Skip to main content
24. mars 2023

Þýska og skjalfræði bætast við fjarnám á Hugvísindasviði   

Þýska og skjalfræði bætast við fjarnám á Hugvísindasviði    - á vefsíðu Háskóla Íslands

Eins árs diplómanám í þýsku og diplómanám í hagnýtri skjalfræði bætast í haust í hóp þeirra námsleiða við Hugvísindasvið Háskóla Íslands sem hægt verður að taka í fjarnámi en áður hefur fjarnám verið í boði í diplómanámi í sænsku.

Diplómanám í þýsku er ætlað þeim sem vilja búa sig undir störf sem reyna á almenna og starfstengda þýskukunnáttu, til dæmis í viðskiptum, ferðaþjónustu og alþjóðasamskiptum, sem og nám og störf í þýskumælandi löndum. Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og greinarformaður þýskunáms, segist hafa orðið vör við áhuga fólks á að geta stundað nám í þýsku í fjarnámi. Hingað til hafi einstök námskeið verið kennd þannig og reynslan af þeim hafi verið góð. Þetta sé því kærkomin viðbót við þýskunámið við Háskóla Íslands.

Diplómanám í hagnýtri skjalfræði var fyrst kennt við Háskóla Íslands haustið 2020 og hefur síðan þá verið blanda af stað- og fjarnámi. Helga Jóna Eiríksdóttir, lektor í skjalfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, segir að fjarnámið hafi reynst svo vel að nú sé verið að stíga skrefið til fulls og bjóða námsleiðina sem fjarnám: „Námsleiðin er hagnýt og hugsuð bæði fyrir þá sem starfa við skjalavörslu eða skjalastjórn og vilja bæta við sig þekkingu sem og þeim sem langar að feta þá leið og kynnast betur starfsemi skjalasafna. Með fjarnáminu er þannig reynt að koma á móts við þá nemendur sem sinna vinnu með námi og þá sem eiga ekki heimangengt.“

Geir Sigurðsson, forseti Mála- og menningardeildar, segir að það sé hluti af núgildandi stefnu Háskóla Íslands að auka framboð á fjarnámi. „Sem eina tungumáladeildin við íslenskan háskóla teljum við að það sé okkar hlutverk að koma til móts við þá nemendur sem hafa ekki kost á því að sækja staðnám. Sænskan hefur boðið upp á fjarnám í nokkur ár og nú bætist þýskan við. Síðan er stefnt að því að fjölga námsleiðum sem bjóða upp á fjarnám við deildina á næstu misserum,“ segir Geir.

Nánar um grunndiplómu fjarnám í sænsku.

Nánar um grunndiplómu fjarnám í þýsku.

Nánar um fjarnám í viðbótardiplómu í hagnýtri skjalfræði.

nemendur á Þjóðarbókhlöðu