Skip to main content

Háskólaráðsfundur 6. febrúar 2014

02/2014

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2014, fimmtudaginn 6. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson (varamaður fyrir Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur), Guðrún Hallgrímsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Kristinn Andersen, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson, Elín Blöndal og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver ráðsmaður teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Greindi rektor frá því að þar sem hún hefði málið sem fjallað er um undir dagskrárlið 8 til meðferðar sem rektor myndi hún víkja af fundi við afgreiðslu þess og varaforseti ráðsins taka við fundarstjórn. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Opinn fundur rektors fyrir starfsfólk háskólans var haldinn í Hátíðasal 28. janúar sl.
b) Sama dag var haldin kveðjuathöfn fyrir starfsfólk háskólans sem lét af störfum fyrir aldurs sakir á árinu 2013.
c) Í síðustu viku hlaut Vísindavefur Háskóla Íslands verðlaun Samtaka vefiðnaðarins sem besti vefmiðill landsins.
d) Hinn 1. febrúar sl. var árleg Japanshátíð haldin á Háskólatorgi, en hátíðin er skipulögð í samvinnu Sendiráðs Japans á Íslandi og nemenda í Japönsku máli og menningu á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Þetta er tíunda árið sem Japanshátíð er haldin við Háskóla Íslands.
e) Hinn 4. febrúar sl. var haldinn í Hátíðasal vel sóttur viðburður um jöklarannsóknir á vegum Háskóla Íslands og Sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi, í samstarfi við Caltech og NASA. Erindi fluttu Helgi Björnsson jöklafræðingur og tveir vísindamenn frá Caltech.
f) Tækni- og hönnunarkeppnin First Lego League var haldin í Háskólabíói laugardaginn 1. febrúar sl. Sigurvegari að þessu sinni var lið Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði. Verkfræði- og náttúruvísindasvið og Menntavísindasvið Háskóla Íslands halda utan um keppnina en helstu bakhjarlar hennar eru Nýherji, Síminn, Krumma, Össur, Verkfræðingafélag Íslands, Tæknifræðingafélag Íslands, VSÓ ráðgjöf, ÍTR, Kjörís, Vífilfell, MS, Melaskóli og Mannvit.
g) Í síðustu viku var haldinn stjórnarfundur og ráðsfundur Samtaka evrópskra háskóla (EUA). Á fundunum var m.a. rætt um hækkun rannsóknastyrkja úr áætluninni Horizon 2020 og hækkun Erasmus-styrkja, stefnu um opinn aðgang að rannsóknaupplýsingum, þróun nýrra kennsluaðferða og geymslu- og öryggismál í tengslum við gagnasöfn á sviði heilbrigðisvísinda.
h) Árlegt kennslumálaþing Háskóla Íslands verður haldið í Hátíðasal 28. febrúar nk. Að þinginu standa kennslumálanefnd, gæðanefnd, Stúdentaráð og Kennslumiðstöð Háskóla Íslands. Að þessu sinni verður fjallað um gæðamál náms og kennslu.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og gerði grein fyrir stöðu og horfum í fjármálum og rekstri Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.

a) Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands. Yfirlit um ráðstöfun fjár.
Fyrir fundinum lá yfirlit um ráðstöfun framlaga úr Aldarafmælissjóði 2011-2014. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.

b) Stofnanasamningur Háskóla Íslands og Félags prófessora við Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá stofnanasamningur Háskóla Íslands og Félags prófessora við Háskóla Íslands sem undirritaður var í desember sl. Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu og svaraði spurningum ráðsmanna.
– Stofnanasamningur Háskóla Íslands og Félags prófessora við Háskóla Íslands, dags. 16. desember 2013, staðfestur.

3. Áherslur í starfi Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund. Uppfærð starfsáætlun ásamt yfirliti um stöðu einstakra mála.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.

4. Málefni Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi málefni Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum ráðsmanna. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

Margrét Hallgrímsdóttir þurfti að víkja af fundi.

5. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum, sbr. fund ráðsins 2. maí 2013.
Fyrir fundinum lágu endurskoðuð drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum, en fyrstu drög voru kynnt og rædd á háskólaþingi 19. apríl 2013. Þingið ályktaði að fela rektor að ganga frá stefnunni og voru fyrirliggjandi lokadrög unnin í nánu samstarfi við Landsbókasafn Íslands – háskólabókasafn og starfshóp háskólaráðs sem undirbjó drögin. Eiríkur Rögnvaldsson, formaður starfshópsins, gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma.

6. Nýbygging fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
Fyrir fundinum lá minnisblað til háskólaráðs um byggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Inn á fundinn kom Eiríkur Hilmarsson, formaður byggingarnefndar um húsið, og gerði ásamt Guðmundi R. Jónssyni grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þeir Eiríkur og Guðmundur spurningum ráðsmanna. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

7. Hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag háskólasvæðisins, sbr. viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands 8. maí 2013.
Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

8. Afgreiðsla þriggja mála sem beint hefur verið til háskólaráðs.
Rektor vék af fundi undir þessum dagskrárlið og Börkur Hansen, varaforseti háskólaráðs, tók við fundarstjórn. Fyrir voru tekin drög að úrskurðum í málunum þremur sem undirbúin voru fyrir ráðið á milli funda. Elín Blöndal gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma af vísa málunum frá háskólaráði, enda falla þau ekki undir lögboðið hlutverk ráðsins.

9.  Bókfærð mál.
a) Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs um hækkun á próftökugjaldi fyrir inntökupróf í Læknadeild.

– Samþykkt.

10.  Mál til fróðleiks.
a) Möguleg skipan í eftirfarandi stjórnir/ráð: Stjórn Eggertssjóðs, fagráð um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og stjórn Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur.
Rektor gerði grein fyrir málinu.
– Rektor falið að ganga frá skipun stjórnar Eggertssjóðs og fagráðs um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni.

b) Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
Ný stjórn Happdrættis Háskóla Íslands er skipuð Eyvindi G. Gunnarssyni, prófessor við Lagadeild, sem er formaður, Kristbjörgu Jóhannsdóttir, markaðsstjóra Símans, og Jenný Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs Háskóla Íslands.

c) Fulltrúar Háskóla Íslands í starfshópi á vegum samstarfsvettvangs um eflingu þekkingarsvæðis í Vatnsmýrinni.
Fulltrúar Háskóla Íslands í starfshópnum eru María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs.

d) Reglur um aðfararnám að háskólanámi nr. 1266/2013.
e) Rafrænt Fréttabréf Félagsvísindasviðs, janúar 2014.
f) Bréf rektors sent í umboði háskólaráðs, sbr. fund ráðsins 16. janúar sl.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.