Skip to main content

Háskólaráðsfundur 17. desember 2010

12/2010

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2010, föstudaginn 17. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Þórður Sverrisson boðaði forföll vegna fjarveru í útlöndum en var viðbúinn að taka þátt í fundinum símleiðis. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár minntist rektor Friðriks H. Jónssonar, prófessors við Sálfræðideild, sem lést 12. desember sl.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.     Mál á dagskrá

1.1    Stefna Háskóla Íslands 2011-2016. Niðurstöður háskólaþings 7. desember sl.
Fyrir fundinum lágu lokadrög að Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016, þar sem tekið hefur verið mið af sjónarmiðum háskólaráðs og umsögnum fræðasviða, deilda, starfsnefnda háskólaráðs og sameiginlegrar stjórnsýslu, auk framkominna sjónarmiða á háskólaþingi 7. desember sl. og athugasemda þingfulltrúa og forseta fræðasviða í kjölfar þingsins. Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu og formaður heildarstefnuhóps gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Stefna Háskóla Íslands 2011-2016 samþykkt einróma.

1.2    Fjármál Háskólans.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir tillögum fjármálanefndar háskólaráðs um aðgerðir vegna niðurskurðar fjárveitinga til Háskóla Íslands og drögum að fjárhagsáætlun háskólans fyrir árið 2011. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor, Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna.
- Tillögur fjármálanefndar um aðgerðir vegna niðurskurðar fjárveitinga til Háskóla Íslands samþykktar, með eftirfarandi breytingum:
Liður 1: Stúdentar fái fulltrúa í starfshópnum um aðgangstakmarkanir.
Liður 2: Háskólinn beiti sér fyrir því að skrásetningargjöld við Háskóla Íslands verði lánshæf hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Liður 3: Almenn stjórnunarskylda lektora, dósenta og prófessora í fullu starfi við Háskóla Íslands lækkar úr 12% í 6%. Jafnframt hækkar kennsluskylda tímabundið um sex prósentustig. Hækkun kennsluskyldunnar tekur gildi 1. júlí 2011 og verður endurskoðuð eigi síðar en í árslok 2011, í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012, eða fyrr ef aðstæður leyfa. Jafnframt verði sérstaklega komið til móts við þá sem sinna helstu stjórnunarstörfum innan háskólans með lækkun kennsluskyldu eða annarri umbun. Þá er rektor falið að skipa starfshóp sem geri, í samráði við kjarafélög kennara, tillögu til háskólaráðs um skilgreiningu á stjórnunarhluta starfs akademískra starfsmanna og hvernig umbunað verður fyrir hann.
Tillögur fjármálanefndar með framangreindum breytingum samþykktar.

1.3    Tillögur starfshóps um samkennslu, sbr. síðasta fund. Umsagnir stjórna fræðasviða, kennslumálanefndar, fjármálanefndar og gæðanefndar.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Fengnar hafa verið umsagnir fræðasviða og þriggja starfsnefnda háskólaráðs, þ.e. fjármálanefndar, kennslumálanefndar og gæðanefndar. Umsagnirnar voru jákvæðar, en fram komu ýmsar ábendingar. Bar rektor upp eftirfarandi tillögu um áframhaldandi vinnu málsins: Skipaður verði stærri starfshópur með öllum fulltrúum úr fyrri starfshópi til að vinna frekar úr tillögum um aukna samkennslu. Í hópnum verði áfram Gunnlaugur Björnsson, vísindamaður hjá Raunvísindastofnun, formaður, Daði Már Kristófersson, dósent á Félagsvísindasviði, Sigríður Ólafsdóttir, fulltrúi í háskólaráði, og til viðbótar Amalía Björnsdóttir, dósent á Menntavísindasviði, Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor á Hugvísindasviði, Ingjaldur Hannibalsson, prófessor á Félagsvísindasviði, Jóhannes Rúnar Sveinsson, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði og Sesselja S. Ómarsdóttir, dósent á Heilbrigðisvísindasviði. Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs vinni með hópnum. Hlutverk hópsins verði:
a) Að stýra, í samstarfi við forseta fræðasviða, kortlagningu samkennslumöguleika og skoða „hlaðborð“ kennslugreina í tengslum við það;
b) að vinna í samstarfi við forseta fræðasviða að endurskoðun á uppgjöri við samkennslu (sk. samningaleið og samstarfsleið);
c) að endurskoða deililíkan Háskóla Íslands í samráði við formann fjármálanefndar.
Jafnframt hugi hópurinn að endurskoðun námsframboðs og skipunar fræðasviða háskólans í deildir.
Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.
- Samþykkt einróma.

1.4    Ársfundur Vísindagarða Háskóla Íslands hf.
Rektor setti ársfund Vísindagarða Háskóla Íslands hf. Framhaldi ársfundar frestað til næsta fundar háskólaráðs.

2.        Erindi til háskólaráðs

2.1    Stjórnir, nefndir og ráð. Stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
Rektor bar upp tillögu um að eftirtalin skipi stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum: Sigurður Guðmundsson, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs (tilnefndur af Læknadeild), formaður, Páll Hersteinsson prófessor (tilnefndur af Raunvísindadeild), Halldór Runólfsson yfirdýralæknir (tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra), Ólöf Sigurðardóttir, dýralæknir við Tilraunastöðina (tilnefnd af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra) og Stefanía Þorgeirsdóttir sérfræðingur (tilnefnd af starfsmönnum tilraunastöðvarinnar).
- Samþykkt einróma.

2.2    Erindi frá Finnboga Þormóðssyni til háskólaráðs, dags. 14. nóvember sl.
- Málið er til meðferðar í stjórnsýslu háskólans.

2.3    Erindi frá Matthíasi Eydal til háskólaráðs, dags. 25. nóvember sl.
- Málið er til meðferðar í stjórnsýslu háskólans.

3.    Mál til fróðleiks

3.1    Svar mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 3. desember sl., við erindi opinberu háskólanna frá 10. júní sl. um hækkun skrásetningargjalda.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.30.