Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 30. október 2008

14/2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, fimmtudaginn 30. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Friðrik H. Jónsson (varamaður Gunnlaugs Björnssonar), Gunnar Einarsson, Hilmar B. Janusson, Sigríður Ólafsdóttir, Steinunn Tómasdóttir (varamaður Sigrúnar Ingibjargar Gísladóttur), Valgerður Bjarnadóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

Áður en gengið var til dagskrár fór rektor stuttlega yfir verklag við undirbúning funda, útsendingu gagna og afgreiðslu fundargerða háskólaráðs.

1. Mál á dagskrá

1.1 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011 og helstu verkefni framundan.
Rektor fór yfir helstu atriði í Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og mikilvægustu verkefni framundan í starfi Háskólans. Hilmar B. Janusson skýrði frá stöðu mála og áformum varðandi Vísindagarða Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svaraði rektor spurningum ráðsmanna.

1.2 Hlutverk, starfshættir og verkefni háskólaráðs, sbr. síðasta fund.
- Frestað.

1.3 Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2009. Staða mála.
- Frestað.

1.4 Viðbrögð Háskólans við breyttum aðstæðum í samfélaginu.
Magnús Diðrik Baldursson greindi frá því að opnaður hefði verið nýr vefur um viðbrögð Háskóla Íslands við breyttum þjóðfélagsaðstæðum. Þar kemur m.a. fram að frestur til að sækja um grunn- og framhaldsnám við Háskóla Íslands hefur verið framlengdur til 15. desember nk.

1.5 Samstarf Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála og áformum varðandi samstarf Háskóla Íslands, Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar. Málið var rætt ítarlega og svaraði rektor spurningum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma að fela rektor að vinna áfram að þróun samstarfs við Íslenska erfðagreiningu í samráði við forstjóra fyrirtækisins, forstjóra Landspítala og lögfræðilega ráðgjafa Háskóla Íslands.

1.6 Styrkur European Research Council (ERC) til Háskóla Íslands.
Rektor greindi frá því að European Research Council (ERC) hefði ákveðið að veita dr. Bernhard Pálssyni veglegan styrk til að byggja upp rannsóknir á sviði kerfislíffræði við Háskóla Íslands. Nemur styrkupphæðin samtals 2,4 milljónum evra á fimm árum og rennur allur styrkurinn til Háskóla Íslands. Um merkan viðburð er að ræða því ERC berst mikill fjöldi öflugra styrkumsókna og er um 90% þeirra hafnað. Til að styrkveitingin nái fram að ganga þarf Háskólinn að veita mótframlag. Málið var rætt ítarlega og lýstu fulltrúar í háskólaráði ánægju með að svo merkur styrkur hafi fengist. Í Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 er kveðið á um að auka skuli mótframlög vegna mikilvægra rannsóknastyrkja og töldu ráðsmenn brýnt að Háskóli Íslands haldi áfram að hvetja kennara og vísindamenn til dáða við að sækja um alþjóðlega samkeppnisstyrki og veiti til þess stuðning.
- Samþykkt einróma að Háskóli Íslands veiti mótframlag vegna styrks ERC. Jafnframt verði hafin vinna við gerð almennra reglna um mótframlag Háskólans vegna stórra alþjóðlegra rannsóknastyrkja.

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Drög að reglum um aukastörf starfsmanna Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir framlögðum endurskoðuðum drögum að reglum um aukastörf akademískra starfsmanna Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og töldu ráðsmenn þarft framtak að setja slíkar reglur. Fram komu ýmsar ábendingar um minni háttar endurbætur á regludrögunum.
- Reglur um aukastörf starfsmanna Háskóla Íslands samþykktar einróma með nokkrum minniháttar breytingum sem fram komu á fundinum.

2.2 Skipan starfsnefnda háskólaráðs.
Rektor gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um starfsnefndir háskólaráðs og bar upp eftirfarandi tillögu um skipan þeirra:

Vísindanefnd verði skipuð þeim Helgu Ögmundsdóttur, prófessor við læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs, sem verði formaður (til eins árs), Allyson Macdonald, prófessor við uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs (til þriggja ára), Freysteini Sigmundssyni, vísindamanni við Jarðvísindastofnun Verkfræði- og náttúruvísindasviðs (til þriggja ára), Herdísi Sveinsdóttur, prófessor við hjúkrunarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs (til þriggja ára), Ingibjörgu Harðardóttur, prófessor við læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs (til eins árs), Jóhannesi R. Sveinssyni, prófessor við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs (til eins árs), Jóni Gunnari Bernburg, dósent við félags- og mannvísindadeild Félagsvísindasviðs (til þriggja ára), Svavari Hrafni Svavarssyni, dósent við sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs (til þriggja ára), og einum fulltrúa stúdenta sem komi úr hópi framhaldsnema og verði skipaður síðar. Einn fulltrúi af hverju fræðasviði er skipaður til þriggja ára. Formaðurinn er skipaður til eins árs og sama gildir um tvo viðbótarfulltrúa sem valdir eru af þeim fræðasviðum þar sem mestur umsóknarþungi er í Rannsóknasjóð Háskóla Íslands og Háskólasjóð Eimskipafélagsins.
- Samþykkt einróma.

Gæðanefnd verði skipuð þeim Jóni Atla Benediktssyni prófessor, aðstoðarmanni rektors og þróunarstjóra Háskólans, sem verði formaður, Bryndísi Brandsdóttur, vísindamanni við Raunvísindastofnun Háskólans, Berki Hansen, prófessor við kennaradeild Menntavísindasviðs, Gylfa Zoëga, prófessor við hagfræðideild Félagsvísindasviðs, Hólmfríði Garðarsdóttur, dósent við deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda Hugvísindasviðs, Ingileif Jónsdóttur, prófessor við læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs og einum fulltrúa stúdenta sem komi úr hópi framhaldsnema og verði skipaður síðar. Nefndin verði þannig skipuð til þriggja ára, þ.e. til 30. júní 2011.
- Samþykkt einróma.

Fjármálanefnd verði skipuð þeim Guðmundi R. Jónssyni, prófessor og sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs, sem verði formaður, Aðalheiði Jóhannsdóttur, dósent við lagadeild Félagsvísindasviðs, Guðrúnu Kristjánsdóttur, prófessor við hjúkrunarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs, Hannesi Jónssyni, prófessor við raunvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Vali Ingimundarsyni, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs og einum fulltrúa Menntavísindasviðs sem verði skipaður síðar. Varamenn verði Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Hugvísindasviðs, Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við stjórnmálafræðideild Félagsvísindasviðs, Karl G. Kristinsson, prófessor við læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs og einn fulltrúi Menntavísindasviðs sem verði skipaður síðar. Nefndin verði þannig skipuð til 30. júní 2009.
- Samþykkt einróma.
Fulltrúi stúdenta óskaði eftir því að bókað yrði að stúdentar óska eftir því að fá fastan fulltrúa í fjármálanefnd háskólaráðs við skipun hennar frá 1. júlí 2009. Málið var rætt og fram komu skiptar skoðanir. Ákveðið að taka málið upp að nýju við skipan nýrrar nefndar frá 1. júlí 2009.

Jafnréttisnefnd verði skipuð þeim Brynhildi Flóvenz, dósent við lagadeild Félagsvísindasviðs, sem verði formaður, Arnfríði Guðmundsdóttur, prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Hugvísindasviðs, Karli Erni Karlssyni, lektor við tannlæknadeild Heilbrigðisvísindasviðs, Ólafi Páli Jónssyni, lektor við uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs, Rögnvaldi Ólafssyni, dósent við raunvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Unni Dís Skaptadóttur, prófessor við félags- og mannvísindadeild Félagsvísindasviðs og einum fulltrúa stúdenta sem verði skipaður síðar. Nefndin verði þannig skipuð til þriggja ára, þ.e. til 30. júní 2011.
- Samþykkt einróma.

Samráðsnefnd um kjaramál verði skipuð þeim Guðmundi R. Jónssyni, prófessor og sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs, sem verði formaður, Guðrúnu J. Guðmundsdóttur, sviðsstjóra starfsmannasviðs og Sigurði J. Hafsteinssyni, sviðsstjóra fjármálasviðs. Nefndin verði þannig skipuð til þriggja ára, þ.e. til 30. júní 2011.
- Samþykkt einróma.

Kennslumálanefnd verði sjö manna, skipuð formönnum kennslunefnda hinna fimm fræðasviða Háskólans, einum fulltrúa stúdenta tilnefndum af Stúdentaráði og formanni sem rektor skipar. Nefndin verði skipuð til þriggja ára, þ.e. til 30. júní 2011.
- Samþykkt einróma.

2.3 Drög að jafnréttisáætlun (sameinaðs) Háskóla Íslands 2008-2012.
- Frestað.

3. Mál til fróðleiks

3.1 Ræða rektors við brautskráningu kandídata 25. október 2008.

3.2 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands á sviði náms og kennslu.

3.3 Skipan háskólaráðs Háskóla Íslands frá 1. október 2008.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.