Skip to main content

Háskólaráðsfundur 4. október 2012

09/2012

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2012, fimmtudaginn 4. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl 13.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Kristin Andersen), Margrét Hallgrímsdóttir, Sigvaldi Fannar Jónsson (varamaður fyrir Maríu Rut Kristinsdóttur), Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Rektor bauð fundarmenn velkomna og setti fundinn. Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og skoðast hún því samþykkt. Engar athugasemdir voru gerðar við dagskrá fundarins.

1.    Mál á döfinni í Háskóla Íslands
Rektor greindi frá nokkrum viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs:
a)    Í gær bárust þau ánægjulegu tíðindi að Háskóli Íslands hefur bætt stöðu sína meðal bestu háskóla í heimi skv. nýjum matslista hins virta tímarits Times Higher Education. Háskóli Íslands hefur færst upp um 6 sæti frá því í fyrra og er nú í 271. sæti. Í heiminum eru um 17 þúsund háskólar og er Háskóli Íslands því á meðal þeirra tveggja prósenta háskóla sem hæst eru metnir. Mat Times Higher Education nær til allra helstu starfsþátta háskóla. Megináhersla er lögð á kennslu, námsumhverfi, umfang rannsókna og áhrif þeirra á alþjóðlegum vettvangi. Afköst í rannsóknum eru mæld í fjölda vísindagreina í virtum alþjóðlegum vísindatímaritum og gæði þeirra eru mæld í tilvitnunum. Misjafnt er eftir fræðigreinum hvernig staðið er að birtingu niðurstaðna og tekur matið tillit til þess.
b)    Rektor var nýlega boðið að halda erindi á ráðstefnunni World Summit of Innovation and Entrepreneurship í Boston, þar sem hún ræddi um sýnileika vísinda.
c)    Rektor greindi frá því að frá síðasta fundi ráðsins hefur áfram verið unnið að málefnum Háskólabíós og gengur vinnan skv. áætlun.

2.    Starfsreglur háskólaráðs
Fyrir fundinum lágu drög að starfsreglum háskólaráðs og gerði rektor grein fyrir þeim. Málið var rætt ítarlega og komu fram ýmsar gagnlegar ábendingar sem tekið verður mið af við frágang starfsreglnanna og verða þær áfram ræddar á næsta fundi. Á þeim fundi verður þó þegar farið eftir þeim ákvæðum starfsreglnanna er lúta að formi dagskrár og útsendingu gagna.

3.    Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2011-2016
a)    Helstu verkefni í Háskóla Íslands á vormisseri 2012: Yfirlit yfir framkvæmd og stöðu verkefna.
Fyrir fundinum lá yfirlit um framkvæmd og stöðu helstu verkefna á vormisseri 2012. Rektor fór yfir málið og var það rætt.

b)    Helstu verkefni í Háskóla Íslands á haustmisseri 2012. Drög að starfsáætlun.
Rektor gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um helstu verkefni í Háskóla Íslands og drög að starfsáætlun háskólaráðs á haustmisseri 2012. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma.

4.    Fjármál Háskóla Íslands
a)    Fjárhagsstaða Háskóla Íslands eftir fyrstu átta mánuði ársins 2012.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Fram kom að fjárhagsstaða háskólans er í meginatriðum óbreytt frá yfirlitinu yfir fjárhagsstöðu skólans eftir fyrstu sjö mánuði ársins sem kynnt var á síðasta fundi háskólaráðs.

b)    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013.
Rektor greindi frá stöðu mála.

Þá greindi rektor frá því að þau Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, munu efna til upplýsingafundar um fjármál Háskóla Íslands með fulltrúum í háskólaráði 18. október nk. kl. 16.

5.    Úttektir á deildum Háskóla Íslands. Staða mála.
Magnús Diðrik Baldursson greindi frá stöðu mála varðandi úttektir á deildum Háskóla Íslands á grundvelli áætlunar gæðaráðs háskóla. Málið var rætt og svaraði Magnús spurningum fulltrúa í háskólaráði.

6.    Stjórnir, nefndir og ráð.
a)    Stjórn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumál.
Rektor bar upp tillögu um að stjórn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumál verði skipuð þeim Hrefnu Friðriksdóttur, dósent við Lagadeild (tilnefnd af Lagadeild), sem verði formaður, Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessor við Félagsráðgjafardeild (tilnefnd af Félagsráðgjafardeild), Vilhjálmi Árnasyni, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild (tilnefndur af Hugvísindasviði), Gunnari E. Finnbogasyni, prófessor við Kennaradeild (tilnefndur af Menntavísindasviði), og Erlu Kolbrúnu Svavarsdóttur, prófessor við Hjúkrunarfræðideild (tilnefnd af Heilbrigðisvísindasviði). Skipunartíminn er til 30. september 2015.
- Samþykkt einróma.

b)    Stjórn Reiknistofnunar Háskóla Íslands.
Rektor bar upp tillögu um að stjórn Reiknistofnunar Háskóla Íslands verði skipuð þeim Helga Þorbergssyni, dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, sem verði formaður, Kristínu Þórsdóttur, verkefnisstjóra (tilnefnd af Verkfræði- og náttúruvísindasviði), Ingjaldi Hannibalssyni, prófessor við Viðskiptafræðideild (tilnefndur af Félagsvísindasviði), Vilborgu Lofts, rekstrarstjóra (tilnefnd af Heilbrigðisvísindasviði), Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessor við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda (tilnefnd af Hugvísindasviði), og Sigurði Jónssyni, forstöðumanni (tilnefndur af Menntavísindasviði). Skipunartíminn er til 30. september 2015. Ebba Þóra Hvannberg vék af fundi undir þessum dagskrárlið.
- Samþykkt einróma.

c)    Skipulagsnefnd Háskóla Íslands.
Rektor bar upp tillögu um að nefnd um skipulag og framkvæmdir á lóð Háskóla Íslands verði skipuð þeim Ingjaldi Hannibalssyni, prófessor við Viðskiptafræðideild, sem verði formaður, Helgu Bragadóttur arkitekt, Hrund Ólöfu Andradóttur, dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, og Ingu Jónu Þórðardóttur viðskiptafræðingi. Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, vinnur með nefndinni.
- Samþykkt einróma.

7.    Mál til fróðleiks
a)    Fjöldatakmörkun í lífeindafræði 2012-2013 felld niður.
b)    Fréttablað Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands, september 2012.
c)    Frétt frá Háskóla Íslands (4.10.2012): Háskóli Íslands færist ofar á lista yfir bestu háskóla heims.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.15.