Skip to main content

Fundargerð 125. fundar

Háskólaráð Kennaraháskóla Íslands kom saman til 125. fundar mánudaginn 21. janúar 2008 kl. 15:00. Eftirtaldir sátu fundinn: Ólafur Proppé, Allyson Macdonald, Kristín Bjarnadóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Haukur Ingibergsson, Júlía Þorvaldsdóttir, Jóhanna Karlsdóttir, Kristján Jóhann Jónsson og Birna Hjaltadóttir


Gestir fundar:
Hanna Ragnarsdóttir aðstoðarrektor kennslu v/ 3. dagskrárliðar
Steinunn Halldórsdóttir, verkefnisstjóri sameiningar v/ 4. dagskrárliðar

Svanhildur Kaaber sat fundinn og ritaði fundargerð.

Dagskrá fundarins var svohljóðandi:

1.    Fundur settur og dagskrá kynnt
2.    Skýrsla rektors
3.     Kennsluskrá 2008-2009
4.    Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands
5.    Aldarafmæli
6.     Kennararáðningar
7.    Fundardagar háskólaráðs
8.    Önnur mál

1.    Fundur settur og dagskrá kynnt
Rektor setti fundinn og kynnti dagskrá hans.

2.    Skýrsla rektors
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum:
-    Alþingi hefur óskað eftir viðbrögðum við fjórum frumvörpum um skólamál, þ.e. um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og starfsréttindi. Rektor skipaði starfshóp sérfræðinga skólans á hverju sviði til að bregðast við frumvörpunum.
-    Rektor sagði frá því að í undirbúningi er stofnun rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum.
-    Rektor gerði grein fyrir styrkjum úr Rannsóknarsjóði, en kennarar við skólann fengu tvo styrki, alls að upphæð tæplega 10 milljónir.
-    Rektor sagði frá hugmyndum um heiðursdoktorsnafnbætur í tilefni af aldarafmæli skólans.
-    Rektor sagði frá því að menntamálaráðherra hefur óskað eftir hugmyndum um stefnumörkun í því hvernig brugðist verður við niðurstöðum PISA rannsókna. Rektor hefur falið Stefáni Bergmann og Guðmundi B. Kristmundssyni að undirbúa umræðu um viðbrögð skólans.
-    Rektor sat í liðinni viku fund með forsvarsmönnum menntasviðs Reykjavíkurborgar þar sem m.a. var rætt um lengingu kennaranáms og viðbrögð sveitarfélaga. Á fundinum kom einnig fram hugmynd um þjónustu- og þróunarstofnun fyrir grunnskóla í samvinnu skólans og menntasviðs borgarinnar.
-    Rektor sagði frá heimsóknum Kristínar Ingólfsdóttur háskólarektors sem mun sækja heim Bolholt/Skipholt í þessari viku og nokkru síðar húsin við Stakkahlíð/Háteigsveg.

3.     Kennsluskrá 2008-2009
Aðstoðarrektor kennslu gerði grein fyrir vinnu við kennsluskrá sameinaðs háskóla og dreifði yfirliti yfir námsleiðir á hinu nýja menntavísindasviði. Einnig var dreift lýsingu á alþjóðlegu námi í menntunarfræði og lýsingu á M.Ed.-námi í heimspeki menntunar. Lýst var hugmyndum um námskeið og samvinnu við aðrar háskólastofnanir um þessar nýju námsleiðir.

Fram kom að engin vandamál hafa komið upp við sameiningu kennsluskráa utan nokkur tæknileg vandamál.

Háskólaráð staðfestir kennsluskrá næsta háskólaárs fyrir sitt leyti og þakkar aðstoðarrektor fyrir þessar upplýsingar.

4.    Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands
Rektor gerði grein fyrir því að fyrir liggur samþykkt um flutning kennslufræði, uppeldis- og menntunarfræði og tómstundafræði við núverandi félagsvísindadeild Háskóla Íslands á menntavísindasvið hins sameinaða skóla. Skal þeirri breytingu að fullu lokið vorið 2009.

Háskólaráð fagnaði þessari samþykkt enda hefur margoft komið fram á fundum háskólaráðs einlægur vilji til þess að umræddar greinar verði hluti af menntavísindasviði hins sameinaða háskóla.

Rektor sagði frá fundi í háskólaráði Háskóla Íslands sem haldinn var í síðustu viku en þar var rætt um sameiningu skólanna, framtíðarhúsnæði menntavísindasviðs og fleira. Á fundi háskólaráðs HÍ var samþykkt tillaga rektors HÍ um að rektor Kennaraháskóla Íslands verði áheyrnarfulltrúi á fundum háskólaráðs HÍ þar til nýtt háskólaráð sameinaðs háskóla verður skipað 1. júlí næstkomandi. Að auki mun Allyson Macdonald, varaforseti háskólaráðs Kennaraháskólans, sitja fundi þegar rætt er um málefni sameiningarinnar.

Háskólaráð Kennaraháskólans fagnar þessari samþykkt og telur hana mikilvægan stuðning við að sameiningarferlið gangi sem best.

Á fundi háskólaráðs Háskóla Íslands var einnig samþykkt einróma að unnið verði að því að menntavísindasvið flytji inn á lóð HÍ innan fimm ára. Hafnar verða viðræður við menntamálaráðuneyti um fjármögnun nýbygginga fyrir menntavísindasvið vestan Suðurgötu. Rætt verður við skipulagsyfirvöld í Reykjavík um að auka byggingarmagn á reit A1, sbr. deiliskipulag vestan Suðurgötu, dags. 1.5.2004. Einnig verða teknar aftur upp viðræður við skipulagsyfirvöld um byggingu og fjármögnun ganga undir Suðurgötu í því skyni að tengja saman austur- og vesturhluta háskólalóðar. Í fjórða lagi verður rætt við skipulagsyfirvöld um byggingarrétt HÍ á lóðinni milli Aðalbyggingar og Þjóðminjasafns.

Steinunn Halldórsdóttir, verkefnisstjóri sameiningar HÍ og KHÍ, kom á fundinn og sagði frá vinnu að sameiningarmálum.

Steinunn gerði grein fyrir skipulagi sameiningarverkefnisins en endanlegt markmið þess er að efla kennaramenntun í landinu, efla rannsóknir í menntavísindum og bæta stoðþjónustu í hinum sameinaða Háskóla Íslands. Hún gerði einnig grein fyrir tæknilegum og fjármálalegum hindrunum sem verður að yfirstíga. Fram kom m.a. að enn hafa stöður forseta fræðasviða ekki verið auglýstar. 

Steinunn gerði grein fyrir þremur skýrslum verkefnishópa sem þegar liggja fyrir og viðbrögðum verkefnisstjórnar við þeim. Fram kom að skýrslur þessar eru enn sem komið er trúnaðarmál en þeim, ásamt viðbrögðum verkefnisstjórnar, var dreift á fundinum. Um er að ræða skýrslurnar Mótun stefnu í fjarkennslumálum hins sameinaða háskóla, Upplýsingatækni, safnþjónusta og kennsluþróun og Upplýsingakerfi Uglu.

Háskólaráð ræddi þann vanda sem felst í því að ekki er hægt að auglýsa stöður forseta fræðasviða og hindranir sem það hefur í för með sér. Háskólaráð telur mikilvægt að hægt verði að auglýsa stöðurnar sem allra fyrst og ganga frá ráðningu í þær. 

Rektor ítrekaði að skýrslur annarra vinnuhópa verða til umræðu í háskólaráði eftir því sem þær koma fram.

5.    Aldarafmæli
Gerð var grein fyrir viðburðum á afmælisári og dreift drögum að dagskrá.

Háskólaráð lýsti ánægju með dagskrána.

6.     Kennararáðningar
Rektor gerði grein fyrir því að við skólann starfa nú nokkrir tugir aðjúnkta, en ráðning aðjúnkta er í öllum tilvikum tímabundin.

Fram kom að rektor og aðstoðarrektorar hafa í samráði við fagráð ákveðið að auglýsa tvær kennarastöður, aðra í félagssögu barnæsku, uppeldis og menntunar, hina í hagnýtri sálfræði með áherslu á hegðun, samskipti og nám í skóla.

Fram kom að fyrir liggja tvær framgangsumsóknir og mun dómnefnd taka þær til umfjöllunar á næstu vikum.

7.    Fundardagar háskólaráðs
Fulltrúar stúdenta gerðu grein fyrir því að breyting á fundardögum háskólaráðs sem ákveðin var í haust kemur sér afar illa þar sem námsskipulag þeirra var miðað við fyrri ákvarðanir.

Fram kom að þriðjudagar henta flestum háskólaráðsfulltrúum betur en mánudagar til fundarhalda.

Skrifstofu rektors var falið að kanna möguleika á að taka þriðjudaga aftur upp sem fundardag háskólaráðs.

8.    Önnur mál
Íðorðasafn
Rektor kynnti fyrirhugað átak til þess að vinna að íðorðasafni í menntunarfræðum og ósk um stuðning skólans við það verkefni. Dreift var á fundinum erindi stjórnar Félags um menntarannsóknir (FUM) um íðorðasafn.

Rektor var falið að kanna málið nánar.

Næsti fundur verður haldinn 18. eða 19. febrúar (sbr. umræður undir 7. dagskrárlið).

Fundinum lauk kl.17:15

Svanhildur Kaaber