Skip to main content

Háskólaráðsfundur 13. júní 2013

06/2013

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2013, fimmtudaginn 13. júní var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Jakob Ó. Sigurðsson og Kristin Andersen), Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Anna Rut Kristjánsdóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Þórður Kristinsson sem ritaði fundargerð.

Rektor bauð fulltrúa í háskólaráði velkomna og setti fundinn. Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan að til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast þau því staðfest.

Guðrún Hallgrímsdóttir óskaði eftir því að rætt yrði undir öðrum málum um flutning verkefna frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til forsætisráðuneytis, sbr. stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar (liður 8g). Var það samþykkt.

Áður en gengið var til dagskrár bar rektor undir fundinn tillögu um að dagskrárliðir yrðu teknir fyrir í annarri röð en í útsendri dagskrá. Var það samþykkt.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands
Rektor gerði grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Íslands er sérstakt ákvæði um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands sem kveður á um að fylgt verði ákvæðum samnings um sjóðinn sem komið var á fót árið 2011 í víðtækri sátt. Stjórnarsáttmálinn fylgir með til fróðleiks, sbr. dagskrárlið 8g.
b) Rektor átti fund með Illuga Gunnarssyni, nýskipuðum mennta- og menningarmálaráðherra, 11. júní sl. þar sem tækifæri gafst til þess að gera ráðherra grein fyrir helstu áherslumálum háskólans.
c) Rektor greindi frá því að búið væri að ganga frá ráðningu tveggja nýrra forseta fræðasviða sem taka við 1. júlí nk. til næstu fimm ára. Daði Már Kristófersson verður forseti Félagsvísindasviðs og tekur við af Ólafi Þ. Harðarsyni og Jóhanna Einarsdóttir tekur við sem forseti Menntavísindasviðs af Jóni Torfa Jónassyni. Sjá einnig dagskrárlið 8h.
d) Hinn 22. maí sl. var athöfn í Hátíðasal háskólans þar sem veittir voru 34 styrkir til doktorsnema og vísindamanna háskólans úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Einnig veittu styrki Isavia og Styrktarsjóður Ásrúnar Einarsdóttur, sbr. dagskrárlið 8d.
e) Rektor greindi frá því að tveir verkfræðingar sem staddir væru á þessum fundi ráðsins hefðu nýlega verið heiðraðir af Verkfræðingafélagi Íslands. Hinn 30. maí sl. var Jón Atli Benediktsson, prófessor og aðstoðarrektor vísinda og kennslu, kjörinn rafmagnsverkfræðingur ársins og 7. júní sl. var Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur og fulltrúi í háskólaráði, heiðruð af kvennanefnd Verkfræðinga­félags Íslands fyrir brautryðjendastörf í verkfræði á sviði matvælaverkfræði. Guðrún er ein af fjórum fyrstu konum til að ljúka verkfræðiprófi, en hún lauk prófi í matvælaverkfræði árið 1968.
f) Hinn 26. maí sl. tók rektor þátt í hátíð á Laugarvatni í tilefni af  því að 80 ár eru liðin frá upphafi íþróttakennaramenntunar í landinu.
g) Guðbergur Bergsson, rithöfundur, var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði 1. júní sl. við hátíðlega athöfn í Hátíðasal í Aðalbyggingu í tengslum við málþing sem haldið var honum til heiðurs.
h) Árlegur fundur stjórnenda Háskóla Íslands með fulltrúum í Gæðaráði háskóla var haldinn föstudaginn 31. maí sl. Fulltrúar Gæðaráðsins sem þátt tóku í fundinum voru Norman Sharp, formaður, og Jean-Marie Hombert, fastur tengiliður ráðsins við Háskóla Íslands. Undirbúningur fyrir mat Gæðaráðsins á Háskóla Íslands í heild hefst á komandi hausti.
i) Samráðsfundur Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytis um framkvæmd samnings háskólans og ráðuneytisins um kennslu og rannsóknir 2012-2016 var haldinn 11. júní sl. Á fundinum var farið yfir helstu atriði samningsins og viðauka hans og stöðu einstakra mála. Næsti fundur er áætlaður í haust.
j) Brautskráning nemenda frá Alþjóðlegum jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna (GEST) fór fram 31. maí sl. í fyrsta sinn eftir að jafnréttisskólinn varð hluti af neti háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
k) Háskóli unga fólksins er nú starfræktur í 10. sinn og stendur yfir dagana 10.-14. júní. Nemendur hafa aldrei verið fleiri og eru þeir að þessu sinni um 350 talsins. Rektor, aðstoðarrektor og forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs taka þátt í kennslunni.
l) David Lidington, evrópumálaráðherra Bretlands mun halda opinn fyrirlestur í Hátíðasal 20. júní nk.
m) Árleg brautskráning kandídata fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 22. júní nk. Eins og verið hefur síðustu ár er athöfnin tvískipt og verða framhaldsnemar brautskráðir fyrir hádegið og grunnnemar eftir hádegið.
n) Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kemur til Íslands 2. júlí nk. Óskað hefur verið eftir því að hann heimsæki Háskóla Íslands. Dagskrá er ekki frágengin.

2. Fasteignin Sturlugata 8, 101 Reykjavík. Útfærsla ákvörðunar sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lá minnisblað varðandi kaup á fasteigninni Sturlugata 8, þar sem lagt er til að gengið verði frá kaupsamningi. Inn á fundinn komu Hilmar Bragi Janusson, formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. (VHÍ), Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri VHÍ og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs. Rektor rakti aðdraganda málsins sem hefur verið til umfjöllunar á tveimur síðustu fundum ráðsins og sagði frá viðbrögðum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Þeir Hilmar, Eiríkur og Guðmundur gerðu grein fyrir vinnu við útfærslu ákvörðunar um kaupin, m.a. lögfræðiálitum sem aflað hefur verið, samkomulagi vegna framsals forkaupsréttar milli Háskóla Íslands og VHÍ sem undirritað hefur verið af rektor Háskóla Íslands, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og eiganda fasteignarinnar Sturlugata 8, viðbrögðum fjármálaráðuneytis og fjármögnun, sem liggur fyrir í megindráttum. Málið var rætt ítarlega.
- Samþykkt einróma að Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf. gangi frá kaupsamningi á fasteigninni Sturlugata 8 á þeim forsendum sem fyrir liggja.

3. Greinargerð nefndar um störf háskólaráðs, dags. 21. maí 2013.
Fyrir fundinum lá nefndarálit um störf háskólaráðs á liðnum vetri. Börkur Hansen, formaður nefndarinnar, gerði grein fyrir álitinu. Hann rifjaði upp að á fundi háskólaráðs 1. nóvember 2012 voru samþykktar starfsreglur háskólaráðs Háskóla Íslands þar sem m.a. er kveðið á um að ráðið setji á laggirnar nefnd ár hvert til að leggja mat á störf þess. Meginmarkmiðið er að rýna vinnubrögð og leggja til umbætur þar sem þörf er talin á, sbr. erindisbréf dags. 27. mars 2013. Á fundi háskólaráðs 4. apríl sl. voru skipuð í nefndina þau Börkur Hansen (fulltrúi háskólasamfélagsins, formaður), Anna Rut Kristjánsdóttir (fulltrúi stúdenta), Margrét Hallgrímsdóttir (fulltrúi valinn af háskólaráði) og Þorfinnur Skúlason (fulltrúi valinn af mennta- og menningarmálaráðherra).
- Samþykkt einróma að stjórnsýslunni verði falið að fara yfir álitið og gera tillögu að uppfærslu starfsreglna ráðsins í ljósi umræðna. Málið verði á dagskrá á fyrsta fundi ráðsins í haust.

4. Skýrsla starfshóps háskólaráðs um vefstudda kennslu og nám, ásamt tillögum nefndarinnar, sbr. fund háskólaráðs 6. desember sl.
Háskólaráð samþykkti 6. desember 2012 að skipa starfshóp um vefstudda kennslu og nám. Inn á fundinn kom Hjálmtýr Hafsteinsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild og formaður starfshópsins, og gerði grein fyrir störfum hópsins, skýrslu sem hún hefur tekið saman og tillögum. Megintillögurnar eru að valin verði í tilraunaskyni 2-3 námskeið sem fyrir hendi eru á ólíkum fræðasviðum Háskóla Íslands (t.d. fjölmennir fyrirlestrar á grunnnámsstigi eða lesnámskeið á meistarastigi) og valin erlend opin netnámskeið felld inn í þau, að hluta eða í heild – og að Háskóli Íslands gangist fyrir því að framleidd verði í tilraunaskyni 2-3 opin netnámskeið á völdum sviðum. Eftir atvikum verði leitað samstarfs um framleiðsluna við fyrirtæki, rannsóknastofnanir eða aðra innlenda eða erlenda háskóla. Þá leggur nefndin til að skipuð verði verkefnisstjórn sem hafi umsjón með og fylgist með tilraununum skv. fyrrgreindum tillögum og dragi af þeim lærdóm, s.s. um áhrif notkunar opinna netnámskeiða á hlutverk kennara, námsárangur, kennslufræðilega þætti og kröfur um búnað, aðstöðu, sérfræðikunnáttu og kostnað. Málið var rætt ítarlega og svaraði Hjálmtýr fyrirspurnum. Að umræðu lokinni lagði rektor til að skipuð yrði verkefnisstjórn til að fylgja málinu eftir undir forystu Hjálmtýs, sem auk hans yrði skipuð þeim Guðrúnu Geirsdóttur, dósent og deildarstjóra Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands og Róberti H. Haraldssyni, prófessor og formanni kennslumálanefndar háskólaráðs.
- Samþykkt einróma.

5. Ársfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2012, skv. gr. 3.2 í samþykktum félagsins.
Rektor greindi frá því að undir þessum lið færi fram aðalfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. fyrir árið 2012, skv. gr. 3.2 í samþykktum félagsins. Allt hlutafé er í eigu Háskóla Íslands og háskólaráð vettvangurinn fyrir aðalfund þess. Inn á fundinn komu Hilmar B. Janusson, formaður stjórnar f.h. stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., og Eiríkur Hilmarsson framkvæmdastjóri.
Hilmar setti fundinn og óskaði eftir því að rektor tæki við fundarstjórn og að fundarritari háskólaráðs ritaði fundargerð. Var það samþykkt.

Samkvæmt gr. 3.2. í samþykktum félagsins eru eftirfarandi mál á dagskrá aðalfundar:
1. Stjórn félagsins skýrir frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári.
2. Ársreikningur ásamt athugasemdum endurskoðanda lagður fram til samþykktar.
3. Kosning stjórnar félagsins og endurskoðanda eða skoðunarmanna.
4. Ákvörðun um hvernig fara skal með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð.
5. Ákvörðun um greiðslur til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu.
6. Önnur mál löglega upp borin.

Dagskrárliður 1. Hilmar B. Janusson flutti skýrslu stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. fyrir starfsárið 2012. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Hilmar Bragi og Eiríkur framkomnum spurningum og athugasemdum.
- Samþykkt einróma.

Dagskrárliður 2. Fyrir fundinum lá ársreikningur félagsins fyrir árið 2012.
- Ársreikningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. fyrir árið 2012 samþykktur einróma án athugasemda.

Dagskrárliður 3. Fyrir fundinum lá tillaga um að stjórn félagsins yrði óbreytt til næsta hluthafafundar, sem haldinn skal eigi síðar en í haust (2013). Stjórnin er skipuð þeim Hilmari Braga Janussyni, sem er formaður, Ingjaldi Hannibalssyni, Magnúsi Tuma Guðmundssyni og Sigríði Ólafsdóttur.
- Samþykkt einróma.

Ríkisendurskoðun annast endurskoðun ársreiknings.
- Samþykkt einróma.

Dagskrárliður 4. Enginn hagnaður eða tap varð af rekstri félagsins og er því ekki gerð tillaga um meðferð hagnaðar eða taps eða um arð og framlög í varasjóð.

Dagskrárliður 5. Stjórnarmönnum verða sem fyrr ekki greidd laun.

Dagskrárliður 6. Fyrir fundinum lá tillaga stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. að breytingu á grein 1.3 í samþykktum félagsins. Í samþykktunum segir í grein 1.3. um tilgang félagsins: „Tilgangur félagsins er bygging vísindagarða á háskólalóðinni, endurbætur, rekstur og viðhald þeirra fasteigna og annar skyldur rekstur.“ Tillaga stjórnar Vísindagarða er að þessi grein verði ítarlegri og að starfsemi félagsins verði skilgreind í þágu almenningsheilla. Í 4. grein laga um tekjuskatt nr. 90/2003 segir að lögaðilar greiði ekki tekjuskatt ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Texti þessarar greinar skv. tillögu stjórnar VHÍ tekur mið af bindandi áliti ríkisskattstjóra um félög í fasteignarekstri. Meðal annars er fjallað um mikilvægi þess að í slíkum félögum þar sem hagnaður getur safnast upp, að ekki megi breyta þessari grein þannig að síðar verði hægt að greiða arð út úr félaginu eftir að hagnaður hefur safnast upp í félaginu og ekki verið ráðstafað til tiltekinna verkefna.

Stjórnin leggur til að grein 1.3. hljóði þannig:
„Tilgangur félagsins er að efla vísindarannsóknir og nýsköpun með því að skapa aðstæður til slíks í vísindagörðum á lóð Háskóla Íslands. Í því skyni er félaginu m.a. heimilt að byggja, kaupa, selja, leigja og reka fasteignir fyrir háskóla, fyrirtæki og stofnanir. Félaginu er heimilt að veita styrki eða lán, annast eignaumsýslu og eiga samstarf við einstaklinga, félagasamtök, sveitarfélög, ríkisstofnanir, enda sé slíkt gert í þágu tilgangs félagsins samkvæmt þessari grein og í þágu almenningsheilla. Hagnaði og eignum félagsins má einungis ráðstafa í þágu tilgangs félagsins eins og hann er skilgreindur í þessari grein og er óheimilt að breyta þessu ákvæði í samþykktum félagsins. Eigendum er óheimilt að taka hagnað eða arð út úr félaginu.“

Tillagan var rædd ítarlega og svöruðu Hilmar og Eiríkur fyrirspurnum.
- Samþykkt einróma.

Engin önnur mál voru borin upp.

Ársfundi Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2012 slitið.

6. Vísindanefnd háskólaráðs. Ármann Jakobsson, prófessor, staðgengill formanns nefndarinnar kemur á fundinn.
a) Störf vísindanefndar.
b) Viðmið við úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

- Frestað til næsta fundar.

7. Bókfærð mál.
a) Skipun formanns siðanefndar Háskóla Íslands.
Rektor leggur til að Garðar Gíslason, fyrrverandi hæstaréttardómari, verði formaður siðanefndar Háskóla Íslands til næstu þriggja ára eða til 30. júní 2016.
- Staðfest.

b) Tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Félagsráðgjafardeildar um þverfræðilegt diplómanám á meistarastigi í handleiðslufræðum sem fram fari á vettvangi Endurmenntunarstofnunar.
- Staðfest.

c) Tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Lagadeildar að breytingu á reglum Lagadeildar um BA-nám (90. og 91. gr. reglna HÍ nr. 569/2009).
- Staðfest.

d) Leiðbeiningar Háskóla Íslands fyrir sjálfsmat deilda, endurskoðuð útgáfa í maí 2013.
- Staðfest.

8. Mál til fróðleiks.
a) Fréttabréf Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, maí 2013.
b) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, maí 2013
c) Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, júní 2013.
d) Úthlutun doktorsstyrkja við Háskóla Íslands 22. maí 2013.
e) Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir árið 2013.
f)  Úthlutun úr Tækjakaupasjóði fyrir árið 2013.
g) Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins,  22. maí 2013.
h) Ráðning forseta Félagsvísindasviðs og forseta Menntavísindasviðs frá 1. júlí 2013.
i)  Umsóknir um nám í Háskóla Íslands háskólaárið 2013-2014.
j)  Jafnrétti í háskólum á Íslandi. Skýrsla Herdísar Sólborgar Haraldsdóttur, útg. mennta- og menningarmálaráðuneyti.
k) Stjórnsýsla fornleifarannsókna og fornleifaverndar á Íslandi 1990-2010. Skýrsla Bjarkar Birgisdóttur, útg. mennta- og menningarmálaráðuneyti.
l) Eftirfylgni með úttekt á námsbraut í fornleifafræði við Sagnfræði- og heimspekideild á Hugvísindasviði.
m) Samningur um aðgangspróf fyrir háskólastig (APH), undirritaður 3. júní sl.
n) Nefndir, stjórnir og ráð til næstu áramóta.
o) 
Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Matís, undirritaður 10. júní sl.

9.  Önnur mál.
a) Samstarfssamningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og Alvogen, sbr. viljayfirlýsingu dags 13. febrúar sl.

Fyrir fundinum lá minnisblað um drög að samningi milli Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. (VHÍ) og Alvogen Bio Tech. Hilmar Bragi Janusson, formaður stjórnar VHÍ og Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri VHÍ gerðu grein fyrir málinu. Á fundi háskólaráðs 7. febrúar sl. var greint frá því að samheitalyfjafyrirtækið Alvogen hefði áhuga á að skoða möguleika á að reisa lyfjaþróunarsetur á lóð Vísindagarða í Vatnsmýrinni. Viljayfirlýsing um faglegt samstarf og mögulega byggingu lyfjaþróunarseturs á lóð VHÍ, dags. 13. febrúar, var síðan lögð fram í háskólaráði 14. mars sl. Nú liggja fyrir drög að samningi og gerðu þeir Hilmar og Eiríkur grein fyrir helstu atriðum samningsdraganna og svöruðu fyrirspurnum. Málið var rætt ítarlega. Stjórn VHÍ óskar eftir heimild háskólaráðs til að ganga frá samningi við Alvogen Bio Tech á þeim forsendum sem fyrir liggja.
-Samþykkt einróma.

b) Um flutning verkefna frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til forsætisráðuneytis, sbr. stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar.
Guðrún Hallgrímsdóttir spurðist fyrir um það hvort samráð hefði verið haft við Háskóla Íslands eða aðrar stofnanir sem eru í nánu samstarfi við háskólann, s.s. Þjóðminjasafn Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslensku fræðum, um flutning verkefna til forsætisráðuneytis. Málið var rætt og kom fram að ekki væri ljóst hvernig þessu yrði nánar hagað. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, sem sæti á í háskólaráði, sagði frá fyrirhuguðum fundi með forsætisráðherra til að ræða málefni Þjóðminjasafns Íslands. Ráðsmenn töldu mikilvægt að Háskóli Íslands fylgdist vel með framvindunni.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.