Skip to main content

3. háskólafundur 16. og 17. nóvember 2000

3. háskólafundur haldinn 16. og 17. nóvember 2000 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13:00-17:00, fimmtudag 16. nóvember og kl. 9:00-16:00 föstudag 17. nóvember

Fimmtudagur 16. nóvember
Kl. 13:00 - Fundarsetning

Rektor setti þriðja háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Rektor fór yfir dagskrá og tímaáætlun fundarins og gerði grein fyrir framkomnum tillögum sem bárust innan tilskilins frests og lista yfir útsend gögn og viðbótargögn sem lágu fyrir fundinum.
Rektor skipaði Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmann rektors, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóra rannsóknasviðs, ritara fundarins.

  • Kl. 13:15 - Dagskrárliður 1

Rektor kynnti og ræddi sameiginlega vísinda- og menntastefnu Háskólans og málsmeðferð stefnumótunarstarfs.

Rektor ræddi mótun sameiginlegrar vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands og minnti á hvert væri meginhlutverk háskólafundar samkvæmt 7. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41 22. mars 1999, en þar segir m.a. að háskólafundur sé „samráðsvettvangur háskóladeilda og háskólastofnana“ sem „vinnur að þróun og eflingu Háskóla Íslands og mótar og setur fram sameiginlega vísinda- og menntastefnu Háskólans.“ Háskólinn samanstandi af mörgum deildum og stofnunum og háskólafundurinn hafi það meginhlutverk að samhæfa hugmyndir og skoðanir háskólafólks á stefnu og starfi Háskólans.
Þá rifjaði rektor upp frá fyrsta háskólafundi fjögur atriði sem hafa beri í huga við mótun vísinda- og menntastefnu Háskólans. Í fyrsta lagi að sem flestir innan háskólasamfélagsins séu virkir við stefnumótunina. Í þessu sambandi benti rektor á framlagt minnisblað, „Framvinda stefnumótunarstarfs við Háskóla Íslands 1999-2000“, þar sem glöggt má sjá hversu stór hópur háskólafólks hefur tekið þátt í stefnumótunarvinnunni. Í öðru lagi að taka mið af og byggja á því sem þegar hefur verið gert í stefnumótunarstarfinu. Vísaði rektor í því samhengi á yfirlit yfir stefnumál Háskólans, sem dreift var til fundarmanna á fyrsta háskólafundi. Í þriðja lagi væri mikilvægt að horfa til fyrirmynda erlendis frá sem unnt væri að læra af. Benti rektor á að undirbúningshópurinn, sem vann fyrirliggjandi drög að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands, hefði haft hliðstæð plögg frá erlendum háskólum til hliðsjónar, þótt þau hafi ekki beinlínis verið tekin til fyrirmyndar. Í fjórða lagi verði allt stefnumótunarstarf að taka mið af ýmsum reglum og kerfum Háskólans, s.s. framgangskerfi, vinnumatskerfi og þeim atriðum sem getið er um í samningi Háskólans og ríkisvaldsins um kennslu.
Næst vék rektor að tilgangi stefnumótunarstarfsins. Í stefnu og starfi Háskólans um þessar mundir skipti mestu eindreginn ásetningur hans að eflast sem rannsóknaháskóli. Ef horft væri yfir sögu Háskólans mætti almennt greina á milli þriggja tímabila. Á fyrsta tímabilinu hafi Háskólinn öðru fremur verið embættismannaskóli, þ.e. stofnun sem hafði það hlutverk að mennta helstu embættismenn þjóðarinnar. Annað tímabilið einkennist af miklum vexti í námsframboði í grunnnámi, einkum um og upp úr 1970. Þriðja tímabilið í sögu og starfi Háskólans, sem nú er að eiga sér stað, einkenndist ef eflingu framhaldsnáms og rannsókna við Háskólann. Með því stigi Háskóli Íslands fyrsta sinni fram sem fullburða rannsóknaháskóli. Í ljósi þessarar þróunar væri nauðsynlegt að háskólafundur spyrði sjálfan sig að því hvort fyrirliggjandi drög að vísinda- og menntastefnu væru fullnægjandi. Í þessu sambandi væri mikilvægt að hafa hugfast að þrátt fyrir áhersluna á rannsóknaþáttinn í vísinda- og menntastefnu Háskólans væri ekki ætlunin að hún yrði á kostnað kennsluþáttarins. Rannsóknir- og kennsla væru ekki andstæður, heldur mynduðu þær, ásamt margháttaðri þjónustu sem Háskólinn veitti, órjúfanlega einingu. Til marks um tengsl síðasttalda þáttarins, þjónustunnar, við rannsóknaþáttinn mætti nefna að fjölmörg rannsóknaverkefni framhaldsnema tengdust beint atvinnulífi þjóðarinnar.
Fyrirliggjandi drögum að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands væri ætlað að gera grein fyrir þessari þríeiningu háskólastarfsins. Loks benti rektor á að þrátt fyrir þá byltingu í stefnu og starfi Háskólans sem fælist í eflingu rannsókna og rannsóknatengds framhaldsnáms væri nauðsynlegt að ætla sér ekki um of. Til skýringar nefndi rektor að í sjálfu framhaldsnámshugtakinu fælist viss einföldun, sem fælist m.a. í því að það tæki í raun til tveggja námsstiga, sem nauðsynlegt væri að greina á milli, þ.e. meistaranáms og doktorsnáms. Þegar almennt væri fjallað um háskólanám væri vanalega gerður greinarmunur á þremur námsstigum, grunnnámi til BA-prófs, framhaldsnámi til MA-prófs og doktorsnámi til samnefnds prófs. Einföldunin fælist í því að tala í sömu andrá um meistara- og doktorsstigið. Eitt af verkefnum háskólafundarins væri að leita svara við þeirri spurningu, hvort deildir og námsgreinar Háskólans hefðu allar jafn mikla burði til að taka upp doktorsnám.
Þá fór rektor nokkrum orðum um helstu rökin fyrir framsetningu fyrirliggjandi stefnudraga. Vísaði hann í því sambandi á inngang vísinda- og menntastefnunnar, bréf til fulltrúa á háskólafundi um stefnumótunarstarf háskólafundar og yfirlitsblað um framvindu stefnumótunarstarfs við Háskóla Íslands 1999-2000, sem send voru til fundarmanna með fundargögnum.
Á seinasta háskólafundi var rektor falið að skipa undirbúningshóp til að fara yfir fyrri stefnudrög. Var við það miðað að um sumarið yrðu endurskoðuð drög send deildum og stofnunum til umræðu og umsagnar. Þessi ráðagerð raskaðist vegna sumarleyfa. Undirbúningshópur rektors starfaði hins vegar sleitulaust frá sl. hausti og fram að háskólafundi og leitaði m.a. athugasemda og umsagna frá hópi starfsmanna Háskólans. Loks lýsti rektor uppbyggingu stefnunnar í þremur köflum og greiningu hvers kafla í stefnu, framkvæmd og útfærslu og umsjón og ábyrgð.
Að endingu ræddi rektor um næstu skref í stefnumótunarstarfinu. Eftir fundinn myndi undirbúningshópur rektors taka saman yfirlit yfir framkomnar athugasemdir og senda það ásamt stefnudrögunum til deilda og stofnana Háskólans til umræðu og umsagnar. Að því búnu yrði plaggið endurskoðað í ljósi framkominna athugasemda og það síðan lagt fram til umræðu og samþykktar á háskólafundi vorið 2001. Jafnframt þessu hæfi hver deild og stofnun vinnu við gerð þróunaráætlunar sinnar, sem taka skuli mið af vísinda- og menntastefnu Háskólans. Lýsa mætti sambandinu á milli stefnunnar og þróunaráætlananna með þeim orðum að með stefnunni setti Háskólinn sér almenn markmið en með þróunaráætlununum lýstu deildir og stofnanir Háskólans því með hvaða hætti þær hygðust hrinda stefnunni í framkvæmd. Mikilvægt væri að deildir og stofnanir Háskólans beittu allar í meginatriðum sömu aðferðum við gerð þróunaráætlana sinna og tækju mið af þeim efnisatriðum sem talin væru upp í drögum að tillögu um málsmeðferð stefnumótunarstarfs sem fylgdu fundarboðinu og fjallað yrði um undir dagskrárlið 2.1.

  • Kl. 13:45 - Dagskrárliður 2

2.1    Drög að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands

Fyrir fundinum lágu drög að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands. Rektor kynnti stefnudrögin. Að lokinni kynningu gaf rektor orðið laust til almennrar umræðu.

Drögin voru rædd ítarlega. Fundarmenn lýstu sig almennt ánægða með nýju stefnudrögin og beindist umræðan einkum að tveimur atriðum, vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands og eflingu framhaldsnámsins. Í umræðunni um vísinda- og menntastefnu Háskólans var m.a. fjallað um samband kennslu og rannsókna sem og um samband kennslu og rannsókna annars vegar og fræðslu og þjónustu hins vegar, þ.e. hvort og að hve miklu leyti þessir þættir gætu talist jafngildir í starfi kennara og fræðimanna, meðal annars m.t.t. ríkjandi skilgreiningar á starfi kennara og fræðimanna, framgangs, launa og sjóða, og hvort og að hve miklu leyti það gæti talist skylda kennara og fræðimanna að sinna fræðslu og þjónustu við samfélagið. Nokkur umræða fór einnig fram um tilgang fræðastarfsins, þ.e. í hvaða skilningi það væri „leit að sannleika“ og hvort fræðin skuli stunduð „fræðanna vegna“ eða í þágu einhvers annars. Rætt var um samkeppnisstöðu Háskóla Íslands gagnvart erlendum háskólum um starfsfólk, launakjör og nemendur, um nauðsyn þess að Háskólinn setti siðareglur um starf kennara og fræðimanna, s.s. um vísindalega hlutlægni, og reglur um einkaleyfi og að fjallað yrði um afleiðingar slíkra reglna. Einnig var rætt um þátt sí- og endurmenntunar í vísinda- og menntastefnunni. Fjölmargar ábendingar komu fram um orðalag og einstök efnisatriði í stefnudrögunum og tilkynnti rektor að þær yrðu teknar saman og sendar deildum og stofnunum. Varðandi áframhaldandi málsmeðferð kom einnig fram ósk um það að yfirstjórn Háskólans yrði deildum til aðstoðar við gerð þróunaráætlana sinna, t.d. með því að gefa þeim áþreifanleg dæmi um hvernig einstök stefnumið yrðu útfærð.

Í umræðunni um framhaldsnám við Háskólann var m.a. fjallað um það hvort og að hve miklu leyti einstakar deildir Háskólans hefðu burði til að bjóða upp á doktorsnám. Einnig var rætt um samband meistara- og doktorsnáms svo og um nauðsyn þess að koma á samræmdu og skilvirku gæðaeftirliti með framhaldsnáminu. Rætt var um nauðsyn þess að laða erlenda nemendur til framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Í því sambandi var einnig rætt um nauðsyn þess að fjölga námskeiðum, gagnsemi þess að íslenskir nemendur verji a.m.k. hluta námstímans við erlenda háskóla og nauðsyn þess að fjölga kennurum samfara fjölgun framhaldsnema. Þá var rætt um aðstöðu framhaldsnámsins og aðbúnað framhaldsnema, m.a. nauðsyn þess að efla styrki til framhaldsnema til að þeir gætu helgað sig náminu og að efla bóka- og tímaritakost Landsbókasafns- Háskólabókasafns sem og millisafnalán.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, þau Snjólfur Ólafsson, Stefán Karlsson, Gísli Már Gíslason, Reynir Tómas Geirsson, Sigmundur Guðbjarnarson, Gylfi Magnússon, Eiríkur Jónsson, Jón Atli Benediktsson, Guðmundur Georgsson, Jón Torfi Jónasson, Rannveig Traustadóttir, Hjalti Hugason, Ágústa Guðmundsdóttir, Þórlindur Kjartansson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Sigríður Þorgeirsdóttir, Stefán Arnórsson, Þórólfur Matthíasson, Kristín Jónsdóttir, Guðrún Kvaran, Valdimar Kr. Jónsson, Ingjaldur Hannibalsson, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Vilhjálmur Árnason, Hjalti Hugason og Gunnlaugur H. Jónsson.

2.1 b) Tillaga um málsmeðferð stefnumótunarstarfs. Umræður og afgreiðsla.

Fyrir fundinum lágu drög að tillögu um málsmeðferð stefnumótunarstarfs. Rektor gerði grein fyrir tillögunni. Að lokinni kynningu gaf rektor orðið laust til almennrar umræðu.

Í umræðunni kom m.a. fram sú ósk að sameiginleg stjórnsýsla Háskólans væri deildum og stofnunum til aðstoðar við gerð þróunaráætlana sinna og gæfi ábendingar um útfærslu einstakra efnisatriða. Þá var nokkuð rætt um tengsl stofnana og Háskólans og bentu nokkrir fundarmenn á að það væri stofnunum Háskólans ekki síður mikilvægt að setja fram þróunaráætlanir en deildum. Loks kom fram ósk um að vísinda- og menntastefna Háskólans verði einnig send starfsnefndum háskólaráðs og Stúdentaráði til umræðu og umsagnar.
Að lokinni umræðu lagði rektor til tvær breytingar á tillögunni. Í fyrsta lagi að tillagan tæki jafnt til deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi. Í öðru lagi að aftan við fyrsta lið tillögunnar bættist ný setning: “Hver deild og stofnun setji sér markmið með hliðsjón af því sem segir í stefnunni.“ Þannig breytt hljóðar tillagan svo:

1. Að lokinni umræðu á háskólafundi verði drög að vísinda- og menntastefnu Háskólans send til umræðu og umsagnar í deildum og stofnunum sem eiga fulltrúa á háskólafundi.

2. Jafnhliða hefji hver deild og stofnun vinnu að þróunaráætlun sinni.

3. Þróunaráætlanir deilda taki mið af því að verkefni deildanna eru kennsla, rannsóknir, fræðsla og þjónusta. Undir þeirri yfirskrift (og í tengslum við vísinda- og menntastefnu Háskólans) verði í þróunaráætlunum m.a. fjallað um eftirtalin efnisatriði, núverandi stöðu þeirra og áætlun næstu fimm árin:

- Grunnnám, nýjar greinar, verkefni, áherslur, fækkun greina
- Framhaldsnám, nýjar greinar, verkefni, áherslur
- Fjöldi stúdenta
- Fjöldi kennara, sérfræðinga
- Fjöldi skrifstofu- og aðstoðarfólks
- Þarfir: húsnæði og búnaður, aðstaða starfsmanna og stúdenta
- Rannsókna- og þjónustustofnanir deildar
- Endurmenntun á vegum deildar
- Samvinna við aðrar deildir
- Samvinna við háskóla, stofnanir og fyrirtæki
- Fjáröflunarleiðir
- Annað

4. Umsagnir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi um drög að vísinda- og menntastefnu Háskólans komi til umfjöllunar á næsta háskólafundi vorið 2001.

5. Drög að þróunaráætlunum deilda verði kynntar á háskólafundi vorið 2001.

- Rektor bar tillöguna upp til samþykktar, með breytingum. Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, þau Jón Torfi Jónasson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Valdimar Kr. Jónsson, Jón Atli Benediktsson, Guðmundur Georgsson og Berglind Hallgrímsdóttir.

Kl. 16:40 Fundi frestað til morguns.

Föstudagur 17. nóvember

Kl. 9:10

Rektor bauð fundarmenn velkomna aftur til starfa og fór yfir viðfangsefni dagsins. Rektor bar upp tillögu um tvær breytingar á röð dagskrárliða dagsins eftir kaffihlé (kl. 10:35). Samkvæmt dagskrártillögunni yrði fyrst tekinn fyrir dagskrárliður 4.1, umsögn um tillögu háskólaráðs að breytingu á 10. gr. reglugerðar um Háskóla Íslands nr. 458/2000 og 4.2, umsögn háskólafundar um nafnleynd í skriflegum prófum. Þá yrði dagskrárliður 3.1, tillaga stúdenta til ályktunar um eflingu framhaldsnáms, tekinn fyrir í framhaldi af dagskrárlið 2.3, framhaldsnám við Háskóla Íslands.

-Dagskrártillagan var samþykkt samhljóða.

Fram var lögð til fróðleiks jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2000-2004, sem nýlega var samþykkt á fundi háskólaráðs. Í þessu sambandi benti rektor fundarmönnum á að í drögum að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands, sem voru til umræðu á fyrri fundardeginum, væri þess sérstaklega getið í inngangi að við framkvæmd stefnunnar bæri að taka mið af ýmsum öðrum stefnumarkandi gögnum sem henni tengdust, einkum starfsmannastefnu Háskóla Íslands og jafnréttisáætlun Háskóla Íslands.

  • Kl. 9:20 - Dagskrárliður 2 (frh.)

2.2 Stefna í einstökum málum

a) Stefna Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum

Torfi Tulinius, formaður alþjóðaráðs Háskóla Íslands, kynnti framlagða stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum og greindi frá aðdraganda hennar. Í máli sínu benti Torfi á að alþjóðasamskipti Háskóla Íslands hefðu farið mjög vaxandi á síðustu árum og því væri mikilvægt að Háskólinn endurskoðaði stefnu sína í alþjóðamálum. Fyrstu drög að nýrri alþjóðastefnu Háskólans voru samin veturinn 1998-1999 af nefnd sem starfaði á vegum alþjóðaráðs undir forystu Guðmundar Hálfdanarsonar. Síðan hefði undirbúningshópur rektors fyrir háskólafund farið yfir stefnudrögin og unnið fyrirliggjandi drög II.

Torfi las stefnuna upp og nefndi síðan sérstaklega fjögur meginatriði. Í fyrsta lagi væri nauðsynlegt að treysta skipulag alþjóðasamskipta við Háskóla Íslands, m.a. með því að ákveðinn aðili í hverri deild hefði umsjón með alþjóðasamskiptum í samráði við Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins. Í öðru lagi væri mikilvægt að tryggja að kostnaður við alþjóðasamskipti á vegum deilda yrði hluti af áætlanagerð þeirra, þ.m.t. fjárhagsáætlun, og færður á kostnað þeirra. Í þriðja lagi þyrfti að auðvelda kennurum skólans að taka þátt í kennaraskiptum. Í fjórða lagi væri brýnt að laða erlenda nemendur að námi við Háskólann, einkum á meistara- og doktorsstigi. Þetta mætti m.a. gera með því að bjóða upp á fjölbreytt úrval námskeiða á ensku. Að lokum gat Torfi þess að gert væri ráð fyrir því að ábyrgð á framkvæmd stefnunnar yrði á höndum alþjóðaráðs og Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins, en einnig skipti miklu máli að deildir taki sjálfar ábyrgð á þessum málaflokki.
Að lokinni kynningu gaf rektor orðið laust.

Í umræðunni var m.a. rætt um alþjóðasamskipti á ólíkum námsstigum, þ.e. í grunn- og framhaldsnámi. Einnig var rætt um það hvort framhaldsnám í einstökum deildum skyldi fara fram á íslensku, ensku eða báðum tungumálum. Í þessu sambandi var á það bent að nýleg könnun hefði leitt í ljós að lesskilningur íslenskra stúdenta á enskri tungu væri lakari en margir héldu. Þá var um það rætt hvort skylda ætti deildir til að verja ákveðnu föstu hlutfalli fjárveitinga sinna til alþjóðasamskipta. Loks var bent á það að sökum efnislegs skyldleika alþjóðastefnunnar og vísinda- og menntastefnunnar væri rökrétt að fresta afgreiðslu alþjóðastefnunnar þar til vísinda- og menntastefnan hefði verið afgreidd.

Að lokinni umræðu svaraði Torfi Tulinius framkomnum athugasemdum.

Rektor bar fram tillögu um að fresta afgreiðslu stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum og vísa henni til alþjóðaráðs og einnig til deilda til umsagnar.

- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Torfa Tulinius, þau Ingjaldur Hannibalsson, Guðmundur Georgsson, Valdimar Kr. Jónsson, Guðrún Þórhallsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Snjólfur Ólafsson, Jón Atli Benediktsson, Gísli Már Gíslason, Eiríkur Jónsson, Sigmundur Guðbjarnarson, Hjalti Hugason, Pétur Knútsson og Vilhjálmur Árnason.

b) Umhverfisstefna Háskóla Íslands

Björn Gunnarsson, forstöðumaður Umhverfisstofnunar Háskóla Íslands, var forfallaður og gat því ekki kynnt framlagða umhverfisstefnu Háskóla Íslands. Rektor gerði stuttlega grein fyrir stefnunni og gaf að því búnu orðið laust til almennrar umræðu.

Í umræðunni um drög að umhverfisstefnu Háskóla Íslands var m.a. rætt um tengsl hennar við byggingamál Háskólans og aukningu bílaumferðar, bílastæðavanda Háskólans og leiðir til úrbóta, s.s. með bættum almenningssamgöngum og gjaldtöku fyrir bílastæði. Einnig var rætt var um merkingu ýmissa lykilhugtaka stefnunnar, s.s. "mengun" og "álag á auðlindir". Þá var rætt um hagnýtt og fræðilegt inntak umhverfisstefnunnar og tengsl hennar við nám í umhverfisfræðum svo og vísinda- og menntastefnu Háskólans. Að lokinni umræðu bar rektor fram tillögu um að vísa stefnudrögunum til starfshópsins sem undirbjó þau og einnig til deilda til umsagnar og athugasemda.

- Samþykkt með 28 atkvæðum, en 6 voru á móti.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, þau Guðmundur Georgsson, Valdimar Kr. Jónsson, Vilhjálmur Árnason, Ingjaldur Hannibalsson, Snjólfur Ólafsson, Eiríkur Jónsson, Torfi Tulinius, Ármann Höskuldsson, Ágústa Guðmundsdóttir, Magnús Diðrik Baldursson, Sigmundur Guðbjarnarson, Stefán Arnórsson og Jón Torfi Jónasson.

Kl. 10:20-10:45 Kaffihlé

  • Kl. 10:45 - Dagskrárliður 4

4.1 Umsögn um tillögu háskólaráðs að breytingu á 10. gr. reglugerðar um Háskóla Íslands nr. 458/2000

Fyrir fundinum lá tillaga háskólaráðs að breytingu á 10. gr. reglugerðar um Háskóla Íslands nr. 458/2000.

Á fundi háskólaráðs 31.október sl. var samþykkt einróma að óska eftir umsögn háskólafundar um eftirfarandi tillögu að breytingu á 10. grein reglugerðar nr. 458/2000:
10. gr. Sameiginleg stjórnsýsla háskólans
Hlutverk sameiginlegrar stjórnsýslu er að skapa deildum, stofnunum og starfsfólki háskólans skilyrði til að vinna störf sín í samræmi við lög og reglur háskólans. Rektor ræður framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn sameiginlegrar stjórnsýslu. Svið hinnar sameiginlegu stjórnsýslu eru: Stjórnsýslusvið, rekstrar- og framkvæmdasvið, fjárreiðusvið, starfsmannasvið, kennslusvið, rannsóknasvið og þróunar- og kynningarsvið. Rektor er heimilt að skipa fleiri en einu sviði undir einn framkvæmdastjóra og skipta sviðum í deildir eftir því sem samræmist verkefnum þeirra. Rektor setur framkvæmdastjórum og deildarstjórum erindisbréf. Þá er rektor heimilt, með samþykki háskólaráðs, að fela deildarforsetum, forstöðumönnum stofnana og formönnum starfsnefnda ábyrgð á verkefnum sem falla undir hina sameiginlegu stjórnsýslu. Með reglulegu millibili skal háskólaráð láta fara fram úttekt á starfsemi stjórnsýslu háskólans.

Greinargerð
Athugasemd: Þegar reglugerðin var til umfjöllunar á háskólafundi í maí sl. boðaði rektor að tillaga um breytingu á 10. greininni um sameiginlega stjórnsýslu yrði væntanlega lögð fram á næsta háskólafundi.

Markmiðið með þessari tillögu er að gera skipulag stjórnsýslunnar markvissara, sveigjanlegra og opnara en það er samkvæmt eldri reglum. Bætt er við stjórnsýslusviði, en undir það verða felld ýmis verkefni sem tengjast meðal annars lögum og reglum og samskiptum sameiginlegrar stjórnsýslu við stjórnsýslu deilda og stofnana. Þá er gert ráð fyrir rekstrar- og framkvæmdasviði, sem hefði frumkvæði um mótun nýrra leiða við fjármögnun og rekstur og tæki meðal annars yfir verkefni á bygginga- og tæknisviði. Einnig er gert ráð fyrir fjárreiðusviði sem annaðist dagleg fjármál og hefði meðal annars innra eftirlit, reikningshald og fleiri verkefni sem hafa verið á fjármálasviði. Í erindisbréfum, sem starfsfólkinu verða sett, verður hins vegar ákveðið hvaða verkefni falla undir hvert svið. Í þessu felst mikilvægur munur á hinni nýju tillögu og þeim reglum sem nú gilda, en í þeim er nákvæmlega talið upp hvaða verkefni falla undir hvert svið. Í reglunum er gert ráð fyrir heimild rektors til að skipa fleiri en einu sviði undir einn framkvæmdastjóra. Í því sambandi kemur meðal annars til álita að tengja þannig saman starfsmannasvið og stjórnsýslusvið. Þá hefur sviðum iðulega verið skipt í deildir og er hér sett inn heimildarákvæði til að renna stoðum undir þá skipan þegar hún á við. Í eldri reglum er gert ráð fyrir heimild til rektors og háskólaráðs að fela einum framkvæmdastjóra vald til að skuldbinda háskólann og háskólastofnanir fjárhagslega. Slíkt vald er tryggt í lögum og ekki ástæða til að binda það í reglum með þessum hætti. Þá er nýtt ákvæði sem heimilar rektor að fela deildarforsetum, forstöðumönnum stofnana og formönnum starfsnefnda ábyrgð á verkefnum sem tengjast hinni sameiginlegu stjórnsýslu. Rektor myndi nýta þessa heimild í samráði við háskólaráð, enda yrði ekki um venjubundna ráðningu að ræða.  Með ákvæðinu er opnað fyrir þann möguleika að starfsfólk deilda og stofnana taki beinan þátt í hinni sameiginlegu stjórnsýslu sem er í samræmi við það sem tíðkast í háskólum vestan hafs sem austan.

Rektor kynnti tillöguna og rakti aðdraganda hennar. Við umræður og afgreiðslu reglugerðar um Háskóla Íslands á síðasta háskólafundi hefði verið boðuð breyting á 10. gr. Tilgangurinn með breytingunni væri að gera stjórnsýslu Háskólans markvissari, opnari og sveigjanlegri og tengja hana betur við deildir og stofnanir. Hlutverk sameiginlegrar stjórnsýslu Háskólans væri að þjónusta deildir og stofnanir og því þyrfti hún að geta brugðist við síbreytilegum kröfum og þörfum. Þá greindi rektor frá því að í aðdraganda málsins hefði m.a. verið rætt um að stofna embætti aðstoðarrektors líkt og tíðkast við flesta erlenda háskóla, en fallið hefði verið frá þeirri hugmynd.
Að lokinni kynningu gaf rektor orðið laust. Enginn tók til máls undir þessum lið.

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.

- Samþykkt einróma.

4.2 Umsögn háskólafundar um nafnleynd í skriflegum prófum

Á fundi háskólaráðs 19. október sl. samþykkti ráðið að vísa framkomnum beiðnum deilda um undanþágu frá ákvæðum 58. gr. reglugerðar fyrir Háskóla Íslands um nafnleynd í prófum til umsagnar háskólafundar. Fyrir háskólafundinum lá tillaga að breytingu á reglugerð í tengslum við umsögn háskólafundar um nafnleynd í prófum. Flutningsmenn tillögunnar voru forsetar allra deilda Háskólans.

Lagt er til að háskólafundur mælist til þess við háskólaráð að aftan við 1. málsl. 3. mgr. 58. gr. reglugerðar fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000 bætist „ef deild ákveður“.

Málsliðurinn í heild svo breyttur orðist þá:
„Skriflega prófúrlausnir skulu merktar prófnúmerum og einkunnir birtar undir sömu auðkennum, ef deild ákveður.“

Breyting þessi er til samræmis við það sem gilti skv. 3. málsl. 3. mgr. 46. gr. eldri reglugerðar nr. 98/1993

Gylfi Magnússon kynnti tillöguna og rakti aðdraganda hennar. Greindi Gylfi frá því að prófnúmeramálið svonefnda hefði fengið ítarlega umfjöllun á háskólafundi, háskólaráðsfundum og í deildum, skorum og stofnunum. Sagði Gylfi að hægt væri að færa gild rök bæði með og á móti prófnúmerakerfinu. Einnig væri misjafnt eftir tilvikum hver ávinningurinn og hverjir ókostirnir af kerfinu væru. Því væri bæði skynsamlegt og sanngjarnt að ákvörðunarvaldið lægi hjá deildum og ættu deildir að styðjast við þá meginreglu við ákvarðanir sínar að þær hefðu í för með sér sem mesta kosti og sem minnsta ókosti.

Að kynningu Gylfa Magnússonar lokinni gaf rektor orðið laust til almennrar umræðu.

Í umræðunni komu m.a. fram þau sjónarmið að óvissuástand gæti skapast ef ólík kerfi væru í notkun samtímis, tilgangur prófnúmerakerfisins væri að tryggja hlutleysi og hlutlægni í prófmati, nafnleynd yki líkur á mistökum og tefði fyrir birtingu einkunna, eðlilegt væri að ákvörðunarvaldið lægi hjá deildum vegna þess að þær væru ábyrgar fyrir kennslu og prófum. Þá var sú skoðun reifuð að ekki væri rétt að deildir tækju almenna ákvörðun um hvort prófnúmer skyldu notuð eða ekki, heldur þyrftu þær að setja sér skýrar reglur um það hvenær prófnúmer skuli notuð og hvenær ekki, t.d. í samræmi við eðli og tegund prófa. Prófnúmer væru óhentug í þeim tilvikum þegar námsmat byggði í senn á verklegum æfingum og skriflegum prófum, gagnsemi prófnúmera væri háð fjölda nemenda í námskeiði og því hvort um samsett próf væri að ræða eða ekki, prófnúmer sönnuðu gildi sitt einkum í svonefndum 100% prófum. Þá lagði Hjalti Hugason fram tillögu um þá orðalagsbreytingu að í stað orðanna „ef deild ákveður“ kæmi „þegar deild ákveður“.

Þegar hér var komið sögu óskuðu stúdentar eftir því að gert yrði 5 mín. hlé á fundinum. Rektor varð við ósk stúdenta.

Að loknu hléi lögðu stúdentar fram nýja tillögu um orðalagsbreytingu. Í stað „ef deild ákveður“ kæmi „en deild getur veitt undanþágu frá þessari reglu í einstökum námskeiðum“. Nokkrar umræður urðu um tillögu stúdenta að orðalagsbreytingu.

Þá lagði rektor fram þá málamiðlunartillögu að í stað tillögu Hjalta Hugasonar og tillögu stúdenta kæmi: „en deild getur sett reglur um undanþágu frá þessu meginákvæði.“ Málsliðurinn í heild, svo breyttur, orðist þá:
„Skriflegar prófúrlausnir skulu merktar prófnúmerum og einkunnir birtar undir sömu auðkennum, en deild getur sett reglur um undanþágu frá þessu meginákvæði.“

Rektor bar tillöguna þannig breytta undir atkvæði.

- Samþykkt samhljóða með lófataki.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Gylfa Magnússonar, þau Þórlindur Kjartansson, Snjólfur Ólafsson, Hjalti Hugason, Bragi Árnason, Eiríkur Jónsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Margrét Einarsdóttir, Stefán Arnórsson, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Valdimar Kr. Jónsson, Gunnlaugur H. Jónsson, Vilhjálmur Árnason, Baldvin Þór Bergsson, Jón Atli Benediktsson, Þórarinn Sveinsson, Hörður Sigurgestsson, Helgi Tómasson og Bragi Árnason.

Kl. 12:15 Hádegishlé

  • Kl. 13:30 - Dagskrárliður 3.2

Tillaga stúdenta til ályktunar um fjárveitingar til Háskóla Íslands
og
Tillaga rektors til ályktunar um fjárveitingar til Háskóla Íslands, er komi í stað framkominnar tillögu stúdenta um sama efni.

Fyrir fundinum lágu tvær tillögur, annars vegar tillaga stúdenta til ályktunar um fjárveitingar til Háskóla Íslands, hins vegar tillaga rektors til ályktunar um fjárveitingar til Háskóla Íslands, er komi í stað framkominnar tillögu stúdenta um sama efni. Á fundinum boðuðu stúdentar tvær viðaukatillögur við tillögu rektors. Eftir nokkrar umræður um tillögurnar bar rektor upp tillögu sína:

Háskólafundur fagnar því að gerður hefur verið samningur milli menntamálaráðuneytis og Háskóla Íslands um fjármögnun kennslu. Háskólafundur leggur áherslu á að lokið verði hið fyrsta við gerð samnings Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins um fjármögnun rannsókna, en samningsgerðin er á lokastigi. Jafnframt skorar háskólafundur á stjórnvöld að einkaleyfisgjald Happdrættis Háskóla Íslands verði fellt niður og að Háskóli Íslands eins og aðrir skólar á háskólastigi fái fjárveitingu vegna viðhalds fasteigna í samræmi við reiknireglur menntamálaráðuneytis.

Rektor kynnti tillöguna og rakti aðdraganda hennar. Í máli rektors kom m.a. fram að hann teldi nauðsynlegt að ræða á breiðum grundvelli um fjármögnun Háskóla Íslands og tilkynnti hann að í þeim tilgangi hygðist hann efna til málþings um fjármögnun háskóla á vormánuðum 2001.
Að kynningu lokinni gaf rektor orðið laust til almennrar umræðu. Enginn tók til máls.

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.

- Samþykkt einróma.

Næst lögðu stúdentar fram viðaukatillögu 1 við tillögu rektors:
Háskólafundur skorar á ráðamenn að veita auknu fé til Háskóla Íslands til að hann geti staðið með reisn undir hlutverkum sínum í síharðnandi samkeppni.

Rektor gaf orðið laust til almennrar umræðu. Enginn tók til máls.

Rektor bar viðaukatillögu 1 undir atkvæði.

- Samþykkt samhljóða.

Loks lögðu stúdentar fram viðaukatillögu 2 við tillögu rektors:
Háskólafundur lýsir áhyggjum af fjárhagsvanda Háskóla Íslands. Ríkisvaldið hefur kosið að gera þjónustusamninga við íslenska háskóla á grundvelli sömu reiknireglna, óháð því hvort þeir innheimta skólagjöld eður ei. Þetta gerir samkeppnisstöðu Háskóla Íslands mjög erfiða gagnvart einkaskólum og er í ósamræmi við þá reglu sem tíðkast annarsstaðar á Norðurlöndum um að ríkisframlög lækki í takt við upphæð skólagjalda.

Rektor gaf orðið laust til almennrar umræðu.

Í umræðunni komu m.a. fram þau sjónarmið að nokkuð vantaði upp á að háskólar á Íslandi stæðu jafnfætis og að jafnræði væri þeirra á milli. Ósanngirnin í fjárveitingum ríkisvaldsins til háskóla á Íslandi kæmi m.a. fram í því að allir skólarnir fengju sömu grunnfjárveitingu, en sumum þeirra væri að auki heimilt að innheimta skólagjöld eða þeim væru úthlutuð ýmis konar viðbótarfjárframlög. Engu að síður væri það brýnast að innan Háskólans færi fram ígrunduð umræða um þessi mál á hans eigin forsendum áður en vísað yrði til annarra háskóla.
Að lokinni umræðu óskuðu stúdentar eftir því að gert yrði 5 mín. hlé á fundinum. Rektor varð við ósk stúdenta.
Að loknu hléi lögðu stúdentar ásamt Jóni Torfa Jónassyni fram svohljóðandi frestunartillögu við viðaukatillögu 2 :

Undirritaðir leggja til að afgreiðslu viðaukatillögu 2 verði frestað í trausti þess að haldið verði málþing um fjármögnun háskóla á Íslandi og í kjölfarið verði mótuð afstaða í málum sem varða efni þessarar tillögu.

Rektor bar frestunartillöguna undir atkvæði.

- Samþykkt með með 25 atkvæðum, einn var á móti.
Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Jón Torfi Jónasson, Eiríkur Jónsson, Gylfi Magnússon, Ingjaldur Hannibalsson, Þórlindur Kjartansson, Valdimar Kr. Jónsson, Snjólfur Ólafsson, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Guðmundur Georgsson og Vilhjálmur Árnason.

  • Kl. 14:00 - Dagskrárliður 3.3

Tillaga stúdenta til ályktunar um byggingaframkvæmdir við Háskóla Íslands

Fyrir fundinum lá tillaga stúdenta til ályktunar um byggingaframkvæmdir við Háskóla Íslands.

Byggingamál Háskóla Íslands hafa verið í brennidepli undanfarnar vikur. Í þessari umræðu hefur komið fram gagnrýni á byggingastefnu skólans og margir bent á hinn mikla kostnað við byggingu Náttúrufræðahússins og Læknagarðs.
Háskólafundur leggur áherslu á að byggingaframkvæmdir við Háskóla Íslands í framtíðinni taki mið af hagkvæmni og skynsemi, þannig að það fjármagn sem sett er til byggingaframkvæmda nýtist sem allra best til að bæta aðstöðu nemenda og kennara.
Háskólafundur telur mikilvægt að yfirmenn Háskólans reyni til þrautar að fá aukin framlög úr ríkissjóði til byggingaframkvæmda. Samhliða því er hinsvegar einnig mikilvægt að háskólayfirvöld kanni ítarlega aðrar fjármögnunarleiðir sem hugsanlegar eru.

Forsetar allra deilda Háskólans lögðu fram breytingartillögu við tillögu stúdenta til ályktunar um byggingaframkvæmdir við Háskóla Íslands.

Lagt er til að fyrstu tvær efnisgreinar í tillögu stúdenta falli niður. Tillagan í heild svo breytt orðist þá:
Háskólafundur telur mikilvægt að yfirmenn Háskólans reyni til þrautar að fá aukin framlög úr ríkissjóði til byggingaframkvæmda. Samhliða því er hinsvegar einnig mikilvægt að háskólayfirvöld kanni ítarlega aðrar fjármögnunarleiðir sem hugsanlegar eru.

Rektor gaf orðið laust til almennrar umræðu.

Í umræðunni komu m.a. fram þau sjónarmið að afar brýnt væri að ríkisvaldið legði fram aukið fjárframlag til byggingaframkvæmda Háskólans svo að skólinn gæti leyst úr bráðum húsnæðisvanda sínum. Húsnæðisskorturinn snerti ekki aðeins kennslu í grunnnámi, heldur væri einnig ókleift að efla framhaldsnám við Háskólann nema með því að byggja upp rannsóknaumhverfi framhaldsnema. Þá var rætt vítt og breitt um byggingastefnu Háskólans í fortíð og nútíð.

Að lokinni umræðu bar rektor breytingartillögu deildarforseta við tillögu stúdenta um byggingaframkvæmdir við Háskóla Íslands undir atkvæði. 

- Samþykkt með 28 atkvæðum, 5 voru á móti.

Rektor bar síðan tillögu stúdenta til ályktunar um byggingastefnu Háskóla Íslands svo breytta undir atkvæði.

- Samþykkt samhljóða.

  • Kl. 14:30 - Dagskrárliður 3.4

Tillaga stúdenta til ályktunar um úrbætur í aðgengismálum fatlaðra.

Fyrir fundinum lá tillaga stúdenta til ályktunar um úrbætur í aðgengismálum fatlaðra og tillaga rektors um sama efni. Tillögurnar voru dregnar til baka, en rektor og fulltrúar stúdenta lögðu fram nýja tillögu til ályktunar um úrbætur í aðgengismálum fatlaðra.

Forsenda: Háskólaráð samþykkti 15. júní 1995 stefnumarkandi áætlun um málefni fatlaðra stúdenta við Háskóla Íslands og hefur verið unnið markvisst eftir henni síðan.

Tillaga: Háskólafundur fagnar því að Jafnréttisnefnd Stúdentaráðs skuli hafa gert úttekt á byggingum Háskóla Íslands með tilliti til aðgengis fatlaðra. Jafnframt hvetur háskólafundur Stúdentaráð til að hraða úrvinnslu úttektarinnar eftir því sem kostur er í samvinnu við þá aðila sem annast framkvæmd stefnunnar, þ.e. rektor, bygginga- og tæknisvið og Námsráðgjöf.

Rektor kynnti tillöguna. Í máli rektors kom m.a. fram að tillagan gerði ráð fyrir átaki til að bæta aðgengismál fatlaðra eftir því sem kostur væri auk þess sem stefnt væri að nánara samstarfi milli Stúdentaráðs og forráðamanna Háskólans um þessi mál.
Að lokinni kynningu gaf rektor orðið laust til almennrar umræðu.

Í umræðunni kom m.a. fram að aðgengismál fatlaðra takmarkaðist ekki við líkamlegt aðgengi, heldur ættu fatlaðir stúdentar ekki síður við annars konar aðgengisvanda að etja sem væri félagsleg einangrun þeirra. Um þetta fjallaði fötlunarfræðin, sem væri ný fræðigrein er væri í uppbyggingu innan Háskólans.

Að lokinni umræðu bar rektor tillöguna undir atkvæði.

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, þau Rannveig Traustadóttir, Eiríkur Jónsson, Guðmundur Georgsson og Guðrún Kvaran.

Kl. 14:50 Kaffihlé

  • Kl. 15:10 - Dagskrárliður 2.3

Framhaldsnám við Háskóla Íslands

Fyrir fundinum lá skýrsla um framhaldsnám við Háskóla Íslands og drög að áætlun til ársins 2005 sem og tillaga deildarforseta að samþykkt háskólafundar í kjölfar umræðu um skýrslu um framhaldsnám við Háskóla Íslands og drög að áætlun til ársins 2005.
Rektor kynnti skýrsluna og drögin og vísaði m.a. til inngangsorða sinna frá fyrri fundardegi um að efling framhaldsnáms við Háskólann væri mikilvægasta framfaramál skólans um þessar mundir. Jafnframt benti rektor á tvær efasemdir sem hafa bæri í huga í þessu sambandi. Í fyrsta lagi yrði að gaumgæfa vandlega hvort doktorsnám ætti að fara fram í öllum deildum. Í öðru lagi væri ónóg virkni framhaldsnema í sumum deildum áhyggjuefni. Fyrir þessu væru margar og ólíkar ástæður. Helsta ytri ástæðan virtist vera sú að margir framhaldsnemar ættu ekki annars úrkosti til að sjá sér farborða meðan á námi stæði en að stunda tímafreka launavinnu. Þetta væri nokkuð sem Háskólinn réði ekki við einn og óstuddur, heldur væri hann háður ytri stuðningi. Mikilvægasta innri ástæðan fyrir ónógri virkni framhaldsnema væri bág námsaðstaða í Háskólanum. Til þess að nemendur gætu helgað sig náminu og náð tilsettum árangri yrðu þeir að geta unnið sem allramest í skólanum. Þetta mál væri órjúfanlega tengt húsnæðismálum Háskólans, sem voru til umfjöllunar fyrr á fundinum.
Að kynningu lokinni gaf rektor orðið laust til almennrar umræðu.

Í umræðunni kom m.a. fram að virkni nemenda í framhaldsnámi væri afar misjöfn eftir deildum og að Háskólinn þyrfti að afla sér frekari vitneskju um ástæðurnar fyrir ónógri virkni og brottfalli nemenda úr framhaldsnámi þar sem það ætti sér stað. Á það var bent að aðsókn nemenda að einstökum greinum og virkni þeirra væri verulega háð almennu efnahagsástandi á hverjum tíma. Ýmsir fundarmenn lýstu núverandi stöðu framhaldsnáms við sínar deildir og komu með ábendingar um úrbætur í aðstöðumálum framhaldsnema. Til dæmis þyrfti að stórauka fjárframlag til framhaldsnámsins, efla aðstoðarmannasjóð og fjölga styrkjum, auka bókakost og rafrænar áskriftir að tímaritum, fjölga kennurum og auka þátttöku framhaldsnema í kennslu. Einnig var bent á mikilvægi þess að fjölga erlendum nemum í framhaldsnámi við Háskólann. Þá komu fundarmenn með fjölmargar ábendingar um orðalag og einstök efnisatriði í skýrslunni. Að lokinni umræðu kynnti rektor tillögu deildarforseta að samþykkt háskólafundar í kjölfar umræðu um skýrslu um framhaldsnám við Háskóla Íslands og drög að áætlun til ársins 2005.

Háskólafundur hvetur rektor og háskólaráð til að vinna áfram að fyrirliggjandi skýrslu um framhaldsnám við Háskóla Íslands og fylgja eftir drögum að áætlun um uppbyggingu þess til ársins 2005. Jafnframt er hvatt til þess að rektor kynni áætlun Háskóla Íslands ítarlega fyrir almenningi og stjórnvöldum.

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.

- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, þau Rögnvaldur Ólafsson, Vilhjálmur Árnason, Valdimar K. Jónsson, Snjólfur Ólafsson, Gísli Már Gíslason, Rannveig Traustadóttir, Guðmundur Georgsson, Gylfi Magnússon, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Dagný Jónsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Jón Atli Benediktsson, Jón Torfi Jónasson, Eiríkur Jónsson, Þórlindur Kjartansson, Ágústa Guðmundsdóttir og Baldvin Þór Bergsson.

  • Kl. 15:50 - Dagskrárliður 3.1

Tillaga stúdenta til ályktunar um eflingu framhaldsnáms

Fyrir fundinum lá svohljóðandi tillaga stúdenta til ályktunar um eflingu framhaldsnáms:

Háskólafundur leggur áherslu á að við uppbyggingu framhaldsnáms verði í auknum mæli hugað að úrlausnum á aðstöðumálum framhaldsnema svo og bókakosti. Á ráðstefnu um rannsóknir sem Stúdentaráð stóð nýverið fyrir kom skýrt fram að þessi tvö mál eru forgangsmál til að unnt verði að efla enn frekar framhaldsnám við Háskólann.
Framhaldsnemum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og bættur aðgangur að bókum og tímaritum verður sífellt mikilvægari. Háskólafundur mælist til þess að yfirmenn Háskólans leiti allra leiða til að auka bóka- og ritakaupakostinn með sérstakri áherslu á rafrænar áskriftir.

Rektor gaf orðið laust til almennrar umræðu. Enginn tók til máls undir þessum lið.

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.

- Samþykkt samhljóða.

Í lok fundarins tilkynnti rektor að samþykktir háskólafundar 16. og 17. nóvember 2000 yrðu settar á netið þegar í næstu viku og ítarleg fundargerð fljótlega í kjölfarið. Þá beindi rektor þeirri ósk til fundarmanna að þeir veltu því fyrir sér hvaða lærdóm mætti draga af þeim þremur háskólafundum sem haldnir hefðu verið og kæmu á framfæri við sig hugmyndum og ábendingum þar um. Ef til vill væri ástæða til að halda háskólafund tíðar, t.d. með því að bæta við hálfs dags fundi í lok febrúar, þar sem tekin yrðu fyrir mál á borð við umhverfisstefnu Háskólans og stefnu Háskólans í alþjóðasamskiptum.

Að endingu þakkaði rektor öllum þeim sem unnu að undirbúningi fundarins. Þá þakkaði hann fundarmönnum fyrir fundinn og málefnalega umræðu.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16:00

Að loknum fundi bauð rektor fundarmönnum upp á léttar veitingar.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á háskólafundi 16. og 17. nóvember 2000:

1.    Dagskrá háskólafundar 16. og 17. nóvember 2000.
2.    Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3.    Drög að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands.
4.    Drög að tillögu um málsmeðferð stefnumótunarstarfs.
5.    Stefna Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum.
6.    Umhverfisstefna Háskóla Íslands
7.    Tillaga stúdenta til ályktunar um eflingu framhaldsnáms.
8.    Tillaga stúdenta til ályktunar um fjárveitingar til Háskóla Íslands.
9.    Tillaga rektors til ályktunar um fjárveitingar til Háskóla Íslands, er komi í stað framkominnar tillögu stúdenta um sama efni.
10.    Viðaukatillaga 1 frá stúdentum við tillögu rektors til ályktunar um fjárveitingar til Háskóla Íslands.
11.    Viðaukatillaga 2 frá stúdentum við tillögu rektors til ályktunar um fjárveitingar til Háskóla Íslands.
12.    Frestunartillaga stúdenta ásamt Jóni Torfa Jónassyni við viðaukatillögu frá stúdentum við tillögu rektors til ályktunar um fjárveitingar til Háskóla Íslands.
13.    Tillaga stúdenta til ályktunar um byggingaframkvæmdir við Háskóla Íslands.
14.    Breytingartillaga deildarforseta við tillögu stúdenta til ályktunar um byggingaframkvæmdir við Háskóla Íslands.
15.    Tillaga stúdenta til ályktunar um úrbætur í aðgengismálum fatlaðra.
16.    Tillaga rektors að samþykkt háskólafundar um úrbætur í aðgengismálum fatlaðra, er komi í stað framkominnar tillögu stúdenta um sama efni.
17.    Sameiginleg tillaga rektors og stúdenta til ályktunar um úrbætur í aðgengismálum fatlaðra.
18.    Tillaga deildarforseta að samþykkt háskólafundar í kjölfar umræðu um skýrslu um framhaldsnám við Háskóla Íslands og drög að áætlun til ársins 2005.
19.    Tillaga háskólaráðs að breytingu á 10. gr. reglugerðar um Háskóla Íslands nr. 458/2000.
20.    Ósk háskólaráðs um umsögn sbr. bréf Þórðar Kristinssonar, kennslustjóra.
21.    Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2000-2004.