Skip to main content

Háskólaráðsfundur 13. september 2012

08/2012

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2012, fimmtudaginn 13. september var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 11.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Jakob Ó. Sigurðsson), Kristinn Andersen, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

1.    Nýskipað háskólaráð Háskóla Íslands boðið velkomið.
Rektor bauð nýskipað háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2012-2014 hjartanlega velkomið til starfa.

2.    Kynning á skipulagi og starfi Háskóla Íslands og hlutverki háskólaráðs.
Rektor fór yfir stjórnkerfi, skipulag, stefnu, hlutverk og starfsemi Háskóla Íslands og hlutverk háskólaráðs. Rætt verður um starfsreglur og starfsáætlun fyrir komandi vetur á næsta fundi.

3.    Kjör varaforseta háskólaráðs, sbr. 4. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Rektor bar upp tillögu um að Börkur Hansen, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs og fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði, verði varaforseti ráðsins fyrir tímabilið 2012-2014.
- Samþykkt einróma.

4.    Fjármál:
a)    Fjárhagsstaða Háskóla Íslands eftir fyrstu sjö mánuði ársins 2012.
Fyrir fundinum lá yfirlit um rekstur Háskóla Íslands á tímabilinu frá janúar til júlí 2012. Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir yfirlitinu. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og Jenný Bára spurningum ráðsmanna.

b)    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013.
Þau Guðmundur og Jenný Bára gerðu grein fyrir framlögðu minnisblaði um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 og áætlaðar fjárveitingar til Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor, Guðmundur og Jenný Bára framkomnum spurningum og athugasemdum.

c)    Málefni Háskólabíós.
Fyrir fundinum lá minnisblað til háskólaráðs um málefni fasteignarinnar Háskólabíó. Guðmundur og Jenný Bára gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Rektor bar upp svohljóðandi tillögu að bókun:

“Fyrirhuguð sala Sáttmálasjóðs á fasteigninni Háskólabíói til Háskóla Íslands hefur verið til umræðu hjá háskólaráði og á síðastliðnu ári var óskað eftir því að Háskóli Íslands fengi heimild í fjárlögum árið 2012 til að kaupa fasteignina. Málið hefur verið unnið í samráði við fjármálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    
Háskólaráð veitir hér með rektor Háskóla Íslands og stjórn Háskólabíós heimild til að gæta hagsmuna Sáttmálasjóðs vegna fyrirhugaðrar sölu á fasteigninni Háskólabíói til Háskóla Íslands. Fjármálaráðuneytið mun árita kaupsamning fyrir hönd Háskóla Íslands sem kaupanda fasteignarinnar. Kaupin eru í samræmi við heimild Alþingis í 6. gr. fjárlaga árið 2012, en þar er Háskóla Íslands veitt heimild til að semja við Sáttmálasjóð um kaupin.

Við uppgreiðslu lána verði þess gætt að setja fyrirvara um mögulega endurgreiðslu leiði endurútreikningur til lækkunar lána.”

- Samþykkt einróma.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 13.30.