Reglur nr. 140-2014 | Háskóli Íslands Skip to main content

Reglur nr. 140-2014

Netspjall

Reglur um meistaranám við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, nr. 140/2014

með síðari breytingum

I. KAFLI  Almennar reglur Heilbrigðisvísindasviðs.

1.gr.  Gildissvið.

Reglur um meistaranám við Heilbrigðisvísindasvið eru settar með hliðsjón af reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Í I. kafla eru rammareglur sviðsins en í II. kafla sérreglur einstakra deilda.

2. gr.  Markmið námsins.

Á Heilbrigðisvísindasviði er unnt að stunda meistaranám á fræðasviðum þar sem deildir meta að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi. Um kennslugreinar og lærdómstitla fer samkvæmt XI. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Markmið meistaranáms er að nemendur fái gott yfirlit yfir grein sína, öðlist þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum og rannsóknum og fái traustan undirbúning undir doktorsnám og ýmis störf.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur yfirumsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við háskólann, sbr. 66. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Standa ber skil á upplýsingum og gögnum sem Miðstöð framhaldsnáms kallar eftir.

3. gr.  Fastanefndir.

Í deildum Heilbrigðisvísindasviðs skal starfa sérstök fastanefnd (vísindanefnd, rannsóknanámsnefnd, meistaranámsnefnd eða önnur). Fastanefnd getur verið sameiginleg fyrir fleiri en eina deild, enda eigi þær fulltrúa í nefndinni. Fastanefnd fer með málefni framhaldsnáms sem stundað er við viðkomandi deild eða deildir og er hlutverk hennar m.a. að hafa faglega umsjón með gæðum meistaranáms, fjalla um umsóknir, samþykkja breytingar á námsáætlunum og tilnefna prófdómara þegar við á, og annast önnur verkefni sem deild kann að fela henni. Deild getur falið námsbrautum að sjá um einstök verkefni fastanefndar.

Ef ekki er mynduð ein sameiginleg fastanefnd fyrir allar deildir fræðasviðsins skulu formenn fastanefnda einstakra deilda hafa með sér reglubundið samráð um málefni meistaranáms á sviðinu.

4. gr.  Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur um meistaranám er að jafnaði til 15. apríl en fyrir erlenda umsækjendur til 1. febrúar ár hvert. Umsóknarfrestur fyrir vormisseri er til 15. október.

5. gr.  Umsókn.

Umsóknum skal skilað til nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem er aðgengilegt á vef skólans.

Gögn sem fylgja skulu umsókn eru eftirfarandi:

 1. Greinargerð um námsmarkmið og áhugasvið umsækjanda.
 2. Náms- og starfsferilskrá.
 3. Nöfn tveggja meðmælenda.
 4. Staðfest afrit af prófskírteini, hafi umsækjandi lokið bakkalárprófi frá öðrum háskóla en Háskóla Íslands.
 5. Nafn fyrirhugaðs umsjónarkennara.

Deildir ákveða hvaða önnur gögn skuli fylgja umsókn.

Fylgiskjölum sem ekki eru rafræn skal komið til skrifstofu deildar. Eftir skráningu gagna í nemendaskrá (forsal umsókna) er fjallað um umsóknir í fastanefnd deildar.

Að umfjöllun lokinni er umsækjanda tilkynnt um niðurstöðuna og tilkynning send til nemendaskrár. Skriflegt svar við umsókn skal að jafnaði hafa borist umsækjanda innan sex vikna frá því að umsóknarfrestur rennur út.

Umsókn er synjað ef hún uppfyllir ekki inntökuskilyrði deildar og skal synjun vera rökstudd. Afgreiðsla deildar skal skráð í rafrænt kerfi nemendaskrár.

Nemandi þarf að skrá sig árlegri skráningu í mars/apríl ár hvert fyrir komandi háskólaár og greiða skrásetningargjald. Skráning og greiðsla skrásetningargjalds er forsenda þess að nám geti hafist eða haldið áfram.

6. gr.  Inntökuskilyrði.

Umsækjendur um meistaranám skulu að jafnaði hafa lokið BS-prófi frá Háskóla Íslands eða öðrum háskóla. Að jafnaði skal grunnháskólagráða vera í sömu grein og meistaranámið en einstakar deildir geta sett sérákvæði um forkröfur greina í námsskipunarreglur. Einnig geta deildir sett ákvæði um lágmarkseinkunn. Slík ákvæði skulu staðfest af fastanefnd deildarinnar og auglýst í kennsluskrá.

7. gr.  Einingafjöldi og tímalengd náms.

Meistaranám við Heilbrigðisvísindasvið er 120 einingar, sbr. XI. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Meistaraverkefni skal að jafnaði vera 30-60 einingar. Deildir geta þó heimilað allt að 90 eininga ritgerð með samþykki fastanefndar viðkomandi deildar. Aðrar einingar fást með þátttöku í námskeiðum og málstofum. Að öllu jöfnu getur nemandi í meistaranámi ekki tekið meira en 10 einingar í sérsniðnum lesnámskeiðum. Miðað skal við að lengd námsins sé tvö ár (fjögur misseri).

Hámarksnámstími til að ljúka meistaraprófi er sex misseri frá því stúdent var fyrst skrásettur í viðkomandi nám. Meistaranema er þó heimilt að innritast í hlutanám til fjögurra ára að hámarki. Stúdent í hlutanámi skal á hverju háskólaári ljúka a.m.k. helmingi af skilgreindum einingafjölda í fullu námi og skal hafa lokið prófi eigi síðar en fjórum árum eftir skráningu í námið. Deildir geta sett nánari reglur um námsframvindu. Nemandi skal vera skráður og greiða skrásetningargjald allan námstímann. Nánari ákvæði er að finna í sérreglum deilda.

8. gr.  Námskeið í grunnnámi sem hluti af meistaranámi.

Deild er heimilt, ef sérstaklega stendur á, að samþykkja námskeið í grunnnámi sem hluta af meistaranámi, þó aldrei fleiri en 20 einingar. Rökstyðja skal ítarlega slíkar ákvarðanir. Miðað skal við að lágmarkseinkunn úr námskeiðum í grunnnámi sé heilum hærri en tilgreind lágmarkseinkunn í viðkomandi námskeiði.

9. gr.  Umsjónarkennari og leiðbeinandi.

Sérhver meistaranemi skal hafa umsjónarkennara úr hópi fastra akademískra starfsmanna í viðkomandi deild Háskóla Íslands sem hann ráðfærir sig við um rannsóknarverkefni og annað sem tengist náminu. Umsjónarkennari ásamt nemanda leggur fram áætlun um lokaverkefni sem fastanefnd deildar samþykkir. Leiðbeinandi leiðbeinir nemanda í lokaverkefni. Umsjónarkennari og leiðbeinandi skulu að jafnaði vera sami maðurinn. Heimilt er að nemandi hafi utanaðkomandi leiðbeinanda enda uppfylli hann kröfur þessara reglna. Ef umsjónarkennari og leiðbeinandi eru ekki sami maðurinn, þá hefur umsjónarkennari umsjón með verkefninu og er ábyrgur fyrir því að það sé í samræmi við kröfur viðkomandi deildar, en leiðbeinandi sér um að leiðbeina nemanda í lokaverkefni.

10. gr.  Meistaraprófsnefndir og prófdómarar.

Skipa skal sérstaka meistaraprófsnefnd vegna verkefna sem eru 60 einingar eða stærri, sbr. 11. tölulið 69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Nefndin skal skipuð leiðbeinanda og öðrum nefndarmanni sem að jafnaði er kennari við viðkomandi deild. Í undantekningartilvikum er heimilt að skipa utanaðkomandi aðila nefndarmann enda hafi hann a.m.k. meistarapróf. Fastanefnd deildar skipar meistaraprófsnefndina. Hlutverk hennar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun og tryggja fagleg gæði rannsóknarvinnunnar í samræmi við reglur deildarinnar.

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs skipar einn eða tvo prófdómara að fenginni tillögu deildar. Prófdómari skal hafa lokið meistaraprófi eða sambærilegu prófi í þeirri grein sem dæma skal og njóta viðurkenningar á starfssviði sínu. Hlutverk prófdómara er að leggja mat á meistaraverkefni. Hver deild gefur út reglur eða viðmið um mat á meistaraverkefnum og fyrirkomulag námsmats. Prófdómari skal ekki vera kennari við Háskóla Íslands. Sé ekki völ á prófdómara hérlendis utan Háskóla Íslands, er fullnægi áðurnefndum skilyrðum, er forseta fræðasviðs heimilt að skipa aðila innan Háskóla Íslands til starfans að fenginni tillögu deildar.

11. gr.  Námsmat og meistarapróf.

Lágmarkseinkunn í námskeiðum og meistaraverkefni er 6,0 nema deild ákveði annað, sbr. 61. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Í því tilviki sem meistaraprófsnefnd hefur verið skipuð ber henni að skila greinargerð um námsferil, verkefnið og fullgerða meistararitgerð til fastanefndar. Fastanefnd fjallar um ritgerðina og greinargerðina og ákveður hvort verkefnið skuli tekið til varnar.

Í 30 eininga verkefnum er heimilt að ljúka meistaraprófi án meistaravarnar nema annað sé tekið fram í sérreglum deildar. Leiðbeinandi gefur einnig einkunn og vega einkunnir leiðbeinanda og prófdómara jafnt í lokaeinkunn. Í öðrum tilvikum er haldin meistaravörn. Meistaravörn er stýrt af prófstjóra sem fastanefnd tilnefnir. Prófstjóri stýrir vörninni þar sem nemandinn heldur fyrirlestur um verkefnið. Að honum loknum er nemandinn prófaður. Prófdómari (prófdómarar) skal (skulu) ásamt leiðbeinanda leggja mat á verkefnið og frammistöðu nemandans og gefa verkefniseinkunn (0-10) eða staðið/fallið. Nemandi skal halda opinberan fyrirlestur um lokaverkefni sitt á vegum deildar áður en hann er brautskráður.

12. gr.  Skil og frágangur meistaraverkefnis.

Meistaraverkefni skal leggja fram í þremur til fimm eintökum til deildar. Deildir ákveða skilafrest verkefnis.

Við frágang meistaraverkefnis skal nemandi fylgja leiðbeiningum þeirrar deildar sem hann brautskráist frá.

Nemandi ber kostnað vegna útgáfu ritgerðar. Rafrænt eintak ber að vista í gagnasafni Skemmu. Deild sér um skil á meistaraverkefni til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

13. gr.  Lærdómstitill.

Meistarapróf samkvæmt þessum reglum veitir eftir því sem við á rétt til lærdómstitilsins Magister/Magistra Scientiarum (MS), Master of Pharmaceutical Sciences (MS Pharm. Sci.), Master of Science in Pharmacy (MS Pharm.), sbr. 55. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

14. gr.  Tengsl við aðrar háskóladeildir og aðra háskóla.

Hluta meistaranáms má taka við aðra háskóla, við deildir annarra fræðasviða innan Háskóla Íslands eða viðurkenndar rannsókna- eða vísindastofnanir samkvæmt samþykkt deildar. Jafnframt er heimilt að veita meistaragráðu sameiginlega með öðrum háskóla eða öðru sviði innan Háskóla Íslands.

II. KAFLI  Sérreglur deilda á Heilbrigðisvísindasviði.

15. gr.  Sérreglur um meistaranám í Hjúkrunarfræðideild.

I. Fastanefndir.
Deildarfundur í Hjúkrunarfræðideild kýs þriggja manna rannsóknanámsnefnd til tveggja ára í senn. Deildarforseti tilnefnir menn í nefndina. Deildarforseti getur setið fundi rannsóknanámsnefndar. Nefndin starfar í umboði deildarráðs. Stúdent getur skotið ágreiningi við meistaraprófsnefnd til rannsóknanámsnefndar.

Verkefni rannsóknanámsnefndar eru að:

 1. Hafa faglega umsjón með framhaldsnámi í deildinni.
 2. Skipuleggja nám til meistaragráðu í samvinnu við kennara deildarinnar.
 3. Fjalla um umsóknir.
 4. Tilnefna umsjónarkennara.
 5. Samþykkja breytingar á námsáætlun.
 6. Skipa í meistaraprófsnefndir.
 7. Tilnefna prófdómara fyrir meistarapróf.
 8. Sjá um meistaravarnir.

II. Umsókn.
Umsóknum skal skilað til nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem er aðgengilegt á vef skólans.

Nemandi sem áætlar að ljúka meistaraprófi með 60 eininga lokaverkefni finnur sér leiðbeinanda og gerir samning við hann. Nemandi skal með umsókn sinni skila inn lýsingu á lokaverkefni.

Við inntöku í klíníska námsleið fær nemandi úthlutað umsjónarkennara. Við upphaf náms mælir hann sér mót við umsjónarkennarann til að gera áætlun um áherslur í námi.

Fylgiskjölum sem ekki eru rafræn skal komið til verkefnastjóra framhaldsnáms í Hjúkrunarfræðideild.

III. Inntökuskilyrði.
Sé sótt um meistaranám í hjúkrunarfræði þarf viðkomandi að hafa lokið BS-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands eða öðru samsvarandi prófi með fyrstu einkunn (7,25).

Sé sótt um meistaranám í ljósmóðurfræði þarf viðkomandi að hafa lokið námi til kandídatsprófs í ljósmóðurfræði sem Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands veitir eða sambærilegu námi með fyrstu einkunn (7,25).

Við inntöku er tekið mið af:

 1. Einkunnum.
 2. Greinargerð þar sem umsækjandi gerir grein fyrir markmiðum sínum með náminu.
 3. Umsögn umsagnaraðila.

IV. Einingafjöldi og tímalengd náms.
Meistaranám í hjúkrunarfræði er 120 einingar, sbr. 97. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. [Af þeim geta allt að 30 einingar verið úr BS-námi í hjúkrunarfræði.]1

[Auk þess getur nemandi í meistaranámi í hjúkrunarfræði fengið að hámarki 20 einingar metnar úr sambærilegu námi á meistarastigi, sem hann hefur stundað utan Hjúkrunarfræðideildar en tengist þó rannsóknasviði hans.]1 Í hverju tilviki fyrir sig metur rannsóknanámsnefnd námið sem viðkomandi nemandi hefur lokið utan deildar.

Að öllu jöfnu fá nemendur allt diplómanám, sem lokið er við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, metið eins og hægt er. Þó verða þeir alltaf að ljúka öllum kjarnanámskeiðum og sambærilegum sérsviðsnámskeiðum. Klínísk starfsþjálfun er ekki metin til eininga í meistaranámi.

Meistaranám í ljósmóðurfræði er 120 einingar að loknu námi til kandídatsprófs í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands eða sambærilegu námi. Nemandi fær 65 einingar metnar eftir kandídatspróf sitt en bætir við sig 55 einingum til meistaraprófs. Miðað skal við að lengd námsins sé eitt ár (tvö misseri).

V. Lesnámskeið.
Rannsóknanámsnefnd samþykkir lesnámskeið áður en það er hafið. Lesnámskeiðið skal vera á rannsóknasviði sem tengist lokaverkefni stúdents en er ekki hluti af aðalverkefni. Námið felst í lestri tímaritsgreina og annarra heimilda, sem valdar eru í samráði við kennara, og umræðum um þær við kennara. Lesnámskeiði lýkur með ritgerð. Lesnámskeið er borið undir rannsóknanámsnefnd til samþykkis.

VI. Meistaraprófsnefndir og prófdómarar.
Í námsleið sem lýkur með 30 eininga lokaverkefni (klínísk meistaranámsleið) er að jafnaði einn leiðbeinandi í lokaverkefni. Í námsleið sem lýkur með 60 eininga lokaverkefni (rannsóknatengd meistaranámsleið) skal meistaraprófsnefnd skipuð tveimur sérfróðum mönnum og er annar þeirra umsjónarkennarinn. Í þeim tilvikum þar sem umsjónarkennari er ekki leiðbeinandi skal sá síðarnefndi einnig sitja í meistaraprófsnefnd. Heimilt er að kalla fleiri til verksins ef þurfa þykir.

Rannsóknanámsnefnd tilnefnir prófdómara sem prófar nemandann og leggur mat á lokaverkefni hans ásamt leiðbeinanda. Einn prófdómari er tilnefndur fyrir meistaravarnir við Hjúkrunarfræðideild.

Prófdómari skal ekki vera tengdur rannsóknarverkefninu. Prófdómari skal hafa lokið viðurkenndu háskólaprófi í þeirri grein sem dæma skal og njóta viðurkenningar á starfssviði sínu.

VII. Skil og frágangur meistararitgerða.
Meistaraprófsritgerð skal leggja fram fyrir meistaraprófsnefnd og prófdómara minnst þremur vikum fyrir áætlaðan prófdag. Við frágang lokaverkefna skal fylgja leiðbeiningum sem fram koma í handbók meistaranema.

1Breytt með 1. gr. reglna nr. 109/2016.

16. gr.  Sérreglur um meistaranám í Lyfjafræðideild.

Lyfjafræði

i. Um námið.
Lyfjafræðideild veitir kennslu til MS-prófs í lyfjafræði. Prófið er embættispróf í lyfjafræði. Kennsla fer fram í námskeiðum sem metnar eru til námseininga (e.). Nám í lyfjafræði til MS-prófs jafngildir 120 einingum, þar af [40]2 e. rannsóknarverkefni.

ii. Inntökuskilyrði.
Aðgang að lyfjafræðinámi til MS-prófs hafa þeir sem lokið hafa BS-prófi í lyfjafræði við Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi í lyfjafræði frá öðrum viðurkenndum háskóla. Til þess að hefja MS-námið í lyfjafræði þarf að lágmarki meðaleinkunnina 6,5 í fyrrnefndu grunnnámi.

iii. Námsframvinda.
Nemanda er ekki heimilt að hefja nám í tilteknu námskeiði Lyfjafræðideildar án þess að hafa lokið prófi í þeim námskeiðum sem tilgreind eru í kennsluskrá sem nauðsynlegir undanfarar þess. Þó er deild heimilt að víkja frá þessari reglu í sérstökum tilvikum. Til þess að hefja vinnu við meistaraverkefni skal nemandi hafa lokið a.m.k. 40 e. í MS-námi í lyfjafræði.

iv. Einkunnir.
Til að standast próf í MS-námi í lyfjafræði verður nemandi að hljóta minnst einkunnina 5,0 í hverju námskeiði um sig auk allra námskeiðshluta í einstökum námskeiðum. Sjá nánar 4. og 5. mgr. 100. gr. í reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Meðaleinkunn úr öllum námskeiðum skal ekki vera lægri en 6,0.

v. Meistaraverkefni.
[Rannsóknarverkefni til meistaraprófs er 40 e. og skal að jafnaði unnið á seinna námsári meistaranámsins.]2 Verkefnið samsvarar a.m.k. [20]2 vikna fullri vinnu af hálfu nemanda. Meistaranámsnefnd Lyfjafræðideildar fer með málefni meistaraverkefna í umboði deildarráðs. Nánar er kveðið á um val á rannsóknarverkefni, leiðbeinanda, frágang ritgerðar og meistaravörn í sérreglum Lyfjafræðideildar um MS-verkefni.

vi. Lærdómstitill.
Að loknu MS-námi í lyfjafræði hlýtur nemandinn lærdómstitilinn Master of Science in Pharmacy (MS Pharm.).

Lyfjavísindi

I. Um námið.
Lyfjafræðideild veitir kennslu til MS-prófs í lyfjavísindum. Kennsla fer fram í námskeiðum sem metnar eru til námseininga. Nám í lyfjavísindum til MS-prófs jafngildir 120 einingum, þar af er rannsóknarverkefni 30, 60 eða 90 einingar.

II. Inntökuskilyrði.
Til að innritast í meistaranám í lyfjavísindum þarf nemandi að hafa lokið grunnnámi, BS-prófi frá Háskóla Íslands í lyfjafræði eða skyldum greinum, eða öðru samsvarandi prófi frá innlendum eða erlendum háskóla. Miðað er við að nemandi, sem hefur lokið prófi frá Háskóla Íslands, hafi að lágmarki 6,0 í aðaleinkunn á BS-prófi eða samsvarandi námi. Meistaranámsnefnd metur próf frá öðrum skólum en Háskóla Íslands.

III. Samsetning náms.
Námið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum. Stærð rannsóknarverkefnis er ákveðin í námsáætlun og skal vera 30, 60 eða 90 einingar. Aðrar einingar fást með þátttöku í námskeiðum í samræmi við samþykkta námsáætlun. Þátttaka í málstofu Lyfjafræðideildar, sem nemur fjórum einingum, er skylda. Meistaranámsnefnd Lyfjafræðideildar skipuleggur þátttöku meistaranema í lyfjavísindum í málstofum. Námskeiðið Inngangur að lyfjafræði er forkrafa eða eitt af þeim námskeiðum sem MS-nemi tekur í náminu.

IV. Einkunnir.
Til að standast próf í meistaranámi í lyfjavísindum verður nemandi að hljóta minnst einkunnina 5,0 í hverju námskeiði um sig auk allra námskeiðshluta í einstökum námskeiðum. Sjá nánar 4. og 5. mgr. 100. greinar í reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

V. Námskeið í grunnnámi sem hluti af framhaldsnámi.
Miðað er við að ekki fleiri en 20 einingar komi úr námskeiðum í grunnnámi. Að jafnaði skulu gerðar meiri kröfur til nemanda í meistaranámi sem taka námskeið í grunnámi sem hluta af námi sínu. Miðað er við að lágmarkseinkunn úr námskeiðum í grunnnámi sé 6,0.

VI. Tengsl við aðra háskóla.
Nemendur geta tekið hluta meistaranáms við aðra háskóla. Skýrt skal kveðið á um vægi námskeiða og verkefnis við Háskóla Íslands og annarra háskóla í námsáætlun sem lögð er fyrir Lyfjafræðideild til samþykktar við innritun.

VII. Námsmat og meistarapróf.
Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats meistaranámsnefndar staðfest námsferilsyfirlit nemanda. Í meistaraprófi í lyfjavísindum flytur nemandi fyrirlestur um rannsóknarverkefnið og hafa prófdómarar síðan samtals u.þ.b. klukkustund til að prófa nemandann. Prófdómarar ásamt umsjónarkennara og prófstjóra, sem skipaður er af meistaranámsnefnd, meta frammistöðu nemanda og gefa honum einkunn.

VIII. Skil og frágangur meistararitgerða.
Meistararitgerð má skrifa á íslensku eða ensku. Meistararitgerð skal uppfylla kröfur Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands um ritgerðir til meistaraprófs. Í henni skal vera ítarlegur inngangur þar sem staða rannsókna á fræðasviðinu er rakin, aðferðafræði sem beitt var, niðurstöður, ítarleg umfjöllun og heimildaskrá sem skal vera samkvæmt almennum reglum vísindatímarita. Hafi nemandi skrifað grein/greinar til birtingar geta þær verið hluti af ritgerðinni. Í ritgerð skal getið stofnunar sem rannsóknin var unnin við og einnig skal geta umsjónarkennara og leiðbeinanda. Koma skal skýrt fram að verkefnið hafi verið unnið við Háskóla Íslands og geta skal þeirra sjóða sem styrktu verkefnið. Meistararitgerð nemenda í rannsóknatengdu meistaranámi skal skilað í fimm eintökum og á rafrænu formi til skrifstofu Lyfjafræðideildar eigi síðar en mánuði fyrir áætlaðan prófdag. Lyfjafræðideild tekur ekki þátt í kostnaði vegna meistararitgerða.

IX. Lærdómstitill.
Að loknu meistaranámi í lyfjavísindum hlýtur nemandinn lærdómstitilinn Master of Science in Pharmaceutical Sciences (MS Pharm. Sci.).

[Klínísk lyfjafræði

1. Um námið.
Lyfjafræðideild veitir kennslu til MS-prófs í klínískri lyfjafræði. Kennsla fer fram í námskeiðum sem metin eru til námseininga. Nám í klínískri lyfjafræði til MS-prófs jafngildir 90 einingum, þar af er rannsóknarverkefni 30 einingar.

2. Inntökuskilyrði.
Aðgang að námi í klínískri lyfjafræði til MS-prófs hafa þeir sem lokið hafa MS-prófi í lyfjafræði við Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi í lyfjafræði frá öðrum viðurkenndum háskóla. Til þess að hefja MS-nám í klínískri lyfjafræði þarf að lágmarki meðaleinkunnina 6,5 í fyrrnefndu lyfjafræðinámi. Aðgangur að náminu er auk þess háður sérstökum reglum um fjöldatakmörkun sem háskólaráð samþykkir.

3. Samsetning náms.
Námið er skipulagt sem starfstengt nám á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og tekur 3 ár miðað við 50% starfsnám. Hver nemandi fær í upphafi náms leiðbeinanda sem ber ábyrgð á nemandanum á meðan á námi stendur. Námið er samsett úr tveimur 30 eininga skyldunámskeiðum, auk 30 eininga rannsóknarverkefnis.

4. Einkunnir.
Til að standast próf í meistaranámi í klínískri lyfjafræði verður nemandi að hljóta minnst einkunnina 5,0 í hverju námskeiði um sig auk allra námskeiðshluta í einstökum námskeiðum. Sjá nánar 4. og 5. mgr. 100. greinar í reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Meðaleinkunn úr öllum námskeiðum skal ekki vera lægri en 6,0.

5. Tengsl við aðra háskóla og sjúkrahús.
Kennslan fer að mestu fram á sjúkrahúsapóteki Landspítala og deildum hans. Nemandi getur einnig átt kost á tímabundinni námsdvöl við háskólasjúkrahús erlendis, samkvæmt sérstöku samkomulagi í hverju tilviki. 

6. Námsmat og meistarapróf.
Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats meistaranámsnefndar staðfest námsferilsyfirlit nemanda. Í meistaraprófi í klínískri lyfjafræði flytur nemandi fyrirlestur um rannsóknarverkefnið og hafa prófdómarar síðan samtals u.þ.b. klukkustund til að prófa nemandann. Prófdómarar ásamt umsjónarkennara og prófstjóra, sem skipaður er af meistaranámsnefnd, meta frammistöðu nemanda og gefa honum einkunn.

7. Skil og frágangur meistararitgerða.
Meistararitgerð má skrifa á íslensku eða ensku. Meistararitgerð skal uppfylla kröfur Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands um ritgerðir til meistaraprófs. Í henni skal vera ítarlegur inngangur þar sem staða rannsókna á fræðasviðinu er rakin, aðferðafræði sem beitt var, niðurstöður, ítarleg umfjöllun og heimildaskrá sem skal vera samkvæmt almennum reglum vísindatímarita. Hafi nemandi skrifað grein/greinar til birtingar geta þær verið hluti af ritgerðinni. Í ritgerð skal getið spítala sem rannsóknin var unnin við og einnig skal geta umsjónarkennara og leiðbeinanda. Koma skal skýrt fram að verkefnið hafi verið unnið við Háskóla Íslands og geta skal þeirra sjóða sem styrktu verkefnið. Meistararitgerð skal skilað í fimm eintökum og á rafrænu formi til skrifstofu Lyfjafræðideildar eigi síðar en mánuði fyrir áætlaðan prófdag. Lyfjafræðideild tekur ekki þátt í kostnaði vegna meistararitgerða.

8. Lærdómstitill.
Að loknu meistaranámi í klínískri lyfjafræði hlýtur nemandinn lærdómstitilinn Master of Science in Clinical Pharmacy (MS).]1

1Breytt með 1. gr. reglna nr. 1157/2015.
2Breytt með 1. gr. reglna nr. 357/2017.

17. gr.  Sérreglur um meistaranám í Læknadeild.

I. Markmið.
Markmið meistaranáms við Læknadeild er að veita nemandanum vísindalega þjálfun að loknu grunnnámi. Meistaranámið skal auka faglega þekkingu og veita þjálfun og innsýn í rannsóknaraðferðir líf- og læknisfræði og skyldra greina.

II. Inntökuskilyrði.
Til að innritast í meistaranám við Læknadeild þarf nemandi að hafa lokið BS-prófi frá Háskóla Íslands eða öðru samsvarandi prófi. [Til að innritast í meistaranám í sjúkraþjálfun þarf stúdent að hafa lokið BS-prófi í sjúkraþjálfunarfræðum.]2 Miðað er við að nemandi hafi að lágmarki 6,5 í aðaleinkunn úr BS-prófi eða samsvarandi námi. Heimilt er að víkja frá reglunni um lágmarkseinkunn hafi umsækjandi t.d. sýnt fram á námshæfni og/eða hæfni í sjálfstæðum rannsóknum. [Aðgangur nemenda að MS-námi í sjúkraþjálfun er háður sérstökum fjöldatakmörkunum sem háskólaráð samþykkir.]2

III. Einingafjöldi og tímalengd náms.
Meistaranám við Læknadeild er 120 einingar. [Nemandi sem er í síðari hluta náms í læknisfræði að loknu BS-prófi eða hefur lokið kandídatsprófi í læknisfræði getur fengið allt að 15 einingar metnar í valnámskeiðum úr því námi inn í meistaranámið.]1 Miðað er við að í eðlilegri námsframvindu sé lengd meistaranáms tvö ár og að jafnaði taki námið ekki lengri tíma en fjögur ár. Hámarksnámstími til MS prófs í sjúkraþjálfun er þó þrjú ár. Nemandi getur innritast í meistaranám til fjögurra ára frá upphafi og er þá miðað við 30 einingar á hverju ári. Við brautskráningu skal sýnt að nemandi hafi verið skráður og greitt skráningargjald allan námstímann.

IV. Samsetning náms.
Námið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og er samsett af almennum og sértækum námskeiðum auk rannsóknarverkefnis. Námskeið eru ýmist skyldunámskeið eða valnámskeið. Vinna að eigin rannsóknarverkefni og samning ritgerðar sem byggist á því er meginhluti námsins. Nemandi skilar rannsóknaráætlun á sérstöku eyðublaði sem aðgengilegt er á vef Læknadeildar. Í rannsóknaráætlun komi fram staða þekkingar, skýr rannsóknarspurning, aðferðir og verkþættir og hlutverk nemandans í verkefninu. Rannsóknaráætlun fyrir verkefni sem hefst að hausti skal skila fyrir 15. apríl en fyrir 15. október vegna verkefnis sem hefst að vori. Stærð rannsóknarverkefnis er ákveðin í námsáætlun og skal vera 30, 60 eða 90 einingar.

Kynning á verkefninu á ritrýndri ráðstefnu telst einnig til þjálfunar og má meta til eininga samkvæmt umsókn. Kynningar á ráðstefnu mega að hámarki nema 4 af 120 einingum í meistaranámi. Nemandi í meistaranámi má að hámarki taka 10 einingar í lesnámskeiðum undir leiðsögn kennara. Lesnámskeiðið skal vera á rannsóknasviði sem tengist rannsóknarverkefni nemanda en er ekki hluti af aðalverkefni. Námið felst í lestri tímaritsgreina og annarra heimilda sem valdar eru í samráði við kennara og umræðum um þær við kennara. Lesnámskeiði lýkur með ritgerð.

V. Breyting á meistaranámi í doktorsnám.
Hafi nemandi innritað sig í meistaranám en ákveði áður en hann lýkur því að fara í doktorsnám er honum heimilt að óska eftir því við rannsóknanámsnefnd að breyta skráningu úr meistaranámi í doktorsnám. Nemandi leggur þá fram ítarlega áfangaskýrslu og gengst undir munnlegt próf á vegum rannsóknanámsnefndar. Um slíka breytingu gilda að öðru leyti reglur um doktorsnám og doktorspróf við Læknadeild Háskóla Íslands.

VI. Námskeið í grunnnámi sem hluti af meistaranámi.
Miðað er við að hlutfall námskeiða í grunnnámi í meistaranámi sé að hámarki fjórðungur. Að jafnaði skulu gerðar meiri kröfur til nemenda í meistaranámi sem taka námskeið í grunnnámi sem hluta af námi sínu. Miðað er við að lágmarkseinkunn úr námskeiðum í grunnnámi sé 6,5.

VII. Kröfur til umsjónarkennara, leiðbeinenda og annarra sem leggja mat á námið og rannsóknarverkefnið.
Umsjónarkennari skal ávallt vera fastráðinn kennari (lektor, dósent eða prófessor) í viðkomandi grein eða sérfræðingur sem hefur fengið viðeigandi hæfnismat. Leiðbeinendur meistaranema geta þeir einir orðið sem lokið hafa a.m.k. meistaraprófi á fræðasviðinu eða áunnið sér jafngildi þess. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á sérsviði leiðbeinandans. Leiðbeinendur meistaranema, hvort sem þeir eru fastir kennarar við Háskóla Íslands eða ekki, skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar er tengjast verkefni nemandans á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur.

VIII. Meistaraprófsnefndir.
Meistaraprófsnefnd skal skipuð þremur sérfróðum mönnum og er einn þeirra umsjónarkennarinn. Í þeim tilvikum þar sem umsjónarkennari er ekki leiðbeinandi skal sá síðarnefndi einnig sitja í meistaraprófsnefnd. Rannsóknanámsnefnd skipar meistaraprófsnefndina. Hlutverk hennar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun og tryggja fagleg gæði rannsóknarvinnunnar í samræmi við reglur deildarinnar. Meistaraprófsnefnd heldur reglulega fundi með nemandanum og samþykkir framvinduskýrslur sem nemandi skilar eftir hvert misseri. Loks metur nefndin meistararitgerðina áður en hún er lögð fram til prófs og skilar áliti sínu í bréfi til rannsóknanámsnefndar.

IX. Skil og frágangur meistararitgerða.
Meistararitgerð má skrifa á íslensku eða ensku. Í meistararitgerð skal vera ítarlegur inngangur þar sem staða þekkingar á fræðasviðinu er rakin, lýsa skal aðferðafræði sem beitt var, gera grein fyrir niðurstöðum, og loks skal vera ítarlegur umræðukafli sem fjallar um verkefnið í heild. Heimildaskrá skal vera samkvæmt leiðbeiningum um frágang meistararitgerða. Hafi nemandi skrifað grein/greinar til birtingar geta þær verið hluti af ritgerðinni, auk ítarlegs inngangs ásamt umræðum um verkefnið í heild. Í ritgerð skal getið stofnunar/stofnana eða fyrirtækja þar sem rannsóknin var unnin og tekið fram hverjir leiðbeinendur voru. Koma skal skýrt fram að verkefnið var unnið við Háskóla Íslands og geta skal þeirra sjóða sem styrktu verkefnið. Um frágang meistararitgerðar vísast til leiðbeininga deildarinnar. Meistararitgerð skal skilað í fimm eintökum til skrifstofu Læknadeildar eigi síðar en fjórum vikum fyrir áætlaðan prófdag. Læknadeild tekur ekki þátt í kostnaði vegna meistararitgerða.

X. Námsmat og meistarapróf.
Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats rannsóknanámsnefndar staðfest námsferilsyfirlit stúdents. Í meistaraprófi flytur nemandi fyrirlestur um rannsóknarverkefnið (30 mín.) og hefur/hafa prófdómari/-ar síðan allt að 45 mín. til að prófa nemandann. Prófdómarar, ásamt umsjónarkennara og prófstjóra sem skipaður er af rannsóknanámsnefnd, meta frammistöðu nemanda samkvæmt stöðluðum gátlista og gefa niðurstöðuna út sem staðið eða fallið.

1Breytt með 1. gr. reglna nr. 922/2015.
2Breytt með 1. gr. reglna nr. 1016/2016.

18. gr.  Sérreglur um meistaranám í Matvæla- og næringarfræðideild.

I. Inntökuskilyrði.
Til að geta innritast í nám til meistaraprófs við Matvæla- og næringarfræðideild þarf stúdent að hafa lokið BS-prófi frá deildinni eða að hafa sambærilegt próf sem Matvæla- og næringarfræðideild viðurkennir. Lágmarkseinkunn á BS-prófi er 6,5. Heimilt er að víkja frá þessari reglu ef stúdent hefur sýnt hæfni til rannsóknastarfa, t.d. með birtingu vísindagreina eða með því að standast námskröfur fjórða árs náms eftir að grunnnámi í háskóla er lokið.

II. Einingafjöldi, samsetning náms og tímalengd náms.
Prófgráðan MS er veitt fyrir 120 eininga meistaranám að loknu BS-prófi í matvælafræði eða næringarfræði eða sambærilegu prófi.

Námskeið skulu svara til 30 eða 60 eininga og meistaraverkefni/rannsóknarverkefni til 60 eða 90 eininga. Námsáætlun skal unnin undir handleiðslu umsjónarkennara og meistaraprófsnefndar og samþykkt af meistaranámsnefnd. Námskeiðseiningar fást með þátttöku í námskeiðum við Háskóla Íslands eða aðrar viðurkenndar stofnanir í samræmi við samþykkta námsáætlun. Hámarksfjöldi eininga í lesnámskeiðum stúdents hjá leiðbeinanda hans er 18 einingar. Óski stúdent frávika frá námsskipan þeirri sem gert er ráð fyrir eða upphaflegri námsáætlun skal hann leggja námsáætlun sína fyrir meistaraprófsnefnd og meistaranámsnefnd deildar til samþykktar. Ef sérstakar ástæður eru fyrirliggjandi getur stúdent sótt um leyfi til að taka nám á tvöfalt lengri tíma en áætlað er samkvæmt reglum og skal þá deild fjalla um þá umsókn fyrir upphaf kennslu á haustmisseri. Til þess að standast MS-próf verður stúdent að hafa hlotið eigi lægri einkunn en 6,0 að meðaltali.

Til meistaraprófs skal kennslu hagað þannig, að ljúka megi því á tveimur árum eftir BS-próf. Meistaraprófi skal ljúka eigi síðar en þremur árum eftir að stúdent innritaðist í meistaranámið. Heimilt er að víkja frá þessu við sérstakar aðstæður eins og t.d. ef hluti náms er fjarnám.

Við brautskráningu skal stúdent sýna fram á að hann hafi verið skráður og hafi greitt skrásetningargjald allan námstímann.

19. gr.  Sérreglur um meistaranám í Sálfræðideild.

I. Framhaldsnámsnefnd.
Í framhaldsnámsnefnd sitja 3-7 menn, kosnir á deildarfundi til árs í senn, og skal meirihluti þeirra vera úr hópi fastra kennara við deildina. Skipan nefndarinnar og fjöldi nefndarmanna fer eftir ákvörðun deildarfundar. Deildarforseti getur setið fundi nefndarinnar og stýrt þeim þegar það á við.

[Framhaldsnámsnefnd hefur umsjón með MS-námi í hagnýtri sálfræði.]2 Hún gerir tillögur um námsskipan og námsframboð til deildarfundar, fjallar um umsóknir og gerir tillögur um aðgang nemenda. Hún samþykkir námsáætlanir og breytingar á þeim, fjallar um og afgreiðir skipun leiðbeinenda og meistaraprófsnefnda, fylgist með námsframvindu og gæðum náms. Hún tilnefnir prófdómara, sér um sérstök próf þegar það á við og sinnir öðrum málum sem deild kann að fela henni.

Umsjón með doktorsnámi í Sálfræðideild hafa doktorsnámsnefnd Heilbrigðisvísindasviðs og deildarráð í samráði við Miðstöð framhaldsnáms.

II. Inntökuskilyrði og umsóknargögn.
Til að innritast í framhaldsnám í sálfræði þarf að hafa lokið BS-prófi frá Sálfræðideild HÍ með fyrstu einkunn eða sambærilegu prófi að mati deildar. Það styrkir umsókn ef umsækjandi hefur sýnt fram á sérstaka færni í rannsóknum, námi eða starfi, til dæmis með birtingu vísindagreina eða með námsárangri að loknu BS-prófi og er þá framhaldsnámsnefnd heimilt að leggja til að vikið sé frá ítrustu inntökuskilyrðum. Heimilt er að krefjast þess, áður en stúdent fær formlega aðgang að framhaldsnámi í sálfræði, að hann ljúki námskeiðum eða verkefnum sem skortir í BS-nám hans að mati framhaldsnámsnefndar.

[Við mat á umsóknum er tekið mið af námsárangri, einkunnum, viðtölum, greinargerð umsækjanda um náms- og starfsmarkmið, meðmælum, sem og aðstæðum deildar til að veita viðeigandi aðstöðu og leiðsögn. Aðgangur nemenda að MS-námi í hagnýtri sálfræði er háður sérstökum fjöldatakmörkunum sem háskólaráð samþykkir.]2

III. Námsskipan, námstími og námskröfur.
[Nám til prófgráðunnar MS í sálfræði er 120 einingar að loknu BS-prófi.]1 Námskeið, málstofur, lesnámskeið, þjálfunar- og sérverkefni skulu svara til 60 eininga og meistaraverkefni til 60 eininga. Fjöldi eininga úr námskeiðum á framhaldsstigi (F-námskeiða), þar með talið fjarnám, sem framhaldsnámsnefnd viðurkennir, skal vera að minnsta kosti 20. Hámarksfjöldi eininga úr sérverkefnum og sérmótuðum lesnámskeiðum er 20 og hámarksfjöldi eininga úr M-námskeiðum úr Sálfræðideild og G-námskeiðum utan Sálfræðideildar er 20. Öll sérverkefni, M- og G-námskeið eru háð samþykki framhaldsnámsnefndar, sem getur gert sérstakar kröfur um lágmarkseinkunn og einingamat.

Námsáætlun skal gerð í upphafi náms í samstarfi stúdents og meistaraprófsnefndar hans. Miðað er við að stúdentar séu í fullu námi og er námstími fjögur misseri. Stúdent getur sótt um sérstakt leyfi til deildar til þess að taka nám á allt að tvöfalt lengri tíma og skal þá vera skráður í hálft nám. Til að útskrifast með prófgráðuna MS þarf vegin meðaleinkunn stúdents í námskeiðum þar sem einkunn er gefin að vera 7,0 eða hærri.

[Nám til prófgráðunnar MS í hagnýtri sálfræði er 120 einingar að loknu BS-prófi. Námskeið, málstofur, lesnámskeið, starfsþjálfun, þjálfunar- og sérverkefni skulu svara til 60-90 eininga og meistaraverkefni til 30-60 eininga. [Fjögur]2 kjörsvið eru við námsleiðina og er skipulag þeirra ólíkt. [Kjörsviðið klínísk sálfræði uppfyllir skilyrði reglugerðar nr. 1130/2012 um menntun til að hljóta starfsleyfi sem sálfræðingur.]2 Stúdentar skulu vera í fullu námi og er námstími tvö ár (fjögur misseri). Skilgreindur hluti námsins getur farið fram að sumri að loknum prófum á öðru námsmisseri. Unnt er að sækja um leyfi deildar til að ljúka námi á lengri tíma en fjórum misserum. Til að útskrifast með prófgráðuna MS í hagnýtri sálfræði þarf vegin meðaleinkunn stúdents í námskeiðum þar sem einkunn er gefin að vera 7,0 eða hærri.]1

[...]2

1Breytt með 2. gr. reglna nr. 1016/2016.
2Breytt með 1. gr. reglna nr. 1258/2017.

20. gr.  Sérreglur um meistaranám í Tannlæknadeild.

I. [Markmið.
Markmið meistaranáms við Tannlæknadeild er að veita nemandanum vísindalega þjálfun að loknu kandídatsnámi eða BS-námi. Meistaranámið skal auka faglega þekkingu og veita þjálfun og innsýn í rannsóknaraðferðir tannlæknisfræðinnar og skyldra greina.]1

II. Inntökuskilyrði.
Til að innritast í meistaranám við Tannlæknadeild þarf stúdent að hafa lokið cand. odont.-prófi eða BS-prófi í raungrein eða öðru samsvarandi prófi að mati rannsókna-námsnefndar. Miðað er við að nemandi hafi að lágmarki 6,5 í aðaleinkunn úr BS-prófi eða samsvarandi námi. Heimilt er að víkja frá reglunni um lágmarkseinkunn hafi umsækjandi t.d. sýnt fram á námshæfni og/eða hæfni í sjálfstæðum rannsóknum.

III. [Einingafjöldi og tímalengd náms.
Meistaranám við Tannlæknadeild er 120 einingar. Nemandi sem lokið hefur kandídatsprófi í tannlæknisfræðum fær 30 einingar úr því námi metnar inn í meistaranámið. Heimilt er að meta allt að 30 einingar til viðbótar fyrir fyrirfram skilgreind námskeið úr tannlæknanáminu. Miðað er við að lágmarkseinkunn úr þeim námskeiðum sem metin eru inn í meistaranámið sé 6,0. Með eðlilegri námsframvindu er við það miðað að lengd meistaranáms sé eitt og hálft ár (þrjú misseri) hjá þeim sem lokið hafa cand. odont.-prófi en tvö ár (fjögur misseri) hjá nemendum sem lokið hafa BS-prófi. Að jafnaði taki námið ekki lengri tíma en þrjú ár.]2

[IV. Samsetning náms.
Námið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og er samsett af almennum og sértækum námskeiðum auk rannsóknarverkefnis. Vinna að eigin rannsóknarverkefni og samning ritgerðar sem byggist á því er meginhluti námsins. Eigi síðar en í lok fyrsta námsmisseris skal nemandi skila á sérstöku eyðublaði rannsóknaráætlun þar sem fram komi staða þekkingar, skýr rannsóknarspurning, aðferðir og verkþættir og hlutverk nemandans í verkefninu. Stærð rannsóknarverkefnis skal vera 60 einingar. Aðrar einingar fást með þátttöku í námskeiðum í samræmi við samþykkta námsáætlun. Námskeið eru ýmist skyldunámskeið eða valnámskeið.

Kynning á verkefninu á ritrýndri ráðstefnu telst einnig til þjálfunar og má meta til eininga samkvæmt umsókn. Kynningar á ráðstefnum mega að hámarki nema 4 af 120 einingum í meistaranámi. Nemandi í meistaranámi má að hámarki taka 10 einingar í lesnámskeiðum undir leiðsögn kennara. Lesnámskeiðið skal vera á rannsóknasviði sem tengist rannsóknarverkefni nemanda en er ekki hluti af aðalverkefni. Námið felst í lestri tímaritsgreina og annarra heimilda sem valdar eru í samráði við kennara og umræðum um þær við kennara.]3

[V. Rannsóknanámsnefnd.
Sameiginleg rannsóknanámsnefnd Læknadeildar og Tannlæknadeildar fer með málefni meistaranámsins í umboði deildarráðs, enda situr fulltrúi Tannlæknadeildar í þeirri nefnd. Hlutverk rannsóknanámsnefndar er m.a. að fjalla um umsóknir, skipa í meistaraprófsnefnd, tilnefna prófdómara fyrir meistarapróf og sjá um meistarapróf í Tannlæknadeild.]4

[VI.]3 Námsmat og meistarapróf.
Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats rannsóknanáms-nefndar staðfest námsferilsyfirlit stúdents. Í meistaraprófi flytur nemandi fyrirlestur um rannsóknarverkefnið (u.þ.b. 40 mín.) og hafa prófdómarar síðan samtals u.þ.b. klukkustund til að prófa nemandann. Prófdómarar ásamt umsjónarkennara og prófstjóra, sem skipaður er af rannsóknanámsnefnd, meta frammistöðu nemanda og gefa honum einkunn, staðið/fallið.

[VII.]4 Kröfur til umsjónarkennara, leiðbeinenda og annarra sem leggja mat á námið og rannsóknarverkefni.
Umsjónarkennari skal ávallt vera fastráðinn kennari Tannlæknadeildar; lektor, dósent eða prófessor. Ef leiðbeinandi meistaranema er ekki fastráðinn kennari Tannlæknadeildar er nauðsynlegt að hann hafi sjálfur a.m.k. lokið meistaraprófi á fræðasviðinu. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á sérsviði leiðbeinandans. Leiðbeinendur meistaranema, hvort sem þeir eru fastir kennarar við Háskóla Íslands eða ekki, skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar er tengjast verkefni stúdents á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur.

[VIII.]5 Meistaraprófsnefndir.
Meistaraprófsnefnd skal skipuð þremur sérfróðum mönnum og er einn þeirra umsjónarkennarinn. Í þeim tilvikum þar sem umsjónarkennari er ekki leiðbeinandi skal sá síðarnefndi einnig sitja í meistaraprófsnefnd. Rannsóknanámsnefnd skipar meistaraprófsnefndina. Hlutverk hennar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun og tryggja fagleg gæði rannsóknarvinnunnar í samræmi við reglur deildarinnar. Meistaraprófsnefnd heldur reglulega fundi með nemandanum og samþykkir framvinduskýrslur sem nemandi skilar eftir hvert misseri. Loks metur nefndin meistararitgerðina áður en hún er lögð fram til prófs og skilar áliti sínu í bréfi til rannsóknanámsnefndar.

[IX.]5 Skil og frágangur meistararitgerða.
Meistararitgerð má skrifa á íslensku eða ensku. Í meistararitgerð skal vera ítarlegur inngangur þar sem staða rannsókna á fræðasviðinu er rakin, aðferðafræði sem beitt var, niðurstöður, ítarlegar umræður og heimildaskrá sem skal vera samkvæmt almennum reglum vísindatímarita. Hafi nemandi skrifað grein/greinar til birtingar geta þær verið hluti af ritgerðinni, auk ítarlegs inngangs ásamt umræðum. Í ritgerð skal getið stofnunar sem rannsóknin var unnin við og tekið fram hverjir leiðbeinendur voru. Koma skal skýrt fram að verkefnið hafi verið unnið við Háskóla Íslands og geta skal þeirra sjóða sem styrktu verkefnið. Í meistararitgerð skal vera útdráttur á íslensku og ensku. Meistararitgerð skal skilað í fimm eintökum til skrifstofu Tannlæknadeildar eigi síðar en sex vikum fyrir áætlaðan prófdag. Tannlæknadeild tekur ekki þátt í kostnaði vegna meistararitgerða.

1Breytt með 1. gr. reglna nr. 1097/2014.
2Breytt með 2. gr. reglna nr. 1097/2014.
3Breytt með 3. gr. reglna nr. 1097/2014.
4Breytt með 4. gr. reglna nr. 1097/2014.
5Breytt með 5. gr. reglna nr. 1097/2014.

21. gr.  Gildistaka o.fl.
Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Reglurnar hafa verið samþykktar af deildum Heilbrigðisvísindasviðs og stjórn sviðsins, auk Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 517/2003, 239/2004, 340/2007 og 344/2007.

Háskóla Íslands, 22. janúar 2014.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
5 + 6 =
Leystu þetta einfalda dæmi og settu inn niðurstöðuna. T.d. ef dæmið er 1 + 3, settu þá inn 4.