Sænska - diplóma


Sænska
Grunndiplóma – 60 ECTS einingar
Hagnýtt eins árs nám með áherslu á að nemendur nái hratt og örugglega valdi á viðkomandi máli, öðlist lesskilning, byggi upp orðaforða og þjálfist í töluðu máli. Diplóman nýtist því vel þeim sem hyggja á frekara háskólanám erlendis eða þeim sem vilja ná forskoti á vinnumarkaði,til dæmis í viðskiptum eða ferðaþjónustu.
Skipulag náms
- Haust
- Sænsk málfræði I
- Sænsk málnotkun I
- Hljóðfræði og sænskur framburður
- Sænskar bókmenntir eftir 1980
- Sjálfsnám í sænsku
- Ingmar Bergman - uppreisn gegn föðurímynd
- Vor
- Svíþjóð í tónum - frá Gamla Nóa til ABBA
- Þýðingar (sænska)
- Sænsk málfræði II
- Sænsk málnotkun II
- Orðaforði og orðmyndun
- Félagsleg málvísindi og sænskar mállýskur
Sænsk málfræði I (SÆN106G)
Farið yfir grundvallaratriði í sænskri málfræði. Í námskeiðinu er áherslan lögð á beygingarfræði. Fjallað verður um orðflokkana og gefið yfirlit yfir uppbyggingu og beygingu orða. Veittur verður fræðilegur grunnur ásamt því að nemendur geri skriflegar æfingar.
Sænsk málnotkun I (SÆN101G)
Lögð verður áhersla á talað mál. Markmiðið er að nemendur nái góðum tökum á að nota sænsku til tjáskipta. Lestur, talmál, munnlegar æfingar í nútímasænsku.
Hljóðfræði og sænskur framburður (SÆN107G)
Farið verður í sænska hljóðkerfið og framburðarreglur málsins þar sem jöfn áhersla er lögð á fræðilega umfjöllun og hagnýtar, munnlegar æfingar í málveri.
Sænskar bókmenntir eftir 1980 (SÆN102G)
Farið verður yfir nýjustu stefnur og strauma í sænskum bókmenntum.
Sjálfsnám í sænsku (SÆN005G)
Námskeiðið er nemendastýrt sænskunám þar sem markmiðið er að nemendur æfi helstu þætti sænskunnar með sjálfsnámi undir stjórn kennara.
Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa grunnþekkingu á sænsku, upp að færnistigi A2 (CEFR).
Allir nemendur fara í gegnum gagnvirka netkennsluefnið Learning Swedish (hluta 1, 2 og 3) og velja sér að auki einn af eftirfarandi færniþáttum sem þeir vilja leggja sérstaka áherslu á: a) orðaforði og málfræði, b) framburður c) hlustunar- og lesskilningur. Færniþættirnir greinast í mismunandi stig eftir getu eða markmiðum nemenda.
Ekki er um hefðbundnar kennslustundir að ræða heldur vinna nemendur sjálfstætt þar sem þeim hentar: heima, í tölvuverum Háskólans eða annars staðar, og þeir ákveða tíma, leið og hraða námsyfirferðar.
Nemendur hitta kennara einslega í þremur viðtölum á misserinu: 1) í upphafi námskeiðs þar sem efnisval er ákveðið, þeir fá viðeigandi námsáætlun og upplýsingar um aðgang að kennsluefninu á netinu, 2) um miðbik annar þar sem ræddar eru námsleiðir og áframhaldandi markmið, 3) við lok misseris fyrir próf. Nemendur hafa einnig aðgang að kennara utan nefndra viðtalstíma.
Netkennsluefnið Learning Swedish: www.learningswedish.se
Ingmar Bergman - uppreisn gegn föðurímynd (SÆN105G)
Í námskeiðinu verður fjallað um kvikmyndir Ingmars Bergman, fyrst og fremst fyrstu kvikmyndir frá tímabilinu 1950-60, þar sem uppreisn gegn föðurvaldinu myndar eins konar sálrænan kjarna. Áhersla verður lögð á þróun þemans um þörf hins trúaða manns fyrir einhvers konar tákn frá Guði í Sjunde inseglet (1956) til þess að hann samþykki að trúa á hinn grimma Guð í Jungfrukällan (1960) og áfram til uppgjörs við hina neikvæðu guðsmynd í Såsom i spegel (1961), Nattvardsgästerna (1962) og Tystnaden (1963). Sýndar verða sex myndir sem heild og haldnir stuttir fyrirlestrar með umræðum.
Svíþjóð í tónum - frá Gamla Nóa til ABBA (SÆN109G)
Námskeiðið er kynning á sænskri tónlist og tónlistarmönnum. Fjallað verður m.a. um Carl Mikael Bellman, Evert Taube, Cornelius Vreeswijk, Mikael Wiehe, Ulf Lundell, sænskar dansleikjahljómsveitir, ABBA og Lisu Ekdahl í sögulegu samhengi. Hvernig endurspeglast samfélagið í sænskri vísna- og tónlistarhefð?
Á námskeiðinu verður einnig fjallað um sögu sænskrar rokk- og dægurtónlistar frá 1955 til okkar daga með greiningu á lögum og textum eftir m.a. ABBA og Ulf Lundell.
Þýðingar (sænska) (SÆN205G)
Í námskeiðinu fást nemendur einkum við að þýða texta úr sænsku og á móðurmál sitt.
Skoðaðir verða ýmsar gerðir texta, bæði fagtextar og bókmenntatextar. Textarnir eru fengnir úr bókum, dagblöðum, bæklingum og af vefsíðum stofnana. Þýðingar á fagurbókmenntum verða teknar til sérstakrar athugunar. Nemendur þýða stutta texta og rædd verða þýðingavandamál sem upp koma eins og orðasambönd og menningarbundin atriði og hugað að mismunandi lausnum á þeim. Grunnatriði í þýðingarfræðum verða kynnt og nemendur kynna sér ritgerðir sem fjalla um rannsóknir á þýðingum.
Sænsk málfræði II (SÆN206G)
Sænsk málfræði II er framhald af Sænskri málfræði I en ekki er þó nauðsynlegt að hafa lokið því námskeiði. Fjallað verður um sænska beygingarfræði, sérstaklega fallorð og sagnorð. Kynnt verða hugtök á borð við persónuhætti og fallhætti, áhrifssagnir, áhrifslausar sagnir og agnarsagnir. Innan setningafræði verður fjallað um setningar, setningarliði og greiningu á setningarhlutum. Einnig verður rætt um orðaröð og upplýsingaflæði.
Sænsk málnotkun II (SÆN201G)
Lögð verður áhersla á talað mál og ritað mál. Markmiðið er að nemendur nái góðum tökum á að nota sænsku til tjáskipta. Talað og ritað mál, munnlegar og skriflegar æfingar í nútímasænsku.
Orðaforði og orðmyndun (SÆN403G)
Markmið námskeiðsins er að auka orðaforða nemenda. Námskeiðið skiptist í merkingarfræðihluta og orðmyndunarhluta. Fjallað verður um fyrirbrigði eins og merkingu, samhljóða orð, samheiti og skammstafanir. Í seinni hluta námskeiðsins verður sjónum beint að orðmyndun, nýyrðum og tökuorðum.
Félagsleg málvísindi og sænskar mállýskur (SÆN203G)
Markmið námskeiðisins er að kynna nemendum helstu viðfangsefni í félagslegum málvísindum. Meðal annars verður fjallað um kyn-, aldurs- og svæðisbundna málnotkun, innflytjendamál og áhrif þeirra á sænskuna, samtalsgreiningu og áhrif viðhorfa málnotenda á tungumálið. Námskeiðið er kennt með aðstoð veraldarvefsins.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400 Netfang: hug@hi.is
Opið mánudaga til fimmtudaga frá kl. 10:00–12:15 og 12:45–15:00 og á föstudögum frá kl. 10:00–12:15.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustutorg í Gimli og Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði.

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.