Skip to main content

Háskólaráðsfundur 13. nóvember 2014

10/2014

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2014, fimmtudaginn 13. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 09.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Davíð Þorláksson (varamaður fyrir Áslaugu Maríu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Iðunn Garðarsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir og Tómas Þorvaldsson. Orri Hauksson og Stefán Hrafn Jónsson boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Rektor vakti athygli á því að liður 6b í dagskrá fundarins er hluthafafundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 13. nóvember 2014. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.

Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan. 

a) Rektor minntist Ingjaldar Hannibalssonar, prófessors, sem lést 25. október sl. fyrir aldur fram. Útför hans fer fram frá Hallgrímskirkju í dag og af þeim sökum var fundi háskólaráðs flýtt. 

b) Rektor sat fund framkvæmdastjórnar og forstjóra Landspítalans 6. október sl.

c) Hinn 14. október sl. var haldinn fundur með matsnefnd á vegum NordForsk vegna framtíðar fjármögnunar Norrænu eldfjallastöðvarinnar. 

d) Forsætisráðherra ritaði rektor bréf 24. október sl. þar sem tilkynnt var um skipun starfshóps til að vinna áætlun um framlög í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands fyrir árin 2016-2020, sbr. lið 7b. 

e) Nýrri fundaröð Háskóla Íslands undir heitinu “Vísindi á mannamáli” var hleypt af stokkunum 21. október sl. Fyrsta erindið hélt Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor við Læknadeild, en næsta erindi flytur Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild 18. nóvember nk. 

f) Rektor sótti stjórnarfund Samtaka evrópskra háskóla, EUA, í Helsinki 24.-25. október sl. Á fundinum vær einkum rætt um hvernig samtökin geri sem best þjónað evrópskum háskólum í framtíðinni. 

g) Hinn 31. október sl. var haldinn fundur stjórnenda Háskóla Íslands með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um framkvæmd samnings um kennslu og rannsóknir. 

h) Hinn 1. nóvember sl. var haldið í Hátíðasal málþing um Einar Benediktsson í tilefni af 150 ára afmæli skáldsins

i) Rektor flutti fyrirlestur um framtíð háskóla í boði Vísindaráðs Austurríkis 6. nóvember sl. 

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a) Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Staða mála.

b) Kjaraviðræður Félags prófessora og fjármálaráðuneytis. Staða mála.

c) Erindi frá SHÍ vegna skrásetningargjalds, ásamt umsögn lögfræðings Háskóla Íslands. 

Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og gerði grein fyrir þróun tekna Háskóla Íslands og stöðu mála varðandi fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2015. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spuringum ráðsmanna. Fulltrúar stúdenta greindu frá því að fulltrúar í Stúdentaráði Háskóla Íslands hefðu fundað með fjárlaganefnd Alþingis 6. nóvember sl. og lýst áhyggjum sínum af fjárhagslegri stöðu Háskóla Íslands, hvort sem miðað er við aðra háskóla á Norðurlöndum eða önnur skólastig á Íslandi. 

Þá greindi Guðmundur frá stöðu mála varðandi yfirstandandi kjaraviðræður Félags prófessora og fjármálaráðuneytis. Málið var rætt og svöruðu rektor og Guðmundur spurningum ráðsmanna. 

Að umræðu lokinni bar rektor upp svohljóðandi tillögu að ályktun:

„Félagsmenn í Félagi prófessora við ríkisháskóla (FPR) hafa samþykkt í atkvæðagreiðslu boðun verkfalls er hefjist á miðnætti mánudaginn 1. desember nk. og geti staðið til miðnættis mánudaginn 15. desember nk. Stjórn FPR mun á næstu dögum taka afstöðu til þess hvort af verkfalli verður.

Fyrir liggur að ef samningar takast ekki og til tímabundins verkfalls kemur á próftímabilinu í desember nk. mun það leiða til mjög mikillar röskunar á skólastarfinu og koma í senn niður á námi stúdenta og skipulagi skólastarfsins. Ekki verða haldin próf í desember í námskeiðum sem prófessorar koma að og ekki ljóst á þessari stundu hver afleiðing af því getur orðið.  Yfirvofandi verkfall veldur því mikilli óvissu fyrir háskólann og stúdenta. 

Háskólaráð hvetur báða samningsaðila, Félag prófessor við ríkisháskóla og stjórnvöld, að grípa til allra tiltækra ráða til þess að ljúka samningum svo ekki komi til verkfalls. Háskólinn mun fyrir sitt leyti gera allt sem í hans valdi stendur til að vinna að lausn málsins.“

Varðandi 2c greindi rektor frá framlögðu erindi frá Stúdentaráði Háskóla Íslands og umsögn lögfræðings Háskóla Íslands sem lá fyrir fundinum. Fulltrúar stúdenta skýrðu erindið og ástæður þess. Málið var rætt ítarlega. 

– Háskólaráð staðfestir niðurstöðu álits lögfræðings háskólans varðandi frávísun erindis Stúdentaráðs um skrásetningargjöld. 

3. Úttekt á Háskóla Íslands skv. áætlun Gæðaráðs íslenskra háskóla. Sjálfsmatsskýrsla Háskóla Íslands. Afgreiðsla í kjölfar Háskólaþings 4. nóvember sl.

Fyrir fundinum lágu lokadrög að sjálfsmatsskýrslu Háskóla Íslands, skv. áætlun Gæðaráðs íslenskra háskóla, sem sjálfsmatshópur Háskóla Íslands og gæðanefnd háskólaráðs höfðu umsjón með. Fyrri drög voru kynnt og rædd á háskólaþingi 4. nóvember sl. og komu þar fram fjölmargar gagnlegar ábendingar sem sjálfsmatshópurinn og gæðanefnd tóku mið af við gerð fyrirliggjandi lokadraga. Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskóla Íslands, gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fulltrúar í háskólaráði lýstu ánægju sinni með sjálfmatsskýrsluna og þá samstöðu sem náðst hefur um hana innan háskólans. Eiríkur Rögnvaldsson lagði til að bætt verði við umfjöllun um tungumál Háskóla Íslands og málstefnu skólans í tengslum við gæðamál. Ebba Þóra Hvannberg lagði til að við úrvinnslu aðgerðaráætlunar sjálfsmatsskýrslunnar verði lagt mat á kostnað vegna hennar og hugað að tengslum hennar við Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands. Rektor þakkaði fulltrúum í sjálfsmatshópi háskólans, gæðanefnd háskólaráðs og öðrum sem að málinu hafa komið fyrir framlag þeirra.

– Háskólaráð staðfestir lokadrög að sjálfsmatsskýrslu Háskóla Íslands og felur sjálfsmatshópi háskólans og gæðanefnd háskólaráðs að ganga frá endanlegri skýrslu með hliðsjón af ábendingum ráðsins. 

4. Mat á sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar. Skýrsla ytri matshóps.

Í starfsáætlun háskólaráðs 2013-2014 var m.a. kveðið á um að lagt yrði mat á árangur sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar, en háskólarnir sameinuðust formlega 1. júlí 2008 skv. lögum nr. 37/2007. Á fundi háskólaráðs 16. janúar sl. var samþykkt áætlun um framkvæmd matsins og fól ráðið rektor að skipa sjálfsmatshóp og ytri matshóp til að annast matið. Gert var ráð fyrir að þegar niðurstöður matsins lægju fyrir yrði hún kynnt og rædd í háskólaráði og tekin ákvörðun um eftirfylgni með matinu. Fyrir fundinum lá skýrsla ytri matshópsins sem skipaður var þremur erlendum og einum innlendum sérfræðingi. Inn á fundinn kom Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, og gerði grein fyrir helstu niðurstöðum matsins. Málið var rætt ítarlega og svaraði Jóhanna spurningum og athugasemdum fulltrúa í háskólaráði. 

- Samþykkt einróma að fela forseta Menntavísindasviðs og rektor að leggja fram fyrir næsta fund háskólaráðs tímasetta aðgerðaráætlun um eftirfylgni með ytri matsskýrslu um árangur sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar.

5. Drög viljayfirlýsingar um samstarf á sviði sameindavísinda. 

Inn á fundinn komu Hilmar B. Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., og Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri félagsins. Fyrir fundinum lágu drög að viljayfirlýsingu Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og Alvotech hf. Hilmar gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. 

– Samþykkt einróma. 

6. Bókfærð mál.

a) Reglur um vinnumatssjóð Félags háskólakennara vegna rannsókna (voru samþykktar sem hluti viðauka við stofnanasamning HÍ og Fh, 8. maí sl.)

b) Hluthafafundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 13. nóvember 2014. 

Rektor setti fundinn og skipaði fundarritara háskólaráðs sem ritara fundarins. Fyrir fundinum lá bréf framkvæmdastjóra Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., dags. 7. nóvember 2014, ásamt tillögu um staðfestingu á eldri ákvörðunum félagsins sem gerðar hafa verið frá árinu 2008 og sem lágu fyrir fundinum. 

–Tillaga um staðfestingu á eldri ákvörðunum Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf. samþykkt. Engin önnur mál voru borin upp. Hluthafafundi Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 13. nóvember 2014 slitið. 

7. Mál til fróðleiks.

a) Skýrsla HÍ til mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands haustið 2014.

b) Bréf forsætisráðherra til háskólarektors, dags. 24. október sl., um skipun starfshóps til að vinna áætlun um framlög í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands fyrir árin 2016-2020.

c) Grein eftir dr. Kristínu Ingólfsdóttur um vefkennslu í tímaritinu Proceedings of the IEEE: "Impact of MOOCs and other forms of online education."

d) Ný skýrsla frá samtökum evrópskra háskóla (EUA) – "Rankings in Institutional Strategies and Processes (RISP): Impact or Illusion?"

e) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, október 2014.

f) Hugskeyti, fréttabréf Hugvísindasviðs, október 2014.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 11.50.