Skip to main content

Önnur sýn á áföll

Önnur sýn á áföll - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rannsókn vísindamanna við Sálfræðideild Háskóla Íslands um áhrif félagslegrar ógnar á áfallastreitu bendir til þess að félagsleg áföll, eins og t.d. einelti eða andlegt ofbeldi, geti valdið áfallastreitu.

Það hefur lengi verið deilt um hvað felist í áföllum og hvað greini þau frá annarri lífsreynslu. Ein nálgun, til dæmis í greiningakerfi Ameríska geðlæknafélagsins (e. Diagnostic and statistical manual of mental disorders), leitast við að skilgreina áföll fyrir fram sem tiltekna atburði, eins og kynferðislegt ofbeldi og náttúruhamfarir. „Þetta eru atburðir sem geta valdið áfallastreitueinkennum á borð við áleitnar endurminningar um lífsreynsluna, að vera sífellt á verði gagnvart hættum í umhverfinu og að forðast fólk eða staði sem minna á það sem gerst hefur. Hins vegar er ekki ljóst hvað það er við þessa atburði sem vekur slík viðbrögð og er deilan enn óleyst,“ segir Andri Steinþór Björnsson, prófessor við Sálfræðideild, sem leiddi rannsóknina.

Félagsleg ógn, áfallastreituröskun og félagsfælni

Andri Steinþór hefur ásamt samstarfsfólki sínu viljað skilja áföll sem ógn með tilliti til þróunarsögu mannsins. „Hingað til hefur ógn við líf einkum verið tilgreind í rannsóknum á áföllum. En við teljum að fleiri ógnir komi til og þá sérstaklega sú sem við höfum kallað félagslega ógn,“ segir Andri Steinþór.
     
Andri Steinþór og samstarfsfólk hans telur að félagsleg ógn felist í því að upplifa mikla höfnun og niðurlægingu, til dæmis þegar barn eða fullorðin manneskja verður fyrir alvarlegu einelti. „Þessa gerð af ógn verður að skilja út frá þróunarsögunni. Maðurinn er félagslegt dýr eins og Aristóteles fullyrti á sínum tíma. Hann hefur alltaf treyst á annað fólk til þess að veita sér öryggi, aðgang að fæðu og maka. Það að vera niðurlægður og hafnað af hópnum er hreint og beint lífshættulegt út frá þróunarsögulegu sjónarhorni.“ Að sögn Andra Steinþórs er félagskvíði almennur í okkar tegund. Við óttumst hvað öðru fólki finnst um okkur. Þegar óttinn fer að hafa of mikil áhrif á líðan og virkni, til dæmis þannig að fólk fari að forðast fólk og athafnir sem skipta máli, þá getur félagsfælni þróast. „Við teljum að það geti verið margvísleg tengsl milli áfallastreituröskunar og félagsfælni og í sumum tilvikum sé um eina og sömu röskunina að ræða,“ segir Andri Steinþór.

Andri Steinþór Björnsson, prófessor við Sálfræðideild, hefur ásamt samstarfsfólki sínu viljað skilja áföll sem ógn með tilliti til þróunarsögu mannsins. „Hingað til hefur ógn við líf einkum verið tilgreind í rannsóknum á áföllum. En við teljum að fleiri ógnir komi til og þá sérstaklega sú sem við höfum kallað félagslega ógn,“ segir Andri Steinþór.

Andri Steinþór Björnsson

Um þriðjungur einstaklinga með félagsfælni greindist með áfallastreituröskun

Rannsókn Andra og samstarfsfólks fólst í því að kanna algengi félagslegra áfalla (lífsreynslu sem felst í mikilli félagslegri ógn) og tengsl við áfallastreitueinkenni í þremur hópum; fólki með félagsfælni sem megingreiningu, fólki með áráttu- og þráhyggjuröskun sem meginröskun (klínískur samanburðarhópur) og fólki sem ekki hafði neina geðröskun (samanburðarhópur).

Félagsleg áföll voru algeng í öllum þremur hópunum sem voru skoðaðir; 82% í félagsfælnihópnum, 79% í klíníska samanburðarhópnum og 63% í samanburðarhópnum. Einelti og andlegt ofbeldi voru algengustu gerðir af félagslegum áföllum. Í félagsfælnishópnum greindist um þriðjungur einstaklinga með áfallastreituröskun gagnvart alvarlegasta félagslega áfallinu en enginn í samanburðarhópunum. Tiltekinn hópur þátttakenda með félagsfælni virtist einnig hafa þróað með sér bæði félagsfælni og áfallastreituröskun gagnvart sama félagslega áfallinu.

Með rannsókninni setja Andri Steinþór og samstarfsfólk hans fram nýja sýn á áföll sem þau telja að sé líklegri til að varpa ljósi á það hvers vegna þau geta vakið svo sterk viðbrögð hjá fólki. Jafnframt telja þau að hugmyndin um félagslega ógn geti orðið til þess að skýra betur tengslin milli geðraskana á borð við áfallastreituröskun og félagsfælni.

Slóð á rannsóknina

Höfundur viðtals: Klara Sól Ágústsdóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku.