Skip to main content

Sjálfstjórn mikilvæg fyrir gengi í skóla

Steinunn Gestsdóttir, dósent við Uppeldis- og menntunarfræðideild

Ég vona að rannsóknir mínar auki skilning skólafólks á öllum skólastigum á mikilvægi sjálfstjórnar fyrir skólagöngu og stuðli þannig að velferð barna og ungmenna,“ segir Steinunn Gestsdóttir, dósent í þroskasálfræði. Hún hefur unnið að langtímarannsókn ásamt samstarfsmönnum sínum við Menntavísindasvið, þeim Hrafnhildi Ragnarsdóttur prófessor og Freyju Birgisdóttur lektor en rannsóknin snýst um sjálfstjórn, málþroska og læsi barna á aldrinum fjögurra til átta ára. Nýlega hóf Steinunn einnig rannsóknir á sjálfstjórn íslenskra ungmenna.

Steinunn Gestsdóttir

„Sjálfstjórnin er áhugaverð því að með slíkri færni mótar fólk sitt eigið þroskaferli. Þegar ég flutti til Íslands eftir doktorsnám komst ég að því að sjálfstjórn hefur ekkert verið rannsökuð hér á landi, sem kom á óvart því að þetta er gífurlega vaxandi rannsóknarsvið erlendis.“

Steinunn Gestsdóttir

„Þessar rannsóknir mínar snúa að því hvernig unga fólkið stjórnar, breytir eða heldur aftur af tilfinningum sínum, hugsun og hegðun. Mér finnst mjög áríðandi að hefja rannsóknir á sjálfstjórn íslensku ungmennanna þar sem sjálfstjórn hefur sérstakt vægi á unglingsaldri, sem er jú tímabil sem sumum reynist erfitt.“

Steinunn segir að strax í doktorsnámi sínu við Tufts University í Bandaríkjunum hafi hún viljað skoða sálfræðileg ferli sem tengdust æskilegri þroskaframvindu á unglingsárum, til dæmis sjálfstrausti og velgengni í námi og lítilli þátttöku í áhættuhegðun.

„Sjálfstjórnin er áhugaverð því að með slíkri færni mótar fólk sitt eigið þroskaferli. Þegar ég flutti til Íslands eftir doktorsnám komst ég að því að sjálfstjórn hefur ekkert verið rannsökuð hér á landi, sem kom á óvart því að þetta er gífurlega vaxandi rannsóknarsvið erlendis.“ Steinunn segist því hafa ráðist í rannsóknir á þessu viðfangsefni.

Í rannsókninni, sem Steinunn vinnur með þeim Hrafnhildi og Freyju, eru tengd saman þrjú lykilsvið þroska, sjálfstjórn, málþroski og læsi, sem eru undirstöðuþættir fyrir farsæla skólagöngu. Síðustu gagnasöfnun er nýlokið í rannsókninni og úrvinnsla hafin.

„Fyrstu niðurstöður benda til að sjálfstjórn barna við lok leikskóla spái fyrir um námsgengi þeirra í grunnskóla,“ segir Steinunn.