Skip to main content

Háskólaráðsfundur 4. apríl 2013

04/2013

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2013, fimmtudaginn 4. apríl var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Kristinn Andersen, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. Þorfinnur Skúlason boðaði forföll og varamaður hans einnig.

Rektor bauð fulltrúa í háskólaráði velkomna og setti fundinn. Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Engar athugasemdir voru gerðar við dagskrá fundarins. Lögð var fram leiðrétting við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann staðfestur. Enginn fulltrúi lýsti sig vanhæfan til að fjalla um einstök mál á dagskrá fundarins.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og  framundan.
a) Ársfundur Rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn í Sandgerði 21. mars sl. og við það tækifæri var undirritaður samningur við mennta- og menningarmála­ráðuneytið um fjármögnun rannsóknasetranna, sbr. síðasta fund ráðsins.
b) Hinn 26. mars sl. undirrituðu forsvarsmenn Háskóla Íslands, Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann og Íslenskrar erfðagreiningar samning um samstarf á sviði kennslu og rannsókna um fíknisjúkdóma, sbr. dagskrárlið 9f.
c) Á síðustu árum hefur nemendum við Háskóla Íslands í auknum mæli gefist kostur á að stunda sumarnám við öfluga bandaríska háskóla. Sumarið 2013 býðst þremur nemendum að vinna sumarlangt við rannsóknaverkefni við California Institute of Technology (Caltech), auk þess sem 12 nemendur af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands munu stunda sumarnám við Stanford háskóla. Þá var nýlega gerður samningur um stúdentaskipti við Purdue háskóla, sem er stærsti verkfræðiháskóli í Bandaríkjunum, og fara fyrstu nemendur frá Háskóla Íslands til skólans á þessu ári. Mikil samkeppni milli nemenda Háskóla Íslands er um þessi námssæti.
d) Í lok mars sl. hélt rektor fund með Stúdentaráði og fulltrúum stúdenta í háskólaráði um helstu mál á döfinni í Háskóla Íslands og málefni sem varða stúdenta sérstaklega.
e) Nokkur frumvörp til laga og til breytinga á lögum er varða starfsemi Háskóla Íslands og samstarfsstofnanir urðu að lögum á síðustu starfsdögum Alþingis. Um er að ræða lög um opinbera háskóla, lög um byggingu nýs Landspítala og lög um Þjóðminjasafn Íslands. Endanlegir lagatextar eru ekki komnir á vef Alþingis en verða lagðir fram á næsta fundi háskólaráðs.
f) Undanfarna mánuði hafa staðið yfir viðræður á milli stjórnar Innovit frumkvöðla- og nýsköpunarseturs og Klaks ehf. um mögulegan samruna. Innovit var stofnað af stúdentum Háskóla Íslands árið 2007 og er háskólinn hluthafi í Innovit sem hefur aðsetur í Tæknigarði. Markmið mögulegs samruna er að efla og samhæfa frumkvöðla- og nýsköpunarstarf þessara aðila. Málið verður væntanlega á dagskrá næsta fundar háskólaráðs.
g) Rektor greindi frá því að skv. samningi um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands, sem stofnaður var árið 2011 og er viðauki við samning mennta- og menningarmálaráðherra um kennslu og rannsóknir Háskóla Íslands, skal á árinu 2013 vinna áætlun um framlög til sjóðsins fyrir árin 2015-2020. Meginmarkmið samningsins er að fjárveitingar til Háskóla Íslands nái meðaltali OECD-ríkjanna árið 2016 og meðaltali Norðurlandanna árið 2020. Áætlað er að vinnan við áætlunargerðina hefjist á næstu vikum undir stjórn forsætisráðuneytisins.
h) Auglýst hafa verið til umsóknar störf forseta Félagsvísindasviðs og Menntavísindasviðs og er umsóknarfrestur útrunninn. Sjö sóttu um starf forseta Félagsvísindasviðs, tveir frá Íslandi og fimm frá öðrum löndum. Sjö sóttu einnig um starf forseta Menntavísindasviðs, þrír Íslendingar og fjórir frá öðrum löndum. Nefndir til að undirbúa ákvörðun rektors um ráðningu forseta fræðasviðanna eru að störfum og verður tilkynnt um niðurstöðuna á næstunni.
i) Næsti fyrirlestur í fyrirlestraröðinni „Fyrirtæki verður til“ verður haldinn 23. apríl nk. og mun þá fyrirtækið LS Retail kynna tilurð sína og starfsemi.
j) Hinn 10. apríl nk. munu Félag prófessora og Fræðagarður efna til málþings um málefni háskóla í Hátíðasal í Aðalbyggingu.
k) Úthlutað verður úr Styrktarsjóði Watanabe við Háskóla Íslands 16. apríl nk. Markmið sjóðsins er að efla fræðilegt samstarf Íslands og Japans með því að veita íslenskum vísindamönnum og stúdentum tækifæri til að stunda rannsóknir og nema í Japan og að gefa japönskum vísindamönnum og stúdentum kost á að dvelja hér á landi.
l) Háskólaþing verður haldið 19. apríl nk., sbr. dagskrárlið 9a.
m) Hinn 30. apríl nk. munu jafnréttisnefnd háskólaráðs, jafnréttisnefndir fræðasviðanna og Jafnréttisnefnd Stúdentaráðs halda málþing um jafnrétti og samþættingu, sbr. dagskrárlið 9g.
n) Að endingu greindi rektor frá því að rýmið inn af anddyri Aðalbyggingar, þar sem áður var bókasafn háskólans og síðar upplýsingaskrifstofa, hafi nýlega verið tekið aftur í notkun eftir gagngerar endurbætur. Hefur rýminu verið gefið nafnið Bókastofan og bauð rektor ráðsmönnum að skoða hana í kaffihléi fundarins.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
a) Ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2012.
Fyrir fundinum lágu drög að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2012. Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir málinu.
- Ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2012, eins og hann var lagður fram, samþykktur einróma. Endanlegur ársreikningur með skýringum og áritun Ríkisendurskoðunar mun liggja fyrir í maí/júní nk.

b) Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur. Skipulagsskrá.
Fyrir fundinum lágu drög að skipulagsskrá Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur, sbr. fund háskólaráðs í febrúar sl. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma.

3. Nefnd um störf háskólaráðs, ásamt erindisbréfi, sbr. 10. gr. starfsreglna háskólaráðs.
Fyrir fundinum lá erindisbréf nefndar um störf háskólaráðs Háskóla Íslands, sbr. 10. gr. starfsreglna háskólaráðs. Nefndin var skipuð á milli funda og eru í henni þau Börkur Hansen, fulltrúi háskólasamfélagsins, formaður, Margrét Hallgrímsdóttir, fulltrúi valinn af háskólaráði, Þorfinnur Skúlason, fulltrúi tilnefndur af mennta- og menningar­málaráðherra, og Anna Rut Kristjánsdóttir, fulltrúi stúdenta. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Gert er ráð fyrir að greinargerð nefndarinnar verði lögð fram á fundi háskólaráðs í júní nk.
- Samþykkt einróma.

4. Fasteignin Sturlugata 8, 101 Reykjavík.
Fyrir fundinum lá minnisblað varðandi tilboð um kaup á fasteigninni að Sturlugötu 8 sem Háskóli Íslands hefur forkaupsrétt að. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði ásamt Guðmundi R. Jónssyni grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom að núgildandi ákvæði laga geri ríkisstofnunum örðugt um vik að nýta forkaupsrétt og að til lengri tíma litið sé mikilvægt að ræða við stjórnvöld um nauðsynlegar ráðstafanir til að breyta því.

5. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Niðurstöður könnunar um starfsumhverfi Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sviðsstjóri starfsmannasviðs, og gerði grein fyrir helstu niðurstöðum nýlegrar könnunar um starfsumhverfi Háskóla Íslands, en í Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 er kveðið á um að slík könnun skuli framkvæmd reglulega, enda einn af skilgreindum lykilmælikvörðum til að meta árangur stefnunnar um mannauð. Málið var rætt og svaraði Guðrún spurningum fulltrúa í háskólaráði.

María Rut Kristinsdóttir vék af fundi.

6. Samstarf opinberra háskóla.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, og gerði grein fyrir stöðu mála og næstu skrefum í samstarfi opinberra háskóla á Íslandi. Málið var rætt ítarlega og svaraði Halldór framkomnum spurningum og athugasemdum.

7. Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Rögnvaldur Ólafsson, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands, og gerði ítarlega grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og einstakra rannsóknasetra háskólans á landsbyggðinni. Málið var rætt og svaraði Rögnvaldur spurningum ráðsmanna.

8. Bókfærð mál.
a) Tillaga Menntavísindasviðs um breytingu á reglum um Menntavísindastofnun Háskóla Íslands nr. 1023/2009.

9. Mál til fróðleiks.
a) Drög að dagskrá háskólaþings 19. apríl 2013.
b) Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þingskjal 1096 - 630. mál.
c) Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 2012.
d) Heilbrigðisvísir, fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, febrúar 2013.
e) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, mars 2013.
f) 
Samstarfssamningur Háskóla Íslands, Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann og Íslenskrar erfðagreiningar um kennslu og rannsóknir í félags- og heilbrigðisvísindum á sviði fíknar, undirritaður 26. mars 2013.
g) Ráðstefna um jafnrétti og samþættingu, haldin 30. apríl 2013.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.