Skip to main content

Reglur nr. 1096-2008

Reglur um aukastörf akademískra starfsmanna Háskóla Íslands, nr. 1096/2008

með síðari breytingum

I. KAFLI

Gildissvið og meginreglur

1. gr.

Reglur þessar ná til akademískra starfsmanna Háskóla Íslands og stofnana hans sem eru í a.m.k. 50% starfi við Háskólann (hafa starfið að aðalstarfi).

Með akademískum starfsmönnum er í reglum þessum átt við háskólakennara, þ.e. prófessora, dósenta, lektora og vísindamenn, fræðimenn og sérfræðinga Háskóla Íslands og stofnana hans sem hafa með höndum sjálfstæðar vísindarannsóknir.

2. gr.

Starfsmaður skal rækja störf sín við Háskóla Íslands af metnaði og alúð og gæta trúnaðar við Háskólann í hvívetna. Starfsmaður skal gæta þess að störf hans utan Háskóla Íslands, hvort sem þau eru launuð eða ekki, samræmist faglegum skyldum hans í Háskólanum, þannig að ekki verði véfengt að ákvarðanir hans og athafnir í starfi samræmist reglum Háskólans og séu í þágu skólans. [Hið sama á við um störf sem rækt eru í þágu verkefna innan háskólans eða stofnana hans og eru ekki hluti af starfsskyldum viðkomandi starfsmanns.]1
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 541/2010.

II. KAFLI

Upplýsingaskylda

3. gr.

[Við ráðningu og árlega eftir það skal starfsmaður gera forseta þess fræðasviðs sem hann tilheyrir grein fyrir störfum og skuldbindingum sínum við fyrirtæki, stofnanir og aðra aðila innan og utan Háskólans á sérstöku eyðublaði.]1
1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 541/2010.

4. gr.

[Hyggist starfsmaður Háskólans taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila, sbr. 3. gr., taka sæti í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar, þá ber honum að skýra forseta þess fræðasviðs sem hann tilheyrir frá því áður en hann ákveður að taka við starfinu.]1 Telji forseti fræðasviðs tilgreinda starfsemi ósamrýmanlega starfi hans við Háskólann er starfsmanninum bannað að hafa hana með höndum, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Forseta fræðasviðs ber að tilkynna starfsmanni þetta innan tveggja vikna frá því hann móttekur erindi hans.
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 541/2010.

III. KAFLI

Helgun í starfi

5. gr.

Umfang starfa starfsmanns utan Háskólans má ekki vera slíkt að það komi niður á starfi hans við skólann.

6. gr.

Starfsmaður skal vera til staðar á vinnustað sínum í samræmi við eðli starfs síns og starfshlutfall. Á kennslumisserum skulu stúdentar hafa greiðan aðgang að kennara, annað hvort á auglýstum viðtalstíma eða eftir samkomulagi. Komi upp aðstæður þar sem starfsmaðurinn er fjarri vinnustað sínum í Háskólanum samtals í lengri tíma en þrjár vikur á misseri skal hann fá heimild forseta viðkomandi fræðasviðs til þess. Forseti fræðasviðs, að höfðu samráði við stjórn fræðasviðs, getur sett viðmiðunarreglur um styttri fjarvistir.

7. gr.

Háskólakennari í fullu starfi skal ekki taka að sér viðamikla kennslu eða fyrirlestrahald utan Háskólans nema gerður hafi verið samstarfssamningur um háskólakennslu við aðra stofnun með þátttöku kennarans eða með leyfi forseta fræðasviðs. [Hið sama á við um kennslu og fyrirlestrahald í endurmenntunarnámi sem metið er til eininga.]1
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 541/2010.

8. gr.

Ef í ljós kemur að verkefni starfsmanns og störf utan Háskóla Íslands eru svo umfangs­mikil að mati forseta fræðasviðs að starfsmaður uppfyllir ekki starfsskyldur sínar gagnvart Háskólanum getur forseti krafist þess að starfsmaður dragi úr verkefnum utan skólans eða gert við hann samkomulag um að starfshlutfall hans hjá Háskólanum verði minnkað.

IV. KAFLI

Hagsmunaárekstrar

9. gr.

Starfsmaður Háskólans sem á aðild að rannsóknarverkefnum skal merkja verkefnin Háskóla Íslands, sem og ritsmíðar sem á þeim byggjast. Starfsmaður í fullu starfi skal fela Háskólanum fjárhagslega umsýslu rannsóknarverkefna sem hann stýrir eða kemur að, en heimilt er að víkja frá því ef rannsóknarverkefni er unnið í samstarfi við aðila utan Háskólans.

10. gr.

Ef nemandi fær námsaðstöðu eða námstækifæri í fyrirtæki eða stofnun sem er stjórnað af eða er að hluta eða í heild í eigu starfsmanns Háskólans, nánustu fjölskyldu hans eða nánustu vina, skal tryggja sérstaklega að nám og þjálfun nemandans hjá fyrirtækinu eða stofnuninni uppfylli akademískar kröfur og starf nemandans sé ekki háð fjárhagslegum hagsmunum kennarans, vina hans eða vandamanna. Fái nemandi námsaðstöðu eða námstækifæri af þessu tagi skal viðkomandi starfsmaður gera forseta fræðasviðs grein fyrir því.

11. gr.

Starfsmanni er óheimilt að nota vinnuaðstöðu sína við Háskólann í þágu ótengdrar starf­semi sem hann sinnir utan Háskólans, án sérstakrar heimildar forseta fræðasviðs. Með ótengdri starfsemi í þessu sambandi er átt við starfsemi sem ekki varðar rannsóknar- eða kennsluhlutverk Háskólans eða þá þjónustu sem skólinn veitir í krafti þekkingar sinnar. Forseti fræðasviðs getur heimilað starfsmanni að nýta vinnuaðstöðu sína til afmarkaðra verkefna utan skólans.

12. gr.

Starfsmaður Háskólans sem vegna starfs síns á aðild að úthlutun fjár til rannsókna innan eða utan skólans skal ekki eiga aðild að, eða taka þátt í, ákvörðun um styrkveitingu þegar hann sjálfur á í hlut eða nánir ættingjar eða nánir vinir hans. Gildir þá einu hvort um er að ræða faglega umsögn eða fjárhagslega afgreiðslu styrkumsóknar. Skal starfs­maður tilkynna hlutaðeigandi stjórn eða fagráði um hugsanlegt vanhæfi sitt og óska þess að vera undanþeginn umfjöllun og afgreiðslu umsóknarinnar. Um setu starfsmanns í dómnefnd um starf innan eða utan Háskólans og störf hans þar gilda vanhæfisreglur stjórnsýslulaga.

V. KAFLI

Eftirlit og gildistaka

13. gr.

Forseti fræðasviðs hefur eftirlit með að starfsmenn sviðsins fari eftir reglum þessum, meðal annars á grunni upplýsinga sem honum eru veittar samkvæmt ákvæðum II. kafla. Uni starfsmaður ekki ákvörðun forseta fræðasviðs samkvæmt reglum þessum getur hann skotið máli sínu til rektors.

14. gr.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði samkvæmt heimild í 5. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 3. nóvember 2008.