Skip to main content
2. febrúar 2022

Gulleggið afhent á föstudag

Gulleggið afhent á föstudag - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aðstandendur tíu nýsköpunarhugmynda munu berjast um sigurinn í hinni árlegu frumkvöðlakeppni Gullegginu föstudaginn 4. febrúar þegar úrslit keppninnar fara fram í Hátíðasal Grósku í Vatnsmýri. Verkefnin snerta m.a. nýjar lausnir í baráttunni við loftslagsbreytingar og mengun, app sem er bjargráður fyrir þolendur heimilisofbeldis, gagnvirkan kennsluvettvang fyrir íslensku, hugbúnað tengdan íþróttaiðkun og vettvang fyrir foreldrasamvinnu.

Samkeppnin um Gulleggið er stærsta frumkvöðlakeppni landsins og hefur verið haldin um árabil. Meðal þátttakenda í keppninni á liðnum árum hafa verið fjölmörg verkefni sem nú hafa þróast yfir í stöndug fyrirtæki, eins og Controlant, Meniga, Genki Instruments, Pay Analytics og GeoSilica. Háskóli Íslands hefur frá upphafi verið meðal styrktaraðila keppninnar og nemendur skólans sitja í verkefnisstjórn hennar og hafa sömuleiðis látið mikið að sér kveða á undanförnum árum með nýsköpunarhugmyndir sínar. 

Svo er einnig í ár því meðal þeirra tæplega 300 einstaklinga sem skráðu sig til leiks í keppninni í ár voru yfir 60 nemendur skólans. Alls bárust 155 tillögur í samkeppnina í ár og að loknum Masterclass og forkeppni voru á endanum tíu þeirra valdar til að keppa til úrslita. Teymin á bak við þær tóku þátt í vinnustofum með aðstoð sérfræðinga úr atvinnulífinu um liðna helgi og á föstudaginn kemur munu þau svo etja kappi í lokakeppni Gulleggsins í Grósku. 

Í teymunum sem keppa til úrslita er m.a. að finna núverandi og nýskrifaða nemendur HÍ sem koma að fjölbreyttum hugmyndum sem bæta samfélagið með ýmsum hætti. Á lokahátíðinni flytja teymin tíu þriggja mínútna kynningu og í kjölfarið mun dómnefnd kjósa sigurvegara Gulleggsins 2022. Þá getur almenningur kosið um vinsælasta teymið. 

Hægt verður að fylgjast með lokakeppninni í beinni útsendingu á netinu.

 

Aðstandendur þeirra 10 hugmynda sem keppa til úrslita í Gullegginu fyrir framan Grósku.