Skip to main content
4. febrúar 2022

Umhverfi nýsköpunar byggir á traustum grunni kennslu og rannsókna

Umhverfi nýsköpunar byggir á traustum grunni kennslu og rannsókna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (4. febrúar 2022):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Eitt af meginmarkmiðum Háskóla Íslands er að styðja við skapandi hugsun sem fæðir af sér hagnýtanlegar hugmyndir. Þær geta síðan orðið að atvinnuskapandi fyrirtækjum og stuðlað að framþróun samfélagsins. Umhverfi nýsköpunar byggir á traustum grunni kennslu og rannsókna innan skólans en ekki síður á skapandi samvinnu okkar við atvinnulíf, ekki síst á vettvangi Vísindagarða HÍ. Það fer því einkar vel á því að úrslit hinnar árvissu nýsköpunarkeppni Gulleggsins fari fram á heimavelli Vísindagarða í dag, í hugmyndahúsinu Grósku í Vatnsmýri. Gulleggið er stærsta frumkvöðlakeppni landsins og sum verkefna á liðnum árum hafa þróast yfir í stöndug fyrirtæki á borð við Controlant, Meniga, Genki Instruments, Pay Analytics og GeoSilica.

Í dag munu frumkvöðlar tíu nýsköpunarhugmynda keppa um Gullegið. Nemendur HÍ hafa látið mikið að sér kveða á undanförnum árum á sviði nýsköpunar, en þess má geta að Gulleggið á rætur sínar að rekja til Háskólans, en nemendur skólans stofnuðu Innovit sem kom Gullegginu á laggirnar árið 2008. Nemendur okkar hafa verið öflugir í keppninni um Gulleggið auk þess að sitja í verkefnisstjórn hennar. HÍ hefur verið meðal styrktaraðila Gulleggsins frá upphafi.

Í nýrri stefnu HÍ leggjum við þunga á að auka starfshæfni ykkar, kæru nemendur. Þróun náms og kennsluhátta, ásamt stuðningi við nýsköpun og atvinnuleit, munu búa ykkur enn betur en áður undir ný og fjölbreytt störf í síbreytilegum og tæknivæddum heimi. Frjótt samstarf skólans við atvinnulíf og samfélag renna einnig sterkum stoðum undir hæfni nemenda Háskólans til að takast á við flókin verkefni framtíðarinnar. Í dag lýkur árlegum Atvinnudögum HÍ þar sem þunginn er á mikilvægan undirbúning ykkar, kæru nemendur, fyrir þátttöku á vinnumarkaði. Ég bendi á að fjölda fyrirlestra og annarra dagskrárliða má nálgast áfram rafrænt þótt Atvinnudögunum sjálfum ljúki.

Á morgun verður Hönnunarkeppni HÍ haldin í 30. sinn í Háskólabíói en keppnin er skipulögð af nemendum okkar í iðnaðarverkfræði og í vélaverkfræði. Keppnin er opin áhorfendum í samræmi við gildandi sóttvarnaráðstafanir. Hönnunarkeppnin reynir mjög á sköpunarþrótt keppenda en hún snýst um að búa til tæki með nýsköpun að vopni sem leysir flóknar þrautir á sérhæfðri braut. Tækið verður að keyra af sjálfsdáðum án mannlegrar íhlutunar. Á sama tíma sýnum við Legó-keppnina á netinu sem hefur svipað eðli en þar er vélmennakappleikur í forgrunni. Nemendur úr tíu hérlendum grunnskólum keppa í hönnun og forritun þar sem samstaða, skapandi hugsun og frumleiki ráða gjarnan úrslitum. Keppnisliðin hafa öll smíðað sína eigin þjarka úr legókubbum sem leysa flókin og spennandi verkefni á alþjóðlegri þrautabraut.

Báðir þessir viðburðir fara fram í tengslum við UTmessu. Ég hvet ykkur til að fylgjast með en vafalítið munu þarna finnast frumkvöðlar framtíðarinnar!

Í vikunni fór ég yfir helstu vörður í starfi skólans síðasta mánuðinn á upplýsingafundi fyrir starfsfólk HÍ og vék ég m.a. að fyrirhuguðum flutningi Menntavísindasviðs og annarra mikilvægra starfsþátta á Sögu við Hagatorg, þeirri sögufrægu byggingu. Í dag er þing Menntavísindasviðs undir yfirskriftinni „Skrifum nýja Sögu“ einmitt helgað þessum flutningi sviðsins og verður það á netinu.

Saga er mikið og glæsilegt hús, um 18 þúsund fermetrar í heildina sem munu skiptast þannig að fjölbreytt starfsemi HÍ verður í rösklega 70 prósentum hússins og FS mun nýta tæplega 30 prósent þess undir um 110 stúdentaíbúðir. Áhersla verður á að virða útlit og sögu byggingarinnar og að líflegt og fjölbreytt starf laði til sín starfsfólk, stúdenta og gesti úr samfélaginu.    

Með tilkomu Húss íslenskunnar, sem tekið verður í notkun í sumarlok 2023, munu rými í Árnagarði losna og þá gefst færi á að skoða húsnæðismál HÍ í heild sinni, ekki síst hvað varðar bestu staðsetningu á kennsluaðstöðu á háskólasvæðinu.

Traust og skapandi samstarf okkar við Landspítalann er afar brýnn þáttur í þróun öflugrar og farsællar heilbrigðisþjónustu hérlendis. Runólfur Pálsson, prófessor og varaforseti Læknadeildar Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri meðferðasviðs Landspítalans, var fyrr í vikunni skipaður í embætti forstjóra Landspítala til næstu fimm ára. Runólfur hefur verið í hópi þeirra vísindamanna og lækna sem hafa staðið í eldlínunni á tímum heimsfaraldursins en hann hefur verið yfirmaður COVID-göngudeildar Landspítalans undanfarin misseri. Ég óska honum innilega til hamingju með nýja starfið.

Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Helgin er fram undan. Njótum hennar sem best við getum en hugum áfram að sóttvörnum og verjum þannig samfélagið okkar.

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

LEGO-keppni