Blaða- og fréttamennska


Blaða- og fréttamennska
MA gráða – 120 einingar
Í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku er lagður traustur grunnur að fagþekkingu á sviði blaða- og fréttamennsku og nemendur búnir sem best undir störf í hröðum heimi nútímafjölmiðlunar.
Skipulag náms
- Haust
- Inngangur að stjórnmálafræði: Íslenska stjórnkerfið
- Vinnubrögð I: Fjölmiðlalög og siðareglur
- Fréttamennska 1: Fréttamat, fréttaöflun og fréttaskrif
- Kenningar í fjölmiðla- og boðskiptafræðum
- Aukaverkefni: Fréttamennska 1V
- Vor
- Ljósvakamiðlar: Gerð útvarps- og sjónvarpsfrétta
- Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi í alþjóðlegu samhengi
- Fréttamennska II: Fréttaskýringar, viðtöl pistlaskrif og framsetning texta
- Starfsþjálfun
- Sumar
- Þáttagerð. Vinnsla fræðilegs efnis fyrir útvarp (í samvinnu við RÚV)V
Inngangur að stjórnmálafræði: Íslenska stjórnkerfið (BLF116F)
Fjallað er í víðu samhengi um helstu viðfangsefni stjórnmálafræðinnar, eins og vald, lýðræði, ríkið og stjórnmálastefnur. Lögð er sérstök áhersla á að tengja umfjöllun námskeiðsins við íslensk stjórnmál og stjórnmálaþróun. Fjallað er meðal annars um þróun íslenskrar stjórnskipunar, kosningar, stjórnmálaflokka, þingið, framkvæmdarvaldið, opinbera stefnumótun og sveitarstjórnir.
Vinnubrögð I: Fjölmiðlalög og siðareglur (BLF108F)
Markmið þessa námskeiðs er að nemendur öðlist skilning og þjálfun í faglegum vinnubrögðum blaða- og fréttamanna. Fjallað verður um lög og reglur sem gilda um fjölmiðla og störf blaða- og fréttamanna, tjáningarfrelsi og meiðyrðalög.
Fjallað verður um siðareglur fjölmiðla, bæði almennar siðareglur Blaðamannafélags Íslands og hvernig þeim er beitt inni á mismunandi fjölmiðlum, samskipti blaðamanna við eigendur fjölmiðla og auglýsendur. Einnig um meðferð heimilda og umgengni við heimildarmenn eða aðrar rætur upplýsinga.
Fréttamennska 1: Fréttamat, fréttaöflun og fréttaskrif (BLF110F)
Grundvallarnámskeið í blaðamennsku. Markmið þess er að nemendur öðlist skilning á störfum blaðamanna og færni í fréttaöflun og skrifum og framsetningu frétta fyrir mismunandi miðla. Helstu hugtök og aðferðir við fréttaskrif eru kynnt; hvað er frétt, á hverju byggja fjölmiðlar fréttamat, hvernig er frétta aflað og hvernig þær eru uppbyggðar o.s.frv. Nemendur verða þjálfaðir í að skrifa markvissa fréttatexta og greinar á góðri íslensku og að nota orðbækur og önnur slík hjálpartæki. Jafnfram verður lögð áhersla á að kenna nemendum að nota samfélagsmiðla, bæði til þess að afla upplýsinga og miðla fréttum.
Námsmatið byggir alfarið á verkefnum sem unnin eru jafnt og þétt yfir önnina. Nemendur afla og skrifa fréttir sem birtar verða á fréttavef námsins og eftir atvikum í öðrum fjölmiðlum. Helstu fjölmiðlar landsins verða heimsóttir og nemendum fara í stutta starfskynningu.
Kenningar í fjölmiðla- og boðskiptafræðum (BLF112F)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í nokkrar klassískar kenningar og skrif nútímahöfunda um þátt boðskiptanna og mismunandi boðskiptahátta í þróun og virkni samfélagsins. Vikið verður að kenningum nokkurra helstu kenningasmiða boðskipta- og fjölmiðlarannsókna og skyggnst í frumtexta þeirra. Jafnframt verður fjallað um eðli, þróun og viðfangsefni fjölmiðlarannsókna og sérstöðu fjölmiðlafræða innan félagsvísinda. Tekin verða dæmi af mismunandi rannsóknum, erlendum og innlendum, með hliðsjón af ólíkum kenningum og viðfangsefnum.
Aukaverkefni: Fréttamennska 1 (BLF109F)
Verkefni í tengslum við námskeiðið BLF110F.Nemendur hafa samband við kennara námskeiðsins til ákveða efni, efnistök og miðil.
Ljósvakamiðlar: Gerð útvarps- og sjónvarpsfrétta (BLF206F)
Markmið þessa námskeiðs er að þjálfa nemendur í störfum við hljóð- og myndmiðla. Fjallað verður hvað er líkt með þessum miðlum og hvað skilur þá að, kosti þeirra og galla. Nemendum verður kennt að skrifa og byggja upp fréttir fyrir ljósvakamiðla og að nýta eiginleika hljóð- og myndefnis til að segja fréttir. Einnig verður fjallað um notkun hljóð og myndefnis á vefmiðlun. Nemendur fá tilsögn í tæknivinnslu hljóð- og myndefnis og verða þjálfaðir í raddbeitingu, framsögn og framkomu.
Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi í alþjóðlegu samhengi (BLF211F)
Í námskeiðinu verður fjallað um sögu og þróun íslenskra fjölmiðla. Fjallað verður um megineinkenni íslenska fjölmiðlakerfisins og sjónum einkum beint að samspili þess við stjórnmála- og efnahagsumhverfið. Skoðaðar verða helstu kenningar og rannsóknir á fjölmiðlakerfum og megineinkenni og þróun íslenskra fjölmiðla sett í samhengi við einkenni og þróun fjölmiðla í öðrum ríkjum. Leitast verður við að svara spurningum um að hvaða leyti þróunin hér á landi hefur verið lík þróuninni annarsstaðar og að hvaða leyti íslenskir fjölmiðlar skera sig úr, meðal annars vegna smæðar markaðarins. Velt verður upp spurningum um áhrif eignarhalds, samkeppni, samþjöppunar og samruna ólíkra tegunda fjölmiðla á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
Fréttamennska II: Fréttaskýringar, viðtöl pistlaskrif og framsetning texta (BLF212F)
Í námskeiðinu er haldið áfram að vinna með það sem nemendur lærðu í áfanganum BLF106F Fréttamennska l. Markmiðið er að þjálfa nemendur enn frekar í frétta- og greinaskrifum, bæði fyrir prentmiðla og rafræna miðla og áhersla lögð á að laga efni að þörfum mismunandi miðla. Fjallað verður um fréttaskrif og fréttaskýringar, pistla, mannlífsefni og viðtöl, uppsetningu texta, myndefni, framsetningu og útlit.
Starfsþjálfun (BLF213F)
Nemendur fara í 4 vikna starfsþjálfun á fjölmiðli. Þar ganga þeir í almenn störf blaða- og fréttamanna og kynnast flestum þáttum starfa á ritstjórn.
Í loks starfsþjálfunar skal skila til umsjónarkennara námskeiðsins dagbók sem nemandi hefur haldið meðan á starfstíma stóð. Dagbókin skal fela í sér vikulegt yfirlit þar sem fram kemur hver helstu verkefni vikunnar voru og ígrundun um þau og vinnuna almennt.
Einkunn er ekki gefin fyrir starfstímann. Námskeiðinu verður hins vegar ekki lokið fyrr en umsjónarmaður starfsþjálfunar hefur staðfest mætingu nemanda og að viðunandi árangur hafi náðst. Kennari skilar staðfestingu til deildarskrifstofu.
Nemendur sem hafa umtalsverða starfsreynslu sem blaða- og fréttamenn geta sótt um til deildar að fá reynslu sína metna í stað starfsþjálfunarinnar.
Alla jafna er miðað við að starfsþjálfunin fari fram síðustu 4 vikurnar á vormisseri fyrra námsárs.
Þáttagerð. Vinnsla fræðilegs efnis fyrir útvarp (í samvinnu við RÚV) (BLF201M)
Markmiðið með námskeiðinu er að gefa nemendum tækifæri til að koma rannsóknum sínum og annarra á framfæri við hlustendur Ríkisútvarpsins, jafnframt því að rýna í samfélag og menningu á fræðilegum forsendum. Nemendum gefst um leið tækifæri til að kynnast útvarpinu sem miðli, fá reynslu af þáttagerð og kynnast verklagi reynds fjölmiðlafólks.
Á meðal þess sem rætt verður um á námskeiðinu er: Ríkisútvarpið sem miðill, útvarp sem farvegur fræða, gerð fléttuþátta fyrir útvarp, viðtöl við fræðimenn, hvernig nýta megi eigin sérfræðiþekkingu við dagskrárgerð og krafturinn sem býr í hinu ósagða. Rætt verður um talmál og tónlist í safni Ríkisútvarpsins. Lögð verður áhersla á hvernig tækni hefur þróast varðandi varðveislu og afspilun og hvernig hægt er að flétta eldri upptökur inn í nýja dagskrá.
Auk þessa fræðast nemendur um handritsgerð, viðtöl og vinnu í hljóðstofu. Þættir nemenda verða á dagskrá Ríkisútvarpsins á komandi vetri.
- Haust
- Vinnubrögð II: Öflun, meðferð og framsetning upplýsinga
- Málstofa um lokaverkefni
- Grundvallaratriði vefmiðlunar ‐ Starf vefstjórans og vefritstjórn
- MA-verkefni í blaða- og fréttamennsku
- Vor
- MA-verkefni í blaða- og fréttamennsku
Vinnubrögð II: Öflun, meðferð og framsetning upplýsinga (BLF307F)
Markmið þessa námskeið er að þjálfa nemendur frekar í faglegum vinnubrögðum blaða- og fréttamennsku og áhersla lögð á aðferðir og tæki við öflun, meðferð og framsetningu upplýsinga og gagna. Fjallað verður um upplýsingalög og nemendur þjálfaðir í að nota þau til afla upplýsinga og rannsaka mál. Fjallað verður um rannsóknarblaðamennsku, viðfangsefni hennar, gildi og takmarkanir og skoðuð dæmi um innlend og erlend rannsóknarblaðamennsku verkefni. Einnig verður fjallað um tölfræði og túlkun og framsetning tölulegra upplýsinga, og vísindalegra gagna og niðurstaðna.
Nemendum gefst síðan kostur á velja sér frekari sérhæfingu með því að taka eitt af eftirtöldum MOOC námskeiðum: rannsóknarblaðamennska; gagnablaðamennska; notkun netsins við upplýsingaöflun; sjónræn framsetning gagna.
Námskeiðið verður byggt upp á stuttum opnum netnámskeiðum sem ætluð eru til sjálfsnáms (MOOC) og umræðu og verkefnatímum.
Málstofa um lokaverkefni (BLF311F)
Markmið málstofunnar er að skapa vettvang fyrir nemendur í meistaranámi til að fjalla um verkefni sín og fá stuðning, hvatningu og aðhald við vinnuna. Auk þessa er fjallað um vinnulag í MA námi og nemendur fá kennslu um rafræn gagnasöfn og um heimildaöflun og heimildanotkun. Efni málstofunnar er sveigjanlegt til að mæta þörfum þess hóps sem situr hana hverju sinni.
Grundvallaratriði vefmiðlunar ‐ Starf vefstjórans og vefritstjórn (HMM120F)
Starf vefstjórans hefur tekið miklum breytingum með stöðugri tækniþróun og áherslu á stafrænar lausnir. Leitast verður við að veita nemendum góða innsýn í helstu þætti í starfi vefstjórans. Rýnt verður í skrif fræðimanna á sviði vefmiðlunar, nemendur kynnast nauðsynlegum tækjum og tólum og við fáum til okkar góða gesti sem hafa fjölbreytta starfsreynslu sem vefstjórar, vefritstjórar og á sviði stafrænnar miðlunar.
Starf vefritstjóra er iðulega samofið almennri vefstjórn. Nemendur fá góða innsýn í ritstjórn vefja og skrifum fyrir stafræna miðla. Fjallað verður um helstu þætti sem vefstjóri / vefritstjóri þarf að hafa vald á, svo sem upplýsingaarkitektúr, skrifum fyrir vef, framsetningu myndefnis, grundvallaratriði í vefhönnun, aðgengismál, nytsemi, öryggismál, vefmælingar, vefumsjónarkerfi, grunntækni vefviðmótsins, helstu hugtök og skilgreiningar í tækni vefsins og netsins.
Nemendur setja upp eigin vef og nota til þess vefumsjónarkerfi að eigin vali, t.d WordPress eða Wix, sem bæði eru til í ókeypis útgáfum, og er hluta verkefna skilað þar. Þannig öðlast nemendur þjálfun í að setja upp einfaldan vef og byggja upp leiðakerfi. Athygli er sérstaklega vakin á því að í námskeiðinu er ekki kennsla á vefumsjónarkerfi. Þeim sem ekki hafa reynslu af notkun þeirra fyrir er bent á að á YouTube má finna fjölda myndbanda þar sem hægt er að læra á kerfin, allt frá grunnatriðum og upp í mun flóknari þætti en ætlast er til að í þessu námskeiði.
MA-verkefni í blaða- og fréttamennsku (BLF441L)
Lokaverkefni í blaða- og fréttmennsku samanstendur af fjölmiðlaafurð og greinargerð um hana. Fjölmiðlaafurðin skal vera unnin í samræmi við viðurkennd fagleg vinnubrögð í blaða- og fréttamennsku, þ.m.t vandaða upplýsingaöflun og meðferð heimilda, sanngjarna og heiðarlega umfjöllun. Jafnframt þarf verkið að sýna að nemandi hafi vald á miðlinum sem valinn var og hann eða hún hafi nýtt sér kosti miðilsins til að koma umfjöllunarefninu sem best til skila. Fjölmiðlaafurðin getur til dæmis verið heimildarmynd, útvarpsþáttur, grein í rafrænu eða prentuðu blaði eða tímariti, bók, vefur eða margmiðlun af einhverju tagi. Í fræðilegri greinagerð skal nemandi gera m.a. grein fyrir vali á verkefni og miðli, aðferðum og vinnslu, efnistökum og upplýsingaöflun og takmörkunum verksins.
MA-verkefni í blaða- og fréttamennsku (BLF441L)
Lokaverkefni í blaða- og fréttmennsku samanstendur af fjölmiðlaafurð og greinargerð um hana. Fjölmiðlaafurðin skal vera unnin í samræmi við viðurkennd fagleg vinnubrögð í blaða- og fréttamennsku, þ.m.t vandaða upplýsingaöflun og meðferð heimilda, sanngjarna og heiðarlega umfjöllun. Jafnframt þarf verkið að sýna að nemandi hafi vald á miðlinum sem valinn var og hann eða hún hafi nýtt sér kosti miðilsins til að koma umfjöllunarefninu sem best til skila. Fjölmiðlaafurðin getur til dæmis verið heimildarmynd, útvarpsþáttur, grein í rafrænu eða prentuðu blaði eða tímariti, bók, vefur eða margmiðlun af einhverju tagi. Í fræðilegri greinagerð skal nemandi gera m.a. grein fyrir vali á verkefni og miðli, aðferðum og vinnslu, efnistökum og upplýsingaöflun og takmörkunum verksins.
- Haust
- Staða Íslands í alþjóðakerfinuB
- Stafrænir miðlarB
- Nýsköpun - frá hugmynd að afurðV
- Verkefni í blaða- og fréttamennskuV
- Verkefni í blaða- og fréttamennskuV
- Verkefni í blaða- og fréttamennskuV
- Vor
- Hagnýting jafnréttisfræða: Kyn og margbreytileiki í fjölmiðlumB
- Ritstjórn og hönnun prentgripaV
- Miðlun og menningV
- Fjölmiðlar og menning á tímum hnattvæðingarV
- Verkefni í blaða- og fréttamennskuV
- Verkefni í blaða- og fréttamennskuV
- Verkefni í blaða- og fréttamennskuV
- Ritstjórn og hönnun prentgripaV
Staða Íslands í alþjóðakerfinu (ASK105F)
Markmið námskeiðsins er að kynna nemendur fyrir alþjóðasamvinnu og stöðu Íslands í alþjóðakerfinu. Hnattvæðing verður skoðuð í sögulegu ljósi og farið yfir helstu kenningar um hnattvæðingu. Fjallað verður um áhrif hnattvæðingar á stjórnmál, efnahagsmál, ríki og einstaklinga. Utanríkisstefna Íslands verður greind og áhersla lögð á þau málefni sem eru í forgangi hjá íslenskum stjórnvöldum um þessar mundir. Sjónum er beint að varnar- og öryggismálum á Íslandi, þátttöku Íslands í málefnum norðurslóða og norrænu samstarfi, og stöðu Íslands í ljósi breyttrar heimsmyndar. Fjallað verður sérstaklega um stofnanir sem sinna öryggismálum á landinu eins og Landhelgisgæsluna, Póst- og fjarskiptastofnunina og Ríkislögreglustjóra. Samrunaþróunin í Evrópu verður skoðuð með tilliti til þeirra leiða sem Ísland hefur valið í samskiptum sínum við Evrópu. Skoðað verður sérstaklega hvaða áhrif EES-samningurinn hefur haft á Íslandi. Einnig verður gerð grein fyrir þátttöku Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna og framboði Íslands til Öryggisráðs SÞ.
Stafrænir miðlar (BLF314F)
Í námskeiðinu er sjónum beint að stafrænum miðlum með sérstaka áherslu á samfélagsmiðla. Litið verður á stafræna miðla í sögulegu samhengi og hvaða áhrif boðskiptamynstur þeirra hefur á fagaðila, neytendur og notendur. Í fyrri hluta námskeiðsins verða helstu kenningar útskýrðar og settar í samhengi við viðurkenndar aðferðir. Síðari hluti námskeiðsins byggir á dæmum sem sýna helstu einkenni stafrænna miðla. Má þar nefna samspil stafrænna miðla og fjölmiðla, regluverk og viðskiptamódel félagsmiðla, áhrif stafrænna miðla á einkalíf og opinbera umræðu, áhrifamátt og dreifingarhæfni félagsmiðla og hvernig þeir skilyrða þátttökumöguleika notenda.
Nýsköpun - frá hugmynd að afurð (HMM121F)
Í námskeiðinu er farið yfir atriði er varða nýsköpunarstarf og frumkvöðlahugsun sem og tækifæri, þróun, mat og úrvinnslu hugmynda auk kenninga og aðferða við að gera viðskiptahugmynd markaðshæfa. Framsetning námsþátta miðast við þau verkefni sem frumkvöðull glímir við þegar gæða á hugmynd lífi. Nýsköpun er kynnt sem ferli sem hefst á hugmyndavinnu og þarfagreiningu á markaði. Næst er verkefnisstjórnun og áætlanagerð kynnt til sögunnar. Að lokum er farið yfir fjármögnun og styrkumsóknir auk þess sem stoðumhverfi nýsköpunar eru gerð skil.
Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.
Verkefni í blaða- og fréttamennsku (BLF316F)
Nemandur geta annað hvort valið sér umfjöllunarefni til birtingar í fjölmiðli eða efni úr fjölmiðlum til að rannsaka og skrifa um fræðilega ritgerð. Umsjónarkennari námsbrautarinnar annast leiðsögn.
Verkefni í blaða- og fréttamennsku (BLF312F)
Nemandur geta annað hvort valið sér umfjöllunarefni til birtingar í fjölmiðli eða efni úr fjölmiðlum til að rannsaka og skrifa um fræðilega ritgerð. Umsjónarkennari námsbrautarinnar annast leiðsögn.
Verkefni í blaða- og fréttamennsku (BLF313F)
Nemandur geta annað hvort valið sér umfjöllunarefni til birtingar í fjölmiðli eða efni úr fjölmiðlum til að rannsaka og skrifa um fræðilega ritgerð. Umsjónarkennari námsbrautarinnar annast leiðsögn.
Hagnýting jafnréttisfræða: Kyn og margbreytileiki í fjölmiðlum (KYN203F)
Jafnréttismál eru hluti af regluverki fjölmiðlunar á Íslandi og sífellt meiri kröfur eru gerðar á því sviði. Námskeiðið veitir hagnýtan undirbúning fyrir störf í fjölmiðlun þar sem þekking og þjálfun í málefnum kynjajafnréttis og margbreytileika er nauðsynleg.
Námskeiðið er hagnýtur undirbúningur fyrir störf á sviði fjölmiðlunar. Markmið námskeiðsins er að kynna grundvallaratriði jafnréttisfræða, sögu og merkingu jafnréttishugtaksins, og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða (e. gender mainstreaming) með sérstakri áherslu á fjölmiðlun. Nemendur gera hagnýtt verkefni um kyn, margbreytileika og minnihlutahópa á sviði fjölmiðlunar. Í nútímasamfélögum eru gerðar síauknar kröfur um þekkingu á jafnréttismálum, ekki síst á sviði fjölmiðlunar. Ísland er aðili að alþjóðasamþykktum þar sem kveðið er á um jafnrétti í fjölmiðlum. Í fjölmiðlalögum er kveðið á um upplýsingagjöf um birtingarmyndir kynja í fjölmiðlum og kynjahlutföll starfsfólk á fjölmiðlum og í jafnréttislögum segir að niðurstöðum rannsókna skuli markvisst miðlað til fjölmiðla. Námskeiðið er samkennt með námskeiðinu KYN202F: Hagnýting jafnréttisfræða: Frá bróðurparti til systkinalags.
Ritstjórn og hönnun prentgripa (RÚT803F)
Námskeiðið felst í að skoða samstarf og verkaskiptingu milli ritstjóra og hönnuða við gerð og útgáfu prentgripa. Veitt verður innsýn í undirstöðuþætti leturfræði, grafískrar hönnunar og undirbúning fyrir prentun. Einnig verða helstu verkfæri hönnuða skoðuð með tilliti til ólíkra útgáfuverkefna. Farið verður yfir helstu kenningar um áhrif grafískrar hönnunar og leturfræði á læsileika og skilning á inntaki. Rætt verður um gæði, notagildi, fagurfræði og hagkvæmnisjónarmið í grafískri hönnun.
Nemendur flytja erindi og skila skriflegri greiningu á hönnunargrip/um að eigin vali og eru einnig hvattir til að taka virkan þátt í umræðum í tímum. Lokaverkefni námskeiðs felst í að skapa eigið útgáfuverkefni og miðla hugmyndum um ritstjórn þess í máli og myndum.
Miðlun og menning (HMM240F)
Í námskeiðinu er menningarhugtakið teknar til gagnrýninnar skoðunar. Kenningar og skilgreiningar eru reifaðar samtímis því sem hlutverk, skilyrði og áhrif menningar í samtímanum eru vegin og metin. Markmiðið er að skapa samræðu fræðilegrar umræðu um menningararf, menningarstefnu og menningarlega sjálfbærni við praktísk úrlausnarefni sem tengjast miðlun menningar. Þannig er hugað að samspili menningarlífs við félagslegar, pólitískar og hagrænar aðstæður í sögu og samtíð og kannað hvernig þessir þættir bæði skilyrða og gera mögulega menningarmiðlun í samtímanum. Skoðað er hvernig menningararfur, hefðir, félagslegt minni, hugmyndir um upprunaleika og sjálfsmynd hafa áhrif á mótun og endursköpun menningar og hvernig nota má hugtök eins og „menningarlegt auðmagn“, „menningarlegt forræði“ og „orðræða um menningararf“ til að greina og skilja birtingarmyndir menningar.
Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.
Fjölmiðlar og menning á tímum hnattvæðingar (BLF204M)
Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum og rannsóknum um áhrif hnattvæðingar á flæði fjölmiðlaefnis og menningar. Fjallað er um alþjóðlega- svæðisbundna- og ríkjabundna markaði fyrir fjölmiðlaefni mismunandi fjölmiðla, áhrif hnattvæðingar á „þjóðlegra“ menningu og viðbrögð stjórnvalda við auknu flæði útlends fjölmiðlaefnis og erlendra menningarstrauma. Fjallað er einnig um þau tæknilegu, hagrænu og pólitísku öfl eru að baki auknu flæði fjölmiðlaefnis milli landa. Sjónum verður m.a. beint að tilraunum Evrópusambandsins til að byggja upp innri markað á sviði fjölmiðlunar og fjallað verður um stöðu íslenskrar menningar í kjölfar óhefts flæðis fjölmiðlaefnis þvert á landamæri.
Verkefni í blaða- og fréttamennsku (BLF010F)
Nemandur geta annað hvort valið sér umfjöllunarefni til birtingar í fjölmiðli eða efni úr fjölmiðlum til að rannsaka og skrifa um fræðilega ritgerð. Umsjónarkennari námsbrautarinnar annast leiðsögn.
Verkefni í blaða- og fréttamennsku (BLF406F)
Nemendur geta annað hvort valið sér umfjöllunarefni til birtingar í fjölmiðli eða efni úr fjölmiðlum til að rannsaka og skrifa um fræðilega ritgerð. Umsjónarkennari námsbrautarinnar annast leiðsögn.
Verkefni í blaða- og fréttamennsku (BLF407F)
Nemendur geta annað hvort valið sér umfjöllunarefni til birtingar í fjölmiðli eða efni úr fjölmiðlum til að rannsaka og skrifa um fræðilega ritgerð. Umsjónarkennari námsbrautarinnar annast leiðsögn.
Ritstjórn og hönnun prentgripa (RÚT803F)
Námskeiðið felst í að skoða samstarf og verkaskiptingu milli ritstjóra og hönnuða við gerð og útgáfu prentgripa. Veitt verður innsýn í undirstöðuþætti leturfræði, grafískrar hönnunar og undirbúning fyrir prentun. Einnig verða helstu verkfæri hönnuða skoðuð með tilliti til ólíkra útgáfuverkefna. Farið verður yfir helstu kenningar um áhrif grafískrar hönnunar og leturfræði á læsileika og skilning á inntaki. Rætt verður um gæði, notagildi, fagurfræði og hagkvæmnisjónarmið í grafískri hönnun.
Nemendur flytja erindi og skila skriflegri greiningu á hönnunargrip/um að eigin vali og eru einnig hvattir til að taka virkan þátt í umræðum í tímum. Lokaverkefni námskeiðs felst í að skapa eigið útgáfuverkefni og miðla hugmyndum um ritstjórn þess í máli og myndum.
Hafðu samband
Nemendaþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 nemFVS@hi.is
Opið virka daga frá 09:00 - 15:00
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Bóka viðtal við nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs
Fylgstu með Félagsvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.