Skip to main content

Háskólaráðsfundur 2. febrúar 2012

02/2012

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2012, fimmtudaginn 2. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Hallgrímsdóttir, Pétur Gunnarsson, Sigríður Valgeirsdóttir (varamaður fyrir Sigríði Ólafsdóttur), Soffía Auður Birgisdóttir (varamaður fyrir Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur) og Þórður Sverrisson. Guðrún Sóley Gestsdóttir og Hilmar B. Janusson boðuðu forföll. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.    Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor greindi frá nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins.
a)    Sýnt var kynningarmyndband um tónvísindasmiðju Bjarkar Guðmundsdóttur sem haldin var í haust í samstarfi við Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg.
b)    Rektor sat í síðustu viku fund stjórnar EUA og voru meðal gesta fundarins tveir fulltrúar úr framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Androullla Vassiliou, framkvæmdastjóri menntunar, menningar, fjöltyngis og æsku, og Máire Geoghegan-Quinn, framkvæmdastjóri rannsókna, nýsköpunar og vísinda. Rektor greindi frá umræðum sem urðu vegna nýrra áætlana á þessum sviðum, bæði „Horizon 2020 – Framework Programme for Research and Innovation in the European Union“ og „Erasmus for All“. Í báðum áætlunum er gert ráð fyrir verulegri aukningu fjármuna (46% og 70% aukningu) og einföldun á skipulagi og umsóknarferli. Þá greindi rektor frá því að á næstunni fer af stað tilraunaverkefni meðal fjölmargra evrópskra háskóla, „European Platform of Universities Engaged in Energy Research, Education and Training (EPUE)“, í þeim tilgangi að styrkja samkeppnishæfni Evrópu á sviði orkuvísinda. Mun Háskóli Íslands senda tvo fulltrúa sína á undirbúningsfund vegna verkefnisins.
c)    Málþing um akademískt frelsi á vegum starfsnefnda háskólaráðs var haldið í Öskju föstudaginn 27. janúar sl.
d)    Föstudaginn 3. febrúar nk. munu Lagadeild Háskóla Íslands og Lagadeild Kaupmannahafnarháskóla undirrita samning um sameiginlegt doktorsnám í lögfræði.
e)    Háskóladagurinn – kynningardagur allra háskóla verður haldinn 18. febrúar nk.
f)    Brautskráning kandídata fer fram í Háskólabíói 25. febrúar nk.

2.    Fjármál Háskóla Íslands.
a)    Fjárhagsáætlun fyrir árið 2012.

Fyrir fundinum lá tillaga fjármálanefndar til háskólaráðs um skiptingu fjárveitinga Háskóla Íslands fyrir árið 2012 ásamt niðurstöðutölum fjárhagsáætlana einstakra rekstrareininga skólans. Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þeir Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna.
- Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2012 samþykkt einróma. Fjármálanefnd falið að leggja fyrir 1. maí nk. fram áætlun um hvernig fræðasvið og deildir geti náð hallalausum rekstri árið 2013.

b)    Áætlun um nýbyggingar og viðhald eldri bygginga háskólans 2012.
Þá gerðu Guðmundur og Sigurður grein fyrir framlögðum drögum að framkvæmda- og fjármögnunaráætlun nýbygginga fyrir tímabilið 2011-2020. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og Sigurður framkomnum spurningum og athugasemdum.

c)    Gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur.
- Frestað.

3.    Starfsáætlun Háskóla Íslands á vormisseri 2012.
Fyrir fundinum lá yfirlit um stærstu verkefni í Háskóla Íslands á vormisseri 2012. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom tillaga um að jafnréttismálum verði bætt sem viðfangsefni á vormisseri 2012.
- Starfsáætlun Háskóla Íslands á vormisseri 2012 samþykkt einróma.

4.    Stefna Háskóla Íslands 2011–2016: Inntökukröfur og mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla    Íslands.
    a)    Tillaga Hagfræðideildar um inntökupróf, sbr. síðasta fund.

Fyrir fundinum lá tillaga Hagfræðideildar að reglum um inntökupróf. Jón Atli Benediktsson gerði ítarlega grein fyrir málinu og var það rætt.

- Samþykkt einróma. 5.gr. reglna nr.319/2009 um inntökuskilyrði verði breytt til samræmis.

5.    Erindi frá Raunvísindadeild, dags. 20. janúar sl., vegna samnings við Læknadeild um kennslu og rannsóknir í lífefnafræði.
Rektor gerði grein fyrir málinu.
- Háskólaráð vísar málinu til rektors til úrlausnar. Um er að ræða samning á milli eininga innan háskólans um tiltekin skipulagsmál er varðar kennslu, rannsóknir og samskipti deilda.

6.    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir tillögunum.

a)    Nýjar diplómanámsleiðir (2) á framhaldsstigi við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Menntavísindasviðs.
- Samþykkt einróma.

b)    Ný námsleið í meistaranámi í Kennaradeild Menntavísindasviðs, kennslufræði grunnskóla, M.Ed., 120 e.
- Samþykkt samhljóða, en einn sat hjá. Samþykktin er með þeim fyrirvara að tillagan samræmist ákvæðum laga og reglna um grunn- og framhaldsskóla.

c)    Breyting á 11. gr. reglna um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands, nr. 319/2009. Varðar inntökuskilyrði í læknisfræði og sjúkraþjálfun.
- Samþykkt einróma.

d)    Starfsreglur nefnda til að undirbúa ákvörðun háskólarektors um ráðningu forseta fræðasviða.
Fyrir fundinum lá tillaga að breytingu á starfsreglum nefnda til að undirbúa ákvörðun háskólarektors um ráðningu forseta fræðasviða.

- Samþykkt einróma.

e)    Minnisblað um nám í orkuvísindum.
Rektor og Jón Atli gerðu grein fyrir framlögðu minnisblaði um orkutengt framhaldsnám við Háskóla Íslands. Málið var rætt.
- Samþykkt einróma.

7.    Fyrirvarar í kennsluskrá Háskóla Íslands 2012–2013 og aðhald með skráningum.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu.
- Samþykkt einróma, með þeirri breytingu að niður fellur setningin „Greiðslufrestur skrásetningargjalds er til 10. júlí 2012 (gjalddagi/eindagi gjaldsins)“, enda verður gjaldið innheimt í samræmi við verklagsreglur um innheimtu skrásetningargjalds sem gert er ráð fyrir að verði lagðar fram á næsta fundi.

Pétur Gunnarsson og Þórður Sverrisson véku af fundi.

8.    Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, mætir á fundinn.
Inn á fundinn kom Kristín Vala Ragnarsdóttir, fráfarandi forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, og greindi frá stöðu mála og helstu áherslum í starfi fræðasviðsins og deilda og stofnana þess. Málið var rætt og svaraði Kristín Vala spurningum ráðsmanna.

9.    Mál til fróðleiks.
a)    Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 2012.
b)    Kynningarmyndband um tónvísindasmiðju Bjarkar Guðmundsdóttur, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Sjá: http://vimeo.com/33938841
c)    Háskóladagurinn 18. febrúar 2012.
d)    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla nr. 63/2006. Þingskjal 714 – 468. mál. Lagt fyrir Alþingi á 140. Löggjafarþingi 2011–2012. Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/Aferill.pl?ltg=140&mnr=468

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.