Skip to main content

23. háskólafundur 16. maí 2007

23. háskólafundur haldinn 16. maí 2007 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 9.00-12.15

Dagskrá

Kl. 09.00 - 09.05  Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum gögnum (5 mín.).
Kl. 09.05 - 09.25  Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands (20 mín.).
Kl. 09.25 - 10.55  Dagskrárliður 2.
Kl. 10.55 - 11.15  Kaffihlé (20 mín.)
Kl. 11.15 - 12.15  Dagskrárliður 2 (frh.). Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands (60 mín.).
Kl. 12.15             Rektor slítur fundi.
 

Kl. 09.00-09.05: Fundarsetning

 
Rektor setti 23. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Sérstaklega bauð rektor velkomna nýja fulltrúa á háskólafundi, fulltrúa nánustu samstarfsstofnana Háskólans, þau Ingibjörgu Sverrisdóttur, landsbókavörð, Magnús Pétursson, forstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss, Véstein Ólason, forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Ólaf Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, fulltrúa í starfshópi um endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands og fulltrúa í nefnd um framkvæmd stefnu Háskólans. Þá gerði rektor grein fyrir útsendum og framlögðum fundargögnum, dagskrá og tímaáætlun fundarins. Fundarritari var Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskólans.
 

Kl. 09.05 - 09.25 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

 
Rektor hóf mál sitt á því að greina frá því að afar mörg stór og smá verkefni væru í gangi í Háskólanum. Ánægjulegt væri til þess að vita að mikill og góður árangur væri að nást á öllum helstu áherslusviðum skólans. Rakti rektor stuttlega mál sem eru efst á baugi:
 
Stefna Háskóla Íslands og framtíðarsýn
Í framhaldi af því að stefna Háskóla Íslands 2006-2011 var samþykkt á háskólafundi 5. maí 2006 og staðfest af háskólaráði 16. maí 2006 var undirritaður tímamótasamningur milli Háskólans og menntamálaráðuneytisins 11. janúar 2007. Samningurinn gerir ráð fyrir viðbótarfjármagni næstu 5 ár til að gera Háskóla Íslands kleift að framfylgja stefnu sinni. Þá er samningurinn árangurstengdur og byggður á skýrum og mælanlegum markmiðum. Frá síðasta háskólafundi sem haldinn var 16. mars sl. hefur þegar náðst mikill og góður árangur á öllum helstu sviðum sem samningurinn tekur til. Allt eru þetta mikilvæg skref í átt til þess að koma Háskóla Íslands í röð fremstu háskóla í heimi.
 
Árangur í rannsóknum, kennslu og stjórnun

  • Reglur um Miðstöð framhaldsnáms voru samþykktar í háskólaráði 7. maí sl.
  • Birtingum í ISI-tímaritum hefur fjölgað um 17% á milli ára.
  • Styrkjum til doktorsnáms hefur fjölgað fyrir tilstilli Rannsóknasjóðs Háskólans.
  • Margháttuð tengsl við atvinnulíf hafa aukist verulega.
  • Mikil gróska er í starfsemi fræðasetra Háskólans á landsbyggðinni.
  • Háskólafundur og háskólaráð hafa samþykkt reglur um veitingu akademískra gestastarfa og hafa þegar verið gerðir samningar við fyrstu kennarana.
  • Hinn 1. maí sl. tóku gildi nýjar reglur um ráðningu akademískra starfsmanna sem fela í sér margháttaðar endurbætur frá fyrra ráðningarkerfi.
  • Verkefnisstjórn um framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 hefur unnið ötullega að eftirfylgni með stefnunni.
  • Mikill fjöldi erlendra kennara dvelur að jafnaði við Háskóla Íslands og kennir í deildum skólans og á vegum Endurmenntunarstofnunar:

   -  Verkfræðideild: Kennarar frá MIT í Boston, Bandaríkjunum, Oulu háskóla, Finnlandi o.fl.
   -  Guðfræðideild: Kennarar frá Abo Akademi, Finnlandi, Kaupmannahafnarháskóla, Danmörku o.fl.
   -  Læknadeild: Kennarar frá Stanford háskóla í Kaliforníu, Bandaríkjunum, Háskólasjúkrahúsinu í París, Frakklandi, Uppsala háskóla, Svíþjóð o.fl.
   -  Lagadeild: Kennarar frá Álaborgar háskóla, Árósar háskóla, Erlangen háskólanum í Nürnberg í Þýskalandi o.fl.
   -  Lyfjafræðideild: Kennarar frá Jagiellonian háskólanum í Kráká, Póllandi o.fl.
   -  Hugvísindadeild: Kennarar frá Háskólanum í Tampere, Finnlandi, Université de Caen-Basse, Frakklandi, Universita di Padova, Ítalíu, Háskólanum í Darmstadt, Þýskalandi, University of Liverpool, Englandi, University of London, Englandi, Complutense háskólanum í Madrid, Spáni, University of Minnesota, Bandaríkjunum o.fl.
   -  Viðskipta- og hagfræðideild: Georgetown University, Bandaríkjunum, Helsinki School of Economics, Finnlandi, Copenhagen Business School, Kaupmannahöfn, Harvard Business School, Bandaríkjunum.
   -  Ennfremur hafa dvalið hér í vetur kennarar á grundvelli samstarfs Endurmenntunar, hjúkrunarfræðideildar, læknadeildar og viðskipta- og hagfræðideildar.

  • Mikil og hröð þróun er í notkun upplýsingatækni og mun fjarkennsla væntanlega eflast til muna á næstu árum, m.a. með sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
  • Skipuð var ný skipulags- og bygginganefnd háskólaráðs 7. maí sl.
  • Endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskólans stendur nú yfir og verður hún jafnframt helsta mál á þessum háskólafundi.

Önnur mál

  • Lög um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands voru samþykkt á Alþingi 17. mars sl. og kveða þau m.a. á um að skólarnir muni sameinast 1. júlí 2008.
  • Umsóknir um viðurkenningu á fræðasviðum hugvísinda, náttúruvísinda og verk- og tæknivísinda, skv. lögum nr. 63/2006, eru nú til meðferðar hjá menntamálaráðuneytinu og er niðurstaðna að vænta í haust.
  • Háskóli unga fólksins verður starfræktur að vanda 11.-18. júní nk.
  • Opinn kosningafundur með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis verður væntanlega haldinn í Háskólanum bráðlega. Mikill stuðningur er meðal allra flokka við stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og nýgerðan samning við menntamálaráðuneytið um fjármögnun kennslu og rannsókna.

Nýir samstarfssamningar við íslenskt atvinnulíf og stofnanir á síðastliðnum tveimur mánuðum       

  • Bakkavör Group styrkir starf prófessors í nýsköpunar- og frumkvöðlafræði við viðskipta- og hagfræðideild.
  • Gerður hefur verið samstarfssamningur á milli Rannsóknastofnunar um lyfjamál við lyfjafræðideild og heilbrigðisráðuneytisins, Landspítala - háskólasjúkrahúss, Lyfjastofnunar og Landlæknisembættisins.
  • Promens hefur veitt styrk til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur við hugvísindadeild.
  • Þjóðkirkjan hefur veitt styrk fyrir 75% lektorsstarfi í helgisiðafræðum við guðfræðideild.
  • Orkuveita Reykjavíkur, Norðurál og Hitaveita Suðurnesja hafa gert samning um rannsóknir við raunvísindadeild um losun CO2 í andrúmsloftið.

 Samstarfssamningar við erlenda háskóla á síðastliðnum tveimur mánuðum

  • Samningur við Ohio State University, Bandaríkjunum.
  • Samningur við University of Minnesota, Bandaríkjunum, vegna náms í hjúkrunarfræði og lýðheilsuvísindum.
  • Samningur við Samtök norrænna háskóla í Kína í tengslum við Fudan háskóla og Shanghai háskóla.
  • Samningur við Samtök norrænna háskóla og háskóla í sunnanverðri Afríku (SANORD).

Atvinnulíf og menntastofnanir
Mikil gróska hefur verið á sviði orkurannsókna og er Háskóli Íslands aðili að nokkrum verkefnum á þessu sviði:

  • Keili, miðstöð vísinda, mennta og atvinnulífs - í samvinnu við Reykjanesbæ, Geysi Green Energy, Hitaveitu Suðurnesja, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Glitni, Sparisjóð Keflavíkur, Flugstoðir, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar o.fl.
  • Ríkisstjórn Íslands varði 100 m.kr. af söluandvirði hlutabréfa ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til Háskóla Íslands sem hlutafjárframlag í Keili.
  • Samkomulag hefur náðst um að byggja upp sameiginlegt alþjóðlegt framhaldsnám í orkuvísindum við Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
  • Samstarf við RES, Renewable Energy School, Akureyri, Háskólann á Akureyri, Norðurorku og Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR).

Orku-, jarð- og umhverfisvísindi við Háskóla Íslands

  • Innan Háskóla Íslands hefur um áratuga skeið átt sér stað mikil uppbygging og þekkingarsköpun í grunngreinum orku-, jarð- og umhverfisvísinda:

   -     Jarðfræði
   -     Jarðeðlisfræði
   -     Verkfræði
   -     Umhverfisfræði
   -     Eðlisfræði
   -     Stærðfræði
   -     Efnafræði
   -     Einnig auðlindaréttur á vettvangi lagadeildar og orkuhagfræði á vettvangi viðskipta- og hagfræðideildar.

  • Stofnanir innan Háskóla Íslands sem koma að orkumálum:

   -    Orkurannsóknir (VOR - samstarfsvettvangur verkfræðideildar og orkufyrirtækja).
   -    Jarðfræðirannsóknir (Jarðvísindastofnun).
   -    Umhverfisrannsóknir (Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun)
   -    Vísindagarðar Háskóla Íslands (orkurannsóknir eitt af áherslusviðum Vísindagarðanna).

  • Samstarfsverkefni við erlenda háskóla.

 
Meginmarkmiðin með þátttöku Háskóla Íslands í öllum þessum verkefnum eru að auka styrk skólans á sviði orku-, jarð- og umhverfisvísinda og að nýta þekkingu skólans samfélaginu til hagsbóta í samvinnu við orkufyrirtæki, fjármálafyrirtæki og innlendar og erlendar vísindastofnanir.
 
Framkvæmdir
Fjölmargar framkvæmdir standa nú yfir eða eru í undirbúningi við Háskóla Íslands:

  • Háskólatorg: Reisugildi var haldið 18. apríl sl. og samkvæmt áætlun eru í dag 199 dagar þar til byggingarnar verða formlega vígðar.
  • Bygging nýs háskólasjúkrahúss er í undirbúningi og verður efnt til kynningar á hönnunarþættinum í júní nk.
  • Vísindagarðar Háskóla Íslands eru einnig í undirbúningi.
  • Bygging fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, svonefnt Hús íslenskra fræða, mun væntanlega rísa vestan Suðurgötu fyrir aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011. Unnið er að því að íslenskuskor hugvísindadeildar verði í sama húsnæði.
  • Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur er að undirbúa byggingu húss vestan Suðurgötu.

Heilsuátak í mars
Að endingu minntist rektor á heilsuátak Háskólans í mars sl. sem tókst einstaklega vel. Boðið var upp á fjölda viðburða sem voru vel sóttir. Hápunktur heilsuátaksins var Háskólahlaup sem haldið var í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands.

 

Kl. 09.25 - 10.55 - Dagskrárliður 2: Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands

 
Rektor skýrði frá því að endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands væri gríðarlega umfangsmikið verkefni sem verið hefði í undirbúningi um alllangt skeið. Almennt markmið með endurskoðuninni væri tvíþætt. Í fyrsta lagi að gera Háskóla Íslands betur kleift að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu sem hann hefði sett sér. Í þessu fælist m.a. að:

  • Styrkja faglegar og stjórnunarlegar einingar og gera þær öflugri.
  • Efla stoðþjónustu við kennara.
  • Efla þjónustu við nemendur.
  • Færa vald til framkvæmda nær grasrót.
  • Styrkja stjórnsýslu og gera hana skilvirkari.

 
Í öðru lagi væri markmiðið með endurskoðuninni að gera Háskóla Íslands betur fært að fást við breytt starfsumhverfi sem einkennist m.a. af stóraukinni samkeppni við innlenda og erlenda háskóla um fjármagn, nemendur, kennara, verkefni og aðstöðu. Atvinnulífið í landinu hefði breyst hratt og mikið á síðustu árum og það gilti ekki síður um tengsl þess við háskóla.
 
Þá rakti rektor vinnuferlið við endurskoðunina og sagði hana hafa einkennst af víðtæku samráði við alla málsaðila:

  • Upphaf málsins má rekja til þess að á árunum 2004-2005 voru gerðar nokkrar viðamiklar úttektir á Háskóla Íslands þar sem úttektaraðilar bentu m.a. á að Háskólinn væri skipulagður í of mörgum og smáum einingum miðað við markmið hans og miðað við þróun háskóla í nágrannalöndum okkar.
  • Þessari umræðu var áfram haldið í tengslum við stefnumótunarvinnu innan Háskólans veturinn 2005-2006.
  • Í maí 2006 var svo stefna Háskóla Íslands 2006-2011 samþykkt á háskólafundi og í háskólaráði, en í stefnunni segir m.a. undir fyrirsögninni „Háskóla Íslands verði skipt í nokkra skóla og stjórnkerfi hans styrkt“:

 
„Skora- og deildaskipting Háskóla Íslands verði endurskoðuð í því skyni að efla starfseiningar hans. Skipuð verði nefnd sem geri tillögu að skiptingu Háskóla Íslands í skóla sem hver um sig starfi í aðgreindum deildum. Nefndin vinni í nánu samstarfi við deildarforseta. Hún skili tillögum og kynni þær fyrir mitt ár 2007.

Viðræðum um hugsanlega sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands verði haldið áfram. Komi til sameiningar verði hún undirbúin vandlega, m.a. í tengslum við skiptingu hinnar nýju stofnunar í skóla. Ef af sameiningu verður skal hún komin til framkvæmda 1. júlí 2008.“
 
·   Í kjölfarið skipaði háskólaráð starfshóp í september 2006, svokallaða „skólaskiptingarnefnd“, og voru fyrstu hugmyndir hennar ræddar í háskólaráði, á deildarforsetafundum og á háskólafundi í nóvember 2006.
·   Hugmyndirnar voru sendar öllum starfseiningum Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands til kynningar og óskað eftir áliti þeirra.
·   Við undirbúning málsins hefur einnig verið aflað ráðgjafar erlendra sérfræðinga og gagna vegna sambærilegrar endurskoðunar í öðrum háskólum. Meðal annars heimsóttu Háskóla Íslands sérfræðingar frá Aberdeen háskóla í Skotlandi sem nýlega hefur gengið í gegnum endurskoðun á skipulagi sínu og sameiningu við kennaraháskóla.
·   Á háskólafundi 16. mars sl. voru svo kynntar og ræddar tillögur skólaskiptingarnefndarinnar.
·   Í kjölfarið var efnt til fundarlotu dagana 26. mars til 4. apríl sl. með aðilum að mögulegum skólum, þ.e. forsetum núverandi deilda, formönnum skora og fulltrúum Kennaraháskóla Íslands.
·   Önnur fundarlota með sömu aðilum var haldin á tímabilinu 10. apríl til 7. maí sl.
·   Ennfremur hélt rektor fundi með stjórnum Félags prófessora og Félags háskólakennara og fleiri hagsmunaaðilum.
·   Loks hefur verið unnið að framgangi málsins á vettvangi skólaskiptingarnefndar sem hefur fundað reglulega samhliða öllu ferlinu.
 
Þá lýsti rektor næstu skrefum í vinnslu málsins:
·   Tillaga skólaskiptingarnefndar er til annarrar umræðu á þessum háskólafundi.
·   Í framhaldi af fundinum verður haldin þriðja fundalotan með aðilum að hinum væntanlegu skólum og verður að þessu sinni öllu starfsfólki, einnig í sameiginlegri stjórnsýslu, boðið að taka þátt í fundunum sem haldnir verða á tímabilinu frá 21. maí nk. til 1. júní nk.
·   Leitað verður álits hjá sérfræðingum Háskólans í opinberri stjórnsýslu.
·   Aflað verður ráðgjafar frá stjórnendum University of Minnesota, Bandaríkjunum, sem nýlega hafa gengið í gegnum hliðstæða endurskipulagningu og eru væntanlegir í heimsókn til Háskóla Íslands í lok maí nk.
·   Endurskoðaðar tillögur verða sendar deildum, félögum starfsmanna og stúdenta og Kennaraháskóla Íslands til formlegrar umsagnar í byrjun júlí og er gert ráð fyrir að umsögnum verði skilað fyrir 17. september nk.
·   Farið verður vandlega yfir umsagnirnar og þær síðan kynntar í háskólaráði. Loks verður lokatillaga um endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands lögð fram til umræðu og afgreiðslu á háskólafundi í október nk.
 
Að endingu fór rektor stuttlega yfir stöðu viðræðna um samvinnu og mögulega sameiningu núverandi deilda og skora. Sagði rektor að í umræðum síðustu mánuðina hefðu komið fram fjölmörg ný sjónarhorn á málið og ljóst væri að sífellt fleiri aðilar sjái tækifæri í aukinni samvinnu. Lauk rektor máli sínu með því að beina því til fundarmanna að mikilvægt væri að hinir nýju skólar verði ekki fleiri en fimm að tölu eigi markmið endurskoðunarinnar um eflingu stjórnkerfis og stoðþjónustu að nást.
 
Að framsögu sinni lokinni bauð rektor Ólafi Þ. Harðarsyni, formanni skólaskiptingarnefndar, að kynna tillögur nefndarinnar.
 
Kynning Ólafs bar yfirskriftina „Lýðræði og skilvirkni 2“, enda um að ræða framhald á kynningu á síðasta háskólafundi.
 
Byrjaði Ólafur á því að greina frá skipun starfshópsins, en í honum sitja, auk formanns, eftirtaldir einstaklingar:
·   Inga Jóna Þórðardóttir, viðskiptafræðingur og fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði,
·   Jón Atli Benediktsson, prófessor við verkfræðideild, þróunarstjóri Háskólans og aðstoðarmaður rektors,
·   Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands,
·   Róbert H. Haraldsson, dósent og varaforseti hugvísindadeildar,
·   Rögnvaldur Ólafsson, dósent við raunvísindadeild,
·   Sigurður Örn Hilmarsson, fyrrverandi formaður Stúdentaráðs og
·   Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor við lyfjafræðideild og fulltrúi heilbrigðisvísindasviðs í háskólaráði.
·   Með starfshópnum hafa unnið þau Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskólans, Steinunn Halldórsdóttir, verkefnisstjóri sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs.
 
Næst greindi Ólafur frá þeim meginhugmyndum sem liggja endurskoðuninni til grundvallar:
·   Háskóla Íslands verði skipt í fimm skóla sem verði öflugar einingar með styrka forystu, sem geti veitt stoðþjónustu nálægt vettvangi. Núverandi deildir eru of litlar til að rísa undir þessu hlutverki.
·   Skýr verkaskipting verði á milli yfirstjórnar, skóla, deilda og rannsóknastofnana. Við skiptingu verka er tekið mið af hinni svonefndu grenndarreglu (subsidiarity principle).
·   Skýrari verkaskipting verði á milli „löggjafarvalds“ og „framkvæmdavalds“ á öllum stigum.
·   Áhersla verði lögð á þverfræðilegt samstarf.
 
Næst fór Ólafur yfir umræðu síðustu tveggja mánaða, þ.e. frá háskólafundinum í mars sl.:
·   Sjálf skólaskiptingin er komin vel á veg.
·   Deildir verða faglegar einingar skólanna, þær munu hafa skýra ásýnd og vera stjórnunareiningar með öfluga stoðþjónustu.
·   Lagt er kapp á að greiða fyrir auknu þverfræðilegu samstarfi, bæði innan skólanna og á milli þeirra.
·   Nokkuð hefur verið rætt um stjórnkerfi og fjárskiptikerfi, en sú umræða á enn nokkuð í land.
 
Næst lýsti Ólafur skipan og hlutverki sameiginlegrar yfirstjórnar Háskólans skv. tillögunum:
·   Háskólaráð: Rektor (formaður), þrír fulltrúar starfsfólks, tveir fulltrúar stúdenta, þrír utanaðkomandi fulltrúar. Hlutverk svipað og nú.
·   Rektor: Val og hlutverk svipað og nú.
·   Háskólaþing: Akademískt „senat“, svipað háskólafundi.
·   Forsetanefnd: Rektor og skólaforsetar, n.k. framkvæmdastjórn.
·   Fastanefndir heyri undir háskólaráð og/eða háskólafund.
·   Verkefni: Þau verkefni verði sameiginleg sem skynsamlegt og hagkvæmt er að leysa á sameiginlegum vettvangi.
 
Stjórnkerfi skólanna fimm skv. tillögunum:
·   Skólaráð: Skólaforseti og deildarformenn (e.t.v. einhverjir viðbótarfulltrúar). Ráðið fjallar um fjármál og forystu skólanna.
·   Skólaforseti: Ráðinn af rektor til fimm ára, umsögn valnefndar (fulltrúar skóla og rektors). Akademískt hæfi, leiðtogahæfileikar, reynsla af stjórnun og stefnumótun. Framkvæmdastjóri og leiðtogi.
·   Skólafundur: Fulltrúar deilda og stúdenta. Samráðsvettvangur deilda. Stefnumótun skóla.
·   Verkefni: Þau sem æskilegt og hagkvæmt er að færa nær grasrót, en henta ekki minni einingum (deildum).
 
Tillögurnar gera ráð fyrir að deildir verði faglegar grunneiningar Háskólans og að skipulag og hlutverk þeirra verði sem hér segir:
·   Deildarráð: Deildir geti haft deildarráð sem gegni sumum verkefnum deildarfundar.
·   Deildarformaður: Kjörinn af deild til þriggja ára (skólaforseti staðfestir, deildarformaður má vera utanfrá ef deild vill). Akademískt hæfi, leiðtogahæfileikar, stjórnunarreynsla. Starfshlutfall ræðst af umsvifum deildar.
·   Deildarfundur: Almennur fundur akademískra starfsmanna og stúdenta. Stefnumótun og innri mál deildar.
·   Verkefni: Þau sem æskilegt og hagkvæmt er að hafa næst vettvangi.
 
Hlutverk og skipulag rannsóknastofnana er skilgreint svo í tillögunum:
·   Við hvern skóla verði a.m.k. ein rannsóknastofnun sem geti skipst í stofur.
·   Rannsóknastofnanir tengist skólum og deildum sem nánustum böndum.
·   Skólaforseti ráði forstöðumann og akademíska starfsmenn.
 
Að lokum fór Ólafur nokkrum orðum um væntanlega skiptingu skóla í deildir:
·   Gert er ráð fyrir að tillögur um deildaskiptingu innan skóla komi úr grasrótinni.
·   Stærð deildar hefur áhrif á verkaskiptingu á milli deildar og skóla og umfang stoðþjónustu deildar.
 
Rektor þakkaði Ólafi fyrir framsöguna og gaf orðið laust.
 
Málið var rætt ítarlega og komu fram fjölbreytt sjónarmið. Flestir fundarmenn lýstu ánægju sinni með tillögurnar og töldu þær marka mikið framfaraspor fyrir Háskóla Íslands.
 
Fulltrúi viðskipta- og hagfræðideildar skýrði frá því að hann hefði á undanförnum árum ferðast víða um lönd til að kynna sér þróun háskóla. Taldi hann að hvort sem litið væri til Evrópu, Bandaríkjanna, Asíu eða Ástralíu væri allstaðar ríkjandi sama viðleitni til þess að gera skipulag skólanna gegnsærra og opna þá gagnvart samfélagi og atvinnulífi. Í þessu fælist m.a. aukin krafa um að háskólar öfluðu sér sértekna, fjölgað yrði utanaðkomandi aðilum í stjórn þeirra og síaukin áhersla væri lögð á gæði og skilvirkni. Fyrirliggjandi tillögur um endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands stefndu að sömu markmiðum. Sagði fulltrúinn að hann teldi Stanford-háskóla í Bandaríkjunum vera með stjórnkerfi sem að ýmsu leyti væri til fyrirmyndar. Þar væri háskólaráðið að öllu leyti skipað utanaðkomandi fulltrúum og réði það rektor háskólans. Skólaforsetar þyrftu að hafa akademískt hæfi og þeir væru einnig ráðnir. Deildarformenn væru valdir af deildunum sem byggju við mikið akademískt frelsi. Þá væri athyglisvert að senatið, sem er hliðstætt háskólafundi eða háskólaþingi, hefði mun meira hlutverk en hjá okkur. Í stefnu Háskóla Íslands væri kveðið á um að endurskoða ætti hlutverk háskólaþings og þetta kæmi einnig fram í tillögum skólaskiptingarnefndar. Í þessu sambandi væri nærtækast að kennslumálanefnd, vísindanefnd og gæðanefnd, sem fjölluðu um akademísk málefni og heyrðu nú undir háskólaráð, myndu framvegis starfa á vegum háskólaþingsins en fjármálanefnd heyrði áfram undir háskólaráð. Með þessu móti kæmist á skýrari aðgreining á milli akademískra og rekstrarlegra málefna. Í háskólaráði myndi þá sitja fólk sem horfði fyrst og fremst á heildarhagsmuni háskólans en ekki þrönga sérhagsmuni einstakra skóla. Að lokum lýsti fulltrúinn þeirri skoðun sinni að framangreind atriði sýndu í hnotskurn muninn á aðferðunum við stjórnun háskóla sem hingað til hefur verið beitt í Evrópu annars vegar og í Bandaríkjunum hins vegar. Stjórnunaraðferðirnar sem beitt er í háskólum í Evrópu væru veigamikil ástæða fyrir því að þeir væru síður í fremstu röð háskóla í heiminum en í Bandaríkjunum. Af þessu ættum við að draga lærdóm og taka okkur stjórnunaraðferðir bandarískra háskóla til fyrirmyndar.
 
Fulltrúi Félags prófessora skýrði frá því að stjórn félagsins hefði sent frá sér tvær ályktanir um málið: Í fyrsta lagi að akademískt hæfi ætti að vera skilyrði fyrir ráðningu skólaforseta og í öðru lagi að akademískir fulltrúar í háskólaráði ættu að vera fleiri en tillögurnar gerðu ráð fyrir og að eðlilegt væri að þeir væru skólaforsetar.
 
Formaður skólaskiptingarnefndar svaraði því til að í stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 væri skýrt kveðið á um að fjölga ætti utanaðkomandi fulltrúum í háskólaráði og því væri óhjákvæmilegt að breyta samsetningu þess. Vissulega kæmi til greina að fjölga jafnframt í ráðinu en það væri þó tvíbent. Með lögum um Háskóla Íslands frá 1999 hefði einmitt verið horfið frá fulltrúastjórn með ellefu deildarforsetum og stjórnkerfi skólans fært til nútímalegra horfs með því að gera stjórn hans sjálfstæðari í störfum sínum. Í umræðum síðustu mánaða hefði m.a. komið til tals sá möguleiki að hver skóli ætti fulltrúa í háskólaráði en þessir fulltrúar væru þó ekki forsetar skólanna. Slík málamiðlun væri aftur á móti ekki gallalaus. Almennt gilti að háskólaráð væri valdamesta stofnun skólans og því skipti máli að ræða skipan þess vandlega.
 
Rektor bætti því við varðandi fyrri lið ályktunar Félags prófessora að ætlunin væri alls ekki að hverfa frá því að æðstu stjórnendur Háskólans hefðu akademískt hæfi. Spurningin væri hins vegar hversu þröngt ætti að skilgreina hæfið svo samræma mætti þau sjónarmið að fá til starfa framúrskarandi stjórnendur og að þeir hefðu jafnframt ríka reynslu og þekkingu á akademískum málefnum.
 
Fulltrúi hjúkrunarfræðideildar, sem jafnframt er formaður Félags prófessora, vísaði til þess að formaður skólaskiptingarnefndar sagði í inngangi sínum að vald yrði sem næst vettvangi eða grasrótinni. Sagði fulltrúinn að þótt sammæli væri um þetta markmið væri ekki ótvírætt hvort leiðirnar í tillögum skólaskiptingarnefndar þjónuðu þessum markmiðum eða hvort þær fórnuðu e.t.v. um leið öðrum verðmætum. Það lægi í eðli háskóla að þar væru unnin sérhæfð störf á sviði kennslu og rannsókna, en háskólar væru hvorki almennar stjórnsýslustofnanir né fyrirtæki. Stjórnkerfi háskóla ætti að hlúa að kjarnastarfsemi hans, efla hana og styrkja. Út úr tillögum skólaskiptingarnefndarinnar mætti hins vegar lesa að þær veiktu þennan kjarna. Þá hafði fulltrúinn orð á því að útfæra þyrfti betur vald deilda en gert væri í fyrirliggjandi tillögum. Til dæmis væri gert ráð fyrir að frumkvæðið að skiptingu fjár til deilda kæmi frá skólaforseta en ekki deildunum sjálfum. Með tilkomu skólanna færu deildir inn í stærri einingar og erfitt væri að sjá hvernig deildirnar, einkum hinar óskorarskiptu, kæmu að mikilvægum ákvörðunum. Þá ítrekaði fulltrúinn mikilvægi þess að þeir sem mótuðu stefnuna í akademískum málum, rektor og skólaforsetar, hefðu ótvírætt akademískt hæfi og reynslu. Einnig sagði hann að utanaðkomandi fulltrúar í háskólaráði ættu að vera valdir af Háskólanum sjálfum enda ætti æðsta stjórn skólans að þiggja umboð sitt frá deildunum. Loks væri tillaga skólaskiptingarnefndar um samsetningu háskólaráðs ekki til bóta og ekki hefðu komið fram sannfærandi rök fyrir því að ekki mætti skapa mótvægi gegn fjölgun utanaðkomandi fulltrúa með því að fjölga einnig fulltrúum skólanna. Erlend dæmi sýndu að háskólaráð væru oft fjölmennari en hér væri gert ráð fyrir.
 
Fulltrúi Landsbókasafns - háskólabókasafns greindi frá því að á vettvangi safnsins hefði verið fylgst náið með umræðunni um endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskólans og að afar mikilvægt væri að á þeim tímamótum sem framundan væru yrði hugað sérstaklega að tengslum skólans og safnsins. Í tillögunum væri mikil áhersla lögð á að styrkja stoðþjónustu og þyrfti safnið sem þjónustustofnun að koma að því máli á sviði bókasafns- og upplýsingamála. Við Landsbókasafn - háskólabókasafn störfuðu nú um 100 manns sem byggju yfir mikilli reynslu, m.a. af samstarfi við fræðasvið Háskólans. Spurningin væri, hvernig Háskólinn vildi nýta þessa auðlind og hvernig safnið gæti lagt skólanum lið til að komast í hóp 100 bestu háskóla í heimi. Nánar tiltekið þyrfti að leita svara við nokkrum spurningum:
·   Á að vera eitt bókasafn fyrir Háskóla Íslands?
·   Munu bókasöfn Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands sameinast? Hver verður staða starfsmanna?
·   Hvað verður um bókasöfn lagadeildar, verk- og raunvísindadeildar og Öskju?
·   Vill Háskólinn leggja fram aukið fé til kaupa á efni, bæði rafrænu og öðru?
·   Hvaða efni á að greiða af sameiginlegu fé og hvað eiga hinir nýju skólar að kaupa?
·   Hvernig eiga formleg tengsl á milli bókasafnsins og Háskólans að vera? Á að skipa bókasafnsnefndir eða halda áfram með tengiliðakerfi eins og verið hefur?
·   Hvaða kröfur gerir Háskólinn um námskeið fyrir nemendur og kennara - bæði almenn og sérsniðin?
·   Á að veita rafrænan aðgang að nemendaritgerðum á safninu?
·   Hvaða gögnum á bókasafnið að miðla af vef og hvernig á að samtengja þau upplýsingakerfi sem eru fyrir hendi? Á safnið t.d. að tengjast Uglu í auknum mæli?
·   Á að setja á fót rafræna gagnageymslu (e. Institutional Repository) fyrir rannsóknaniðurstöður og vísindaleg skrif innan skólans?
 
Rektor þakkaði fulltrúa Landsbókasafns - háskólabókasafns kærlega fyrir gott innlegg og sagði það vera mikilvægan hluta af stefnu Háskólans að auka bókakost og aðgengi að rafrænum upplýsingum. Til að tryggja framgang þessa stefnumiðs væri nauðsynlegt að huga sérstaklega að tengslum safns og skóla á næstunni.
 
Formaður Stúdentaráðs tók undir framkomin sjónarmið um bókasafnið og sagði þau hafa verið mikið rædd í hópi stúdenta. Lýsti hún yfir vilja stúdenta til að taka þátt í umræðunni um hlutverk safnsins í framtíðarskipulagi Háskólans.
 
Fulltrúi viðskipta- og hagfræðideildar tók undir mikilvægi þess að hugað yrði sérstaklega að bókasafnsmálum í tengslum við nýtt skipulag og stjórnkerfi. Svo dæmi væri tekið frá Stanford-háskóla í Bandaríkjunum hefðu þar nýlega verið búin til vefsvæði fyrir hvert einasta námskeið þar sem safnað væri saman tenglum við allt námsefni. Álíka framsýni kæmi fram í háskólanum í Nýju Suður-Wales þar sem upplýsinga- og bókasafnsfræðingar litu á sig sem samstarfsaðila og ráðgjafa við nemendur og starfsmenn. Þar hefði bókasafninu verið breytt í vinnustöð nemenda, kennara og starfsmanna safnsins.
 
Fulltrúi guðfræðideildar sagði umræðuna um endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands merkilega fyrir þá sök að þótt hún líktist að mörgu leyti háskólaumræðunni á Norðurlöndum væri sá reginmunur á að þar hefðu stjórnkerfisbreytingarnar komið til að frumkvæði stjórnvalda sem hefðu þrýst á skólana að innleiða þær, en hér á landi hefði Háskólinn sjálfur hafið umræðuna og haft frumkvæði að breytingunum. Sú leið sem Háskóli Íslands hefði kosið væri afar jákvæð því best færi á því að skólinn mótaði sér framtíðarstefnu á eigin forsendum. Þetta gæfi skólanum svigrúm til að móta hugmyndir sínar og leiða þær farsællega til lykta. Þótt mikilvægt væri að sníða vankanta af núverandi stjórnkerfi og gera það gegnsærra skipti einnig máli að gera sér glögga grein fyrir því að Háskóli Íslands tilheyrði ákveðinni hefð sem ekki hefði orðið til fyrir tilviljun og hefði reynst vel að mörgu leyti. Þessa hefð beri að virða um leið og hún yrði færð til nútímalegs horfs. Þá gerði fulltrúi guðfræðideildar að umtalsefni skiptingu hinna væntanlegu skóla í deildir og sagði hana horfa ólíkt við einstökum grunneiningum Háskólans eins og þær væru nú. Fyrir litla, gamla og óskorarskipta deild á borð við guðfræðideild skipti miklu máli að vera áfram tiltölulega sjálfstæð eining og að geta kallað sig deild. Á síðasta háskólafundi hefði mikið verið talað um stærðarmælikvarða varðandi skiptingu í deildir, en ekki síður skipti máli að horfa til faglegrar sérstöðu og huglægra þátta á borð við sjálfsmynd. Raunar væri það svo að sjálfsmynd guðfræðideildar væri mitt á milli hugvísindadeildar og félagsvísindadeildar. Einnig einkenndi það sjálfsmynd deildarinnar að hún væri í senn akademísk vísindastofnun og starfsmenntaskóli sem menntaði og þjálfaði starfsstéttir presta og djákna. Þetta ylli vissri spennu sem hefði áhrif á afstöðu deildarinnar til framtíðarstaðsetningar sinnar.
 
Formaður Stúdentaráðs minnti á mikilvægi þess að stúdentar ættu aðkomu að öllum stjórnstigum hins nýja skiplags, þ.m.t. hinum svonefndu skólaráðum. Rík áhersla væri lögð á þetta á vettvangi Bologna-ferlisins og það beri að virða.
 
Forseti viðskipta- og hagfræðideildar greindi frá því að varðandi sjálfa skólaskiptinguna teldi deildin sig eiga mesta samleið með lagadeild. Einnig ítrekaði hann að greina þyrfti á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Í hans huga væri háskólaráð aðili sem setti reglur og mótaði almenna stefnu. Miklu skipti að í háskólaráði gæti utanaðkomandi áhrifa og forsetar skólanna ættu ekki að eiga þar sæti. Mikilvægara væri að þeir skipuðu forsetaráð sem ætti að vera hin eiginlega framkvæmdastjórn Háskólans. Í núverandi skipulagi héldi rektor reglulega samráðsfundi með deildarforsetum og væri eðlilegt að þessir fundir fengju formlegri stöðu. Þá sagði hann mikilvægt að halda sig við skólaheitið.
 
Forseti lagadeildar varpaði fram þeirri spurningu hvort tilkoma hinna nýju skóla bætti við nýju stjórnsýslulagi á milli deilda og yfirstjórnar. Andstætt forseta viðskipta- og hagfræðideildar taldi hann skólaheitið ekki heppilegt því það gæfi til kynna að verið væri að rjúfa einingu Háskólans sem myndi skaða bæði ásýnd hans og núverandi deilda. Mikilvægt væri að deildirnar héldu orðspori sínu og yrðu áfram akademískar grunneiningar Háskólans sem brautskráðu nemendur. Vel mætti ná settum markmiðum án þess að skapa nýtt miðjulag og flækja þannig málin að óþörfu. Um skipan háskólaráðs sagði forsetinn að horfa þyrfti á málið út frá því markmiði sem ætti að ná. Ef markmiðið væri að koma á stjórnunarháttum eins og í fyrirtækjum, eins og tíðkaðist í háskólum í Bandaríkjunum, m.a. til að tryggja aukið eftirlit og aðhald, væri skynsamlegt að fjölga utanaðkomandi fulltrúum í háskólaráði. Ef markmiðið væri hins vegar að auka slagkraft skólans út á við gæti verið skynsamlegra að skólaforsetar ættu þar sæti. Fyrsta skrefið væri m.ö.o. að skilgreina markmiðið og ákveða svo fyrirkomulagið út frá því. Um stefnumótun og reglusetningu sagði forsetinn að heppilegast væri að stefnumótun færi fram á vettvangi deildarfundar en ýmis sameiginleg mál ættu að fara til skólafundar.
 
Forseti raunvísindadeildar minnti á að verið væri að ræða málið í annað sinn á vettvangi háskólafundar og mörg sjónarmið hefðu þegar komið fram sem ekki væri ástæða til að endurtaka. Vísaði forsetinn í þessu sambandi til fundargerðar 22. háskólafundar sem gæfi greinargott yfirlit yfir umræðuna. Þá vitnaði hann í grein eftir Luc Weber sem birtist í Bologna Handbook (2006) þar sem farið er ítarlega yfir ýmis sjónarmið um stjórnun háskóla. Ein af niðurstöðum greinarinnar er sú að hin svonefnda grenndarregla (subsidiarity principle), sem kveður á um að ákvarðanir eigi að vera teknar á lægsta mögulega stjórnsýslustigi, ætti að vera ráðandi í háskólastjórnun. Grenndarreglan hefði almennt verið höfð í heiðri við stjórnun Háskóla Íslands frá fyrstu tíð, þótt vikið hefði verið frá henni í einstökum tilvikum, einkum þegar stærðarhagkvæmni skipti máli. Í reynd væru ekki fyrir hendi stór vandamál við stjórnun deilda Háskólans um þessar mundir. Í raunvísindadeild væri t.d. í gildi plagg sem skýrði nákvæmlega valdsvið hverrar einingar fyrir sig og nokkrir einstakir vankantar hefðu verið sniðnir af stjórnkerfi deildarinnar á undanförnum árum, s.s. varðandi framkvæmd ráðningar- og framgangsmála sem hefði verið tekin úr höndum deildarfundar. Um framlögð gögn skólaskiptingarnefndar sagði forsetinn að hann teldi þau nokkuð vanreifuð og ekki nægilega rökstudd. Of mörg mál væru enn opin eins og fram hefði komið í framsögu formanns nefndarinnar. Þá vék forsetinn að einstökum atriðum í tillögunum. Í fyrsta lagi lýsti hann þeirri skoðun sinni að með því að hafa þrjá utanaðkomandi fulltrúa í háskólaráði myndu valdahlutföll skekkjast. Þó væri ekki hægt að meta þetta endanlega nema fyrir lægi hvert hlutverk ráðsins ætti að vera. Í öðru lagi hélt forsetinn því fram að hugsa ætti hlutverk og verkaskiptingu á milli háskólaráðs og háskólafundar hliðstætt framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi í stjórnskipun ríkisins. Þannig ætti háskólafundur að hafa reglusetningarvaldið en háskólaráð að hafa með höndum framkvæmdavaldið. Í þriðja lagi lýsti hann sig andsnúinn því að skólaforsetar væru ráðnir af rektor. Miklu skipti að þeir sæktu umboð sitt frá starfsmönnum, að öðrum kosti væri ekki tryggt að þeir nytu fulls trausts. Sömu rök hlytu að gilda um val á rektor og skólaforseta. Hingað til hefðu heldur ekki verið nein vandamál í samskiptum deildarforseta og rektors og því væri ekki að sjá hvaða rök mæltu með því að skólaforsetar ættu framvegis að vera ráðnir. Í fjórða lagi vék forsetinn að skólaskiptingunni og yfirstandandi viðræðum um sameiningu verkfræðideildar og raunvísindadeildar. Fagnaði hann því að horfið hefði verið frá því að flytja líffræðiskor frá raunvísindadeild til heilbrigðisvísindaskólans en lýsti jafnframt furðu sinni á því að til stæði að færa burt matvæla- og næringarfræði.

Rektor benti á að umræðan um stöðu líffræði og matvæla- og næringarfræði væri til komin vegna eindreginnar óskar viðkomandi skora. Við nánari athugun hefði komið í ljós að líffræðin vildi halda kyrru fyrir í raunvísindadeild en framtíðarstaðsetning matvæla- og næringarfræðiskorar væri ekki ákveðin.
 
Forseti læknadeildar skýrði frá því að nú þegar væri orðinn til vísir að heilbrigðisvísindasviði því viðkomandi deildir hefðu um nokkurt skeið haldið mánaðarlega fundi til að fjalla um sameiginleg mál. Almennt væri afstaða deildanna til sameiningar jákvæð þótt vissulega þyrfti að leysa ýmis álitamál. Einkum hefðu núverandi deildir áhyggjur af því að glata sjálfstæði sínu og ímynd. Þegar horft væri á málið með þessum hætti virtist skipta höfuðmáli hvor leiðin verði farin, að styrkja deildir sem grunneiningar þannig að fræðasvið verði einkum samþættingarvettvangur eða að styrkja fræðasviðin sem grunneiningar og minnka vægi deilda að sama skapi. Hins vegar mætti allt eins snúa dæminu við og segja sem svo að þegar fjórar deildir sameinuðust kæmi upp þörf fyrir einn sameiginlegan talsmann. Þá kæmi upp sú spurning, hvort velja ætti einn úr hópnum eða kjósa hann utanfrá. Í öllum þessum málum þyrfti að tryggja að stærsti aðilinn réði ekki öllu. Raunar taldi forseti læknadeildar að umræðan hefði snúist alltof mikið um það, hvar hver skuli vera. Í stað slíks skæklatogs ætti að horfa til þess hvernig aðilar gætu aukið samstarf. Einnig kom forsetinn inn á hugtök og heiti og lýsti þeirri skoðun heilbrigðisvísindadeilda að betra væri að nota orðið „svið" en „skóli". Síðarnefnda orðið gæfi til kynna að verið væri að kljúfa Háskóla Íslands í einingar. Síðan varpaði forsetinn fram þeirri spurningu, hver yrði staða þeirra eininga sem væru undir deildum? Ef þetta yrði ekki skýrt væri hætt við að það leiddi til þess að margar faglegar einingar kepptust við að vera deildir. Loks spurði forsetinn hver ætti að vera staða rannsóknastofnana innan ramma hins nýja skipulags.
 
Formaður skólaskiptingarnefndar svaraði að ekki hefði verið útfært nákvæmlega hvernig deildir skiptust niður í smærri einingar hvort sem þær myndu heita námsbrautir, námsleiðir, námsgreinar eða eitthvað annað. Einnig ætti eftir að útfæra nánar fyrirkomulag rannsóknastofnana.
 
Þróunarstjóri Háskólans þakkaði fundarmönnum fyrir góðar athugasemdir og ábendingar. Taldi hann vaxandi samstöðu vera um tillögurnar og að ágreiningsefni væru hvorki mörg né mikil. Greindi hann frá því að í viðræðum verkfræðideildar og raunvísindadeildar hefðu komið fram margir samstarfsfletir, s.s. á sviði orkuvísinda. Einnig vék þróunarstjóri að umræðunni um fyrirtækjastjórnun og jafningjastjórnun og taldi hann tillögur skólaskiptingarnefndar ekki færa stjórnkerfi Háskólans nær fyrirtækjastjórnun. Þá tók hann undir þau orð forseta guðfræðideildar að miklu skipti að Háskólinn tæki forystu í málinu og hefði frumkvæði að því að komi hugmyndum sínum á framfæri við ríkisvaldið. Einnig velti þróunarstjóri þeirri spurningu upp, hvaða álitaefni stæðu helst út af borðinu og nefndi hann í því sambandi ráðningu stjórnenda skólanna. Benti hann á að lítill munur væri á fyrirliggjandi tillögum um þetta efni og því sem nú þegar gilti um ráðningu akademískra starfsmanna. Í báðum tilvikum væri um að ræða valnefnd sem kæmi að mestu leyti úr skólunum þótt rektor hefði endanlegt ráðningarvald. Aðalatriðið væri að ráðningarmál væru ekki lengur á höndum deildarfundar. Í báðum tilvikum væri hugmyndin að hafa ráðningarferlið opið þannig að utanaðkomandi aðilar gætu sótt um. Ef ráðning yrði áfram ákveðin með kosningu á deildarfundi ættu slíkir umsækjendur litla möguleika. Almennt væri verið að færa vald frá rektor til skóla og því væri eðlilegt að rektor kæmi með einhverjum hætti að málinu. Um vald skólaforseta sagði þróunarstjóri að hugmyndin væri að auka það án þess að það leiddi til þess að Háskólinn liðaðist í sundur. Um skipan og hlutverk háskólaráðs sagði hann að þótt núverandi fyrirkomulag hefði reynst allvel væri nauðsynlegt að tryggja aðkomu utanaðkomandi sjónarmiða. Að lokum sagði hann að aðalatriðið með fyrirhuguðum breytingum væri að fá fram sterkar einingar sem myndu efla Háskóla Íslands.
 
Forseti hjúkrunarfræðideildar skýrði frá því að tillögur skólaskiptingarnefndar hefðu verið ræddar í deildarráði og á tveimur deildarfundum og hefðu deildarmenn almennt verið mjög jákvæðir gagnvart þeim. Fram hefði komið skýr vilji um að faglegt sjálfstæði deilda verði áfram tryggt og hefði samþykkt þar um verið send til skólaskiptingarnefndar. Þá væru deildarmenn þeirrar skoðunar að betra væri að kalla grunneiningarnar fimm „svið“ frekar en „skóla“. Á fundunum hefði einnig komið fram að skýra þyrfti betur ýmis einstök atriði, einkum vald skólaforseta, deildarformanns, skólaráðs og skólafundar. Þá greindi forsetinn frá því að hjúkrunarfræðideild hefði talsvert horft til erlendra fyrirmynda varðandi stöðu hjúkrunar í alþjóðlegum rannsóknaháskólum. Nefndi forsetinn nokkur dæmi þar um. Í fyrsta lagi hefði verið litið til Washingtonháskóla í Bandaríkjunum, en honum tilheyrir hjúkrunarfræðaskóli sem hefur fengið hæstu gæðaeinkunn í bandarískum háskólaúttektum nokkur undanfarin ár. Í Washingtonháskóla eru 17 skólar og þar af einn hjúkrunarfræðaskóli sem samanstendur af þremur deildum, atferlis- og lífvísindadeild, barna- og fjölskyldudeild og samfélagsheilbrigðisdeild. Í öðru lagi hefði háskólinn í Iowa verið skoðaður, en honum tilheyrir sá erlendi hjúkrunarfræðaskóli sem hefur haft mest samstarf við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Skólinn er framarlega í hjúkrunarfræði skv. Bandarískum gæðaúttektum og fær hann hæstu einkunn í hjúkrunarstjórnun. Háskólinn í Iowa skiptist í 11 skóla og er einn þeirra hjúkrunarfræðaskóli sem samanstendur af þremur deildum, deild hjúkrunar fullorðinna og aldraðra, deild foreldra-, barna- og fjölskylduhjúkrunar og deild stjórnunar og sérþjálfunar. Í þriðja lagi hefði verið horft til Háskólans í Lundi, en hann er samkvæmt stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 einn af viðmiðunarháskólum hans. Í háskólanum í Lundi er hjúkrun enn fremur ný og veikburða grein, en Lundarháskóli samanstendur af 9 skólum og þar að einum læknaskóla. Í Læknaskólanum eru 6 deildir, 5 á sviði læknisfræði og ein heilbrigðisvísindadeild. Í heilbrigðisvísindadeildinni eru 6 skorir, þ.e. iðjuþjálfun og öldrunarfræði, öldrunarlækningar, heilsuhagfræði og réttarlækningar, sjúkraþjálfun, samfélagslækningar og alþjóðaheilsa og svo hjúkrun. Að dómi hjúkrunarfræðideildar er stjórnsýslufyrirkomulag háskólans í Lundi ekki heppilegt og síst til eftirbreytni fyrir Háskóla Íslands. Í fjórða og síðasta lagi fór hjúkrunarfræðideild sérstaklega í heimsókn til Háskólans í Minnesota í Bandaríkjunum til að kynna sér starfsemi hans. Þar er eitt svið skólans heilbrigðisvísindasvið (Health Care Center) og tilheyra því læknadeild, hjúkrunarfræðideild, lyfjafræðideild, tannlæknadeild og dýralæknadeild ásamt lýðheilsuvísindadeild. Hugnaðist íslensku gestunum vel fyrirkomulagið í Minnesota, ekki síst vegna þess að þar heldur hjúkrunarfræðideildin algjörlega faglegu og fjárhagslegu sjálfstæði sínu.
 
Fulltrúi félagsvísindadeildar taldi miklu skipta í hinu nýja skipulagi að skýrt væri hver færi með ákvörðunarvald og hver væri ráðgefandi. Einnig væri mikilvægt að sjá hvernig verkefnastjórnun yrði háttað, þ.e. hver bæri ábyrgð á hvaða verkefni og skilum á því. Lagði fulltrúinn áherslu á að starfsfólk yrði áfram upplýst um þróun málsins og lagði til að þegar skipulagsbreytingin væri um garð gengin yrði haldið námskeið til að kynna hana fyrir starfsmönnum Háskólans. Loks spurði fulltrúinn hvernig einstakar greinar gætu haldið áfram að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og ítrekaði að afstaða náms- og starfsráðgjafar til þess hvar greinin yrði staðsett í framtíðinni væri óbreytt.
 
Rektor svaraði því til að á næstunni yrðu haldnir opnir fundir með aðilum að hinum væntanlegu skólum þar sem tillögurnar yrðu kynntar og ræddar. Að því búnu færu þær til umsagnar deilda, Kennaraháskóla Íslands og félaga starfsmanna og stúdenta. Í þessu ferli gæfist öllum aðilum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
 
Forseti hugvísindadeildar taldi að mótsögn væri fólgin í því að annars vegar væri fullyrt að taka ætti ákvarðanir sem næst grasrótinni en um leið gerðu tillögurnar ráð fyrir nýju stjórnunarlagi fyrir ofan þau sem fyrir eru. Betur hefði farið á því að fylgja upphaflegu hugmyndinni og láta deildir vera ráðandi aðila í faglegum, stjórnunarlegum og fjárhagslegum málefnum. Valdið ætti að liggja hjá deildum. Þá taldi forsetinn að stjórnendur skólanna ættu að eiga beina aðild að yfirstjórn Háskólans, t.d. með því að forsetanefnd hefði formlegt vald. Með þessu móti yrði komið á skýrri verkaskiptingu á milli stjórnar og framkvæmdastjórnar. Einnig lýsti forsetinn þeirri skoðun sinni að orðið „skóli" væri óheppilegt. Að endingu sagði hann að í umræðu síðustu mánaða hefði of mikil áhersla verið lögð á stjórnsýslulegu hliðina og of lítil á faglega þáttinn.
 
Annar fulltrúi félagsvísindadeildar tók til máls og þakkaði fyrir góða umræðu. Sagði hann óvissu ríkja í félagsvísindadeild um framtíðina og að mörgum væri ekki ljóst hver markmiðin með tillögunum væru. Þá sagði fulltrúinn að stærsti vandi félagsvísindadeildar fælist í því að kennarar væru alltof fáir miðað við fjölda nemenda. Óljóst væri hvort deildin myndi fá peninga til að bæta úr þessu því svo virtist sem miklum hluta viðbótarfjárins vegna samnings Háskólans við menntamálaráðuneytið yrði varið til uppbyggingar meistara- og doktorsnáms. Þótt þetta skipti vissulega miklu máli mætti efling framhaldsnámsins ekki verða til þess að veikja grunnnámið. Almennt taldi fulltrúinn að valdið ætti að vera sem næst grasrótinni og að það sem Háskólann vantaði mest væri meira fé. Þá lýsti hann þeirri skoðun sinni að helsta ástæðan fyrir því að lagadeild og viðskipta- og hagfræðideild vildu mynda saman skóla og standa utan við félagsvísindaskólann væri sú að þær vildu geta innheimt skólagjöld. Að endingu sagði fulltrúinn að það skipti miklu máli varðandi árangurinn af sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands að menntavísindaskólinn yrði ekki áfram við Stakkahlíð og þar með landfræðilega einangraður frá öðrum fræðasviðum Háskólans.
 
Rektor sagði að það væri fullur vilji hjá stjórn Háskólans til þess að bæta hlutfallið á milli kennara og nemenda í deildum skólans, enda skýrt kveðið á um þetta atriði í stefnu hans. Einnig væru vonir bundnar við yfirstandandi endurskoðun á reiknilíkani menntamálaráðuneytisins, þótt ekki lægi fyrir að svo stöddu hvernig henni muni lykta. Þá gat rektor þess að innan Háskólans væri að störfum nefnd sem hefði það hlutverk að setja fram tillögur um skiptingu viðbótarfjár vegna samningsins við menntamálaráðuneytið. Loks væri vinnan við undirbúning sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands komin á fullan skrið og í þeirri vinnu yrði einnig hugað að húsnæðismálum. Allt væru þetta stór viðfangsefni sem verið væri að vinna að þótt þau væru ekki á dagskrá þessa fundar.
 
Forseti lyfjafræðideildar sagði að betra væri að kalla grunneiningar Háskólans „kjarna“ heldur en „skóla“. Í hugum margra gæfi síðarnefnda orðið til kynna að verið væri að hluta Háskólann í sundur. Einnig skipti máli að deildir glötuðu ekki þeirri skýru ásýnd sem þær hefðu haft. Þá væri mikilvægt að skýra betur stjórnskipulag hinna nýju fræðasviða, verkaskiptingu og fleira sem væri nauðsynlegt til þess að deildir gætu mátað sig inn í skólana.
 
Fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði lýsti ánægju sinni með yfirstandandi endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskólans. Sérstaklega væri jákvætt að skólinn hefði sjálfur tekið frumkvæði í málinu. Tók hún undir með rektor um að í yfirstandandi breytingaferli væri mikilvægast að horfa á meginmarkmiðin í stefnu skólans og að þau gerðu honum betur kleift að fást við breyttar ytri aðstæður. Horfa þyrfti með opnum huga til framtíðar og spyrja af djörfung hvernig við vildum að Háskóli Íslands eigi að breytast á næstu 10-20 árum. Þá taldi fulltrúinn mun betra að nota orðið „skóli" heldur en „svið“. Með því væri áréttað að hinir fimm skólar verði skipulagslega öflugar einingar með sterka sjálfsmynd. Einnig væri ætlunin að styrkja stoðþjónustu og það yrði best gert með því að styrkja einingarnar. Með þessu yrði valdi dreift með skilvirkum hætti innan skólans þannig að það skilaði sér til grasrótarinnar og þar með til okkar dýrmætustu auðlindar sem væri mannauðurinn. Ennfremur tók fulltrúinn undir það sjónarmið að rektor ætti að ráða skólaforseta. Forsetar skólanna yrðu nánustu samstarfsmenn rektors og miklu skipti að þeir gætu unnið vel saman. Það fyrirkomulag að hafa valnefnd tryggði að sjónarmiða skólans væri gætt. Þá væri það rétt, sem fram hefði komið, að með tilkomu skólanna væri verið að bæta við stjórnsýslustigi. Á það beri hins vegar að líta að markmiðið væri að búa til sterka stjórnsýslueiningu. Á næstu mánuðum myndi fara fram mikil og frjó umræða um málefni Háskólans sem vonandi færði okkur nýjar og fjölbreyttari lausnir. Miklu skipti að sú umræða beindist að nýjum sóknarfærum svo Háskólinn gæti haldið áfram að styrkjast og eflast. Endurskoðað stjórnkerfi og skipulag væru tæki til að gera Háskólann í stakk búinn til að endurnýja sig. Allt háskólafólk ætti að kappkosta að skólinn verði í takt við þróun samfélagsins og áfram ótvírætt forystuafl á Íslandi.
 
Fulltrúi hjúkrunarfræðideildar sagði að þegar fyrstu hugmyndir skólaskiptingarnefndar hefðu komið fram hefði einkum tvennt verið umdeilt: Í fyrsta lagi þær miklu valdheimildir sem virtust liggja hjá skólastjórnunum og í öðru lagi hversu margir hinir nýju skólar ættu að vera. Ýmsar fleiri leiðir kæmu til greina og væri sumra þeirra getið í lokaskýrslu úttektarhóps Samtaka evrópskra háskóla (EUA). Einnig kæmi til álita að búa til ný þjónustusvið deilda sem sviðsstjóri myndi stýra. Meginstjórnsýsluvandinn snéri að stoðþjónustunni og stjórnsýslunni og þessa þætti þyrfti að efla. Þá fagnaði fulltrúinn umræðunni um málefni Landsbókasafns - háskólabókasafns á fundinum. Bókasafn og upplýsingaþjónusta væru mikilvæg stoðþjónusta sem ætti að vera miðlæg, bæði vegna hagkvæmni og til að efla þverfræðilegt samstarf. Einnig væri eðlilegt að Rannsóknaþjónustan yrði miðlæg. Í yfirstandandi breytingarferli væri m.ö.o. ekki síst mikilvægt að efla miðlæga stoðþjónustu en stoðþjónustu í skólunum.
 
Fulltrúi félagsvísindadeildar þakkaði formanni skólaskiptingarnefndar fyrir greinargóða kynningu sem hefði skýrt margt. Lýsti fulltrúinn ánægju sinni með hvað almennir deildarmenn ættu greiðan aðgang að háskólafundi. Slíkt væri gott fyrir upplýsingastreymi og gerði fólki úr ólíkum deildum kleift að kynnast og heyra sjónarmið hvers annars. Í framhaldi af þessu spurði fulltrúinn hvert yrði hlutverk háskólaþings og skólafundar? Varaði hann við því að breytingarnar yrðu til þess að draga úr aðkomu hins almenna kennara að þessum mikilvægu stjórnsýslustigum. Um hugtök og heiti sagði fulltrúi félagsvísindadeildar að þótt eðlilegt væri að uppstokkun kallaði á ný heiti torveldaði það fólki jafnframt að skilja tillögurnar.
 
Annar fulltrúi félagsvísindadeildar fagnaði umræðunni á fundinum og sagði hana hafa fært okkur nær settu marki. Beindi fulltrúinn því til skólaskiptingarnefndar að hún héldi til haga framkomnum sjónarmiðum og setti í kjölfar fundarins fram skýrar tillögur um skólaskiptingu og stjórnsýslu sem byðu upp á nokkra ólíka valkosti, bæði í skipulagi og stjórnkerfi. Í þessu sambandi væri gagnlegt að sýna hið nýja skipurit í myndrænu formi. Einnig sagði fulltrúinn að það skipti miklu máli fyrir félagsvísindadeild að vita með hverjum hún yrði saman í skóla. Í framhaldi af umræðunni um skipan stjórnsýslu og stoðþjónustu greindi fulltrúinn frá nýlegri heimsókn sinni til University of Sidney í Ástralíu sem hefði gengið í gegnum miklar skipulagsbreytingar. Niðurstaðan hefði verið sú að skólaforsetarnir réðu sér aðstoðarskólaforseta sem sinntu ýmsum málaflokkum fyrir þeirra hönd. Einnig hefðu skólaforsetarnir sér til aðstoðar öflugt teymi skrifstofufólks. Sama máli gegndi um rektor skólans sem hefði sér til hliðar nokkra aðstoðarrektora sem hver um sig væri ábyrgur fyrir einstökum málaflokkum. Þetta var mjög sterkt fyrirkomulag sem við gætum lært af. Um málefni bókasafnsins sagði fulltrúinn að ef skipulagi þess yrði breytt væri nauðsynlegt að hugsa fyrir því frá upphafi hvernig safnið gæti verið sem aðgengilegast fyrir alla, þ.m.t. sjónskerta. Endaði fulltrúinn mál sitt á því að greina frá því að ein mikilvægasta undirstaða hins margumtalaða „írska efnahagsundurs“ hefði verið fólgin í því að Írar hefði tekið ákvörðun um að fella niður skólagjöld á öllum skólastigum.
 
Varadeildarforseti verkfræðideildar ræddi mögulega sameiningu verkfræðideildar og raunvísindadeildar undir hatti verkfræði- og raunvísindaskóla. Sagði hann skiptar skoðanir vera um málið innan verkfræðideildar og óformleg athugun benti til þess að þrjár af fjórum skorum deildarinnar væru mótfallnar því að sameinast raunvísindadeild. Fyrir þessu væru ýmsar ástæður og væri ein þeirra sú að tillögur skólaskiptingarnefndar um endurskoðað stjórnkerfi væru í veigamiklum atriðum óljósar. Varðandi andstöðu verkfræðideildar gegn sameiningu við raunvísindadeild stæðu einkum þrjú atriði upp úr: Í fyrsta lagi væri fjárhagsleg staða deildanna og rannsóknastofnana þeim tengdum mjög ólík. Í öðru lagi hefði verkfræði faglega sérstöðu og ímynd sem væri hætta búin ef deildin hyrfi inn í stóran verkfræði- og raunvísindaskóla þar sem kennarar raunvísindadeildar væru í miklum meirihluta. Í þriðja lagi væri samkeppnisumhverfi beggja deilda mjög ólíkt. Ekki væri ljóst hvernig hin nýja stjórnskipan tæki á þessum þáttum. Fyrir yfirstandandi viðræður um hugsanlega sameiningu deildanna væri mikilvægt að fá nánari skýringar á framangreindum atriðum.
 
Formaður skólaskiptingarnefndar þakkaði fulltrúum fyrir fjölmargar gagnlegar ábendingar sem nefndin myndi taka til skoðunar í kjölfar fundarins. Öll þau mál sem bent hefði verið á mætti leysa. Um fyrirspurn fulltrúa félagsvísindadeildar um skipan háskólaþings sagði formaðurinn að ekki hefði verið ákveðið hvernig þingið yrði skipað. Þegar háskólafundur hefði verið settur á laggirnar fyrir um tíu árum síðan hefðu verið settar reglur um skipan og fundarsköp hans og þar væri m.a. kveðið á um reglur til að reikna út fjölda fulltrúa deilda og stúdenta á fundinum. Frá því að reglurnar voru settar hefði Háskólinn meira en tvöfaldast að stærð og fulltrúum fjölgað að sama skapi. Eðlilegt væri að endurskoða þessar reglur um leið og skerpt yrði á hlutverki háskólaþings. Varðandi ósk annars fulltrúa um að fá skýra og útfærða mynd af hinu endurskoðaða stjórnkerfi með ólíkum valkostum sagði formaðurinn að það hefði verið yfirveguð ákvörðun að leggja málið upp eins og gert hefði verið, þ.e. með einni tillögu um skiptingu í skóla og drögum að lýsingu á endurskoðuðu stjórnkerfi. Unnið væri eftir svipuðu verklagi og í stefnumótunarvinnunni veturinn 2005-2006 og við útfærslu tillagnanna yrði haft víðtækt samráð við alla aðila málsins. Framundan væru fjölmargir fundir með aðilum að hinum nýju skólum og hvatti formaðurinn skorir og námsgreinar til að hafa frumkvæði að því að ræða saman með það að markmiði að virkja sem best þá krafta sem væru fyrir hendi.
 
Að lokum fór rektor yfir næstu skref í málinu. Í kjölfar fundarins myndi skólaskiptingarnefndin endurskoða tillögur sínar með hliðsjón af framkomnum athugasemdum og ábendingum. Endurskoðaðar tillögur yrðu síðan sendar til formlegrar umsagnar til deilda, Kennaraháskóla Íslands og til félaga starfsmanna og stúdenta. Samhliða þessu yrðu haldnir fundir með deildum, aðilum að hinum nýju skólum og öðrum hagsmunaaðilum. Þegar umsagnir hefðu borist í september nk. yrði unnið úr þeim og endanlegar tillögur lagðar fram til umræðu og afgreiðslu á háskólafundi í október nk.
 
Þakkaði rektor fulltrúum á háskólafundi fyrir málefnalega og góða umræðu og bauð þeim að þiggja léttan hádegisverð í anddyri Hátíðarsalar.
 
Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Ólafs Þ. Harðarsonar, þau Dagný Ósk Aradóttir, Elín Soffía Ólafsdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Friðrik Már Baldursson, Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Inga Jóna Þórðardóttir, Hjalti Hugason, Hörður Filippusson, Inga Þórsdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir, Ingjaldur Hannibalsson, Jón Atli Benediktsson, Kristín Loftsdóttir, Oddný G. Sverrisdóttir, Páll Hreinsson, Rannveig Traustadóttir, Rúnar Vilhjálmsson, Sigurður Erlingsson og Stefán B. Sigurðsson.
 
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 12.15.
 
 
Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 23. háskólafundi 16. maí 2007:
 
1.  Dagskrá og tímaáætlun 23. háskólafundar 16. maí 2007.
2.  Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3.  Fundargerð 22. háskólafundar 16. mars 2007.
4.  Tillögur starfshóps háskólaráðs um endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands.