Skip to main content

Háskólaráðsfundur 4. desember 2014

11/2014

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2014, fimmtudaginn 4. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Davíð Þorláksson (varamaður fyrir Áslaugu Maríu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Iðunn Garðarsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Stefán Hrafn Jónsson lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu liða 7c og 7d. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.

Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan. 

a) Gengið var frá kjarasamningi milli Félags prófessora við ríkisháskóla og samninganefndar ríkisins 25. nóvember sl. Þar með er boðuðu verkfalli aflýst og próf verða haldin með eðlilegum hætti í desembermánuði. 

b) Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, flutti erindi í röðinni „Vísindi á mannamáli“ 18. nóvember sl. Bar erindi Ágústu heitið „Verðmæti vísinda.  Frá grunnrannsóknum til lækningavara á markaði.“

c) Hinn 20. nóvember sl. var haldin við Háskóla Íslands ráðstefna um hagnýtingu rannsókna undir heitinu „Patent Awareness and Technology Transfer“. Ráðstefnan var samstarfsverkefni Háskóla Íslands, World Intellectual Property Organisation (WIPO) og Einkaleyfastofu.

d) Sama dag, 20. nóvember sl., fór fram árleg afhending Hagnýtingarverðlauna Háskóla Íslands. Fyrstu verðlaun hlaut að þessu sinni verkefnið „Fullmótað upplýsingakerfi fyrir sæfarendur“ í umsjón Guðrúnar Marteinsdóttur, prófessors í fiskifræði og fiskavistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Kai Logemann, sérfræðings við Líf- og umhverfisvísindastofnun. Önnur verðlaun voru veitt fyrir verkefnið „Fræðileg umfjöllun um táknmál gerð aðgengilegri“ og þriðju verðlaun hlaut verkefnið „Notkun blóðflagna til stofnfrumuræktunar“. Önnur verðlaun fékk verkefnið „Fræðileg umfjöllun um táknmál gerð aðgengilegri“ sem er í umsjón Rannveigar Sverrisdóttur, lektors í táknmálsfræðum við Íslensku- og menningardeild og samstarfsfólks. Þriðju verðlaun hlaut verkefnið „Notkun blóðflagna til stofnfrumuræktunar“, en að því standa Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, aðjunkt við Læknadeild og doktorsnemi í líf- og læknavísindum, og samstarfsfólk.

e) Rektor hélt opinn fund með starfsfólki 25. nóv. sl. Á fundinum var farið yfir mál sem eru efst á baugi í starfsemi Háskóla Íslands og fram fór árleg afhending viðurkenninga til starfsmanna fyrir lofsverðan árangur í starfi. Viðurkenninguna fyrir lofsvert framlag til rannsókna hlaut að þessu sinni Kristín Loftsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild, viðurkenningu fyrir kennslu fékk Rögnvaldur Möller, prófessor við Raunvísindadeild, og viðurkenningu fyrir önnur störf í þágu Háskóla Íslands hlaut Þórhallur Aðalsteinsson, starfsmaður reksturs fasteigna, fyrir stoðþjónustu við skólann.

f) Veiting akademískra nafnbóta fór fram 26. nóvember sl. Samtals fengu 17 starfsmenn akademískar nafnbætur, 16 frá Landspítala og einn frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. 

g) Fullveldisdagurinn var að vanda haldinn hátíðlegur við Háskóla Íslands 1. desember sl. Um morguninn lögðu stúdentar blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar og haldin var hátíðarmessa guðfræðinema í kapellunni í Aðalbyggingu. Síðdegis var haldin í Hátíðasal Hátíð brautskráðra doktora. Að þessu sinni hlutu 79 doktorar sem lokið höfðu námi á síðustu 12 mánuðum gullmerki Háskóla Íslands. Ávörp fluttu forseti Íslands, mennta- og menningarmálaráðherra, rektor, aðstoðarrektor og fulltrúi nýdoktora.

h) Í gær, 3. desember sl., afhenti forseti Íslands forseta Menntavísindasviðs f.h. Háskóla Íslands hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands vegna starfstengds diplómanáms fyrir fólk með þroskahömlun sem boðið er sem sérstakt verkefni á Menntavísindasviði.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a) Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Staða mála.

b) Kjarasamningur Félags prófessora og fjármálaráðuneytis.

c) Viðauki við Stofnanasamning Háskóla Íslands og Félags prófessora.

d) Fjármögnun Háskóla Íslands til framtíðar.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Málið var rætt og svöruðu þau Guðmundur og Jenný Bára spurningum ráðsmanna.

Að lokinni umræðu ályktaði háskólaráð eftirfarandi: 

„Með þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 er komið umtalsvert til móts við sjónarmið sem Háskóli Íslands hefur sett fram í fyrri bókun háskólaráðs, dags. 11. september sl., og í viðræðum við mennta- og menningarmálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og fjárlaganefnd Alþingis. Í þeim viðræðum hefur komið fram skilningur á stöðu og starfsemi háskólans. Stuðningurinn er Háskóla Íslands einkar mikilvægur og í raun forsenda þess að skólinn geti rækt hlutverk sitt í þágu íslensks samfélags og haldið áfram sókn sinni á alþjóðavettvangi.

Þá fagnar háskólaráð því að forsætisráðherra hefur boðað til fyrsta fundar nefndar um stefnumótun um framtíðarfjármögnun Háskóla Íslands, samkvæmt ákvæðum samnings um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands.

Háskólaráð þakkar þann skilning og stuðning sem Háskóli Íslands hefur mætt af hálfu ríkisstjórnar og þingflokka á Alþingi.“

Fyrir fundinum lá viðauki við Stofnanasamning Háskóla Íslands og Félags prófessora. Gerði Guðmundur grein fyrir málinu og var það rætt.

– Viðauki við Stofnanasamning Háskóla Íslands og Félags prófessora staðfestur. 

Inn á fundinn kom Ásta Möller, verkefnisstjóri hollvinastarfs á skrifstofu rektors. Rektor gerði grein fyrir útfærslu og stöðu verkefnisins „Fjármögnun Háskóla Íslands til framtíðar“ og Ásta greindi frá uppbyggingu hollvinastarfs framundan við háskólann. Málið var rætt ítarlega. 

3. Aðgerðaráætlun um eftirfylgni með ytri matsskýrslu um árangur sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar, sbr. síðasta fund.

Inn á fundinn kom Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, og gerði ásamt rektor grein fyrir framlögðum drögum að aðgerðaráætlun um eftirfylgni með ytri matsskýrslu um árangur sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar. Málið var rætt og svöruðu rektor og Jóhanna spurningum fulltrúa í háskólaráði. 

– Aðgerðaráætlunin samþykkt og rektor og forseta Menntavísindasviðs falið að fylgja málinu eftir. Háskólaráð telur brýnt að aðgerðaráætlunni verði tafarlaust hrundið í framkvæmd og ráðinu gerð reglulega grein fyrir framvindu hennar. 

4. Auglýsing vegna ráðningar háskólarektors fyrir tímabilið 1. júlí 2015-30. júní 2020. 

Fyrir fundinum lá minnisblað um röð atvika varðandi ráðningu háskólarektors og tillaga að auglýsingu um starfið. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir málinu sem var rætt. 

– Framlögð tillaga að röð atvika varðandi ráðningu háskólarektors og að auglýsingu um starfið samþykkt einróma. Ráðgert er að auglýsingin verði birt í lok janúar nk. 

5. Tillaga Stjórnmálafræðideildar um kjör heiðursdoktors.

Fyrir fundinum lá tillaga og rökstuðningur Stjórnmálafræðideildar við Félagsvísindasvið um kjör heiðursdoktors við deildina, ásamt umsögn heiðursdoktorsnefndar. Rektor gerði grein fyrir tillögunni.

– Samþykkt einróma.  

6. Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, mætir á fundinn.

Inn á fundinn kom Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, og gerði ítarlega grein fyrir starfsemi og áherslumálum fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Inga spurningum fulltrúa í háskólaráði. 

7. Bókfærð mál.

a) Tillögur fræðasviða um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir háskólaárið 2015-2016, ásamt viðeigandi breytingum á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands.

– Eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2015-2016 samþykktar (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2014-2015) sem og samsvarandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010:

I. Heilbrigðisvísindasvið

a. Læknadeild

Læknisfræði 48  (48)

Sjúkraþjálfun 35  (35) 

b. Hjúkrunarfræðideild

Hjúkrunarfræði 100  (95) 

Ljósmóðurfræði  10  (10) 

c. Tannlæknadeild

Tannlæknisfræði    7    (7) 

Tannsmiðanám    5    (5) 

d. Sálfræðideild

Cand. psych.  20  (20) 

e. Matvæla- og næringarfræðideild   

BS nám í næringarfræði  30  (30) 

II. Félagsvísindasvið

a. Stjórnmálafræðideild (nám áður í Félags- og

mannvísindadeild)

MA nám í blaða- og fréttamennsku  21  (21) 

b. Félags- og mannvísindadeild

MA nám í náms- og starfsráðgjöf  35  (35) 

c. Félagsráðgjafardeild

MA nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda 30  (30) 

d. Lagadeild

Lögfræði 100 (150)

e. Viðskiptafræðideild

MS nám í nýsköpun og viðskiptaþróun  13   (10)

b) Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs um breytingu á 20. gr. reglna nr. 140/2014 um meistaranám við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, er varðar sérreglur Tannlæknadeildar um meistaranám. Leiðir einnig til breytinga á 12. mgr. 107. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.

– Samþykkt.

c) Tillaga Félagsvísindasviðs um nýtt meistaranám í aðferðafræði í Félags- og mannvísindadeild, ásamt viðeigandi breytingu á 84. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009. 

– Samþykkt. Stefán Hrafn Jónsson sat hjá við afgreiðslu málsins.

d) Tillaga Félagsvísindasviðs um tilfærslu meistaranáms í blaða- og fréttamennsku frá Félags- og mannvísindadeild til Stjórnmálafræðideildar, ásamt viðeigandi breytingu á 84. og 92. gr. reglna HÍ nr. 569/2009. 

– Samþykkt. Stefán Hrafn Jónsson sat hjá við afgreiðslu málsins.

e) Tillaga Menntavísindasviðs um diplómanám á meistarastigi (60e) í uppeldis- og menntunarfræði í Uppeldis- og menntunarfræðideild og viðeigandi breytingu á 121. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.

– Samþykkt.

f) Tillaga Menntavísindasviðs um breytingu á skipulagi náms í grunnskólakennarafræðum í Kennaradeild á grunnstigi (BEd) og meistarastigi (MEd), ásamt viðeigandi breytingu á 119. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.

– Samþykkt.

g) Fulltrúar í ráðgefandi nefnd Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

– Samþykkt að Guðrún Á. Jónsdóttir, fulltrúi háskólanáms og rannsókna við Austurbrú, og Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, taki sæti í ráðgefandi nefnd Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands í stað Hjalta Þórs Vignissonar, Iceland Pelagic, og Steingerðar Hreinsdóttur, Háskólafélagi Suðurlands og rekstrarstjóra Katla Geopark, sem óskað hafa eftir að hverfa úr nefndinni frá og með 1. desember 2014. 

h) Framlenging umboðs gæðanefndar háskólaráðs til 31. janúar 2015.

– Samþykkt.

8. Mál til fróðleiks.

a) Sjálfsmatsskýrsla Háskóla Íslands, 17. nóvember 2014.

b) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, nóvember 2014.

c) Bæklingur í tilefni af Hátíð brautskráðra doktora 1. desember 2014.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 16.05.