Skip to main content

3. háskólaþing 27. nóvember 2009

3. háskólaþing Háskóla Íslands haldið 27. nóvember 2009 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu



Fundartími: Kl. 13.00-16.30



Dagskrá

Kl. 13.00 – 13.05    Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.

Kl. 13.05 – 13.25    Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.

Kl. 13.25 – 14.30    Dagskrárliður 2. Staða og framtíð háskólakerfisins á Íslandi.

Kl. 14.30 – 14.50    Fundarhlé.

Kl. 14.50 – 16.10    Dagskrárliður 3. Inntaka nýnema í háskólum á Norðurlöndum og í Háskóla Íslands.

Kl. 16.10 – 16.30    Dagskrárliður 4. Ný stefna Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Kl. 16.30    Rektor slítur háskólaþingi.


 

Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning



Rektor setti 3. háskólaþing Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008. Sérstaklega bauð rektor velkomna þá fulltrúa starfsfólks, stúdenta og háskólaráðs sem mættir voru í fyrsta sinn á háskólaþing sem og gesti frá öðrum stofnunum, þau Björn Zoëga, forstjóra Landspítala, Guðrúnu Kvaran, fulltrúa Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Sigurð Ingvarsson, forstöðumann Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur landsbókavörð og Brynjólf Sigurðsson, forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands.


Þá gerði rektor grein fyrir dagskrá, tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra Háskólans að vera fundarritari.


Áður en gengið var til dagskrár bar rektor upp dagskrártillögu um að dagskrárliðum 3 og 4 yrði víxlað. Rektor gaf orðið laust, en engin athugasemd var gerð við tillöguna.


 

Kl. 13.05-13.25 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands



Rektor fór yfir helstu verkefni umliðins vetrar og stærstu mál framundan í starfi Háskóla Íslands.

Mikil fjölgun stúdenta við Háskóla Íslands

Stúdentum við Háskóla Íslands hefur fjölgað mjög mikið á skömmum tíma, einkum við sameiningu skólans við Kennaraháskóla Íslands árið 2008 og í kjölfar efnahagskreppunnar. Um síðustu áramót fjölgaði nemendum um 1.400 og  í haust fjölgaði aftur verulega eða um 20%. Heildarfjöldi nemenda er nú um 14.000, þar af um 10.300 í grunnnámi, um 3.400 í meistaranámi og tæplega 400 í doktorsnámi.

Niðurskurður fjárveitinga 2009 og 2010 vegna efnahagshrunsins

Við gerð fjárlaga nú í haust var boðað að framlög til háskólastigsins myndu að jafnaði dragast saman um u.þ.b. 8%. Vegna gríðarlegrar fjölgunar nemenda við Háskóla Íslands verður niðurskurður fjárveitinga til skólans þó heldur minni árið 2010.

Stór verkefni á döfinni

Mörg stór mál hafa verið á döfinni í Háskóla Íslands á síðstu misserum. Meðal helstu mála má nefna innleiðingu skilvirkara skipulags Háskóla Íslands, samþættingu starfsemi Menntavísindasviðs við önnur fræðasvið Háskólans, heildarendurskoðun reglna Háskóla Íslands í kjölfar gildistöku nýrra laga um opinbera háskóla og uppbyggingu nýrrar Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands í tengslum við eflingu doktorsnáms við skólann. Önnur mikilvæg mál eru framundan, s.s. endurskoðun á skipulagi stofnana Háskóla Íslands, endurskoðun matskerfis Háskólans og ráðningar- og framgangskerfis akademískra starfsmanna, mörkun stefnu um nýsköpun, endurskoðun á fyrirkomulagi doktorsvarna og skilgreiningu viðmiða fyrir veitingu heiðursdoktorsnafnbóta. Stærsta einstaka málið framundan er þó fyrirhuguð endurskoðun á háskólastiginu og verður fjallað nánar um það undir dagskrárlið 2 á þessu háskólaþingi. Þrátt fyrir samdrátt í verklegum framkvæmdum á Íslandi verður áfram haldið undirbúningi nýbyggingar Landspítala, þ.m.t. húsnæði fyrir heilbrigðisvísindadeildir Háskólans. Einnig eru bundnar vonir við að innan skamms verði tekin fyrsta skóflustunga að nýju húsi íslenskra fræða sem mun hýsa Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs. Þá er áfram haldið fjáröflun og undirbúningi fyrir byggingu húss Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Loks hefur Háskóli Íslands tekið á leigu hluta af húsi Íslenskrar erfðagreiningar, m.a. fyrir kerfislíffræði og Reiknistofnun, auk þess sem Námsráðgjöf og kennslusvið hafa fengið aukið húsnæði í Háskólatorgi.

Mál á einstökum fræðasviðum

Félagsvísindasvið

Hinn 30. október sl. var Þjóðarspegillinn haldinn í 10. sinn. Ráðstefnan var afar vel sótt og voru málstofur 48 talsins og í þeim fluttir um 170 fyrirlestrar. Á Þjóðarspeglinum veittu Viðskiptafræðideild og Hagfræðideild, í samvinnu við hollvinafélag deildanna, peningaverðlaun til nemenda sem hlutu hæstu meðaleinkunn í prófum á 1. námsári. Halldór Grétarsson hlaut verðlaun í Viðskiptafræðideild og Stefán Andri Stefánsson í Hagfræðideild. Þá var haldin þverfræðileg alþjóðleg ráðstefna um Visual Studies nú í nóvember. Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Félags- og mannvísindadeild, fékk viðurkenningu Kunglige Gustav Adolfs Akademien for svensk folkkultur fyrir framlag til rannsókna á sviði þjóðsagna og var viðurkenningin veitt við hátíðlega athöfn í Uppsalahöll 6. nóvember sl. Fyrir skömmu var stofnuð formlega Stofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni og hefur Þórhildur Líndal verið ráðin forstöðumaður hinnar nýju stofnunar. Stofnuninni er ætlað að vera vettvangur lögfræðirannsókna í málefnum fjölskyldna og barna í þverfaglegu samstarfi við önnur fræðasvið og rannsóknastofnanir sem fjalla um fjölskyldumálefni. Nýlega var opnað Sérfræðisetur í ævilangri náms- og starfsráðgjöf sem er hýst innan Félagsvísindastofnunar. Hið nýja setur hefur gert samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið um framkvæmd verkefnisins European Lifelong Guidance Policy Network (ELGPN) sem ætlað er að hrinda í framkvæmd á árunum 2007-2013 ályktunum ráðherraráðs ESB frá 2004 og 2008 um eflingu náms- og starfsráðgjafar. Þá gerðu LÍU og Lagastofnun sl. sumar samning um styrk til að kosta starf sérfræðings á sviði auðlindaréttar við stofnunina. Samningurinn er til þriggja ára.

Heilbrigðisvísindasvið

Nýsköpunarfyrirtækið Oxymap og Læknadeild gerðu fyrir skömmu samning um rannsóknir á sviði súrefnismælinga sem felur m.a. í sér að Oxymap styrkir stöðu sérfræðings við Læknadeild. Þá hlutu nýlega tveir doktorsnemar í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum styrki úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur. Heildarupphæð styrksins nemur 750.000 kr. og er þetta í annað sinn sem er úthlutað úr sjóðnum sem var stofnaður við Háskóla Íslands í júní árið 2007. Loks hefur verið opnuð hjálparvakt tannlækna sem er samstarfsverkefni Tannlæknafélags Íslands og Tannlæknadeildar Háskólans og er hjálparvaktin liður í viðbragðsáætlun Háskóla Íslands vegna breyttra aðstæðna í íslensku þjóðfélagi.

Hugvísindasvið

Þing Hugvísindasviðs var haldið 20. nóvember sl. og er Hugvísindasvið fyrsta fræðasviðið sem heldur sviðsþing eftir innleiðingu nýs skipulags Háskólans. Á þinginu var samþykkt stefna Hugvísindasviðs 2009-2013. Einnig ber að nefna að sett var á laggirnar ný Rússnesk miðstöð í maí sl. Þá var haldin fundaröð um ritlist undir heitinu „Hvernig verður bók til?“, en nýlega hófst kennsla og rannsóknir í ritlist á Hugvísindasviði. Á hverjum fundi kemur rithöfundur í heimsókn og segir frá því hvernig tiltekið skáldverk varð til.

Menntavísindasvið

Á Menntavísindasviði hefur farið fram mikil vinna við endurskoðun á námskrá kennaranáms í kjölfar þess að frá 1. júlí sl. er krafist fimm ára meistaranáms til að öðlast kennsluréttindi í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Fyrstu skrefin í átt til nýs fyrirkomulags voru tekin árið 2007 og er gert ráð fyrir að endurskoðuninni verði lokið á næsta ári. Leiðarljósið með þessari breytingu er kennaramenntun og menntarannsóknir sem þjóna því markmiði að íslenskt menntakerfi geti verið í fremstu röð. Þá hefur verið stofnað sérstakt vettvangsráð til að efla samstarf og styrkja tengsl Menntavísindasviðs við starfsvettvang þeirra starfsstétta sem sviðið menntar, þ.e. kennara, þroskaþjálfa og tómstundafræðinga, sem og til að styrkja sameiginlegt rannsókna- og þróunarstarf. Vettvangsráðið starfar við hlið rannsóknaráðs og kennsluráðs fræðasviðsins. Þá hefur verið gerður samningur við tiltekna leik-, grunn- og framhaldsskóla um að verða samstarfsskólar Menntavísindasviðs um kennaramenntun. Samningurinn felur í sér að skólarnir taka að sér starfsþjálfum hóps nemenda allan námstímann. Málþing Menntavísindasviðs var haldið í lok október sl. undir heitnu „Föruneyti barnsins – velferð og veruleiki“. Þingið var haldið í samstarfi við sveitarfélög og samtök kennara, þroskaþjálfa og foreldra. Mikil gróska hefur verið á sviði rannsókna innan Menntavísindasviðs og er um þessar mundir m.a. verið að kynna tvær stórar rannsóknir og fjallar önnur þeirra um líkams- og heilsurækt eldri aldurshópa og hin um lífsstíl 7-9 ára grunnskólabarna. Loks er nú verið að byggja upp alþjóðlegt nám í menntunarfræðum þar sem sjónum er beint að menntun á alþjóðavísu með áherslu á jafnrétti, fjölmenningu, lýðræði og fleiri þætti.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið

Nú í haust var haldinn fjölsóttur stefnumótunardagur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs þar sem fjallað var um framtíðarstefnu sviðsins. Þá hefur stjórn fræðasviðsins ákveðið að þróa námsefni í siðferði, rökhugsun, samfélagsábyrgð fyrir alla 1. árs nema. Loks er fyrirhugað að bjóða öllum kennurum fræðasviðsins að taka þátt í námskeiði í sjálfbærni í janúar nk.

Fréttabréf fræðasviða

Eftir að Hugvísindasvið reið á vaðið eru fræðasvið Háskólans nú eitt af öðru að hefja útgáfu fréttabréfa með margvíslegum upplýsingum um starfsemi fræðasviðanna.

Heimsóknir

Margir erlendir fræðimenn og framámenn heimsóttu Háskóla Íslands á árinu. Í þeim hópi voru m.a. friðar-Nóbelsverðlaunahafarnir Dalai Lama og  Rajendra Pachauri, og Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja.

Háskóli unga fólksins

Háskóli unga fólksins var haldinn í sjötta sinn í júní sl. og tóku yfir 300 nemendur þátt í um 50 námskeiðum. Nemendur í Háskóla unga fólksins eru á aldrinum 12-16 ára og fara vinsældir skólans vaxandi með hverju ári.

Akademískar nafnbætur

Í maí sl. voru 37 starfsmönnum Landspítala, Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og Krabbameinsfélags Íslands veittar akademískar nafnbætur. Er þetta í fimmta sinn sem slíkar nafnbætur eru veittar. Akademísk nafnbót er í flestum tilvikum veitt í tengslum við einhverja af heilbrigðisvísindadeildum Háskóla Íslands. Nafnbótin er veitt á grundvelli hæfnisdóms dómnefndar og viðurkenningar á akademísku hæfi. Nafnbæturnar undirstrika enn fremur hlutverk háskólastarfsemi á framangreindum stofnunum og órofa tengsl menntunar heilbrigðisstarfsfólks og þjónustu við sjúklinga.

Styrkir til afburðanemenda

Í júní voru veittir 11 styrkir til afburðanemenda sem hófu nám í Háskóla Íslands nú í haust. Um er að ræða styrki til nemenda sem náð hafa framúrskarandi árangri á stúdentsprófi og innritast í Háskóla Íslands. Hver styrkur nemur 300.000 krónum auk niðurfellingar skráningargjalds í Háskólann, sem er 45.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir á Háskólatorgi við hátíðlega athöfn. Þetta er í annað sinn sem styrkir eru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands en sjóðurinn var stofnaður í fyrra og er markmið hans að styrkja nýnema til náms við Háskóla Íslands. Styrkirnir í ár voru veittir með stuðningi Símans og Happdrættis Háskóla Íslands.

Stærsta brautskráning frá upphafi

Vorbrautskráning kandídata frá Háskóla Íslands fór fram í Laugardalshöll 20. júní sl. Þetta var fjölmennasta brautskráning frá Háskóla Íslands frá upphafi og var hún haldin í tvennu lagi. Heildarfjöldi kandídata sem brautskráðust í júní var 1.539.

Nýnemadagar og Vísindavaka

Háskóli Íslands leggur kapp á að taka vel á móti nemendum og í haust var efnt til margvíslegra viðburða í tengslum við móttöku nýnema. Meðal annars var opnaður sérstakur upplýsingavefur fyrir nýnema þar sem er að finna allar helstu upplýsingar sem þeir þurfa áður en þeir hefja nám við Háskóla Íslands. Einnig var efnt til nýnemadaga á tímabilinu frá 31. ágúst til 4. september og lauk dagskránni með hinum árlegu stúdentadögum.

Alþjóðadagur Háskóla Íslands

Alþjóðadagur Háskóla Íslands var haldinn í byrjun nóvember á Háskólatorgi. Markmiðið með alþjóðadeginum er að gefa nemendum tækifæri til að kynnast þeim möguleikum sem bjóðast við að flétta saman námi við Háskóla Íslands og námi við erlenda háskóla. Að alþjóðadeginum stóðu Alþjóðaskrifstofa Háskóla Íslands, Stúdentaráð og Háskóli Íslands, en að auki tóku sendiráð erlendra ríkja þátt í dagskránni. Kynntir voru möguleikar á námi erlendis, bæði skiptinámi og öðru námi, en Háskóli Íslands á í samstarfi við hundruð erlendra háskóla og fjölmargir stúdentar skólans fara til náms erlendis í lengri eða skemmri tíma. Nám við Háskóla Íslands opnar því ótal dyr út um alla veröld og markmið dagsins var að kynna þessa möguleika.

Nýsköpunarmessa Háskóla Íslands

Um miðjan nóvember var haldin í fyrsta sinn Nýsköpunarmessa við Háskóla Íslands. Að viðburðinum stóðu Rannsóknaþjónusta Háskólans, Upplýsingastofa um einkaleyfi, Innovit, Einkaleyfastofa, Árnason-Faktor og Impra. Kynnt voru fjölmörg sprotafyrirtæki sem eiga rætur að rekja til Háskóla Íslands, s.s. Hugarheill, Oxymap, Clara, Tunerific, Lífeind, Icelandic Online, Remo, Samhengisháð ritvilluleit og Risk ehf. Einnig voru veitt hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands og runnu fyrstu verðlaun til verkefnisins Burðarvaki sem felst í þróun tæknibúnaðar til að fylgjast með burði kúa. Markmiðið með Nýsköpunarmessunni er að vekja fólk til umhugsunar um gildi nýsköpunar og athafnasemi fyrir samfélagið.

Fjármál

Tekjur Háskóla Íslands 2009 skiptast þannig að ríkisframlag er 65% og sjálfsaflafé er 35%. Ríkisframlagið skiptist í fjárveitingu  vegna kennslu sem eru reiknuð út á grundvelli ólíkra reikniflokka og fjárveitingu vegna rannsókna. Í kjölfar Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 var gerður afkastatengdur samningur við ríkisvaldið um fjármögnun stefnunnar, en honum hefur verið frestað í kjölfar efnahagskreppunnar. Sértekjurnar samanstanda einkum af styrkjum úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum vegna rannsókna, styrktarsjóðum Háskólans, framlagi atvinnulífsins og tekjum vegna þjónusturannsókna.

Niðurskurður

Í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi hafa fjárveitingar til Háskóla Íslands verið skornar niður um rúman milljarð króna og hefur frekari niðurskurður verið boðaður. Hefur niðurskurðurinn verið útfærður með margvíslegum aðgerðum, s.s. hagræðingu og aðhaldi í launakostnaði, endurskipulagningu námskeiða, endurskoðun yfirvinnu og fastlaunasamninga, tilfærslu á starfsþáttum, aðhaldi vegna rannsóknaleyfa og ferðalaga erlendis, aðhaldi við endurnýjun tækja og tölvubúnaðar, frestun á framkvæmd hluta árangurstengds samnings, frestun viðhalds, auknum sparnaði í rekstri og endurskipulagningu námskeiða. Unnið er að gerð tillagna um útfærslu niðurskurðar fyrir árið 2010 og standa yfir viðræður við aðra háskóla um leiðir til að nýta betur opinbert fé. Starfsmenn og stúdentar hafa verið hvattir til að leggja fram sparnaðarráð og hefur í því skyni verið opnaður sérstakur vefur þar sem hægt er að koma á framfæri hugmyndum í þeim efnum. Þrátt fyrir mikinn niðurskurð verður það meginmarkmið í rekstri Háskólans að halda útgjöldum innan ramma fjárlaga, að tryggja nemendum kennslu og að auka árangur í vísindum.

Alþjóðlegt samstarf

Alþjóðlegt samstarf Háskóla Íslands stendur með miklum blóma og er mikilvægt að halda þeirri sókn áfram, enda felst í því tækifæri fyrir skólann til að auka vísindaárangur sinn og leggja þannig af mörkum dýrmætan skerf til endurreisnar íslensks hagkerfis eftir hrunið. Meðal sterkustu samstarfsaðila Háskóla Íslands á alþjóðlegum vettvangi má nefna bandarísku háskólana Harvard University, California Institute of Technology, University of California, Columbia University og University of Minnesota, University of Manitoba í Kanada, Oxford University í Englandi, Kaupmannahafnarháskóla í Danmörku, Karolinska Institutet í Svíþjóð, kínversku háskólana Fudan University og Beijing University, auk Waseda University í Japan.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands

Í undirbúningi er opnun vefsíðu með upplýsingum um alla styrktarsjóði Háskóla Íslands. Þrátt fyrir að sjóðirnir hafi orðið fyrir ágjöf vegna efnahagshrunsins er mögulegt að úthluta úr 15 sjóðum, þ.e. Eggertssjóði (stofnaður 1995), Styrktarsjóði Godtfreds Vestergaard og Elínar Brynjólfsdóttur (2009), Heimspekisjóði Brynjólfs Bjarnasonar (1990), Minningarsjóði dr. phil. Jóns Jóhannessonar (1983), Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli (1971), Styrktarsjóði Watanabe við Háskóla Íslands (2009), Styrktarsjóði Selmu og Kay Langvad (1964), Menningar- og framfarasjóði Ludwig Storr (1980), Almanakssjóði, Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur (2007), Sjóðasafni Háskóla Íslands (1975), Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar (2000), Styrktarsjóði Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar (2001), Þórsteinssjóði (2006) og Styrktarsjóði Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur (1970). Fyrirhuguð er breyting á stjórn Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands og bíður það verkefni nýrrar stjórnar að ákveða viðmið fyrir úthlutun úr sjóðnum. Nú eru 18 doktorsnemar á styrkjum úr sjóðnum, en óvíst er hvort unnt verði að úthluta nýjum styrkjum í bráð.

Atburðir framundan

Ýmsir viðburðir eru framundan í tengslum við fullveldisdaginn og jólahátíðina, s.s. hátíðarhöld stúdenta í tilefni af fullveldisdeginum 1. desember nk., aðventuboð fyrir starfsfólk 4. desember nk. og jólasöngur starfsfólks í háskólakapellunni 18. desember nk.


 

Kl. 13.25-14.30 - Dagskrárliður 2: Staða og framtíð háskólakerfisins á Íslandi



Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, gerði grein fyrir málinu. Skipti Jón Atli framsögu sinni í fjóra hluta, (1.) helstu niðurstöður nýlegra skýrslna og skilagreina um íslenska háskólakerfið sem unnar hafa verið að ósk fyrrverandi og núverandi menntamálaráðherra, (2.) endurskoðun á fjármögnun háskólanna, (3.) staðan í samvinnu- og sameiningarviðræðum íslenskra háskóla og (4.) framtíðin.


Nýlegar skýrslur og skilagreinar um íslenska háskólakerfið

•    Skýrsla unnin af innlendri verkefnisstjórn um framtíð menntunar, rannsókna og nýsköpunar á Íslandi (maí 2009)

•    Skýrsla unnin af nefnd alþjóðlegra ráðgjafa til að skoða málin utan frá og aðstoða Ísland við að líta fram á veginn (maí 2009)

•    Skilagrein rýnihóps mennta- og menningarmálaráðherra um aðgerðir í háskóla- og vísindamálum (ágúst 2009)


Verkefni rýnihóps

•    Ræða hvaða skipan og starfshættir henti best til að háskóla- og vísindasamfélagið geti sinnt margþættum tilgangi sínum

•    Taka afstöðu til fyrirliggjandi tillagna í nýútkomnum skýrslum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um málaflokkinn

•    Þróa vegvísi fyrir ráðherra um hlutverk og umgjörð háskóla, vísinda og nýsköpunar á Íslandi


Helstu niðurstöður rýnihóps

•    Auka samstarf í háskólakerfinu

•    Efla gæðamat og eftirlit

•    Endurskoða fjármögnun háskólanna


Helstu tillögur rýnihóps

•    Á vettvangi Vísinda- og tækniráðs þarf sérstaklega að skoða þau málefni sem snerta mennta-, rannsókna- og nýsköpunarkerfið í heild sinni

•    Unnið verði að samræmingu í fjármögnun háskólanna – til kennslu, rannsókna og annarra þátta

•    Greindir verði kostir við að setja á fót miðstöð doktorsnáms fyrir allt háskólastigið þar sem forsendur doktorsnáms og gæðakröfur verða skilgreindar

•    Komið verði á virkara gæðaeftirliti fyrir kennslu og rannsóknir háskólanna með sjálfstæðri skrifstofu eða nefnd sem ber ábyrgð á gæðaeftirliti og mati


Endurskoðun á fjármögnun háskólanna

•    Þróa tæknilegar lausnir til að tryggja gagnsæi og samræmingu

•    Finna leiðir til að taka skynsamlega á niðurskurði í háskólakerfinu

•    Tvö meginsjónarmið takast á:

     - Hlutverk háskólanna verði skilgreind af ríkinu og fjármögnun ákveðin í ljósi þeirra

     - Ríkið jafni leikreglurnar


Endurskoðun á fjármögnun háskólanna: Hlutverk háskólanna skilgreind af ríkinu

•    Útgangspunktur: Skynsamlegt að taka mið af háskólakerfunum í löndunum í kringum okkur

     - Gerður verði greinarmunur á háskólum (university eða universitet) og öðrum stofnunum á háskólastigi (university college eða högskole)

     - Til að byggja upp gott háskólakerfi með öflugum rannsóknum og kennslu þarf að skilgreina betur hlutverk skólanna

•    Æðri menntastofnunum verði skipt upp í háskóla og stofnanir á háskólastigi

•    Einungis háskólar hafi verulegt rannsóknahlutverk

•    Aðrar stofnanir á háskólastigi hafi einkum kennsluhlutverk

•    Einungis háskólar fái leyfi yfirvalda til að brautskrá doktora

•    Einungis háskólar fái beinar rannsóknafjárveitingar frá ríkisvaldinu

•    Gæðaeftirlit með kennslu og rannsóknum verði eflt og haft opinbert

•    Nemendaframlög til skóla sem taka skólagjöld verði skert

•    Skólar geti fengið sérstakar fjárveitingar vegna staðsetningar eða fámennis


Endurskoðun á fjármögnun háskólanna: Ríkið jafnar leikreglurnar

•    Útgangspunktur: Markmið ríkisins er að sjá borgurunum fyrir tilteknu umfangi af kennslu á háskólastigi og rannsóknum innan háskólanna af sem mestum gæðum og fjölbreytni, en fyrir sem minnst fé

     - Til að ná þessu fram þurfa háskólarnir að starfa á sömu forsendum fjármögnunar og keppa um nemendur og rannsóknaframlög

•    Efla skal gæðaeftirlit með kennslu og rannsóknum

•    Samræma skal heimildir til skólagjalda

•    Gera skal rekstur húsnæðis sambærilegan (og sýnilegan)

•    Árangurstengja skal rannsóknaframlög og önnur framlög m.a. með stórauknum framlögum í samkeppnissjóði


Samvinnu- og sameiningarviðræður

•    Háskóli Íslands og Landbúnaðarháskólinn

     - Fýsileikagreining um sameiningu með aðkomu Keldna

•    Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri

     - Viðræður um aukið samstarf

•    Háskólinn á Akureyri og Hólaskóli

     - Viðræður um samstarf

•    Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík

     - Óformlegum viðræðum lokið


Framtíðin

•    Ljóst er að minni peningar verða til skiptanna en á undanförnum árum

•    Framhaldið er að öðru leyti ekki ljóst:

     - Verður háskólum á Íslandi fækkað og þá hvernig?

     - Verður sett á fót sameiginleg miðstöð fyrir doktorsnám? Hvað merkir það?

     - Verður íslenska háskólastiginu skipt upp í flokka?

     - Verður fjármögnun samræmd og þá hvernig?


Rektor þakkaði Jóni Atla fyrir greinargóða kynningu og gaf orðið laust.


Málið var rætt ítarlega og komu fram margvísleg sjónarmið um stöðu og framtíð íslenska háskólakerfisins.


Forseti Lagadeildar fagnaði því að hafin væri skipuleg umræða um íslenska háskólakerfið í heild. Taldi forsetinn að við núverandi stöðu þjóðarbúsins þyrfti að gera grundvallarbreytingar á háskólakerfinu sem hefði verið byggt upp í góðæri síðustu ára. Sagði forsetinn það vera eitt brýnasta verkefnið sem stjórnvöld stæðu frammi fyrir að jafna leikreglurnar fyrir íslensku háskólana og rétta hlut opinberu háskólanna í samanburði við hina einkareknu. Í því sambandi þyrfti m.a. að spyrja, hvort það væri yfir höfuð hlutverk ríkisins að halda uppi einkareknum háskólum auk hinna opinberu. Einnig vék forsetinn að umræðunni um aukna samvinnu á milli íslenskra háskóla í kjölfar nýlega útkominna skýrslna um háskólakerfið. Taldi forsetinn ekki auðvelt að sjá hvernig slíkt samstarf ætti að leiða til sparnaðar, enda væri rekstrarform háskólanna gerólíkt, sumir þeirra hefðu heimild til að taka skólagjöld en aðrir ekki o.s.frv. Loks beindi forseti Lagadeildar nokkrum spurningum til framsögumanns, þ.e. um stöðu mála varðandi endurskoðun reiknilíkans, hvað væri átt við með „auknu gagnsæi og samræmingu“ í starfi íslensku háskólanna og hvert stefndi varðandi verkaskiptingu og hugsanlega flokkun þeirra.


Forseti Hjúkrunarfræðideildar benti á að Háskóli Íslands hefði náð miklum árangri í starfi sínu og hefði hlotnast mikil viðurkenning á undanförnum árum og að þetta fæli í sér ábyrgð og legði ríkar skuldbindingar á herðar skólanum. Mikilvægt væri að halda árangri Háskólans á sviði vísinda og menntunar á lofti til að verja stöðu skólans í þeim þrengingum sem framundan væru. Þá tók forseti Hjúkrunarfræðideildar undir með forseta Lagadeildar um að á tímum niðurskurðar og samdráttar í opinberum rekstri þyrfti að leggja áherslu á skyldur ríkisins við opinberu háskólana. Að endingu spurði forsetinn framsögumann um stöðu mála varðandi viðræður á milli Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri um aukið samstarf.


Aðstoðarrektor vísinda og kennslu brást við þeim spurningum sem til hans var beint. Sagði hann endurskoðun á reiknilíkani mennta- og menningarmálaráðuneytisins hafa staðið yfir um langa hríð og væri málið í höndum ráðuneytisins. Háskólinn hefði gert skýra grein fyrir sjónarmiðum sínum og hefðu fulltrúar ráðuneytisins í því sambandi t.d. viðurkennt að lægsti reikniflokkurinn væri of lágur. Erfitt væri þó að segja til um hvort unnt yrði að bæta úr þessu vegna niðurskurðar útgjalda hins opinbera. Á vettvangi ráðuneytisins væri einnig verið að kanna ýmsa leiðir varðandi fjármögnun háskólana, s.s. að byggja kennslufjárveitinguna ekki aðeins á þreyttum einingum og fjölda útskrifaðra meistara og doktora heldur að greiða eining sérstaklega fyrir útskrifaða nemendur í grunnnámi og fyrir fastan kostnað, auk þreyttra eininga, líkt og tíðkast víða í öðrum löndum. Þetta væri þó allt á umræðustigi og ljóst að engar ákvarðanir yrðu teknar nema að höfðu samráði við Háskóla Íslands, enda væri hann langstærsti háskólinn á Íslandi. Varðandi flokkun háskóla benti aðstoðarrektor á að vísi að henni væri nú þegar að finna í opinberri enskri þýðingu á heitum þeirra. Einnig hefðu línur verið lagðar að nokkru leyti í viðurkenningarferlinu þar sem hlutverk hvers skóla væri að vissu leyti skilgreint. Í þessu sambandi hefði m.a. verið rætt um þá hugmynd hvort skólar sem ekki hefðu heimild til að bjóða upp á doktorsnám ættu að fá greitt skv. hæsta reikniflokki. Um samstarf á milli háskóla sagði aðstoðarrektor að það væri nú þegar töluvert, t.d. ættu Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík í samstarfi um tungutækni og í tengslum við orkuskólann REYST. Þá hefðu átt sér stað viðræður um hugsanlega sameiningu Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst og Listaháskóla Íslands, en þeim viðræðum hefði verið slitið. Einnig hefði verið skipuð nefnd til að kanna fýsileika þess að sameina Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, en engin ákvörðun hefði verið tekin um áframhald málsins. Áhugi væri meðal annarra háskóla á að starfa nánar með Háskóla Íslands, en Háskólinn fylgdi þeirri stefnu að efna ekki til samstarfs eða sameininga nema því fylgdi skýr faglegur ávinningur og það bitnaði ekki á fjárhag skólans. Þessu sjónarmiði hefði rektor Háskóla Íslands komið skýrt til skila í viðræðum við ríkisvaldið.


Rektor bætti því við að skipuð hefði verið nefnd til að kortleggja mögulega samstarfsfleti á milli Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri og sætu í henni tveir fulltrúar frá hvorum skóla. Einnig gat rektor þess að í skýrslu erlendu sérfræðinganefndarinnar hefði verið lagt til að opinberu háskólarnir annars vegar og einkaháskólarnir hins vegar yrðu sameinaðir. Þessari hugmynd hefði hins vegar verið ýtt út af borðinu, enda lægi fyrir að hún myndi ekki leiða til raunverulegs sparnaðar.


Forseti Hugvísindasviðs greindi frá því að fræðasviðið ætti í samstarfi við Listaháskóla Íslands um kennslu í listfræði og einnig ættu sér stað viðræður við Háskólann á Bifröst um sameiginlegar meistaranámsleiðir, þótt ólíkt rekstrarform skólanna torveldaði slíkt samstarf.


Forseti Heilbrigðisvísindasviðs sagði að ekki skyldi einblína á hagrænar hliðar samvinnu og sameiningar háskóla heldur ætti að leggja áherslu á hina faglegu þætti. Á Íslandi væru starfræktir sjö háskólar sem minnti á hið útblásna bankakerfi landsins fyrir bankahrunið. Við blasti að á þessu yrði breyting fyrr en síðar og ætti Háskóli Íslands að taka forystu í málinu og haga tillögum sínum í samræmi við fagleg sjónarmið. Þá vék forseti Heilbrigðisvísindasviðs að tillögum í skýrslunum um sameiginlega umsjón með doktorsnámi á Íslandi og sagði hann mikilvægt að sú umsjón yrði á höndum Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands, enda væri langstærsti hluti doktorsnámsins við Háskólann. Einnig kom forsetinn inn á verkaskiptingu á milli háskóla og aðgreininguna á „universities“ og „colleges“. Sagði hann þessa aðgreiningu lengi hafa verið feimnismál á Íslandi, en nú væri kominn tími til að hrinda henni í framkvæmd. Að lokum vék forseti Heilbrigðisvísindasviðs að aðstöðumuninum á milli opinberra háskóla og einkarekinna háskóla sem hefðu heimild til að innheimta skólagjöld. Sagði hann að ekki yrði þolað lengur hversu ógagnsæ og ósamræmd fjármögnun íslenska háskólakerfisins væri. LÍN lánaði fyrir skólagjöldum einkaskólanna og þar sem verulegur hluti þessara lána skilaði sér ekki til baka væri í reynd um sérstakan ríkisstyrk að ræða. Þetta mál þyrfti að ræða og ef enginn annar kostur væri í stöðunni kæmi til greina að hugleiða möguleikann á því að opinberu háskólarnir tækju einnig upp skólagjöld. Það hefði þó alla tíð verið aðalsmerki íslenska skólakerfisins að vera að miklu leyti endurgjaldslaust og væri æskilegast að svo yrði áfram.


Forseti Félagsvísindasviðs sagði það ekki koma á óvart að lítið hafi gengið í samstarfsviðræðum á milli Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst. Ástæðan væri ekki síst sú að ekki væri búið að svara þeirri grundvallarspurningu, hvernig háskólakerfi við vildum hafa á Íslandi. Svarið við þeirri spurningu væri þó einfalt: Það ætti að vera einn alhliða háskóli á Íslandi og það væri Háskóla Íslands. Í skýrslum mennta- og menningarmálaráðuneytisins væri talað um tvo alhliða háskóla, en svo virtist sem þeirri hugmynd hefði verið blásið út af borðinu. Spurningin væri þá, hvert hlutverk hinna háskólana ætti að vera. Hins vegar ætti að snúast til varnar með öllum skynsamlegum rökum gegn þeirri hugmynd að forsendur væru fyrir því að reka tvo alhliða háskóla á Íslandi og að byggja ætti upp annan slíkan háskóla með því að klippa einstakar greinar út úr Háskóla Íslands og færa inn í hinn skólann.


Fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði fagnaði þessari opinskáu umræðu um málefni íslenskra háskóla og að henni hafi verið ýtt úr vör með skýrslum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Grundvallarspurningin væri sú, hvert hlutverk háskólanna ætti að vera og þegar henni hefði verið svarað ætti skipulagið að taka mið af því. Það væri hlutverk Alþingis að svara þessari spurningu og að móta framtíðarstefnu um málefni háskólanna, en það hefði ekki gerst. Kreppan gæfi tækifæri til að stokka þetta allt upp og öðlast nýja sýn. Í þessu sambandi þyrfti m.a. að horfast í augu við að sumir háskólar hér á landi væru reknir á grundvelli  byggðasjónarmiða og að aðrir vildu fá að stunda rannsóknir án þess að hafa næga burði til þess. Háskóli Íslands væri eini háskólinn hér á landi sem hefði skýra stefnu til að vinna eftir.


Framkvæmdastjóri fjármála og reksturs sagði að erfitt væri að fá fram breytingar á reiknilíkani menntamálaráðuneytisins í kreppu. Fyrir lægi að væntanleg endurskoðun á líkaninu mætti ekki hleypa upp kostnaði heldur yrði frekar horft til innbyrðis skiptingar fjármuna, auk þess sem rætt væri um að einfalda reikniflokkakerfið. Nú væri um 25% kennslufjárveitingar vegna útskrifaðra meistara og doktora og til greina kæmi að veita stærri hluta fjárveitingarinnar á sambærilegum grundvelli.


Kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs sagði að einn helsti vandinn við þróun háskólastigsins á Íslandi væri að ekki væru til samræmdar gæðakröfur. Þetta hefði leitt til þess að háskólakerfið hér á landi hefði vaxið stjórnlaust. Til dæmis væri kennd lögfræði í fjórum háskólum á Íslandi en í þremur háskólum í Noregi. Í sumum háskólum hér á landi væru gerðar minni kröfur til námsins, t.d. í lögfræði, en við Háskóla Íslands, en það væri látið viðgangast t.d. vegna byggðasjónarmiða. Af þessu leiddu margvísleg vandræði, t.d. væri erfitt að setja fram málefnalega gagnrýni án þess að vera vændur um hroka. Til að leysa þennan vanda þyrfti að skilgreina miðlæga gæðastaðla fyrir landið allt. Þá vék fulltrúinn að umræðunni um breytingu á reikniflokkakerfinu í þá átt að greiða fyrir útskriftir og taldi hann það bjóða þeirri hættu heim að slegið yrði af gæðakröfum. Til dæmis væri Lagadeild Háskóla Íslands með hæstu kröfur um lágmarkseinkunnir eða 6,0. Ef greitt yrði fyrir útskriftir væri hægðarleikur að afla aukinna tekna með því að lækka lágmarkið í 5,0. Taka þyrfti á þessu með auknu ytra gæðaeftirliti en hér á landi væri enginn aðili sem fylgdist með því hvort staðið væri við gæðakröfur.


Aðstoðarrektor vísinda og kennslu þakkaði fundarmönnum fyrir góða umræðu og tók undir það sjónarmið að gæði háskólastarfsins yrðu alfarið höfð að leiðarljósi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið væri nú að vinna að endurskoðun reglna um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna og væri það sér meðvitað um mikilvægi málsins. Einnig skipti miklu máli að horfa til þess að almannafé yrði notað sem best til að ná sem mestum árangri fyrir Ísland.


Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Jóns Atla Benediktssonar, þau Björg Thorarensen, Guðrún Kristjánsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Sigurður Guðmundsson, Ólafur Þ. Harðarson, Sigríður Ólafsdóttir, Guðmundur R. Jónsson og Eiríkur Tómasson.

 

Kl. 14.30-14.50: Fundarhlé

Kl. 14.50-16.10 - Dagskrárliður 3: Inntaka nýnema í háskólum á Norðurlöndum og í Háskóla Íslands



Róbert H. Haraldsson, formaður kennslumálanefndar háskólaráðs, gerði grein fyrir málinu. Greindi Róbert frá því að málið hefði verið undirbúið af sér og Magnúsi Diðriki Baldurssyni, gæðastjóra Háskólans, fyrir hönd kennslumálanefndar og gæðanefndar.


Byrjaði Róbert á því að rekja forsögu málsins og svara þeirri spurningu, hvers vegna efnt væri til þessara umræðu nú. Nefndi Róbert fjögur sjónarmið:


1. Gæði náms

Frumskylda Háskóla Íslands við nemendur sína væri að standa vörð um gæði námsins og að tryggja „að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis“, sbr. 19. gr. laga um háskóla. Spurningin sem hefði vaknað á undanförnum misserum væri sú hvort ört vaxandi fjöldi nýnema samhliða miklum niðurskurði fjárveitinga stefndi gæðum námsins í hættu. Við slíkar aðstæður þyrfti Háskóli Íslands að skoða allar mögulegar leiðir til að tryggja gæði námsins.


2. Skilvirkni kennslu

Það væri lykilstef í stefnu Háskóla Íslands að fara vel með opinbert fé. Skólinn hefði einsett sér að draga úr brottfalli og tryggja að nemendur útskrifist á eðlilegum námstíma. Hertar inntökukröfur gætu þjónað þessu markmiði.


3. Ytri úttektir

Ytri úttektaraðilar (t.d. Ríkisendurskoðun 2005 og 2007) hefðu beint þeim tilmælum til Háskóla Íslands að skoða aðgangstakmarkanir.


4. Ábyrgð nemenda

Í tengslum við aðgerðir gegn brottfalli þyrfti einnig að skoða ábyrgð nemenda á eigin námi. Í núverandi kerfi væru því lítil takmörk sett hversu oft nemendur gætu skipt um námsgrein, hversu mörg námskeið þeir skráðu sig í eða úr, hversu lengi þeir væru í námi o.s.frv. Slíkt agaleysi hefði lítinn kostnað í för með sér fyrir nemendur en töluverðan fyrir Háskólann. Aðgangstakmarkanir gætu aukið ábyrgð nemenda á náminu og gert það eftirsóknarverðara að vera nemandi við Háskóla Íslands.


Verkefnið

·    Erindi frá háskólaráði 17. september 2009

·    Kennslumálanefnd og gæðanefnd, ásamt gæðastjóra, falið að taka saman yfirlit um hvernig staðið er að inntöku nýnema (inntökuskilyrði, inntökuferli, aðgangstakmarkanir o.fl.) í Háskóla Íslands og á Norðurlöndum

·    Einnig var þeim falið að reifa kosti og galla núverandi fyrirkomulags og innleiðingu almennra aðgangstakmarkana við Háskóla Íslands

·    Málið verði kynnt og rætt á háskólaþingi 27. nóvember 2009


Verklag

I.     Núverandi staða

·    Ákvæði laga og reglna um inntöku nemenda í grunnnámi

·    Tölulegar upplýsingar

·    Stöðumat

II.    Inntaka nýnema á Norðurlöndum

III.    Mögulegar leiðir til að innleiða almennar aðgangstakmarkanir á Íslandi

·    Kostir og gallar reifaðir


Lög og reglur

·    Lög um háskóla nr. 63/2006

·    Lög um opinbera háskóla nr. 85/2008

·    Reglur fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009

·    Reglur nr. 319/2009 um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands

·    Reglur nr. 318/2009 um takmörkun á inngöngu nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands


Meginregla og frávik

·    Meginregla: Stúdentar sem hefja grunnnám í Háskóla Íslands skulu hafa lokið stúdentsprófi, eða öðru sambærilegu prófi frá erlendum háskóla

·    Frávik: Jafnframt veita lög og reglur háskólunum heimild til að víkja frá meginreglunni með þrennum hætti

-    Undanþága: Jafngildur þroski og þekking að mati viðkomandi háskóla

-    Frekari skilyrði um undirbúning: Til dæmis inntak stúdentsprófs, inntöku- eða stöðupróf

-    Fjöldatakmarkanir: Þar sem eru ekki fyrir hendi skilyrði eða aðstæður til inntöku allra umsækjenda


Úr lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008

„Reglur um takmörkun á fjölda nemenda sem teknir eru inn á einstakar námsleiðir skulu settar fyrir fram fyrir hvert háskólaár. Í slíkum reglum skal taka mið af skilyrðum háskóla til þess að veita kennslu á viðkomandi námsleið. Í reglum háskólaráðs er heimilt að takmarka fjölda nemenda inn á einstakar námsleiðir enda séu þá ekki fyrir hendi skilyrði til inntöku allra umsækjenda.“


Sbr. einnig reglur fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 (47. gr.)


Undanþágur

2007 2008 2009
Fjöldi undanþáguumsókna 67 230 490
Fjöldi veittra undanþága 31 180 161
Hlutfall veittra undanþága 46% 78% 33%

·    Engar undanþágur voru veittar 2004-2006 af sparnaðarástæðum

Þróun fjölda nemenda og starfsmanna HÍ 2000-2008

·    Skráðir nemendur    50,9 %

·    Virkir nemendur     56,2 %

·    Ársverk starfsmanna    19,5 %


Fjöldi ársnemenda umfram fjárlög

2005 2006 2007 2008
Virkir nemendur 5.807 5.953 5.957 6.522
Nemendur á fjárlögum 5.450 5.665 5.875 6.050
Mismunur 357 288 82 472
% 6,6 5,1 1,4 7,8

 

Fyrsta árs brottfall 2006-2007

·    Fyrsta árs brottfall 2006-2007 var 38% í HÍ í heild

·    Mismikið eftir deildum, minnst 11% og mest 55%

·    Minna brottfall var í Kennaraháskóla Íslands, en hefur aukist

·    Umtalsverður fjöldi hættir námi eftir að hafa lokið 45e (90 ECTS) eða fleiri (um 700 nemar á árunum 2003-2007)

·    Brottfall meira við Háskóla Íslands en almennt á Norðurlöndum


Brottfallsnemar 2003-2006 (skráningarbrottfall)

Fjöldi Hlutfall (%)
Sótti enga fyrirlestra eða verklega tíma 494 54,4
Stundaði ekki nám við HÍ í meira en einn mánuð 62 6,8
Stundaði nám í meira en einn mánuð 350 38,6
Alls 906 100

 

Tvær athuganir

·    Ýmislegt bendir til þess að stór hluti stúdenta við Háskóla Íslands líti á það sem sjálfsagt mál að segja sig úr námskeiðum og prófum og breyta námsvali ótt og títt eftir að nám er hafið, enda kostar það þá litla fyrirhöfn

·    Sé t.d. litið til staðtalna um próf vorið 2007 má sjá að um 48% próftilvika lauk með úrsögn eða fjarvist nemenda


Úrsögn úr prófum (vor 2007)

Fall Fjarv. Metið Ólokið Staðið Úrsögn Vottorð

Samtals

próftilvik

Próftilvik ekki á próftöflu 102 501 84 2.139 6.791 8.266 56 17.940
Próftilvik á próftöflu 1.535 1.637 73 228 11.373 11.162 682 26.690
Heildarfjöldi 1.637 2.138 157 2.367 18.164 19.428 738 44.630

 ·    48% próftilvika lauk með úrsögn eða fjarveru


Spurningar

·    Kalla framangreindar staðreyndir og fyrirsjáanleg þróun (niðurskurður á fjárveitingum og enn fleiri nemendur) á endurskoðun á fyrirkomulagi inntöku nemenda í grunnnámi við Háskóla Íslands?

·    Felur óbreytt ástand – áframhaldandi opinn aðgangur – í sér ógn við gæði náms og skilvirkni kennslu?

·    Hníga einhver rök að því að taka upp almennar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands?


Fjögur umhugsunaratriði

Fjögur atriði koma hér einkum til álita ...


1. Gæði náms og aðbúnaður.

Vaxandi fjöldi nemenda samhliða skertum fjárveitingum til Háskólans getur dregið úr gæðum náms við skólann og skert þann aðbúnað og þá þjónustu sem nemendum stendur til boða


2. Brottfall

a)    Brottfall gæti aukist við óbreyttar aðstæður

b)    Aðgerðir til að stemma stigu við brottfalli eru sumar kostnaðarsamar (t.d. símat, endurgjöf, kennsla í smærri hópum)

c)    Aðgangstakmarkanir gætu í sjálfu sér dregið úr brottfalli


3. Óvissa um fjölda nýnema.

Óvissa um fjölda nýnema og miklar sveiflur í nemendafjölda gera skipulag náms og kennslu flókið og kostnaðarsamt


4. Ný lög um framhaldsskóla sem tóku gildi árið 2008 veita skólunum meira svigrúm til að ákvarða sjálfir námsskrá til stúdentsprófs


Önnur úrræði en aðgangstakmarkanir


1. Skipulags- og hagræðingaraðgerðir

a)    Veita ekki undanþágur frá stúdentsprófskröfunni eins og gert var 2004-2006

b)    Auka samnýtingu námskeiða

c)    Fækka kennslugreinum

d)    Auka samvinnu á milli íslenskra háskóla


2. Virkja nýja eða aukna tekjustofna

a)    Umsýslugjald

b)    Hækkun almenns skrásetningargjalds

c)    Innleiða sérstakt skrásetningargjald fyrir nemendur sem eru komnir t.d. meira en þriðjungi fram úr eðlilegum námstíma

d)    Gjald vegna endurtökuprófa

e)    Skólagjöld


Norðurlöndin: Almennar ályktanir

1. Almenn krafa um stúdentspróf

a)    Undanþágur skilgreindar

b)    Viðbótarkröfur um fjölda eininga í tilteknum námsgreinum

c)    Aðrir þættir svo sem starfsreynsla og annað nám metið

d)    Einhvers konar samræmd próf (Danmörk, Finnland) eða miðlæg, stöðluð hæfnispróf (SweSAT í Svíþjóð)

e)    Aldur stúdentsprófs getur skipt máli


2. Miðlæg umsýsla með umsóknum

a)    Miðlæg skrifstofa: KOT í Danmörku, SO í Noregi, VHS í Svíþjóð

b)    Rafrænar umsóknir

c)    Nemendur raða nokkrum námsleiðum í forgangsröð

d)    Nemendur fá tilboð um námsæti frá háskóla

e)    Fái nemandi hvergi inni fær hann bréf frá miðlægri skrifstofu ásamt upplýsingum um laus sæti og möguleika á að skrá sig á biðlista

f)    Nemendur geta kært niðurstöðu umsóknarferlis til viðkomandi háskóla eða kærunefndar


3. Kvótar fyrir fjölda inntekinna nemenda á hinum ýmsu námsleiðum í háskólum (almennt notaðir)

a)    Reiknireglur notaðar til að forgangsraða umsóknum (einkunn á stúdentsprófi vegur þyngst)

b)    Boðið er upp á mismunandi kvóta, auk hinna almennu samkeppniskvóta

i. Kvótar fyrir þá sem ekki eru með stúdentspróf

ii. Staðbundnir kvótar (umsóknir frá tilteknum landshlutum)

iii. Kvótar fyrir nám á ensku


4. Háskólarnir hafa mikið sjálfræði um inntökukröfur, inntökuaðferðir og fjölda námssæta í einstökum námsgreinum


„Í námsleiðum þar sem ekki eru aðgangstakmarkanir ákvarðar háskólinn fjölda námssæta með hliðsjón af getu hans til að veita með ábyrgum hætti kennslu á grundvelli rannsókna, með hæfum kennurum og fullnægjandi húsnæðisaðstöðu.  Háskóli skal ennfremur taka mið af því að fjöldi inntekinna nemenda sé í samræmi við menntunarþarfir samfélagsins á viðkomandi fagsviði.“ (Danmörk, 13. gr. 2. hluti)


5. Möguleikar nemenda til að breyta námsvali eftir að nám er hafið eru takmarkaðir og kosta fyrirhöfn

a)    Almennt gildir að ef nemandi hyggst skipta um námsgrein þarf hann að sækja um á nýjan leik og fara gegnum hefðbundið umsóknaferli

b)    Í sumum tilvikum, þar sem um sambærilegt nám er að ræða, getur nemandi sótt um endurinnritun og fengið einingar metnar á milli námsleiða

c)    Nemendur þurfa ekki að greiða sérstaklega fyrir að skipta um námsgrein, en námsstyrkir eru aðeins veittir til takmarkaðs árafjölda


Ísland: Inntökukerfi fyrir nýnema að norrænni fyrirmynd?


Nokkur erfið úrlausnarefni blasa við:

1. Ekki samræmd stúdentspróf eða miðlæg, stöðluð hæfnispróf

a)    Með nýjum framhaldsskólalögum virðumst við raunar vera að færast fjær samræmdum stúdentsprófum


2. Engin miðlæg umsýsla með umsóknum í alla háskóla

a)    Hugmynd um sameiginlega innritun nýnema á háskólastigi er varpað fram (en hún ekki útfærð) í skýrslu rýnihóps menntamálaráðherra (ágúst 2009)


3. Erfitt gæti reynst að ná sátt um kvóta á hinum einstöku námsleiðum

a)    Reiknilíkan menntamálaráðuneytis veitir einungis grófar vísbendingar um hvernig mætti ákveða kvóta

b)    Hægt væri að byggja á nemendafjölda á tilteknu árabili (t.d. næstu fimm árum á undan)


Bráðabirgðaniðurstöður eftir samanburð við Norðurlönd

1.    Inntökukerfi fyrir umsækjendur um nám í íslenskum háskólum að norrænni fyrirmynd verður tæplega innleitt nema að frumkvæði stjórnvalda og með samstilltu átaki Háskóla Íslands, stjórnvalda og annarra innlendra háskóla

2.    Verkefni stjórnenda Háskóla Íslands er að meta hvort breytt inntökukerfi, t.d. að norrænni fyrirmynd, þjóni hagsmunum skólans

3.    Í fljótu bragði virðist slíkt kerfi geta í senn tryggt Háskólanum hæfa umsækjendur og varðveitt sjálfstæði hans. Auk þess er líklegt að hagræði og sparnaður hljótist af slíku kerfi

4.    Ekki verður þó fullyrt um þetta nema að undangenginni mun nánari athugun

5.    Einnig þarf að skoða hvort aðrar aðgerðir myndu virka betur til að tryggja gæði náms og draga úr brottfalli


Sértækar fjöldatakmarkanir við HÍ?

·    Nærtækast að byggja á reiknilíkani mennta- og menningarmálaráðuneytisins

·    Háskólinn tæki þá eingöngu við þeim fjölda sem hann fengi greitt fyrir

·    Hægt væri að nýta ekki undanþáguheimild frá stúdentsprófskröfunni

·    Eitt helsta úrlausnarefnið varðandi þessa leið væri að ákveða skiptingu nemendaígilda í hverjum reikniflokki á milli þeirra fræðasviða, deilda og námsgreina sem undir hann falla, því undir flesta reikniflokka falla fjölmargar námsgreinar sem kenndar eru á ólíkum stöðum í skipulagi Háskólans

·    Líta mætti á þessa leið sem smækkaða mynd af inntökukerfi að norrænni fyrirmynd, þar sem einstök fræðasvið (og eftir atvikum deildir) Háskóla Íslands fengju hliðstæða stöðu hvað inntökuferlið varðaði og einstakir háskólar hafa á Norðurlöndum



Rektor þakkaði Róbert fyrir framsöguna og gaf orðið laust.


Málið var rætt og spunnust líflegar umræður í kjölfar framsögu Róberts.


Kjörinn fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs fagnaði því að hafin væri skipuleg umræða um stefnu Háskóla Íslands um inntöku nýnema og þakkaði fyrir góða framsögu. Sagði fulltrúinn að hér væri stórt mál á ferð, ekki síst vegna skyldu Háskóla Íslands til að taka við öllum umsækjendum sem til hans leita og fullnægja kröfum um nauðsynlegan undirbúning, þ.e. svo fremi sem Háskólinn hafi þá skyldu. Eftir að kreppan skall á hefðu ýmsir dregið aftur fram þjóðskólahugtakið til að senda Háskólanum skilaboð um að taka við sem flestum nemendum – án þess að tekin væri að fullu ábyrgð á kostnaðinum sem af því hlýst. Háskólinn hefði mjög opnar reglur um inntöku nýnema og stundum væri jafnvel gert út á hana. Þetta gilti jafnvel enn frekar um aðra innlenda háskóla og hefði t.d. Háskólinn á Akureyri veitt um 40% nýnema undanþágu frá stúdentsprófkröfunni fyrir nokkrum árum. Mikilvægt væri að hafa í huga að hér væri á ferðinni gæðamál, enda væri hlutfall inntekinna nemenda án stúdentsprófs ? algengur gæðavísir í starfi háskóla sem tengist raunar öðrum kvörðum, s.s. hlutfalli brautskráðra kandídata og hlutfalli þeirra sem fengju starf að loknu námi.


Fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði sagði að það kæmi sér á óvart að á sama tíma og aðsókn að Háskóla Íslands hefði stóraukist nýtti skólinn undanþáguákvæði í reglum um að veita umsækjendum undanþágu frá stúdentsprófskröfunni að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um það í hvaða greinar þessir nemendur skráðu sig. Einnig lýsti fulltrúinn þeirri skoðun sinni að Háskólinn ætti ekki að taka við fleiri nemendum en hann fengi greitt kennsluframlag fyrir. Álag á kennara skólans væri nú þegar orðið alltof mikið og ætti að reyna að draga úr því eins og kostur væri. Loks hélt fulltrúinn því fram að leyfa ætti öllum stúdentum sem fullnægðu kröfum um undirbúning að spreyta sig á fyrsta misseri og láta þá síðan þreyta inntökupróf.


Forseti Menntavísindasviðs þakkaði fyrir góða framsögu og gagnlega umræðu. Sagði hann mjög marga hluti vera undir í þessu máli, þ.á.m. gæði og aðbúnað til náms. Tók forsetinn undir það sjónarmið að Háskólinn gæti ekki tekið endalaust við fleiri nemendum á sama tíma og framlög til skólans drægjust saman. Óeðlilegt væri að hafa skólann alveg opinn en borga ekki fyrir þá nemendur sem þar stunduðu nám. Þegar nemendur gerðu kröfur um að skólinn væri opinn þyrfti einnig að hafa í huga að það ógnaði gæðum námsins og bitnaði þannig á endanum á nemendunum sjálfum. Einnig sagði forsetinn að víða um lönd væri nú gerð krafa um að draga úr brottfalli í háskólum. Í því sambandi væri mikilvægt að hafa í huga að brottfall ætti sér margar orsakir sem að hluta til mætti rekja til nemenda og að hluta til skólanna sjálfra. Þótt mikilvægt væri að draga úr brottfalli mætti það ekki verða til að draga úr námskröfum því engum væri greiði gerður með því að hleypa nemendum í gegnum háskóla án þess að þeir stæðust settar kröfur. Þá lýsti forsetinn þeirri skoðun sinni að óháð því hvort hert yrði á inntökuskilyrðum eða teknar yrðu upp almennar aðgangstakmarkanir væri gagnlegt að grípa til ýmissa ráðstafana til að auka aga og festu í náminu, s.s. varðandi fresti til að skrá sig til náms eða skrá sig úr prófi. Slíkar aðgerðir stuðluðu að menningu sem einkenndist af því að fólk skráði sig til vinnu á haustin og því stæðu til boða góðar vinnuaðstæður. Loks vék forsetinn að nýjum lögum um framhaldsskóla og sagði þau kalla á að Háskólinn gæfi nemendum skýr skilaboð um til hvers væri ætlast af þeim.


Framsögumaður þakkaði fundarmönnum fyrir góða umræðu og gagnlegar ábendingar. Varandi innlegg kjörins fulltrúa Heilbrigðisvísindasviðs sagði hann að það hvíldi ekki á Háskólanum lagaleg skylda um að taka við öllum nemendum, heldur væri innan núverandi lagaramma unnt að innleiða norrænt inntökukerfi. Um umræðuna um gæði náms sagði framsögumaður það vera sitt mat að ef aðsókn að námi við Háskóla Íslands myndi halda áfram að aukast með óbreyttum hraða gæti það ógnað gæðum námsins. Þá tók hann undir með forseta Menntavísindasviðs um að almenn inntökuskilyrði og aðgerðir gegn brottfalli úr námi væru tvö sjálfstæð mál og þótt ekki yrði ráðist í það fyrrnefnda væri mikilvægt að sinna hinu síðarnefnda. Það væri staðreynd að brottfall nemenda úr háskólum á Íslandi væri meira en annarstaðar á Norðurlöndum og það væri óviðunandi.


Forseti Hugvísindasviðs spurði hvort vitað væri hvernig nemendum sem fengju undanþágu frá stúdentsprófskröfunni reiddi af í námi við Háskóla Íslands.


Gæðastjóri svaraði því til að ekki hefðu verið teknar saman almennar upplýsingar um afdrif undanþágunemenda. Þetta hefði þó verið kannað í Lagadeild fyrir fáeinum árum og hefði þá komið í ljós að af u.þ.b. 20 undanþágunemendum hefði aðeins einn lokið námi. Þá væri í undirbúningi sérstök athugun á því hvernig nemendum frá Keili vegnaði í námi við Háskóla Íslands.


Forseti Lagadeildar sagði að mikið hefði verið rætt um brottfall meðal stjórnenda deildarinnar. Mikilvægt væri að gera sér grein fyrir því að brottfall gæti verið mælikvarði um tvennt, þ.e. annars vegar að nemendur stæðu sig ekki í náminu og hins vegar að gerðar væru miklar kröfur. Í Lagadeild væri lítið brottfall, en það þyrfti ekki nauðsynlega að vera vitnisburður um góða kennslu og aðbúnað, heldur gæti það einnig stafað af því að nemendur væru valdir inn í námið. Þetta væri þó tvíbent því aðsókn að deildinni hefði aukist mikið og þyrfti að vísa að sama skapi mörgum nemendum frá. Haustið 2009 hefðu t.d. borist um 440 umsóknir um nám við Lagadeild Háskóla Íslands, jafnvel þótt þrjár aðrar lagadeildir væru starfræktar í landinu. Fyrir þessu væru ýmsar ástæður, m.a. sú að laganám hefði verið auglýst mikið á Íslandi og því væri að hluta til um að ræða einskonar markaðsvæðingu námsins. Lagadeild hefði ákveðið að grípa ekki til frekari aðgangstakmarkana fyrst um sinn heldur að bíða og sjá hvort ekki drægi úr aðsókninni með tímanum. Ýmsar leiðir hefðu þó verið skoðaðar. Til dæmis væri við Kaupmannahafnarháskóla krafist fyrstu einkunnar á stúdentsprófi til að vera gjaldgengur fyrir laganám, en Lagadeild Háskóla Íslands hefði ekki kosið að fara þessa leið, enda væri íslenska stúdentsprófið gallaður mælikvarði og það myndi útiloka marga góða nemendur.


Kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs lagði áherslu á að námsráðgjöf og fræðsla fyrir nemendur gætu dregið úr brottfalli. Benti fulltrúinn á að Íslendingar stæðu langt að baki Norðurlöndum hvað varðar námsráðgjöf og fræðslu til nemenda. Á Íslandi hefði þess í stað verið mikið kapp lagt á auglýsingar og gylliboð fyrir væntanlega nemendur.


Fulltrúi háskólaráðs sagði að miklu máli skipti hvernig námið væri skipulagt og hvernig Háskólinn gæti komið til móts við þarfir nemenda með ábyrgum hætti. Ef fjöldi nemenda yrði of mikill gæti það haft í för með sér verri þjónustu. Almennar aðgangstakmarkanir væru mikilvægt sveiflujöfnunartæki og auðvelduðu alla áætlanagerð.


Aðstoðarrektor vísinda og kennslu þakkaði fundarmönnum fyrir góða umræðu um mikilvægt málefni. Benti hann á tengsl þessarar umræðu við undanfarandi umræðu um háskólastigið. Sökum stærðar og stöðu Háskóla Íslands hefði innleiðing almennra aðgangstakmarkana ekki aðeins áhrif innan Háskólans heldur á allt íslenska háskólakerfið. Ef Háskóli Íslands myndi takmarka fjölda námssæta þyrfti að svara þeirri spurningu, hvaða valkostir stæðu til boða fyrir þá nemendur sem þyrftu frá að hverfa? Loks lagði aðstoðarrektor áherslu á að umræðan um námsárangur og brottfall takmarkaðist ekki við grunnnám heldur ætti hún ekki síður við um meistara- og doktorsnám.


Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs lagði áherslu á mikilvægi þess að bjóða upp á öfluga fræðslu á fyrri skólastigum um það, hvers konar undirbúning nemendur þyrftu að hafa til að geta staðist þær kröfur sem gerðar væru í háskóla. Það væri t.d. vont að taka inn nemendur með því að veita þeim undanþágu frá stúdentsprófskröfunni og horfa síðan upp á þá lenda í erfiðleikum með að ráða við þær námskröfur sem gerðar eru í grunnnámi. Til að koma í veg fyrir slíkt gæti verið gagnlegt að bjóða væntanlegum nemendum upp á leiðbeinandi stöðupróf, t.d. á vefnum, til að þeir gætu áttað sig á stöðu sinni áður en þeir sæktu um nám. Engum væri greiði gerður með því að taka inn nemendur sem ekki hefðu forsendur til að standast námskröfur. Einnig gæti verið gagnlegt að auka námsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.


Framsögumaður sagðist sammála ábendingum forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og vísaði í því sambandi til könnunar sem gerð var fyrir nokkrum árum um fylgni á milli stúdentsprófseinkunna og árangurs í Háskólanum.


Forseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar þakkaði fyrir góða umræðu. Greindi hann frá því að hann hefði starfað um 10 ára skeið í háskólum á Norðurlöndum þar sem umsýsla með námsumsóknum væri miðlæg. Nemendur veldu nokkrar greinar og forgangsröðuðu þeim. Þegar gerð var könnun á því, hvar í forgangsröðinni nemendur settu einstakar námsgreinar hefði komið í ljós kom að flestir nemendur í tiltekinni námsgrein hefðu raðað henni í 7.-10. sæti í forgangslistanum. Í kjölfarið hefði námsgreinin verið lögð niður.


Gæðastjóri Háskólans þakkaði fundarmönnum einnig fyrir málefnalega umræðu um mikilvæg mál sem sannarlega væru verðugt viðfangsefni fyrir háskólaþing – hið akademíska senat Háskóla Íslands. Tók hann undir það sjónarmið að skýrsla brottfallsnefndar, sem kynnt var á háskólaþingi árið 2008, og greiningin á inntökuskilyrðum á Norðurlöndum og við Háskóla Íslands, sem væri til umræðu á þessum fundi, hefði leitt í ljós fjölmargar mögulegar aðgerðir sem væru til þess fallnar að auka námsárangur, draga úr brottfalli, nýta betur opinbera fjármuni, draga úr álagi á starfsfólk, styrkja orðspor Háskólans og efla gæði starfseminnar. Mikilvægt væri að hafa hugfast að þessum aðgerðum mætti hrinda í framkvæmd með tiltölulega lítilli fyrirhöfn, óháð því hvort gripið yrði til almennra aðgangstakmarkana.


Fulltrúi stúdenta greindi frá því að þar sem hann hefði gengið í menntaskóla hefði skólameistari brýnt fyrir nemendum að athuga strax í upphafi á hvaða háskólanám þeir hygðu og að þeir höguðu undirbúningi sínum í samræmi við það. Spurði fulltrúinn hvort Háskólinn gerði nóg til þess að koma slíkum skilaboðum til framhaldsskólanema.


Framsögumaður svaraði því til að fulltrúar Háskóla Íslands héldu reglulega samráðsfundi með Félagi skólameistara í framhaldsskólum og á þeim hefðu þessi mál sérstaklega verið rædd. Einnig birtu deildir Háskólans á heimasíðum sínum upplýsingar um nauðsynlegan og æskilegan undirbúning. Þetta væri brýnt mál og sjálfsagt mætti huga að fleiri leiðum til að koma skilaboðum til framhaldsskólanema.


Að umræðu lokinni bar rektor bar upp svohljóðandi ályktun:


„Kennslumálanefnd, gæðanefnd og gæðastjóra er falið að vinna frekar úr þeim hugmyndum um inntöku nýnema við Háskóla Íslands og viðbrögð við brottfalli sem kynntar voru á háskólaþingi 27. nóvember 2009. Úrvinnslan taki m.a. mið af framkomnum sjónarmiðum á þinginu. Settar verði fram tillögur um aðgerðir til að tryggja gæði náms, auka skilvirkni kennslu og ábyrgð nemenda.“


Samþykkt einróma.


Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Róberts H. Haraldssonar, þau Rúnar Vilhjálmsson, Anna Agnarsdóttir, Jón Torfi Jónasson, Ástráður Eysteinsson, Magnús Diðrik Baldursson, Björg Thorarensen, Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Kristín Vala Ragnarsdóttir, Erlingur Jóhannesson og Kristín Schiöth.

 

Kl. 16.10-16.30 - Dagskrárliður 4: Ný stefna Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns 2009-2012



Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður flutti kynningu undir heitinu „Þekkingarveita í allra þágu – stefna Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns 2009-2012.“


1994-2009

·    Sameinað safn 15 ára 1. desember

·    Landsbókasafn stofnað 1818

·    Háskólabókasafn stofnað 1940

     - Á rætur allt aftur til 1847 í söfnum Presta-, Lækna- og Lagaskóla og síðar háskóladeilda


Stjórn safnsins

·    Hörður Sigurgestsson – tilnefndur af ráðherra

·    Rögnvaldur Ólafsson – HÍ

·    Birna Arnbjörnsdóttir – HÍ

·    Eydís Arnviðardóttir – Upplýsing

·    Magnús Jónsson – Vísinda- og tækniráð

     - varamaður Jóhanna Einarsdóttir – (HÍ)


Fyrri stefnur

·    1994 - Ný löggjöf

·    1999 - Þekking, vísindi og menning við aldaskil

     - Framtíðarsýn – framkvæmdaáætlun – 38 markmið

·    2003 - Þekkingarveita á norðurslóð

-    Framtíðarsýn – markmið – 45 aðgerðir


Stefnumótunarferli

·    Rætt í stjórn safnsins 2008

·    Lög um Lbs-Hbs – 71/1994

     - 2. gr. Stjórnin markar bókasafninu stefnu ...

·    Síðustu áætlun var í raun lokið – ekki hægt að ná meiru út úr henni

·    Áherslubreytingar í starfsemi safnsins – breytingar í umhverfi


Hvert á að horfa?

·    Notendur, þjónusta, samstarf

·    Rafrænar lausnir – efling tæknihlutans – menntun / styrking starfsmanna

·    UT arkitektúr fyrir safnið

·    Samstarf / lausnir á landsvísu – tengingar við aðra

·    Styrkja grunnstoðirnar, Gegni (Landskerfi), Landsaðgang og stafrænu endurgerðina


Notendur/hagsmunaaðilar

·    Landsmenn allir – í safninu, á vef

·    HÍ – nemendur, kennarar, fræðimenn

·    Stúdentaráð, bókasafns- og upplýsingafræði, sviðin

·    Aðrir háskólar og stofnanir

·    Fræðimenn, rannsóknasetur

·    Bókasöfn – Gegnir (Landskerfi) og Landsaðgangur

·    Útgefendur – höfundar

·    Fag- og stéttarfélög

·    Erlendir aðilar


Fundaáætlun

·    Fundaröð 22. janúar – 16. apríl

·    12 fundir

     - 9 fundir með stefnumótunarhópi

     - 2 fundir með starfsmönnum

     - 1 fundur með hagsmunaaðilum

·    Tillögu skilað til stjórnar í apríl

·    Stjórn samþykkti endanlega stefnu í maí 2009


Stefnan

·    Hlutverk safnsins skilgreint

·    Mótuð framtíðarsýn

·    Gildi valin

·    Sett 8 markmið

     - 3 aðgerðir

     - 4-6 viðfangsefni

     - Árangursmælikvarðar

     - Tímarammi


Hlutverk

·    Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er þekkingarveita í allra þágu.

·    Safnið veitir íslensku samfélagi þjónustu á öllum sviðum vísinda og fræða.

·    Það er í forystu um öflun, varðveislu og miðlun upplýsinga og eflir þannig menningu, rannsóknir og nýsköpun.


1. Þróa og auka rafræna miðlun og bæta aðgengi að efni safnsins

·    Tryggja að rafræn miðlun verði grunnþáttur í starfsemi safnsins og að starfsfólk þess verði í forystu um þróun þekkingar á þessu svið

·    Tryggja aðgengi að erlendu vísindaefni í gegnum Landsaðgang, séráskriftir eða minni samlög

·    Efla tengsl við Landskerfi bókasafna, styrkja Gegni og stuðla að samþættingu íslenskra gagnaveitna


2. Efla söfnun og skráningu

·    Þróa stafræn geymslusöfn og auka söfnun og skráningu stafræns efnis

·    Þróa vefsöfnun enn frekar og veita aðgang að íslensku vefefni

·    Móta markvissa stefnu um söfnun og úrvinnslu á einkaskjalasöfnum


3. Efla stafræna endurgerð

·    Auka stafræna endurgerð efnis í vörslu safnsins til miðlunar og í varðveisluskyni

·    Tryggja uppfærslu og endurskipulagningu eldra stafræns efnis

·    Hafa frumkvæði að opnara aðgengi höfundaréttarvarins efnis


4. Efla langtímavarðveislu

·    Móta stefnu um langtímavarðveislu stafræns efnis

·    Setja upp geymslu fyrir langtímavarðveislu stafræns efnis og tryggja virka varðveislu

·    Móta stefnu um viðgerðir og varðveislu eldra safnefnis


5. Efla samstarf við Háskóla Íslands og aðra notendur

·    Tryggja virka þátttöku í starfi og þróun HÍ og annarra háskóla

·    Efla samstarfsnet, styrkja ímynd safnsins og tengsl við almenning

·    Stuðla að auknu samstarfi og samfjármögnun verkefna


6. Efla þjónustu

·    Auka áherslu á notendafræðslu og upplýsingalæsi

·    Efla miðlun upplýsinga um safnið og gögn þess

·    Hagræða og bæta þjónustu við notendur


7. Auka skilvirkni skipulags og rekstrar

·    Meta virkni núverandi skipurits og skýra framsal ákvarðanatöku

·    Endurmeta gagnsemi og árangur fagsviða og auka virkni, hagkvæmni og gagnsæi verkferla

·    Auka virkni verkefnaáætlana og bæta verkefnastjórn


8. Styrkja safnið sem eftirsóttan vinnustað

·    Hvetja til frumkvæðis starfsmanna, bæta samráð og upplýsingaflæði

·    Stuðla að virkari endurmenntun, hreyfanleika í starfi og félagslegum samskiptum

·    Móta stefnu og viðmið um rannsóknir innan safnsins


Rektor þakkaði Ingibjörgu fyrir kynninguna og gaf orðið laust. Enginn tók til máls.


Að lokum þakkaði rektor fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar og málefnalegar umræður og bauð þeim að þiggja hressingu í anddyri Hátíðasalar.


Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 3. háskólaþingi 27. nóvember 2009:


1.    Dagskrá og tímaáætlun 3. háskólaþings 27. nóvember 2009.

2.    Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.

3.    Fundargerð 2. háskólaþings 15. maí 2009.

4.    Skýrsla erlends sérfræðingahóps: Education, Research and Innovation policy: A New Direction for Iceland, maí 2009. (Dagskrárliður 2).

5.    Skilagrein verkefnastjórnar mennta- og menningarmálaráðuneytisins um vísinda- og háskólamál, dags. 25. maí 2009. (Dagskrárliður 2).

6.    Skilagrein rýnihóps menntamálaráðherra, dags. 27. ágúst 2009, sem ber heitið Aðgerðir í háskóla- og vísindamálum. (Dagskrárliður 2).

7.    Yfirlitsblað um inntöku nýnema í danska háskóla. (Dagskrárliður 3).

8.    Yfirlitsblað um nýja stefnu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns 2009-2012. (Dagskrárliður 4).