Skip to main content

19. háskólafundur 24. mars 2006

19. háskólafundur haldinn 24. mars 2006 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 14.00-17.00

Dagskrá

Kl. 14.00 - 14.05  Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum gögnum.
Kl. 14.05 - 14.20  Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.
Kl. 14.20 - 15.30  Dagskrárliður 2.
Kl. 15.30 - 15.50  Kaffihlé.
Kl. 15.50 - 17.00  Dagskrárliður 2 (frh.). Stefnumótun og framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011.
Kl. 17.00  Rektor slítur fundi.
 

Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning

Rektor setti 19. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Fundarritari var Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu. Greindi rektor frá því að hún hefði boðið tveimur fulltrúum úr verkefnisstjórn yfirstandandi stefnumótunarvinnu, þeim Runólfi Smára Steinþórssyni, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild, og Ómari Kristmundssyni, lektor í félagsvísindadeild, að taka þátt í fundinum sem og fulltrúa úr heildarstefnuhópi, Róbert H. Haraldssyni, dósent í hugvísindadeild, sem myndi kynna drög að stefnu Háskóla Íslands á fundinum.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að í bréfi sem fylgdi fundarboði hefði verið tilkynnt að á fundinum yrði lögð fram tillaga um frestun á auglýstum dagskrárlið 3, tillögu viðskipta- og hagfræðideildar og lagadeildar um lagaheimild til að innheimta skólagjöld í meistaranámi. Dagskrártillaga rektors hljóðaði svo:

Lagt er til að umfjöllun og afgreiðslu á tillögu viðskipta- og hagfræðideildar og lagadeildar um að afla lagaheimildar til töku skólagjalda í meistaranámi verði frestað til fyrsta háskólafundar á haustmisseri 2006.

Rök:

Að svo stöddu er ótímabært að taka afstöðu til tillagnanna þar sem stefnumótun Háskóla Íslands er ekki að fullu lokið og enn hefur ekki reynt á viðbrögð ríkisstjórnar við ósk skólans um auknar fjárveitingar til þess að hrinda stefnu og verkáætlun háskólans í framkvæmd.

Þegar rektor hafði borið upp dagskrártillögu sína gaf hún orðið laust og bauð fundarmönnum að gera athugasemd við hana.

Engin athugasemd var gerð við dagskrártillöguna og skoðaðist hún því samþykkt.

Þá bar rektor upp tillögu að breytingu á dagskrá fundarins og gerði grein fyrir henni. Samkvæmt breytingartillögunni lengdist dagskrárliður 1 um 5 mínútur og dagskrárliður 2 um 45 mínútur.

Rektor gaf orðið laust og bauð fundarmönnum að gera athugasemdir við tillöguna.

Engin athugasemd var gerð við breytingartillöguna og skoðaðist hún því samþykkt.

Að endingu lagði rektor fram endurskoðaða dagskrá og gerði grein fyrir fundargögnum. Engar tillögur til ályktunar höfðu borist fundinum.

Kl. 14.05 - 14.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar málefni Háskóla Íslands

 
1. Stefnumótun Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011.

Rektor greindi frá því að fyrirferðarmesta einstaka mál yfirstandandi háskólaárs hafi verið mótun stefnu og framkvæmdaáætlunar Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011. Þetta væri jafnframt helsta mál á dagskrá þessa háskólafundar og yrði því gerð betri grein fyrir því síðar á fundinum.

2. Framkvæmdir og byggingamál.

Fjölmargar byggingaframkvæmdir eru á döfinni í tengslum við Háskóla Íslands sem til samans munu stórbæta húsnæðisaðstöðu skólans. Helstu byggingaverkefni eru þessi:

2.1 Háskólatorg I og II.

Þann 6. apríl nk. mun menntamálaráðherra taka fyrstu skóflustungu að Háskólatorgi við hátíðlega athöfn. Um er að ræða tvær byggingar sem kallaðar hafa verið Háskólatorg I og II. Í Háskólatorgi I verður undir einu þaki ýmis sameiginleg þjónusta við nemendur allra deilda, s.s. Nemendaskrá, Námsráðgjöf, Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins, Félagsstofnun stúdenta og Bóksala stúdenta, auk Happdrættis Háskóla Íslands. Einnig verða í húsinu glæsilegir fyrirlestrasalir og félagsaðstaða fyrir starfsfólk allra deilda. Unnið hefur verið um nokkurt skeið að undirbúningi Háskólatorgs, en hugmyndina að því átti Páll Skúlason, fyrrverandi rektor, sem átti sér þann draum að í hjarta háskólasvæðisins yrði til staður þar sem starfsfólk og nemendur allra deilda gætu komið saman og blandað geði. Páll verður staddur í fyrirlestraferð í Frakklandi og getur því ekki verið viðstaddur fyrstu skóflustunguna. Í Háskólatorgi II verður einkum komið til móts við húsnæðisþarfir viðskipta- og hagfræðideildar, félagsvísindadeildar og lagadeildar og þar verða m.a. skrifstofur þessara deilda, auk hugvísindadeildar. Gert er ráð fyrir að Háskólatorg verði formlega vígt fyrir árslok 2007. Fyrirsjáanlegt er að nokkuð rask verði á byggingarsvæðinu fram að næstu áramótum, en þó verður reynt að koma í veg fyrir hávaða þar til eftir að kennslu lýkur. Prófahald verður að mestu í KR heimilinu, en einnig í Öskju, Eirbergi og VRII. Tímaáætlun framkvæmdanna verður kynnt vel fyrir nemendum og starfsfólki. Við flutning starfseininga í Háskólatorg I mun losna húsnæði í húsi Félagsstofnunar stúdenta. Þá er gert ráð fyrir að Háskólinn hætti að leigja húsnæði í Skógarhlíð, Hótel Sögu og Ármúla og að leigugjaldið renni til kaupa á húsi Félagsstofnunar stúdenta.

2.2 Landspítali-háskólasjúkrahús.

Haustið 2005 var tilkynnt um úrslit í samkeppni um skipulag lóðar fyrir nýbyggingu Landspítala-háskólasjúkrahúss. Um var að ræða lokaða samkeppni að undangengu forvali og tóku 7 teymi þátt í henni. Vinningshafar voru danska arkitektafyrirtækið CF Möller, Arkitektúr.is, Íslandi, Schönherr Landskab, Danmörku, SWECO Gröner A/S, Noregi, Verkfræðistofa Norðurlands ehf., Íslandi, Á lóðinni er m.a. gert ráð fyrir húsnæði fyrir heilbrigðisvísindadeildir Háskólans og Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum. Ekki er búið að tímasetja framkvæmdina nákvæmlega, en ljóst er að hún mun valda straumhvörfum í húsnæðismálum umræddra deilda og hvetja til nánari samskipta milli HÍ og LSH. Á næstu vikum munu dönsku sérfræðingarnir vera í hlutverki ráðgjafa, m.a. um notendavinnu, þarfagreiningu, útfærslu deiliskipulags og undirbúning útboða að hönnun. Sjálf þarfagreiningin er afar umfangsmikil og taka þátt í henni 44 hópar notenda innan Landspítalans og Háskólans. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki 30. júní nk. Nýbyggingarnar verða að hluta til fjármagnaðar af söluandvirði Símans og mun ríkisstjórnin láta af hendi rakna 18 ma. kr. af söluandvirði Símans. Þá liggur fyrir að Keldnalandið og Hagi við Hofsvallagötu verði selt, auk þess munu fást bætur vegna niðurrifs á Eirbergi og Læknagarði.

2.3 Hús íslenskra fræða.

Ákveðið hefur verið að reisa nýtt hús vestan Suðurgötu fyrir sameinaða stofnun íslenskra fræða. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita til þessa verkefnis 1 ma. kr. af söluandvirði Símans og er gert ráð fyrir að húsið verði vígt á aldarafmæli Háskólans árið 2011.

2.4 Vísindagarðar í Vatnsmýrinni.

Á síðustu sex mánuðum hefur komist nokkur hreyfing á undirbúning byggingar Vísindagarða í Vatnsmýrinni. Gengið hefur verið formlega frá afnotarétti Háskóla Íslands af lóðinni og jafnframt hafa borgarstjórn og fjármálaráðuneyti samþykkt að Háskólinn megi framselja lóðaréttindin. Háskólinn mun leigja lóðina til Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. sem greiðir fyrir með hlutafé í sjálfu sér. Á næstunni þarf að taka ákvörðun um hvort og hvaða deildir eða aðrar einingar Háskólans verði staðsettar í Vísindagörðum, en þegar hefur verið tekin ákvörðun um að þangað flytjist matvæla- og næringarfræðiskor raunvísindadeildar.

2.5 Næstu verkefni.

Ýmis fleiri byggingaverkefni eru á hugmyndastigi og verður mótuð áætlun um þau á næstunni. Ein slík hugmynd er bygging húsnæðis fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

3. Viðræður um hugsanlega sameiningu HÍ og KHÍ.

Í febrúar sl. skipaði menntamálaráðherra nefnd til þess að kanna kosti sameiningar Kennaraháskóla Íslands (KHÍ) og Háskóla Íslands (HÍ). Í nefndina voru skipuð Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri, formaður, Ólafur Proppé, rektor KHÍ, Guðmundur Ragnarsson, fjármálastjóri KHÍ, Börkur Hansen, prófessor við KHÍ, Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Ólafur Þ. Harðarson, prófessor og forseti félagsvísindadeildar HÍ, og Þórður Kristinsson, framkvæmdastjóri akademískrar stjórnsýslu HÍ. Um alllangt skeið hefur verið rætt um mögulegan samruna HÍ og KHÍ. Árið 2002 var gefin út skýrsla sem báðar stofnanir stóðu að og renndi enn frekari stoðum undir hugmyndir um samstarf og sameiningu þeirra. Ljóst er að hugur KHÍ stendur til sameiningar við HÍ, en eini fyrirvari fyrrnefnda skólans er að hann komi ekki inn sem 12. deild þess síðarnefnda, heldur sem hluti af stærri einingu eða skóla. Ljóst er að hugsanleg sameining myndi snerta margar einingar innan HÍ, s.s. uppeldis- og menntunarfræðiskor félagsvísindadeildar og margar aðrar deildir sem bjóða M. Paed. nám. Nefndin vinnur nú að því að skilgreina æskileg meginmarkmið samruna HÍ og KHÍ og að tilgreina þau markmið önnur sem hún telur að stefna beri að við samruna skólanna, verði ákvörðun um hann tekin. Þá hefur nefndin jafnframt fjallað um ýmis einstök viðfangsefni sem hún telur að sérstaklega þurfi að huga að ef hrinda eigi samrunanum í framkvæmd og ýmsar forsendur og fyrirvara sem að þeim lúta. Nefndin hefur ekki skilað niðurstöðu en líklegt er að hún muni leggja til við menntamálaráðherra að stefna beri að samruna KHÍ og HÍ. Rektor mun halda opinn kynningarfund með starfsfólki um málið um leið og greinargerð starfshópsins liggur fyrir.

4. Lagafrumvörp er snerta Háskóla Íslands.

Þrjú lagafrumvörp er snerta Háskóla Íslands eru nú í vinnslu:

4.1 Frumvarp til laga um háskóla. Frumvarp til laga um háskóla, svonefnd rammalög um háskólastigið, hefur verið lagt fram á Alþingi. Samstarfsnefnd háskólastigsins kom að málinu á undirbúningsstigi og Háskóli Íslands fékk frumvarpið til formlegrar umsagnar. Helsta efnislega nýmælið í frumvarpinu er ítarleg umfjöllun um gæðamál kennslu og rannsókna.

4.2 Frumvarp til laga um Stofnun íslenskra fræða - Árnastofnun. Frumvarp til laga um nýja Stofnun íslenskra fræða - Árnastofnun hefur verið lagt fram á Alþingi. Haft var samráð við Háskólann og forstöðumenn hlutaðeigandi stofnana á vinnslustigi frumvarpsins og tekið tillit til flestra athugasemda og ábendinga þeirra. Frumvarpið kom svo til formlegrar umsagnar Háskólans og stofnananna og hafa þær skilað umsögnum sínum.

4.3 Frumvarp til laga um Háskóla Íslands. Í kjölfar væntanlegrar setningar nýrra laga um háskóla hefst vinna við undirbúning laga um ríkisháskólana. Gera má ráð fyrir að í nýjum lögum um Háskóla Íslands verði m.a. tekið á atriðum á borð við ráðningu rektors og deildarforseta, stjórnskipulag skólans, þ.m.t. skiptingu hans í deildir eða aðrar einingar og skipan háskólaráðs.

5. Fyrsta úthlutun styrkja til doktorsnema úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands.

Þriðjudaginn 28. mars nk. verður við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands í fyrsta sinn úthlutað styrkjum til doktorsnema úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands. Úthlutað verður styrkjum til doktorsnema og meistaranema, en alls bárust 115 umsóknir. Um er að ræða 1-3 ára styrki sem ætlað er að standa undir framfærslu svo styrkþegarnir geti helgað sig náminu að fullu. Gert er ráð fyrir að styrkþegum muni fjölga jafnt og þétt á næstu árum eftir því sem fjárráð sjóðsins leyfa. Í úthlutunarnefnd sitja Lárus Thorlacius prófessor, formaður, Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor, Halldór J. Kristjánsson bankastjóri, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Guðmundur Þorgeirsson prófessor og Helga Ögmundsdóttir prófessor. Úthlutunarnefndin úthlutar styrkjunum að fengnu faglegu mati vísindanefndar háskólaráðs á hverju verkefni. Styrkir af þessu tagi eru lykilþáttur í eflingu doktorsnáms á vegum Háskóla Íslands.

6. Nýr samstarfssamningur milli HÍ og LSH.

Samstarfssamningur Háskóla Íslands (HÍ) og Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH) um uppbyggingu háskólasjúkrahúss og um kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindagreinum var undirritaður 10. maí 2001. Samningurinn er til fimm ára og rennur því út 10. maí 2006. Sammæli er um að samningurinn hafi sannað gildi sitt sem árangursríkur farvegur samstarfsins. Fulltrúar H.Í. og LSH áttu fund með heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra 16. febrúar sl. þar sem þeir gerðu ráðherrunum grein fyrir samvinnu stofnananna, samningum þeirra o.fl. Annar sameiginlegur fundur stofnananna með ráðherrunum er áætlaður í apríl nk. Nú liggja fyrir drög að nýjum samstarfssamningi sem undirbúin hafa verið af vinnuhópi á vegum stefnunefndar. Þau hafa verið send til umsagnar heilbrigðisvísindadeilda HÍ, auk annarra eininga skólans sem eru í sérstökum tengslum við LSH, s.s. næringarfræði, sálfræði, guðfræði, félagsráðgjöf, Stofnun stjórnmála og stjórnsýslufræða og til ýmissa starfseininga LSH. Þá voru drögin kynnt í framkvæmdastjórn LSH 21. mars sl. og í háskólaráði 23. mars sl. og send menntamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti til upplýsingar. Frestur til að skila athugasemdum til stefnunefndar er til 19. apríl nk. og er stefnt að því að samningurinn verði undirritaður á ársfundi LSH 27. apríl nk.

7. Gæðaúttektir á deildum.

Á síðustu árum hafa farið fram nokkrar viðamiklar úttektir á Háskóla Íslands í heild og á einstökum deildum hans. Fyrir rúmu ári lauk úttekt á lagadeild og nýlega er lokið úttekt á hugvísindadeild sem framkvæmd var af hópi innlendra og erlendra sérfræðinga á vegum menntamálaráðuneytisins. Þá stendur nú yfir hliðstæð úttekt á raunvísindadeild sem áætlað er að ljúki í lok þessa árs. Háskóli Íslands telur að ytri úttektir af þessu tagi séu mikilvægur þáttur í gæða- og umbótastarfi skólans og mun áfram beita sér fyrir því að þær verði reglulegur þáttur í starfseminni. Skemmst er að minnast þess hve gagnlegar stóru úttektirnar þrjár voru (stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, úttekt menntamálaráðuneytisins á akademískri stöðu Háskólans og úttekt EUA á skólanum).

Kl. 14.20 - 14.35 - Dagskrárliður 2: Stefnumótun og framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011.

Í upphafi þessa dagskrárliðar rakti rektor aðdraganda málsins. Eins og áður sagði fóru fram á árunum 2004 og 2005 þrjár umfangsmiklar ytri úttektir á ólíkum þáttum starfsemi Háskólans og var niðurstöðum þeirra lýst í ítarlegum skýrslum. Í kjölfarið skipuðu fráfarandi rektor og nýkjörinn rektor sumarið 2005 nefnd undir stjórn Jóns Atla Benediktssonar prófessors í verkfræðideild og formanns vísindanefndar, sem hafði það hlutverk að fara vandlega yfir lokaskýrslurnar, taka saman niðurstöður þeirra og setja fram tillögur um viðbrögð. Á háskólafundi 17. nóvember 2005 var niðurstaða þessa starfs kynnt og kynnt áætlun um verklag við mótun stefnu og framkvæmdaáætlunar Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011. Samhliða stefnumótunarstarfinu fyrir Háskólann í heild hófst hliðstæð vinna á vettvangi deilda og stjórnsýslu skólans. Óhætt er að segja að hverjum einasta starfsmanni hafi verið gefinn kostur á að taka þátt í þessu starfi sem fór fram undir dyggri leiðsögn sérfræðinga Háskólans á sviði stefnumótunar. Einnig var leitað til fjölmargra annarra aðila innan og utan skólans, s.s. fulltrúa stúdenta í grunn- og framhaldsnámi, nýdoktora, fulltrúa atvinnulífs, menningarlífs, stjórnvalda og erlendra sérfræðinga. Þakkaði rektor þeim fjölmörgu einstaklingum innan Háskólans sem utan sem með einum eða öðrum hætti hafa lagt þessu máli lið.

Þá greindi rektor frá því að við brautskráningu kandídata í Háskólabíói í febrúar sl. hefði hún, að höfðu samráði við fulltrúa í háskólaráði og deildarforseta, m.a. sagt frá yfirstandandi stefnumótunarstarfi Háskólans og við það tækifæri greint frá því langtímamarkmiði Háskóla Íslands að verða á meðal 100 bestu háskóla í heiminum. Þessi metnaðarfulla yfirlýsing hefði að vonum vakið mikil og jákvæð viðbrögð, ekki síst í atvinnulífinu þar sem miklar væntingar væru gerðar til Háskóla Íslands.

Sagði rektor þetta orð í tíma töluð, enda væri það bláköld staðreynd að samkeppni milli þjóða á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar eykst með hverju ári og þeir sem ekki eru í fremstu röð dragast einfaldlega aftur úr. Þannig væru t.d. Bandaríkjamenn nú að vakna upp við þann vonda draum að Kínverjar og Indverjar brautskrá árlega u.þ.b. átta sinnum fleiri verkfræðinga en þeir sjálfir. Vegna hinnar hörðu alþjóðlegu samkeppni hefðu Bandaríkjamenn ákveðið að stórauka opinberar fjárveitingar til vísindarannsókna og háskóla. Svipuðu máli gegndi um þjóðir Evrópu, ekki síst Norðurlönd. Til dæmis hefðu Finnar, sem löngum hafa þótt skara fram úr á þessu sviði, tvöfaldað framlög sín til vísinda og háskólastarfs á skömmum tíma. Árið 2005 hefðu 7 norrænir háskólar verið á lista Shanghai Jiao Tong yfir 100 fremstu háskóla í heimi, þ.e. Karolinska Institutet (nr. 45), Kaupmannahafnarháskóli (nr. 57), Háskólinn í Uppsölum (nr. 60), Óslóarháskóli (nr. 69), háskólinn í Helsinki (nr. 76), Stokkhólmsháskóli (nr. 93) og háskólinn í Lundi (nr. 99). Ljóst væri að þessir háskólar hefðu ekki komist á þennan lista fyrir tilviljun, heldur væri árangur þeirra afrakstur markvissrar og metnaðarfullrar menntastefnu. Á sama hátt mætti segja að Háskóli Íslands hefði alla burði til þess að ná markmiðum sínum ef hann fylgdi þeim eftir með ákveðnum hætti og með skýrri sýn um afburða gæði.

Jafnframt væri ljóst að slíkur árangur næst ekki án traustrar fjármögnunar og því væri mikilvægt að meta þegar í upphafi kostnaðinn við að framkvæma stefnu Háskólans. Formaður fjármálanefndar og framkvæmdastjóri fjárreiðusviðs hefðu reiknað út kostnaðinn við fyrirliggjandi drög að stefnu Háskóla Íslands. Niðurstaða þeirra væri sú að raunframlög til skólans þurfi á næstu fimm árum að hækka um 65-70% frá því sem nú er. Með raunframlögum væri átt við hvort tveggja, ríkisframlag og sértekjur skólans. Jafnframt hefði útreikningurinn leitt í ljós að jafnvel með þessari hækkun gerði Háskóli Íslands ekki betur en að ná meðalfjármögnun þeirra evrópsku háskóla sem Ríkisendurskoðun bar Háskólann saman við í stjórnsýsluúttekt sinni. Þá greindi rektor frá því að í kjölfar þessa háskólafundar yrði farið yfir fyrirliggjandi drög að stefnu Háskólans í ljósi þeirra athugasemda og ábendinga sem fram kæmu á fundinum og þau yrðu síðan send út til umsagnar deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi. Þegar umsagnir hefðu borist yrði enn farið yfir stefnutextann og hann loks lagður fram til umræðu og afgreiðslu á 20. háskólafundi í byrjun maí nk.

Lykilspurningarnar varðandi framhald málsins væru í fyrsta lagi, hvort stjórnvöld séu sammála markmiðum Háskóla Íslands og í öðru lagi hvort þau séu reiðubúin til þess að leggja til þá fjármuni sem nauðsynlegir eru. Menntamálaráðherra hefði þegar svarað fyrri spurningunni játandi og lýst miklum áhuga á hinum metnaðarfullu markmiðum Háskólans. Eftir væri að ræða fjármögnunina til hlítar, en þær viðræður væru þegar hafnar.

Af framsögu sinni lokinni bauð rektor Róbert H. Haraldsson, dósent í hugvísindadeild, að gera grein fyrir framlögðum stefnudrögum í fjarveru Jóns Atla Benediktssonar, prófessors í verkfræðideild og formanns heildarstefnuhópsins.

Byrjaði Róbert á því að telja upp meðlimi heildarstefnuhópsins sem skipaður var af rektor í desember 2005. Í hópnum áttu sæti Jón Atli Benediktsson, prófessor við verkfræðideild, formaður, Helga Ögmundsdóttir, prófessor við læknadeild og formaður vísindanefndar, Hólmfríður Garðarsdóttir, dósent við hugvísindadeild og formaður jafnréttisnefndar, Inga Jóna Þórðardóttir, fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði, Ingibjörg Harðardóttir, dósent við læknadeild, Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild og formaður fjármálanefndar, Matthías Páll Imsland, deildarsérfræðingur og fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði, Róbert H. Haraldsson, dósent við hugvísindadeild, Sigurður J. Grétarsson, prófessor við félagsvísindadeild og formaður kennslumálanefndar, Snorri Þór Sigurðsson, prófessor við raunvísindadeild, Þórhallur Guðlaugsson, lektor við viðskipta- og hagfræðideild og formaður markaðs- og samskiptanefndar, Ásta Hrönn Maack, skrifstofustjóri rekstrar og framkvæmda, Elías Jón Guðjónsson, formaður stúdentaráðs, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs. Með hópnum störfuðu þau Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir og Magnús Diðrik Baldursson. Samkvæmt erindisbréfi hópsins var það hlutverk hans að gera tillögu um sameiginlega stefnu og framkvæmdaáætlun fyrir Háskóla Íslands 2006-2011. Í starfi sínu skyldi hópurinn taka mið af þeim stefnuskjölum sem fyrir eru, s.s. vísinda- og menntastefnu Háskólans og niðurstöðum ytri úttekta á Háskóla Íslands og viðbrögð við þeim, og loks stefnumótun deilda, stofnana og stjórnsýslu skólans. Í starfi sínu hafði hópurinn samráð við stýrihóp rektors um stefnumótunarferlið, kjarnahópa deilda og stjórnsýslu, aðra skilgreinda samstarfsaðila, nýtt starfsfólk, doktorsnema sem og nýdoktora.

Eins og áður sagði hóf stefnuhópurinn starf sitt í árslok 2005 og byrjaði hann á því að greina stöðu og starfsumhverfi Háskólans. Að því búnu var ráðist í ítarlega SVÓT-greiningu með þátttöku allra deilda og stjórnsýslu skólans og var niðurstaða þeirrar vinnu kynnt á fundi í Hátíðarsal. Í framhaldinu hélt stefnuhópurinn fundi með kjarnahópum allra deilda og stjórnsýslu og framkvæmdi kerfisbundna greiningu á stefnuskjölum þessara aðila. Þá héldu fulltrúar heildarstefnuhóps ásamt rektor fundi með ýmsum samráðshópum innan og utan Háskólans og hélt loks starfsdag til að taka saman helstu niðurstöður og undirbúa stefnuna. Loks skipaði rektor ritnefnd sem hafði það hlutverk að annast ritun stefnutextans og hefur hún borið hann undir heildarstefnuhópinn á reglulegum fundum og haft samráð við rektor og stýrihóp.

Næst lýsti Róbert uppbyggingu stefnuskjalsins. Hefst það á nokkrum stuttum og hnitmiðuðum inngangsköflum. Að loknu ávarpi rektors kemur kafli undir yfirskriftinni „vaxandi háskóli“ sem lýsir starfsemi, þróun og vexti Háskólans á innlendum og erlendum vettvangi. Næst kemur viljayfirlýsing skólans um að gera sáttmála við íslenskt samfélag, stjórnvöld og atvinnulíf um að snúa bökum saman og skapa á Íslandi framúrskarandi háskóla sem stenst bestu háskólum í heimi snúning. Lykilatriði í þessu sambandi er að stuðningur við Háskóla Íslands verði í samræmi við evrópskra viðmiðunarháskóla, að skólinn bjóði úrvalskennslu, aðbúnaður til rannsókna og kennslu verði bættur og að skólinn hafi á að skipa skilvirku stjórnkerfi og stoðþjónustu. Því næst fer kafli um framtíðarsýn Háskólans þar sem sett er fram yfirlýsing um að til að þjóna sem best íslensku samfélagi hefur Háskóli Íslands sett sér það langtímamarkmið að vera á meðal 100 bestu háskóla í heimi. Í því skyni muni skólinn bæta menntun nemenda, stunda öflugt vísinda- og fræðastarf, umbylta aðstæðum á háskólalóðinni og stuðla að góðu samstarfi og sátt við samfélagið. Þá kemur yfirlit yfir átta erlenda háskóla sem Háskóli Íslands hyggst bera sig saman við. Þeir eru  Háskólinn í Kaupmannahöfn (nr. 56 í heiminum), Háskólinn í Helsinki (nr. 76), Háskólinn í Lundi (nr. 99), Háskólinn í Uppsölum (nr. 60), Háskólinn í Tromsø (nr. 401-500), Háskólinn í Bergen (nr. 301-400), Háskólinn í Aberdeen (nr. 301-400) og Háskólinn í Boston í Bandaríkjunum (nr. 80). Þegar hér var komið sögu rakti Róbert í stuttu máli helstu mælikvarða sem notaðir eru við röðun á lista yfir bestu háskóla í heimi, s.s. birtar vísindagreinar í viðurkenndum alþjóðlegum tímaritum (ISI tímaritum), birtar greinar í tímaritunum Science og Nature, starf áhrifamikilla vísindamanna við skólann (highly cited researchers) og vísindaverðlaun, þar með talið Nóbelsverðlaun, sem starfsmenn skólanna vinna til. Þá kemur stuttur kafli sem tíundar grunngildi skólans, s.s. akademískt frelsi, sjálfstæði og ábyrgð, hagsæld og velferð, fjölbreytni, jafnrétti, heilindi og virðingu.

Að inngangsköflunum slepptum taka við þrír kaflar um markmið og aðgerðir sem Háskóli Íslands hyggst ráðast í á tímabilinu 2006-2011 og marka fyrsta áfangann á leiðinni að því langtímamarkmiði að komast í hóp 100 bestu háskóla heims. Eru kaflarnir byggðir upp þannig að í upphafi hvers þeirra eru nefnd til sögunnar þrjú aðalmarkmið, síðan eru tilgreind nokkur undirmarkmið og undir hverju þeirra settar tíma- og tölusettar aðgerðir. Fyrsta aðalmarkmiðið er undir yfirskriftinni „framúrskarandi rannsóknir“ og hljóðar svo: „Háskóli Íslands ætlar að efla hágæða rannsóknir sem standast alþjóðleg viðmið á fjölbreyttum sviðum vísinda og fræða. Til þess þarf að stórefla doktorsnám og auka samstarf við aðra háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki“. Undir þessu aðalmarkmið eru níu undirmarkmið:

Annað meginmarkmiðið hljóðar svo: „Framúrskarandi kennsla. Háskóli Íslands þjónar samfélaginu og þörfum þess fyrir menntun á heimsmælikvarða með því að veita nemendum framúrskarandi kennslu í nánum tengslum við rannsóknastarf skólans.“ Undirmarkmiðin eru sjö að tölu:

Loks er þriðja meginmarkmiðið þetta: „Framúrskarandi stjórnun og stoðþjónusta. Háskóli Íslands ætlar að styðja vel við rannsóknir og kennslu með skilvirku stjórnkerfi, góðri stoðþjónustu og öflugu gæðakerfi.“ Undirmarkmiðin eru sjö:

Lýkur stefnuplagginu með lýsingu á því hvernig háttað verður framkvæmd og eftirfylgni stefnunnar.

Rektor þakkaði Róbert fyrir kynninguna og gaf að því búnu orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og létu fundarmenn almennt í ljós mikla ánægju með það framtak rektors að ráðast í mótun stefnu og framkvæmdaáætlunar Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011. Til þess var tekið hversu vel stefnudrögin væru unnin og að þau sameinuðu á sannfærandi hátt háleit markmið og áþreifanlegar aðgerðir. Markmiðssetningin um að komast í hóp 100 bestu háskóla í heimi væri skýr vitnisburður um hvort tveggja, þann mikla metnað sem ríkir innan Háskólans undir forystu nýs rektors og þær breytingar og framfarir sem þegar hefðu orðið í starfsemi skólans á síðustu árum. Stefnan sýndi svo ekki verði um villst að með því að bjóða upp á framúrskarandi kennslu, öflugt vísindastarf, þróttmikið framhaldsnám, skilvirkan rekstur og styrka stjórn væri Háskólinn í stakk búinn að skapa forsendur fyrir því að íslenska þjóðin geti verið fullgildur þátttakandi í hnattvæddu þekkingarhagkerfi framtíðarinnar.

Jafnframt varð fundarmönnum tíðrætt um það hve mikilvægt það er á þessum tímamótum að stjórnvöld gangi í lið með mikilvægustu menntastofnun þjóðarinnar og tryggi henni nægilegt rekstrarfé til þess að hún geti uppskorið eins og til er sáð. Í þessu sambandi var bent á þá staðreynd, sem skýrt kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að þrátt fyrir mikinn árangur eru opinber framlög til Háskóla Íslands langtum lægri en almennt gerist í evrópskum háskólum. Ef opinber framlög til allra íslenskra háskóla hækkuðu til jafns við framlögin í Evrópu færu þjóðarútgjöld vegna vísinda og háskóla hér á landi úr 1,1% í u.þ.b. 1,7%, sem er einmitt meðaltalið á Norðurlöndum. Til samanburðar verja Bandaríkin 2,5% af þjóðarútgjöldum sínum til málaflokksins. Í tengslum við þessa umræðu lögðu nokkrir fundarmenn áherslu á að um leið og fjárframlög til Háskólans verði endurskoðuð sé nauðsynlegt að endurskoða einnig frá grunni þær reiknireglur sem stjórnvöld byggja fjármögnun Háskólans á.

Rætt var um það á breiðum grundvelli hvort hin nýja stefna Háskólans dragi úr hlutverki hans sem þjóðskóla og færði hann nær því að verða einhverskonar úrvalsskóli. Sýndi umræðan að svarið við þessari spurningu er fjarri því að vera einhlítt og ræðst að miklu leyti af því hvaða skilningur er lagður í hugtökin „þjóðskóli“ og „úrvalsskóli“. Til dæmis vildu sumir leggja þann skilning í þjóðskólahugtakið að það vísaði til skóla sem legði einkum áherslu á breitt námsframboð til fyrsta háskólaprófs, en í úrvalsskóla væri hins vegar allt kapp lagt á tilteknar greinar eða námsstig, t.d. doktorsnám í völdum greinum. Aðrir vildu túlka þessi hugtök á þann veg að það væri einkenni þjóðskóla að vera öllum opinn sem á annað borð fullnægja tilteknum lágmarkskröfum um undirbúning, en úrvalsskóli veldi aftur á móti inn nemendur með því að beita almennum aðgangstakmörkunum, innheimta há skólagjöld eða gera hvort tveggja. Á móti var á það bent að engin bein rökleg tengsl væru á milli úrvalsskóla og skólagjalda heldur einkenndi það fyrst og fremst úrvalsskóla að hann væri í háum gæðaflokki. Þannig væru t.d. norrænu skólarnir á listanum yfir 100 bestu háskóla í heimi óumdeilanlega í úrvalsflokki þótt enginn þeirra tæki skólagjöld. Slíkir skólar gætu hins vegar ekki reynt að keppa á öllum sviðum heldur þyrftu þeir að velja sér tiltekin viðfangsefni eða áherslusvið og leggja sérstaka rækt við þau. Ef um þetta væri að ræða í stefnumótun Háskóla Íslands táknaði það ákveðna stefnubreytingu, því hingað til hefði skólinn leitast við að kenna Íslendingum allt sem þeir vildu læra. Loks var á það bent að þjóðskólahugtakið væri iðulega notað í tengslum við hugtakið alþjóðlegur háskóli. Vildu þá sumir líta á þessi tvö hugtök sem andstæður, en aðrir héldu því fram að þau heyrðu saman: Til þess að háskóli geti verið alþjóðlegur þurfi hann að hafa þjóðlegar rætur um leið og hann geti ekki rækt þjóðlegt hlutverk sitt nema vera jafnframt alþjóðlegur. Þessi skilningur væri ríkjandi í fyrirliggjandi drögum að stefnu Háskólans eins og sjá mætti á þeirri yfirlýsingu að Háskóli Íslands teldi sig þjóna íslensku samfélagi best með því að vera fullgildur þátttakandi í hinu alþjóðlega samfélagi vísinda og fræða. Þetta væri jafnframt viðtekinn skilningur á meðal þeirra norrænu háskóla sem teldust til hinna 100 bestu í heimi.

Í framhaldi af þessari almennu umræðu var komið inn á þær beinu afleiðingar sem það hefði að vera alþjóðlegur háskóli sem kepptist við að laða til sín doktorsnema og framúrskarandi kennara hvaðanæva úr heiminum. Var því haldið fram að ef þetta gengi eftir yrði Háskóli Íslands trúlega orðinn tvítyngdur háskóli innan fárra ára. Þá minntist einn fundarmaður á það stefnumið að vilja koma á sameiginlegum námsgráðum með erlendum háskólum (joint degrees) og benti hann á að skynsamlegt gæti verið að vinna markvisst að því að taka upp slíkar gráður með völdum úrvalsskólum.

Mikil umræða spannst um þá þætti stefnuskjalsins sem fjalla um stjórnun og stjórnkerfi Háskólans. Sérstaklega varð nokkrum fundarmönnum tíðrætt um það markmið stefnunnar að Háskólanum skuli skipt upp í nokkra skóla undir stjórn skólaforseta. Héldu sumir því fram að þessi hugmynd væri mjög til bóta. Núverandi skipting skólans í 11 deildir, sem væru afar ólíkar að stærð og gerð, væri órökrétt og byggð á sögulegum tilviljunum. Bentu talsmenn þessa sjónarmiðs á það máli sínu til stuðnings að í skýrslum þeirra erlendu sérfræðinga sem hefðu tekið starfsemi Háskólans út á síðustu tveimur árum væri ítrekað hvatt til þess að skólinn breytti deildarskiptingu sinni, t.d. með því að sameina smæstu deildirnar stærri deildum á skyldum fræðasviðum. Þessi skoðun ætti einnig marga fylgismenn víða í samfélaginu og í opinberri umræðu um málefni Háskólans. Aftur á móti voru skoðanir skiptar um það, hve margar deildirnar eða skólarnir ættu að vera. Héldu sumir því fram að miða ætti við skiptinguna í fjögur fræðasvið sem nú væri tekið mið af við skipun fulltrúa í háskólaráð. Ef yrði af sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands myndi svo væntanlega bætast við fimmti skólinn. Aðrir bentu á að allt eins mætti hugsa skiptinguna út frá öðrum forsendum og þá gæti niðurstaðan t.d. orðið skipting í sex eða sjö skóla. Í lok þessarar umræðu vöktu fulltrúar í heildarstefnuhópi rektors athygli á því að í fyrirliggjandi drögum að stefnu Háskólans væri ekki kveðið nákvæmlega á um skólahugmyndina heldur sagt að hún yrði rædd frekar og útfærð innan háskólasamfélagsins.

Einnig var um það rætt að þótt stefnan fæli í sér innleiðingu nútímalegri stjórnunarhátta í Háskólanum, einkum á sviði rekstrar, væri mikilvægt að kasta ekki fyrir róða þeirri sterku lýðræðishefð sem alla tíð hefði einkennt vestræna háskóla, þ.m.t. Háskóla Íslands. Þá var komið inn á tillögu stefnunnar um fjölgun utanaðkomandi fulltrúa í háskólaráði. Var á það bent að Háskólinn hefði haft góða reynslu af setu fulltrúa þjóðlífs í háskólaráði og hefðu þeir t.d. tekið virkan þátt í stefnumótunarstarfinu. Hins vegar væri mikilvægt að ef fjölga ætti utanaðkomandi fulltrúum í háskólaráði að Háskólinn veldi þá sjálfur í stað þess að þeir yrðu pólitískt skipaðir, eins og tekið væri sérstaklega fram í úttektarskýrslu Samtaka evrópskra háskóla (EUA).

Rætt var um skólagjöld og þá staðhæfingu í stefnuskjalinu, að afstaðan til þeirra muni væntanlega skýrast við endurskoðun laga um Háskóla Íslands. Komu fram mjög ólíkar skoðanir á þessu máli. Töldu sumir fundarmenn að stefnan ætti að taka af skarið og lýsa því yfir að Háskóli Íslands óskaði eftir því að fá lagaheimild til að innheimta skólagjöld. Aðrir héldu hinu gagnstæða fram og töldu að í stefnuplagginu ætti að taka afdráttarlausa afstöðu gegn skólagjöldum. Enn aðrir vildu fara bil beggja og héldu því fram að fyrst þyrfti að stórauka opinber framlög til skólans og þá fyrst væri e.t.v. grundvöllur fyrir því að ræða fjáröflunarleiðir á borð við skólagjöld. Skólagjöld gætu hins vegar aldrei staðið undir grunnfjármögnun Háskólans og því væri á þessu stigi óskynsamlegt að óska eftir heimild til að innheimta þau í því skyni að vinna bug á fjárhagsvanda skólans. Fulltrúar stúdenta greindu frá því að í þeirra röðum væri breið samstaða um að hafna alfarið skólagjöldum á öllum sviðum.

Vikið var að ákvæði stefnudraganna um auknar kröfur til nemenda um námsframvindu. Útskýrði fulltrúi heildarstefnuhópsins að þetta ákvæði væri ekki síst tilkomið í kjölfar ábendinga ytri úttektaraðila um að í Háskólanum væri of mikið brottfall. Fyrsta skrefið til að vinna gegn þessu væri að greina vandann, aðskilja skráningarbrottfall frá eiginlegu námsbrottfalli og skilgreina síðan aðgerðir til að taka á vandanum, t.d. með því að ákvarða hámarkstíma fyrir hverja námsleið en gefa nemendum jafnframt kost á að sækja um undanþágu. Aðstæður nemenda væru mismunandi.

Nokkur umræða spannst um hlutfallið milli fjölda kennara og nemenda. Voru skiptar skoðanir um það hvort sú almenna hlutfallstala sem fram kæmi í stefnuplagginu væri hæfileg. Töldu sumir að hlutfallið mætti að ósekju vera hærra, þótt tillagan í plagginu væri vissulega til bóta. Aðrir héldu því fram að ekki væri mjög gagnlegt að miða við sama hlutfall í öllum deildum og skorum. Í reynd væri í sumum deildum hægt að kenna fjölmenn námskeið án þess að slaka á gæðakröfum, en í deildum með mörgum skorum og fámennum námsleiðum gegndi hins vegar öðru máli. Bentu fulltrúar í heildarstefnuhópnum á að samkvæmt fyrirliggjandi stefnudrögum myndi föstum kennurum fjölga um fjórðung, en um leið væri kveðið á um að þetta markmið mætti endurskoða og uppfæra á gildistíma stefnunnar.

Einn fundarmanna vakti máls á því að í stefnunni væri lögð mikil áhersla á samkeppni - milli kennara, starfseininga, háskóla - og því væri nauðsynlegt að skilgreina með skýrum hætti forsendur samkeppninnar og setja gegnsæjar reglur um árangursmat, umbun o.s.frv.

Annar fundarmaður gerði að umtalsefni gildi þverfræðilegs samstarfs og nauðsyn þess að leggja ríka áherslu á þennan þátt í framtíðarstefnu Háskólans. Það væri óumdeilt á alþjóðlegum vettvangi að einn helsti vaxtarbroddurinn í rannsóknum væri fólginn í þverfræðilegri samvinnu og að mesta gróskan væri iðulega á mörkum hefðbundinna fræðasviða og þar sem ólíkar greinar snertust. Í reynd væru slíku samstarfi engin takmörk sett og vel mætti t.d. hugsa sér samstarf á milli lögfræðinga og matvælafræðinga um mannréttindi og matvæli. Það væri úreltur hugsunarháttur að rígbinda rannsóknir við hefðbundnar fræðigreinar og beinlínis skaðlegt ef fræðilegir fordómar koma í veg fyrir samræðu fræðigreinanna. Til að stuðla frekar að slíkri samvinnu væri mikilvægt að Háskólinn beitti sér fyrir nánara samstarfi við erlendar og innlendar rannsóknastofnanir, s.s. rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Hér hefði stjórnsýslan einnig hlutverki að gegna með því að hugsa nýjar leiðir til að örva samgang milli fræðigreina.

Í framhaldi af þessu var rætt um nauðsyn þess að fámenn þjóð á borð við Íslendinga dreifði ekki kröftum sínum um of heldur tengdi saman þá aðila sem ynnu á skyldum fræðasviðum. Þannig þyrfti Háskólinn að efla enn frekar tengsl sín við innlendar rannsóknastofnanir á borð við Keldur, LSH o.fl. Einnig þyrfti að huga vel að því að stilla saman strengi hinnar nýju Stofnunar íslenskra fræða og íslenskuskorar hugvísindadeildar.

Þá var fjallað um vægi og tengsl rannsókna og kennslu og mikilvægi þess að hin mikla áhersla á rannsóknaþáttinn bitnaði ekki á kennslunni. Í stefnudrögunum væri að vísu talað um að ráða til starfa hæfustu kennarana, en í reynd virtist stefnt að því að ráða rannsóknafólk. Á móti bentu fulltrúar í heildarstefnuhópnum á að gera þyrfti ráð fyrir því að ef einstakir starfsmenn sinntu ekki rannsóknum gæfu þeir sig í ríkara mæli að kennslu. Þá væri í plagginu lögð mikil áhersla á mat á gæðum kennslu, t.d. væri gerð tillaga um nýtt hvatakerfi kennslu sem væri hliðstætt rannsóknamatskerfinu er gefið hefði mjög góða raun. Á vegum kennslumálanefndar væri nú þegar verið að gera tilraun með drög að slíku kerfi. Einnig var á það bent að ef listinn yfir 15 bestu háskóla í heimi væri skoðaður nánar kæmi í ljós að við Háskóla Íslands væru starfandi kennarar sem hefðu numið og kennt við þá flesta ef ekki alla. Í skólanum væri m.ö.o. stór hópur starfsmanna sem þekkti til slíkra stofnana innanfrá og mikilvægt væri að færa sér það í nyt.

Í framhaldi af þessari umræðu vakti einn fundarmanna máls á því að ef Háskóli Íslands ætlaði að komast í hóp bestu háskóla í heimi þyrfti hann að hafa á að skipa starfsmönnum á heimsmælikvarða. Þótt mikill meirihluti vísindamanna Háskólans væri virkur í rannsóknum væri þar einnig starfandi lítill hópur sem passaði ekki fyllilega inn í hina nýju framtíðarsýn skólans. Þetta vekti t.d. þá spurningu, hvað yrði um þá sem ekki birtu niðurstöður rannsókna sinna á alþjóðlegum vettvangi, þótt þeir geti verið bæði góðir kennarar og birt rannsóknir sínar innanlands.

Fjallað var um áherslu stefnunnar á svonefnda ISI-gagnagrunna og birtingar rannsóknarniðurstaðna í fremstu vísindatímaritum heims. s.s. Nature og Science. Var í þessu sambandi m.a. rætt um það, hvort umrædd tímarit hentuðu öllum fræðasviðum jafnvel eða hvort þau fælu í sér mismunun gagnvart sumum greinum. Bent var á að öll hvatakerfi, sama hvaða nafni þau nefndust, fælu ætíð í sér vissa stýringu og því væri við því að búast að áherslan á umrædda gagnagrunna og birtingarmiðla myndi leiða til þess að ýmsir öflugir fræðimenn Háskólans, sem hingað til hefðu ekki beint rannsóknum að þeim, myndu gera það í framtíðinni. Í Háskóla Íslands leyndist m.ö.o. mikið afl sem eftir væri að leysa úr læðingi.

Þá tjáðu nokkrir fundarmanna sig um húsnæðisvanda einstakra deilda og hvöttu til þess að gerð yrði skýr áætlun um lausn á honum á gildistíma þessarar stefnu Háskóla Íslands.

Í framlagi sínu til umræðunnar lögðu margir fundarmenn áherslu á að þótt ekki væru allir sammála um einstök atriði skipti þá væri rík samstaða um meginlínur og miklu skipti að halda vinnunni áfram með jákvæðum huga. Mikilvægast væri að standa saman um þá glæsilegu framtíðarstefnu sem hér væri á ferðinni og að tryggja að hún skilaði Háskóla Íslands þeim fjármunum sem upp á vantaði.

Að umræðu lokinni þakkaði rektor fundarmönnum fyrir framlag þeirra. Tiltók rektor hversu mikilvægt það væri að háskólafólk snéri bökum saman í þeirri sókn sem nú væri hafin. Þá fór rektor yfir framlagða tíma- og verkáætlun fyrir stefnumótunarvinnu Háskólans og deilda hans. Í kjölfar fundarins yrðu stefnudrögin send deildum, stofnunum og stjórnsýslu Háskólans til umsagnar. Þegar umsagnirnar hefðu borist myndi ritnefnd fara yfir þær og útbúa lokadrög að stefnu Háskóla Íslands sem tæki tillit til framkominna athugasemda. Loks yrðu nýju drögin lögð fram til umræðu og afgreiðslu á 20. háskólafundi sem haldinn yrði 5. maí nk. Samhliða þessu myndu deildir og stjórnsýsla Háskólans ganga frá stefnuskjölum sínum og yrðu þau, að fenginni umsögn formanna starfsnefnda háskólaráðs, væntanlega staðfest í háskólaráði í júní nk.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Róberts H. Haraldssonar, þau Ólafur Þ. Harðarson, Sigurður Brynjólfsson, Oddný G. Sverrisdóttir, Erla Kolbrún Harðardóttir, Páll Hreinsson, Hörður Filippusson, Ómar Kristmundsson, Inga Þórsdóttir, Gylfi Magnússon, Sigfús Þór Elíasson, Anna Pála Sverrisdóttir, Eiríkur Tómasson, Anna Agnarsdóttir, Halldór Jónsson, Jóhann Malmquist, Ingjaldur Hannibalsson og Runólfur Smári Steinþórsson.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 17.00.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 19. háskólafundi 24. mars 2006:
1.  Dagskrá og tímaáætlun 19. háskólafundar 24. mars 2006.
2.  Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3.  Fundargerð 18. háskólafundar 17. nóvember 2005.
4.  Tillaga viðskipta- og hagfræðideildar og lagadeildar um heimild til innheimtu skólagjalda.
5.  Dagskrártillaga rektors um frestun tillögu viðskipta- og hagfræðideildar og lagadeildar.
6.  Endurskoðuð dagskrá og tímaáætlun.
7.  Drög að stefnu Háskóla Íslands 2006-2011.
8.  Tímaáætlun fyrir stefnumótun Háskóla Íslands.