Skip to main content

Háskólaráðsfundur 1. nóvember 2012

10/2012

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2012, fimmtudaginn 1. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Kristinn Andersen, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Rektor bauð fundarmenn velkomna og setti fundinn. Fundurinn markaði nokkur tímamót því í fyrsta sinn voru ekki send út nein pappírsgögn heldur voru öll fundargögn rafræn. Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Rektor lagði til að undir liðnum „önnur mál“ yrðu kynntar forsendur röðunar fremstu háskóla heims skv. matslista Times Higher Education, sem höfðu borist daginn áður, og var dagskrá fundarins samþykkt með þeirri viðbót. Engar athugasemdir voru gerðar við mál undir liðnum „bókfærð mál“ og skoðast þau því staðfest. Enginn fulltrúi lýsti sig vanhæfan til að fjalla um einstök mál á dagskrá fundarins.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs, en helstu viðburðir framundan eru tilgreindir undir lið 7 g):
a) Sigurð í Jákupsstovu, rektor Fróðskaparseturs Færeyja, og nokkrir stjórnendur skólans heimsóttu Háskóla Íslands 9. október sl. og funduðu með stjórnendum hans.
b) Haldið var samráðsþing um fyrirhugaða nýbyggingu Landspítala-háskólasjúkrahúss 10. október sl. þar sem rektor hélt erindi um gagnsemi hennar fyrir heilbrigðisvísindadeildir Háskóla Íslands.
c) Hinn 11. október sl. fór fram í Hátíðasal kynning á viðamiklu rannsóknaverkefni undir merkjum nýrrar Ofurstöðvar í eldfjallafræði sem fyrir skömmu hlaut 950 m.kr. styrk úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins.
d) Dagana 15.-16. október sl. heimsótti rektor ásamt fulltrúum Heilbrigðisvísindasviðs, Menntavísindasviðs og Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands háskólann í Minnesota í tilefni af 30 ára formlegu samstarfi háskólanna. Samstarfið var framan af einkum á sviði hjúkrunarfræði, læknisfræði og náms- og starfsráðgjafar, en fyrir skömmu bættust við menntavísindi og í heimsókninni var lagður grunnur að samstarfi á sviði miðaldafræði og lyfjafræði. Rektor flutti opið erindi að beiðni háskólans í Minnesota um gildi alþjóðlegs samstarfs háskóla.
e) Í síðustu viku sótti rektor fundi stjórnar og ráðs Samtaka evrópskra háskóla (EUA) þar sem m.a. var samþykkt ályktun til stjórnvalda aðildarlanda samtakanna um að styðja hækkun framlaga ESB til áætlunarinnar Horizon 2020. Einnig stendur EUA nú fyrir viðamiklu samstarfsverkefni háskóla sem stunda rannsóknir og kennslu á sviði orkuvísinda og er Háskóli Íslands aðili að því.
f) Nýlega var skipað nýtt Vísinda- og tækniráð. Tilnefnir samstarfsnefnd háskólastigsins fjóra fulltrúa í ráðið og eru tveir þeirra frá Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, og Steinunn Gestsdóttir, dósent við Menntavísindasvið og fulltrúi í vísindanefnd Háskóla Íslands.

2. Starfsreglur háskólaráðs, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir endurskoðuðum drögum að starfsreglum háskólaráðs þar sem tekið hefur verið mið af athugasemdum og ábendingum sem fram komu á síðasta fundi og í kjölfar hans. Málið var rætt. Rektor bar upp tillögu um að í nefnd háskólaráðs sem leggur mat á störf ráðsins, sbr. 10. gr. starfsreglnanna, verði einn úr hverjum hópi sem myndar háskólaráð, þ.e. úr hópi fulltrúa háskólasamfélagsins, fulltrúa tilnefndum af mennta- og menningarmálaráðherra, fulltrúa tilnefndum af háskólaráði og fulltrúa stúdenta.
- Starfsreglur háskólaráðs svo breyttar samþykktar einróma.

3. Fjármál Háskóla Íslands.
a) Fjárhagsstaða Háskóla Íslands eftir fyrstu níu mánuði ársins 2012.
Fyrir fundinum lá yfirlit um fjárhagsstöðu Háskóla Íslands á tímabilinu frá janúar til september 2012. Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og Jenný Bára spurningum ráðsmanna.

b) Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013. Horfur.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013. Málið var rætt.

c) Minnisblað vegna umræðu í fjölmiðlum um niðurskurð fjárveitinga til háskóla.
Fyrir fundinum lá minnisblað vegna umræðu í fjölmiðlum um niðurskurð fjárveitinga til háskóla. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

d) Framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands 2010-2020, nýbyggingar o.fl.
Fyrir fundinum lá yfirlit um nýframkvæmdir og stærri viðhaldsverkefni á vegum Háskóla Íslands á tímabilinu 2010-2020. Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

4. Umsögn gæðanefndar háskólaráðs um eftirfylgni með úttektum á fjórum einingum Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu og formaður gæðanefndar háskólaráðs, gerði grein fyrir aðdraganda málsins og umsögn gæðanefndar. Málið var rætt ítarlega. Að umfangsmiklum umræðum loknum bar rektor upp svohljóðandi tillögu „Háskólaráð beinir því til forseta Hugvísindasviðs að fylgja fast eftir ábendingum sem fram koma í matsskýrslu um námsbraut í fornleifafræði, þ.m.t. varðandi fjárhagsleg og fagleg tengsl við aðila utan háskólans. Fræðasviðið skili fyrir lok janúar 2013 til gæðanefndar háskólaráðs áætlun um viðbrögð með tímasettum markmiðum.“
- Samþykkt einróma.

5. Drög að reglum fyrir vísindasiðanefnd Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lágu drög að reglum fyrir vísindasiðanefnd Háskóla Íslands. Inn á fundinn kom Jónína Einarsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild og formaður vísindasiðanefndar Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt og svaraði Jónína spurningum fulltrúa í háskólaráði.
- Samþykkt einróma að óska eftir því að fræðasvið háskólans, vísindanefnd, gæðanefnd, kennslumálanefnd, jafnréttisnefnd og Stúdentaráð veiti umsögn um fyrirliggjandi drög að reglum fyrir vísindasiðanefnd Háskóla Íslands. Umsagnafrestur verði til loka árs 2012.

6. Bókfærð mál.
a) Samráðsnefnd um kjaramál.

- Skipun stjórnar samráðsnefndar um kjaramál staðfest. Í nefndinni eiga sæti Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sviðsstjóri starfsmannasviðs og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Með nefndinni starfar Kristín Helga Markúsdóttir, lögfræðingur starfsmannasviðs. Skipunartími nefndarinnar er til 30. júní 2014. Þá hefur rektor, fyrir hönd háskólaráðs, falið Ingjaldi Hannibalssyni, prófessor við Viðskiptafræðideild, að leysa Guðmund R. Jónsson af í viðræðum við Félag prófessora. Ráðstöfunin er tímabundin og ekki lengur en til loka skipunartíma nefndarinnar. Guðmundur mun gegn formennsku í öðrum málum sem nefndin fæst við.

b) Stjórn sjóðs um árangurstengda tilfærslu starfsþátta.
- Skipun stjórnar sjóða um árangurstengda tilfærslu starfsþátta staðfest. Stjórnin er skipuð Halldóri Jónssyni, sviðsstjóra vísindasviðs, Jenný Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs og Sigríði Ólafsdóttur lífefnafræðingi. Skipunartími stjórnarinnar er til 31. október 2015.

7. Mál til fróðleiks.
a) Árleg skýrsla Háskóla Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna framkvæmdar stefnu Háskóla Íslands.

b) Ársreikningur Háskólasjóðs hf. Eimskipafélags Íslands fyrir árið 2011.
c)
Svar Háskola Íslands við fyrirspurn mennta- og menningarmálaráðuneytisins um þátt siðfræði og skyldra hluta í námi og kennslu við skólann.
d) U-MAP, kerfisbundinn samanburður á norrænum háskólum. Aðgengilegt á vefslóðinni www.u-map.eu
e) Minnisblað um nefndir, stjórnir og ráð á næstu misserum.
f) Yfirlýsing frá EUA: EUA Statement on Budget Priorities 2014-2020, lokagerð eftir fund stjórnar EUA 25. október 2012.
g) 
Viðburðir framundan við Háskóla Íslands, haustmisseri 2012.

8. Önnur mál.
Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir helstu forsendum fyrir röðun fremstu háskóla heims skv. matslista Times Higher Education, en Háskóli Íslands er í 271. sæti á listanum fyrir árið 2012. Matið sjálft var kynnt af hálfu Times Higher Education í byrjun október sl., en 31. október sl. barst nánari greining á einkunnagjöf til Háskóla Íslands.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.