Forkröfur fyrir hjúkrunarfræði eða ljósmóðurfræði - Undirbúningsnám


Forkröfur fyrir hjúkrunarfræði eða ljósmóðurfræði
Undirbúningsnám –
Námsleið fyrir þau sem hyggjast sækja um hjúkrunarfræði fyrir fólk með annað háskólapróf (BS) eða ljósmóðurfræði til starfsréttinda (MS). Einnig fyrir nemendur sem stefna á framhaldsnám og eru með íslenskt hjúkrunarleyfi en hafa lokið erlendu háskólaprófi í hjúkrunarfræði sem ekki telst sambærilegt íslensku BS prófi og þurfa að ljúka tilteknum forkröfunámskeiðum áður.
Skipulag náms
- Haust
- Félags- og sálfræði (forkrafa fyrir námsleið 261)
- Líkaminn – Bygging og þroskun (forkrafa fyrir námsleið 261)
- Frumulíffræði (forkrafa fyrir námsleið 261)
- Örveru- og sýklafræðiV
- Vöxtur og þroski barna og unglinga (forkröfu námsleið)V
- Sálfræði (forkrafa fyrir námsleið HJÚ261)V
- Félagsfræði (forkrafa fyrir námsleið HJÚ261)V
- Vor
- Lífeðlisfræði I (forkrafa fyrir námsleið 261)
- Lífeðlisfræði II (forkrafa fyrir námsleið 261)
- Tölfræði (forkrafa fyrir námsleið 261)
- Aðferðafræði (forkrafa fyrir námsleið 261)
- Nútímakenningar í félagsfræðiV
Félags- og sálfræði (forkrafa fyrir námsleið 261) (HJÚ121G)
Í félagsfræðihluta: Gerð er grein fyrir hugtökunum heilbrigði, sjúkdómur, veikindi og sjúklingur. Fjallað er um virkni-, álags- og lífsstílsskýringar á heilsuvandamálum. Gerð er grein fyrir tengslum viðhorfa og hegðunar og kynnt fræðileg líkön um þau tengsl. Langvinn heilsuvandamál eru skilgreind og rætt um sálrænar, félagslegar og efnahagslegar afleiðingar þeirra.
Í sálfræðihluta: Fjallað verður um hvernig skilja má hugarstarf og hegðun einstaklinga og hópa út frá sjónarhorni sálfræðinnar. Kynnt eru mikilvægt hugtök, helstu kenningar og niðurstöður rannsókna. Fjallað verður um sálfræði sem vísindagrein með áherslu á gagnrýna hugsun og fagleg vinnubrögð. Markmiðið er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á mikilvægum undirstöðuatriðum sálfræðinnar og hagnýtum nálgunum innan hennar.
Líkaminn – Bygging og þroskun (forkrafa fyrir námsleið 261) (HJÚ136G)
Markmið kennslu í líffæra- og fósturfræði er að veita nemendum almenna og víðtæka þekkingu á grundvallaratriðum í byggingu og þroskun líkamans. Í námskeiðinu er farið í fyrirlestrum yfir grundvallaratriði fósturfræði og gerð mannslíkamans skýrð með tilvísun til uppruna hans. Þannig þekki verðandi hjúkrunarfræðingar byggingu og innbyrðis afstöðu þátta stoðkerfisins, vöðva, líffæra og líffærakerfa. Þessi grunnur veitir grundvallarskilning á uppbyggingu líkamans, en gerir nemendum jafnframt kleyft að afla sér viðbótarþekkingar á þessu sviði.
Frumulíffræði (forkrafa fyrir námsleið 261) (HJÚ137G)
Inngangur að frumulíffræði.
Að loknu námskeiðinu mun nemandinn hafa öðlast þekkingu til að geta lýst og gert í grundvallaratriðum grein fyrir eftirfarandi þáttum og hugtökum.
Bygging og þróun heilkjörnunga. Efnafræði frumna og orkubúskapur, gerð og eiginleikar stórsameinda eins og próteina og kjarnsýra. Bygging og hlutverk frumuhluta sem dæmi frumuhimnu, kjarna, hvatbera, frumugrindar, golgíkerfis, leysikorna og oxunarkorna. Grunnatriði í erfðafræði og genastjórnun. Stjórnkerfi og boðleiðir innan frumu og samskipti milli fruma ásamt frumusérhæfingu og krabbameinum.
Örveru- og sýklafræði (LÍF111G)
Markmið námskeiðsins er að kynna mikilvægi sýkla og smitvarna við umönnun og meðferð sjúklinga og önnur störf á vettvangi hjúkrunar. Lögð er áhersla á fræðilegan undirbúning nemenda til þess að þeir geti hámarkað öryggi sjúklinga og umönnunaraðila við störf sín. Þannig geti þeir tekist á við þekkta og nýja sýkla, spítalasýkingar og útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Mikilvægir orsakavaldar sýkinga og smitsjúkdóma eru kynntir, helstu eiginleikar þeirra, varnir gegn þeim og meðferð.
Námskeiðið er samkennt með LÍF110G.
Vöxtur og þroski barna og unglinga (forkröfu námsleið) (HJÚ014G)
Í námskeiðinu er farið í helstu kenningar um vitsmuna-, siðferðis- og sálfélagslegan þroska yfir æviskeiðið. Lögð er áhersla á heilbrigðan vöxt og þroska barna og unglinga. Farið er í líkamlegar breytingar en jafnframt í vitsmunalegan og sálfélagslegan þroska hjá börnum og unglingum og ýmsar aðferðir til að meta vöxt og þroska þeirrra.
Sálfræði (forkrafa fyrir námsleið HJÚ261) (HJÚ122G)
Í sálfræðihluta: Fjallað verður um hvernig skilja má hugarstarf og hegðun einstaklinga og hópa út frá sjónarhorni sálfræðinnar. Kynnt eru mikilvægt hugtök, helstu kenningar og niðurstöður rannsókna. Fjallað verður um sálfræði sem vísindagrein með áherslu á gagnrýna hugsun og fagleg vinnubrögð. Markmiðið er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á mikilvægum undirstöðuatriðum sálfræðinnar og hagnýtum nálgunum innan hennar.
Námskeiðið er ætlað þeim sem þegar hafa lokið félagsfræðihluta námskeiðsins HJÚ121G Félags- og sálfræði.
Félagsfræði (forkrafa fyrir námsleið HJÚ261) (HJÚ123G)
Í félagsfræðihluta: Gerð er grein fyrir hugtökunum heilbrigði, sjúkdómur, veikindi og sjúklingur. Fjallað er um virkni-, álags- og lífsstílsskýringar á heilsuvandamálum. Gerð er grein fyrir tengslum viðhorfa og hegðunar og kynnt fræðileg líkön um þau tengsl. Langvinn heilsuvandamál eru skilgreind og rætt um sálrænar, félagslegar og efnahagslegar afleiðingar þeirra.
Námskeiðið er ætlað þeim sem þegar hafa lokið sálfræðihluta HJÚ121G Félags- og sálfræði.
Lífeðlisfræði I (forkrafa fyrir námsleið 261) (HJÚ244G)
Markmið kennslu í lífeðlisfræði er veita nemendum almenna og víðtæka þekkingu á grundvallaratriðum í starfsemi mannslíkamans. Þannig öðlist verðandi hjúkrunarfræðingar grundvallarskilning á líffræðilegum forsendum heilbrigðis og orsökum sjúkdóma og geti betur metið ástand og þarfir sjúklinga. Jafnframt eigi nemendur auðveldara með að afla sér viðbótarþekkingar á þessu sviði í framtíðinni. Þannig er staðgóð þekking í þessum greinum nauðsynleg undirstaða fyrir nám í almennum og sérhæfðum hjúkrunargreinum.
Viðfangsefni: Vöðvar, taugakerfi, stjórn hreyfinga. Innkirtlar og hormónar. Hjarta og æðakerfið. Öndun
Lífeðlisfræði II (forkrafa fyrir námsleið 261) (HJÚ245G)
Markmið kennslu í lífeðlisfræði er að veita nemendum almenna og víðtæka þekkingu á grundvallarstarfssemi mannslíkamans. Þannig öðlist verðandi hjúkrunarfræðingar grundvallarskilning á líffræðilegum forsendum heilbrigðis og orsökum sjúkdóma og geti metið ástand og þarfir skjólstæðinga sinna. Jafnframt eiga nemendur auðveldara með að afla sér viðbótarþekkingar á þessu sviði í framtíðinni. Þannig reynist staðgóð þekking í lífeðlisfræði nauðsynleg undirstaða fyrir nám í almennum og sérhæfðum hjúkrunargreinum.
Viðfangsefni: nýrnastarfsemi, bygging og starfsemi meltingarfæra, stjórn efnaskipta, orkujafnvægi, stjórn líkamshita, lífeðlisfræði vaxtar, skynjun, meðvitund, atferli, æxlunarlífeðlisfræði og fósturþroskun.
Tölfræði (forkrafa fyrir námsleið 261) (HJÚ246G)
Í námskeiðinu eru kennd undirstöðuatriði hagnýtrar tölfræði. Að megin efni er fjallað um tölfræðilega úrvinnslu, túlkun á niðurstöðum og framsetningu. Helstu efnisþættir eru: Mælingar á miðlægni og dreifingu í talnasöfnum, stöðlun, normaldreifing, öryggismörk, marktækni (z-, t- og x2-próf) og fylgni (líkindahlutfall, fí, Spearman's r og Pearson's r.
Aðferðafræði (forkrafa fyrir námsleið 261) (HJÚ247G)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum skilning á helstu hugtökum í aðferðafræði sem og þekkingu á algengustu rannsóknaaðferðum sem beitt er í hjúkrunarrannsóknum.
Nútímakenningar í félagsfræði (FÉL404G)
Fjallað verður um nokkrar helstu kenningar í félagsfræði á 20. öld, m.a. vísindaheimspekilegar forsendur kenninga í þjóðfélagsfræðum, samskiptakenningar, átakakenningar og verkhyggju. Nemendur velja nýjar fræðibækur og tengja efni þeirra við þær kenningar sem fjallað er um í námskeiðinu.
Hafðu samband
Skrifstofa Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar
Eirberg, 1. hæð, Eiríksgata 34
101 Reykjavík
Sími 525 4960
hjukrun@hi.is
Opið virka daga frá kl. 9 - 14

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.