hafa skilning á skertri samkeppnisstöðu þeirra og sammælast um að viðurkenna þörf þeirra fyrir aukin fjárframlög, annað hvort í formi hækkaðra fjárveitinga eða í formi skólagjalda. Á móti var á það bent að tillögur umræddra deilda um að fá heimild til að innheimta skólagjöld stjórnuðust af þeirra sérhagsmunum fremur en heildarhagsmunum Háskólans. Ef hugmyndir þeirra næðu fram að ganga hefði það í för mér sér að sumar deildir fengju aukið rekstrarfé en aðrar sætu eftir. Mikilvægast væri þó að boltinn yrði sendur til stjórnvalda.

Einnig var rætt um aðrar leiðir til að auka rekstrarfé Háskólans, s.s. almenna hækkun innritunargjalda. Tóku fundarmenn undir ályktun háskólaráðs um að samfara hækkun skrásetningargjalda yrði að tryggja að þau yrðu framvegis ekki dregin frá fjárframlögum ríkisins. Skiptar skoðanir voru hins vegar um það hvernig ráðstafa ætti því fé sem fengist með hækkuðum innritunargjöldum.

Loks var á það bent að umræðan um fjármögnun Háskólans mætti ekki einskorðast við kennslufjármögnun, heldur ætti að hafa í huga fleiri þætti, s.s. aðstöðumál sem væri víða ábótavant. Til dæmis væri fjárhagsstaða Landsbókasafns - Háskólabókasafns alvarleg. Ritakaupafé hafi staðið í stað árum saman og safnið þarf nú að skera niður kaup á gögnum fyrir Háskólann vegna lágra framlaga deilda hans. Þá hefði háskólaráð nýverið tekið ákvörðun um að draga úr fjárstyrk til lengingar opnunartíma sem myndi skerða þjónustuna enn frekar.

Að endingu óskuðu fundarmenn háskólarektor þess að viðræður hans við menntamálaráðherra yrðu góðar og árangursríkar fyrir Háskóla Íslands.

Í kjölfar þess að Ágúst Einarsson dró tillögu sína til baka bar rektor upp tillögu um að háskólafundur taki ekki afstöðu í skólagjaldamálinu fyrr en formlegum viðræðum við menntamálaráðuneytið væri lokið.

- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Ágústs Einarssonar, Hörður Filippusson, Rúnar Vilhjálmsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Þ. Harðarson, Anna Agnarsdóttir, Sigurður Brynjólfsson, Sigrún Klara Hannesdóttir og Rannveig Traustadóttir.

 

Kl. 11.00 - Dagskrárliður 2: Breyting á lögum og reglum um Háskóla Íslands um fyrirkomulag dómnefnda varðandi ráðningu akademískra starfsmanna.

Páll Hreinsson, prófessor og formaður nefndar um endurskoðun á fyrirkomulagi dómnefndastarfa, kynnti málið. Byrjaði Páll á því að greina frá því að helstu markmið endurskoðunarinnar hefðu annars vegar verið að nútímavæða stjórnsýslu tengda ráðningar- og framgangsmálum með því að gera ráðningarferlið einfaldara, styttra og skilvirkara, án þess þó að draga úr kröfum til umsækjenda, og hins vegar að nýta svigrúm deilda í starfsmannamálum eins og kostur er. Þá lýsti Páll þeim vandamálum sem endurskoðunin hefði reynt að leysa. Í fyrsta lagi gengju dómnefndarmál almennt of hægt fyrir sig. Við nýráðningar liðu að meðaltali 190 dagar frá því að starf væri auglýst og þar til niðurstaða dómnefndar lægi fyrir og við framgang liðu að jafnaði 302 dagar frá því að umsókn bærist þar til niðurstaða dómnefndar lægi fyrir. Í öðru lagi væri ekki nægilegt samræmi á milli meðferðar framgangs- og nýráðningarmála. Þannig lægi sérstakt matskerfi til grundvallar framgangsmálum en við nýráðningu væri dómnefnd aðeins ætlað að hafa matskerfið til hliðsjónar. Þá væri óljóst skv. gildandi reglum hversu langt dómnefnd væri skylt eða heimilt að ganga. Í þriðja lagi væru efnistök dómnefnda ekki nægilega samræmd. Stafaði þetta m.a. af því að dómnefndir væru iðulega skipaðar einstaklingum sem hefðu litla eða enga reynslu af slíkum störfum. Til að leysa þennan vanda þyrfti sameiginleg stjórnsýsla Háskólans að samræma störf dómnefnda og tryggja að jafnræðis væri gætt. Loks væri fjórði vandinn sá að uppi hefði verið ólíkur skilningur á hlutverki dómnefnda, þ.e. hvort þeim væri eingöngu ætlað að meta hvort umsækjandi um starf uppfylli lágmarksskilyrði sem sett eru fyrir því að mega gegna starfinu eða hvort þær ættu einnig að forgangsraða umsækjendum.

Næst rakti Páll þær meginreglur sem gilda um störf dómnefnda. Fyrsta meginreglan væri sú að engan mætti ráða í starf háskólakennara eða sérfræðings nema dómnefnd telji hann hæfan í starfið. Önnur meginreglan væri sú að stjórnsýslulög giltu fullum fetum um störf dómnefnda og sú þriðja fælist í því að dómnefndarálit yrðu að uppfylla ströng skilyrði varðandi form og efni. Að því búnu fór Páll yfir helstu atriði ráðningarferlisins frá skilgreiningu deildar á starfi í samræmi við stefnumörkun deildar og þarfir fræðasviða til ráðningar.

Síðan skýrði Páll helstu atriði lagabreytingarinnar vorið 2004. Almennt gilti að meginreglur um störf dómnefnda stæðu óhaggaðar. Tillaga nefndarinnar um að forræði ráðningarmála flyttist í auknum mæli til Háskólans hefði ekki náð fram að ganga og myndi ráðherra áfram tilnefna fulltrúa í dómnefndir. Helsta nýmælið í lögunum fælist í því að rektor væri nú heimilt að skipa fastar dómnefndir fyrir hvert af meginfræðasviðum Háskólans eða einstakar deildir eða stofnanir til þriggja ára í senn. Þessi heimild gæfi Háskólanum tækifæri til þess að þróa nýjungar í ráðningar- og framgangsmálum samhliða því að eldra kerfi verði áfram við lýði. Þegar um slíkar fastar dómnefndir væri að ræða myndi háskólaráð tilnefna einn mann í hverja þeirra, sem jafnframt yrði formaður, menntamálaráðherra annan sem yrði varaformaður og viðkomandi deild eða stofnun þann þriðja sem væri sérfræðingur og skipaður sérstaklega til þess að fara með hvert ráðningarmál. Lagði Páll áherslu á að góð starfskjör væru forsenda þess að kerfi fastra dómnefnda gæti virkað sem skyldi.

Að endingu lýsti Páll framkvæmd dómnefndaferlisins og þeim breytingum sem á henni verða. Um leið og umsóknarfrestur er liðinn fari gögn umsækjenda til rannsóknarsviðs sem framkvæmi grunnmat til bráðabirgða. Í grunnmatinu verði framlögð rit metin til stiga skv. matskerfi Háskólans eða kjaranefndar eftir því sem við á. Að því búnu verði grunnmatið sent umsækjanda til athugasemda. Þegar meðferð málsins hefjist hjá dómnefnd liggi þessar upplýsingar ávallt fyrir. Meginreglan við niðurstöðu dómnefndar verði síðan sú að hún skeri úr um það hvort umsækjandi teljist uppfylla lágmarks hæfisskilyrði til þess að geta hlotið kennarastarf eða sérfræðingsstarf á grundvelli stigakerfisins. Ef um frávik verði að ræða þurfi dómnefnd að rökstyðja það sérstaklega. Það falli síðan í hlut deildar að setja sér reglur um málsmeðferð sína. Við val á umsækjendum sé hins vegar við því að búast að deildir byggi á þeim sjónarmiðum sem endurspegli þarfir þeirra og stefnumótun. Afgreiðsla deildar eða skorar verði þó ávallt að vera rökstudd og byggð málefnalegum sjónarmiðum.

Páll tók sérstaklega fram að á þessum háskólafundi væri fyrst og fremst verið að kynna hugmyndir sem til umfjöllunar hefðu verið í nefndinni. Nýtt fyrirkomulag væri í mótun og hvatti hann fundarmenn sem og aðra aðila innan háskólasamfélagsins til þess að taka afstöðu til hugmyndanna og koma henni á framfæri við nefndina. Stefnt væri að því að heildstæðar tillögur lægju fyrir í haust.

Að framsögu Páls lokinni gaf rektor orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og komu fram mörg ólík sjónarmið. Töldu þó flestir fulltrúar að lagabreytingarnar væru almennt til bóta, einkum tilkoma föstu dómnefndanna. Þó álitu sumir að breytingarnar gengju ekki nógu langt og framkvæmd dómnefndarmála væri enn of flókin. Til dæmis væri bráðabirgðagrunnmatið of fyrirferðamikill þáttur í ferlinu og líklegt mætti teljast að umsækjendur myndu nýta andmælarétt sinn óspart sem myndi tefja málin.

Einnig var rætt um það hvort fastar dómnefndir myndu leysa hefðbundnar dómnefndir af hólmi, hvort bæði dómnefndarformin yrðu áfram við lýði eða beita ætti því formi sem hentaði betur hverju sinni. Töldu sumir nauðsynlegt að gera upp á milli beggja dómnefndarforma en aðrir sögðu mikilvægast að deildir gætu valið það fyrirkomulag sem hentaði þeim best. Til dæmis geti verið æskilegt að hafa fasta dómnefnd þegar sótt er um framgang úr lektors- í dósentsstarf, þótt gamla kerfið geti hentað betur við nýráðningar og flutning úr dósents- í prófessorsstarf. Þá geti fastar dómnefndir sannað gildi sitt t.d. með því að stöðva ótímabærar umsóknir um framgang áður en dómnefnd er skipuð. Alltént beindu fulltrúar því til yfirstjórnar Háskólans að í reglum Háskólans yrði ótvírætt tekið fram að deildir hefðu sjálfræði um fyrirkomulag dómnefnda.

Nokkuð var rætt um að samkvæmt lögunum myndi menntamálaráðuneytið áfram tilnefna menn í dómnefndir og þótti öllum fundarmönnum sem tjáðu sig um þetta efni það vera miður, m.a. vegna þess að ráðuneytið hefði ekki sömu afstöðu gagnvart öðrum háskólum. Telji ráðuneytið þörf á aðild að dómnefndamálum sé eðlilegt að sama gildi um allar stofnanir á háskólastigi og þá til þess að tryggja að ekki séu gerðar mismunandi kröfur til þeirra sem bera akademísk starfsheiti. Þá óttuðust sumir að ráðuneytið kynni jafnvel að beita fulltrúavaldi sínu í ríkara mæli en hingað til. Til skýringar var þó á það bent að Háskólinn hefði sótt það fast að ákvæði um fulltrúa ráðuneytis yrði fellt úr lögunum en ekki haft erindi sem erfiði. Til að tefla ekki ávinningi lagabreytingarinnar í hættu hefði að endingu verið fallist á kröfu ráðuneytisins að þessu sinni.

Vakin var athygli á því að framlögð drög að reglum um dómnefndir fjalla einkum um skilvirkni og form og að sama skapi lítið um inntak og gæði, þ.e. þær kröfur sem rannsóknaháskólinn gerir til starfsmanna sinna. Þá væri í matsferlinu um of tekið mið af stigamatskerfinu sem ætti rætur að rekja til kjarakerfis háskólakennara.

Bent var á að ekki væri gallalaust að deild þurfi að gera rökstudda tillögu áður en kosið er á milli manna. Betra væri að sérstakur fámennur hópur myndi vinna slíkt mat í nafni deildar. Að öðrum kosti geti liðssöfnun og önnur annarleg sjónarmið haft áhrif á niðurstöðuna.

Fundarmenn voru sammála um að eftir sem áður væri aðalatriðið að finna hæfasta umsækjandann hverju sinni og að nýju lögin væru mikilvægt skref í átt að þessu markmiði.

Rektor þakkaði Páli Hreinssyni fyrir framsöguna og fundarmönnum fyrir gagnlegar umræður. Óskaði hann eftir því að fulltrúar á háskólafundi kæmu skriflegum ábendingum og athugasemdum á framfæri við sig.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Páls Hreinssonar, Sigurður Brynjólfsson, Anna Agnarsdóttir, Rúnar Vilhjálmsson, Stefán B. Sigurðsson, Ágúst Einarsson, Anna Soffía Hauksdóttir, Vésteinn Ólason, Ólafur Þ. Harðarson,

 

Kl. 11.20 - Dagskrárliður 3: Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.

Helga Ögmundsdóttir prófessor gerði grein fyrir málinu. Byrjaði Helga á því að rekja aðdraganda málsins. Vorið 2003 skipaði rektor starfshóp með það hlutverk að setja fram viðmið og kröfur um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Í skipunarbréfi rektors segði m.a. að efling framhaldsnámsins væri nú mikilvægasta stefnumál Háskólans og því væri tímabært að skilgreina með skýrum hætti hvaða kröfur skólinn gerði til gæða þess, til viðbótar við þá formlegu umgjörð sem sett væri með lögum og reglum um Háskóla Íslands. Markmiðið með þessu væri ekki síst að styrkja Háskóla Íslands sem rannsóknaháskóla á alþjóðlega vísu sem og forystuhlutverk hans meðal háskóla á Íslandi. Hefði starfshópnum því verið uppálagt að hafa hliðsjón af þeim gæðakröfum sem tekið væri mið af í öðrum Evrópulöndum. Í starfshópnum sátu, auk Helgu, Hjalti Hugason prófessor og Ragnheiður Bragadóttir prófessor, f.h. kennslumálanefndar, Jón Atli Benediktsson prófessor og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs, f.h. vísindanefndar, Jón Torfi Jónasson prófessor og Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors og gæðastjóri. Benti Helga á að verkefni starfshópsins væri einnig í samræmi við nýgerða samninga um kennslu og rannsóknir, en í fyrrnefnda samningnum segði m.a.: „Á samningstímanum setur Háskóli Íslands skýra stefnu um gæði grunnnáms annars vegar og meistara- og doktorsnáms hins vegar. [...] Byggja skal á alþjóðlegum viðmiðunum.“ Með framlögðum viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands væri stigið fyrsta skrefið í þessa átt og fljótlega yrði hafist handa við að skilgreina sambærilegar kröfur um gæði grunn- og meistaranáms.

Síðan rakti Helga í stuttu máli þá umræðu um gæði framhaldsnáms sem átt hefur sér stað á síðustu misserum á Norðurlöndum, einkum á vettvangi NorFA, og starfshópurinn tók m.a. mið af.

Fyrstu drög að viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms voru send deildum til umsagnar í janúar 2004 og bárust ýmsar gagnlegar athugasemdir sem tekið var mið af við frágang textans. Framlögð endurskoðuð drög skiptast í þrjá hluta: Í fyrsta lagi almenn viðmið um gæði doktorsnáms, í öðru lagi faglegar kröfur til leiðbeinenda í doktorsnámi annars vegar og doktorsnefnda hins vegar og í þriðja lagi efnislegar kröfur um aðstöðu og aðbúnað. Almennu viðmiðin fjalla um markmið doktorsnámsins, val á nemendum, framvindu námsins, þátttöku nemenda í vísindasamfélaginu, kostnaðarforsendur námsins, vörn doktorsritgerða o.fl. Faglegu kröfurnar til leiðbeinenda fjalla m.a. um menntun, birtingarferil, ritvirkni, leiðbeiningar- og rannsóknarreynslu leiðbeinenda. Til meðlima í doktorsnefndum eru m.a. gerðar þær kröfur að þeir hafi sjálfir doktorspróf og uppfylli sem flestar aðrar kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda. Loks tilgreina efnislegu kröfurnar nauðsynlega rannsóknar- og vinnuaðstöðu doktorsnema, aðgang þeirra að leiðbeinendum, tengsl við erlenda háskóla, þátttöku í vísindaráðstefnum, reglubundnar málstofur og félagsaðstöðu, svo nokkuð sé nefnt. Að endingu er í framlögðum drögum að viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms fjallað um ábyrgð og eftirlit sem og mat, vottun og aðlögunartíma. Hvað síðastnefnda þáttinn varðar er gert ráð fyrir því að þremur árum frá gildistöku viðmiðanna fari fram úttekt á doktorsnámi við Háskólann samkvæmt alþjóðlega viðteknum aðferðum sem byggja á sjálfsmati, ytri úttekt, endurbótum eftir ástæðum og vottun.

Að kynningu Helgu lokinni tilkynnti rektor að gert yrði fundarhlé og umræða færi fram að því loknu.

 

Kl. 13.10 - Dagskrárliður 3 (framhald): Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands

Að hádegishlé loknu bauð rektor fundarmenn aftur velkomna og gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega. Lýstu fundarmenn almennt mikilli ánægju með að Háskóli Íslands hefði stigið það mikilvæga skref að setja sér viðmið og reglur um gæði doktorsnáms. Var til þess tekið hvað plaggið væri vandað og vel unnið og starfshópnum sem að því stóð færðar miklar þakkir. Tók einn fundarmaður svo sterkt til orða að þessi stefnumörkun markaði tímamót í sögu Háskóla Íslands því gæðaviðmiðin væru fyllilega sambærileg við það sem þekktist við viðurkennda erlenda rannsóknaháskóla. Í umræðunni var því einkum fjallað um ýmsar spurningar sem vakna í kjölfarið, þótt einnig kæmu fram nokkur gagnrýnisatriði.

Bent var á að til þess að þau metnaðarfullu markmið sem sett eru fram í plagginu næðu fram að ganga þyrfti að leggja til aukið fé og setja á laggirnar öflugt styrkjakerfi fyrir doktorsnámið. Á móti var vísað til þess að ef háskólafundur samþykkti plaggið fælust í því fjárhagslegar skuldbindingar og því gætu deildir framvegis sett fram kröfur á grundvelli plaggsins. Með öðrum orðum gæti fjárhagsumræðan orðið hnitmiðaðri með þetta plagg að leiðarljósi.

Þá var varpað fram þeirri spurningu, hvort þær kröfur til leiðbeinenda, sem settar eru fram í plagginu, kæmu til viðbótar við skilyrði Háskólans fyrir nýráðningum og framgangi akademískra starfsmanna, þ.e. hvort þær leiddu til tvöfalds matskerfis. Ef svo væri gæti komið upp sú staða að prófessor teldist ekki hæfur til að vera leiðbeinandi í doktorsnámi. Ef slík tilvik gætu komið upp væri nærtækt að draga af því þá ályktun að hæfniskröfur til prófessora væru ekki nægar og þá þyrfti að herða á þeim fremur en að smíða annað kerfi. Á móti var á það bent að þegar fram líða stundir muni matskerfin sennilega renna saman.

Rætt var um þá kröfu að leiðbeinendur í doktorsnámi ættu að sýna fram á ritvirkni skv. rannsóknamatskerfi Háskóla Íslands sem nemi 20 rannsóknastigum á ári að meðaltali sl. 5 ár. Töldu sumir að þessi viðmiðun væri of lág, en aðrir færðu rök fyrir því að hún ætti frekar að vera hærri. Í þessu sambandi var minnt á það að í plagginu væru deildir sérstaklega hvattar til að setja sér sérreglur um þetta atriði, t.d. um fjölda rannsóknastiga og eðli þeirra ritverka sem stæðu á bak við þau, í samræmi við mismunandi birtingarhefðir. Þá var rætt um það hvort þrjú ár væru hæfilegur aðlögunartími áður en skipulegar úttektir á náminu hefjast. Einnig var bent á það að í plagginu mætti koma skýrar fram krafa um að tryggja beri doktorsnemum aðgengi að vísindalegum upplýsingum og gögnum. Fram kom ábending um að ekki væri í öllum tilvikum unnt að standa undir þeirri kröfu að doktorsnemar skuli vera virkir þátttakendur í vísindasamfélaginu, t.d. ef þeir starfa á öðrum háskóla- eða vísindastofnunum sem takmarkar möguleika þeirra til að taka þátt í starfsemi Háskóla Íslands. Bent var á að ein besta leiðin til að styrkja gæði doktorsnáms er að styðja við bakið á leiðbeinendunum svo þeir geti staðið undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar. Þá var vakið máls á því að eitt helsta vandamálið í framhaldsnáminu almennt sé hæg námsframvinda. Til þess að ráða bót á þessu væri nauðsynlegt að gera þegar í upphafi náms kröfu um skýra framvinduætlun og regluleg skil á framvinduskýrslu. Spurt var, hvernig standa ætti við það markmið að „nemendur öðlist, auk sérhæfðrar þekkingar á fræðasviði sínu, víðtæka almenna þekkingu, þ.m.t. þekkingu á siðfræði vísinda og þá félagslegu færni sem þeir þurfa að búa yfir í framtíðarstarfi“. Þá var spurt, hvort nauðsynlegt væri að gera þá kröfu til leiðbeinenda að þeir hefðu umtalsverða reynslu af öflun sértekna frá viðurkenndum rannsóknasjóðum, hvort í öllum tilvikum væri hægt að krefjast þess að leiðbeinendur hefðu umtalsverða reynslu af rannsóknastarfi með alþjóðlega viðurkenndum sérfræðingum á viðkomandi fræðasviði utan Háskólans og hvort heppilegt væri að skuldbinda Háskólann til þess að útvega doktorsnemum félagsaðstöðu. Loks var vakið máls á þeim sérstaka vanda sem fylgir smæð fræðasamfélagsins á Íslandi. Fyrir kæmi að nemendur innu árum saman við saman við sama háskóla og undir handleiðslu sömu kennara. Til að koma í veg fyrir takmarkandi áhrif þessa ættu deildir að gera skýra kröfu til doktorsnema um tímabundna námsdvöl erlendis.

Að umræðu lokinni bar rektor framlögð drög að viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands undir atkvæði.

- Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, en einn sat hjá.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Helgu Ögmundsdóttur, Anna Agnarsdóttir, Hörður Filippusson, Þórdís Kristmundsdóttir, Rúnar Vilhjálmsson, Sigrún Klara Hannesdóttir, Rannveig Traustadóttir, Gylfi Magnússon, Helgi Gunnlaugsson, Gunnlaugur A. Jónsson, Dagný Kristjánsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Jón Torfi Jónasson og Magnús Diðrik Baldursson.

 

Kl. 14.00 - Dagskrárliður 4: Málstefna Háskóla Íslands. Framhald umræðu á 11. háskólafundi.

Sigurður Brynjólfsson forseti verkfræðideildar kynnti málið f.h. starfshóps rektors um málstefnu Háskóla Íslands, en starfshópinn skipuðu, auk Sigurðar, Anna Agnarsdóttir forseti heimspekideildar, Kristján Árnason prófessor, Karítas Kvaran, forstöðumaður Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins, og Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors. Byrjaði Sigurður á því að rifja upp hvernig málið hefði verið lagt fyrir 11. háskólafund, helstu athugasemdir og ábendingar sem þar hefðu komið fram og þær breytingar sem gerðar hefðu verið í kjölfarið á fyrri drögum að málstefnu Háskólans. Greindi Sigurður m.a. frá því að þegar málið var fyrst kynnt á 11. háskólafundi hefðu fundarmenn almennt verið sammála um að á tímum vaxandi alþjóðavæðingar væri Háskólanum nauðsynlegt að marka sér skýra málstefnu. Þetta væri einnig í samræmi við umræðuna um þetta mál í háskólum á hinum Norðurlöndunum. Á sama fundi hefðu hins vegar sumir fulltrúar talið fyrri drög draga um of taum íslenskunnar og setja erlendri málnotkun að sama skapi þröngar skorður. Til að bregðast við þessari réttmætu gagnrýni hefði starfshópurinn farið vandlega yfir plaggið og gert á því ýmsar breytingar, þótt ekki hefði verið vikið frá þeirri meginforsendu að Háskóli Íslands gegndi tvíþættu hlutverki sem íslensk vísinda- og menntastofnun og hluti af hinu alþjóðlega fræðasamfélagi. Því mætti segja að málstefnan væri í reynd hluti af nútímalegri alþjóðastefnu skólans. Að þessum inngangsorðum slepptum fór Sigurður yfir málstefnudrögin og skýrði þau lið fyrir lið. Lauk hann máli sínu á þeim orðum að hann vonaðist til þess að sátt næðist á háskólafundi um hin endurskoðuðu drög að málstefnu Háskóla Íslands.

Rektor gaf orðið laust.

Málið var rætt. Í umræðunni kom skýrt fram að fundarmönnum þótti starfshópi rektors hafa tekist vel upp og að endurskoðuð drög að stefnu Háskólans tækju hinum eldri mikið fram. Til að ítreka mikilvægi málstefnunnar fyrir íslenskt fræðasamfélag greindu tveir fundarmenn frá því að í dönskum háskólum hefðu menn áhyggjur af því sem kallað væri „domænetab“, sem á íslensku mætti nefna umdæmisvanda, og fælist í því að enska væri að ryðja dönskunni úr vegi sem tungumál fræða og vísinda. Til að bregðast við þessu teldu Danir að gæta þyrfti sérstaklega að því að danska héldi stöðu sinni sem „komplet sprog“, þ.e. fullburða tungumál sem er gjaldgengt jafnt innan fræðaheimsins sem utan. Þá greindi einn fulltrúi frá því að í einstökum deildum Háskólans, s.s. í viðskipta- og hagfræðideild, væri kennurum boðið upp á málfarsyfirlestur á glærum og fyrirlestrum. Loks lýsti einn fundarmanna efasemdum um hvort setja ætti almennar reglur um málnotkun við Háskólann frekar en að deildir hefðu sjálfræði í þessu efni.

Undir þessum dagskrárlið báru þrír fundarmenn upp breytingartillögur við framlögð drög að málstefnu Háskóla Íslands.

Rúnar Vilhjálmsson lagði til að í stefnuhluta plaggsins félli niður síðari hluti setningarinnar: „Málstefnan hefur að leiðarljósi að talmál og ritmál Háskólans er íslenska, jafnt í kennslu, rannsóknum sem stjórnsýslu“. Með öðrum orðum kæmi punktur á eftir orðinu „íslenska“.

Auður Hauksdóttir gagnrýndi að í plagginu væru erlend tungumál almennt lögð að jöfnu við ensku. Þetta fæli í sér varhugaverða þröngsýni sem bitnaði á öðrum tungumálum, s.s. þýsku, frönsku, spænsku og dönsku, sem öll væru kennd við íslenska grunn- og framhaldsskóla. Í samræmi við þetta lagði hún til að í kaflanum um framkvæmd og útfærslu málstefnunnar væri kerfisbundið skipt út orðinu „enska“ fyrir „erlend mál“. Samkvæmt þessu segði í 3. lið: „Háskólinn leitast við að tryggja erlendum skiptistúdentum nægilegt framboð af sérhæfðum námskeiðum á erlendum tungumálum. Jafnframt skilgreina deildir Háskólans lágmarkskröfur um kunnáttu í erlendum málum fyrir erlenda skiptistúdenta til að tryggja að þeir geti nýtt sér það nám sem þeim býðst.“ Þá segði í 4. lið: „Þetta felur í sér að erlendir stúdentar sem ætla að stunda nám sem fer fram á íslensku verða að standast stöðupróf í íslensku og að erlendir stúdentar sem ætla að stunda nám kennt á erlendum málum þurfa að sýna fram á lágmarkseinkunn á viðurkenndu alþjóðlegu prófi í þeim málum fyrir útlendinga.“

Loks vakti Ingjaldur Hannibalsson athygli á því að orðalag 5. liðar kaflans um framkvæmd og útfærslu væri óskýrt og mætti misskilja það svo að það væri í mótsögn við inntak stefnukaflans. Því lagði hann til að í stað setningarinnar „Deildir Háskólans geta boðið upp á einstök námskeið og heilar námsleiðir í framhaldsnámi á erlendum málum, eftir því sem aðstæður leyfa“, kæmi: „Deildir Háskólans geta boðið upp á heilar námsleiðir í framhaldsnámi eða einstök námskeið á erlendum málum, eftir því sem aðstæður leyfa“.

Breytingartillögurnar voru ræddar.

Að umræðu lokinni bar rektor fyrst undir atkvæði breytingartillögu Rúnars Vilhjálmssonar.

- Tillagan var felld með 26 atkvæðum gegn 3.

Næst bar rektor undir atkvæði breytingartillögu Auðar Hauksdóttur.

- Tillagan var felld með 18 atkvæðum gegn 4.

Þá bar rektor undir atkvæði breytingartillögu Ingjalds Hannibalssonar.

- Tillagan var samþykkt einróma.

Að endingu bar rektor undir atkvæði málstefnuna í heild sinni með áorðnum breytingum.

- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Sigurðar Brynjólfssonar, Kristján Árnason, Ágúst Einarsson, Ólafur Þ. Harðarson, Auður Hauksdóttir, Ingjaldur Hannibalsson, Rúnar Vilhjálmsson, Anna Agnarsdóttir, Jón Torfi Jónasson, Jón G. Friðjónsson, Vésteinn Ólason, Eiríkur Tómasson, Guðrún Kvaran, Dagný Kristjánsdóttir og Jón Atli Benediktsson.

 

Kl. 14.50 - Dagskrárliður 5 (liður 1 skv. auglýstu fundarboði): Rektor reifar hugmyndir um framtíð Háskóla Íslands

Byrjaði rektor á því að vísa fundarmönnum á framlagt minnisblað sitt um helstu mál á döfinni í Háskóla Íslands, sem lagt var fram á hádegisfundi með starfsfólki Háskólans í Hátíðasal 29. apríl 2004. Þá fór rektor nokkrum orðum um þrjú atriði sem varða framtíð Háskóla Íslands og samstaða er um innan hans.

1. Efling Háskóla Íslands sem rannsóknarháskóla. Ítrekaði rektor að stærsta einstaka verkefni Háskólans væri að byggja hann upp sem rannsóknarháskóla. Árið 1999, sama ár og kennslu- og rannsóknarsamningar milli menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands voru fyrst gerðir, hefði verið gerð áætlun um uppbyggingu framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Raunin hefði orðið sú að þessi áætlun hefði fyllilega staðist og gott betur. Annað mikilvægt skref í átt að sama markmiði væri samþykkt viðmiða og krafna um gæði doktorsnáms á þessum háskólafundi. Engu að síður væri nauðsynlegt að hafa hugfast að Háskóli Íslands væri lítill rannsóknaháskóli á alþjóðlegan mælikvarða og því ærin verkefni framundan. Samningarnir við ráðuneytið sem gerðir voru árin 1999 og 2003 vörðuðu þessa leið og í þeim væru tiltekin helstu atriði sem máli skipta. Til dæmis væri í þeim að finna skuldbindingar af hálfu ráðuneytisins um aðstöðu og tæki til rannsókna og rannsóknanáms. Það eina sem ekki hefði tekist að ná fram væri hækkun rannsóknafjárveitingarinnar. Hafa ber í huga að stjórnvöld leggja höfuðáherslu á að styrkja samkeppnissjóði á sviði rannsókna á næstu árum og stæði Háskólinn sterkur að vígi varðandi sóknarfæri í þessa sjóði.

2. Styrking stjórnsýslu Háskólans. Gat rektor þess að mjög margt hefði færst til betri vegar í þessum efnum á síðustu árum. Um þessar mundir væri að hefjast fjárhags- og stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Háskólanum og væri slíkt í reynd sjálfsagður þáttur í skólastarfinu. Lýsti rektor þeirri von að þessi úttekt myndi leiða ýmislegt í ljós sem Háskólinn gæti haft gagn af við að bæta rekstur skólans og að hún sýndi jafnframt stjórnvöldum fram á hvar skóinn kreppir í fjármögnun hans og hvað vel er gert í stjórnsýslu skólans.

3. Eining og samheldni háskólasamfélagsins. Gerði rektor að umtalsefni mikilvægi þess að viðhalda og treysta einingu og samheldni háskólasamfélagsins, bæði fræðilega og félagslega. Háskólasamfélagið væri stórt og margbrotið og samstaða í því aldrei sjálfgefin heldur viðvarandi verkefni sem vinna þyrfti markvisst að. Deildir Háskólans væru grunneiningar hans sem nytu mikils sjálfstæðis. Mikilvægasta einstaka verkefnið framundan í því skyni að tryggja einingu háskólasamfélagsins væri fyrirhugað Háskólatorg sem vafalítið myndi stórbæta efnislegar forsendur háskólasamfélagsins.

Í tengslum við þetta vék rektor sérstaklega að háskólafundinum sjálfum. Með lögum um Háskóla Íslands frá 1999 voru gerðar miklar breytingar á stjórnkerfi skólans og ein sú mikilvægast var stofnun háskólafundar, sem átti sér enga hliðstæðu í fyrri lögum, og í framhaldi af því breytt hlutverkaskipting milli háskólaráðs og háskólafundar. Í aðdraganda lagasetningarinnar, á árunum 1997-1999, vildi menntamálaráðuneytið fyrst og fremst breyta háskólaráði með því að gera það að fámennri framkvæmdastjórn. Háskóli Íslands fékk því hins vegar framgengt að tekinn yrði upp háskólafundur. Samkvæmt upphaflegri hugmynd Háskólans átti fundurinn að verða æðsta stjórnvald skólans með það tvíþætta hlutverk að ákveða reglur um skipan háskólaráðs og skipa fulltrúa í ráðið annars vegar og hins vegar að vera það stefnumótandi afl sem hann hefur í reynd orðið. Óhætt væri að fullyrða að háskólafundur hefði reynst vel sem stefnumótandi samráðsvettvangur fulltrúa allra helstu hópa háskólasamfélagsins og vísaði rektor máli sínu til stuðnings á framlagt yfirlit um framvindu stefnumótunarstarfs við Háskóla Íslands 1999-2004. Þá minnti rektor á þróunaráætlanir deilda og stofnana, sem gerðar hefðu verið að frumkvæði háskólafundar og mikilvægt væri að vinna áfram að á næstu misserum.

Háskólafundur væri í reynd eins konar akademískt „senat“ sem hefði mikið gert til þess að efla samheldni í háskólasamfélaginu og leiða mál sameiginlega til lykta. Aldrei hafi verið gengið frá máli á fundinum með djúpstæðum ágreiningi. Eina málið sem háskólafundur hefði enn ekki leitt til lykta væri skólagjaldamálið. Háskólalýðræði væri samræðulýðræði þar sem menn töluðu sig að niðurstöðu. Fyrir þessum vinnubrögðum væri rík hefð í háskólum um allan heim og háskólafundur þjónaði henni. Þessar hugmyndir og hugsjónir kæmu skýrt fram í ákvæði háskólalaganna um háskólafund: „Háskólafundur er samráðsvettvangur háskóladeilda og háskólastofnana, en fer ekki með beina framkvæmd eða stjórnsýslulegt úrskurðarvald. Háskólafundur vinnur að þróun og eflingu Háskóla Íslands og mótar og setur fram sameiginlega vísinda- og menntastefnu Háskólans. Gert er ráð fyrir, að með samþykktum sínum um stefnumörkun móti háskólafundur stefnu þá sem háskólaráði og rektor er ætlað að taka mið af.“

Mikilvægt væri að finna leiðir til að efla og styrkja fundinn enn frekar. Til greina kæmi að kalla hann saman oftar og einnig að færa öll akademísk málefni frá háskólaráði til fundarins. Ef þessi leið yrði farin kæmi vel til greina að færa vísindanefnd og kennslumálanefnd frá háskólaráði til háskólafundar. Í framhaldi af þessu tilkynnti rektor að næsti háskólafundur, sem haldinn verður utan bæjarins 17. september nk., myndi gagngert vera helgaður mótun framtíðarstefnu um fundinn sjálfan. Deildarforsetar myndu vinna að undirbúningi málsins og hvatti rektor fulltrúa til að koma á framfæri við sig tillögum um atriði sem betur mættu fara í framkvæmd fundarins.

Þá tilkynnti rektor að hann hefði óskað eftir því við Ingjald Hannibalsson, prófessor og formann fjármálanefndar háskólaráðs, sem undanfarna mánuði hefði dvalið við rannsóknir á stjórnun og skipulagi háskóla í mismunandi menningarheimum, í Stanford-háskóla í Bandaríkjunum, að hann fræddi fundarmenn um niðurstöður rannsókna sinna með hliðsjón af hlutverki háskólafundar. Gaf rektor Ingjaldi orðið.

Byrjaði Ingjaldur á því að lýsa uppbyggingu rannsóknaverkefnis síns sem beindi sjónum að þremur þáttum, skipulagi, fjármögnun og aðgengi að háskólum. Þá lýsti Ingjaldur efnislegum og skipulagslegum forsendum Stanford-háskóla. Við skólann eru um 14.500 nemendur og 1.377 kennarar auk klínískra kennara, en heildarfjöldi starfsmanna er um 8.700. Ársvelta skólans er um 170 milljarðar króna og sjóðaeign um 500 milljarðar króna. Húsnæði skólans er um 1.500.000 fermetrar. Í skipulagi skólans leikur ein stofnun lykilhlutverk og kallast hún „Academic Council“. Þetta akademíska ráð, sem að formi til er hliðstætt háskólafundi, var stofnað árið 1968 í kjölfar þess að stúdentar kröfðust breytinga á stjórn og skipulagi skólans í átt til meira lýðræðis. Í ráðinu eiga sæti allir prófessorar, dósentar og lektorar, samtals um 1.377 manns, auk akademískra stjórnenda. Hlutverk ráðsins er að ræða og samþykkja öll mál sem snerta vísinda- og menntastefnu Stanford-háskóla. Ráðið heldur einn fund á ári og til þess að hann sé löglegur þurfa a.m.k. 20% meðlima að sækja hann. Ráðið kýs senat, nefndir og sérstaka ráðgjafanefnd (The Advisory Board of the Academic Council). Í senatinu sitja 54 einstaklingar sem valdir eru til tveggja ára í senn. Formaður senatsins og fjórir aðrir meðlimir mynda stýrinefnd sem vinnur með rektor eða þeim sem hann tilnefnir. Senatið kýs 7 manna nefndanefnd og annast auk þess framkvæmd þeirra málaflokka sem falla undir akademíska senatið. Ráðgjafanefndin er skipuð 7 prófessorum sem valdir eru til þriggja ára í senn. Allar tillögur um ráðningar, framgang, uppsagnir, stofnun nýrra deilda og lokun deildar verða að koma frá ráðgjafanefndinni og stendur hún vörð um akademískt frelsi Stanford-háskóla. Undir senatinu og akademíska ráðinu starfar fjöldi nefnda sem fara með akademísk málefni skólans.

Til samanburðar nefndi Ingjaldur nokkrar staðreyndir um Manitoba-háskóla í Kanada, sem er fjarri því eins auðugur og Stanford-háskóli, en engu að síður mjög góður og sterkur háskóli. Í honum eru 25.000 nemendur, 1.142 kennarar og 3.100 starfsmenn. Ársvelta skólans er um 18 milljarðar króna og sjóðaeign um 14 milljarðar króna. Húsnæði skólans er um 480.000 fermetrar. Lýsti Ingjaldur skipulagi skólans og hlutverki senatsins sem hefur umboð frá háskólaráði til þess að annast öll akademísk málefni. Senatið er skipað 153 meðlimum og er rektor formaður þess. Heldur senatið 11 fundi á ári. Hlutverk þess er að skipa deildarráð og skorarráð, gera tillögur til háskólaráðs um stofnun og lokun deilda og breytingar á skipulagi, ákveða námsframboð, taka fyrir deilumál vegna ákvarðana deilda og skora, taka ákvarðanir um inntöku nemenda, próf og útskrift nemenda, setja reglur um bókasöfn, gera tillögur til háskólaráðs um nýbyggingar, fjármálastefnu, reglur um nýráðningar og framgang o.fl. Á vegum senatsins starfa um 20 nefndir.

Þakkaði rektor Ingjaldi fyrir kynninguna og fundarmönnum fyrir góðan fund og áhugaverðar og málefnalegar umræður.

Fleira var ekki gert.

Rektor sleit fundi kl. 15.30.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 13. háskólafundi

1. Dagskrá 13. háskólafundar 21. maí 2004.
2. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3. Reglur um skipan og fundarsköp háskólafundar.
4. Fundargerð 12. háskólafundar 22. mars 2004.
5. Minnisblað frá hádegisfundi rektors með starfsfólki Háskólans í Hátíðasal 29. apríl 2004.
6. Yfirlit yfir framvindu stefnumótunarstarfs við Háskóla Íslands 1999-2004.
7. Tillaga Ágústs Einarssonar um heimild til skólagjalda í meistaranámi.
8. Samþykkt háskólaráðs á fundi þess 19. maí 2004.
9. Minnisblað frá nefnd um endurskoðun á fyrirkomulagi dómnefndastarfa og fleiri þátta ráðningarmála, dags. 6. maí 2004.
10. Breytingar á sameiginlegum reglum Háskólans vegna endurskoðunar á fyrirkomulagi dómnefndastarfa og fleiri þáttum ráðningarmála. Vinnuskjal lagt fyrir 13. háskólafund.
11. Hugmyndir að breytingum á störfum dómnefnda. Glærur með kynningu Páls Hreinssonar á 13. háskólafundi.
12. Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands. Drög lögð fram á 13. háskólafundi.
13. Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands. Glærur með kynningu Helgu Ögmundsdóttur á 13. háskólafundi.
14. Málstefna Háskóla Íslands. Endurskoðuð drög lögð fram á 13. háskólafundi.
15. Hlutverk háskólafundar. Glærur með kynningu Ingjalds Hannibalssonar á 13. háskólafundi.