
Komdu að kenna
Kennaranám veitir traustan undirbúning fyrir lifandi starf sem sífellt býður upp á ný og mikilvæg viðfangsefni. Kennaranemar öðlast þekkingu á námi og kennslu og fá tækifæri til að sérhæfa sig á ólíkum sviðum í samræmi við eigin áhuga. Hægt er að velja margar ólíkar leiðir til að verða kennari í leik-, grunn- eða framhaldsskóla.

Fjölbreyttar leiðir – framsækið nám
Kennaranám er fimm ára fræðilegt og starfstengt nám, sem skiptist í 180 eininga bakkalárnám og 120 eininga meistaranám, og veitir leyfisbréf í kennslu. Unnt er að taka samfellt fimm ára kennaranám eða ljúka fyrst bakkalárprófi (BA- eða BS-próf) á námssviði eða kennslugrein skólanna og bæta svo við sig tveggja ára kennsluréttindanámi.
Boðið er upp á MT-námsleiðir sem fela í sér að nemandi getur tekið námskeið í stað þess að skrifa 30 eininga rannsóknarritgerð.
Umsóknarfrestur
Umsóknarfrestur í framhaldsnám er 15. apríl og 5. júní fyrir grunnnám og viðbótardiplómur.

Launað starfsnám og námsstyrkir
- Kennaranemar í leik- og grunnskólakennaranámi geta verið í launuðu starfsnámi í 50% starfshlutfalli á lokaári kennaranáms, séu þeir með starf í skóla.
- Kennaranemar sem leggja stund á 120 ECTS eininga meistaranám geta sótt um styrk sem nemur allt að 800.000 kr. Fyrri helmingurinn greiðist þegar staðfesting liggur fyrir að nemandi hafi lokið 90 ECTS einingum í meistaranámi og seinni helmingurinn þegar nemandi hefur lokið námi og brautskráðst.
-
Kennaranemar sem hafa meistarapróf í kennslugrein og innritast haustið 2020 í 60 ECTS eininga kennaranám til að fá leyfisbréf geta sótt um styrk sem nemur allt að 400.000 kr. Styrkurinn greiðist út í einu lagi þegar nemandi hefur lokið námi og brautskráðst. Réttur til að sækja um síðari hluta styrks fellur niður ef kennaranemi lýkur ekki námi innan 12 mánaða frá móttöku fyrri hluta hans.
Umsóknarfrestur er þrisvar á ári: 1. nóvember, 1. mars og 28. júní.
Nánari upplýsingar um launað starfsnám og styrki
Eitt leyfisbréf
Ný lög um kennaranám fjölga tækifærum kennara til muna því þeir fá eitt leyfisbréf með heimild til að kenna í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Kennaranemar munu áfram sérhæfa sig til kennslu, til dæmis á leikskólastigi, í yngri barna kennslu í grunnskóla eða til að kenna eldri börnum og ungmennum ákveðnar faggreinar.
Styrkir til starfandi kennara
Starfandi kennarar fá styrk til að mennta sig í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf. Markmiðið er að fleiri sæki sér sérhæfingu á þessu sviði til þess að skólar verði betur í stakk búnir til að styðja við kennaranema og nýútskrifaða kennara. Nýjustu kjarasamningar leik- og grunnskólakennara kveða á um hækkun launa ef kennari bætir við sig einingabæru námi.