Skip to main content

Háskólaráðsfundur 14. mars 2013

03/2013

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2013, fimmtudaginn 14. mars var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hulda Proppé (varamaður fyrir Þorfinn Skúlason), Kristinn Andersen, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. Jakob Ó. Sigurðsson boðaði forföll og varamaður hans einnig.

Rektor bauð fulltrúa í háskólaráði velkomna og setti fundinn. Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast þau því staðfest. Ebba Þóra Hvannberg tók ekki þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 6a.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Viljayfirlýsing lyfjaþróunarfyrirtækisins Alvogen og Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. um faglegt samstarf og mögulega byggingu lyfjaþróunarseturs á lóð Vísindagarða við Sturlugötu var undirrituð 13. febrúar sl., sbr. dagskrárlið 7a. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að samningar sem kunna að verða gerðir í framhaldinu eru háðir samþykki háskólaráðs og verður málið því væntanlega áfram á dagskrá ráðsins. Þá hefur Reykjavíkurborg lýst yfir áhuga á að gerast aðili að Vísindagarðaverkefninu, en við vísindagarða erlendis er algengt að viðkomandi borgir komi að málum.
b) Hinn 13. febrúar sl. var haldinn fyrirlestur í röðinni „Fyrirtæki verður til“. Að þessu sinni kynnti Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP, fyrirtækið fyrir fullu húsi í Öskju.
c) Brautskráning kandídata fór fram í Háskólabíói 23. febrúar sl. Að þessu sinni brautskráðust 467 kandídatar, 284 úr grunnnámi og 183 úr framhaldsnámi.
d) Kennslumálanefnd, gæðanefnd, Stúdentaráð og Kennslumiðstöð gengust fyrir fjölsóttu málþingi um fjölbreytta kennsluhætti og gæði náms og kennslu í Hátíðasal 1. mars sl.
e) Háskóladagurinn var haldinn í húsakynnum Háskóla Íslands 9. mars sl. og heimsótti fjöldi fólks háskólann til að fræðast um námsframboð og starfsemi skólans. Í tilefni af Háskóladeginum kom út Tímarit Háskóla Íslands, sbr. dagskrárlið 7k.
f) Sama dag var tilkynnt að verkefnið SARdrones hefði sigrað í frumkvöðlakeppni Innovit, „Gulleggið“. Verðlaunin hlaut fyrirtækið fyrir þróun ómannaðs leitarloftfars og hugbúnaðar til að aðstoða björgunarsveitir við leitar- og björgunarstörf. Aðstandendur verkefnisins eru nemendur í verkfræði við Háskóla Íslands ásamt fleirum.
g) Fyrsta skóflustunga að nýju Húsi íslenskra fræða var tekin af mennta- og menningarmálaráðherra við formlega athöfn 11. mars sl. Í húsinu verður Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (70%) og aðstaða fyrir kennslu og rannsóknir Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands (30%). Ríkissjóður mun leggja til 70% byggingarkostnaðar og Háskóli Íslands 30% gegnum Happdrætti Háskóla Íslands.
h) Rektor sótti fyrir skömmu fund Samtaka rektora norrænna háskóla (NUS) annars vegar og fund American Council on Education (ACE) hins vegar. Á báðum fundum var mikið rætt um svonefnd MOOC (e. Massive Open Online Courses) sem eru opin og ókeypis vefnámskeið og gerði rektor grein fyrir því helsta sem fram hefði komið. Háskólaráð skipaði fyrir nokkru starfshóp til að gera tillögur um hvernig Háskóli Íslands getur fært sér í nyt slíkar nýjungar á sviði kennslu og verða tillögurnar væntanlega kynntar á fundi ráðsins í maí nk.
i) Föstudaginn 15. mars nk. verður haldið í Hátíðasal málþing á vegum Sagnfræðistofnunar í framhaldi af útgáfu Aldarsögu Háskóla Íslands 1911-2011 og ber það yfirskriftina „Háskóli Íslands í 100 ár. Fortíð – samtíð – framtíð“.
j) Fimmtudaginn 21. mars nk. verður haldinn í Sandgerði ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
a) Ársuppgjör Háskóla Íslands 2012.

Fyrir fundinum lágu drög að ársuppgjöri Háskóla Íslands fyrir árið 2012. Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir málinu.

b) Fjárlagagerð 2014.
Fyrir fundinum lágu drög að erindi Háskóla Íslands til mennta- og menningarmálaráðherra vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2014. Guðmundur og Jenný gerðu grein fyrir málinu og var það rætt. Fram komu ýmsar ábendingar sem tekið verður mið af við frágang erindisins.

Kristinn Andersen vék af fundi.

c) Um stjórnunarstörf sem metin verði sérstaklega til lækkunar kennsluskyldu kennara í Félagi háskólakennara, sbr. fund ráðsins 10. janúar sl.
Guðmundur gerði grein fyrir yfirstandandi vinnu við mat á sérstöku stjórnunarframlagi kennara í Félagi háskólakennara til lækkunar kennsluskyldu, sbr. fund háskólaráðs 10. janúar 2013.

d) Nýliðunarsjóður Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands. Undirbúningur úthlutunar.
Jón Atli Benediktsson greindi frá stöðu mála varðandi undirbúning úthlutunar úr Nýliðunarsjóði Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Jón Atli spurningum og athugasemdum ráðsmanna.

e) Fjárfestingarstefna Styrktarsjóða Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá minnisblað um endurskoðun fjárfestingarstefnu Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Inn á fundinn kom Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild og formaður stjórnar Styrktarsjóða Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

3. Stofnun Rannsóknasetra Háskóla Íslands. Viðauki 3 með samningi mennta- og menningarmálaráðuneytis um kennslu og rannsóknir Háskóla Íslands 2012-2016.
Fyrir fundinum lágu drög að viðauka við samning mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Háskóla Íslands um Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði ásamt rektor grein fyrir málinu.
- Háskólaráð gerir ekki athugasemdir við drög að viðauka við samning mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Háskóla Íslands um Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands, en ráðgert er að samningurinn verði undirritaður á ársfundi Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 21. mars nk.

4. Drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum (e. Open Access), sbr. fund ráðsins 3. maí 2012. Staða mála. Fyrir fundinum lá samantekt umsagna um drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum. Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Fram kom að málið verður á dagskrá háskólaþings 19. apríl nk.

5. Kennslumálanefnd háskólaráðs. Róbert H. Haraldsson, prófessor, formaður nefndarinnar kemur á fundinn og fjallar um störf og skipan nefndarinnar, möguleg aðgangspróf, aðgangsviðmið o.fl.
Inn á fundinn kom Róbert H. Haraldsson, prófessor, formaður kennslumálanefndar háskólaráðs, og gerði ítarlega grein fyrir störfum nefndarinnar, þ. á m. mögulegu aðgangsprófi fyrir háskólastigið. Málið var rætt og svaraði Róbert spurningum og athugasemdum ráðsmanna.

6. Bókfærð mál.
a) Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet).

- Staðfest að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet) næsta starfsár verði áfram skipuð Þórði Kristinssyni, sviðsstjóra kennslusviðs, Sæþóri L. Jónssyni, forstöðumanni Reiknistofnunar Háskóla Íslands, Ebbu Þóru Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Varamenn verði Sigurður Jónsson, forstöðumaður Smiðju og tölvumála Menntavísindasviðs, Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, og Fjóla Jónsdóttir, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

b) Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf.
- Staðfest að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf. næsta starfsár verði áfram Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og Sæunn Stefánsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu rektors. Varamenn verði Brynhildur Davíðsdóttir, dósent við Hagfræðideild á Félagsvísindasviði og Líf- og umhverfisvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, og Hjálmtýr Hafsteinsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

c) Skipan Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala.
- Staðfest að fulltrúar í Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala næstu þrjú ár verði áfram Kristján Leósson, vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, formaður, Sigríður Ólafsdóttir, lífefnafræðingur (tilnefnd af rektor Háskóla Íslands) og Torfi Magnússon, læknir (tilnefndur af forstjóra Landspítala).

d) Tillaga Félagsvísindasviðs um breytingu á 84. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Varðar náms- og starfsráðgjöf, að felld verði úr reglum sjálfstæð 60 eininga diplómanámsleið í náms- og starfsráðgjöf.
- Staðfest.

e) Tillaga Félagsvísindasviðs um fjöldatakmörkun í meistaranám í þjóðfræði í Félags- og mannvísindadeild háskólaárið 2013-2014, ásamt viðeigandi breytingum á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands.
- Tillaga Félagsvísindasviðs um að fjöldi nemenda sem teknir verða inn í MA-nám í þjóðfræði við Félags- og mannvísindadeild verði takmarkaður við 15 háskólaárið 2013-2014, staðfest ásamt viðeigandi breytingum á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands.

7. Mál til fróðleiks.
a) Viljayfirlýsing Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og Alvogen, dags. 13. febrúar 2013.
b) Ársskýrsla Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss fyrir árið 2012.
c) Ársskýrsla Háskólasjóðs h/f Eimskipafélags Íslands fyrir árið 2012.
d) Ræða rektors við brautskráningu kandídata 23. febrúar 2013.
e) Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þjóðminjasafn Íslands nr. 140/2011 (samstarf við Háskóla Íslands), þingskjal 996 - 583. mál.
f) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, febrúar 2013.
g) Málþing kennslumálanefndar, gæðanefndar, Stúdentaráðs og Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands um fjölbreytta kennsluhætti, 1. mars 2013.
h) Ársskýrsla verkefnisstjórnar Uglu 2012.
i) Skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni: Verktakagreiðslur við Háskóla Íslands (2010), útg. í mars 2013.
j) Frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þingskjal 1096 - 630. mál.
k) Tímarit Háskóla Íslands, útg. 9. mars 2013.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.50.