Skip to main content

Háskólaráðsfundur 16. janúar 2014

01/2014

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2014, fimmtudaginn 16. janúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hákon Hrafn Sigurðsson (varamaður fyrir Börk Hansen), Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Jakob Ó. Sigurðsson og Kristin Andersen), Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson, Elín Blöndal og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Tveir ráðsmenn óskuðu eftir að ræða nánar dagskrárliði 9 a) og 9 e) undir liðnum „bókfærð mál“. Þá spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og lýsti Tinna Laufey Ásgeirsdóttir sig vanhæfa til að taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 9 e). Hákon Hrafn Sigurðsson óskaði eftir því að ræða málefni Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands undir liðnum „önnur mál“.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Helgi Björnsson, jöklafræðingur og vísindamaður við Háskóla Íslands, hlaut heiðursverðlaun verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright í lok síðasta árs.
b) Happdrætti Háskóla Íslands fagnar 80 ára afmæli árið 2014. Af því tilefni hefur happdrættið m.a. hleypt af stokkunum nýrri auglýsingaherferð þar sem lögð er áhersla á hlutverk þess við uppbyggingu Háskóla Íslands í 80 ár.
c) Sjónvarpsþáttaröðin „Fjársjóður framtíðar“ sem fjallar um vísindin í Háskóla Íslands verður tekin til sýningar hjá norrænum sjónvarpsstöðvum á þessu ári.
d) Jafnréttisskólinn GEST var fyrir skömmu settur í fyrsta sinn eftir að hann hlaut formlega stöðu sem stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna. Metfjöldi nemenda hóf nám við skólann að þessu sinni.
e) Hinn 14. janúar sl. undirrituðu Hagstofa Íslands og Hagfræðideild Háskóla Íslands samstarfssamning sem m.a. gerir meistaranemum í hagfræði kleift að vinna verkefni í samstarfi við Hagstofuna.
f) Fyrir nokkru auglýsti Nýliðunarsjóður Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands laus til umsóknar störf nýdoktora. Umsækjendur voru 67 að tölu og verða 12 þeirra ráðnir í störf nýdoktora.
g) Í dag var tilkynnt um árlega úthlutun úr Rannsóknasjóði Rannís (sbr. lið 10i). Vísindamenn Háskóla Íslands hlutu alla þrjá öndvegisstyrki sem úthlutað var að þessu sinni, samtals að fjárhæð 85 m.kr. Þá hlutu fulltrúar Háskóla Íslands og tengdra stofnana níu af tólf nýdoktorastyrkjum Rannís, samtals að upphæð tæplega 59 m.kr. Alls var úthlutað 52 verkefnastyrkjum til vísindamanna og fengu starfsmenn Háskóla Íslands og tengdra stofnana 35 styrki, samtals að upphæð um 291 m.kr.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
a) Fjárlög fyrir árið 2014.

Rektor fór yfir niðurstöðu fjárlaga fyrir Háskóla Íslands fyrir árið 2014. Þá greindi hún frá því að forsætisráðuneytið hefði staðfest að á næstunni verða hafnar viðræður um framtíðarfjármögnun Háskóla Íslands eins og kveðið er á um í samningi um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

b) Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2014, tillaga fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Fyrir fundinum lá minnisblað um fjármál Háskóla Íslands, greinargerðir forseta fræðasviða og fjármálastjóra vegna fjárhagsáætlana og tillaga fjármálanefndar um skiptingu fjárveitingar árið 2014. Guðmundur og Jenný gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.
– Tillaga fjármálanefndar um skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands fyrir árið 2014 samþykkt einróma.

c) Meðferð stórra styrkja.
Fyrir fundinum lá tillaga fjármálanefndar um meðferð stórra styrkja og gerðu Guðmundur og Jenný grein fyrir tillögunni.
– Samþykkt einróma.

Kjartan Þór Eiríksson kom inn á fundinn.

3.  Áherslur í starfi Háskóla Íslands 2013-2014, endurskoðaðar, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir tillögum sínum að nokkrum nýjum áhersluverkefnum í starfi Háskóla Íslands, sbr. starfsáætlun sem var samþykkt í háskólaráði 5. september 2013. Málið var rætt. Á næsta fundi verður lögð fram endurskoðuð starfsáætlun með upplýsingum um stöðu einstakra mála.

4. Málefni Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands, sbr. síðasta fund. Staða mála.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi málefni Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svaraði rektor spurningum ráðsmanna. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

5. Mat á árangri sameiningar Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Framlögð áætlun um framkvæmd mats á árangri sameiningar Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar á Íslandi samþykkt. Rektor er falið að ganga frá skipun sjálfsmatshóps og ytri matshóps vegna matsins.

6. Frá jafnréttisnefnd háskólaráðs, sbr. fund ráðsins 3. október sl.
a) Tillaga að verklagsreglum um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi innan Háskóla Íslands.
b) Tillaga að endurskoðaðri jafnréttisáætlun Háskóla Íslands.

Inn á fundinn kom Hrefna Friðriksdóttir, dósent við Lagadeild og formaður jafnréttisnefndar háskólaráðs. Fyrir fundinum lá tillaga að verklagsreglum um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi innan Háskóla Íslands og tillaga að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2013-2017. Báðar tillögurnar voru unnar af hálfu jafnréttisnefndar og fóru gegnum víðtækt umsagnarferli. Hrefna gerði grein fyrir málunum og voru þau rædd.
– Verklagsreglur um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi innan Háskóla Íslands samþykktar einróma. Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2013-2017 samþykkt einróma. Jafnréttisnefnd er falið að fylgjast með framkvæmd áætlunarinnar. Um framkvæmd jafnréttisáætlunar Háskóla Íslands í einstökum liðum fer eftir fjárhag háskólans hverju sinni.

7. Endurskoðaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um kennslu og  rannsóknir í heilbrigðisvísindagreinum.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Rektor og Þórður gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma.

8.  Erindi og álit sem borist hafa háskólaráði frá umboðsmanni Alþingis og tengd mál.
Inn á fundinn kom Kristín Helga Markúsdóttir, lögfræðingur starfsmannasviðs.

a) Álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6533/2011, dags. 3. október sl., v/framkvæmdar við innheimtu álags á skrásetningargjald.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

b) Bréf umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6913/2012, dags. 31. október 2013, vegna réttarstöðu stundakennara. Samhljóða bréf sent fjármála- og efnahagsráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Elín Blöndal gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.

c) Bréf umboðsmanns Alþingis og erindi tengd þeim, frá nóvember og desember 2013, í málum nr. 7392/2013 (tímabundin ráðning), nr. 7150/2012 og 7501/2013 (ákvörðun valnefndar) og nr. 7771/2013 (ráðning upplýsingafulltrúa).
Elín Blöndal og Kristín Helga Markúsdóttir gerðu grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu Elín og Kristín Helga spurningum og athugasemdum ráðsmanna.

d) Erindi, dags. 19. desember sl., vegna úthlutunar doktorsstyrkja úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og Háskólasjóði h/f Eimskipafélags Íslands.
Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

Að lokinni umræðu um dagskrárlið 8 bar rektor upp svohljóðandi tillögu að bókun:
„Háskólaráð felur rektor að móta og leggja svo fljótt sem unnt er fram tillögur um afgreiðslu þeirra mála sem borin hafa verið undir ráðið samkvæmt ábendingum umboðsmanns Alþingis. Jafnframt felur háskólaráð rektor að afgreiða fyrir hönd ráðsins erindi sem beint er til þess en falla ekki undir valdsvið ráðsins og varða starfsemi eða stjórnsýslu háskólans eða vísa ber til annarra aðila innan hans. Skal háskólaráð upplýst um afgreiðslu þeirra mála eftir því sem við á.“
– Samþykkt einróma.

9. Bókfærð mál.
a) Ráðgefandi nefnd Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Fyrir fundinum lá tillaga um að ráðgefandi nefnd Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands verði skipuð Jörundi Svavarssyni, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, sem verði formaður, Önnu Dóru Sæþórsdóttur, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Hjalta Þór Vignissyni, Iceland Pelagic, Steingerði Hreinsdóttur, Háskólafélagi Suðurlands og rekstrarstjóra Katla Geopark, og einum sem forstöðumenn rannsóknasetranna munu tilnefna sameiginlega. Nefndin er skipuð til þriggja ára.
– Samþykkt.

b) Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
Rektor bar upp tillögu um tvo af þremur fulltrúum í nýrri stjórn Happdrættis Háskóla Íslands, þau Eyvind G. Gunnarsson, dósent við Lagadeild á Félagsvísindasviði, sem verði formaður, og Jenný Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs Háskóla Íslands. Jafnframt reifaði rektor möguleika um þriðja stjórnarmann.
– Rektor falið að ganga frá skipun stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands. Skipunartíminn er til eins árs.

c) Stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá tillaga um að stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms verði skipuð þeim Jóni Atla Benediktssyni, prófessor, aðstoðarrektor vísinda og kennslu og forstöðumanni Miðstöðvar framhaldsnáms, sem verði formaður, Ágústu Guðmundsdóttur, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, tilnefndri af Heilbrigðisvísindasviði, Fjólu Jónsdóttur, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, tilnefndri af Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Guðmundi Hálfdanarsyni, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, tilnefndum af Hugvísindasviði, Ólöfu Garðarsdóttur, prófessor við Kennaradeild, tilnefndri af Menntavísindasviði, Inga Rúnari Eðvardssyni, prófessor við Viðskiptafræðideild, tilnefndum af Félagsvísindasviði, Áslaugu Helgadóttur, prófessor, fulltrúa Landbúnaðarháskóla Íslands, skv. samningi HÍ og LbhÍ, og áheyrnarfulltrúa sem tilnefndur verður af doktorsnemum. Skipunartími stjórnar er til þriggja ára.
– Samþykkt.

d) Kærunefnd í málefnum nemenda, sbr. fund ráðsins 7. nóvember sl.
Fyrir fundinum lá tillaga um að ný kærunefnd í málefnum nemenda verði skipuð Trausta Fannari Valssyni, lektor við Lagadeild á Félagsvísindasviði, sem verði formaður (varamaður hans verði Kristín Benediktsdóttir, lektor við Lagadeild), Guðmundi G. Haraldssyni, prófessor við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði (varamaður hans verði Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði), og Oddnýju G. Sverrisdóttur, prófessor við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði (varamaður hennar verði Jón Torfi Jónasson, prófessor við Kennaradeild á Menntavísindasviði). Skipunartími nefndarinnar er þrjú ár.
– Samþykkt.

e) Tilnefning tveggja fulltrúa háskólaráðs í sérstaka dómnefnd um ráðningu í sjö lektorsstörf.
Fyrir fundinum lá tillaga um að fulltrúar háskólaráðs í sérstaka dómnefnd um ráðningu í sjö lektorsstörf verði Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, og Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.
– Samþykkt.

f) Vísindasiðareglur Háskóla Íslands, ásamt starfsreglum fyrir vísindasiðanefnd Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

g) Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Læknadeildar að breytingu á 101. og 102. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009, vegna breytts skipulags náms í sjúkraþjálfun.
– Samþykkt.

h) Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs að nýjum reglum um meistaranám við deildir fræðasviðsins.
– Samþykkt.

i) Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs að breytingu á reglum um þverfræðilegt meistaranám í talmeinafræði við Háskóla Íslands nr. 972/2009.
– Samþykkt.

j) Tillögur fræðasviða um nýjar námsleiðir, ásamt viðeigandi breytingum á reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

k) Fyrirvarar í Kennsluskrá Háskóla Íslands 2014-2015.
– Samþykkt.

10.  Mál til fróðleiks.
a) Nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að.
b) Niðurstöður úttektar sérfræðinga á Norræna ofurtölvusetrinu – Nordic High Performance Computing.
c) Eftirfylgniskýrsla Ríkisendurskoðunar um Keili, desember 2013.
d) Rafrænt Fréttabréf Félagsvísindasviðs, desember 2013.
e) Grein rektors „Árangur skapar auðlegð“, birt í Morgunblaðinu 7. desember 2013.
f) Grein Jóhönnu Einarsdóttur, forseta Menntavísindasviðs „Hvaða lærdóm má  draga af PISA?“, birt 11. desember 2013.
g) Hugskeyti, fréttabréf Hugvísindasviðs, desember 2013.
h) Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir árið 2014.
i) Úthlutun úr Rannsóknasjóði Rannís fyrir árið 2014.

11. Önnur mál.
Hákon Hrafn Sigurðsson gerði að umtalsefni úthlutunarreglur Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands, einkum er varða Heilbrigðisvísindasvið. Málið var rætt.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.30.