Skip to main content

Orðaforði og áhrif á lesskilning

Sigríður Ólafsdóttir, doktor frá Uppeldis- og menntunarfræðideild

„Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna þróunarhraða orðaforða og lesskilnings hjá íslenskum grunnskólanemum á miðstigi sem eiga annað móðurmál en íslensku, tengsl á milli þessara grundvallarfærniþátta og bera saman við börn sem eiga íslensku að móðurmáli,“ segir Sigríður Ólafsdóttir, sem lauk doktorsprófi í menntunarfræði frá Háskóla Íslands haustið 2015.

Áhugi hennar á málefninu kviknaði þegar hún kenndi börnum íslensku sem annað tungumál. Í leit að árangursríkum aðferðum hafði hún samband við fræðimenn í Kanada og Hollandi og heimsótti þessi lönd. Þannig segir hún að áherslan hafi beinst að orðaforða.

Sigríður Ólafsdóttir

„Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna þróunarhraða orðaforða og lesskilnings hjá íslenskum grunnskólanemum á miðstigi sem eiga annað móðurmál en íslensku, tengsl á milli þessara grundvallarfærniþátta og bera saman við börn sem eiga íslensku að móðurmáli.“

Sigríður Ólafsdóttir

Niðurstöður rannsóknar Sigríðar leiddu í ljós að börn með annað móðurmál en íslensku þróuðu íslenskan orðaforða sinn frá fjórða til áttunda bekkjar hægar en jafnaldrar með íslensku að móðurmáli, sem leiddi til vaxandi munar á milli þessara nemendahópa. Síðarnefndi hópurinn hélt stöðugu forskoti í lesskilningi á rannsóknartímanum. Báðir hóparnir áttu það sammerkt að því meiri orðaforða sem börnin höfðu í 4. bekk því hraðar juku þau lesskilning sinn.

Þá sýndi rannsóknin einnig að því eldri sem börnin voru þegar þau komu til landsins því hraðari urðu framfarir í orðaforða og lesskilningi. Munur á börnum með evrópsk móðurmál og móðurmál utan Evrópu kom fram á orðaforða- og lesskilningsprófum í öllum bekkjum, evrópsku börnunum í vil.

„Áhrif íslensks orðaforða á þróunarhraða lesskilnings hafa ekki verið rannsökuð áður. Flestar rannsóknir á sviði læsis hafa náð til mjög ungra barna, aðeins spannað fá ár eða þróunarhraðinn hefur ekki verið kannaður sérstaklega. Því er rannsóknin framlag til alþjóðasamfélagsins,“ segir Sigríður að lokum.

Leiðbeinandi: Freyja Birgisdóttir, dósent við Kennaradeild.