Skip to main content

12. háskólafundur 22. mars 2004

12. háskólafundur haldinn 22. mars 2004 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13:00 - 15:00

Dagskrá

Kl. 13.00 - 13.05  Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun.
Kl. 13.05 - 15.00  Dagskrárliður 1. Samþykkt háskólaráðs um að leita umsagnar háskólafundar um það hvort leggja skuli til við menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum sem veiti Háskólanum heimild til að innheimta gjöld af nemendum í hefðbundnu háskólanámi.
Kl. 15.00  Rektor slítur fundi.
 

Kl. 13.00: Fundarsetning

Rektor setti 12. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Þá fór rektor yfir dagskrá og tímaáætlun sem og framlögð fundargögn. Engar tillögur til ályktunar bárust að þessu sinni. Fundarritarar voru, eins og áður, Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs.

Áður en gengið var til dagskrár gerði rektor grein fyrir tildrögum fundarins. Um væri að ræða aukafund sem boðað hefði verið til í því skyni að leiða til lykta umræðu frá 10. og 11. háskólafundi um heimild til að innheimta skólagjöld við Háskóla Íslands. Brýnt væri að umræðan leiddi til niðurstöðu þar eð hún mótaði ákvarðanir sem fyrir háskólaráði lægi að taka. Afbrigða hefði verið leitað til þess að boða mætti fundinn með skemmri fyrirvara en þeim sex vikum sem reglur gera ráð fyrir, en vert væri að hafa í huga að ákvæði um boðun háskólafundar væru ekki í lögum um Háskóla Íslands, heldur reglum sem fundurinn setji sjálfur. Í samræmi við almenn fundarsköp gætu fulltrúar á fundi ákveðið að víkja frá þessum reglum. Í þessu tilviki hefði afbrigðanna verið leitað með orðsendingu rektors, sem lögum samkvæmt boðar til fundarins, til allra fulltrúa á háskólafundi, dags. fimmtudaginn 11. mars sl. Í orðsendingunni hefði verið óskað eftir því að athugasemdir myndu berast skrifstofu rektors f.h. mánudaginn 15. mars sl. Síðla sama dags hefði síðan verið sent út formlegt fundarboð, enda hefðu þá engar athugasemdir við afbrigðin borist. Næsta dag, þriðjudaginn 16. mars sl., hefði loks borist ein athugasemd, frá Herði Filippussyni, forseta raunvísindadeildar, þar sem hann lýsti sig ekki hlynntan því að veita afbrigði til þess að boða mætti fundinn með skemmri fyrirvara en ella. Athugasemdinni hefði verið svarað með nánari rökstuðningi. Lauk rektor máli sínu á því að draga þá ályktun að til fundarins hefði verið löglega boðað og því væri hann ályktunarbær og gæti látið í ljósi gilt álit.

Að greinargerð rektors lokinni bauð hann Herði að skýra mál sitt frekar. Í máli sínu tilgreindi Hörður tvær meginástæður fyrir athugasemd sinni. Í fyrsta lagi bryti boðun fundarins gegn reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar. Í öðru lagi teldi hann að ekki væri um það að ræða að leiða umræður frá fyrri háskólafundum til lykta, heldur lægi fyrir fundinum að taka afstöðu til nýrrar samþykktar háskólaráðs sem væri víðtækari en þær tillögur sem áður hefðu komið fram. Lengri tíma hefði þurft til að ræða nýju samþykktina, bæði á vettvangi deilda og í háskólasamfélaginu öllu. Þá gat Hörður þess að ástæðan fyrir því að athugasemd hans hefði borist jafn seint og raun bæri vitni hefði verið sú að tölvukerfi Háskólans hefði legið niðri frá sunnudeginum 14. mars sl. til morguns þriðjudagsins 16. mars sl. og því hefði hann ekki getið komið athugasemd sinni á framfæri með tölvupósti innan tilskilins frests.

Rektor bað Tryggva Þórhallssyni, lögfræðing Háskólans, að tjá sig um málið. Greindi Tryggvi frá því að þegar athugasemd Harðar hefði borist hefði verið farið rækilega yfir viðeigandi reglur og teldi hann engann vafa leika á því að til fundarins væri löglega boðað. Hvaða stefnu málið tæki á fundinum væri aftur á móti undir fundinum sjálfum komið. Fleiri fundarmenn tóku til máls um málið. Að umræðu lokinni kvaddi Hörður Filippusson sér aftur hljóðs og tilkynnti að í ljósi eindregins vilja flestra fulltrúa sem til máls hefðu tekið drægi hann athugasemdir sínar til baka.

Til máls tóku, auk rektors og Harðar Filippussonar, þau Eiríkur Tómasson, Anna Agnarsdóttir, Þorsteinn Loftsson, Ágúst Einarsson, Ólafur Þ. Harðarson, Björn Þ. Guðmundsson og Kesara Anamatwat-Jónsson.
 

Kl. 13:20 - Dagskrárliður 1: Samþykkt háskólaráðs um að leita umsagnar háskólafundar um það hvort leggja skuli til við menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum sem veiti Háskólanum heimild til að innheimta gjöld af nemendum í hefðbundnu háskólanámi.

Fyrir fundinum lá svohljóðandi samþykkt háskólaráðs frá 11. mars 2004:

„Í samræmi við 3. mgr. 2. gr. laga um Háskóla Íslands leitar háskólaráð umsagnar háskólafundar um það hvort leggja skuli til við menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum sem veiti Háskólanum heimild til að innheimta gjöld af nemendum í hefðbundnu háskólanámi.

Skýring
Tillaga þessi er lögð fram í ljósi ríkjandi aðstæðna í fjármálum og rekstrarumhverfi Háskólans. Fyrir ráðinu liggja tvær tillögur um heimild til gjaldtöku af nemendum í hefðbundnu háskólanámi, önnur frá lagadeild lögð fram 25. febrúar 2004 og hin frá viðskipta- og hagfræðideild sem lögð var fram 11. júní 2003. Fjallað var um síðarnefndu tillöguna á háskólafundi 8. september 2003, þar sem jafnframt fór fram almenn umræða um skólagjöld og er vísað til fundargerðar þess fundar og skjala sem lágu fyrir fundinum. Í tillögum og umræðum innan Háskólans og utan hafa komið fram hugmyndir um að Háskólinn fái almenna heimild til gjaldtöku fyrir kennslu, bæði í grunn- og framhaldsnámi eða eingöngu fyrir kennslu í framhaldsnámi að lokinni fyrstu háskólagráðu.
Gera verður ráð fyrir að gjöld af þessu tagi væru viðbót við fjárveitingu til kennslu sem ákveðin er í fjárlögum ár hvert og grundvölluð er á forsendum sem fram koma í samningi milli menntamálaráðuneytis og Háskóla Íslands um kennslu fyrir tímabilið 1.1.2004-31.12.2006.“

Rektor fór yfir og skýrði samþykkt háskólaráðs. Tók hann skýrt fram að fyrir fundinum lægi ekki eiginleg tillaga ráðsins, eins og ranghermt hefði verið í fjölmiðlum, heldur samþykkt þess um að leita umsagnar háskólafundar um það hvort leggja skuli til við menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum sem veiti Háskólanum heimild til að innheimta gjöld af nemendum í hefðbundnu háskólanámi. Taldi rektor ekki ástæðu til að fara yfir einstök rök í málinu, enda kæmu þau fram í fyrirliggjandi fundargögnum, einkum ítarlegri fundargerð 10. háskólafundar. Að endingu ítrekaði rektor að fyrir fundinum lægi að veita umsögn um það hvort háskólaráð skuli leggja til við menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir því að veita Háskólanum almenna heimild til að innheimta gjöld af nemendum í hefðbundnu háskólanámi. Eftir því hvernig umræður þróuðust kæmi þó einnig til greina að miða við takmarkaða heimild, t.d. um framhaldsnámið eingöngu. Alltént væri þó stefnt að því að leiða málið til lykta á fundinum með atkvæðagreiðslu, annað hvort með handauppréttingu eða með leynilegri atkvæðagreiðslu. Gaf rektor orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og drepið á fjölmargar hliðar þess.

Staða umræðunnar
Almennt voru fundarmenn á einu máli um það að umræðan um skólagjaldamálið væri komin lengra og línur óðum að skýrast frá því málið var fyrst tekið upp á 10. háskólafundi fyrir einu ári síðan. Engu að síður kom einnig fram á fundinum að háskólasamfélagið væri enn fjarri því að hafa sammælst um niðurstöðu. Raunar skiptust fundarmenn í tvo hópa í afstöðu sinni til þeirrar spurningar, hvort Háskólinn ætti yfirleitt að taka af skarið og mynda sér sjálfstæða stefnu í þessu flókna og erfiða máli eða eftirláta það löggjafanum, enda krefðist heimild til upptöku skólagjalda breytingar á lögum um Háskóla Íslands. Einnig voru skiptar skoðanir á því, hvenær rétti tíminn væri til að gera upp hug sinn í málinu og voru færð rök fyrir hvoru tveggja, að ekki væri seinna vænna að leiða umræðuna innan Háskólans til lykta og að það væri ótímabært og málið krefðist lengri undirbúnings.

Orsakir og greining vandans
Ójafn samkeppnisgrundvöllur og menntastefna stjórnvalda
Varðandi síðasttalda atriðið kom m.a. fram það sjónarmið, að Háskóli Íslands hefði ekki lengur frjálsar hendur um það, hvort hann vildi óska eftir því að fá heimild til að taka upp skólagjöld eða ekki. Í reynd væri búið að taka ákvörðun um skólagjöld í íslenskum háskólum. Þessa ákvörðun hefði forveri núverandi menntamálaráðherra tekið með því að gera ólíka samninga við einstaka háskóla á Íslandi og skekkja þannig grundvöll eðlilegrar samkeppni milli þeirra. Þessir samningar fælu í sér að háskólar sem reknir eru sem sjálfseignastofnanir fengju sömu nemendaframlög og háskólar sem reknir eru sem ríkisstofnanir, og fyrrnefndu skólarnir hefðu að auki ótakmarkaða heimild til að taka skólagjöld, sem hinum síðarnefndu væri meinað að gera. Þessi ójafna samkeppnisstaða yrði ekki jöfnuð nema með tvennum hætti: Annað hvort yrði sjálfseignarstofnunum sem fá full ríkisframlög bannað að taka skólagjöld að auki eða ríkisframlögin yrðu dregin frá skólagjöldunum sem þeir innheimtu. Hvor tveggja aðferðin tíðkast á Norðurlöndum. Hins vegar virtist enginn vilji vera fyrir því hjá stjórnmálamönnum á Íslandi að fylgja þessu fordæmi. Því stæði Háskóli Íslands frammi fyrir skertri samkeppnisstöðu sem orðnum hlut og ef ekkert yrði að gert blasti við að hann myndi hægt en örugglega verða undir í samkeppninni. Þessu til staðfestingar var bent á dæmi af samkeppnisstöðu lagadeilda Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, en í fyrrnefndu deildinni væri ráðstöfunarfé til kennslu u.þ.b. 257.000 kr. á hvern virkan nemanda og í þeirri síðarnefnda u.þ.b. 435.000 kr. Þessi staða væri óviðunandi fyrir Háskóla Íslands.

Fjárhagsvandi - tæknilegar og menntapólitískar hliðar
Í tengslum við greininguna á orsökum á fjárhagsvanda Háskólans, sem m.a. liggur skólagjaldaumræðunni til grundvallar, var á það bent, að gera þyrfti greinarmun á tæknilegri og menntapólitískri hlið málsins. Tæknilega hliðin beindist einkum að spurningunni, hversu miklu ætti að kosta til kennslunnar. Menntapólitíska hliðin beindist hins vegar að þeirri spurningu, hver ætti að greiða kostnaðinn. Varðandi fyrri spurninguna kom fram að þótt í gildi væru skýr og skilvirk mælitæki til að meta kostnað vegna kennslunnar og að samningur milli ríkisvaldsins og Háskólans um fjármögnun kennslu ætti að standa undir þessum kostnaði hefðu stjórnvöld ekki staðið við samninginn fyrir sitt leyti sem kæmi m.a. fram í því að nemendaframlögin hefðu um nokkurt skeið ekki fylgt almennri launaþróun. Við þetta bættist sá nýi vandi að stjórnvöld hefðu nú gefið skýrt til kynna að þau hygðust ekki greiða fyrir fleiri nemendur en gert væri ráð fyrir í fjárlögum. Meðan þessi mál biðu úrlausnar væri ómögulegt að segja fyrir um það hvort fjárhagur Háskólans myndi batna með tilkomu skólagjalda. Menntapólitíska spurningin snérist hins vegar um það, hvort ríkisvaldið sem eigandi Háskólans ætti alfarið að greiða kennslukostnaðinn, eða hvort nemendur ættu að taka þátt í honum að einhverju leyti. Til að svara þessari spurningu af sanngirni þyrfti einnig að hafa í huga að fjöldi þeirra sem legði stund á háskólanám hefði stóraukist á síðustu árum og nú væri svo komið að verulega reyndi á þanþol ríkissjóðs. Í ljósi þessa væri lítil von til þess að samstaða næðist um það í þjóðfélaginu að velta stórauknum útgjöldum til háskólastigsins á skattborgara. Jafnvel mætti velta upp þeirri spurningu hvort það væri sanngjarnt af háskólafólki að krefjast þess. Ef tekin yrði ákvörðun um að láta nemendur greiða hluta kennslukostnaðarins þyrfti að skilgreina í hvaða hlutföllum kostnaðurinn ætti að skiptast á milli aðila. Þessari spurningu mættu stjórnvöld ekki víkja sér undan að svara. Ef ríkið ætti að standa undir öllum kostnaði vegna kennslunnar væri hins vegar fráleitt að leyfa öðrum skólum að taka einnig gjöld og fá þannig tvöföld framlög.

Skólagjöld - útfærsluleiðir og afleiðingar
Nokkuð var rætt um það á fundinum, hvort skynsamlegra væri, ef til kæmi, að óska eftir almennri heimild til að innheimta skólagjöld eða hvort takmarka ætti heimildina, t.d. við framhaldsnám. Héldu sumir talsmenn almennrar heimildar því fram að hún myndi alltént auka sjálfstæði Háskólans gagnvart stjórnvöldum, óháð því hvort hún yrði nýtt eða ekki. Aðrir lögðu áherslu á það að almenn heimild hefði einkum þann kost að gefa einstökum deildum frelsi til að útfæra hana eftir efnum og ástæðum. Jafnvel þótt einstakar deildir teldu sig hafa ástæðu til að notfæra sér ekki almenna heimild til að taka skólagjöld væru það í sjálfu sér ekki rök gegn því að aðrar deildir gerðu það. Þessu til stuðnings var bent á það kerfi sem er við lýði víðast hvar í bandarískum háskólum. Þar þætti sjálfsagt að leggja tiltölulega há skólagjöld á nemendur í svokölluðum „professional schools" (lagaskólum, læknaskólum o.s.frv.), um leið og skólagjöld væru t.d. iðulega felld niður í doktorsnámi í raunvísindum. Svöruðu gagnrýnendur almennu heimildarinnar því til að ósk um heimild jafngilti því að nota hana. Þá væri það tálsýn að ætla að aðeins sumar deildir myndu nota hana en aðrar ekki. Ef einstakar deildir kysu að nýta sér heimildina myndu aðrar deildir annað hvort sitja eftir eða þurfa að láta undan þrýstingi um að nýta sér hana einnig og því væri í raun ekki um frelsi að ræða. Varðandi takmarkaða heimild kom greinilega fram mikill afstöðumunur milli deilda, m.a. með hliðsjón að því hvort þær eru í beinni samkeppni við aðra háskóla innanlands eða hvort þær bjóða upp á starfsréttindanám eða fræðilegt nám án starfsréttinda. Þannig héldu fulltrúar fyrrnefndu deildanna því fram að gjaldtaka fyrir framhaldsnám væri forsenda fyrir vexti þess og viðgangi, en fulltrúar síðarnefndu deildanna, einkum hinna svonefndu fræðadeilda, töldu að gjaldtaka myndi leika framhaldsnámið grátt og m.a. hafa í för með sér að góðir nemendur leituðu til erlendra háskóla þar sem þeim stæði til boða ókeypis nám eða niðurfelling á skólagjöldum og framfærslustyrkir að auki. Kæmi þetta sérstaklega harkalega niður á raunvísindum og væri þar að auki í mótsögn við það yfirlýsta markmið menntamálayfirvalda að fjölga brautskráðum kandídötum úr tækni- og raungreinum. Loks var á það bent að skólagjöld gætu haft áhrif á kynjahlutfallið í einstökum greinum. s.s. hjúkrunarfræði. Ef tekin yrðu upp skólagjöld í deildinni væri líklegt að þeir fáu karlmenn sem þar stunduðu nám myndu fyrstir hrökklast burt, enda launavæntingar hjúkrunarfræðinema ekki miklar fyrir.

Jafnrétti til náms
Í framhaldi af þessari umræðu var komið inn á ýmsar spurningar, s.s. um jafnrétti til náms, hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna, námsstyrki og skuldsetningu stúdenta. Fulltrúar stúdenta lögðu áherslu á það í málflutningi sínum að skólagjöld myndu ógna samstöðunni sem ríkt hefur um það að allir nemendur skuli njóta jafnréttis til náms, óháð efnahag þeirra. Á móti færðu aðrir rök fyrir því að ef til gjaldtöku kæmi yrði hún hófleg og þyrfti ekki að stefna jafnrétti til náms í tvísýnu. Einnig mætti búast við því að samræmi yrði á milli þess hversu há skólagjöldin yrðu í einstökum deildum og námsgreinum annars vegar og væntanlegra tekna nemenda á atvinnumarkaði að námi loknu. Þá mætti gera ráð við því að LÍN myndi lána nemendum fyrir skólagjöldunum svo enginn þyrfti frá að hverfa af þeim sökum. Loks yrði væntanlega komið á fót styrkjakerfi, t.d. fyrir efnalitla og framúrskarandi nemendur, eins og tíðkast víðast erlendis þar sem skólagjöld eru við líði.

Hagræðingaraðgerðir
Ýmsum fleiri flötum á málinu var velt upp á fundinum. Til dæmis héldu stúdentar því fram að Háskólinn ætti að þrautkanna allar aðrar leiðir til sparnaðar og hagræðingar áður en hann óskaði eftir heimild til að innheimta skólagjöld. Ítrekuðu stúdentar að þeir hefðu bent á þann möguleika að nota ókeypis hugbúnað í tölvuverum Háskólans og einnig mætti draga verulega úr kostnaði vegna kennslu með því að fela framhaldsnemum stóraukið kennsluhlutverk. Einnig var á það bent að verið væri að hefja fjárhags- og stjórnsýsluúttekt á Háskólanum og skynsamlegt væri að bíða eftir niðurstöðum hennar áður en gengið væri lengra. Þá var vakin athygli á þeim möguleika að Háskólinn forgangsraðaði verkefnum sínum í enn ríkara mæli en hingað til, t.d. með því að leggja niður fámennar deildir. Aðrir héldu því fram að allar deildir og stjórnsýsla Háskólans hefðu hagrætt í rekstrinum og skorið útgjöld svo verulega niður á síðustu árum að ekki yrði gengið lengra í þeim efnum án þess að það kæmi niður á gæðum námsins.

Þegar hér var komið sögu var mælendaskrá tæmd og langt liðið á auglýstan fundartíma. Tilkynnti rektor þá að gert yrði stutt fundarhlé.
 

Kl. 14.45 - 15.00: Kaffihlé

Næstu skref
Að hléi loknu setti rektor fundinn á nýjan leik og gaf orðið laust. Fulltrúi Félags háskólakennara las upp ályktun þar sem m.a. kemur fram að stjórn félagsins telur ekki tímabært að taka ákvörðun í málinu fyrr en fram hafi farið heildstætt mat í áhrifum skólagjalda og greindar hafa verið aðrar leiðir til að bæta aðstöðumun milli ríkisháskóla og einkarekinna háskóla á Íslandi. Tóku nokkrir fundarmanna til máls og lýstu þeirri skoðun sinni að enn væru margir á báðum áttum og því ekki rétt að greiða atkvæði um afdráttarlausa umsögn að svo stöddu. Réttara væri að fresta málinu til næsta háskólafundar í maí nk. og nýta tímann fram að honum til að hefja formlegar viðræður við stjórnvöld menntamála um þátt Háskóla Íslands í uppbyggingu háskólastigsins á Íslandi næstu árin, uppbyggingu meistara- og doktorsnáms við Háskólann og framtíðarfjármögnun kennslu og rannsókna við skólann, þar á meðal kosti og galla skólagjalda.

Rektor bar upp tillögu um að umsögn háskólafundar verði frestað til næsta háskólafundar.

- Samþykkt með 27 atkvæðum en 6 voru á móti.

Til máls tóku, auk rektors, Ágúst Einarsson, Eiríkur Tómasson, Hörður Filippusson, Ólafur Þ. Harðarson, Þorsteinn Loftsson, Anna Agnarsdóttir, Davíð Gunnarsson, Hjalti Hugason, Teitur Björn Einarsson, Kristín Loftsdóttir, Kristín Laufey Steinarsdóttir, Kesara Anamatwat-Jónsson, Stefán B. Sigurðsson, Gylfi Magnússon, Sigurður Brynjólfsson, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, María Þorsteinsdóttir, Gunnlaugur A. Jónsson, Kristín Jónsdóttir, Jón Torfi Jónasson og Jón Atli Benediktsson.

Að lokum þakkaði rektor fundarmönnum fyrir góðan fund og málefnalegar umræður.

Fleira var ekki gert.

Rektor sleit fundi kl. 15.25.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 12. háskólafundi

1. Dagskrá 12. háskólafundar 22. mars 2004.
2. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3. Samþykkt háskólaráðs um að leita umsagnar háskólafundar um það hvort leggja skuli til við menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á lögum sem veiti Háskólanum heimild til að innheimta gjöld af nemendum í hefðbundnu háskólanámi, dags. 11. mars 2004.
4. Ályktun deildarfundar lagadeildar, dags. 19. febrúar 2004.
5. Tillaga viðskipta- og hagfræðideildar um að deildin fái heimild til að innheimta skólagjöld fyrir meistaranám, lögð fram á 10. háskólafundi 8. september 2003.
6. Minnisblað akademískrar stjórnsýslu um skólagjöld í meistaranámi, lagt fyrir háskólaráð 11. júní 2003 og 10. háskólafund 8. september 2003.
7. Umsögn starfsnefnda háskólaráðs um tillögu viðskipta- og hagfræðideildar um að deildin fái heimild til að innheimta skólagjöld fyrir meistaranám, lögð fram á 10. háskólafundi 8. september 2003.
8. Fundargerð 10. háskólafundar 8. september 2003.